Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2016

2419 - Fyrir 20 árum

Árið 1987 tapaði breski skákmeistarinn David Levy fyrir tölvunni Deep Thougth. Slíkt þótti þá meira en lítið í frásögur færandi því þetta var í fyrsta sinn sem skáktölva sigraði alvöru skákmeistara. Levy hefur áreiðanlega ekki grunað að áður en áratugur væri liðinn mundi skáktölva sigra sjálfan heimsmeistarann í skák. Deep Thougth var samt á margan hátt fyrirrennari Deep Blue tölvunnar og það var einmitt hún sem í febrúar árið 1996 sigraði Garry Kasparov þáverandi heimsmeistara í skák.

Vitanlega var þetta afar minnisstæður atburður í skáksögunni. Á sinn hátt sambærilegur við einvígi aldarinnar sem haldið var hér í Laugardalshöllinni árið 1972. Deep Blue var að sjálfsögðu mikið bákn og gat skoðað yfir 100 milljón skákstöður á sekúndu og það liðu þónokkuð mörg ár þar til slíkt tölvuafl var almenningi aðgengilegt á skaplegu verði. Nú er það aftur á móti viðurkennt að tölvur standa stórmeisturum miklu framar í skák ef þær hafa viðunandi forrit til að styðjast við.

IBM forritararnir sem stýrðu Deep Blue sögðu meðal annars um tölvuna Deep Thought árið 1990: „Hún sér langt en tekur eftir litlu, man allt en lærir ekkert, leikur ekki alvarlega af sér en getur fremur lítið.“ Með talsverðum breytingum tókst þeim samt að smíða tölvu sem sigraði sjálfan heimsmeistarann og fáir skákmeistarar hafa viljað tefla við tölvur síðan.

Að vísu var það ekki fyrr en árið eftir (1997) sem skáktölvunni Deep Blue tókst að sigra Garry Kasparov í einvígi þar sem honum tókst að að hefna sín árið 1996.

Árið 2016 verður áreiðanlega merkilegt í Bandaríkjunum pólitískt séð. Forsetakosningar verða þar í haust og alveg er hugsanlegt að frambjóðendur stóru flokkanna verði Donald Trump og Bernie Sanders. Ef svo fer er ég ansi hræddur um að Donald vinni. Ástæðurnar eru margar. 1) Donald er ríkur. 2) Bandaríkjamenn eru fremur hægri sinnaðir. 3) Það er nánast hefð að flokkarnir skiptist á um að eiga forseta. 4) Eins og víða annars staðar er valda- og auðstéttin óvinsæl í Bandaríkjunum. 5) Meðalaldur fólks fer hækkandi og þó unga fólkið flykki sér um Sanders er ekki víst að það dugi til. 6) Forsetar úr Demókrataflokknum eru oft aðgerðalitlir og sennilega vilja íbúar Bandaríkjanna einmitt núna aðgerðir og einangrun.

Það eru ekki bara börn sem fyrir einelti verða. Kennarar verða það stundum líka. Dettur í hug að séra Helgi hafi á margan hátt orðið fyrir einelti af hendi nemenda sinna. Meðal annars held ég að það hafi verið vegna þess hve meinlaus og óáreitinn hann var. Man t.d. eftir því að einhverntíma tóku stóru strákarnir í unglingaskólanum sig til og báru jeppann hans í burtu. Einhverju sinni tókum við okkur saman næstum öll í mínum bekk og mættum ekki í tíma til hans fyrr en eftir dúk og disk. Veðrið var nefnilega svo gott. Mörg fleiri dæmi mætti eflaust tína til. Af einhverjum dularfullum ástæðum er ég farinn að muna sífellt meira úr æsku minni og uppvexti en áður. Dagligdags og rútínuaðgerðir nútímans man ég aftur á móti sífellt verr.

WP 20160129 10 36 06 ProÍþróttavöllur.


2418 - Hið eyðileggjandi afl samskiptamiðlanna

Engir efast um að samskiptamiðlar eins og Facebook, Twitter og margir fleiri hafi að mörgu leyti jákvæð áhrif og auðveldi mjög öll samskipti fólks. Þeir hafa líka eyðileggjandi áhrif. Skemmtilegu og jákvæðu áhrifin eru samt langtum augljósari og gúglunaráhrifin hafa mikil og góð áhrif á söguþekkingu almennings. Eflaust er það vegna þess að svör má fá við öllu mögulegu á netinu bara ef menn kunna að leita. Þessvegna virðist þekking almennings fara sívaxandi þó hún geri það kannski ekki. Stjórnmálaáhugi hefur einnig aukist mikið og sennilega hefur spilling minnkað sums staðar. Neikvæðu áhrifin eru líka augljós ef betur er að gáð. Allskyns söguburður, blekkingar og lygi hefur farið mjög vaxandi þar og þó stjórnmálaáhrifin hafi víða orðið töluverð er mikil hætta á bakslagi og ósamkomulagi hjá þeim sem vilja ráða í krafti hinna nýju miðla og netsins í heild. Tölvuvírusarnir eru svo sér kapítuli.

Þó ég hafi kosið Pírata í síðustu kosningum og geri það e.t.v. einnig í þeim næstu álít ég það mikilvægara að halda Sjálfstæðisflokknum í 20 prósentum eða svo, en að halda Pírötum í þeim hæðum sem þeir hafa verið að undanförnu í skoðanakönnunum. Að ganga endanlega frá Framsóknarflokknum er hvort eð er ómögulegt og óþarfi að stefna að slíku. Yfirtaka frjálshyggjuaflanna á Pírötum rænir mig ekki svefni og líklegast er að slíkt fylgi fari til endurfæddrar Samfylkingar fremur en aftur til Sjálfstæðisflokksins. Mannréttindi og ný stjórnarskrá nægir mér alveg í bili. Augljóslega verða Píratar þó að taka ákveðnari stefnu í sumum málum fyrir næstu kosningar. Vinstri grænir eru að verða gamaldags.

Eftir að ég flutti hingað á Akranes er eitt af því sem ég sakna mest frá Kópavogi að geta ekki lengur farið í Kost og fengið mér ódýra ávexti á fimmtudögum. Auðvitað voru það ekki alltaf neinir úrvalsávextir en þeir voru þó ódýrir, því var hægt að treysta. Þegar DV segir að álagning á banana sé 220 % hjá Hagkaupum þá trúi ég þeim næstum því, þó mér finnist þeir yfirleitt ótrúverðugir og hugsa mest um að pranga út þessum snepli sínum.

Jú, jú. OK. Ég er á áttræðisaldri, stórskrýtinn á mörgum sviðum, ómannblendinn og önugur oftast nær. Sem dæmi um það hve skrýtinn ég er get ég nefnt að eitt sinn var ég ásamt allri fjölskyldunni á leiðinni heim í Hveragerði yfir Hellisheiðina eftir að hafa hitt aðra eða aðrar fjölskyldur í Jósefsdal. Þá fékk ég skyndilega þá hugmynd að réttast væri fyrir mig að fara úr bílnum og biðja konuna mína að taka við keyrslunni rétt fyrir ofan Skíðaskálann. Ganga síðan einsamall niður í Klambragilið og fara eftir Reykjadal til Hveragerðis. Þetta framkvæmdi ég samstundis og fjölskyldan hafði ekki önnur ráð en að samþykkja þessa hugdettu mína. Eflaust hefur þetta verið að vori til eða sumri því ég hafði engar áhyggjur af myrkri eða hitastigi. Einu sinni lá reyndar við að ég týndist í myrkri uppi á Henglinum, en það er alltönnur saga.

Einu sinni fór ég gangandi, einsamall að sjálfsögðu, frá rótum Hveradalabrekku og til Nesjavalla. Í Engidalnum var þá nýbúið að reisa einhverskonar gangnamannakofa. (þó gangnamenn þurfi aldrei að gista þar) Þegar ég var nýlagður af stað þaðan, eftir að hafa skoðað kofann vandlega, sá ég í fjarska tvær manneskju á leiðinni á móti mér. Þetta kom mér gjörsamlega á óvart. Ég hafði allsekki reiknað með því að rekast á annað fólk þarna. Mér varð svo mikið um þetta, að ég lagðist niður í lautardrag og velti vandlega fyrir mér hvernig ég ætti að haga mér gagnvart þessum ósköpum. Niðurstaðan varð sú, þó ég hefði nauman tíma, (kannski 10 – 15 mínútur) að láta bara eins og það væri eðlilegasti hlutur í heimi að rekast á annað fólki fjarri mannbyggðum.

Þegar við mættumst síðan heilsuðumst við bara og buðum góðan daginn án þess að skiptast á fleiri orðum.

Mikið létti mér. Eftir að hafa farið síðan um Marardalinn og skoðað mig vandlega um þar, hélt ég áfram göngunni allt til þjóðvegarins skammt frá Nesjavöllum. Þangað var ég svo sóttur. Fleira bara ekki til tíðinda í þessari ferð. A.m.k. rakst ég ekki á fleira ókunnugt fólk.

WP 20160128 16 42 15 ProBílastæði.


2417 - Hann glotti

Já, hann glotti ógeðslega talsmaður lyfjafyrirtækisins sem var í yfirheyrslu hjá rannsóknardeild í bandaríska þinginu. Rannsóknardeildin vildi m.a. fá að vita hvernig á því stæði að einhver (trúlega lífsbjargandi) lyf hækkuðu úr 13,5 dollurum í 750. Lítið eða ekkert fékkst af viti út úr þessum talsmanni sem reyndar heitir Martin Shkreli.

Kannski það hafi riðið Donald Trump að fullu að Sarah Palin mælti með honum? Segi bara svona. Varla hefur hann reiknað með að tapa í Iowa. Næstu forkosningar verða í New Hampshire fljótlega. (9. febrúar) Ef Trump tapar þar aftur er ég hræddur um að hann sé búinn að vera. Jafnvel peningarnir hans gætu ekki hjálpað honum eftir það. En trúlegra er samt að hann sigri þar og fall hans komi seinna. Auðvitað má margt segja um forkosningarnar í New Hampshire. Líklegast má telja að Trump og Sanders vinni auðvelda sigra þar. Síðan má reikna með að róðurinn þyngist, a.m.k. hjá Sanders. Trump er á margan hátt svo mikið ólíkindatól að mjög erfitt er að spá nokkru um hann. Reikna má samt með að úrslitin í Iowa og New Hamshire hafi mikil áhrif á framtíðargengi forsetaefnanna.

Hér á ísa köldu landi er fátt að frétta. Veðrið hamast samt við að gera sem flesta gráhærða. (Sem ekki er þegar orðnir það) Svo má alltaf setja GoPro myndavélina í gang. Þ.e.a.s ef maður á annað hvort flutningabíl eða langar að stökkva úr flugvél. Annars nær óveðrið ekki hingað niður á Akranes. Hér er allt að verða autt vegna rigningar. Rokið er ekki umtalsvert þó klukkan sé að verða sjö.

Það er nú eiginlega illa farið með myndir að setja þær með svona stuttu bloggi. Ég á nefnilega fáar slíkar. Ætli ég sleppi því bara ekki að setja mynd með.


2416 - Að veifa hendinni

Fyrir allmörgum árum þótti það frásagnarvert að hægt væri að hringja í ákveðið símanúmer með farsímanum sínum og fá þannig afgreidda kókflösku úr sjálfsala. Þetta minnir mig að hafi verið í Finnlandi. Held að þetta hafi verið á flugvelli þar og ekki hægt að fá afgreiðslu á annan hátt úr viðkomandi sjálfsala.

Nú er tæknin komin á það stig að nægilegt er að veifa hendinni fyrir framan sérstakt apparat og komast þannig í flugvél án þess að lenda í nokkrum hremmingum öðrum. Ekki er þetta þó mögulegt fyrir alla, en hefur samt verið gert í Svíþjóð. Svo þetta sé hægt þarf að láta græða í sig örflögu og fá auk þess sérstakt „frequent flyer-númer“ hjá viðkomandi flugfélagi og setja það á örflöguna. Kannski er þetta framtíðin. Öryggiskröfurnar á flugvöllum eru sífellt að verða örðugri og tímafrekari fyrir venjulegt fólk. Veit það bara um sjálfan mig að næstum hvergi stressast ég eins mikið upp og á flugvöllum, ef ég er sjálfur að fara í flug. Búðir eins og IKEA eru hátíð hjá því.

Fannst það heldur klént hjá SDG að reyna að nota tækifærið til að upphefja sjálfan sig þegar haft var samband við hann af einhverjum prentfjölmiðli í sambandi við sigur Þýskalands í Evrópukeppninni í handbolta. En fjölyrðum ekki um það. Auðvitað er ég svolítið pólitískur og á móti SDG og framsóknarflokknum þó ég hafi eitt sinn, fyrir óralöngu, kosið þann flokk. Tækifærismennskan er þar allsráðandi þó ágætis fólk sé þar innanum og samanvið. Stefna og hugsjónir Bjarna Benedikssonar sem formanns sjálfstæðisflokksins eru hinsvegar beinlínis hættulegar. Hann hafði t.d. forgöngu um það að bola Birgi Ármannssyni úr utanríkismálanefnd þingsins og skipa Hönnu Birnu Kristjánsdóttur formann þeirrar nefndar í staðinn. Og sjálfstæðisflokkurinn skipar sér hiklaust við hliðina á repúblikönum í Bandaríkjunum.

Vissulega á ESB í talsverðum vandræðum núna. Innganga þangað er heldur ekki á dagskrá þó Gunnari Braga hafi mistekist að hætta viðræðum við Evrópusambandið. ESB á einkum í vandræðum með flóttamannastrauminn frá Sýrlandi og svo hefur komið í ljós að sum Suður-Evrópu ríki hafa svindlað við inngönguna í Schengen-samstarfið og fleira á vegum ESB. Ekkert bendir til að neinn segi Bretum hvað eigi að koma í staðinn fyrir aðildina að ESB ef þátttakan þar verður felld í þjóðaratkvæðagreiðslu þeirri sem Cameron asnaðist til að lofa.

Það er illa farið með álitlega undirskriftasöfnun ef hún stöðvast fyrir neðan 60 þúsundin hjá Kára. Eiginlega getur hann sjálfum sér um kennt vegna þesss að með því að nefna ákveðnar tölur í ávarpi sínu gerir hann málið pólitískara en þurft hefði að vera. Kannski hef ég skrifað um þetta áður, nenni bara ekki að gá að því.

WP 20160128 16 44 43 ProBíll.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband