Bloggfærslur mánaðarins, júní 2013

1977 - Ekki hægt að linka í neitt

Nei, ég er svosem ekkert hættur að blogga. Þið losnið ekki svo auðveldlega við mig. Hef bara haft svolítið öðrum hnöppum að hneppa undanfarna daga.

Á föstudaginn fór ég alla  leið norður á Akureyri í jarðarför. En ræðum ekki meira um það. Á laugardaginn var svo ættarmót og svo kom dóttir tengdadóttur minnar frá Bandaríkjunum á föstudagsmorguninn með tvo litla krakka, og þó þau sé alls ekki hér þá hefur þetta ásamt ýmsu öðru orðið til þess að ég hef lítið bloggað.

Í framhaldi af ættarmótinu fór ég svo að hugsa um ýmislegt í því sambandi. Eiga t.d. ættarmót jarðarfarir, fésbók og gamli sveitasíminn eitthvað sameiginlegt? Og ef svo er, þá hvað?

Markmiðið margra er að klikka, klikka og klikka sem allra mest. Já, ég er að tala um músaklikk. Kannski eru klikkin samt að verða úrelt og markmiðið að pota sem allra mest, hraðast og nákvæmast í skjáinn sjálfan. Veit ekki hvað kemur næst. Tölvan í gleraugunum, talað við tölvuna eða kannski eitthvað annað. Ef ekki er hægt að klikka með því, pota í það, sparka í það, hrópa á það eða æpa, þá er það eiginlega ómark og að engu hafandi. Bækur eru t.d. upphaflega gerðar til að lesa lesa þær. Bráðum nennir enginn að ómaka sig við þannig vitleysu. Pikk á leturborð getur kannski gengið í einhvern tíma, en skriftarkennslu í skólum veður hætt. Einhverjir kunna kannski í framtíðinni að skrifa með höndunum, en það verður álíka sjaldgæft handverk og nú er að hlaða streng.

Are you a robot? Á eftir má svo fylgja reitur sem augljóslega á að merkja í. Þetta mætti prófa að hafa á eftir t.d.blogg-greinum til að koma í veg fyrir að tölvurnar fari að tala hver við aðra í athugasemdakerfum og skilji okkur mannfólkið útundan og geri okkur óþörf. Kannski þarf eitthvað flóknara á eftir svo mannfólkið skilji hvað átt er við. Tölvurnar gera það örugglega.

Þó ljótt sé að henda mat og varasamt að borða bara til að þurfa ekki að henda honum er ekki þar með sagt að megrunarkúrar séu auðveldir. Ef svo væri mundu flestir borða eins og hestar en vera samt þvengmjóir. Megrunarkúrar byggjast á því að borða lítið. Flestir borða samt alltof mikið og það er langt frá því að vera auðvelt að hætta því. Ekki er þess lagt að bíða að tölvur stjórni öllu sem við innbyrðum. Þjáfarar og næringarráðgjafar verða að mestu óþarfir. Læknar jafnvel líka. Svonalagað verður auðvitað bara í boði fyrir þá ríku. Þannig er það alltaf. En við erum það sem betur fer. Þeir sem fátækir eru og vitlausir geta bara étið það sem úti frýs.

Nú er eitthvað umliðið frá láti Hemma Gunn og því óhætt fyrir mig að minnast á hann. Þegar ég vann uppá Stöð 2 tókum við báðir þátt í nokkrum hraðskákmótum. Þá fannst mér það dálítið hart aðgöngu að hann skyldi vera betri í skák en ég. A.m.k. vann ég hann aldrei. Mér fannst að hann hefði svo margt annað fram yfir mig að hann þyrfti ekki á því að halda.

IMG 3208Slanga. Þó ekki eiturslanga.


1976 - Grímur og gontið

Var að enda við að lesa grein um Samfylkinguna eftir Reyni Traustason. Margt finnst mér vera þar alveg rétt. Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur var svosem ekki alslæm en kom afar litlu í verk, fyrir utan að halda sæmilega í horfinu. Sem sennilega var erfitt. Eðli Framsóknarflokksins er að vera á miðjunni, lítill flokkur eða svolítið stærri eftir atvikum. Eðli Sjálfstæðisflokksins er að vera hægra aflið í stjórnmálum á landinu. Þar halda menn saman og halda með því völdum nokkuð vel. Eðli vinstri manna virðist vera að vera sundraðir. Þannig veikist afl þeirra og völdin skreppa þeim hvað eftir annað úr höndum. Auðvitað er þessi vinstri og hægri flokkun verulega úrelt og fjórflokkurinn reyndar líka, en þar eru völdin og munu halda áfram að vera. Smáflokkarnir ná ennþá síður saman en vinstri mennirnir.

Það virðist vera svo flókið að endurreikna gömlu og sviksamlegu bankalánin að líklega verður að horfa á það með miklum skilningi að bankastarfsmenn séu fleiri hér miðað við höfðatölu en annarsstaðar. Hingað til hef ég haldið að þetta stafaði af meiri þjónustu bankanna hér.

Skriðuföllum og snjóflóðum hefur hugsanlega ekki fjölgað eins mikið hér á Íslandi að undanförnu og margir virðast halda. Fréttir af slíku hafa samt stóraukist.

Í ríkisútvarpinu var sagt áðan að Sigmundur Davíð forsætisráðherra hafi átt tvíhliða viðræður við einhvern. Á undan var sagt frá viðræðum hans við utanríkisráðherra Rússlands minnir mig. Hve margra hliða voru þær? Einhliða kannski? Var verið að gefa það í skyn?

Þetta er innlegg sem ég setti á orðhengilinn á fésbókinni, að frátöldum tveimur síðustu setningunum. En það eru fáir sem villast þangað, held ég. Vilja sennilega ekki viðurkenna fyrir sjálfum sér og öðrum að þeir séu orðhenglar. Eiður Guðnason og Sigurður Hreiðar eru það nú samt. Eiður er alltaf að leiðbeina öðrum og stendur sig vel í því. Er hættur að lesa molana hans, en oftast er ég honum sammála þar. Sigurður er einnig óttalegur orðhengill en skemmtilegur samt. Hann bíður víst eftir framhaldi vísunnar um Grím sem fær (eða fékk) gontið, en Hjálmar Jónsson, fyrrum dómkirkjuprestur, var ekki lengi að leiðrétta vísuræfilinn um hann Grím. Svona er hann núna:

Nú er úti veður vont
verður allt að klessu
Vá-er sýnir veikan front
að villast svona á þessu.

Kannski er varasamt að trúa öllu. Ég trúi samt alveg DV-fréttinni um að svo heitt hafi verið í kolunum á aðalfundi hjá Krossinum að þurft hafi að kalla á lögregluna. Hægt er líklega að skoða fésbókarsíðu Gunnars Þorsteinssonar í Krossinum því hann hlýtur að segja eitthvað frá þessu þar. Mér finnst með ólíkindum að aðalfundir hjá félagi sem Krossinum skuli þurfa á lögregluvernd að halda. Er það næsta mál á dagskrá hjá húsfélaginu við Bjargráðastíg að kalla á lögregluna?

Jú, auðvitað erum við arðrænd og kúguð en reyna kúgararnir ekki að hafa okkur nægilega góð til þess að við eyðileggjum ekki bara það sem okkur er talin trú um að sé okkar eign heldur sjálf kúgunartækin. Uppreisnin í Tyrklandi kann að halda áfram og verða ríkisstjórninni þar skeinuhætt. Ég þekki samt ekkert til þarna og veit svosem ekki við hverju er að búast.

Öll sjáum við okkur í einhverju ljósi. Sjálfur sé ég mig í einhverju rithöfundarljósi. Þannig kemst ég hjá því að brjálast. Sigurður Þór Guðjónsson sér sjálfan sig í einhverskonar Þórbergsku ljósi. Þarna er ég að stríða Sigga. Tinna, uppáhalds barnabarnið mitt (eins og er a.m.k.) segir oft um mig að ég sé að stríða sér. Segir það reyndar um pabba sinn líka. Hún er bara þriggja ára og kýlir mig stundum fyrirvaralaust með krepptum hnefa í „bumbuna“ sem hún segist öfunda mig mikið af og það er ómögulegt að reiðast henni fyrir það.

IMG 3207Hvað er þetta?


mbl.is Mótmæli halda áfram í Tyrklandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

1975 - Um strámenn og margt fleira

Sagt er að Sigmundur Davíð tali um strámenn. Það er hættuleg einföldun. Á margan hátt var kosningabarátta framsóknarflokksins einn allsherjar strámaður. Hann (Sigmundur Davíð) vann í Icesave happdrættinu. Það þarf ekki að þýða að hann hafi alltaf rétt fyrir sér. Þetta með skuldir heimilanna og verðtrygginguna held ég að sé mun flóknara fyrirbrigði en hann heldur. Hinsvegar er ekki víst að lækkun veiðigjaldsins sé neitt flókin aðgerð. Sumarþingið gæti alveg afgreitt hana fljótt og vel, þó það geri kannski ekki mikið meira.

Sennilega verður ESB-málið látið malla áfram, ekki slitið formlega heldur frestað um óákveðinn tíma. Evrópusambandið getur hæglega beðið og vill það sennilega helst. Hugsanlegt er að einhverjir óþægir stjórnarliðar flytji frumvarp um það mál. Jafnvel að Vigdís Hauksdóttir geri það. Búast má við að stjórnarskrármálið verði sömuleiðis saltað.

RÚV-ið fer í ítarlegt 3ja mánaða sumarfrí (eða sumardvala) sem er að byrja. Og ég sá á fésbókinni, líklega hjá Láru Hönnu, umræðu um það. Skemmtilegasta skýringin á því var í sambandi við birtuna (þyrfti ekkert kastljós hennar vegna). Aðalspurningin hjá mér varðandi þá kenningu var hvort maí væri ekki í rauninni bjartari en ágúst.

Var að enda við að lesa enn eina greinina um geðlækna eftir Hörpu Hreinsdóttur. Greinar hennar eru flestar hnífskarpar og ótrúlegt að ummælum hennar skuli að mestu ósvarað. Þekkingu hennar á málefninu er erfitt að draga í efa. Eftir að henni sinnaðist við manninn frá Bakka í Ölfusi er hún á móti geðlæknum. Sálfræðingar sleppa.

 Af hverju er feministi samasem jafnréttissinni? Já, ég er dæmigerður orðhengill og finnst ekki að sannir jafnréttissinnar þurfi að sætta sig við svo „kynbundið“ orð.

Mér finnst dálítil fljótaskrift á því að tala um „rigningasumarið mikla 2013“. Vissulega er útlitið rigningarlegt hér í Kópavogi akkúrat núna, en það hlýtur að vera eitthvað eftir af sumrinu. Ég man vel eftir rigningarsumrinu 1955. Kannski er það mest útaf umtali annarra. Man eftir að hafa séð myndir af mönnum að slá (með vélum þó) á milli sáta. (Á kannski að segja sátna.) Ef sumarið í sumar verður eitthvað því líkt þá verður bændabarlómurinn mikill, þó heyverkunaraðferðir séu gjörbreyttar núna. Undanfarin sumur hafa verið okkur góð.

Sumarþingið er komið á matseðilinn. Svo er a.m.k. að skilja á fréttum. Sumum finnst slæmt að frétta bara af því svona utanað sér, en mér er sama. Bara það verði ekki leynilegt. Öfunda ekki alþingismenn og ríkisstjórn af ábyrgðinni. Hægt verður að kenna þeim um allt sem miður fer og það verður margt.

IMG 3197Gulur bíll.


1974 - Brandley Manning

Ekki linka ég nærri alltaf í einhverjar mbl.is fréttir enda eru þær að mínu áliti oft óspennandi mjög. Skárri samt en flestra annarra vefmiðla. Ekki vil ég heldur að fréttin sem ég e.t.v. linka í (aðallega til að fá fleiri lesendur) sé alveg ósamrýmanleg öllu því sem ég skrifa í það blogg (enda er það víst bannað) Mér er líka nokk sama hvort margir eða fáir lesa þessi skrif mín, en einhverjir verða þó alltaf til þess (samkvæmt mbl.is teljaranum), svo þessvegna held ég áfram. Um daginn þegar ég minntist á Vigdísi Hauksdóttur urðu heimsóknirnar mjög margar, eða yfir eitt þúsund. Þetta hefur ruglað alla súluritagerð en það gerir mér ekki mikið til. Ég lít þó þangað a.m.k. daglega. Suma daga, þegar ég skrifa lítið eða ekkert eru heimsóknirnar bara svona 30 – 40 eða jafnvel færri. Algengt er samt að heimsókafjöldinn sé hundrað og fimmtíu til tvö hundruð á dag. Linkun eða linkun ekki skiptir samt miklu máli.

Annars er mesta vileysa að týna sér svona í tölum, línuritum og súluritum því þar er venjulega logið mest. Einkum þó ef tölurnar skipta milljörðum. Aumingja milljónin er alveg komin úr tísku. Man að við deildarstjórarnir báðum Skúla Ingvarsson gjaldkera hjá Kaupfélagi Borgfirðinga að gæta þess að launin okkar færi ekki yfir milljón á  mánuði og tók hann vel í það. Þarna var um gömlu krónuna að ræða og líklega hefur þetta verið um 1980. Sú nýja virðist vera komin í svipaða stöðu núna. Efast þó um að ég eigi eftir að lifa það að ellilaunin verði meira en milljón nýkrónur á mánuði. Steingrímur Hermannsson (eða var það Ólafur Jóhannesson – minnið er farið að bila – kannski byrjandi Alzheimer) minnir mig að hafi Eitt sinn talað um það að umsamin Dagsbrúarlaun gætu vel farið í 100 000 (gamlar krónur) á mánuði.

Nú er sumarið komið og þessi dagur á eflaust eftir að verða góður hvað sólskin og hita snertir. Tinna var í heimsókn hjá okkur þessa helgi og er sannkallaður gleðigjafi. Þol okkar til að sinna þörfum hennar er þó svolítið takmarkað því hún er algjört orkubúnt með ótakmarkað energi. (Já, ég sletti þegar ég tel mig þurfa þess og er nokkuð viss um að sletturnar skiljast.) 

Samkvæmt frétt sem ég las einhversstaðar (sennilega í dv.is) er frægt fólk nú farið að verða „væntanlegir Íslandsvinir“. Þetta finnst mér nú nokkuð langt gengið. Hingað til hafa menn getað orðið Íslandsvinir alveg án alls biðtíma.

Svo er það víst í dag sem réttarhöldin yfir Bradley Manning hefjast. Við Íslendingar ættum af mörgum ástæðum að fylgjast betur með þeir réttarhöldum en mörgum öðrum. Talsvert virðist fylgst með þeim í Bandaríkjunum. Það er að mínu mati ekki nóg fyrir Bandaríkjamenn að vera í þessum efnum (þ.e. að skjóta saklaust fólk) greinilega mun skárri en mótaðilinn. Þarna er um stríðsglæpi að ræða sem ekki má láta óhegnt. Það er ætlast til að hernaður Bandaríkjamanna sé óaðfinnnanlegur og hann verður að vera það.

IMG 3196Skrautlegur skápur

1973 - Ómar og Jónas

Þó ég skrifi á Moggabloggið er ég talsvert vinstrisinnaður. Það finnst mér alla vega. Jónas Kristjánsson og Ómar Ragnarsson eru mínir gúrúar. Vinstrimennskan getur þó hæglega orðið svolítið hættuleg líka og því passa ég mig svolítið á þeim allra róttækustu.Öfgamenn eru á báðum jöðrum. Báðir eru þeir Jónas og Ómar orðnir talsvert ellimóðir (eins og ég) Samt virðist unga kynslóðin ætla að fylgja þeim nokkuð, því hún er ekki haldin þeirri firru að náttúran skipti engu máli. Hún skiptir kannski ekki jafnmiklu máli og hennar æstustu fylgismenn halda fram, en máli samt. LÍÚ heldur dauðahaldi í það forskot og þann auð sem fiskveiðistjórnunarkerfið hefur fært félagsmönnum þar á umliðnum áratugum. Sama má að ýmsu leyti um bankana segja. Þar hugsa þeir sem stjórna greinilega meira um að raka saman peningum en að þjóna viðskiptavinunum.

Von mín er sú að það nýja fólk sem kemur inn á alþingi núna breyti þinginu talsvert. Sumarþingið verður að líkindum einkum notað sem einhvers konar vinsældastökkpallur fyrir hina nýju miðju sem augljóslega hefur færst allmikið til hægri þó framsóknarflokkurinn standi eflaust gegn brjáluðustu hugmyndum öfgahægrisins. Sumir þar heimta jafnan ákveðin dæmi til að rökstyðja mál sem þeir skilja ekki.

Svo ég haldi nú áfram persónulegum árásum einsog bloggarar eiga víst að gera, þá virðist mér að Vigdís Hauksdóttir hafi á einhvern hátt séð það fyrir að Árni Johnsen myndi detta út af þingi. Ekki svo að skilja að hún hafi verið sú eina. Ég er bara að reyna að gefa eitthvað í skyn.

Í stjórnarmyndunarviðræðunum var eina ráðið sem Sigmundur Davíð hafði til að töfra Bjarna uppúr skónum og verða forsætisráðherra, að bjóða honum að Sjálfstæðisflokkurinn fengi fleiri ráðherra en Framsóknarflokkurinn. Til þess þurfi að sjálfsögðu að gera Vigdísi óleik en það var Sigmundi ósárt um. Vandamálin eru óleysanleg og ekki mun líða á löngu þar til skoðanakannanir verða ríkisstjórninni óhagstæðar.

Reykingar eru mörgu fólki leið til að sætta sig við tilveruna eins og hún er. Vandræðin eru einkum fólgin í því að tóbak er eiturlyf sem erfitt er að hætta með öllu að nota. Sykur er eiturlyf líka. Gallinn er bara sá að enn erfiðara er að hætta með öllu að nota hann. Líkaminn býr hann bara til sjálfur ef ekki vill betur. Að samræmi sé á milli orkunotkunar og matarneyslu er grundvallaratriði. Þó ég sé góður í mörgu er mér þó líklega ofraun að ráðleggja fólki í megrunarmálum, svo hlaupa má yfir þetta. Mín kenning er sú að ef góður matur verður of ódýr sé voðinn vís.

Ég er ekki fésbókarfræðingur, þó ég sé sífellt að tjá mig um það fyrirbrigði. Greinilega nota margir hana fullmikið. Því í rauninni er hún bara afar lítill hluti af netinu en vísar þó á margt sem mjög gott er. Bloggið er reyndar líka alveg ágætt, þó margir séu búnir að gleyma því.

IMG 3195Eldiviður.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband