Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2014

2252 - Já, það er þetta með Sígaunana

Satt að segja er dómurinn yfir Gilzenegger mjög athyglisverður. Að það sem viðkomandi skrifaði á myndina af Agli sé ekki frekleg móðgun, get ég alls ekki samþykkt og finnst hæstiréttur setja mikið ofan við þetta. Hefði hann verið dæmdur ef ummælin hefðu verið á íslensku? Í þessu tilfelli finnst mér það ekki afsökum þó Egill sé e.t.v. opinber persóna. Auðvitað þurfa slíkar persónur samt að þola ýmislegt sem aðrir mundu ekki gera.

Sel þetta ekki dýrara en ég keypti það. Íslendingurinn við vin sinn: Við umgöngumst sko alla eins. Þ.e.a.s. eins og þeir séu fólk, en ekki Sígaunar.

Ég get ekki neitað því að mér hitnaði svolítið um hjartaræturnar þegar ég sá að maður sem ég þekki ekki neitt séraði bloggið mitt á fésbókinni og lét það fylgja með að ég væri uppáhaldsbloggarinn hans. Þannig skildi ég það a.m.k. og ég held að hann hafi ekki verið nema svona í hæsta lagi hálft í hvoru að gera grín að mér.

Sumir halda víst að það sé hægt að verða ríkur af því að blogga. Ekki er það mín reynsla. Aldrei hef ég fengið svomikið sem eina krónu í greiðslu fyrir blogg. Þó vanda ég mig oft og einatt alveg svakalega mikið. Skil ekki þá sem líta á bloggið sem annars flokks skrif. Sennilega er það vegna þess að ég hef aldrei fengið borgað fyrir nein skrif. Kannski mundi það breytast ef ég skrifaði metsölubók, en það verður víst ekkert úr því héðanaf.

Nú er klukkan orðin meir en hálftólf svo ég er að hugsa um að fara að hátta og lesa í Kyndlinum mínu, sem er fullur eins og vanalega. Vildi að ég vissi hve margar bækur eru þar. Nenni ómögulega að telja þær auk þess sem ég mundi áreiðanlega ruglast í talningunni. Eflaust eru þær ekki færri en svona tvö til þrjú þúsund. Það er svo erfitt að kaupa ekki ókeypis bækur.

Þessi bæjarstjóraræfill þeirra í Vestmannaeyjum er greinilega ekki beittasti hnífurinn í skúffunni hjá Sjálfstæðismönnum, en það má hann þó eiga, að hann læðist ekki með veggjum eins og ég er snillingur í.

Nú er ég búinn að setja saman einn stól frá IKEA og skrifstofustóll bíður. Ætli hann sé mér ekki ofviða.

IMG 1901Traustlegar undirstöður.


2251 - Styrmir von Stasi

Skyldi Styrmir von Stasi enn njósna um Þórhildi Þorleifsdóttur. Hún hlýtur að spyrja hann að því í fyrsta þættinum sem þau stjórna saman í Sjónvarpi allra landsmanna. Þó ég sé yfirleitt ekki hrifinn af pólitískum uppnefnum þá verð ég að viðurkenna að mér finnst þetta óvenjulega rammandi og vona eiginlega að það festist við hann. Fyrst heyrði ég það eða sá hjá Stefáni Ólafssyni. Kannski hefur Styrmir njósnað um hann. Þungar refsingar liggja yfirleitt við njósnum og föðurlandssvikum, en ekki er líklegt að Styrmir verði látinn svara til saka, hvernig sem á því stendur.  

Annars er ekki grín gerandi að þessu. Satt að segja er þetta engu betra en blessað Rússagullið. Þeirri Moggalygi trúði ég alveg fram undir þetta. Þetta snýst ekki um það samt. Flokkarnir (og dagblöðin) voru spilltir þá ekki síður en nú. Að ritstjóri og heilagur andi stærsta dagblaðsins í þá tíð skyldi leggjast svona lágt er einfaldlega sögulegt. Af hverju í ósköpunum skyldi hann vera að opinbera þetta núna á gamals aldri?

Ég veit ekki hvar þetta endar!! Nú er klukkan að verða tíu og það er ekkert farið að birta að ráði. Ætli sólin hafi gleymt að koma upp. Jú, annars. Ég veit alveg hvar þetta endar. Þetta endar með því að það fer að birta sífellt fyrr á morgnana og á endanum verður bjart allan sólarhring, eða svotil. Þó nú sé dimmt og ég tilbúinn til að fara í morgungönguna mína þá er ég ekkert á því að breyta klukkunni eins og hálfvitlausir þingmenn vilja. Þetta er ágætt svona. Maður getur þá hlakkað til einhvers.

I told you so. Nú er Hanna Birna loksins búin að segja af sér. Ég var næstum orðinn úrkula vonar með það. Bjarni og Simmi hefðu sennilega leyft henni að hanga áfram ef hún hefði heimtað það. Á endanum hefðu þeir samt sparkað henni. Simmi veit eiginlega ekkert hvernig hann á að snúa sér í þessu. Segir þjóðinni bara að draga lærdóm af þessu. Lærdóminn telja nú sumir að stjórnmálamenn ættu einkum að draga. Fimmti framsóknarráðherrann er sennilega fjarlægari en nokkru sinni. Sem betur fer.

Í gær var föstudagur. Eiginlega er það ryksugudagur, en mér tókst á snilldarlegan hátt að komast hjá allri ryksugun. Við fórum nefnilega í heimsókn upp í Hvalfjörð. Bjarni var þar í sumarbústað og Tinna hringdi í okkur (alveg sjálf) og bauð okkur í heimsókn. Það er alveg „awesome“ að vera þar, sagði Tinna. Veit ekki hvort mér tekst að komast hjá ryksugun alla helgina.

IMG 1900Eftir hamfarirnar.


2250 - Alþjóðlegi klósettdagurinn

Ritstjóri Kjarnans, sem ég man ekki í augnablikinu hvað heitir, vill endilega heyra upptökuna af símtali Geirs forsætisráðherra og Davíðs þáverandi Seðlabankastjóra útaf stóra Kaupþingsláninu, en Geir vill það víst ekki og þar við situr. Minnir að ég hafi minnst á þetta mál í bloggpistli um daginn og læt mér ekki detta í hug að það sé vegna þess pistils sem ritstjórinn minnist á þetta. Ég er þó alveg sammála Kjarnastjóranum um að við þurfum endilega að fá að hlusta á þessa upptöku. Hætta er á að Davíð (eða Már) eyði þessari upptöku, en það má ekki ske. Áreiðanlega verður hún einhverntíma gerð aðgengileg þ.e.a.s. ef henni verður ekki eytt.

Nú er ég kominn í verulegt bloggstuð og get alls ekki hætt að skrifa. Sennilega fer ég á American Style á eftir til að fá mér hamborgara. Hamborgararnir og frönskurnar þar er með því besta sem gerist. Get samt ómögulega ákveðið fyrirfram hvernig borgarinn á að vera.

Nú eru snillingarnir á þinginu að hnakkrífast í sjónvarpinu mínu. Eiginlega kæri ég mig ekkert um það. Held að það verði bara skítugra á eftir. Undarlegt að halda svona dauðahaldi í fáránlega umræðuhefð. Skrifstofustjórinn þar er búinn að gefast upp á því að skipta sér af hvernig þingmennirnir eru klæddir. Sennilega verða þeir bráðum allsnaktir. Þá verður kannski þess virði að horfa á þá í sjónvarpinu svona einu sinni. Annars heyri ég varla suðið í þeim. Þetta eru sömu frasarnir endurteknir aftur og aftur. Alþingi var sennilega skemmtilegra þegar hægt var að fara í ræðustólinn og lesa úr bók yfir þingmönnunum (eða stólunum þeirra) og biðja þingforsetann um að gæta þess að enginn kæmist í ræðustólinn meðan skroppið væri á klósettið.

Alþjóðlegi klósettdagurinn var víst í gær. Og ég sem hélt að það væri alþjóðlegi þvottahúsdagurinn eða alþjóðlegi ruslafötudagurinn. Gott að maður fékk að vita það svona eftirá, því annars hefði maður getað freistast til að fara oftar á klósettið en manni er hollt. Hvað um það, mér finnst samt óþarfi að birta óralöng klósettvídeó í tilefni dagsins.

Þegar ég sit flötum beinum í baðkarinu og spyrni í endann á því, finnst mér eðlilegra að hafa vinstri fótinn örlítið boginn. Þetta finnst mér benda til þess að vinstri fótleggurinn sé örlítið lengri en hinn. Hinsvegar þarf ég ef vel á að vera að vera að vera í þunnum sokk á hægri fæti og örlítið þykkari á þeim vinstri þegar ég fer í strigaskóna fyrir morgungönguna sem ég fer í flesta morgna. Þetta bendir til þess að vinstri fóturinn sé örlítið minni en sá hægri, en ég hefði haldið að lengd og stærð færu saman þarna. Þegar maður er kominn á gönguferðarskrið og orðinn svolítið heitur er það einkum tvenns konar hraði sem maður getur verið á. Ég kalla þá mismunandi hraða þægindahraða og áreynsluhraða. Áreynsluhraðanum er aðeins hægt að halda til lengdar með einbeitingu og jú, auðvitað hefur maður líka yfir endasprettshraða að ráða en hann notar maður helst ekki. Þægindahraði minn er svona 14 en áreynsluhraði líklega um 11,5. Þarna er ég að tala um mínútur per kílómeter eins og Caledos gerir.

Lýðræðinu stafar mikil hætta af auðræðinu segir Þráinn Bertelsson. Þessu er ég alveg sammála og minni bara á að þó auðræðið breytist í tímans rás er eðli þess samt við sig. Áður fyrr hafði auðræðið augljóst vald yfir stjórnmálunum í landinu. Það vald er ekki eins augljóst núna þó LÍÚ hafi sitt málgagn og sé nýbúið að skipta um nafn. Valdið er enn til staðar og ástæðan fyrir því að slaknað hefur á taumnum sem peningarnir hafa á stjórnmálamönnunum er vegna þess að ekki er álitin þörf á því lengur. Peningarnir og peningamennirnir ráða því sem þeir vilja með eða án vilja stjórnmálafólksins. Þetta mun ekki breytast fyrr en alþýða þessa lands tekur sér það vald sem hún á með réttu. Annars er þetta bara ómerkilegur kommúnistaáróður eins og Sjálfstæðisflokkurinn yrði fljótur að álykta um, ef þess þyrfti.

IMG 1895Gult laufblað.


2249 - Svíþjóð

Í Svíþjóð er mér sagt að sé maður í fangelsi, sem brýtur ævinlega stóra gluggarúðu í einhverjum banka um leið og hann er látinn laus svo lögreglan á ekki annars úrkosti en að setja hann inn aftur. Auðvitað er þetta skiljanlegt og fleiri ættu að taka þetta upp. Bankar eru eins og allir vita undirrót alls ills. Þeir sanka að sér peningum, búa þá til ef ekki vill betur og sjá um að safna þeim á sem allra fæstar hendur. Vitanlega sjá þeir ekki sjálfir um að mergsjúga og þrautpína allan almenning (nema á Íslandi), heldur styðja þeir ætíð með ráðum og dáð þá sem það gera.

En þó allir vita að allt hið illa í heiminum sé bönkunum að kenna eru þeir alltaf látnir í friði. Menn telja þá jafnvel nauðsynlega og ríkisstjórnir keppast um það hver um aðra þvera að koma þeim til hjálpar, þegar þeir setja sjálfa sig á hausinn, því græðgin er ótakmörkuð.

Hvernig á þessu stendur er ein af mestu ráðgátum heimsins. Auðvitað eru ríkisstjórnir almennt ekki fulltrúar fólksins frekar en skíturinn á götunum, en ekki þyrfti nema að ýta við einum smábanka með litla ríkisstjórnarfingrinum, þegar næsta bóla ríður yfir til þess að hann og allir hans félagar og kollegar kolféllu. Sú ríkisstjórn sem það gerði gæti þá að sjálfsögðu verið viss um endurkjör.

Vitanlega er þetta svolítið orðum aukið, en samt er það svo a.m.k. hér á Íslandi að bankar og bankastjórar ráða alltof miklu. Ef þeim væri gert skylt að starfa eftir nákvæmum og sanngjörnum reglum gætu þeir engum skaða valdið. Það er semsagt Alþingi sem hefur brugðist í þessu eins og svo mörgu öðru. Samt kjósum við alltaf sömu hottintottana aftur og aftur sama hverslags gloríur þeir gera. Líklega eru kjósendur bara svona vitlausir.

Auðvelt er að setja svona lagað saman, en hverju skilar það? Það að skrifa vel er ekki bara að hrúga ókvæðisorðum saman og bölva sem mest. Það sem skrifað er þarf að eiga einhvern samhljóm með lesandanum. Þessvegna er það sem svona margir skrifa nútildags, en eflaust hafa þeir flestir einkum áhrif á sjálfa sig. Vitaskuld dugar það alveg, ef nógu margir skrifa. Flestir skrifa þó svo lítið og um svo ómerkilega hluti að ekki er hægt að telja það með. Niðurstaðan er semsagt sú að alltof fáir láta ljós sitt skína. Margt smátt gerir eitt stórt. Í útlandinu skeði það eitt sinn að spegilgljáandi leikskrá var notuð til að drepa dómarann í knattspyrnuleik með því að allir beindu sólargeislanum að honum. Tólf þúsund bjartar sólir eru nefnilega hættulegar.

IMG 1894Eden.


2248 - Um tölvur

Nú er ég eiginlega kominn í stjórnmálalegt stuð. Hvort Hanna Birna segir af sér eða ekki skiptir í rauninni engu máli. Stjórnarsinnar vilja ekkert fremur en að við hugsum sem fastast um það mál. Á meðan geta þeir stolið eins og þeir eru langir til. Það mál sem mig langar til að fá upplýsingar um er stóra lánið sem Seðlabankinn veitti Kaupþingsbanka í aðdraganda Hrunsins.

Eina skýringin sem ég hef heyrt um það mál er að Geir vilji ekki að segulband sem af símtalinu er til, verði gert almenningi aðgengilegt. Mér finnst það bara ekki skipta neinu andskotans máli. Ef við vitum ekki hvernig það mál gekk fyrir sig þá vitum við ekki nokkurn skapaðan hlut um Hrunið. Við eigum alls ekki að láta stjórnmálaflokkana komast upp með að halda þessu leyndu.

Gallinn við svokallaða stjórnarandstöðu er sá að hún hefur ekkert úthald. Um leið og búið er að minnast á eitt atriði er vaðið í það næsta. Það er óhætt að segja að það sé eingöngu tveimur blaðamönnum á DV að þakka að hamrað hefur verið á Hönnu Birnu málinu í meira en ár. Afglöpin eru fleiri. Af hverju ekki að einbeita sér að einhverju ákveðnu máli og fylgja því fast eftir?

Eru fjölmiðlarnir gjörsamlega ónýtir í þessu tilliti? Svo virðist vera. Allir eru uppteknir við að líta sem skást út á fésbókinni, bæði fjölmiðlamenn og aðrir, og mega ekki vera að neinu öðru. Einmitt núna, þegar allir geta látið ljós sitt skína, þá skín ekki nokkurt fjandans ljós. Fjölmiðlarnir og fésbókin starfa af miklum heilindum sem ljósaslökkvarar. En er það hlutverk þeirra? Það held ég ekki.

Einu sinni fékk ég laun fyrir að fara að fyrirmælum tölvu. Reyndar gleymdi ég að telja þau laun fram til skatts og fékk bágt fyrir. Þetta var þegar heimsmeistaramót í skák fyrir tölvuforrit var haldið hér í Háskólanum í Reykjavík. Sum forritin voru nefnilega munaðarlaus. Núorðið er það viðurkennt af öllum að tölvur séu mun betri en mannfólkið í skák. Svo var ekki einu sinni. Þá kunnu tölvur ekki einföldustu grundvallarreglur í endatafli. Það er búið að lagfæra núna. Einhver maður sem ætti að hafa vit á því hélt því fram um daginn að eftir svona 5 til 10 ár mundu hugsandi tölvur komast að þeirri niðurstöðu að best væri að útrýma mannfólkinu. Enginn efast um að þær gætu það auðveldlega. Fyrirtæki í „AI-bransanum keppast samt við að fullyrða að engin hætta sé á ferðum. Öryggið sé alveg 100%. Ég held að öryggið sé ekki nærri svo mikið og útrýming mannkynsins geti hæglega dregist lengur en í 10 ár. Nútímamenning byggist nær eingöngu á tölvum. Hugsun þeirra fer óðum fram. Það er alls ekki ólíklegt (jafnvel sennilegt) að innan skamms muni þær komast að þeirri niðurstöðu að mannkynið sé allsstaðar til óþurftar. Og þá verður engin þörf að spyrja að leikslokum.

Ég er að vona að eftir að ég er dauður, þá verði einhver til þess að velja skástu og tímalaustustu blogg-greinarnar mínar og gefa þær út á bók. Rafbók að sjálfsögðu. Ég er nefnilega svo sjálfmiðaður að ég held endilega að hægt væri að setja þær skysamlega saman, svo þær yrðu bóktækar. Slík útgáfa þyrfti ekki að kosta mikið. Auk þess vanda ég mig dálítið við skrifin. A.m.k. stundum.

IMG 1892Sævar Ciesielski.


2247 - Hanna Birna einu sinni enn

Ég þykist alltaf vera voða vel að mér í tæknilegum málefnum þegar ég skrifa hér á bloggið. Sannleikurinn er samt sá að ég finn mjög til vanmáttar míns í þeim efnum. Ráðið til þess að vera eins og einhver expert í því öllu saman er að skrifa bara um það, sem svo vel vill til, að maður þekkir sæmilega (helst af eigin reynslu) og láta eins og allt annað skipti litlu sem engu máli.

Það sem mest hefur hrjáð mig í allnokkur ár er visst jafnvægisleysi. Í sumar átti ég t.d. í vandræðum með að standa lengi á annarri löppinni. Svo rammt kvað að þessu að ég þurfi að styðja mig við vegg á hverjum morgni til að komast í buxurnar. Að þetta skyldi alveg snarbatna við að ég hef undanfarið stundað gönguferðir á morgnana kom mér með öllu á óvart. Bráðum er ég líka búinn að léttast um ein 20 kíló og óhætt er að segja að allir smákvillar sem hrjáð hafa mig að undanförnu séu með öllu horfnir. Auðvitað er þetta ekki allt gönguferðunum einum að þakka heldur borða ég bæði hollari mat nú um stundir og mun minna af honum. En gönguferðirnar og útiveran eru áreiðanlega hluti af þessu. Get ekki annað en mælt eindregið með þessu. Þetta er enginn vandi.

Hanna Birna kemst varla í gegnum þetta eins og aðra stórsjói sem komið hafa. Vissulega hefur hún níu líf eins og kötturinn. En röðin kemur óneitalega að níunda lífinu að lokum. Sennilega er hún nánast búin að tryggja sér stuðning SDG og Bjarna við sína útgáfu af atburðum. Réttara er auðvitað að segja að hún hafi platað þá. Auðvitað sér hún eftir þessu öllu og pólitísku lífi hennar er lokið, en hún segir ekki af sér ráðherradómi úr þessu ef hún sér einhvern möguleika á að halda áfram. Samt eru allar líkur á að vantraustlillaga verði flutt og jafnvel samþykkt. Það sem mér finnst að allir bíði eftir núna er skýrsla umboðsmanns alþingis.

Merkilegt að Jack Daniels skuli vera að eyða púðri á Pál Vilhjálmsson moggabloggara og meðreiðarsvein Doddssonar. Fyrir löngu er hann orðinn með öllu ómarktækur í mínum huga. Auðvitað á Jack Daniels nóg af svörtu púðri en samt  finnst mér athugandi að eyða því á verðugri andstæðinga. Páll Vilhjálmsson getur reynt að styðja frú Hönnu Birnu í baráttu sinni fyrir áframhaldandi ráðherfudómi, en það er með öllu vonlaust verk. Hún finnur ætíð uppá nýjum afglöpum. Samt þorir Bjarni Ben. ekki annað en að styðja hana því hann óttast reiði Doddssonar, sem gerir óspart grín að tillögum hans til stjórnunar sjálfgræðisflokksins. Þetta er nú bara minn túkall í stjórnmálalegu tilliti.

Kannski ég setji þetta bara upp núna, það er hvort eð er orðið langt síðan ég hef bloggað, muni ég rétt.

IMG 1891Steinar.


2246 - Styrmir Gunnarsson

Stundum þegar ég fletti fésbókinni og skoða myndir þar finnst mér merkileg hve mikill introvert og durtur ég hef oftast verið í mínu lífi. Það segir þó afar lítið um hvernig mér hefur liðið oftast nær. Besservisseraheilknnið hefur samt verið nokkuð ríkt í mér því mér blandast ekki hugur um að ég hef viljað stjórna öllu og þóst hafa vit á öllum sköpuðum hlutum. Þetta olli mér þó ekki miklum vandræðum, en kannski hefur verið erfitt að starfa með mér. Það er þó ekki fyrr nú á efri árum sem ég er almennilega farinn að gera mér grein fyrir þessu.

Stjórnmál hér á ísa köldu landi þykja mér oftast nær heldur grunnfærin og ég er ekki frá því að t.d. sumum Alþingismönnum þyki það einnig. Ástæðan fyrir uppgangi sjálfstæðiflokksins hér á landi er aðdáun þeirra og sleikjuháttur gagnvart öllu sem amerískt er, en þó einkum bandarískt og frjálslynt getur talist. Þeir trúa því jafnvel að republikanar séu frjálslyndari en demókratar.

Ég tek undir með Styrmi Gunnarssyni að ekki þýðir fyrir þá fóstbræður Bjarna og Sigmund að láta eins og þeir einir viti alla skapaða hluti, en allir aðrir séu bara vitleysingar. Þannig ganga hlutirnir ekki fyrir sig. Ef næstum óþekktur fyrrverandi blaðamaður getur í gegnum fésbókina og hugsanlega aðra samfélagsmiðla fengið 4500 manns (eða fleiri) til að safnast saman á Austurvelli til að mótmæla ríkisstjórninni, þá er eitthvað stórkostlegt að. Ekki gætu fóstbræðurnir (Bjarni og Simmi) það. Og svo flytja framsóknarmenn bara tillögu um að taka skipulagsmálin af Reykvíkingum af því þeir fóru svo illa útúr samstarfinu við flugvallarvini. Held að þessum vesalingum sé ekki sjálfrátt.

Mér sýnist það vera einn maður sem heimtar áskriftargjald á Herðubreið. Karl Th. Birgisson. Kannski er það eðlilegt. Hugsanlegt er að hann geri ekkert annað en að skrifa í Herðubreið. Þá veitir honum varla af salti í grautinn. Nema hann sé kominn á eftirlaun eins og ég.

Héraðsfréttablöðin eru mun skemmtilegri aflestrar en dagblöðin. Þau eru satt að segja hrútleiðinleg. Altsvo dagblöðin. Sama er að segja um netblöðin, fésbókina og jafnvel bloggið, sem ég hef þó talsvert álit á. Dag- og netblöðin gera lítið annað en fjargviðrast um pólitísk mál, sem allir eru að sjálfsögðu hundleiðir á og svona til uppfyllingar eru þýddar hryllingsfréttir úr útlendum blöðum og reynt að láta þær líta sem mest út fyrir að vera íslenskar, þó kannski sé ekki logið beinlínis.

Mikið varð ég hissa eitt sinn þegar ég var lítill. Einn félagi minn, sem ég man ekki lengur hver var, hafði komið heim til mín með mér og af einhverjum ástæðum fórum við inn í gegnum þvottahúsið. Hugsanlega hefur þetta samt verið þegar við áttum heima vesturfrá eins og við kölluðum það alltaf. Ekki man ég eftir neinu þvottahúsi þar að vísu, en það er ekkert aðalatriði í þessari frásögn. Mamma var búin að verða sér úti um þónokkurn slatta af rabbarbara og hefur vafalaust ætlað að gera úr honum sultu eins og hún var vön. Mig langaði í rabbarbara og þessi félagi minn vildi það gjarnan líka. Við spurðum því mömmu að því hvort hann mætti ekki fá líka. Hún sagði það alveg sjálfsagt.

„Mikið er mamma þín góð“, sagði þessi félagi minn þá og við það varð ég alveg standandi hlessa. Var það virkilega hugsanlegt að aðrar mömmur hefðu ekki gert það sama? Mér fannst það ótrúlegt, en við þetta stækkaði heimurinn mjög í mínum huga og ég er ekki viss um að ég hafi litið þennan félaga minn réttu auga lengi á eftir.

IMG 1882Málverkasýning á Edensreitnum.


2245 - Ja, men ikke í ramme för

Einkenni Íslenskra efnahagsmála er einstakur stöðugleiki, segir Bjarni Benediktsson. Og hann ætti nú að vita það. Sjálfur fjáransráðherrann. Já, ég hef orðið var við þetta. Hér dettur ekki nokkur maður. Það er sama hve hvasst er, enginn dettur. Menn halla sér kannski svolítið uppí vindinn, en það dettur enginn. Nú... Ha... Hvað segirðu? Átti hann ekki við svoleiðis stöðugleika? Nú, er það þannig? Já, ég hef orðið var við það líka. Einkum ef tímabilin eru stutt. Það varð til dæmis engin kollsteypa í efnahagsmálum í gær svo ég muni eftir. Það er jafnvel hugsanlegt að það verði engin á morgun heldur.

Þetta með klukkuna er áhugavert. Hef lengi haft talsverðan áhuga á þessu. Man vel eftir því þegar hætt var ruglinu með sumartímann. (Daylight saving time.) Hald mann þá var að aðrar þjóðir mundu hætta þessari vitleysu og arfi frá stríðsárunum fljótlega. Engin spurnig er að þetta er ákaflega óhentugt og dýrt. Íslendingar vildu verða fyrstir til í þessu tilfelli eins og í mörgum öðrum. Þeir stóðu, eða fannst þeir standa, frammi fyrir tveimur möguleikum. Annað hvort þyrfti að festa klukkuna við vetrartímann eða sumartímann. Af einhverjum ástæðum varð sumartíminn fyrir valinu þó hann væri ekki í eins góðu sambandi við hnattstöðuna og vetrartíminn. Ekki veit ég gjörla hvers vegna það var, en grunar að það hafi verið til þess að hafa meiri birtu seinni partinn. Kannski til að geta grillað á kvöldin, en þó held ég að sú tíska hafi ekki verið skollin á þá.

Er þeirrar skoðunar að mjög vafasamt sé að breyta þessu aftur. Líklegt er að það yrði upphafið að algjöru tímarugli, Nóg er ruglið á öðrum sviðum. Jafnvel dilkasviðum. Að þessi ósköp skuli vera helsta baráttumál Bjartrar Framtíðar nægir til þess að ég hika mjög við að kjósa þann bræðing. Nei, þá eru Píratarnir nú skárri. Þeir gera sér a.m.k. grein fyrir því að internetið og öll hin nýtískulega tækni nútímans, breytir ótrúlega mörgu í hugsunarhætti fólks. Annars er það dálítið biluð hugsun að breyta mælitækinu, ef það hentar ekki alveg.

Hundurinn var kallaður „saadan noget“. Og hann týndist. Unga stúlkan sem átti hann var allsnakin í sólbaði þegar hún uppgötvaði það. Hún greip í fljótheitum spegil (eða það sem hún áleit vera spegil) og setti fyrir versta stað. Síðan hljóp hún til að leita að hundinum. Hún hitti nágranna sinn og sagði:
„Har De set saadan noget?“
„Ja, men ikke í ramme för.“

IMG 1869Hér eru sauðirnir skildir frá höfrunum.


2244 - Mengun og læknaverkfall

Það er að vísu fyrirséð að núverandi stjórn kolfellur í næstu kosningum. Ekki er samt hægt að sjá með nokkurri vissu núna hvað muni taka við. Þó Sigmundur Davíð hafi að vísu talað niður til mótmælenda og sýnt sinn venjulega hroka og yfirgang hafði hann rétt fyrir sér að því leyti að mótmælin á mánudag voru fremur ómarkviss, en fjölmenn og í raun vel skipulögð. Fátt bendir þó til þess að núverandi ríkisstjórn verði komið frá áður en kjörtímabilinu lýkur eða að hún bæti ráð sitt að nokkru marki. Málefni hennar eru þó mörg í algjöru uppnámi. Sumt hefur hún samt gert ágætlega því er allsekki hægt að neita.

Greinilegt er að ýmis óáran hrjáir okkur Íslendinga um þessar mundir. Nú vantar okkur bara ebólu svo allt sé fullkomnað. Hættulega mengun, læknaverkfall og ebólu væri ekki dónalegt að hafa á sama tíma. Samt mundu fjölmiðlar tala um byssur, ef þeim væri sagt það. Menn mega ekkert vera að því að tala um smámuni eins og hvort einhver ráðherra segir af sér eða ekki. Þetta er einmitt það sem Hanna Birna treysti á. Þó hefur hún varla nógu hægt um sig.

Af hverju heitir ebóla annars e-bóla. Er þetta einskonar elektrónistur sjúkdómur og dreifist hann kannski með e-mail? Ekki held ég það nú. En kemur þetta kannski í staðinn fyrir stóru bólu? Kúabólu kannski eða hlaupabólu? Skilst að þetta komi aðallega úr villidýrakjöti og af öpum séstaklega. Annars las ég í gær byrjun á bók um að ebólan væri eitt allsherjar samsæri. Þátttakendur í því samsæri áttu að vera Bandaríkjastjórn og stóru og ríku lyfjafyrirtækin í heiminum. Gott ef rauði krossinn átti ekki að vera samsekur. Ég sel þetta nú ekki dýrara en ég fékk það.

Leiðinleg þess andskotans frekja í fésbókinni. Ég fer varla þangað inn (sem venjulega gerist samt oft á dag) svo ég sé ekki spurður allskyns spurninga og reynt að láta mig líta út fyrir að vera framúrskarandi ófélagslyndan ef ég svara þeim ekki. Vinsamlega hættið þessum fjára. Ekki gerir Moggabloggið þetta og blöskrar þó mörgum að Doddson sjálfur skuli yfir það settur.

Helst var á forstjóra Landhelgisgæslunnar að skilja að byssuklúðrið allt saman væri blaðamönnum og bloggurum að kenna. Nú væru Norðmenn komnir í vandræði og það væri allt þeim að kenna. Hefðu þeir ekki farið að blaðra um þessar byssur þá hefði Gæslan fengið þær ókeypis og getað gefið ríkilögreglustjóranum slatta af þeim. Nú væri búið að eyðilegga það.

IMG 1866Dyr á lofthýsi.


2243 - Grafskrift

Mér virðist einsýnt að vinsældir ríkisstjórnarinnar muni fara enn minnkandi á næstu vikum. Vonbrigði einhverra með lánaleiðréttinguna munu valda þar einhverju um. Einnig er greinilegt að stjórnmálaáhugi almennings fer vaxandi og kröfurnar til stjórnmálamanna sömuleiðis. Þessi vetur getur vel orðið okkur Íslendingum erfiður. Um væntanlegt veðurfar veit ég þó nákvæmlega ekki neitt.

Fór á mótmælafund á Austurvelli í dag. Karl Garðarsson sagði mér (ja, svona óbeint) að fara þangað. Ekki fer ég samt nærri alltaf eftir því sem framsóknarmenn segja. Eiginlega helst ekki. Sá flokkur hefur spillst mjög að undanförnu. Sigmundur Davíð verður sennilega banabiti hans.

Las í gærkvöldi stutta ókeypis bók á Kyndlinum mínum sem dásamaði mjög hollustu gönguferða. Að vísu var í þessari bók rætt nokkuð líka um iljanudd og heita steina, sem ég hef ekki alveg eins mikla trú á, en á hollustu gönguferða og útiveru hverskonar get ég vel fallist. Hef reynt það undanfarið á sjálfum mér og get vottað að það er flestra meina bót.

Læknaverkfallið veldur sívaxandi vandræðum, þó ég geti kannski ekki fallist á þörfina fyrir daglegar fréttir af því í öllum fjölmiðlum. Nýútskrifaðir læknar eru næstum allir í þeirri öfundsverðu aðstöðu að geta gengið fyrirhafnarlaust inn í miklu betur launuð störf erlendis. Held ekki að þeir séu sú hálaunastétt sem þeir eru oft álitnir.

Grafskrift gæti þetta ljóð sem best verið nefnt. Kannski heitir það einmitt eitthvað svoleiðis. Hef heldur ekki hugmynd um eftir hvern þetta er, en ég hreifst allavega af því þegar ég las það fyrst. Enska er orðin okkur Íslendingum svo töm, að líklega er með öllu óþarfi að reyna að þýða þetta:

Do not stand at my grave and weep;
I am not there, I do not sleep
I am a thousand winds that blow.
I am that diamond glints on snow.
I am the sunlight on ripened grain.
I am the gentle autumn rain.
When you awaken in the morning´s hush
I am the swift uplifting rush
Of quiet birds in circled flight.
I am the soft stars that shine at night
Do not stand at my grave and cry;
I am not there. I did not die.

IMG 1863Aflraunir, eða eitthvað.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband