2792 - Tæknin sem tætir allt í sundur

Eiríkur Rögnvaldsson professor emeritus er á móti því að stjórnvöld séu að skipta sér of mikið af nafngiftum manna. Samt vill hann setja einhver almenn viðmið eins og til dæmis að unnt sé að skrifa nafnið með latneskum bókstöfum eins og við erum vönust hér á landi. Alveg er ég sammála honum um þetta og óttast ekki að hreinum og klárum ónefnum fari fjölgandi þó þessari reglu væri fylgt. Þarflaust ætti að vera með öllu að stunda kyngreiningar með nöfnum. Samt er það alveg ótrúlegt hve mikil ónefni fólk getur valið afkvæmum sínum. Einkum þó fræga fólkið, sumt a.m.k., því það vill endilega vekja sem mesta athygli.

Þó fésbókin og aðrir félagslegir miðlar auðveldi á ýmsan hátt samskipti fólks, þá eru þeir um leið hættulegir. Fyrir fáeinum árum fór ég í ferðalag með fyrirtækinu Bændaferðum og í undirbúningnum fékk ég í pósti tölvuútprentun með nöfnum og heimilisföngum allra sem í ferðalagið ætluðu að fara. Einnig var tiltekið að mig minnir hvaða dagsetningar um væri að ræða. Ekki efast ég um að þetta hefur verið gert af góðum hug. Samt hefði með svolitlum kvikindisskap verið hægt að líta á þetta sem einskonar aðstoð við hugsanlega innbrotsþjófa.

Ef maður vill fá nýjustu kjaftasögurnar beint í æð þá er réttast að fara á eirikurjonsson.is . Þar er allt það safaríkasta og er það ekki það sem allir vilja? Skynsamlegast er samt að grjóthalda kjafti sjálfur, annars gæti maður lent í hakkavélinni.

Margir hneykslast mikið á fréttaflutningi ríkisútvarpsins. Auðvitað er hann vinstri sinnaður og dregur taum rétttrúnaðarins á fésbókinni. Satt að segja erum við hjónin dálitið upptekin af því að hlusta og horfa á fréttaflutning sjónvarps í rauntíma, sem mér skilst að sé alls ekki algengt. Mikil bót var þó að geta horft á fréttirnar þar hvenær sem er.

Alls ekki er það samt svo að við trúum öllu sem þar er fram borið. Fréttir eru útum allt. Og allir vilja fá sem flest klikk. Við horfum heilmikið á Internetfréttir og eiginlega er ég a.m.k. hálfhneykslaður á því stundum hve trúgjarnt og illa upplýst fjölmiðlafók virðist vera. Í mínum huga hafa allir eða flestallir fjölmiðlar einhverskonar einkunn og eftir því fer hve vel ég trúi þeim. Í þeirri flokkun eru stórblöð eins og New York Times ofarlega en Fésbókin og DV aftur á móti neðarlega. Verst þykir mér hve margir málsmetandi menn hér á landi eru uppteknir af því að verja flokkinn sinn.

Fyrir nokkru bloggaði ég um lífsreglurnar þrjár og sagðist þá ætla að gera betri grein síðar fyrir tækninni, sem allt er að drepa. Sannleikurinn er sá að tölvutæknin og svonefnd nanótækni er að fara framúr okkur mannfólkinu. A.m.k virðist það vera svo hér á Íslandi. Alls ekki virðist fólk gera sér grein fyrir hvernig tölvur og Internetið virka. Eða hvernin alþjóðleg fyrirtæki reyna sífellt með auglýsingum að slá ryki í augu okkar. Sú kynslóð sem er að vaxa upp heldur greinilega að tæknin og samskipti fólks hljóti að hafa alltaf verið eins og nú. Annars getur vel verið að þetta sé bara svolítið nýtískuleg útgáfa af því sem ætíð hefur verið haldið fram: Unga kynslóðin er ómöguleg. Þau eru svo heimsk og vita ekki neitt. Þessu hefur mjög oft verið haldið fram og er sjálfsagt ekkert réttara núna en verið hefur.

Að okkur íslendingum skyldi hafa tekist að komast þetta langt á þeim tíu árum sem liðið hafa frá Hruninu er í rauninni stórmerkilegt. Ferðamennirnir björguðu okkur. Líklega liggja þó allmargir óbættir hjá garði ennþá og Hrunið varð þess valdandi að allstór hluti þjóðarinnar var hlunnfarinn mjög. Beinlínis er hægt að segja að stolið hafi verið frá þeim. Löglega þó því misyndismennirnir voru ekki síst í röðum þeirra sem stjórnuðu . Þó er eins og við höfum lítið lært. Vel getur verið að flest fari hér á vonarvöl aftur og það jafnvel fljótlega.  

IMG 7593Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband