2708 - Bragi barnaverndari

Auglýsing Wow-air um að til standi að ráða tvo ferðalanga til að ferðast með Wow-air-flugvélum ókeypis í sumar og fá um 4 þúsund dollara í laun á mánuði hefur vakið svolitla athygli. T.d. býr CNBC til dálitla frétt um þetta og birtir hana. Vafalaust er þetta ekki mjög dýr auglýsing en greinilegt er að hún hittir í mark.

Já, ég var andvaka og setti þessa klásúlu á fésbókina eldsnemma á laugadagsmorguninn, því mér fannst ég ekki geta beðið með það.

Hef verið að hugsa svolítið um borgarstjórnarkosningarnar í Reykjavík. Svona þegar ég tek mér frí frá því að hugsa um Tromparann eina og sanna. Sagt er að þar séu komin fram ein sautján framboð. Ekki er því að leyna að kjörseðillinn verður sennilega veglegur mjög. Sum (jafnvel flest) þessara framboða boða að bílaeign verði aukin stórlega og gatnaframkvæmdir sömuleiðis. Einnig að komið verði í veg fyrir svifryksmengun. (Sennilega á bara að segja henni að fara.) Kannski er það svo að því sé víða trúað að svifryksmengun hafi alls ekkert með bíla að gera. Hvað þá nagladekk. Einhverjum finnst samt hugsanlega viss mótsögn felast í þessu. Annars getur fjöldi framboða borið vott um mikinn áhuga á borgarmálefnum. Mikil eindrægni í sambandi við bæjarstjórnarkosningar virðist samt einkenna Skagamenn. Helst að þeir velti því svolítið fyrir sér hvort ferðamenn muni áfram forðast Akranes og hvort Akranesferjan starfi áfram næsta sumar. Svo vilja þeir fella Sementsverksmiðjustrompinn.

Mér sýnist að mál Braga barnaverndara geti orðið ríkisstjórninni skeinuhætt. Þó er ekki víst að þar séu öll kurl komin til grafar. Vel gæti verið að Ásmundur Einar eigi tromp uppi í erminni og svo eru barnaverndarmál alltaf vandmeðfarin. Samt er það svo að þetta mál virðist ætla að verða prófsteinninn á heilindi Katrínar.

Einhverju sinni var það í skólaferðalagi að ég eignaðist stráhatt. Sá hattur var ljósleitur, en fínastir þóttu í það skiptið svartir hattar. Samt sem áður fór það svo að ég týndi hattinum. Um það var gerð vísa. Þó ég viti ekkert um hver orti hana hef ég Þórð á Grund sterklega grunaðan. Hjörtur sá sem nefndur er í vísunni er að sjálfsögðu Hjörtur í Laugaskarði. Hann munaði ekkert um að vera bílstjóri í skólaferðalögum auk þess að kenna. Vísan var svona:

Hjörtur keyrir býsna hratt
hugsar mjög um frúna.
Sæmundur hann hafði hatt
en hefur ekki núna.

Frá engu sjónarmið held ég að hægt sé að telja þetta merkilegan skáldskap, en strax á þessum aldri hefur verið byrjað að örla á sjálfhverfunni hjá mér, því ég lærði þessa vísu samstundis og hef ekki getað gleymt henni síðan.

IMG 8281Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Upp nú spænir allt malbik,
Eyþór rugludallur,
öll hans loforð eintómt ryk,
undir nagla hallur.

Þorsteinn Briem, 29.4.2018 kl. 16:20

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Eru dekkin afar góð
í innanbæjarferðir.
Briem-arinn í blindum móð
bílþórs snuprar gerðir.

Sæmundur Bjarnason, 29.4.2018 kl. 22:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband