2232 - Kaldur kjarnasamruni

Nú er komið nýtt „kaldasamrunamál“ á kreik. Í eitt skipti fyrir öll á að leysa orkumál heimsins. Efið sem þessu fylgir er ansi stórt. Ég get ómögulega fallist á þær skýringar sem gefnar hafa verið. En þeir sem áhuga hafa á þessum málum og þekkingu til að skilja þau, munu að sjálfsögðu fylgjast vel með. Ef það er rétt sem haldið er fram þarna, getur það hæglega umbylt heiminum öllum eins og við þekkjum hann. Hræddastur er ég samt um að þetta sé tóm vitleysa eða að svo margir muni stökkva á þennan vagn að hjá nýju hruni verði ekki komist. Ekki bara hér á Íslandi, heldur víða um lönd. Þegar álverið í Straumsvík var reist á sínum tíma var það á síðasta séns. Kjarnorkan var í þann veginn að taka yfir. Svo sögðu a.m.k. vísir menn.

Sjálfstæðismenn eru enn í þeirri afneitun að fyrir utan ógnina erlendis frá hafi það verið pólitískt plott sem kom hinni vonlausu Haarde-stjórn frá völdum. Sjálfstæðisflokkurinn hafði hamast við það árum saman að láta allt hér reka á reiðnum. Fyrst var treyst á framsóknarflokkinn en þegar hann gat ekki lengur halað inn nógu mörg atkvæði (Vantaði Sigmund Davíð – mundi einhver segja) þá var ákveðið að reyna við samfylkinguna. Jú, jú. Hún var til í að prófa og tilraunin var gerð. Því miður var samfylkingarfólkið engu betra en framsóknarliðið og áfram var Hrunið undirbúið.

Minnir að það hafi verið í síðasta bloggi sem ég var eitthvað að barma mér yfir því að ég tímdi ekki að kaupa bækur eða neitt annað sem ekki er hægt að éta eða gefa barnabörnunum. Margrét Rósa Sigurðardóttir hafði samband við mig á fésbókinni og bauðst til að lána mér bókina eftir Margréti Tryggvadóttir. Auðvitað þáði ég það með þökkum og þannig kom hún í veg fyrir að ég gæti haldið því fram að ég hefði aldrei neinn ávinning af bloggstarfseminni. Á bókasafninu hefði ég auðvitað getað pantað þessa bók, en það hefði væntanlega kostað.

Mér finnst í lagi að forsætisráðherra landsins láti eins og asni öðru hvoru, ef hann er eins og maður þess á milli. (Kannski er hann það þó ekki.) Sá ekki þáttinn á Stöð 2 þar sem hann var látinn kasta pílum í mynd af Jóhönnu Sigurðardóttur. Hef heldur aldrei séð þátt með Loga Eiðssyni. Man bara vel eftir pabba hans. Svona er ég nú gamall. Horfi stundum á „hraðfréttir“ og finnst Gunnar á Völlum og Benni oft meinfyndnir og finnst hraðfréttir (bæði nú og fyrr) það af og til einnig, og að ég sé ekki að svíkja aldur minn með því. Auðvitað er kjánalegt að láta peninga sem innheimtir eru af bláfátæku barnafólki jafnt og öðrum renna í svona vitleysu, og hugsun svipuð því varð frú Thatcher að falli á endanum, þrátt fyrir stríðsfrægð. Aftur á móti er ég búinn að fá nóg af spurningaþáttum og finnst þeir hundleiðinlegir, séstaklega auglýsingamennskan í lok þeirra.

IMG 1729Stríðsminjar? E.t.v. náðhús.

IMG 1736Byggt og búið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband