2705 - Ánamaðkar o.fl.

Ánamaðkarnir halda greinilega að vorið sé komið. Þeir hafa nefnilega framið harakiri í stórum stíl núna í hlýindunum og vætunni. Ekki held ég samt að spádómar þeirra séu einhlítir. Þó eflaust komi ekki páskahret úr þessu gæti allt eins komið snjókoma og frost aftur. Reyndar höfum við sem betur fer ekki mikið af slíku að segja hér á Akranesi. Hér er snjólaust og þurrt um.

Hitti í gær Ásþór Ragnarsson, sem Óli Andrésar kallaði alltaf ása-þór. Við gengum m.a. meðfram Langasandi og ræddum um Borgarblaðið, útgáfu þess og ýmislegt fleira. Ánægjulegur hittingur. Ræddum þó ekki um Óla þó það hefði verið gáfulegt, því hann var svo sannarlega eftirminnilegur karakter. Margt mætti eflaust segja um hann og Madda í Vatikaninu. Á sínum tíma var það næstum eins sjálfsagt að stela frá Kaupfélaginu og ríkinu. Kaupfélagið kom heldur ekki vel fram við alla. Hér á Akranesi var Haraldur Böðvarsson kannski einskonar kaupfélag.

Stundum finnst mér að ég hafi ekki lent í neinu um ævina. Ýmislegt hef ég þó upplifað þó fátt sé eftirminnilegt. Oft eru það samt samskipti við aðra sem eru eftirminnilegust. Merkilegt er stundum að heyra hve upplifun einstaklinga á sama hlutnum getur verið ólík. Sama er að segja um það sem festist í minninu. Ýmsir atburðir sem aðrir hafa tekið þátt í hafa kannski alveg gleymst öðrum eða eru allt öðruvísi. Ekki get ég fjölyrt mikið um þetta því sérfræðingur um þessi málefni er ég enginn. Eiginlega er þetta óttalegt mal sem engu máli skiptir.

Mér sýnist margt benda til þess að Trump ætli að leika sama leikinn í Sýrlandi og Bush gerði í Írak. Frá sjónarmiði okkar Íslendinga er aðalmunurinn sá að vonandi erum við ekki meðal viljugra þjóða að þessu sinni. Varasamt er þó að þakka Gulla það. Hugsanlega eru atburðirnir bara að hlaupa frá honum. Hver veit nema þriðja heimssyrjöldin sé í þann veginn að hefjast. Hef þó þá trú að Rússar bakki frekar en að flækjast inn í þetta. Þetta eru mínar hugsanir eftir fréttir morgunsins. Kannski verður allt annað uppi á teningnum þegar líða tekur á daginn.

Ef það er eitthvað sem er leiðinlegra og heimskulegra í íslenska sjónvarpinu en Evrópusöngvakeppnin sjálf, þá er það húllumhæið í kringum kynninguna á íslenska laginu. Man ómögulega hvað það heitir. Man bara að það var nefnt uppá enska tungu eins og mörgum finnst sjálfsagt. Afspyrnuleiðinleg er líka kynningin á lögum annarra landa. Annars er mér svosem alveg sama. Ég horfi fremur lítið á sjónvarp.

Er nýkominn úr einni fermingarveislunni til. Það er oftast þannig á vorin að maður mætir í svo og svo margar fermingarveislur. Annars eru þær svosem ágætar. Maður hittir þó a.m.k. marga sem maður kannast við. Svo fara barnabörnin bráðum að fermast.

IMG 0048Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Í veislunum er mikið mal,
margt er um að spjalla,
á Akranesi enginn stal,
eða svo að kalla.

Þorsteinn Briem, 15.4.2018 kl. 16:52

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Vísnarísli vanur er
verður fátt að meini.
Yrkir mikið alltaf hér
ógnarfróður Steini.

Sæmundur Bjarnason, 17.4.2018 kl. 13:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband