Bloggfærslur mánaðarins, október 2014

2231 - Netið og peningar

Nei, nei. Ég er ekkert hættur að blogga. Mér dettur bara ekkert í hug sem er þess virði að blogga um. Fer í svona klukkutíma morgun-kraftgöngu flesta morgna og er talsvert að léttast og mun fríkskari en ég var. Léttingin stafar auðvitað ekki bara af göngunni heldur hef ég á margan hátt annan breytt um lífsstíl. Borða t.d. alls ekki eða mjög sjaldan brauð og kökur. (bara hrökkbrauð.) Drekk allskyns heilsusafa sem eiginkonan býður mér uppá og borða næstum ekkert annað en grannmeti og átvexti milli mála. Hættur með öllu að nota sykur í kaffið o.s.frv.

Ég er ekkert snokinn fyrir því að lofa að borga peninga til hægri og vinstri. Karolina Fund er ein aðferðin . Áskrift að vefritum er önnur. Hvorug hugnast  mér. Ekki dettur mér í hug að ætlast til þess að fá eina einustu krónu fyrir þessi bloggskrif mín. Hvorki frá lesendum eða öðrum. Mér finnst bara útaf gömlum vana að allt eigi að vera ákeypis á netinu. Svo er þó ekki. Verslun öll mun á komandi árum að mestu leyti færast yfir á internetið. Auðvitað veit ég líka að þeir sem hafa frá einhverju merkilegu að segja vilja fá eitthvað fyrir sinn snúð. En ég er nú bara skítblankur ellilífeyrisþegi og vil ráða því sjálfur í hvað ég eyði peningunum.

Vissulega vildi ég gjarnan lesa það sem t.d. Margrét Tryggvadóttir, Stefán Jón Hafstein og jafnvel Jón Steinar Gunnlausson hafa að segja í bókum sínum. Líka vildi ég gjarnan gerast áskrifandi að Herðbreiðarskrifum einhverjum sem sífellt er verið að bjóða mér. Ég bara tími því ekki. Vil ráða því sjálfur í hvað ég eyði þessum fáu krónum sem ég hef til ráðstöfunar í hverjum mánuði. DV reynir líka af öllum mætti að fjölga áskrifendum sínum, en ég stend á móti því eins og ég get. Fólkið sem þar vinnur og kastljósfólkið er samt alls góðs maklegt, en mistækt er það mjög.

Svo hata ég líka sjálfstæðisflokkinn, fésbókina, Davíð Oddsson, Morgunblaðið, framsóknarflokkinn, Sigmund Davíð og aðra ráðherra eins og öllum ber víst að gera.

IMG 1715Þar sem vegurinn endar.

IMG 1719Fuglahús og annað hús.


2230 - USA

Mér finnst óþarfi að andskotast í blogginu með allskyns flokkspólitískar yfirlýsingar. Það gera samt margir. Lesa jafnvel ekki nokkurn skapaðan hlut nema með flokksgleraugun á nefinu. Það finnst mér óþarfi.

Var að enda við að lesa bók sem ég fékk ókeypis á Kyndlinum frá Amazon. Man ekki nákvæmlega hvað hún heitir, en nafnið snerist eitthvað um 32.

Í þessari bók er sagt frá sögulegri reiðhjólaferð árið 1972. Það voru 32 skátadrengir sem fóru þessa ferð frá Illinois til Miami. Leiðin var alls meira en 1200 mílur og tók uppundir mánuð. Stjórnandinn var rúmlega þrítugur en þátttakendurnir sumir allt niður í 11 ára eða svo, en flestir svona 15 til 17 ára.

Viðhorf höfundarins (sem tók þátt í ferðalaginu) eru mjög hægrisinnuð a.m.k. miðað við daginn í dag, en þetta er samt á margan hátt fjörlega skrifuð bók, og sýnir svo ekki verður um villst að bandarískum almenningi er ekki alls varnað og náttúruverndarsjónarmið eiga sér þar öruggt skjól.

Í kvöld (föstudag) og um þessa helgi, er fyrri hluti deildakeppninnar í skák haldinn í Rimaskóla. Til stóð að ég tefldi þar (fyrir UMSB að sjálfsögðu) en ekki varð úr því sem betur fer. Kem samt hugsanlega til með að taka þátt á morgun (laugardag) og jafnvel á sunnudaginn.

Nú á að selja eignir til að hægt verði að byggja Landspítala, sem mönnum kemur þó alls ekki saman um hvar eigi að vera. Einu sinni var nú Landssíminn seldur til að byggja Landsspítala, en svo kom hrun og sú fyrirætlum varð að engu. Nú er verið að efna í næsta hrun og þetta er bara ein birtingarmyndin.

Nú koma menn hver um annan þveran og segjast hafa kosið Framsókn bara vegna fávitaháttar. Í næstu kosningum mun þetta sama fólk kjósa Framsókn og gleyma fávitahættinum enda verður þá búið að finna upp einhverja nýja lygi. Því miður eru vinstri flokkarnir ekki hótinu betri. Þó Jóhanna hafi skilað lyklunum og kjör fólks batni eilítið frá því sem verst var, batnar hagur hinna ríkustu mest, enda er refirnir til þess skornir. Sjálfstæðismönnum er þó sumum vorkunn því frjálshyggja sú sem þeir boða hefur á margan hátt tekist vel í Bandaríkjunum. Hvort sú stefna hentar örsamfélagi eins og okkar, er allt annað mál. Nei, flokkapólitík er mannskemmandi.

IMG 1706Þar sem stígurinn endar.

IMG 1714Illa farin gangstétt.


2229 - Rigning, rigning, rigning

Á Moggablogginu hafa margir hætt.

Enn fleiri hafa sagst ætla að hætta.

Sumir hafa komið aftur.

Einu sinni var það vinsælasta bloggið.

En ofurbloggarar hötuðu það.

Hættu samt að vera ofurbloggarar.

Því þetta var enginn vandi.

Svo kom Facebook, eða fésbók.

Eins og eðilegast er kalla hana á því ástkæra ylhýra.

Hún er samt dálítið öðruvísi.

Þar er stundum engin leið að greina á milli

Hvort verið er að hlusta á tveggja manna tal

Eða yfirlýsingu um eitthvað

Og mikið er kjaftað þar

Undanfarna morgna hef ég stundað það að fara í gönguferðir. Á símanum mínum sem ég er nýbúinn að fá er m.a. forrit sem Caledos Runner heitir (líklega er það ókeypis app sem bætt var við eftirá) Þetta forrit er ansi sniðugt og lætur mann keppast við sjálfan sig með því að tala sífellt við mann. Á fimm mínútna fresti segir það hve langt er síðan það var sett af stað og hve marga kílómetra maður hefur farið. Í lok gönguferðarinnar er líka hægt að fá upplýsingar um allt mögulegt t.d hver meðalhraðinn hefur verið, hve margar kalóríur hafa tapast o.s.frv. Allar þessar upplýsingar er hægt að láta símann sjá um að senda beint á fésbók. Já, og auk þess er hægt að fá kort af leiðinni sem farin hefur verið og ýmislegt fleira.

Eins og allir símar nútildags er síminn minn auðvitað með myndavél og þó hún sé ekki nema 5 megapixlar eru myndirnar úr henni nokkuð góðar. Sjá meðfylgjandi mynd. Hana tók ég í rigningunni í morgun (miðvikudag). Síminn minn sendi hana beint á tölvuna mína og þaðan setti ég hana hingað. Það er sú fyrri af tveimur sem ég set inn á eftir. Já og auðvitað heldur Caledosinn áfram sinni vinnu þó verið sé að dúlla við eitthvað annað. Nýi Nokia Lumia 630 síminn kostar (ekki nema) innan við 30 þúsund.

WP 20141001 09 21 12 ProJá, þetta er bílastæðið við Borgarspítalann (sem heitir víst eitthvað allt annað í augnablikinu) og sólin hefur skyndilega brotist fram. Þessvegna er birtan svona skrýtin.

IMG 1693Hvað er þetta?


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband