Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2013
31.8.2013 | 22:08
2036 - Helguvíkurævintýri
Utarlega á Reykjanesi er verið að hamast við að búa til risavaxna húsgrind úr áli (eða stáli). Upphaflega átti þetta að verða álver, en líklega verður það aldrei. Til þess þarf að niðurgreiða orkuna og enginn er tilbúinn til þess. En hvað skyldi þá vera hægt að gera við þessi ósköp. Það er einmitt flísin sem við rís. Eitthvað verða menn að gera við þetta. Ríkisstjórnin segist vera öll af vilja gerð til að hjálpa, því líklega fengi einhver slatti af mönnum atvinnu þarna ef álverið yrði að veruleika. Veit ekki hvernig þetta endar, en sjálfur forstjóri fyrirtækisins sem stendur fyrir þessari byggingu er kominn til landsins og hefur áhyggjur af þessu. Ég líka. Ég verð bara að segja það.
Salvör Kristjana og Magnea Matthíasdóttir og einhver Ugla ræddu mikið um vísuna Dansi, dansi dúkkan mín á fésbókinni í gær. Allt var það mjög fróðlegt og ólíkt fróðlegra en jafnaðarvællinn í misheppnuðu stjórnmálamönnunum okkar. H. C. Andersen blandaðist inn í þessar umræður og ég er ekki í neinum vafa um að þær gætu allar skrifað stórfróðlega grein um þetta mál. (Gömul og hreyfanleg leikföng). Kannski gera þær það einhverntíma en a.m.k. gæti þetta orðið kveikjan að einhverju skemmtilegu.
Hvað er það sem ekki er hægt að nálgast á netinu? Ekki veit ég það. Bókaútgáfa öll með gamla laginu fer bráðum að leggjast af. Allt er sett á netið núorðið og einsog sjórinn tekur það víst lengi við. Jafnvel lengur en hann. Og tölvurnar eru öskufljótar að finna hvað sem er.
Ég er hugmyndafræðilega mjög óákveðinn. Ég get ómögulega gengið feminismanum á hönd og hendur ekki andfeminismanum. Feminisminn er að taka vinstrimennskuna yfir. Pólitísk rétthugsun er málið samkvæmt þeim. Eva Hauksdóttir er að verða helsti málsvari andfeminista að mínum dómi. Hún er ekki nærri eins agressív og illa innrætt og margir aðrir sem eru á móti feminismanum og finna honum allt til foráttu. Ekki er ég viss um að allir þeir sem kalla sig feminista séu ánægðir með að hafa Hildi Lilliendahl sem sinn helsta talsmann. Gísli Ásgeirsson er betri. Hann er þó a.m.k. fyndinn.
Þegar þetta er sett á Moggabloggið er innrás Bandaríkjamann í Sýrland e.t.v. hafin. Almennt er ég mjög á móti öllum innrásum. Hver er það ekki? Man vel eftir því að Rússum og Kínverjum fannst þeir hafa verið hálfplataðir, þegar innrásin í Líbýu var gerð. Kannski eru þeir að hefna sín núna. Athyglisverð í meira lagi eru úrslitin varðandi innrásina í breska þinginu. Þau veikja stjórninga þar verulega.
Ekki er að sjá á fréttum að margboðað óveður hafi valdið miklum skaða. Ekki var veðrið heldur neitt mjög slæmt hér í Kópavoginum. Það var að vísu svolítið hvasst seinni partinn í gær, en þá er eiginlega upptalið. Hamraborgarhátíðin var haldin í dag og ég skrapp þangað ásamt Áslaugu eftir að ég hafði skoðað nýju vinnustofuna hjá henni í Norm-Ex húsinu. Hálfkuldalegt var sölufólkið og ekki mjög fjölmennt þar svo við fórum fljótlega. Tinna var í heimsókn í dag og fór í kvöld með pabba sínum í strætó klukkan átta heimleiðis.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.8.2013 | 16:13
2035 - JBH
Það hefur verið kvartað við mig um það að erfitt sé að finna Moggabloggið á mbl.is. Satt er það að meira var það áberandi áður fyrr. Kannski maður ætti bara að temja sér að linka í vinsæla frétt í hvert sinn sem maður setur upp blogg. Ég bara nenni því ekki. Læt duga að auglýsa það á fésbókinni. Einu sinni reyndi ég það og skrifaði gjarnan einhverja klásúlu um frétt sem ég fann á mbl.is áður en ég sendi bloggið frá mér en svo hætti ég því. Mér finnst að ég eigi einn að ráða því hvað ég skrifa um á blogginu mínu.
Finnst að ekki þurfi að refsa JBH enn og aftur fyrir eitthvað sem hann setti á blað fyrir löngu síðan. Sjálfsagt var það óviðeigandi en hver hefur svosem tandurhreinar hugsanir? Ef hann hefði hinsvegar gert eitthvað meira en setja hugsanir sínar á blað þá hefði það verið annað mál. Já, en hann gerði einmitt meira. Hann sendi þessi skrif sín saklausu barni. Eru þessi saklausu börn ekki sífellt að stelast til að skoða það á netinu sem þau ættu ekki að skoða? Heilagleiki Háskólans er ekki slíkur að hann eigi að hafa lögregluvald og Hildur Lilliendal ekki heldur. JBH er mjög breiskur maður og viðurkennir það sjálfur. Getum við ekki látið þar við sitja? Mér finnst líka óþarfi að starta hundeltingu núna á öllum lifandi fangavörðum við útrýmingarbúðir nasista í stríðinu. Nær hefði verið að gera það fyrr.
Finnst ekki sniðugt að þurfa að horfa á Braga Kristjónsson í hverri viku hreinsa horinn vandlega úr nefinu á sér og stinga honum svo í vasann eftir að hafa vafið klút utan um hann. Annars er hann margfróður og hefur gaman af að stríða Agli, sem á það alveg skilið. Hinsvegar er bókin sem Hrafn frændi hans tók saman um hann nýlega alveg hundleiðinleg. Gafst upp á henni um daginn og nennti ómögulega að lesa hana alla.
Kjarninn bregst ekki. Fjölbreyttur og vel skrifaður. Þetta er eitthvað fyrir mig. Maður á víst von á einhverju svona á hverjum fimmtudegi í vetur. Ég hlakka til. Ég hljóp nú bara yfir efnið í nýjasta eintakinu svona í fyrstu atrennu. Á eftir að lesa þetta næstum allt miklu betur. Myndirnar og skýringarmyndirnar bæta heilmiklu við og auglýsingarnar er fljótlegt að leiða hjá sér. Sé framá að næstu fimmtudagar fara einkum í það að lesa Kjarnann og svo að ná í ávexti og þessháttar hjá Sullenberger. Það er ágæt hugmynd hjá honum að hafa afslátt á vissum vörum á vissum dögum. Satt að segja fer ég flesta fimmtudaga í Kost.
Hvernig er það annars, eru engar undirskriftasafnanir í gangi núna? Mér finnst svo gaman að skrifa undir og svo langt síðan að ég gerði það síðast að mér finnst vanta eitthvað þannig. Minnir að ég hafi síðast skrifað undir áskorun um að hætta að hygla LÍÚ sérstaklega. Það er svo spennandi að fylgjast með því hvernig gengur og svo eru túlkanir manna eftirá oft bráðskemmtilegar. Eiginlega ættu undirskriftasafnanir alltaf að vera í gangi. Ef þær væru nógu margar ættu allir að geta fundið undirskriftasöfnun við sitt hæfi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
28.8.2013 | 21:44
2034 - Sumar á Sýrlandi
Nú eru Bandaríkjamenn að undirbúa enn eina innrásina. Mér líst illa á það. Er ekki arabiska vorið allt runnið undan rifjum Kanans og aðallega til að draga athyglina frá framferði Ísraela? Segi bara sona. Eflaust eru einhverjir sem hugsa svona. Óljós hugtök eins og heimspressan og alþjóðasamfélagið eru mikið notuð þessa dagana.
Það skiptir engu máli hver beitir efnavopnum, segir utanríkisráðherra. Þessu á maður víst að trúa. Ég fer að hallast að því að ráðherrann sé helvítis asni. Verst að það getur skipt mig og þig máli hver er utanríkisráðherra. Einkum ef hann heitir Gunnar Bragi Sveinsson. Einu sinni man ég eftir að hann kvartaði yfir því að blaðamenn spyrðu sig sjaldan að einhverju þó hann væri þingflokksformaður framsóknarflokksins. Kannski er skýringuna þarna að finna. Ekki veit ég samt af hverju þeirri dúsu var troðið uppí hann að gera hann að þingflokksformanni. Það hefnir sín greinilega núna.
Einu sinni sá ég (alveg óvart) videómynd af heimspressunni eins og hún lagði sig. Þá voru fréttahaukar samankomnir með Sony-camerur í þéttum hnapp einhversstaðar á Balkanskaganum og einn sneri sér við og tók ógleymanlega mynd af þeim sem voru að hamast við að taka myndir af venjulegu fólki sem skyndilega hafði orðið að flóttamönnum. Nei, það er ekki hlæjandi að þessu. Það er lítill hópur manna sem leggur sig í stöðuga hættu og æðir fram og aftur um heiminn. Nú er þeir allir á Sýrlandi, enda er sumar þar.
Allir bíða í ofvæni eftir hretinu fyrir norðan. Ætli það komi nokkuð. Hver verður þá skammaður? Var þetta ekki allt Veðurstofunni að kenna í fyrra? Lambagreyin sem ekki drepast í væntanlegu hreti verða svo étin um jólin.
Að loknu þessu kjörtímabili (eða fyrr) mun einhverskonar vinstri stjórn að líkindum taka við. Sú stjórn mun sennilega (a.m.k. hugsanlega) taka að nýju upp viðræður við ESB og halda þeim áfram þar til samningur næst. Sá samningur verður hugsanlega samþykktur í þjóðaratkvæðagreiðslu. Fari svo verður engum einum hægt að þakka jafnmikið inngönguna og Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, einfaldlega vegna þess að hann þorir ekki að nota meirihlutann á alþingi til að samþykkja viðræðuslit. Eða er hann kannski ekki viss um að sá meirihluti sé fyrir hendi. Þetta var stjórnmálapæling dagsins.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
27.8.2013 | 12:46
2033 - Anna ber af öllum
Anna ber af öllum
og ætti að búa í höllum.
hjá henni vil ég vera
og vefja hana örmum bera
væta hana tittlingstári
tvöhundruð sinnum á ári.
Sennilega hef ég birt þessa vísu áður. Jú það er alveg rétt í nóvember árið 2008 hef ég verið með vísnablogg og ef einhver hefur áhuga er hægt að nálgast það hér. http://saemi7.blog.is/blog/saemi7/entry/706770/ Man að þegar ég heyrði þessa vísu fyrst fór ég undireins að reikna vikumeðaltalið (sem er í kringum 4) svo ég ályktaði að vísuhöfundur áliti það hæfilegan samfarafjölda. Annars er þetta ágæt vísa. Ég er dálítið slæmur með það að finnast allar vísur vera klámvísur ef mögulegt er að skilja þær þannig. Eitt sinn var birt í Velvakanda Morgunblaðsins eftirfarandi vísa og sá sem var Velvakandi í það skiptið var ekki betur vakandi en svo að hann áleit þetta vera skákvísu.
Sátu tvö að tafli þar
tafls óvön í sóknum.
Aftur á bak og áfram var
einum leikið hróknum.
Einhversstaðar las ég að langflestar vel gerðar íslenskar vísur væru annaðhvort klámvísur eða hestavísur. Þetta kann vel að vera rétt og minnir mig á vísuna alkunnu sem er svona:
Það er sem ég þrái mest
og þyrfti að fá mér bráðum.
Góða konu og góðan hest
og geta riðið báðum.
Annars eru flestar vísur sem ortar eru núorðið andskotans bull. Þessvegna er ég að mestu leyti búinn að missa áhugann á þeim. Sjálfur er ég ekki barnanna bestur að þessu leyti. Set stundum saman vísur sem eru svosem engar vísur bara rím, stuðlar, höfuðstafir, kveður, hrynjandi og vísuorð sem raðað er saman eftir vissum reglum. Verst er að sumir yrkja eingöngu þannig. Ef hrynjandin, sem er mikilvægust, er í lagi og ekkert annað, er vel hægt að kalla þetta að stafla og getur verið alveg bráðfyndið.
Þetta blogg er með öllu pólitíkurlaust og ekki vitund verra fyrir það.
Búið er víst að reka Óskar Helga Helgason af Moggablogginu. Ég veit afar lítið um þetta mál en skilst að DV hafi einnhvað skrifað um það. Hann á að hafa skorað á fólk að berja alþingismenn og ég er ekkert hræddur um sjálfan mig. Minnist þess ekki að hafa skorað á lesendur að berja einn eða neinn. Auðvitað er ég samt oft gagnrýninn, en held að ég passi mig sæmilega. Annars er ég ekkert á móti því að Morgunblaðsmenn setji einhverjar reglur um hvað segja megi á þeirra svæði á netinu. Óskar hefur viðurkennt að hafa skorað á fólk að berja alþingismenn og þessvegna sýnist mér hann réttrækur héðan. Allt þarf að hafa einhver takmörk og vel er hægt að skiptast á skoðunum án þess að hóta barsmíðum.
Vonandi heldur hann þó enn réttinum til þess að koma með athugasemdir hér. Þær eru oft hressilegar mjög.
Ein mesta breytingin sem verður þegar maður hættir með öllu að vinna og gerist gamall er hvað maður er fáum mikilvægur. Fram að þeim tíma er maður sífellt að reyna að sannfæra sjálfan sig og aðra um mikilvægi sitt. Í gegnum starf sitt reyna margir að telja sér trú um að þeir séu óviðkomandi fólki ákaflega mikilvægir og tekst það oft. Eftir að hætt er að vinna er það ekki hægt og þessvegna gerast menn oft hundgamlir á stuttum tíma. Afkomendurnir hafa sitt eigið líf til að lifa. Þó þeir gömlu séu hættir allri vinnu og flækist aðallega fyrir geta þeir þó haldið áfram að vera þeim mikilvægir.
Hægt er að halda áfram á þessari braut endalaust en ég nenni því ekki. Þetta blogg er orðið nógu langt svo ég er að hugsa um að henda því upp. Best að gá að mynd sem gæti fylgt því.
Kaffitími.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.8.2013 | 10:42
2032 - Jórunn mannvitsbrekka
Menn gera það gjarnan ef þeir geta. Að skrifa og skrifa og skrifa. Mest er það meiningarlítið bull sem fáir hafa áhuga á. Innanum slæðist samt alltaf öðru hvoru eitthvað sem veigur er í. Ekki get ég þó skrifað þannig. Mér finnst ég alltaf þurfa að skrifa um eitthvað sem hugsanlegt er að aðrir en ég hafi áhuga á líka. En er ekki allt þannig? Er nokkuð svo ómerkilegt að enginn hafi áhuga á því? Er ekki samhengið, þráðurinn og meiningin allt svo samofið að það skipti mestu máli hvernig skrifað er? Minna máli hugsanlega hvað skrifað er um. Mér finnst það. Ekki er það allt saman stórmerkilegt sem ég skrifa um. Ég er að hugsa um að byrja að æfa mig á að skrifa um lítilvæga hluti. Eflaust finnst mörgum það skipta litlu máli hvor Jórunn Ketilsdóttir var á söguöld kölluð mannvitsbrekka eða manvitsbrekka og af hverju það orð var dregið. Samt er ég að hugsa um að fjölyrða nokkuð um það orð.
Talsverðar umræður hafa orðið um það á orðhenglingum og sýnist sitt hverjum. Orðhengillinn er á fésbókinni og til þess að komast á hann er nóg að skrifa orðhengillinn í efstu línuna þar. Ekki ætla ég að endurtaka allt sem þar stendur, en
Svo segir í Eyrbyggju:
Ketill flatnefur hét einn ágætur hersir í Noregi. Hann var sonur Bjarnar bunu Grímssonar hersis úr Sogni. Ketill var kvongaður. Hann átti Yngveldi, dóttur Ketils veðurs hersis af Raumaríki. Björn og Helgi hétu synir þeirra en dætur þeirra voru þær Auður hin djúpúðga, Þórunn hyrna og Jórunn mannvitsbrekka.
Það er síðasta orðið þarna sem hefur valdið mér nokkrum heilabrotum. Nú er þetta einkum notað í neikvæðri merkingu með neitandi orði á undan. Svo hefur þó áreiðanlega ekki alltaf verið. Umdeilanlegt er í fyrsta lagi hvað orðið þýðir nákvæmlega og í öðru lagi hvort réttara sé að skrifa það með einu n-i eða tveimur. Mín orð í þessu sambandi ber að taka með mikilli varúð. Þetta eru bara hugleiðingar sem styðjast ekki við neitt ákveðið.
Vilborg Davíðsdóttir hefur skrifað tvær bækur um Auði djúpúðgu. Ég hef nýlokið við að lesa seinni bókina og þá er hún ekki enn lögð af stað til Íslands þó hún sé að velta því fyrir sér að fara þangað. Trilogia verður þetta áreiðanlega og hefur slík sería oft verið skrifuð um ómerkara efni.
Vilborg segir í bréfi til mín að hún hafi lesið tvær greinar um uppruna þessa viðurnefnis. Í annarri var því haldið fram að brekka í þessu tilfelli væri dregið af að brjóta vit manna með fegurð sinni.
Mér finnst merkingin á mannviti skipta mestu máli þarna. Jón G. Friðjónsson heldur því fram að merkingin sé sú sama og hugvit. Því er ég ekki sammála og tel frekar að það merki visku. Sumir tala líka um ambáttir, írskar konur o.s.frv. Endalaust má um þetta deila og orð mín hér eru meira svona til skýringar á minni afstöðu.
Þetta er nú orðið langt mál um fremur lítið efni en ég get ekki látið hjá líða að minnast aðeins á pólitík. Þó stundum sé hún leiðinleg er hún á margan hátt mín uppáhaldstík.
Sjálfstæðismenn bera ábyrgð á Vigdísi Hauksdóttur til jafns við Framsóknarmenn. Hún hótaði starfsmönnum RUV og yfir þann skít verður ekki rótað. Meira hef ég ekki um formann fjárveitinganefndar alþingis að segja að þessu sinni en áskil mér allan rétt til að telja hana langt til hægri við framsóknarflokkinn (og sjálfstæðisflokkinn reyndar líka) á mínu pólitíska litrófi, þó sumir álíti hana með allra merkustu stjórnmálamönnum samtímans.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
24.8.2013 | 23:28
2031 - Kjarninn.is
Það er margt athyglisvert í nýja tímaritinu kjarninn.is. Hugleiðingin hér á eftir um netsjálfið kviknaði t.d. eftir lestur greinar þar. Upplýsingar þær sem lúta að framferði stjórnar Sparisjóðs Keflavíkur eru þegar farnar að valda úlfúð. Bandaríkjastjórn fær heldur ekki neitt sérstaklega vinsamlega meðhöndlun hjá ritinu. Ég vil bara hvetja sem flesta til að kynna sér það sem skrifað er í þetta rit. Það gæti vel orðið með því merkasta sem finnanlegt er á netinu. Blaðamenn vita oft ýmislegt. Segja kannski ekki frá því og eru kannski innst inni talsvert vinstri sinnaðir.
Jónas Kristjánsson hefur hingað til verið mín skyldulesning á netinu. Eyjan stundum einnig og einkum þá Egill Helgason. Kannski verður Kjarninn það með tímanum líka. Yfirleitt hefur það haft öfug áhrif á mig ef einhver hefur haldið því fram að grein (sem ég hef ekki lesið) væri skyldulesning. Einkum forðast ég slíkar greinar ef þær eru mér óaðgengilegar í Morgunblaðinu eða DV. Þessi blöð virðast enn ganga útfrá því að áskrift sé lausnarorðið. Stríðið milli netmiðlanna, fríblaðanna og áskriftarblaðanna er löngu búið. Netmiðlarnir unnu frækinn sigur þar. Að menn skuli enn ekki hafa gert sér grein fyrir því er stórfurðulegt.
Hver á þitt stafræna sjálf? Já, hver á tölvupóstinn þinn og myndirnar sem þú hefur tekið? Að ég tali nú ekki um allt sem þú hefur bloggað, ef þú hefur gert þig sekan um slíkt athæfi. Þetta er vandamál sem sífellt er að verða mikilvægara. Hingað til hefur það verið álitið augljóst að eftirlifandi ættingjar ættu allt sem hinum láta tilheyrði. En er það svo? Hvað verður um öll þau spor sem skilin eru eftir á netinu? Það getur jafnvel skipt máli hvað þú hefur lækað á fésbókinni eða skoðað á Internetinu og hvenær. Allt er hægt að grafa upp ef áhugi er fyrir hendi. Netlíf einstaklinga (og fyrirtækja og stjórnvalda) verður í auknum mæli viðfangsefni sagnfræðinga framtíðarinnar. Kunnátta í notkun netsins verður þeim sífellt mikilvægari.
Sumar ríkisstjórnir hugsa til kjörtímabilsins alls. Allsekki lengra. Sumar ríkisstjórnir hugsa til ákaflega skammst tíma og satt að segja virðist núverandi ríkisstjórn ekki síður vera því marki brennd en þær síðustu. Ef kjör ellilífeyrisþega verða ekki bætt í nóvember n.k. eða fyrr og einhver markverður áfangi næst ekki fljótlega í skuldaleiðréttingarmálunum þá er hætt við að líf þessarar ríkisstjórnar verði í styttra lagi og langtímasjónarmið með öllu óþörf. Í staðinn fyrir að læra að veifa með konunglegum hætti ætti Simmi að vinda að því bráðan bug að koma undirsátum sínum (ráðherrunum) til verka. Ekki veitir af því margt þarf að gera.
Ætli hraðahindranir séu ekki það sem mest slítur þeim bílum núorðið sem halda sig á mabilki? Ein slík hefur nú séð dagsins ljós fyrir utan gluggann minn. Ef ég lít upp úr þessu skrifelsi mínu þá sé ég að vissulega hægja bílstjórarnir talsvert á sér þegar þeir sjá þessi ósköp. Nú er Auðbrekkan semsagt ekki lengur hraðahindranalaus og ég er feginn því. Það eru nefnilega svo margir sem fara hraðar en ég. Auðvitað finnst mér þeir fara alltof hratt.
Hér á heimilinu er á flækingi bók sem heitir Veruleiki draumanna. Í mínum huga eru draumar tvenns konar. Annars vegar eru dagdraumar eða ímyndanir sem maður ræður yfir að einhverju (mestu) leyti. Hinsvegar er um að ræða raunverulega drauma sem koma til manns í svefni og maður ræður oftast engu um. Þeir fyrrnefndu eru nauðsynlegir (í hófi) því hvernig á maður að ná einhverjum árangri án þess að láta sig dreyma um að hann verði enn meiri. Þeir síðarnefndu gleymast oft nema þeir séu annaðhvort skrifaðir niður eða sagðir öðrum. Semsagt rifjaðir upp.
Nú er menningarnóttinni að ljúka. Hún hefur staðið í allan dag en þyrfti ef vel ætti að vera að standa yfir frá föstudegi til sunnudags. Vitanlega spilar veðrið stóra rullu, en hvað er betra en að rölta um bæinn og vera séfellt boðið eitthvað sem manni hafði ekki dottið í hug.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.8.2013 | 22:35
2030 - Óbermið hann Óbama
Athyglisvert er það sem DV segir um Vigdísi Hauksdóttur. Hún hótaði RUV bara óvart og meinti ekkert með því. Þetta er satt að segja ekki mjög sannfærandi. Hún er óhæf til að gegna því embætti sem Framsóknarflokkurinn hefur ætlast til af henni. Sigmundur Davíð þarf að losa sig við hana til að verða sjálfur tekinn alvarlega. Það er ekki nóg að hafa komið í veg fyrir að hún yrði ráðherra. Sennilega er hún líka óhæfur þingmaður. Það er margt sem bendir til þess. Ég hef ekki fjölyrt mikið um Vigdísi hingað til en nú tekur steininn úr. Það er ekki hægt að hóta með þessum hætti. Ef hún kann ekki betur en þetta að fela eigin hugrenningar þá er þetta ekki starf fyrir hana. Svo einfalt er það.
Kvart Framsóknarflokksins og kvein um óþæga fjölmiðla er ekki til þess fallið að auka samúð með þeim. Eðli alvöru fjölmiðla er að vera á móti ríkjandi stjórnvöldum á hverjum tíma. Séu þeir það ekki eru þeir stórgallaðir og mjög eðlilegt er að gera ráð fyrir þöggun eða mútum. Hvorttveggja er þó oft líklegast. Svo sterkt getur ritstjórnarvald samt orðið að fréttafólk leggi meira uppúr trúnaði sínum við ritstjórann en stjórnvöld. Ég nefni engin nöfn en Morgunblaðið kemur óneitanlega upp í hugann. Samt er það alveg ágætt á mörgum sviðum. Hrunfréttir þar er samt lítið að marka. Jafnvel eru blaðamenn þar ekkert skárri en kollegar þeirra á DV hvað það snertir, þó auðvitað séu áherslurnar aðrar.
Ég er búinn að vera undanfarna viku í fríi í Ölfusborgum og veðrið hefur verið í heildina sæmilegt, þó dálítið hafi rignt. Það er ágætt að vera þar og fljótlegt að skreppa í bæinn ef þörf krefur. Næst á dagskránni er stutt ferð til Ítalíu en þó ekki alveg strax. Nú þarf ég að drífa mig í að koma þessi á Moggabloggið svo fólk haldi ekki að ég sé alveg dauður.
Listaverk eftir konuna mína er í Bankastræti og blasir ágætlega við ef farið er frá Lækjartorgi upp Bankastræti (vinstra megin). Það er Arion-banki sem stendur fyrir þessu svo greinilega er þeim ekki alls varnað.
Dómurinn yfir Bradley Manning er hneyksli. Bandaríkjastjórn er án nokkurs vafa orðin mesta Stóra Bróður-stjórnin í heiminum. Pútín Rússlandsforseti kemst ekki með tærnar þar sem óbermið hann Óbama hefur hælana. Margt gott má auðvitað um bandarískt þjóðlíf segja en í mannréttindamálum er bandaríska ríkisstjórnin alveg úti að skíta. Undarlegast af öllu er að henni virðist samt hafa tekist að múlbinda alla helstu fjölmiðlamenn þessa forysturíkis um frelsi í heiminum. Þjóðremban þar er orðin slík að búast má við sprengingu fyrr en síðar. Þeir hafa að vísu mun meiri rembuástæðu en Sigmundur en öllu má ofgera.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
16.8.2013 | 08:02
2029 - Fuoristrada (sjá mynd)
Þorsteinn Pálsson er nú loksins búinn að jafna sig dálítið á meðferðinni sem hann fékk hjá Davíð Oddssyni og kumpánum hans þegar hann var hrakinn úr formannsstól Sjálfstæðisflokksins. Greinar hans um Skúla fógeta, Jón Sigurðsson og fleiri andans jöfra fyrri tíðar bera vott um það. Gjalmiðilsmál og innganga í ESB eru honum auðvitað talsvert hugleikin. Skrif hans um þau efni eru góðra gjalda verð og verða einkum að skoðast sem gagnrýni á stjórnarstefnuna. Ekki er samt sjáanlegt að hann sé að bila neitt sem Sjáfstæðismaður og stefna hans í málum sem tengjast ESB eru miklu meira í ætt við gömul grundvallarstefnumál Sjálfstæðisflokksins en stefna þeirra sem fyrirskipuðu fulltrúum á síðasta landsfundi flokksins að kjósa gegn ESB-aðild.
Að andstæðingar aðildar að ESB skuli geta notað áðurnefnd nöfn til stuðnings fáránlegri einangrunarkröfu sinni sýnir bara að þeir hafa komið víða við. (Altsvo jöfrarnir en ekki andstæðingarnir) Engin leið er að sjá núna hvernig þeir mundu hafa brugðist við vandamálum dagsins í dag. ESB-aðild stendur ekki og fellur með hugsanlegum stuðningi eða andstöðu Skúla fógeta og Jóns Sigurðssonar heldur hvernig stjórnmálamenn dagsins í dag haga sér og tekst að lesa í hugmyndir almennings.
Sagt er að Arkimedes hafi hlaupið allsber beint úr baði út á götu og hrópað: Hevreka, hevreka. Á nútímamáli hefði það sennilega hljómað einhvern vegin svona: Nú er ég búinn að fatta það, nú er ég búinn að fatta það. Þetta er sagt að hann hafi hrópað þegar hann var búinn að uppgötva aðferð til að komast að eðlisþyngd hluta. Kóngurinn hafði nefnilega falið honum að komast að því hvort gullkóróna sem honum hafði verið færð að gjöf væri kannski blönduð með ódýrari málmum. Lögmálið er svona: Hlutur sem settur er í vatn ryður frá sér vatni sem er nákvæmlega jafnt og rúmmál hans. Útfrá þyngd vatnsins (sem hluturinn ruddi frá sér) var síðan hægt að reikna eðlisþyngd málmblöndunnar í hlutnum. Kórónan var svikin og Arkimedes græddi mikið á þessari uppgötvun sinni. Þetta er auðskilið núna en lá alls ekki í augum uppi á dögum Arkimedesar.
Það var samt ekki allt saman alveg rétt sem Arkimedes hélt fram. (T.d. pönnukökuhugmyndin um jörðina.) Sigmundur Davíð hafði að mestu rétt fyrir sér í sambandi við Icesave. Þar með er þó ekki sagt að hann hafi alltaf rétt fyrir sér. Ég efast mikið um að hann sé fullkomnari en Arkimedes var.
Í fyrsta og eina skiptið sem ég fékk þursabit í bakið brá mér alveg rosalega. Ég gat alls ekki með nokkru móti rétt úr mér fyrir kvölum. Þetta skeði þegar ég var að lyfta einhverju smáræði sem ég man ekki lengur hvað var. Ég var ekkert ákaflega illa haldinn svo lengi sem ég hélt mig við það að vera kengboginn. Næstu daga rjátlaðist þetta svo smám saman af mér og ég held að ekkert sérstak hafi verið gert. Minningin er samt alltaf til staðar og sársaukinn jafnaðist a.m.k. á við sinadrátt í lærinu og finnst mér þá langt til jafnað.
Nú er von á enn einu dómsmáli um blogg. Páll Vilhjálmsson bloggarinn sem kallar sjálfan sig blaðamann og hamast á móti ESB verður líklega fyrir því. Ekki get ég vorkennt honum og ekki á það neinn uppruna í því að hann er andstæðrar skoðunar við mig varðandi ESB. Nei, hann kallaði fréttamann hjá RUV lygara og falsara og ekki er nema rétt að hann fái tækifæri til að sanna að það sé rétt. Hingað til hefur fréttastofa RUV haft á sér fremur gott orð og á flestan hátt mun betra en Páll þessi Vilhjálmsson.
Þetta sjálfstæðishjal í Sigmundi og Co. er mestan part blekking. Við Íslendingar erum ekki par sjálfstæðir lengur. A.m.k. er fráleitt að álíta að við séum sjálfstæðari en aðrir. Sjálfstæðishugtakið sjálft er allt öðruvísi nútildags en það var í byrjun síðustu aldar. Að ætla sér að vekja upp þjóðrembu með samskonar tali og tíðkaðist hér þá er hlægilegt. Samt er eins og núverandi stjórnarflokkum hafi tekist það að nokkru leyti í síðustu alþingiskosningum. Það er samt eingöngu vegna þess að Steingrímur og Jóhanna kunnu ekkert skárra. Ef menn eru gersneyddir því að kunna nútímalegt tungutak er ekki von að vel fari. Síðasta ríkisstjórn var með allt niðrum sig á síðustu metrunum og ákveðin í því að tapa. Það tókst og nú eru komnir nýjir herra en vandséð mjög að þeir séu nokkuð betri.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.8.2013 | 08:39
2028 - Já, það er þetta með hann Jónas
Með sífelldum hrakspám um menn og málefni getur Jónas Kristjánsson með sanni sagt þegar réttur tími er kominn: I told you so!! En sífelldir heimsendaspádómar verða leiðgjarnir til lengdar. Ég ber samt virðingu fyrir þekkingu Jónasar á innviðum íslenskt stjórnmálalífs, en finnst hann yfirleitt of neikvæður. Kannski er ég það líka. Veit það auðvitað ekki nema einhver verði til þess að benda mér á það. Nú hefur mér loksins tekist að fækka bloggfærslum mínum verulega og er það gott. Úr ótæmandi þekkingarbrunni get ég því miður ekki ausið og satt að segja finnst mér ég yfirleitt vita fremur lítið. Á margan hátt er þar af sem áður var þegar mér fannst ég vita allt. Veit ekki hvernig á þessu stendur.
Mér finnst fullmikið í lagt að krefjast afsagnar Vigdísar Hauksdóttur vegna viðtala í fjölmiðlum. Undirskriftasöfnun á netinu er komin útí hálfgerðar öfgar. Á ekki von á að ég skrifi undir áskorunina á Vigdísi. Ekki er ég þó stuðningsmaður hennar. Nam samt á Bifröst eins og hún og kaus meira að segja Framsóknarflokkinn einu sinni. Ekki oftar þó og finnst það alveg nóg. Hins vegar hlýtur Sjálfstæðisflokkurinn að bera talsverða ábyrgð á verkum hennar ekki síður en Framsóknarflokkurinn. Það er hugsanlegt að hún eigi í einhverjum vandræðum með að gera sína stefnu í ýmsum málum að stefnu ríkisstjórnarinnar. Völd til að koma sínum stefnumálum áfram hefur hún samt tvímælalaust og vissulega er það aðallega Framsóknarflokknum að kenna. Hvort stefnumál hennar eru lík stefnumálum Sigumundar Davíðs er auðvitað ekki mitt að dæma um.
Í einu eru stjórnmálamenn ótvíræðir sérfræðingar. Það er í að koma afleiðingum gerða sinna á aðra. Einnig eru þeir góðir í því að finna hugsanlegar skýringar á öllu því sem miður fer og halda sig yfirleitt við þá skýringuna sem sýnir þá í sem bestu ljósi. Síðan þarf yfirleitt sérfræðinga (stjórnmálamennina sjálfa) til að fara fara yfir málin og tekur það gjarnan mörg ár og gleymist jafnvel alveg. Almenningur er orðinn vanur þessu og gerir afar litlar kröfur til þeirra nema þá helst að þeir hafi sæmilegan talanda og séu fljótir að snúa útúr því sem þeir eru spurðir um. Svona er þetta, hefur alltaf verið og verður áfram meðan almenningur sættir sig við þetta ömurlega ástand. Því skyldum við ekki eiga kröfu á að fá sæmilega heiðarlega og sannorða stjórnmálamenn? Sjálf erum við ekkert verri en aðrir.
Já, það eru þrír símar hér á heimilinu. Og veitir ekki af. Þó erum við bara tvö. Í gamla daga vorum við sex eða átta í heimili (með pabba og mömmu) og samt var ekki álitin ástæða til að hafa síma á heimilinu m.a. vegna þess að við bjuggum ekki langt frá símstöðinni. Svona eru nú tímarnir breyttir. Enginn bíll var á heimilinu heldur, en á útvarpið var talsvert hlustað og svo dagblöð og bækur lesin upp til agna. Tímarit var vissast að fela vandlega svo þau kláruðust ekki áður en maður hafði tíma til að lesa þau.
Höfundarréttarmál eru komin í dálitla sjálfheldu einu sinni enn. Að vinsæll rithöfundur komist upp með að kalla heilan stjórnmálaflokk bófaflokk og væntanlega þá alla sem kusu hann ótínda bófa og þjófa er gráthlægilegt og sýnir vel í hvers kyns ógöngum mál þetta allt saman er. Held að Guðmundur Andri hafi reynt að draga úr ummælum sínum en það er ekki aðalatriðið. Mér finnst það blasta við að taka þurfi öll þessi mál til endurskoðunar og ástæðulaust sé með öllu að láta útgáfufyrirtæki og flokksgæðinga sem stjórna þeim ráða öllu í þessu sambandi. Að höfundarréttur sé virkur í 70 ár eftir lát höfundar er beinlínis fáránlegt. Sá eini aðili sem mér finnst tala af sæmilegri skynsemi um þessi mál er Salvör Kristjana systir Hannesar Hólmsteins og mér kemur ekkert við þó hún hafi hingað til stutt Framsóknarflokkinn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
14.8.2013 | 07:34
2027 - Hommafóbía
Ég hef dálitlar áhyggjur af þeim Gylfa Ægissyni og Guðmundi Andra. Þeir hafa nefnilega ekki að öllu leyti sömu skoðanir og ég á viðkvæmum málefnum. Og bloggheimar loga eins og sagt er. Fésheimar ætti kannski frekar að segja. Af þessu tilefni hef ég ákveðið að styðja ævinlega, ef ég mögulega get, meirihlutann. Vera semsagt eins pólitískt rétthugsandi og fræðilega er mögulegt. Skyldi nokkuð vera hægt að banna mér það? Ef ég verð (er) í vafa um rétthugsunina í einhverju máli áskil ég mér rétt til að fresta því að taka afstöðu. Samt ætla ég ekki að vera á móti ESB-aðild þó það sé greinilega minnihluta-afstaða. Það er nefnilega prinsippmál. Já, prinsippin. Ég átti alveg eftir að athuga þau.
Djöfull er það eitthvað skítt að maður skuli ekki lifa endalaust. Undarleg ósköp að deyja sagði Hannes Pétursson fyrir margt löngu. Man að þessi orð hans festust mér mjög í minni þó ungur ég væri. Hann líka ef útí það er farið. Þetta var í einhverju kvæða hans og honum var mjög hampað um þessar mundir sem verðandi stórskáldi ef ég man rétt.
Mér finnst það ágæt hugmynd hjá þeim Stígamótakonum að opna kampavínsklúbb. Þó það verði kannski bara til þess að þeir sem slíka klúbba reka finnist að þeir þurfi endilega að skipta um nafn, er vissulega betur af stað farið en heima setið. Leigubílstjórar gætu fundið uppá því að keyra þá sem vilja fara á kampavísklúbb til Stígamóta.
Fékk krampa í bensínfótinn. Sinadráttur hét það einu sinni. Mér finnst þetta óvenjulega léleg afsökun. Flestir mundu taka fótinn af bensíninu (gæti reyndar gengið illa að bremsa) ef þeir fengju krampa eða sinadrátt í löppina. En það má svosem reyna að finna uppá einhverju. En trúgjarnir mega tryggingamennirnir vera, ef þeir trúa þessari vitleysu.
Í mínum huga snýst skák fyrst og fremst um það hvort eitt peð sé nóg til sigurs eða hvort þurfi tvö til. Auðvitað getur staða verið unnin þó liðsmunur sé ekki í hag þeim sem vinnur. Einnig getur eitt peð oft dugað til sigurs, en ekki alltaf. Tvö peð gera það heldur ekki alveg alltaf, en oftast nær. Meiri liðsmunur dugar næstum alltaf til sigurs og þarf nánast ótrúlega óheppni eða klaufaskap til að klúðra slíkum yfirburðum.
Sonardóttir mín þriggja ára sagði við mig um daginn þegar ég var í frotté-náttslopp:
Af hverju ertu í þessu handklæði?
Við nánari athugun er þetta fyllilega rökrétt hjá henni. Hún hefur næstum áreiðanlega fyllstu ástæðu til að álíta að nafnið handklæði geti eins átt við efnið eins og notkunina. Svo kallar hún að vísu grjónagraut alltaf hafragraut og rennibraut rennigraut, en það er önnur saga.
Stúlka ein var á leiðinni í vist og faðir hennar sagði við hana: Gættu þess svo að láta hann Jón ekki barna þig. Hann er manna líklegastur til þess. Og þau hjónin bæði.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)