2213 - Bænir og eldgos

Þetta með bænir eða bænir ekki í ríkisútvarpinu finnst mér ekki skipta miklu máli. Sumum finnst það samt og ég er alveg sáttur við það. Sumir þeirra sem hæst hafa þar hlusta samt áreiðanlega aldrei á þær og eru í hjarta sínu heiðnir mjög. Ekki finnst mér það gera neitt til. Kristnin á mikinn þátt í menningu landsins og er alls góðs makleg, þó mörg afbrot og illvirki hafi verið framin í nafni hennar í gegnum tíðina. Líta má á margt í þjóðmenningunni núumstundir sem forréttindi þeirrar trúar, en ég geri litlar athugasemdir við það. Það er svo margt merkilegra. Trúmál fá samt oft ótrúlegasta fólk til að tjá sig mjög ítarlega og auðvitað er margt þar tengt svokallaðri „kosmólógíu“ eða alheimsfræði, sem vissulega er mér talsvert áhugamál.

Bárðarbunguævintýrið heldur áfram að vinda uppá sig. Hætt er við að sú vitleysa öll verði ferðaútveginum dýr áður en yfir lýkur. Auðvitað gera túristarnir sjálfir engar athugasemdir, enda ekki í neinni aðstöðu til þess. Ekki mundi hvarfla að mér að gera slíkt, ef lokunin bitnaði með einhverjum hætti á mér. Afsakanir þeirra sem fyrir lokun hálendisins standa eru líka í besta lagi. Aðstaða þeirra er auðvitað alls ekki góð. Erfitt verður að opna svæðið aftur. Líklega gerist það alls ekki fyrir veturinn. Þegar ég heyrði fyrst um þessa lokun hálendisins fyrir norðan Vatnajökul fannst mér talsmaðurinn sem rætt var við í sjónvarpinu alls ekki trúa því sjálfur að þetta kæmi að neinu gagni.

Gosið í Skjólkvíum er mér ennþá mjög ofarlega í minni. Sennilega var það um 1970. Alveg er ég hissa núna á afskiptaleysi yfirvalda þá. Mikil mildi var að enginn fór sér að voða þar. Ef eitthvað svipað ætti sér stað núna held ég að margir yrðu brjálaðir. Auðvitað er það sem þá gerðist alls ekki sambærilegt á neinn hátt við það sem nú er að gerast, en það má líka talsvert á milli vera. Ef gos yrði núna í Bárðarbungu má búast við að það yrði talsvert langdregið og öflugt. Greinilega veldur það fjölmiðlamönnum miklum vonbrigðum ef ekkert verður úr Bárðarbungugosi að þessu sinni.

Ég er orðinn dálítið afhuga fésbókinni. Hún er ágæt til dægrastyttingar. Hentar samt best til að ræða ákveðin málefni og svo til að forvarda ógáfulega spurningaleiki og krúttlegar kattamyndir. Engin dagblöð les ég en horfi oftast á sjónvarpsfréttir, gjarnan í báðum miðlunum þ.e.a.s. Stöð 2 og RUV. Nenni ekki að horfa á ameríska spennuþætti, sem mér finnst einkum snúast um læti og djöfulgang og svipað er að segja um kvikmyndirnar. Þá er eiginlega bara bloggið eftir og þó það henti mér allsekki að láta spyrða mig saman pólitískt með Morgunblaðinu þá er þjónustan þar góð og þar get ég svotil fyrirhafnarlaust látið ljós mitt skína bæði textalega og ljósmyndalega.

Les talsvert mikið. Aðallega í kyndlinum og þá á ensku. Íslenskar bækur á íslensku er boðið uppá í töluverðu magni á Amazon. Sumt eru það óttalegar google-þýingar og ómerkilegt dót en innanum er ágætisefni. Þessar bækur á íslensku er allar reynt að selja. Nær aldrei kaupi ég bækur á Amazon, en fæ mér oft sýnishorn og stundum eru bækur ókeypis þar í nokkra daga eða að fyrsta bókin af þremur er ókeypis. Margt má þar athyglisvert fá fyrir engan pening eða sáralítinn. Einnig stunda ég bókasafnið töluvert.

IMG 1542Blokk.

IMG 1543Strætó.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband