Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2013
11.8.2013 | 10:29
2026 - Deildu.net
Ég get eiginlega ekki látið hjá líða að fimbulfamba svolítið um Evrópumálin, svona í tilefni af afturköllun IPA styrkjanna. Mér finnst að ríkisstjórnin geti ekki komist upp með þessa hálfvelgju endalaust. Taka þarf ákvörðun um það hvort ESB-viðræðunum verði haldið áfram eða ekki. Sennilega verður þeim ekki haldið áfram og það er bara í góðu lagi, þó mér finnist það asnaleg ákvörðun. Ég álít að kosningarnar síðastliðið vor hafi ekki síst snúist um ESB og að þjóðin hafi í raun hafnað inngöngu. Hinsvegar er nauðsynlegt að hafa einhverja formlega afgreiðslu á málinu. Hér dugir engin hálfvelgja.
Mér er alveg sama þó Sigmund dauðlangi til að halda áfram að fá sem mesta styrki. Ákvörðun þarf að taka og það sem allra fyrst. ESB getur ekki beðið endalaust. Ef núverandi ríkisstjórn hrökklast fljótlega frá völdum, sem alveg gæti gerst, og ný tekur við standa þá yfir viðræður við ESB eða ekki? Ef alþingi treystir sér ekki til að taka á málinu þá er það einfaldlega óstarfhæft. Kannski var ákvörðunin um upphaf viðræðnanna tekin á röngum forsendum en hún var þó löglega tekin. Að velta vandamálunum svona á undan sér eins og núverandi ríkisstjórn virðist helst vilja gera gengur einfaldlega ekki. Fyrrverandi stjórn komst upp með ansi margt í því tilliti en í þessu máli er ekkert til nema af eða á.
Engin hætta er á að ESB þróist í sömu átt og Bandaríkin. Samvinna Evrópuþjóða mun ekki ná lengra en nú er. Sameiginleg mynt er toppurinn. Ekki er með neinu móti hægt að gera eina þjóð úr Evrópuþjóðunum öllum. Til þess eru þær of margar og of ólíkar og eiga sér mismunandi sögu. Sagan skiptir vissulega máli og Bandaríkjamenn tóku landið bara frá vitlausum indíánum og eiga því að mestu sömu söguna. Evrópumenn ekki. Þeir börðust löngum hver við annan og veitti ýmsum betur. Að menn skuli hafa ákveðið að hætta því er mesti sigur ESB. Sérhæfingin í öllum iðnaði og tækni og sameiginlegur markaður er það sem viðheldur sambandinu. Við Íslendingar eigum að sækjast eftir því samstarfi eins og aðrar smáþjóðir álfunnar.
Deildu.net málið er ansi heitt um þessar mundir. Vel er hægt að taka undir flest það sem rétthafar segja um málið. Áætlaðar tjónstölur þeirra eru þó alveg í skýjunum og þar af leiðir að tillögur þeirra til úrbóta eru óraunhæfar með öllu. Það hefur löngum verið þannig og mun að líkindum verða um ókomna tíð að þeir sem kunna sæmilega á tölvur og kæra sig um geta fengið það efni sem þeim sýnist og á því verði sem þeir vilja greiða fyrir það. Einnig þurfa þeir að sæta því að lagalegur réttur þeirra er vafasamur. Ef deildu.net verður lokað spretta bara upp önnur slík vefsetur í staðinn. (Ath. mætti bæði með deildu.is og deildu.com) Hvað almenning varðar frestar það bara því að raunhæfar aðgerðir sjái dagsins ljós.
Ef ég lít á ágúst-dagatalið við hliðina á blogginu mínu sýnist mér að mér sé loksins að takast það sem ég hef lengi ætlað mér. Það er að blogga bara öðru hvoru. Vera ekki bundinn við að blogga á hverjum degi eða svotil. Hingað til hefur mér fundist að ég þyrfti þess. En það er ágætt að vera ekki síbloggandi því ég fjalla mjög lítið um fréttatengd mál og pólitíkin og fjölskyldan er að mestu leyti í sumarfríi núna.
Einu sinni var haldinn hreppsnefndarfundur. Einhverjum sem mjög gjarnt var að nota orðið nefnilega var þar mjög tíðrætt um vegarspotta einn sem laga þyrfti því menn:
Nefnilega í náttmyrkri
nefnilega mættu
nefnilega nokkurri
nefnilega hættu.
Þetta er á margan hátt ágætisvísa og minnir mig á aðra sem mamma kenndi mér:
Aldrei skal ég eiga flösku
aldrei bera tóbaksskrín.
Aldrei reiða ull í tösku
aldrei drekka brennivín.
Auðvitað má nota alltaf í staðinn fyrir aldrei ef mönnum hugnast það betur.
Hér hefur tré verið misþyrmt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.8.2013 | 02:29
2025 - Hafnfirðingur sofnaði í baði
Það er svo hræðilega margt sem ég veit ekki, kann ekki og get ekki. Samt er ég einhvern vegin búinn að slampast gegnum lífið. Margt hefði svosem mátt fara betur. Þó sé ég eiginlega ekki eftir neinu. Hefði sennilega ekki getað orðið neitt annað en það sem ég á endanum varð. Gamalmenni með óstöðvandi bloggáráttu. Þó hefði mér aldrei dottið það í hug á mínum sokkabandsárum enda var ekki búið að finna bloggið upp þá. Undarlegar finnst manni samt þær tilviljanir sem ráðið hafa miklu um hvernig lífið varð. Þó getur vel verið að þetta hafi allt saman verið fyrirfram ákveðið.
Nenni ekki að pæla meira í þessu en sný mér að öðru. Einhverju sinni barst bloggnáttúra mín í tal á bekkjarsamkomu af einhverju tagi. Þá sagði einhver að hann hefði alls ekki búist við því að ég yrði helsti bloggarinn í hópnum. Sennilega átti þetta að vera hrós en það var nú svolítið beggja blands því bloggarar eru víst ekki álitnir merkilegir. Nú langar mig að vera eins og þessi bekkjarbróðir minn, sem ég get alls ekki munað hver var, og segja frá því að þegar við vorum með sultardropana á nefinu í Samkomuhúsinu í Dalsmynni og þóttumst vera að halda Lionsfundi þar þá hefði mér ekki dottið í hug að Svanur væri efni í þann úrvalsbloggara sem hann vissulega er.
Nú vilja Kínverjar kaupa Íslandsbanka eftir því sem sagt er. Eru þetta ekki einhverjir bölvaðir hrægammar? Hvernig þekkja Bjarni og Co. þá frá venjulegum hrægömmum? Vilja þeir ekki bara gleypa okkur íslensku vesalingana með húð og hári? En auðvitað eru það víst peningarnir eins og venjulega sem skipta mestu máli. Snjóhengjan er ekkert að bráðna, sumarið er svo kalt. Svo eru víst einhverjar Íslands-krónur á Litla-Hrauni sem hægt er að koma í vinnu með því að selja bankaræfilinn. Ég verð að játa að æðri fjármál skil ég ekki.
Bókin sem ég er að lesa þessa dagana er um Braga Kristjónsson þann fræga bókasafnara, lífskúnstner og sjónvarpsstjörnu og er tekin saman af Hrafni systursyni hans. Ekki var ætlunin að fara að fjölyrða um bókina hér enda er ég þess ekki umkominn. Man bara vel eftir því þegar hann var að byrja í Kiljunni hjá Agli Helgasyni og núna er hann eiginlega orðinn frægari en þátturinn sjálfur. Það er villan hjá Agli. Nú veit enginn hvor leggur upp laupana á undan þátturinn eða Bragi. Egill segist ætla að hætta með Silfrið til að einbeita sér að Kiljunni en vel getur verið að hún hafi runnið sitt skeið. Bókmenntaþáttur á samt alveg rétt á sér í sjónvarpi.
Var að lesa áðan á mjólkurfernu yfir morgungrautnum hvað það væri að vera í spólandi formi og að spól væri þýðing á enska orðinu spinning. Áður fyrr reyndi fólk (fullorðið a.m.k.) að djöflast að einhverju gagni. Nú er það ekki lengur nauðsynlegt því djöflagangurinn sjálfur er orðinn aðalatriðið. Bara að spögúlera.
Síðustu aldir hafa byrjað heldur illa fyrir okkur Íslendinga. Hjaðningavígin hafa verið með meira móti. Uppkastið svonefnda fór illa í marga í upphafi tuttugustu aldarinnar. Á endanum reyndist það okkur samt ágætlega. Bankahrunið í byrjun þeirrar tuttugustu og fyrstu var mörgum erfitt. Vonandi verður það samt á endanum til góðs. Gaman er að hafa upplifað þá upplausn sem hér hefur verið að undanförnu. Aldrei hefur samt borðið á ótta hjá mér um að allt færi á versta veg. Skynsemin verður á endanum grimmdinni yfirsterkari. Þó allt sé í heiminum hverfult er samt um framfarir að ræða.
Hafnfirðingur sofnaði í baði, er ein af aðalfyrirsögnunum á mbl.is. Auðvitað er þetta stóralvarlegt mál en spurning samt hvort það á erindi í fjölmiðla. Ef lögreglumaður segir fjölmiðlamanni eitthvað er það samstundis orðið að frétt. Veit ekki hvar þetta endar. Held að lögreglumönnum væri hollast að þegja sem allra mest.
Selvfölgeligheder, selvfölgligheder. Já, auðvitað er flest það sem sagt er sjálfsagðir hlutir. Annars væru ekki allir sammála um það. Það var þó ekki sjálfsagt að skipta heimsstyrjöldinni, sem einkenndi tuttugustu öldina, í fyrri og seinni hálfleik. Það var heldur alls ekki sjálfsagt að drepa svona marga bara til þess að þjóna lund fáeinna sérvitringa. Vonum bara að eitthvað annað en heimsstyrjaldir einkenni tuttugustu og fyrstu öldina. Hún líður nefnilega að lokum í aldanna skaut eins og aðrar á undan henni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
8.8.2013 | 21:26
2024 - Um túrbó-kapítalisma o.fl.
Eru svonefndir túrbó-kapítalistar að ganga af venjulegum kapítalistum dauðum? Það heldur Egill Helgason. Auðræði það sem herjar á Vesturlönd gæti hæglega eytt forystu þeirra í flestum málum á skömmum tíma. (Der untergang des Abendlandes) Dólgakapítalismi sá sem víða gerir sig gildandi nú um stundir er hættulegur þeim stöðugleika sem hinn vinsæli og aðlaðandi kapítalismi hefur víða komið á. Kommúnisminn eyðilagði meira en hálfa öld af þróum og framförum á þeim slóðum þar sem hann náði fótfestu. Kapítalisminn sigraði greinilega í orrustu þeirri sem háð var við hann um sálir mannanna. Kratisminn rétt slapp og gæti alveg tekið við ef kapítalismanum hlekkist á.
Fann ágæta hlaupasíðu í gær. Bjössi bróðir benti mér á hana á fésbókinni. Hún heitir: betaruns.com og hefur allt. Er eftir einhvern næringarfræðing en það skiptir engu máli. Hún er ekkert að prómóta sig eða sitt fyrirtæki nema þá á mjög óbeinan hátt. Aldrei hef ég sundað hlaup þó það sé talsvert í ættinni að gera það. Fjallgöngur stundaði ég þó um fimmtugt, en er hættur því núna. Alltaf hef ég samt haft áhuga á langhlaupum. Útivera er engu lík. Það þarf ekki að segja þeim sem hana hafa stundað í hverju ánægjan af henni er fólgin. Mér finnst engu máli skipta hvað stundað er útivið. Það geta verið fjallgöngur, hlaup, gönguferðir, golf eða svosem hvað sem er. Þó ég hlaupi ekki mikið finnst mér gaman að lesa hlaupasíður. Eins var það eitt sinn með veitingahúsagagnrýni Jónasar Kristjánssonar að ég las hana alveg í tætlur þó ég kunni ekki nokkurn skapaðan hlut að elda og sé algjör analfabeti í öllu sem snertir matartilbúning.
Sá einn er algjörlega laus við kynþáttafordóma sem aldrei nefnir þá á nafn. Þar með er ég víst fallinn úr þeirri kategóríu, þó ég hafi rembst eins og rjúpan við staurinn (hvaða staur?) við að stilla mig um að minnast á þá.
Nanana búbú er eitt af því sem Tinna hefur kennt mér. Eflaust er þetta leikskólamál og reyndar veit ég svosem ekkert hvað það þýðir eða hvernig á að nota það. Veit bara að það missir allan sinn magiska kraft ef það er ekki sönglað á vissan hátt. Dýr og ómálga börn taka miklu meira mark á því hvernig hlutirnir eru sagðir en nákvæmlega því sem sagt er. Þetta vita allir og sum austurlensk tungumál eru þannig að hljómfallið getur skipt alveg jafnmiklu máli og hvað er sagt. Samruni bókmáls og talmáls er oft hvað erfiðastur útaf þessu. Hægt er að segja margt með hljómfallinu einu og látbragðinu þó erfitt sé að koma orðum að því.
Áður hef ég minnst á hve gaman getur verið að rugla orðaröð. Mundi skyndilega núna áðan eftir einu vinsælu dæmi um það. Áður fyrr var oft sagt: (Við unglinga.) Hagaðu þér skikkanlega. Svo var líka vinsælt að snúa því við og segja: Skikkaðu þér haganlega. Þetta er eitt af þeim orðatiltækjum sem virðast vera alveg horfin úr málinu, enda eru víst allir hættir að skikka sér haganlega, eða þannig.
Já, ég verð að viðurkenna að þetta er fremur innihaldslítið blogg hjá mér. Svona getur samt alltaf farið þegar maður hefur vanið sig á að blogga þindarlaust. Eiginlega ætti ég að reyna að safna einhverju bitastæðu í sarpinn, en ekki senda frá mér svona aumlegt blogg.
Keflavík, Smárinn, Grundir. (Já, allri umferð er beint á Auðbrekkuna.)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.8.2013 | 08:25
2023 - Aron Aronsson
Nú er verslunarmannahelgin liðin og sumarið að verða búið. Vonandi verður haustið okkur gott. Sumarið er eiginlega ekki búið að vera það. Margt hefur samt gengið vel. Í heildina hefur veðrið alls ekki verið vont. A.m.k. ekki verra en alltaf má búast við. Kaldara og vætusamara en verið hefur undanfarin ár samt.
Mikið djöfull er gott að geta rekið við. Það er lítið mál að sætta sig við fýluna sem á eftir kemur. Hún er líka svo fljót að dreifa sér. Ef maður þarf nauðsynlega að gera það í hóp þá lítur maður vorkunnaraugum á næsta mann og segir bara: Við skulum láta eins það hafi verið ég.
Sá sem finnur upp lítið og þægilegt tæki sem getur komið i staðinn fyrir allar þær fjarstýringar sem núoðið finnast á flestum heimilum verður áreiðanlega ríkur maður. Skilst að nú í seinni tíð sé reynt að koma þessu í snjallsímana, en hugsanlega er það ekki það sniðugasta. Snjallsíminn fylgir yfirleitt eiganda sínum, en margir fleiri gætu t.d. þurft að horfa á sjónvarpið.
Merkilegt með mannanöfn. Einu sinni var allt fullt af Reynirum. (Eða á maður kannski að segja Reynum) Nú rekst maður kannski á eina og eina Reynisdóttir eða Reynisson en aftur á móti er allt vaðandi í Aronum og varla hægt að þverfóta fyrir þeim. Sérstaklega er þetta slæmt í fótboltanum. Ekki ætla ég samt að skipta um nafn. Heiti bara Ólafur Ragnar og er ánægður með það. Allavega er enginn annar forseti sem heitir það.
Nú er bara farið að verða dimmt á nóttunni. Taldi sjálfum mér trú um að ekki lægi á að laga ljósið hér í herberginu. Hingað til hefur það aðallega valdið því (ollið eða ollað) að ég þarf að fara með fyrra fallinu að sofa. Þegar ég vakna er venjulega orðið skellibjart.Nú lenti ég afturámóti í því að verða andvaka um miðja nótt og það er ekki einu sinni lampi í herberginu. Götuljósin virka samt alveg og svo kemur heilmikil birta frá tölvuræksninu.
Það er af sem áður var. Nú er hærisinnaðasta fólkið yngra en áður. Hægri sinnaðasta fólkið er það yngsta. Það eru gamlingjarnir sem eru róttækastir. Þeir vilja umbylta öllu. Unga fólkið kýs öryggið fyrir sig og sína. Áður fyrr var þetta ekki svona. Þeir elstu vildu engu breyta. Voru íhaldssamari en andskotinn. Ef gera átti byltingu var það gert með öfugum klónum, samanber Bjart í Sumarhúsum. Dóri í Laxnesi gerði líka stólpagrín að honum. Grínagtugustu persónurnar sem hann skapaði voru samt Þormóður Kolbrúnarskáld og Þorgeir Hávarsson. Nú er ég að komast á jarðsprengjusvæði, svo það er best að fara að þegja.
Margir vilja meina að Samfylkingin hafi í raun lagt sjálfa sig niður með því að bregðast ekki á neitt hátt við þegar auljóst var að hennar biði mikill ósigur í kosningum þeim fram fóru á Íslandi síðastliðið vor. Sú er ekki raunin. Ég á fastlega von á þvi að gamla Samfylkingin muni ná sér á strik aftur. Hvort það verður strax í næstu kosningum eða kannski eitthvað seinna get ég ekki sagt um. Það fer líka eftir því hvenær framsóknarflokkurinn sér og skilur að hlutverki hans í ísleskum stjórnmálum er endanlega lokið. Ég er ekki í neinum vafa um að þessi Sigmundardýrkun sem núna heldur framsóknarflokknum saman muni dala mjög á næstunni. Sjálfgræðisflokkurinn mun bjarga sér á hundasundi aftur með skipinu og kannski taka saman við leyfarnar af vinstri grænum og samfylkingunni.
Allt er vænt sem vel er grænt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.8.2013 | 00:27
2022 - Enn um Vesturfara
Sennilega lesa bloggarar ekki mikið blogg eftir aðra. Þykist þó hafa tekið eftir því (miðað við athugasemdirnar) að þónokkuð margir málsmetandi bloggarar lesi bloggið mitt. Ekki veit ég af hverju það er. Og þó. Kannski er það vegna þess að ég blogga frekar mikið um blogg. Eða kannski það sé vegna þess.... ég þori varla að nefna það.... að þeim finnist ég skrifa svona vel. Jæja, nú er ég búinn að segja það. Það var ekki nærri eins erfitt og ég hafði haldið. Það er gott að vera búinn að því. Nú mega menn segja, alveg eftir geðþótta, að ég sé innbilskur og hégómagjarn. Ekkert fær snert við mér. Sjálfsálitið þarf svolítið að temja. Ekki er samt gott að vera með öllu laus við það. Hvort maður viðurkennir það svo fyrir sjálfum sér og öðrum, það er annað mál.
Þá get ég áhyggjulaust snúið mér að einhverju öðru.
Er Internetið hinn nýji raunveruleiki? Ekki er laust við að manni finnist sumir álíta það. Það er helsti félagi þess, sem enga félaga á. Það er huggun þess, sem enginn vill sinna. Það er andleg næring þess sem hungrar og þyrstir eftir slíku. Það er tilbúinn veruleiki sem algjörlega er skapaður af manninum og þessvegna laus við alla þá galla sem alheimurinn er fullur af. Líka er það bara spegilmynd af veruleikanum. Það er sá veruleiki sem allir nálgast á sama eða svipaðan hátt. Gerir heldur engan greinarmun á ríkum og fátækum. Hef þá skoðun að þeir sem á annað borð hafa ánetjast því, láti það ganga fyrir flestu. Það er erfitt að vera án þess lengi. Fráhvarfseinkennin geta verið sterk.
Það er hægt að halda svona endalaust áfram. Ég ætla samt ekki að gera það. Aðallega vegna þess að ég get það ekki. En svona taka menn oft til orða. Hætt er við að sá sem lítið veit noti o.s.frv. í óhófi. Það er heldur engin synd að þykjast gáfaðri en maður er.
Eitt af stefnumálum núverandi ríkisstjórnar er að leggja allt eftirlit niður. Kannski er þetta fulldjúpt í árinni tekið hjá mér. Vel getur verið að eitthvað eftirlit verði eftir. T.d. eftirlit með þvi að menn pissi ekki í skóinn sinn úti á götu. Sumir hafa sagt að Hrunið hafi stafað af eftirlitsleysi. Það getur varla verið því eftirlitsleysið sparar svo margar krónur og er svo vinsælt. Hægt er ganga af öllu framtaki dauðu með of miklu eftirliti. Er þá ekki bara sjálfsagt að afnema það alveg? Skilst að það verði gert mjög fljótlega.
Það er svo fátt sem hægt er að eyða tímanum í að fara djúpt í. Samt væri það vel þess virði. Sumt sem haldið er fram hér á netinu er þess eðlis að vert væri að skoða það nánar. T.d. heldur Gunnar Gunnarsson því fram í athugasemd hjá Ómari Ragnarssyni að hér á Íslandi hafi nánast engin fátækt verið. Það er samt alveg öruggt að fátækt var ein af aðalástæðunum fyrir flutningum Íslendinga til Vesturheims.
Frá því ég fyrst fór að lesa frásagnir af flutningum þangað hefur það blasað við mér að fólk taldi sig neyðast til að fara frá landinu. Það var alls ekki eingöngu vegna veðurfarsins heldur var það augljóst að landið bar ekki meiri fjölda en þar var með þeim aðferðum sem notaðar voru. Hvernig átti það fólk sem fluttist út að gera sér grein fyrir að það stafaði af því að öllum verklegum framkvæmdum í landinu var haldið niðri? Seinni tíma mönnum sem höfðu samanburðinn við nágrannaþjóðirnar var þetta alveg augljóst og margir þeirra létu það í ljós.
Auðvitað verða menn seint sammála um sjónarmið, en staðreyndum verður ekki mótmælt með árangri til lengdar. Vel getur samt verið að Baldur Hermannsson hafi gengið fulllangt í umfjöllun sinni í fjötrum hugarfarsins. Það breytir því samt ekki að sú söguskoðun sem kennd hefur verið við Hriflu-Jónas er í meginatriðum röng. Vistarbandið var við lýði fram á tuttugustu öldina hvað sem skrifað var á eitthvert blað. Hef sjálfur séð bréf frá Einari Benedikssyni, skáldi og sýslumanni, þar sem hann viðurkennir það og kvittar fyrir peningagreiðslu sem amma mín greiddi honum fyrir lausamennskuleyfi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
1.8.2013 | 00:21
2021 - Ástæður Vesturferða
Það sem mér finnst vera aðalatriðið varðandi limrur er að stuttrímið sé rammandi og frumlegt. Endarímið helst líka. Samanborið við ferskeytlurnar held ég að lítið hafi verið samið af limrum og þessvegna séu svona margir að reyna sig við þær. Auðvitað er það mikið lýti á þeim ef ljóðstafirnir eru á maa og faa eins og danskurinn mundi segja.
Öfugur þríliður á hvolfi týndist í Hreppunum í gær. Finnandi vinsamlega skili honum ekki.
Örleikrit í einum þætti. (Samið eftir að horft var á ógleymanlega frétt á Stöð 2.)
A: Vá, hann flöskuskeit.
B: Nei, hann brenndi af.
A: Nú, eins gott að hann var þarna í fjörunni.
B: Hann var ekkert þar.
A: Hvar þá?
B: Á skipinu, náttúrulega.
Auðvitað skiptir máli hvernig litið er á söguna. Aðeins með því að kynna sér hana er hægt að öðlast nokkurn skilning á samtímanum. Deila hefur risið milli ESB-sinna og andstæðinga aðildar um ástæður fyrir Vesturferðum Íslendinga seint á nítjándu öldinni. Gunnar Smári Egilsson skrifaði grein í fréttablaðið eða fréttatímann og segja má að hún hafi verið upphafið. Páll Vilhjálmsson, Egill Helgason og Ómar Ragnarsson hafa síðan lagt orð í belg. Vel getur líka verið að ég hafi misst af einhverjum þáttakendum í þessari deilu.
Páll Vilhjálmsson er fulltrúi Evrópu-andstæðinga í deilunni. Hann heldur því fram að ómilt veðurfar og uppskerubrestur hafi verið aðalástæða Vesturferðanna. Íslendingar hafi alltaf verið, eins og Sigmundur forsætis segir, sjálfstæðir, samhentir og án stéttaskiptingar. Ómar Ragnarsson og fleiri halda því fram að mikil stéttaskipting hafi verið hér á landi og fátæklingar örsnauðir og hjálparvana hafi beinlínis flúið landið þegar tækifæri bauðst.
Það vill svo til að ég veit að Ómar & Co. hafa rétt fyrir sér í þessu. Nær alla tuttugustu öldina var reynt að halda því að fólki að næstum allt sem aflaga fór á umliðnum öldum væri Dönum að kenna. Sannleikurinn var þó sá að Íslendingar voru Íslendingum verstir. Stéttaskipting var gífurleg hér og fátækt mikil. Afi minn bjó við mikið hungur í uppvexti sínum og náði aldrei fullum vexti, var innan við 150 sentimetrar á hæð og öll hans systkini.
Margt hefur breyst hér eftir blessað stríðið. Segja má að lífskjör séu allgóð, þó er það svo að stéttaskipting er enn mikil, en mestan part falin. Sumir eiga nóga peninga, aðrir enga. Margir halda að þeir eigi fullt af peningum en það eru bara skuldir. Hrunið sem varð hér árið 2008 hefur skerpt línurnar að nýju. Margir vantreysta þeirri ríkisstjórn sem nýlega hefur tekið völd hér og telja að hún muni draga taum þeirra ríku og þeirra sem halda að þeir séu ríkir eða a.m.k. bjargálna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)