2238 - Margrét Tryggvadóttir

Sigkatlar á flugi. Þetta heyrðist mér þulurinn í sjónvarpinu segja áðan, en líklega var það misskilningur. Gosmálin eru svosem engin gamanmál. Einhvern vegin vantar samt alveg í mig ótta við eitrun og mengun af þessum völdum. Gott ef E-bólan er ekki mun ískyggilegri. Á margan hátt treystum við ansi mikið á hreinlæti og kunnáttu annarra. Þetta kemur einkum í ljós í baráttunni við hverskyns plágur. Kannski er munurinn á vestrænum þjóðfélögum annarsvegar og þeim sem minna eru þróuð hinsvegar hvað mestur í allskyns sóttvörnum. Vonum það að minnsta kosti.

Eitthvað eru nú lesendatölurnar að braggast, enda er ég farinn að blogga næstum daglega. Ekki veit ég samt hvort ég endist til þess lengi og auðvitað væri gaman að vera svolítið yngri en ég er. Ég fæ þó ekki breytt þeirri staðreynd að ég er fyrir rúmlega tveimur árum kominn á áttræðisaldur. Annars er aldur afstæður og ég finn það vel, að eftir að ég fór að nota reglulega „Caledos Runner“ í snjallsímanum mínum (sem ég fékk í afmælisgjöf fyrir stuttu) og fara í cirka klukkutíma kraftgöngu á næstum hverjum einasta morgni þá er ég eiginlega allt annar maður. Mér finnst lítið mál að skrifa (eða blogga) svona eina blaðsíðu á dag.

Annars má vel efast um hvort það sé rétt hjá manni að setja á blað allar (eða flestallar) hugmyndir sem maður fær. Væri ekki nær að spara þær og nota þegar tækifærin bjóðast. Nei, blogg á blaði (eða word-eftirlíkingu þess) er eitt af því sem ekki eyðist þó af sé tekið.

Ekki er ég enn búinn að lesa nema byrjunina á Útistöðum Margrétar Tryggvadóttur. Að mínum dómi er bókin alltof löng. Hún er þó ágætlega skrifuð eftir því sem ég best fæ séð og veitir eflaust dágóða innsýn í undarlega flokkadrætti Borgarahreyfingarinnar. Á sínum tíma las ég langa frásögn Margrétar af því hvers vegna hún studdi ekki Píratana hér í Kópavogi og var satt að segja ekki ákaflega imponeraður.

Jónas Kristjánsson segir að gallinn við Íslendinga sé gjarnan sá að þeir séu bara í einhverju liði pólitískt séð og samþykki allt sem þar er gert. Trúlega hefur hann mikið fyrir sér í því. Margrét vildi ekki ganga í Pírataliðið og auðvelt var að rökstyðja það. Sjálfur kaus ég Píratana og eins og sönnum Íslendingi sæmir þá er ég sammála næstum öllu sem þeir gera. End of story.

Auglýsendur keppast um þessar mundir við að auglýsa allskonar „taxfría“ vöru. Þetta er bara nýtt orð yfir það sem hingað til hefur verið kallað „afsláttur“.  Mér finnst þetta ömurlegt orð. Engum dettur held ég í hug að þeir sem auglýsa svona hafi ákveðið að svíkjast um að greiða skatt af vörunni, heldur sé hugsunin sú að upphæð afsláttarins eða minnkunin á álagningunni komi betur í ljós með þessu. Þetta grefur á vissan hátt undan eðlilegri skattheimtu og samneyslu, hugsanlega án þess að auglýsendurnir geri sér grein fyrir því. Að öllu samanlögðu fer þetta óttalega í taugarnar á mér.

Þeim fækkar óðfluga (ha, óð fluga?) sem láta svo lítið að blogga. Allir eru önnum kafnir við að læka og séra á fésbókinni. Sem betur fer er bloggið komið úr tísku, svo ég get einbeitt mér að því.

IMG 1831Steinaþró.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband