2795 - 800 manns deyðu

Á sínum tíma fjallaði ég í bloggi mínu um mál Snorra í Betel. Hann var rekinn úr einhverri kennarastöðu á Akureyri fyrir ummæli sem hann lét falla á bloggi sínu. Ef ég man rétt fór hann í mál við Akureyrarbæ og sigraði. Fékk væntanlega bætur fyrir ólögmæta uppsögn. Svipað mál gagnvart Háskólanum í Reykjavík virðist vera í uppsiglingu núna. Þar lét einhver kennari niðrandi orð falla um kvenfólk á lokaðri fésbókarsíðu. Væntanlega sigrar hann auðveldlega í því máli. Ekki er þar með sagt að fallist verði á allar kröfur hans.

Lokaður hópur á fésbók er ekki vitund lokaður. Því hefði þessi maður átt að gera sér fulla grein fyrir. Hins vegar held ég að HR hefði þurft að sýna óyggjandi fram á að skoðanir hans hafi haft áhrif á störf hans fyrir skólann. Held að það hafi ekki verið gert og þessvegna sé uppsögnin ólögmæt. Geri mér fulla grein fyrir því að þetta snertir mjög viðkvæmt mál, en lög eru lög og þeim ber að fylgja. Hvort þarna er um að ræða opinberan starfsmann eða ekki,  getur hæglega orðið útgönguleið fyrir dóminn, ef löngun er til að dæma í samræmi við pólitíska rétthugsun.

Auðvitað les ég alltaf það sem Þorsteinn Skjóldal frændi konunnar minnar skrifar á fésbókina og rekur á mínar fjörur. Sjaldan kommenta ég og jafnvel læka ekki nema stundum. Hann er sko í alvöru fyndinn. Það sem honum dettur í hug er alveg merkilegt. Kannski er þó merkilegast að hann skuli koma þessu á þrykk svona auðveldlega. Þetta er svosem ein leið til þess að takast á við undarlegheit lífsins. Láta bara eins og þetta sé allt saman misheppnaður draumur. Af hverju ætti maður að taka lífið alvarlega? Ég bara spyr.

Enginn vafi er á því lengur að Wowair er að fara á hausinn. Hvort Icelandair græðir nokkuð á því er annað mál. Kannski gera þeir það og kannski ekki. Farþegunum verður að bjarga.

Trump Bandaríkjaforseti skiptir sífellt minna máli. Flestir eru farnir að læra á hann og fjölmiðlastríð hans. Það er miklu frekar Pútín sem menn verða að vara sig á. Trump er hálfvængbrotinn núna því hann, eða réttara sagt Republikanaflokkurinn, hefur ekki lengur meirihluta í báðum deildum þingsins. Búast má við einhverjum fjörbrotum hjá honum á næstunni því nýja þingið kemur saman eftir áramót.

Hlustaði um daginn á Útvarpsþátt um Jim Jones og þá sem drukku eitrið. Minnist líka ótrúlegra frétta af ferjunni Estoniu þar sem um 800 manns drukknuðu á einu bretti. Vera Illugadóttir er að verða minn uppáhaldssagnfræðingur. Hún kann sko á dramatíkina.

DV og fleiri hafa birt skandalafréttir um alþingismenn, þar sem þeir láta sér ýmislegt miður fallegt um munn fara. Trúlegast þykir mér að einhver viðstaddra hafi tekið þetta upp á símann sinn og síðan hafi verið brotist inní hann eða einhverjum afhent upptakan. Tæknin er orðin ótrúleg og Öskjuhlíðin heillar. Hver er eiginlega sá seki? Sá sem sagði, sá sem tók upp, sá sem braust inn eða brást trausti. Hugsanlega sá sem birti opinberlega. Þetta er vandamál.

IMG 7479Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband