Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2014
15.8.2014 | 13:43
2209 - SDG
Eitt blogg á dag kemur heilsunni í lag. Eftir þessu lifði ég einu sinni. Bloggaði daglega svo margir urðu þreyttir á að lesa kjaftavaðalinn úr mér. Síðan ég hætti þeim óskunda líður mér miklu betur. Bloggið er alveg hætt að vera mér nokkur kvöð. Ég má aðallega passa mig á að halda svolítið aftur af mér. Verst hvað ég er vitlaus. Þeir sem blogga svona mikið um allan fjandann eru ekki sérfræðingar í neinu. Hrunsérfræðingar eru a.m.k. fimmtán í tylftinni. Pólitíkin er líka alveg að gera mig gráhærðan. Ó, afsakið ég er víst gráhærður fyrir og gráskeggjaður að auki.
Hver er aðalmunurinn við að vera fáeinum kílóum léttari en áður? Jú, ég get sagt ykkur það. Ég er ekki lengur í vandræðum með að koma buxunum að mér og svo er ég örlítið léttari á mér. Og hvernig léttist ég svo um nokkur kíló? Jú, aðallega með því að hætta (að mestu) að éta brauð og kökur. Sömuleiðis að hætta með öllu að nota sykur í kaffið. Líka er nauðsynlegt að viðurkenna fyrir sjálfum sér að agnarlítil hungurtilfinning skaðar ekki neitt.
Skil ekki þetta hjal hjá Emil Hannesi um Hjómið eitt þó hann hafi reynt að útskýra það fyrir mér í athugasemdum við bloggið. Held helst að hann eigi við að Hjómið eitt sé ekki af holdi og blóði og sé staðsett hér á Moggablogginu. En ég er svo skilningslaus að ég á stundum í vandræðum með að skilja einföldustu hluti. Kannski er þetta ellin. Hræddur er ég samt um að fésbókin blessuð sé að ganga sér til húðar. Hana skil ég alls ekki. Reyni þó að vera með. Ekki veit ég hvað kemur í staðinn fyrir hana hér á Ísa köldu landi, en eitthvað hlýtur það að verða.
Mér finnst árásir vinstrisinna á Sigmund Davíð Gunnlaugsson oft dálítið skrítnar þó ekki sé rétt að kalla þær loftárásir. Víst er hann dálítið feitur og góður með sig. Fótarmein hrjáði hann á tímabili og allt þykist hann vita. Stundum er hann jafnvel svolítið Vigdísarlegur. Veltir sér uppúr orðum og hugtökum sem hann skilur ekki.
Mamma las lítið. Mátti sjaldan vera að því. Féll varla verk úr hendi einsog oft er sagt. Minnir þó að hún hafi verið áskrifandi að tímariti nokkru sem hét Nýtt Kvennablað. Gott ef þar var ekki framhaldssaga eftir Guðrúnu frá Lundi. Gæti hafa heitið Ölduföll (nenni ekki að Gúgla.) Sjálfur fékk ég einhvern smekk fyrir langdregnum skáldsögum fyrir mörgum árum og las þá langa skáldsögu (líklega Dalalíf) eftir nefnda Guðrúnu og hún var síst verri en margt annað sem ég hef lesið. Bókmenntapáfar hafa talað heldur niður til hennar undanfarna áratugi. Mér finnst það að ósekju. Vinsæl hefur hún lengi verið hjá almenningi.
Viðurkenni alveg að norski fáninn er mun fallegri en sá íslenski. Kannski er það ekkert að marka því uppáhaldsliturinn minn er rauður. Samt finnst mér það ekki nægja til að styðja fylkisflokkinn. Eiginlega hef ég meira á móti Norðmönnum en Dönum. Gott ef Svíar eru ekki skástir Norðurlandaþjóðanna, þrátt fyrir allt sitt dramb og stærilæti.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.8.2014 | 21:11
2208 - Athugasemdir í öðru veldi
Vitanlega er Moggabloggið ekkert annað en athugasemdir í öðru veldi, þegar skrifaðar eru hugleiðingar og linkað í einhverja vinsæla frétt á mbl.is. Ef ekki er linkað er vel hægt að ímynda sér að þetta sé alvörublogg. Þjónustan er góð og engar áhyggjur þarf að hafa af tækninni. Moggabloggsguðirnir sjá um þá hlið. Tímann sem sparast er hægt að nota í að hanga á fésbókinni, en ekki finnst öllum það nógu gefandi. Líka má nota hann til að flakka um netið eftir eigin skipulagi eða skiplagsleysi og jafnvel má gefa tölvuskömminni frí.
Stundum spekúlera ég í því hvað það er einkum sem sker úr um hve margir lesa bloggið sem maður skrifar. Til lengdar hlýtur að vera einhver samsvörun við það og gæði skrifanna. Sé það sem aðrir vilja helst sjá líkt því bloggarinnn hefur mest gaman af að skrifa getur hann með tímanum orðið sæmilega vinsæll. Flestir komast upp á lag með það að skrifa líkt og aðrir vilja lesa. En vilja bloggarar að sem flestir lesi skrifin sín? Ef ekki væri svo af hverju ættu bloggarar (og fésbókarskrifarar) að vera að þessum fjára?
Að vera aldraður aumingi er ekkert skemmtilegt. Þó væri sennilega verra að vera ofurhetja. Þá hefði maður svo mikið að gera. Jólasveinninn er dæmigerð ofurhetja. Sama er að segja um Superman, Kógulóarmanninn og alla hina. Ímyndunarafl barna er oft skemmtilegt. T.d. bjó Tinna til viðbót við söguna um Rauðhettu þar sem amman át úlfinn. Gott á hann. Eru barnasögur annars ekki oft dálítið hryllilegar?
Allt þetta sem hér er á undan skrifað mætti kalla innhverfa íhugun. Innvortis og útvortis eru annars dálítið skemmtileg orð. Allt sem gerist inni í manni sjálfum er áhugavert. Sjálfur er maður allur heimurinn. Nauðsynlegt er samt uppá samband við aðra að hafa svolítinn áhuga á öðru.
Fylkisflokkurinn hans Gunnars Smára Egilssonar er næstum því sama fyrirbrigðið og Fylgisflokkurinn sem einhver (mig minnir að það hafi verið Egill Helgason) stakk uppá. Eiginlega er ekki hægt að taka svona lagað alvarlega. Fylkisflokkurinn vill sameinast Noregi skilst mér, en Fylgisflokkurinn samsama sig sem mestu fylgi. Hvorttveggja er jafnógáfulegt. Stefán Snævarr, orðlagður gáfumaður, skrifar um Fylkisflokkinn og finnur honum flest til foráttu. Annars var þetta þvílík langloka hjá Stefáni að ég gafst upp þegar ég var u.þ.b. hálfnaður
Andstyggð vinstri manna á núverandi ríkisstjórn finnst mér ekki mega leiða þá útí algera vitleysu. Á sama hátt er öfga hægristefna (a la Breivik) og múslimahatur jafnvitlaust. Öfgar þær sem mér finnst ég verða var við hjá flestum sem um pólitík skrifa verður til þess að mér leiðist hún óskaplega. Samt get ég ekki látið vera að skrifa um hana. Margt finnst mér benda til þess að Fylkisflokkurinn sé alvara. (A.m.k. sumra.) Aftur á móti er Fylgisflokkurinn áreiðanlega tómt grín.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
10.8.2014 | 22:01
2207 - Alterego
Í gamla daga áttu allir útvarp og voru áskrifendur að einhverjum dagblöðum eða höfðu aðgang að þeim. Mogganum að minnsta kosti ef ekki vildi betur. Hann kom alltaf með Steindóri um tíu-leytið. Hin blöðin komu reyndar líka með Steindóri, en það voru afar fáir áskrifendur að þeim. Það var einskonar pólitísk yfirlýsing ef menn voru það. Mogginn var alveg hlutlaus. Það fannst flestum að minnsta kosti. Kristján í Reykjafossi, var reyndar sagður vera kommúnisti, en samt dreifði hann Mogganum óhikað. Hann var ekki borinn út. (Þ.e.a.s Mogginn ekki Kristján.) Það þurfi að sækja hann.
Alterego eru ekki endilega grín. Þar er hægt að skrifa ýmislegt sem óþægilegt gæti verið að þurfa að standa við. Þetta segi ég mest útaf því að einhver Ívar (sem ég veit engin nánari deili á) heldur þessu fram í athugasemd við það sem ég sagði á blogginu mínu um svokallaðan Svarthöfða. Þá athugasemd sá ég fyrst fyrir stuttu síðan.
Ég læt mér í léttu rúmi liggja hvað öfgahægrimenn eins og Páll Vilhjálmsson og Jón Valur Jensson segja. Þeir þykjast vera súpergáfaðir en eru það alls ekki. Báðir eru samt mikið lesnir og við því er ekkert að segja. Jónas Kristjánsson með sína vinstrimennsku er líka mikið lesinn og Herðubreið lesa margir. Hinir hefðbundnu fjölmiðlar eiga mjög í vök að verjast enda þurfa þeir á miklu fjármagni að halda til að geta sinnt sínum aðdáendum. Þau ár sem liðin eru frá Hruninu Mikla hafa verið mikil stjórnmálaleg umbrotaár hér á landi. Heimsstjórnmál virðast hins vegar þróast stöðugt í áttina að kalda stríðinu. Flestir telja samt að því hafi lokið um það leyti sem Sovétríkin liðuðust í sundur. Ætli það hafi ekki verið svona um 1990. Eins og sjá má af þessu er ég ákaflega latur við að gúgla. Kann það heldur ekki nærri eins vel og sumir aðrir.
Líklega er það hvergi eins greinilegt og í skákinni að Rússar vilja gjarnan skapa aftur líkt ástand og var í heiminum í kalda stríðinu. Pútín er einvaldur þar, en slíkt einveldi er ekki til staðar í USA. Kannski má samt tala um ofurvald fjármagnsins þar. Svo má auðvitað deila um hvort er verra eða skárra. Á morgun mánudag verður kosinn forseti FIDE - alþjóðaskáksambandsins. Kasparov, fyrrum heimsmeistari, etur þar kappi við Kirsan (Iljumsinov stafsetning ath. ) sem verið hefur forseti þar alllengi og er sagður hallur undir Pútín. Þessi kosning er kannski heimssöguleg að því leyti að kaldastríðslega séð er Kasparov fulltrúi USA þó alist hafi upp í Sovétríkjunum sálugu. Karpov hafði ekki erindi sem erfiði í viðureign við Kirsan.
gylfig hefur læst Moggabloggi sínu. Samt get ég séð upphafið af öllum bloggum hans með því að fara á stjórnborðið mitt, því hann er bloggvinur minn. Þannig held ég að það sé með alla sem læsa blogginu sínu. Kannski á þetta að vera svona og kannski er þetta handvömm hjá Moggabloggsguðunum.
Tekur Hraðbraut virkilega til starfa nú í haust? E.t.v. á sama hátt og áður. Minnir endilega að minnst hafi verið á það fyrir nokkru síðan. Held að ríkisendurskoðun hafi haft ýmislegt við þann rekstur að athuga.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.8.2014 | 13:51
2206 - Hanna Birna og Palestína
Þjóðarmorð og allskyns þjóðernishreinsanir hafa verið mjög í tísku allt síðan Cro-Magnon menn útrýmdu Neanderdahls mönnum, eða í ein þrjátíu þúsund ár. Auðvitað eru ekki til miklar heimildir um svo gamla atburði, en heimildir um slíkar hreinsanir frá síðustu öldum eru mjög margar.
Mannkyninu fer samt fram. Þjóðarmorðum hefur fækkað og á þessari öld (sem reyndar er nýhafin) eru þau ekki mörg og vinsældir þeirra virðast fara mjög dvínandi. Einnig er vaxandi skilningur á því að styrjaldir séu óæskilegar fyrir alla aðra en vopnaframleiðendur. Meðan engin alheimsstjórn er við lýði má þó ávallt búast við einhverskonar skærum.
Þetta gæti verið ágætis inngangur að grein um Ísrael og Palestínu. Eða jafnvel um Rússa og Úkraínumenn. Svo er þó ekki. Þetta er bara venjulegt Sæmundarblogg um allt mögulegt. Þó alþjóðasamfélagið, eða þeir sem þykjast tala fyrir þess hönd, fordæmi mjög framkomu Ísraelsmanna í stríðinu á Gaza og Bandaríkjamenn glati þessa dagana stuðningi margra, ætla ég ekki að fjalla um þau mál. Þau eru svo heit að best er að halda sig frá þeim. Andstaða við USA má, að mínum dómi, ekki leiða til stuðnings við Pútín Rússlandsforseta. Í alþjóðamálum virðumst við þó vera að nálgast það ástand sem ríkti á kaldastríðsárunum.
Hér heima er lekamálið og hugsanleg afsögn Hönnu Birnu innríkisráðherra mál málanna. Ég hef ýmist spáð því að hún muni fyrir rest segja af sér eða að hún muni ekki gera það. Ég ætla ekki að spá núna. Pólitísk einbeiting hefur verið slík á þessu máli að öll önnur hafa fallið í skuggann. Veit t.d. nokkur hvernig vesalings túristunum líður þessa stundina í veskinu sínu? Eða hvar snjóhengjan margumtalaða er stödd? Hvað um lánaleiðréttinguna?
Nixon flæktist úr einu víginu í annað í Watergate-málinu forðum daga og að mörgu leyti gerir Hanna Birna það líka. Annars er samlíking með Nixon og Hönnu Birnu jafnfráleit og það væri að líkja DV við Washington Post. Aðstæður allar eru mjög ólíkar og tímarnir allt aðrir. Að fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins skuli tjá sig um þetta mál er mjög athyglisvert. Núverandi formaður getur það illa. Best að bíða bara og sjá til, hugsar hann áreiðanlega. Annars lítur út fyrir að SDG sé í mjög ítarlegu sumarfríi því það hefur ekki heyrst stuna né hósti frá honum í langan tíma.
Krukkur á Akranesi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
8.8.2014 | 13:45
2205 - Svarthöfði
Þeir sem skrifa á blogg og fésbók og þeir sem lesa ósköpin, er það ekki að mestu leyti sama fólkið? Mér finnst margt benda til þess. Ég tala nú ekki um öll lækin, séringarnar og þ.h. Margfeldisáhrifin eru geysileg. Ekki er víst að sá hópur sem lætur sig stjórnmál varða og skrifar um þau (ég tel mig reyndar í honum) sé ýkja stór. Auðvitað eru lesendur miklu fleiri en skrifendur, en þó skrifendurnir skipti kannski ekki nema nokkrum hundruðum virðast margir óttast áhrif þess hóps mjög. Kannski eru áhrif hans að aukast í réttu hlutfalli við minnkandi trú fólks á stjórnmálum og fjölmiðlum almennt.
Þó mér finnist ég láta mig stjórnmál varða skrifa ég ekki mikið um þau. Núna ber langhæst í bloggi og á fésbók Hönnu Birnu og Gaza-málið. Hvorugt skrifa ég um og forðast það efni eiginlega dálítið, því mér finnst fólk yfirleitt verða svo æst (fyllast jafnvel trúarhita) þegar rætt er um þessi mál. Sumir vilja draga fólk í dilka eftir skoðunum sínum í þessum málum, en satt að segja er margt annað hægt að ræða um.
Hvort skyldi vera réttara að tala um appa eða öpp. Hef séð hvorttveggja. Beygingar tökuorða eru oft heilmikð vandamál. Merkingin er kannski ljós en sumar beygingar er reynt að forðast vegna óvissu. Í gama daga leystum við þetta oftast með hljóðlíkingu en hún er ekki alltaf ótvíræð.
Þeir sem sækja sér allskyns fróðleik á netið eru eflaust margir. Kennsla í netnotkun og gúgli er að verða almenn. Þeir unglingar sem ekki geta tileinkað sér það helsta í því efni, eru illa settir. Lestur og hugarreikningur er e.t.v. á undanhaldi og við gamla fólkið þreytumst ekki á að brýna fyrir þeim sem yngri eru hve nauðsynlegt þetta sé. En er það svo? Tal, hlustun og áhorf er að miklu leyti að taka við af lestrinum og þó bækur séu til margra hluta nytsamlegar eru þær ekki eins ómissandi og þær voru.
Svarthöfði er líklega alterego margra. Þar geta þeir viðrað viðhorf sín sem þora ekki að standa við þau og kallað alla sem hafa önnur viðhorf fanga pólitísks rétttrúnaðar eða hvað annað sem þeim dettur í hug. Var að lesa hugleiðingar Svarthöfða útaf múlattatali Morgunblaðsins og fleiri nýlega. Satt er það að sumir fulltrúar og réttlætendur pólitísks rétttrúnaðar, sem Svarthöfða og fleiri öfgahægrimönnum er sérlega uppsigað við, gera oft óþarflega mikið úr réttri og breyttri orðanotkum. Enginn vafi er samt á því að Svarthöfði (sem bloggar á DV að ég held) og þeir sem skrifa fyrir hann eru engu minni öfgahægrimenn en t.d. Jón Valur Jensson og Vilhjálmur í Köben.
Stundum eru föstudagsbloggin einna mest lesin hér á Moggablogginu. Kannski ég sendi þetta bara út í eterinn þó það sé í styttra lagi.
Bloggar | Breytt 9.8.2014 kl. 13:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
6.8.2014 | 16:30
2204 - Hrókurinn.is
Áður en brann og eftir að brann. Þetta var einhver algengasta tímaviðmiðunin hjá mömmu og það var svosem engin furða. Sjálfur nota ég þetta mikið þegar verið er að minnast einhvers löngu liðins atburðar. Bruninn varð í desember 1951 og það er enginn vandi að ákveða hvort eitthvert tiltekið atvik átti sér stað fyrir eða eftir hann.
Veit ekki af hverju skák er ekki lengur sú fjölmiðlaíþrótt sem hún einu sinni var. Þegar Friðrik var t.d. að tefla í Wageningen eða Portoroz beið maður með öndina í hálsinum eftir Mogganum til að sjá hvernig skákin hefði farið. Mér er þetta alveg í barnsminni. Og auðvitað var það útsíðufrétt hvernig farið hefði. Seinna flutti ég svo til Reykjavíkur og man vel að skákstjórinn í einhverju móti sem þá var haldið var Háfdán faðir Jóns Hálfdánarsonar og mig minnir að mótið hafi verið haldið í MÍR-salnum í Þingholtsstræti. Hálfdán var mjög óánægður með fréttaflutning einhvers dagblaðsins af skákmóti sem þá stóð yfir. Dagblöðin voru fjölmörg á þessum tíma. Man að Benóný var aðalsprautan á æfingunum í MÍR-salnum og gerði stundum óspart grín að strákunum sem þarna voru, þó seinna yrðu þeir frægir skákmeistarar. Minnisstæður maður Benóný. Oft sá ég hann á hjólinu sínu. Þeir voru afar fáir sem stunduðu hjólreiðar á þeim tíma og allsekki gerðu þeir það sér til skemmtunar.
Stuðningur Bjarna Benediktssonar við Hönnu Birnu er satt að segja óttalega hálfvolgur, en af hverju skyldi hann endilega gera það sem andstæðingar hans ætlast til. Viðtalið við hann í sjónvarpinu breytir eiginlega engu til eða frá. Mér sýnist að þetta mál malli bara áfram fram að næstu kosningum. Í rauninni snýst það ekki um annað en sjálfstæði fjölmiðla (sem er auðvitað stórmál) og rétt þeirra til að vernda heimildarmenn sína. Sennilega er pólitískum ferli Hönnu Birnu samt lokið. Sendiherrastaða gæti þó verið einhversstaðar.
Já, ég er svo geðlaus að ég lét bara ferma mig. Samt var ég þá fyrir löngu búinn að gera mér grein fyrir því að það sem haldið var fram, og er víða enn haldið fram í kirkjum landsins, var innantómt bull. Hægt er að kalla fram mikið af athugasemdum bæði á fésbók og annarsstaðar með því að halda einhverju fáránlegu fram um trúmál. Þar étur hver úr sínum poka.
Öruggasta leiðin til að skrifa ekki neitt hjá sér á venjlegu úðflúgti (þetta er dönskusletta) er að taka með sér blað og blýant.
Um daginn hringdi síminn hér í Auðbrekkunni, sem er svosem ekki í frásögur færandi. Tinna var í heimsókn og átti von á að pabbi sinn hringdi og eftir að ég hafði sýnt henni hvaða takka hún ætti að ýta á, svaraði hún. Var greinilega í einhverjum vandræðum með þann sem í símanum var svo hún rétti mér hann bara. Eftir einhvert kurteisissnakk sem ég man ekki vel eftir varð símtalið einhvern vegin svona: This is Windows technical department, sagði kvenmannsröddin í símanum og svo dró konan djúpt andann eins og hún byggi sig undir langa romsu. Ég flýtti mér að segja: I am not interested, og lagði á, minnugur hryllingssagnanna af fésbókinni. Og svo varð ekki meira úr því.
Allt stefnir í aukna sérhæfingu. Held að ég hafi skrifað um það um daginn að lítið væri fjallað um skák í fjölmiðlum nútildax. (Það var nokkuð gott hjá mér að setja x þarna.) Á Moggablogginu er samt hægt að fá ágætar skákfréttir á íslensku, en mér hefur lengi fundist vanta íslenskan stað á netinu, sem væri alfarið helgaður skák. Í rauninni er svo mikið skrifað um skák á netinu að engin furða er að vefsetur einsog: http://hrokurinn.is/ sjái dagsins ljós.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.8.2014 | 12:08
2203 - Hjallabyggð
Eiginlega er það ágætisuppfinning hjá mér að geta látið allan fjandann flakka hér og vísa svo í það á fésbókinni þar sem flestir eru að sjálfsögðu, nema ég. Flestir sem þar láta ljós sitt skína fjölyrða mjög um Gaza og Hönnu Birnu. Hvorugt þykir mér samt nógu merkilegt til að skrifa um.
Ugglaust hefur utanríkisráðherra talið það hagstætt fyrir íslenska ríkið að skipa Geir Haarde sendiherra. Sérkennilegt samt að skipa mann sendiherra sem hefur kært Íslenska ríkið til Mannréttindadómstóls, en ekki dreg ég í efa skynsemi ráðherrans. Már seðlabankastjóri kemur upp í hugann. Árni Þór er svo líklega hugsaður sem einhverskonar málamiðlun eða friðþæging. Ekki eru allir vinstri grænir ánægðir með þennan gjörning.
Las á fésbókinni (henni er ekki alls varnað) í færslu eftir Hallgrím Helgason um brandarann Fjallabyggð Hjallabyggð. Stelpur öðru megin, strákar hinum megin, göng á milli. Það er eiginlega ekki hægt að hafa þetta lengra. Ólafur Ketilsson kemur samt upp í hugann. Allt mögulegt kemur upp í hugann. Vandræði með þessa hugarstarfsemi. Hún er alltaf til óþurftar.
Eiginlega er megrunarárangur minn svo góður undanfarið, að ég get vandræðalaust sett beltið í innsta gat. Er það ekki gott hjá mér, eða hvað? Kannski er ekki þorandi að fara lengra. Ef ég gæti látið matarmyndir koma í stað áts væri ég á grænni grein.
Nú er sennilega þung umferð á Suðurlandi. Allir á heimleið frá Vestmannaeyjum. Bíla-Ormurinn langi sem myndir voru af í sjóvarpinu í gærkvöldi líklega kominn á hreyfingu.
Ekki er hægt að blogga bara til þess að blogga. Þetta skilur enginn. Ekki einu sinni ég. Það sem ég á við er að ekki er bara nóg að skrifa einhverja vitleysu. Nógu mikið er nú skrifað af henni. Samt er þetta tóm vitleysa og merkingarlaust með öllu. Svona getur farið þegar maður er að forðast að skrifa um það sem næstum allir hafa áhuga á. Og svo eru það myndirnar.
Ansi er þetta stutt hjá mér, en við því er ekkert að gera.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.8.2014 | 12:54
2202 - Brennu Njáls saga
Þó ég hafi aldrei pólitískur verið, (a.m.k. finnst mér það ekki sjálfum) hef ég hugsað svolítið um þau mál. Pólitísku flokkarnir hér á landi skipta ekki máli í því sambandi. Þeir eru bara hagsmunasamtök. Aðallega er um þrjár leiðir að velja. Amerísku leiðina, Evrópsku leiðina og þá Skandinavísku. Reyndar eru Suður-Evrópska leiðin og sú Norður-Evrópska alls ekki það sama. Einkenni á Suður-Evrópsku leiðinni þykir mér vera visst kæruleysi. Ábyrgðartilfinning er áberandi í Norður-Evrópu.
Það er ekkert til sem heitir Íslenska leiðin. Við Íslendingar erum bæði fáir og smáir og skiptum afar litlu máli í alþjóðlegum skilningi. Sú blanda af sósíalisma og kapítalisma sem einkennir Skandinavísku leiðina hygg ég að henti okkur Íslendingum best. Undanfarið hefur verið reynt að láta okkur fara Amerísku leiðina, en á margan hátt hentar það illa. Þjóðremba er heldur ekki vænleg til vinsælda. Við erum skrítni frændinn sem stutt er að fara til og að mestu hættulaust. Þannig held ég að flestir túristanna sem hingað koma hugsi.
Stéttaskipting er auðvitað hér á landi eins og víðar. Ekki samt í eins föstum skorðum og víða annars staðar. Að sjálfsögðu skiptir mestu máli hvaða stétt fólki finnst það tilheyra. Í þeim skilningi er engin lágstétt til hér á Íslandi, því öllum finnst þeir vera í millistétt. Jafnvel hástéttarfólki líka. Þannig er það bara alls ekki. Peningar skipta mestu máli um stéttaskiptinguna og ættartengsl að sjálfsögðu líka.
Mörður hét maður.... Margir hafa gefist upp á að lesa Njálu, en kannast samt við upphaf hennar. Þarna er talað um Mörð gígju og sagt að hann hafi búið að Velli í Hvolhreppi. Mágur minn bjó þar eitt sinn og nú mun sú jörð tilheyra syni hans.
Bjarni frændi minn Harðarson hefur skrifað sögu um dótturson þess Marðar, en hann kemur mjög við sögu í Njálu og er oft kallaður Lyga-Mörður. Sú bók (sem Bjarni skrifaði) heitir einfaldlega Mörður og er alls ekki löng. Það er útgáfufélagið Sæmundur sem gefur hana út.
Ekki get ég annað en mælt með henni, þó ég hafi ekki lesið hana. Njálu hef ég þó lesið, en alls ekki oft, eins og sumir segjast hafa gert. Fráhrindandi mjög er lagaþvælan í henni og ættartölurnar, en efnið að öðru leyti stórmerkilegt og snilldarlega skrifað.
Fjölskyldubrenna var víst auglýst á einhverri útihátíðinni. Það er aumlegur útúrsnúningur að gera ráð fyrir að þetta hefði átt að orða öðruvísi. Auglýsendur reyna ávallt að vera sem gagnorðastir.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.8.2014 | 08:36
2201 - En vise paa dansk at digte
Langt om længe eins og danskurinn mundi segja, er ég nú búinn að fatta af hverju mér gengur illa að læða inn myndum á Moggabloggið. Það er Explorerinn sem stendur fyrir þessu en ekki DO. Kannski það sé þessvegna sem ég hætti að nota hann á tímabili og fór að nota Chrome. Það er nefnilega sífellt að verða erfiðara og erfiðara að fylgjast með í þessum blessuðu tölvumálum. Sérstaklega ef maður þykist vita eitthvað um þau.
En vise paa dansk at digte
drömt har jeg længe om.
Men inspirasjonen vil svigte.
Jeg synes at være tom.
Þessa vísu gerði ég einhverntíma fyrir löngu. (Það var fyrir fisk, að þessi garður var ull.) Kannski hef ég birt hana áður í þessu blessaða bloggi mínu, sem engan enda virðist ætla að taka. Áðan gerði ég vísu sem ég setti snimmhendis á Boðnarmjöðinn, líkt og ég geri stundum og glotti ofan í gólfið eins og konan mín komst að orði. Sú vísa átti að vera um Hönnu Birnu Kristjánsdóttur og nýjustu vendingar í lekamálinu svokallaða. Sú vísa fékk ágætar viðtökur á Boðnarmiðinum en ég man hana samt ekki. Minn skilningur er þannig að allt megi segja í bundnu máli og því megi bara svara með sama hætti. Fleiri virðast hafa svipaðan skilning, því síðast þegar ég vissi voru einhverjir búnir að svara henni á þann hátt.
Ég get ekki verið annað en nokkurnvegin sammála Sigurjóni Egilssyni í Miðjunni um daginn, þar sem hann segir að óhjákvæmilegt sé að annaðhvort Hanna Birna Kristjánsdóttir ráðherra eða Reynir Traustason ritstjóri DV segi af sér. Þetta mál verður að fá einhvern endi.
Eru skutlarar framtíðin? Sjá grein á ruv.is sem Salvör Gissurardóttir benti á.
Hjátrúin sanna. Hún lifir enn góðu lífi, hjátrúin meðal okkar Íslendinga. Horfði á það áðan út um gluggann hjá mér að maður einn forðaðist greinilega að svartur köttur gengi í veg fyrir hann. Greikkaði sporið mjög þegar kötturinn fór að nálgast. Svo fór að kettinum leist ekki á blikuna og stoppaði útá miðri götu. Skyldi svo greinilega um hvað málið snerist, breytti um stefnu og fór fyrir aftan manninn. Sömuleiðis finnst mörgum hampaminna að neita ekki tilvist álfa og huldufólks, því hugsanlegt sé að eitthvað slíkt fyrirfinnist. Á sama hátt mun Hanna Birna þverneita sannleikanum endalaust, í þeirri trú, að ekki sé hægt að sanna hann og kjósendur munu jafnvel kjósa hana aftur, ekki síst ef hún stendur sig sæmilega. Langathyglisverðast við málið frá upphafi er hve félagar hennar hafa verið tregir til að koma henni til hjálpar.
Líklega er Árni Sigurðsson ekki hótinu betri en Geir Haarde, þó vinstri grænn sé. Fjandinn sér um sína. Og fjórflokkurinn líka. Ekki má lina tökin á fáfróðum almúganum. En er hann fáfróður? Annars er uppáhaldssamsæriskenningin mín sú að þetta alltsaman (Lekamálið og Sendiherramálið) tengist valdabaráttu í Sjálfstæðisflokknum eða hjá Samfylkingunni. Hvað veit ég? Einelti er það ekki. Að halda því fram er gengisfelling á raunverulegu vandamáli.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)