Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2014
31.8.2014 | 12:18
2219 - "Það veit ég, að þetta endar með því að þeir drepa einhvern"
Holuhraunsgosið nýjasta verður sennilega til þess að halda áhuga fjölmiðlunga svolítið við. Líklegast finnst mér samt að skjálftavirkni í Vatnajökli og nágrenni hans haldi áfram í mánuði eða ár og áhuginn á þessu máli fari smám saman minnkandi.
Kannski er megrunarsaga mín alveg eins merkileg og þessi blessaða eldgosasaga sem engan enda virðist ætla að taka. Fyrir einhverju síðan (kannski mánuði eða svo) varð mér það á að stíga á baðvigtina. Hún hélt því fram að ég væri 127,5 kíló og mér blöskraði það alveg. Að vísu var ég í fötum en í framhaldinu gætti ég þess vel að vera án þeirra þegar ég spurði vigtina að einhverju. Ég steinhætti að éta brauð, kökur og þessháttar. Fór í einskonar megrunarkúr og nærðist einna mest á allskyns grænmeti og þessháttar sem konan mín hélt að mér. Og kílóin hrundu í burtu. Afturkippurinn kom svo eftir að mér tókst á tiltölulega stuttum tíma að komast niður í 117,5 kíló. Í morgun hélt baðvogin því fram að ég væri 118 kíló svo ég verð víst að reyna að bæta mig.
Auðvitað eru umbrotin fyrir norðan Vatnjökul mjög merkilegt náttúrufyrirbrigði. Umfjöllun fjölmiðla um þetta mál finnst mér þó hafa verið afar óvönduð. Engu er líkara en fjölmiðlungar séu sífellt að bíða eftir því að gos hefjist og að það verði sem allra mest svo þeir fái nóg að gera og lokunarafsökunin verði sem allra sterkust. Kannski smitast lesendur og hlustendur (og annarskonar endur) af þessu sjónarmiði. Mér finnst a.m.k. með öllu óþarfi að byrja alla fréttatíma á nákvæmri útlistun á því hve margir jarðskjálftar hafi orðið á einhverju ákveðnu svæði á ákveðnum tíma. Það veit ég að þetta endar með því að þeir drepa einhvern, var sagt í síðari heimsstrjöldinni af einhverjum sem hlutstaði mikið á fréttir í útvarpinu. Að falla getur nefnilega þýtt að detta og sennilega var því ruglað sama þarna.
Tvennt er það frá mínum allra fyrstu skólaárum sem er mér minnisstæðara en flest annað. Það fyrra er að lagt var fyrir okkur krakkana einskonar próf sem fólgið var í því að lesin voru upp talsvert mörg orð (kannski um þrjátíu) og við áttum að skrifa þau á blað eins og okkur þótti réttast. Ég veit ekki betur en ég hafi stafsett næstum öll orðin rétt, en mér varð það á að hafa stóran staf í þeim öllum, en það fannst kennaranum ekki eiga að vera. Í prófinu fékk ég semsagt núll því kennarinn sagði að öll orðin hjá mér væru vitlaust skrifuð. Þó ég hafi ekki haft uppburði í mér þá, til að mótmæla, hefur mér seinna meir fundist þetta bara vera ein villa (en ekki þrjátíu) og síðan hefur mér alltaf verið svolítið í nöp við kennara.
Hitt atvikið var á þá leið að Helgi Geirsson, sem þá var skólastjóri við Barna- og Miðskólann í Hveragerði, (sem ekki var orðinn grunnskóli þá) var að útskýra gang himintungla fyrir okkur. Sagði mér að standa úti á miðju gólfi og að ég væri sólin. Síðan tók hann hnattlíkan með réttum möndulhalla og gekk í kringum mig. Með þessu vildi hann útskýra árstíðirnar á jörðinni. Síðan hafa árstíðirnar og fyrirbrigði eins og sólmyrkvar, tunglmyrkvar, hálfmyrkrar, almyrkvar og þessháttar ekki vafist neitt fyrir mér.
Aðalfundi DV var frestað segir RUV. Svo nú geta menn haldið áfram að plotta. Þó Sigurður G. Guðjónsson sé útfarinn og reyslumikill plottari, þá getur vel verið að Reynir Traustason komist í tæri við einhvern enn snjallari. Allt snýst þetta um lagaflækjur og er þess vegna hundleiðinlegt, en úrslitin geta skipt máli. Ásakanir ganga á víxl milli hópa. Einu sinni var kveðið og ég hef enga hugmynd um hver gerði það:
Vondir menn með vélaþras
að vinum Drottins gera brigsl.
Kristur stóð fyrir Kaifas,
klögumálin ganga á vixl.
Af hverju geta bara ekki öll dýrin í skóginum verið vinir?
Þetta með áunna athyglisbrestinn er áhugvert. Þessvegna eru bloggin mín svona stutt. En mörg eru þau. Drottinn minn sæll og góður. Þetta fallaraus hjá honum Karli Th. á Herðubreið http://herdubreid.is/spadu-i-mer/ um sögnina að spá er ekkert merkilegt, Já, já. Marshallinn er víst úr Vestmanneyjum. Það vissu nú allir. Þegar ég kom fyrst á Bifröst fyrir tæpum sextíu árum, jæja rúmlega 50 a.m.k. var mér sagt að sögnin að spá væri notuð á alveg séstakan hátt á þessum stað. Semsagt yfir allt kynferðislegt. Þessvegna var svona vinsælt að spá í lófann. Sumir blönduðu öðrum ekkert í það heldur spáðu í einrúmi. Eftir Bifröst hefur sögnin að spá alltaf haft sérstaka merkingu í mínum huga. Hvort hún stýrir þolfalli eða þágufalli finnst mér skipta minna máli.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
29.8.2014 | 12:20
2218 - Gos og DV
Vaknaði af einhverjum ástæðum um tvöleytið í nótt. Eftir að ég var búinn að sannfærast um hvað klukkan væri, kíkti ég á fésbókina. Þar sá ég að einhver slatti tilkynninga beið mín enda hafði ég farið að sofa talsvert fyrir miðnætti. Ein tilkynningin var langmerkilegust. Hún var frá Birgittu Berþórudóttur og um eldgos. Flýtti ég mér að kíkja á hana og fór síðan rakleiðis á vefmyndavélina hjá Mílu (þó þeir hafi brugðist mér svolítið um daginn, þegar þeir klikkuðu eftirminnilega á Vestfjörðum) til að horfa á gosið í beinni. Síðan á mbl.is og þangað var komin frétt um gosið sem ég séraði (eða reyndi það). Eftir að hafa skoðað nokkur vefsetur í viðbót sannfærðist ég um að þetta eldgos væri ekkert sérstaklega merkilegt og fór að sofa aftur. Ákvað að vekja Áslaugu ekki neitt þó hún hafi mikinn áhuga fyrir eldgosum og allri skjálftavirkni. Nú er klukkan að verða 10 og aukaútsending hjá RUV, sem maður lítur kannski á. Mílumyndin sem nú er einslags stillimynd hjá RUV (í miklum aðdrætti) er heldur ómerkileg og varla verður þetta eins túristvænt gos eins og það sem varð á Fimmvörðuhálsi um árið.
Mér finnst fréttastofa sannleikans ekki nærri eins fyndin og Baggalútur. Það nýjasta sem ég hef frétt frá þeim (fréttastofu sannleikans) er að Jóhanna Sigurðardóttir taki við ritstjórn á Fréttablaðinu á mánudaginn kemur. Það minnir mig á að ég hef ekki kíkt á Baggalút nýlega. Síðast þegar ég vissi voru þeir í sumarfríi og engar fyndnar fréttir að fá. Ekki get ég ætlast til að fólk lesi blogg í staðinn. Allrasíst mitt, því ég er aldrei fyndinn. Alltaf í fýlu er mér sagt. Sjálfum finnst mér ég vera í mesta lagi alvarlegur, en fyndnar frásagnir þarf maður samt ekki að forðast.
Ætlaði svosem ekkert að setja inn blogg núna, en gosið hefur kollvarpað þeim áætlunum eins og sjálfsagt mörgum öðrum. Aðalfundur DV sem sagt er að verði núna síðdegis getur vel orðið sögulegur. Í rauninni veit enginn hvað gerist þar. Vitanlega er DV ekki alveg eftir mínu höfði. (Og athugasemdakóngarnir þar ennþá síður.) Samt sem áður er blað á borð við DV nauðsynlegt. Óþarfi er að rökstyðja það sérstaklega, en nægilegt að benda á hve margir hata það innilega. Málaferlin sem í gangi eru draga að mínu viti ekkert úr nauðsyninni. Þetta get ég sagt því ég er næstum viss um að verða aldrei fyrir barðinu á þeim.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.8.2014 | 21:11
2217 - Reynir Traustason
Sennilega verður Reynir Traustason látinn hætta. Ekki þarf það að þýða endalok frjálsrar blaðamennsku. Hún er einkum að færast inná netið. DV er sennilega búið að vera, enda hefur það stundum gengið fulllangt. Hinsvegar lekur virðuleikinn af Morgunblaðinu og sannfærðum sjálfstæðismönnum finnst sjálfsagt að kaupa blaðið þó ómerkilegt sé. Mér finnst það raunar ekkert gera neitt til þó einhverjir hati DV (eða Morgunblaðið) útaf lífinu. Verst af öllu er að DéVaffið ber sig alls ekki fjárhagslega. (Gerir Morgunblaðið eða Fréttablaðið það kannski?) Prensverta, pappír og dreifing eru alltof dýrir póstar og auglýsendur hafa ekki ennþá uppgötvað að netið er framtíðin. Fáir vilja setja góða peninga í þetta þegar hægt er að fá allt mögulegt ókeypis á netinu. Netverjar þurfa auðvitað að borga fyrir netsambandið en þó þeir lesi fréttir eða annað þar kostar það ekkert aukalega.
Auðvitað skiptir það alheiminn engu hvort við lifum eða deyjum. Samt látum við oft eins og það sem við gerum skipti einhverju máli. Svo er alls ekki. Allt sem lífsanda dregur er forgengilegt. Líf okkar mannanna er svo stutt að það er aðeins örstutt augnablik í sögu jarðarinnar. Sólin sem ber ábyrgð á öllu lífi á jörðinni er aðeins einn örlítill dropi í vetrarbrautinni okkar sem aftur er ein af ótölulegum fjölda slíkra. Hversvegna við látum eins og líf okkar skipti einhverju máli er allsekki gott að segja. Jú, við getum ráðið við flestöll önnur dýr á jörðinni. Það er raunar það eina sem við getum stært okkur af. Vitanlega látum við eins og það skipti öllu, en er sú raunin? Ég held ekki.
Hér fer á eftir frásögn sem áhugmenn um DV, pólitík og mínar hugleiðingar geta vel sleppt.
Löggubíll í árekstri söguleg frásögn
Fyrri hluta níunda áratugar síðustu aldar stjórnaði ég ÚSVB (útvarps- sjónvarps- og vídeófélagi Borgarness). Margt eftirminnilegt gerðist þar og e.t.v. væri saga þess félags betur sögð en ósögð. M.a. stunduðum við um eitthvert árabil gerð áramótaþátta að hætti RUV. Eitt af því minnisstæðasta við gerð slíkra þátta var atburður sem átti sér stað í Hafnarskógi og hefur e.t.v. ekki verið færður í letur fyrr.
Þannig var að á einhvern hátt (hugsanlega með hjálp lögreglunnar) hafði okkur tekist að komast yfir gangfæran bíl sem samt var talinn alveg ónýtur og átti að henda. Á þessum árum voru bílar yfirleitt keyrðir út og gangfærum bílum var helst ekki hent. Frekar að reynt væri að troða þeim inná partasölur.
Engin afskipti hafði ég af mögulegri handritsgerð slíks þáttar, en ákveðið var að nefndur bíll ætti að velta og taka átti þá veltu upp á videótökuvél félagsins. Síðan voru einhverjir snillingar sem ætluðu að klippa þá upptöku til og nota í áramótaþátt félagsins. Á þessum tíma var klipping videóupptakna alls ekki á færi nema mjög fárra og möguleikarnir sem slíkt opnaði ótakmarkaðir. Í dag þykir þetta ekki vitund merkilegt.
Nú var haldið út í Hafnarskóg. Sjálfsagt hefur Borgarfjarðarbrúin verið komin í gagnið um þetta leyti, annars hefði okkur eflaust þótt of langt að fara þangað. Til halds og trausts var lögreglan með í för. Þegar búið var að finna hentugan stað var bílunum, sem líklega voru fleiri en lögreglubíllinn og sá sem átti að velta, lagt á heppilegan stað og byrjað að undirbúa atriðið.
Þegar allt var tilbúið, og búið að útbúa hól nokkurn sem álitinn var nægilega stór til að bíllinn mundi velta við að keyra uppá hann, var bíllinn settur í gang, steinn á bensíngjöfina og videóvélin í gang. Síðan var losað um handbremsuna og bíllinn settur af stað. Auðvitað vildi enginn vera í honum.
Til allrar óhamingju reyndist hóllinn ekki nógu stór til að velta bílnum og hann keyrði áfram og hvarf útí buskann. Liðið safnaðist nú saman og fór að rífast um hvers vegna bílskömmin hefði ekki oltið. Ekki kom mönnum að öllu leyti saman um ástæðu þess og fyrr en varði kom ónýti bíllinn æðandi aftur eftir að hafa snúið við og stefndi beint á hópinn. Hópurinn tvístraðist að sjálfsögðu, en bíllinn hélt áfram og lenti að lokum á lögreglubílnum.
Því miður náðist þessi atburður ekki á myndband, því slökkt hafði verið á upptökuvélinni þegar veltan misheppnaðist, en eflaust hefði verið gaman að sjá þetta. Hugsanlega er frásögn af þessu ekki allskostar rétt í skýrslu þeirri sem líklegast er að hafi verið gerð til að fá viðgerðina á lögreglubílnum endurgreidda.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
28.8.2014 | 09:28
2216 - Hanna Birna hlýtur að hætta
Fréttatíminn, Fréttablaðið, Kjarninn, Nútíminn, DV, Morgunblaðið, Eyjan, Pressan, Egill Helgason, Jónas fyrrum ritstjóri, Miðjan og sjálfsagt ýmis fleiri blöð sem ég man ekki eftir í svipinn. Og svo öll sjónvörpin og útvörpin maður lifandi. Það getur gert hvern mann vitlausan að ætla sér að reyna að fylgjast með þessu öllu saman. Er ekki áskrifandi að neinu svona og kannski er bara best að halla sér einkum að blogginu og fésbókinni og láta þetta alltsaman lönd og leið. Fréttir verða bara að finna mann í staðinn fyrir að maður þurfi að leita að þeim. Tístið, Instagrammið, Unglingabólurnar og allt þetta nýmóðins vesen má mín vegna líka alveg eiga sig. Timberlake jafnvel sömuleiðs.
Ég elska samsæriskenningar. Einhverjar þeirra hljóta að vera réttar. Mér finnst t.d. að lekamálið hljóti að tengjast átökum í blaðaheiminum, forystumálum í stjórnmálaflokkunum og jafnvel fyrirhuguðum breytingum á ríkisstjórninni. Verð að viðurkenna að ég á erfitt með að tengja Bárðarbungumálið við þetta altsaman. Samt hlýtur það að vera með í stóra samsæri samsæranna. Gott ef ríkisstjórnin og Alþingi er ekki flækt í það líka. Umboðsmaðurinn áreiðanlega.
Björg Thorarensem er greinilega komin í aftökusveitina. Hún segir að Innanríkisráðherra hefði alls ekki nein samskipti átt að hafa við lögregluna útaf lekamálinu og gagnrýnir Sigmund Davíð fyrir gjörðir sínar. Ekki er nokkur leið að vera henni ósammála. Undarlegt er að Simmi og Bjarni skuli enn freista þess að styðja Hönnu Birnu, þó með hálfum huga virðist vera. Eiginlega er hún núna komin í þá stöðu að þeir tveir og Stefán fyrrum lögreglustjóri ættu hægt með leggja pólitískan feril hennar í rúst auk þeirra blaðamann sem sannleikann þekkja. Allt virðist benda til að skrápurinn á henni sé jafnsterkur og jarðskorpan fyrir norðan. Almenningur bíður með öndina í hálsinum eftir því þessa dagana að fá að vita hvort gefur sig á undan.
Annars er allsekki grín gerandi að þeirri stjórnsýslulegu kreppu sem komin er upp vegna þeirrar áráttu Hönnu Birnu Kristjánsdóttur að þrjóskast við að sitja áfram sem ráðherra. Hún gerir ríkisstjórninni stóran óleik með því. Gaman verður að fylgjast með því hvernig þingmálin ganga fyrir sig á komandi þingi. Hræddur er ég um að mestallt púðrið fari í einskisverð aukaatriði og þetta þing komi alls engu í verk. Vantrauststillaga Pírata gæti vel fallið í aukaatriðisflokkinn.
Sko, nú er ég langt kominn með að skrifa heilt blogg að mestu um Hönnu Birnu, þó ég hati í raun og veru pólitík. Svona er nú tíkin sú einkennileg og uppáþrengjandi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.8.2014 | 08:59
2215 - Fjölmiðlar og ýmislegt annað
Gríptu það. Gríptu það, og málaðu það grænt. Þetta á að vera um venjulegt prump og er í þjóðsögum Jóns Árnasonar að mig minnir og þar er gert ráð fyrir að Djöfullinn í einhverju gervi hafi gert eitthvað fyrir einhvern, en þessi þraut sé honum ofviða. Prumpulagið hans doktor Gunna er velþekkt og afar vinsælt hjá börnum. Kúkogpiss brandarar eru líka ákaflega vinsælir hjá börnum á vissu skeiði. Ekki er með neinu móti hægt að ákveða aldurinn og ég hef heyrt í fullorðnu fólki sem þykir kúkogpissbrandarar afskaplega fyndnir. Sjálfur held ég að ég sé að mestu kominn yfir það. Samt þykir mér þetta með Djöfulinn og grænu málninguna fremur fyndið, en ekki er víst að öllum finnist það.
Í mínum huga er enginn vafi á því að sauðkindin á mestan þátt í því að gróður landsins hefur víða þurft að láta undan síga. Bændur hafa þó rétt fyrir sér í því að vel er hægt að láta sauðfjárbúskap og skógrækt fara saman. Mörg svæði eru þó þannig að ekki er nein ástæða til að láta fé ganga þar sjálfala. Þetta með að reka eða flytja fé á fjall er að mestu úrelt fyrirkomulag og stjórnvöld ættu að hjálpa bændum til að leggja það af sem víðast á landinu.
Neyslusamfélagið er æðsta stigið í neysluhyggjunni. Enginn getur losnað úr því neti að fullu. Hægt er þó að berjast um og það gera margir. Bandaríkjamenn hafa komist einna lengst í neysluhyggjunni og líka í mannréttindum. Evrópa og einkum Norðurlöndin (og sérstaklega Ísland) halda í humáttina á eftir. Spurningin er hvort hægt er að fá sæmilega fullkomin mannréttindi án þess að ganga neysluhyggjunni á hönd. Þetta eru bara pælingar og kannski ekkert að marka þær. Eftirlitið og hryðjuverkaógnin geta líka orðið andstæðir pólar.
Fjölmiðlar hér á Íslandi hafa staðið sig fremur illa. Fyrst var það í hruninu mikla og undanfarið hefur það verið í jarðskjálfta- og stríðsfréttum. Netmiðlar, fámiðlar og persónulegir miðlar á netinu hafa á ýmsan hátt tekið yfir hlutverk þeirra í fræðslu og menntun almennings. Þeir standa sig auðvitað mjög misjafnlega og oft alls ekki betur, en eru miklu fleiri og samanlögð áhrif þeirra aukast í sífellu og áhrif hinna hefðbundnu fjölmiðla minnka að sama skapi. Tæknin skiptir þarna miklu máli og a.m.k. prentmiðlarnir hafa átt mjög erfitt með að sætta sig við þetta. Útvarpið er sér á parti. Þar heyrðist mér einhver tala um það í fullri alvöru að ákveðið hefði verið í nefnd að Lagarfljóstormurinn væri til. Auðveldast væri að skipa bara nefnd um öll vafatriði. Pant vera í skipunarnefndinni.
Hugsunina um að verða að annexíu í Noregsveldi virðast sumir taka alvarlega. Stefán Pálsson gerir tilraun til að hrekja þá hugmynd með sögulegum rökum. Það er ekki hægt. Þó slit og upphaf slíkst hjúskapar sem hér um ræðir fari að einhvrju leyti eftir slíkum rökum gera þau það ekki í raun, þau er bara fundin upp eftirá. Samt er það alveg pottþétt að Ísleningar munu aldrei ganga að þeim skilyrðum sem Norðmönnum þættu skynsamleg fyrir veru okkar í ríkjasamstarfi með þeim. Þátttaka í ESB er miklu líklegri. Þar er um ríkjasamband að ræða og ekki verið að tala um að ganga einhverjum á hönd eða fórna sjálfstæðinu. Þetta gera flestir sér mætavel ljóst og fylgið við slíka aðild fer sífellt vaxandi. Alþingi Íslendinga mun ekki fara að grauta mikið í þeim málum nema það neyðist til. Kannski verðum við sett uppað vegg fyrir að fara ekki eftir EES-sáttmálanum. Já, þar er einkum um gjaldeyrishömlurnar að ræða.
Nú dettur mér allt í einu í hug að gaman væri að vita hað Jón Valur Jensson hefur um þetta að segja. Varla getur hann með allt sitt landráðahjal og yfirdrifnu sjálfstæðis-steypu verið þessu hlynnur. Best að gá að því og ég skal hafa símann minn með mér svo ég týnist ekki í leitini að honum. Nú er ég kominn aftur. Það var eins og mig grunaði hann er alveg á móti þess eins og öðru. (Er ég ekki líka á móti öllu.- Bara spyr.) Nei satt að segja er þessi hugmynd svo fáránlega vitlaus að varla er hægt að taka hana alvarlega.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.8.2014 | 10:07
2214 - Úlfur, úlfur
Hingað til hefur Jón Steinar Gunnlaugsson fyrrum hæstaréttardómari notið álits (a.m.k. sumra) sem góður lögfræðingur. Sennilega er því nú lokið. Hann virðist vera kominn í stríð við DV og þar að auki fyrrum samdómara sína við hæstarétt. Hann hefur haft mörg orð um það hve ómerkilegur pappír DV væri og nú heimtar hann af blaðinu að það hagi sér eins og honum dettur í hug. Hvernig hann getur komist að þessari niðurstöðu er langt fyrir ofan eða neðan skilning venjulegs fólks. Vel ætti að mega ætlast til þess að hann væri sjálfum sér samkvæmari en þetta ber vitni um.
Ekki er hægt að ætlast til þess af fjölmiðlum að þeir haldi endalaust áfram að flytja fólki fréttir af því hvort skjálftavirkni í Bárðarbungu fari minnkandi eða vaxandi. Mér finnst vanta skilning á því hjá blaða og fréttafólki að vísindamenn gætu allt eins vel átt við ár eða mörg ár þegar þeir segja bráðum. Annars leiðast mér skelfilega þessar eldgosafréttir sem þó eru ekki eldgosafréttir. Flesta virðist orðið langa í eldgos.
Ástandið í Ukraínu er miklu alvarlegra fyrir heimsfriðinn en þetta venjulega í Palestínu. Ekki er að sjá neina verulega breytingu þar, en hinsvegar er útþenslustefna Rússa nýnæmi og ástæða til að hafa áhyggjur af henni. Sennilega er í vændum líkt ástand og var í kalda stríðinu. Ekki er sjáanlegt að Bandaríkjastjórn ætli að gefa neitt eftir.
Heimsmálin ættu þó ekki að vefjast fyrir fólki. Það eru frekar megrunarmálin sem gera það. Sjálfur fer ég oft í gönguferð á morgana og ét mun minna en áður, enda hrynja kílóin af mér. Þar er líka af nógu að taka. Bráðum þarf ég að setja aukagat á beltið ef þessu heldur áfram. Menningarnóttin (sem stendur allan daginn) fór alveg framhjá mér, þó heyrði ég eitthvert glamur í sjónvarpinu og þá reyndist standa yfir bein útsending frá flugeldasýningu. Sú útsending þótti mér ekki merkileg. Ég er líka búinn að sjá svo margar flugeldasýningar um ævina að ein má missa sig.
Nú er sunndagsmorgunn og kannski upplagt að öplóda þessu.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
22.8.2014 | 12:16
2213 - Bænir og eldgos
Þetta með bænir eða bænir ekki í ríkisútvarpinu finnst mér ekki skipta miklu máli. Sumum finnst það samt og ég er alveg sáttur við það. Sumir þeirra sem hæst hafa þar hlusta samt áreiðanlega aldrei á þær og eru í hjarta sínu heiðnir mjög. Ekki finnst mér það gera neitt til. Kristnin á mikinn þátt í menningu landsins og er alls góðs makleg, þó mörg afbrot og illvirki hafi verið framin í nafni hennar í gegnum tíðina. Líta má á margt í þjóðmenningunni núumstundir sem forréttindi þeirrar trúar, en ég geri litlar athugasemdir við það. Það er svo margt merkilegra. Trúmál fá samt oft ótrúlegasta fólk til að tjá sig mjög ítarlega og auðvitað er margt þar tengt svokallaðri kosmólógíu eða alheimsfræði, sem vissulega er mér talsvert áhugamál.
Bárðarbunguævintýrið heldur áfram að vinda uppá sig. Hætt er við að sú vitleysa öll verði ferðaútveginum dýr áður en yfir lýkur. Auðvitað gera túristarnir sjálfir engar athugasemdir, enda ekki í neinni aðstöðu til þess. Ekki mundi hvarfla að mér að gera slíkt, ef lokunin bitnaði með einhverjum hætti á mér. Afsakanir þeirra sem fyrir lokun hálendisins standa eru líka í besta lagi. Aðstaða þeirra er auðvitað alls ekki góð. Erfitt verður að opna svæðið aftur. Líklega gerist það alls ekki fyrir veturinn. Þegar ég heyrði fyrst um þessa lokun hálendisins fyrir norðan Vatnajökul fannst mér talsmaðurinn sem rætt var við í sjónvarpinu alls ekki trúa því sjálfur að þetta kæmi að neinu gagni.
Gosið í Skjólkvíum er mér ennþá mjög ofarlega í minni. Sennilega var það um 1970. Alveg er ég hissa núna á afskiptaleysi yfirvalda þá. Mikil mildi var að enginn fór sér að voða þar. Ef eitthvað svipað ætti sér stað núna held ég að margir yrðu brjálaðir. Auðvitað er það sem þá gerðist alls ekki sambærilegt á neinn hátt við það sem nú er að gerast, en það má líka talsvert á milli vera. Ef gos yrði núna í Bárðarbungu má búast við að það yrði talsvert langdregið og öflugt. Greinilega veldur það fjölmiðlamönnum miklum vonbrigðum ef ekkert verður úr Bárðarbungugosi að þessu sinni.
Ég er orðinn dálítið afhuga fésbókinni. Hún er ágæt til dægrastyttingar. Hentar samt best til að ræða ákveðin málefni og svo til að forvarda ógáfulega spurningaleiki og krúttlegar kattamyndir. Engin dagblöð les ég en horfi oftast á sjónvarpsfréttir, gjarnan í báðum miðlunum þ.e.a.s. Stöð 2 og RUV. Nenni ekki að horfa á ameríska spennuþætti, sem mér finnst einkum snúast um læti og djöfulgang og svipað er að segja um kvikmyndirnar. Þá er eiginlega bara bloggið eftir og þó það henti mér allsekki að láta spyrða mig saman pólitískt með Morgunblaðinu þá er þjónustan þar góð og þar get ég svotil fyrirhafnarlaust látið ljós mitt skína bæði textalega og ljósmyndalega.
Les talsvert mikið. Aðallega í kyndlinum og þá á ensku. Íslenskar bækur á íslensku er boðið uppá í töluverðu magni á Amazon. Sumt eru það óttalegar google-þýingar og ómerkilegt dót en innanum er ágætisefni. Þessar bækur á íslensku er allar reynt að selja. Nær aldrei kaupi ég bækur á Amazon, en fæ mér oft sýnishorn og stundum eru bækur ókeypis þar í nokkra daga eða að fyrsta bókin af þremur er ókeypis. Margt má þar athyglisvert fá fyrir engan pening eða sáralítinn. Einnig stunda ég bókasafnið töluvert.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.8.2014 | 12:15
2212 - Bárðarbunga, Hanna Birna og ýmislegt fleira
Ég er alveg sammála Sigrúnu Magnúsdóttur, formanni þingflokks framsóknarflokksins, um að þetta lekamál er búið að taka alltof langan tíma og alltof mikla orku. Þetta hefur líka verið stríð á milli frjálsrar fjölmiðlunar og stjórnkerfisins í landinu. DV og RUV hafa lagt sig í líma við að upplýsa málið, en mætt eins mikilli andstöðu kerfisins og það hefur þorað. Stuðningur annarra fjölmiðla hefur, einkum framanaf, verið í mýflugumynd. Nú vilja allir þessa Lilju kveðið hafa. Ekki er þetta mín einkaskoðun heldur virðast margir vera á henni, jafnvel fólk sem styður ríkisstjórnina að öðru leyti.
Hægri og vinstri eru hugtök sem notuð eru í stjórnmálum. Í hugum flestra hafa þau ákveðna merkingu. Í mínum huga táknar vinstrið fyrst og fremst jöfnuð. Jöfnuð í launum og á sem flestum sviðum öðrum. Ég þykist hafa tekið eftir því að í þjóðfélögum þar sem ójöfnuður ríkir sé ekki gott að eiga heima. Kannski er það samt ágætt fyrir þá sem njóta góðs af ójöfnuðinum. Hætt er við að þeir séu bara svo fáir. Hinir sem fyrir barðinu á ójöfnuðinum verða eru miklu fleiri. Fullkomnum jöfnuði er alls ekki hægt að ná. Því þóttust kommúnistarnir í Sovétríkjunum sálugu þó stefna að. Úr því varð mikill ójöfnuður. Svo mikil að með því komst óorð á jafnaðarstefnuna.
Mér sýnist að þetta blogg geti erðið einslags afsökunarblogg fyrir tæknihungraða lesendur. Engin ástæða er fyrir Íslendinga til að láta stríðsáróður útlendinga hafa áhrif á sig. Þrjú mál ber hæst hér innanlands um þessar mundir: Lekamáið, Bárðarbungumálið og DV-málið. Ég hef reyndar þá skoðun á stríðsmálunum að þar sé Gaza-málið notað sem smoke-screen fyrir hitt sem sé miklu alvarlegra, en það er önnur saga og verður ekki reifuð nánar hér.
Lekamálið er á því stigi að Hanna Birna er ekki nema hálfur ráðherra. Helsta vörn stuðningsmanna hennar þessa dagana er að Jóhanna Sigurðardóttir hafi brotið lög og komist upp með það. Ýmislegt er athugvert við þau rök. Hún braut lög með því að ráða karlmann í starf sem auglýst var. Úrskurðarnefnd jafnréttismála taldi hana hana hafa brotið lög með því að ráða ekki konuna. Úrskurðir þeirrar nefndar hafa lagagildi og því bar henni að víkja. Þetta eru veikburða rök. Afbrot eins núlla ekki út afbrot annarra, þó ráðherrar séu. Það er gömul saga og ný. Auk þess eru málin á margan hátt eðlisólík.
Sennilega er ekki mikið að marka mínar skoðanir í Bárðarbungumálinu. Held samt að ekkert verði úr neinu gosi. Meðal ástæðna fyrir því að Sýslumenn og aðrir stjórar hafa nú bannað umferð um stóran hluta hálendisins, er þörf þeirra til að sýna vald sitt. Þessu banni verður ekki auðveldlega aflýst. Þó ekkert verði úr gosi er vel hægt að viðhalda hættuástandinu lengi.
Reynir Traustason kann að vera á útleið úr ritstjórastól DV. Held þó að það tengist lítið lekamálinu og þá ekki nema óbeint en sé vegna hatrammrar valdabaráttu um þetta eina dagblað sem heldur upp harðri gagnrýni á stjórnvöld. Þó það geri stundum (oft) of mikið úr hlutunum og ljái þeim rúm eftir eigin hentugleikum er því ekki að neita að neikvæðnin og gagnrýnin á stjórnvöld, svo sjálfsögð sem hún er, á sér einkum stað á þessu blaði. Önnur koma svo á eftir ef öruggt er að engin áhætta fylgir því.
Ræktunarstöð Reykjavíkurborgar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.8.2014 | 23:43
2211 - Skelfing er mér SDG hugleikinn
Útivera er engu lík. Á tíunda áratug síðustu aldar fór ég gangandi í þónokkrar ferðir um hálendi landsins. T.d. Laugaveg (milli Landmannalauga og Þórsmerkur), Kjöl og Hornstrandir Einnig hef ég klifið flest fjöll hér í nágrenni Reykjavíkur. Túristar voru hvergi til trafala. Auðvelt var að fá inni í skálum á Laugavegi og Kili á þessum tíma og svo var auðvitað hægt að tjalda hvar sem er. Atvik úr þessum ferðum eru mörg eftirminnileg. Man að á meðan við vorum í Hornstrandaferðinni lauk heimsmeistarakeppni í fótbolta. Viku eftir að við komum úr ferðinni datt mér í hug að spyrja hvaða landslið hefði unnið heimsmeistaratitilinn. Samt var ég á þessum tíma ekkert áhugalausari um boltaíþróttir en gengur og gerist.
Nú er Simmi að tala við stofnfrumuna sína:
Finnst þér að ég ætti að leyfa Hönnu Birnu að hætta?
Já, þetta er nú búið að vera bölvað ströggl hjá henni. Ætli hún yrði ekki bara fegin að losna!
Sko, við Framarar höfum alltaf viljað skipta og gera breytingar á ráðherraliðinu. Sigrún getur hæglega bætt þessu á sig og þá erum við með fleiri ráðherra en þeir. Það er bara sanngjarnt. Þannig átti það að sjálfsögðu að vera allan tímann. Og þá slepp ég líka við allar vitleysurnar frá Vigdísi.
En heldurðu að Bjarni samþykki þetta?
Ég segi honum að þetta sé eina leiðin, og þá samþykkir hann strax.
Ja, kannski hann vilji að nýr ráðherra verði sjálfstæðismaður.
Það er ómögulegt. Ég var búinn að segja að ráðherrar okkar yrðu jafnmargir áður en yfir lyki.
Já, en ekki fleiri. Er það ekki svolítið bratt. En við getum svosem reynt.
Já, þetta er samt bölvað klúður. Einhverju verður að breyta.
Einelti getur verið með ýmsu móti. Skólaeinelti og allskyns ofbeldi sem þar þrífst er þekkt fyrirbrigði. Margir hafa orðið fyrir því og náð samt tökum á lífinu. Nú er það kallað einelti sem áður var kallað ´að skilja útundan´ Slíkt einelti getur verið alveg eins slæmt og hitt. Nafngiftir skipta litlu. Segja í mesta lagi til um þjóðfélagsástand. Hægt er að leggja fullorðið fólk í einelti og oft er það gert á vinnustöðum. Einnig má í því sambandi nefna að Tíma-Tóti, Þórarinn Þórarinsson, sem var ritstjóri Tímans í gamla daga og á margan hátt framarlega í stjórnmálum þess tíma, var alltaf látinn vera með kopp hjá sér eða á höfðinu á öllum skopmyndateikningum. Vel má kalla það einskonar einelti. Eflaust hefur það stuðst við einhvern brandara um hann, en ekki hef ég hugmynd um af hverju koppurinn var ævinlega þarna. Pólitíkusar dagsins kvarta stundum undan einelti en mér finnst það ekki vera einelti þó gert sé grín að þeim. Stjórnmálaumræðan hér á landi er samt oft óþarflega harkaleg.
Ef það verður úr eldgosi í Vatnajökli núna verður það algjört túristagos. Ekki nenni ég þangað og ekki verður okkur hætt þessvegna hér í Kópavogi. Ef þetta gos verður nægilega lítið og langvarandi gæti það vel haft jákvæð áhrif á ferðamannastrauminn hingað. Ef ekkert merkilegt gerist í gosmálum getur aftur á móti hæglega tekið fyrir hann hvenær sem er. Hve mörg hótel sem byggð verða.
Hér er búið að leggja útfararstofu Íslands niður.
Blóm.Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.8.2014 | 13:57
2210 - Sögur frá Kína o.fl.
Þegar ég vann uppi á Stöð 2 var Hannes Jóhannsson tæknistjóri þar. Hann fæddist í Hong Kong og ólst upp í Kína. Tvær sögur þaðan man ég að hann sagði mér og sennilega fleirum. Ég er að hugsa um að reyna að rifja þær upp. Pabbi hans var trúboði þar að ég held.
Þetta var á tímum menningarbyltingarinnar og einn af vinum fjölskyldunnar var háttsettur embættismaður sem bjó skammt frá þeim. Þetta var í litlu og fremur friðsælu þorpi og íbúarnir þar höfðu lítil samskipti við umheiminn nema í gegnum vinnuna. Dag einn komu rauðu varðliðarnir samt þangað og meðal annarra handtóku þeir fjölskylduvininn og þegar Jóhann faðir Hannesar, frétti af því reyndi hann að komast að því hver kæruefnin væru. Fleiri vinir hins handtekna tóku þátt í þessu og vildu að minnsta kosti fá að tala við þann sem búið var að handtaka. Það var helst ekki hægt og segja má að allur dagurinn hafi farið í þessar tilraunir. Þegar handtökudagurinn var að kveldi kominn fréttist að rauðu varðliðarnir hefðu réttað yfir embættismanninum, dæmt hann sekan og tekið hann af lífi. Það var semsagt ekkert hægt að gera.
Hin sagan var á margan hátt merkilegri. Móðir Hannesar hafði tekist að fá eina af þorpskonunum til að snúast til kristinnar trúar. Eitt stórkostlegt vandamál fylgdi því samt. Hún átti nokkur líkneski af þeim guðum sem hún hafði trúað á og vissi ekki hvernig hún ætti að farga þeim. Ef hún fleyði þeim í ruslið eða gæfi einhverjum óverðugum þá væri hætt við að þeir reiddust og ekki vildi hún verða til þess. Þetta vandamál var mjög stórt og raunverulegt, og það var ekki fyrr en móðir Hannesar datt niður á það snjalla ráð að hún gæti náttúrulega gefið sér líkneskin, sem málið leystist.
Mikið hefur verið skrifað um lekamálið svokallaða. Ég ætla ekki að lengja þá umræðu að neinu ráði, en vil bara segja að sekt eða sakleysi Gísla Freys Valdórssonar og/eða Hönnu Birnu Kristjánsdóttur skiptir engu máli lengur. Innanríkisráðherrann hefur nú þegar valdið sitjandi ríkisstjórn svo miklu tjóni með háttsemi sinni að ekki nægir einu sinni að hún segi af sér embættinu, helst þyrfti hún að segja af sér þingmennsku líka.
Annars getur vel verið að Sigmundur sjálfur geti séð um að grafa undan hinni íslensku ríkisstjórn. Yfirlýsingar hans um eitrað kjöt eru á þann veg að vart getur nokkur maður lagt trúnað á slíkt fleipur. Já, þó mér leiðist pólitík, þá get ég ekki annað en fylgt minni vinstri sinnuðu sannfæringu.
Hrókurinn er besta netblaðið sem ég hef fundið um skák. Ekki er galdurinn annar til að komast þangað, en skrifa hrokurinn.is í subjectlínu brásersins sem notaður er. Góð og fullkomin url eru nokkurs virði, því bookmarksöfn og þess háttar vilja týnast. Hrafn Jökulsson sem ritstýrir þessu blaði er alls ekki einhamur í neinu sem skákinni viðkemur. Einhverjum finnst hann samt of fyrirferðarmikill þar, en það er önnur saga.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)