2423 - Hannes Þorsteinsson

Mér hefur dottið það í hug sem skýring á fylgisleysi Sjálfstæðisflokksins eftir Hrunið að augu margra kjósenda hafi loksins opnast fyrir því að það er ekkert sjálfsagt eða eðlilegt við það að sumir njóti hundrað eða þúsundfalds ríkidæmis umfram aðra bara í krafti ætternis síns. Þrátt fyrir fagurgalann er það nefnilega ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn reynir ávallt að hygla þeim sem auðugir eru. (Verst að allir þykjast vera ríkir.) Það er heldur ekkert eðlilegt við laun bankastjóra t.d. og að bankamenn og örfáar stéttir aðrar sem alls ekki hafa þörf fyrir það fái að miða laun sín við útlönd. Einhver launamunur er samt eðlilegur og ég ætla mér ekki þá dul að segja til um hver hann ætti að vera.

Sem betur fer er margt sem aflaga fer í okkar þjóðfélagi. Ef svo væri ekki væri fésbókin t.d. alveg marklaus og bloggarar flestir hefðu ekkert til að skrifa um. Ég finn enga hvöt hjá mér til að tíunda hvað það er sem mér finnst að betur mætti fara. Vonandi kemur það svona smám saman í ljós. Líklega er það svo margt að ég kæmist aldrei yfir að telja það upp.

Ég er kominn uppá það að sækja Fréttablaðið á hverjum morgni nema sunnudagsmorgnum. Þetta geri ég vegna þess að það er ókeypis. Held að þessir andskotans auglýsendur séu ekkert ofgóðir til þess að borga mitt eintak. Sif Sigmars er að verða minn uppáhaldshöfundur þar og fer þessvegna bráðum að hætta, hugsa ég. Sumt er bara frekar gáfulegt hjá þessu blaði sem að mínum skilningi er einskonar nær útdauð risaeðla meðal fréttamiðla. Þessvegna les ég það. Alvörufréttir eru líka einkum á útsíðum og fremst í blaðinu. Sjaldan kemst ég yfir að fletta því öllu, enda óþarfi. Gott er samt að fá á þennan hátt helsu fréttir matreiddar. Hvort sú matreiðsla hentar mér verður svo bara að koma í ljós.

Einu sinni vann ég hjá Heildverslun Hannesar Þorsteinssonar. Hannes hafði að mig minnir áður unnið hjá Ludvig Storr. Það sem ég ætlaði að skrifa um hér er vísnagerð mín. Ath. þetta er viðvörun. Þeir sem engan áhuga hafa á þessháttar efni er hérmeð bent á sleppa þessari klausu. Þegar heildverslunin varð 20 ára bauð Hannes til fagnaðar úti í Skerjafirði. Á Shellvegi eitthvað minnir mig. Í lokin höfum við sennilega skrifað í gestabók eða eitthvað þessháttar og ég kannski skrifað þar vísu. Man bara seinni partinn. Hann var svona:
Heildverzlunar tvegga tuga
teiti munuð er.
Ekki veit ég hversvegna í fjáranum ég er að minnast á þetta. Einkum held ég að það sé til uppfyllingar og til að sýna hve frábær hagyrðingur (ekki) ég er. Er sérstaklega slæmur með það að hálfgleymdar vísur eru sífellt að skjóta upp kollinum uppá síðkastið (kannski vegna aldursins) og það er ágæt aðferð til að losna við þær að skrifa um þær og tilurð þeirra hér.

Nú, þetta er bara orðið sæmilega langt og tilbúið til að sendast út í eterinn. Þar að auki á ég orðið svolítið af myndum til skreytingar. Að vísu eru þær bara teknar á símann og ekkert sérstaklega góðar þessvegna.

WP 20160217 11 00 13 ProSólarupprás.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þú ert alltaf góður Sæmi og svona blogg kann ég að meta.

Kveðja,

Guðmundur Bjarnason 20.2.2016 kl. 18:28

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Veit ekki hvað þú átt við með "svona blogg". Auðvitað þykir mér samt hrósið gott Guðmundur.

Sæmundur Bjarnason, 21.2.2016 kl. 23:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband