507. - Vísnablogg númer ég veit ekki hvað

Líklega er kominn tími á nýtt vísnablogg. Vonandi hef ég ekki birt áður þær vísur sem hér koma.

Anna ber af öllum.
Hún ætti að búa í höllum.
Hjá henni vil ég vera
og vefja hana örmum bera.
Væta hana tittlingstári
200 sinnum á ári.

Þessi er gömul og góð. Eiginlega fjandi sniðug.

Harðna tekur tíðarfar
Teresía spáir byl.
Hver sem verður tittlings var
veiti honum skjól og yl.

Það var laust eftir 1950 sem ég sá þessa vísu í gestabók í skála Skátafélags Hveragerðis í Klambragili. Nokkru fyrr hafði Teresía Guðmundsdóttir verið veðurstofustjóri Íslands og við hana er að sjálfsögðu átt í vísunni.

Mér er sem ég sjái hann Kossuth
með svipu í hendi reka hross út.
Sína gerir hann svipu upp vega
séraStefánáMosfellilega.

Einhvern tíma skrifaðist ég á við Ungverja. Hann var alveg bit á því að ég skyldi kannast við Kossuth. Það var reyndar bara útaf þessari vísu. Síðasta ljóðlínan er snilld.

Enginn grætur Íslending
einan sér og dáinn.
Þegar allt er komið í kring
kyssir torfa náinn.

Þessa þekkja flestir. En hún er ekkert verri fyrir það. Ég man ekkert hver orti þetta né um hvern það er.

Nú er hlátur nývakinn
nú er grátur tregur.
Nú er ég kátur nafni minn
nú er ég mátulegur.

Þetta er einhver frægasta drykkjuvísa Íslandssögunnar. Oft er þetta sungið af mikilli tilfinningu.

Tunnan valt og úr henni allt
ofan í djúpa keldu.
Skulfu lönd og brustu bönd
en botngjarðirnar héldu.

Keldan sem kemur við sögu í þessari vísu ku vera svokölluð biskupskelda á Leggjabrjótsleið sem liggur frá Hvalfjarðarbotni til Þingvalla.

Ég vildi ég mætti vera strá
og visna í skónum þínum.
Léttast gengirðu eflaust á
yfirsjónum mínum.

Þessa fallegu ástarvísu er sagt að Páll Ólafsson hafi ort til konu sinnar. Í þá tíð var alsiða að fólk setti heyvisk í skó sína svo þeir entust lengur.

Man ég okkar fyrsta fund
forn þó ástin réni.
Nú er eins og hundur hund
hitti á tófugreni.

Sagt er að þessi vísa sé eftir Vatnsenda-Rósu og sé ort til valdsmanns sem Rósa átti að hafa þekkt vel þegar hún var yngri.

Komdu nú að kveðast á,
kappinn ef þú þorir.
Látum ganga ljóðaskrá
ljóst þar til að vorir.

Á þennan hátt eða svipaðan var oft byrjað þegar kveðast skyldi á. Það að kveðast á var íþrótt sem mikið var stunduð áður fyrr. Ávallt skyldi næsta vísa byrja á sama staf og sú síðasta endaði. Leyfilegt var að búa vísurnar til jafnóðum og höfðu því snjallir hagyrðingar umtalsvert forskot í þessari íþrótt.

Ég hef farið margs á mis
mín er lítil saga.
Ég hef götur gjálífis
gengið alla daga.

Þessi vísa er eftir Egil Jónasson frá Húsavík og þá eru vísurnar orðnar tíu og ég hættur.

Burt með spillingarliðið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Vísan um Teresíu var mér kennd svona:

Tökin herðir tíðarfar

Teresía spáir byl.

Hver sem tittlings verður var

veiti honum skjól og yl.

Sá sem kenndi mér vísuna var Egill heitinn Jónasson verkstjóri á Höfn í Hornafirði. Vísan gæti verið eftir afa hans, Egil Jónasson á Húsavík, ekki fullyrði ég þó um það því Egill yngri kunni mikið af vísum eftir ýmsa höfunda.

Sal 11.11.2008 kl. 11:22

2 identicon

Vísan um Teresíu er örugglega rétt í Sals útgáfu. Hún er ekki rétt kveðin/stuðluð eins og Sæmundur hefur hana.

Og eina af hinum vísunum kann ég svona:

Komdu nú að kveðast á
kappinn ef þú getur.
Láttu ganga ljóðaskrá
ljóst í allan vetur.

Ef til vill breyttu menn vísunni allt eftir árstíðum. 

Kann einhver skil á þessari vísu? Ágætis réttritunaræfing, en innihaldið vafasamt:

Ég er að tálga horn í högld
hagleiksmynd er burtu sigld.
Illa felldi mig tröllið Tögld
trú´ég hún væri brúnaygld.

S.H. 11.11.2008 kl. 14:20

3 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

S.H.
Það er alveg rétt að í þriðju ljóðlínu hef ég víxlað orðum og ljóðstafasetning við það orðið röng. Í fyrstu ljóðlínu er breytt um orð en merkingin breytist lítið. Hvor útgáfan er rétt veit ég ekki, en sé ekki betur en báðar séu réttar hvað ljóðstafi snertir.
Útgáfu þína um kveðskaparvísuna hef ég heyrt og held einmitt að þetta með árstíðirnar sé alveg rétt.
Hagldavísuna man ég ekki eftir að hafa heyrt, en finnst hún dálítið torf.

Sæmundur Bjarnason, 11.11.2008 kl. 21:58

4 identicon

Ég er alveg sammála. Vísan er óttalegt torf. Hver veit nema ég hafi bætt gráu ofan á svart í upprifjun minni. Gleymum henni svo fljótt sem unnt er.
Ég tók ekki eftir að  fyrsta ljóðlínan í vísunni um Teresíu var ekki sú sama í báðum tilvikum; einblíndi svo á þriðju ljóðlínuna. Svona getur manni yfirsézt.

S.H. 12.11.2008 kl. 07:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband