2248 - Um tölvur

Nú er ég eiginlega kominn í stjórnmálalegt stuð. Hvort Hanna Birna segir af sér eða ekki skiptir í rauninni engu máli. Stjórnarsinnar vilja ekkert fremur en að við hugsum sem fastast um það mál. Á meðan geta þeir stolið eins og þeir eru langir til. Það mál sem mig langar til að fá upplýsingar um er stóra lánið sem Seðlabankinn veitti Kaupþingsbanka í aðdraganda Hrunsins.

Eina skýringin sem ég hef heyrt um það mál er að Geir vilji ekki að segulband sem af símtalinu er til, verði gert almenningi aðgengilegt. Mér finnst það bara ekki skipta neinu andskotans máli. Ef við vitum ekki hvernig það mál gekk fyrir sig þá vitum við ekki nokkurn skapaðan hlut um Hrunið. Við eigum alls ekki að láta stjórnmálaflokkana komast upp með að halda þessu leyndu.

Gallinn við svokallaða stjórnarandstöðu er sá að hún hefur ekkert úthald. Um leið og búið er að minnast á eitt atriði er vaðið í það næsta. Það er óhætt að segja að það sé eingöngu tveimur blaðamönnum á DV að þakka að hamrað hefur verið á Hönnu Birnu málinu í meira en ár. Afglöpin eru fleiri. Af hverju ekki að einbeita sér að einhverju ákveðnu máli og fylgja því fast eftir?

Eru fjölmiðlarnir gjörsamlega ónýtir í þessu tilliti? Svo virðist vera. Allir eru uppteknir við að líta sem skást út á fésbókinni, bæði fjölmiðlamenn og aðrir, og mega ekki vera að neinu öðru. Einmitt núna, þegar allir geta látið ljós sitt skína, þá skín ekki nokkurt fjandans ljós. Fjölmiðlarnir og fésbókin starfa af miklum heilindum sem ljósaslökkvarar. En er það hlutverk þeirra? Það held ég ekki.

Einu sinni fékk ég laun fyrir að fara að fyrirmælum tölvu. Reyndar gleymdi ég að telja þau laun fram til skatts og fékk bágt fyrir. Þetta var þegar heimsmeistaramót í skák fyrir tölvuforrit var haldið hér í Háskólanum í Reykjavík. Sum forritin voru nefnilega munaðarlaus. Núorðið er það viðurkennt af öllum að tölvur séu mun betri en mannfólkið í skák. Svo var ekki einu sinni. Þá kunnu tölvur ekki einföldustu grundvallarreglur í endatafli. Það er búið að lagfæra núna. Einhver maður sem ætti að hafa vit á því hélt því fram um daginn að eftir svona 5 til 10 ár mundu hugsandi tölvur komast að þeirri niðurstöðu að best væri að útrýma mannfólkinu. Enginn efast um að þær gætu það auðveldlega. Fyrirtæki í „AI-bransanum keppast samt við að fullyrða að engin hætta sé á ferðum. Öryggið sé alveg 100%. Ég held að öryggið sé ekki nærri svo mikið og útrýming mannkynsins geti hæglega dregist lengur en í 10 ár. Nútímamenning byggist nær eingöngu á tölvum. Hugsun þeirra fer óðum fram. Það er alls ekki ólíklegt (jafnvel sennilegt) að innan skamms muni þær komast að þeirri niðurstöðu að mannkynið sé allsstaðar til óþurftar. Og þá verður engin þörf að spyrja að leikslokum.

Ég er að vona að eftir að ég er dauður, þá verði einhver til þess að velja skástu og tímalaustustu blogg-greinarnar mínar og gefa þær út á bók. Rafbók að sjálfsögðu. Ég er nefnilega svo sjálfmiðaður að ég held endilega að hægt væri að setja þær skysamlega saman, svo þær yrðu bóktækar. Slík útgáfa þyrfti ekki að kosta mikið. Auk þess vanda ég mig dálítið við skrifin. A.m.k. stundum.

IMG 1892Sævar Ciesielski.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband