2791 - Fjörbrot fjölmiðlanna

Mér finnst það í sannleika helvíti hart
að hafa ekki jörð til að ganga á.      

Af einhverjum ástæðum er mér þetta gamla vísubrot ofarlega í huga akkúrat núna. Veit svosem ekki hver orti þetta. Finnst það líka hart að síminn minn skuli ekki taka mark á plástruðum putta. Ég á ekki við að hann vanti fingraförin til að sannfæra sjálfan sig um að maður eigi að hafa leyfi til notkunar. Heldur er ekki hægt að ýta á nokkurn stað á skjánum.

Ljóskerið á Tösku logar ekki.

Að mörgu leyti má líta svo á að núverandi ástand í fjölmiðlamálum heimsins sé ekki komið til að vera. Eiginlega er stórundarlegt að mál skuli hafa þróast á þennan veg. Auglýsingar fjölþjóðlegra fyrirtækja í gegnum allskyns álitsgjafa eru svosem ekkert skárri. Hreðjatak fjölmiðla á almenningi er eiginlega slíkt að það hlýtur að enda með ósköpum. Ástæðan fyrir því að ég segi þetta er sú að enginn vill borga mér fyrir að blogga svona þindarlaust. Þó finnst mér að ég sé gáfaðasti og besti bloggarinn í öllum heiminum.

Um daginn hlustaði ég til dæmis og horfði á Egil Helgason í Kiljunni. Þar talaði hann meðal annars við rithöfundinn og norrænufræðinginn Bergsvein Birgisson. Hann samdi t.d. söguna um Geirmund heljarskinn (ekki Valtýsson). Daginn eftir átti ég erindi á bókasafnið og tók þar meðal annars tvær bækur eftir þennan höfund að láni. Það voru bækurnar Handbók um hugarfar kúa og Geirmundar saga heljarskinns, sem höfundur kallar Íslenzkt fornrit. Þessi um beljurnar var bara ósköp venjuleg skáldsaga. Af hverju beljur eru svona vinsælar í nöfnum bóka um þessar mundir er mér meira og minna hulin ráðgáta.

En snúum okkur að Geirmundar sögu heljarskinns. Auðvitað byrjaði ég þar á formálanum eins og lög gera ráð fyrir. Oft er það svo að formálar og eftirmálar eru athyglisverðustu hlutar hverrar bókar. Að þessi formáli væri tæpar sjötíu blaðsíður að lengd fældi mig ekki vitund frá honum. Þessi formáli var um margt athyglisverður. T.d. fyrir þá sök að þar beitir höfundurinn þekkingu sinni á fornbókmenntum mjög ákveðið til að sannfæra vantrúaða um að þarna sé um raunverulega Íslendingasögu að ræða. Svo er þó ekki. Ég verð samt að viðurkenna að það lá svo sannarlega við að ég sannfærðist.

Þegar að sögunni sjálfri kom féll mér allur ketill í eld. Þarna var greinilega um að ræða heldur groddalegar lýsingar á hinu og þessu og þó málfar væri fyrnt vel var ekki hægt að komast hjá því að efast um tilurð þessarar sögu. Ég fór því á Netið og kynnti mér umsagnir um bók þessa. Þar sannfærðist ég um að þetta er ekki raunveruleg Íslendingasaga og þar að auki komst ég að ýmsu um þennan rithöfund.

Eiginlega er þetta gamla sagan um sögulegar skáldsögur og hverju skal trúa. Höfundar, sumir hverjir að minnst kosti, liggja á því lúalagi að gera engan greinarmun á því hvað er satt og hvað er logið. Best er að trúa engu. Falsfréttir eru fréttir dagsins.

Í gamla daga, þegar klámsögur voru sjaldgæfar, mátti oft sjá að Bósa saga og Herrauðs var langvinsælust allra fornsagna og mest lesin. Sjálfur hafði ég ekki minni áhuga á henni en aðrir. Einnig man ég vel eftir því að Jóhannes úr Kötlum var víst að þýða bækur Agnars Mykle á íslensku. Söngurinn um roðasteininn var þó aldrei gefinn út og er áreiðanlega til einhversstaðar sagan af þeim ósköpum öllum.  

Andlitssöfnun fer nú fram á vegum fésbókarhópsins „Samtök kvenna um nýja stjórnarskrá“. Sagt er að í þeim samtökum séu meira en 2300 konur. Ekki er mikil furða þó íhaldssömum og gömlum körlum bregði nokkuð við að sjá þetta. „Samtök karla um nýja stjórnarskrá“ held ég aftur á móti að finnist hvergi.

IMG 7594Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Sæmundur

Eins og þeir mundu segja það í formúlunni, fjórða valdið er á leiðina á vegginn! Þeir hafa tapað plottinu og eru komnir í einhvern furðulegan leik.

Jæja, eins og gamla konan sagði, þetta endar þó aldrei verr en illa.

Sigþór Hrafnsson 19.11.2018 kl. 20:50

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Mér líst ekki á þetta.

Fjölmiðlarnir eru orðnir fleiri en fólkið.

Sæmundur Bjarnason, 20.11.2018 kl. 21:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband