2243 - Grafskrift

Mér virðist einsýnt að vinsældir ríkisstjórnarinnar muni fara enn minnkandi á næstu vikum. Vonbrigði einhverra með lánaleiðréttinguna munu valda þar einhverju um. Einnig er greinilegt að stjórnmálaáhugi almennings fer vaxandi og kröfurnar til stjórnmálamanna sömuleiðis. Þessi vetur getur vel orðið okkur Íslendingum erfiður. Um væntanlegt veðurfar veit ég þó nákvæmlega ekki neitt.

Fór á mótmælafund á Austurvelli í dag. Karl Garðarsson sagði mér (ja, svona óbeint) að fara þangað. Ekki fer ég samt nærri alltaf eftir því sem framsóknarmenn segja. Eiginlega helst ekki. Sá flokkur hefur spillst mjög að undanförnu. Sigmundur Davíð verður sennilega banabiti hans.

Las í gærkvöldi stutta ókeypis bók á Kyndlinum mínum sem dásamaði mjög hollustu gönguferða. Að vísu var í þessari bók rætt nokkuð líka um iljanudd og heita steina, sem ég hef ekki alveg eins mikla trú á, en á hollustu gönguferða og útiveru hverskonar get ég vel fallist. Hef reynt það undanfarið á sjálfum mér og get vottað að það er flestra meina bót.

Læknaverkfallið veldur sívaxandi vandræðum, þó ég geti kannski ekki fallist á þörfina fyrir daglegar fréttir af því í öllum fjölmiðlum. Nýútskrifaðir læknar eru næstum allir í þeirri öfundsverðu aðstöðu að geta gengið fyrirhafnarlaust inn í miklu betur launuð störf erlendis. Held ekki að þeir séu sú hálaunastétt sem þeir eru oft álitnir.

Grafskrift gæti þetta ljóð sem best verið nefnt. Kannski heitir það einmitt eitthvað svoleiðis. Hef heldur ekki hugmynd um eftir hvern þetta er, en ég hreifst allavega af því þegar ég las það fyrst. Enska er orðin okkur Íslendingum svo töm, að líklega er með öllu óþarfi að reyna að þýða þetta:

Do not stand at my grave and weep;
I am not there, I do not sleep
I am a thousand winds that blow.
I am that diamond glints on snow.
I am the sunlight on ripened grain.
I am the gentle autumn rain.
When you awaken in the morning´s hush
I am the swift uplifting rush
Of quiet birds in circled flight.
I am the soft stars that shine at night
Do not stand at my grave and cry;
I am not there. I did not die.

IMG 1863Aflraunir, eða eitthvað.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Höfundurinn var Mary Elizabeth Frye (1905-2004), bandarísk húsmóðir, og hafði víst ekki fengist við ljóðagerð fyrr en hún orti þetta 1932. Ljóðið var ekki prentað fyrr en 1995, en breiddist út, fyrst gegnum fjölskyldutengsl, en svo æ víðar og hefur lengi verið flutt við jarðarfarir

Það sló mig að kannast svo vel við þetta, en vita ekkert meira. Þannig að spurði mína kæru vinkonu, Wikipediu.

Jón Daníelsson 4.11.2014 kl. 01:39

2 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Stundum ertu bara svo flottur minn kæri að maður næstum tárast.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 4.11.2014 kl. 10:27

3 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Jón minn Daníelsson. Þetta er eflaust alveg rétt hjá þér. Og ég sé núna að þetta um höfundinn hefði að sjálfsögðu átt að fylgja ljóðinu.

Sæmundur Bjarnason, 4.11.2014 kl. 13:10

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk, Ásthildur.

Sæmundur Bjarnason, 4.11.2014 kl. 13:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband