Bloggfærslur mánaðarins, júní 2013

1987 - Hedonismi

Auðvitað var linkurinn í frásögnina af nauðlendingu Ómars Ragnarssonar bara settur til að fleiri læsu spekina. Man ekki einu sinni hvað ég skrifaði um Ómar. Vonandi hafa það ekki verið neinar blammeringar.

Snowden-málið getur vel orðið pólitískt hitamál hér á landi. Á þó ekki von á að íslensk stjórnvöld gefi neitt eftir þar. Allsekki er hægt að segja að það mál sé sambærilegt við mál Bobby Fischers, eins og sumir vilja vera láta. Sagt er að Snowden sjálfur hafi haldið því fram að hrein fífldirfska hefði verið fyrir hann að fara beint hingað. Fyrri stjórnvöld eru ekki með sem fallegasta sögu varðandi hælisleitendur og engin ástæða er til að álíta þau núverandi betri að því leyti. Þrýstingur frá Bandaríkjastjórn kæmi til með að hafa þar mun meiri áhrif en tæknileg aðriði.

Datt inn í áhugaverðan þátt í útvarpinu um neysluhyggju. Vantaði þó bæði upphafið og endann. Á sínum tíma las ég Playboy nokkuð mikið. Hugh Hefner er talsverður heimspekingur. Hann hélt fram svonefndum hedonisma sem kalla mætti nautnahyggju á íslensku. Þá stjórnast allar gerðir mannsins af ánægjunni einni saman. Nútíminn finnst mér einkennast af einhverju samblandi af neysluhyggju (consumerism) og nautnahyggju (hedonism). „Consumerisminn“ er drifinn áfram af „hjólum atvinnulífsins“ þar sem alltaf er framleitt meira og meira og þess gætt að hlutirnir endist ekki of lengi. Hagfræðin getur ekki án hagvaxtar verið. Hedonisminn er síðan yfir, undir og allt um kring.

Um þetta má margt segja og margar bækur hafa verið skrifaðar um þessi mál. Stjórnmál, vísindaleg mál, trúmál og jafnvel yfirnáttúruleg mál finnst mér alltaf á endanum koma að því hvort „fólk sé fífl“. Það er til lítils að bollaleggja um alla skapaða hluti ef hroki af einhverju tagi fylgir því. Ismar allir verða hjóm eitt hjá skilningi þeim sem hver og ein mannvera ræður yfir. Heimur hennar er hún sjálf. Sá skilningur sem fram kemur í því kann að vera takmarkaður á einhverju sviði, en það eykur aðeins fjölbreytnina. Markmið lífsins er ekki að tjá sig. Hvorki í orðum né á annan hátt.

Orðhengillinn er uppáhaldshópurinn minn á fésbókinni. Þar er ég jafnan eins og grár köttur. Í kvöld var þar einhver umræða um hnakka í ýmsum merkingum. Þá gerði ég þessa vísu:

Með skinku-hnakkinn skvísan beið
og skutlaðist á bakið.
Úr því varð þó engin reið
og allt fór bara í lakið.

Hana má vel skilja á svolítið dónalegan hátt, en það er þó ekki nauðsynlegt.

Íslensk fjölmiðlun er dálítið fábreytt og leiðinleg. T.d. virðast fjölmiðlar ætíð þurfa að spyrja Sigurð Líndal um öll lögfræðileg málefni, sem á fjörur þeirra rekur. Á sama hátt eru Guðni Th. Jóhannesson og Guðjón Friðriksson í miklu uppáhaldi hjá fjölmiðlungum sem sagnfræðingar. Hvor á sínu sviði samt. Gömul hús í Reykjavík og saga þeirra er sérsvið Guðjóns Friðrikssonar. Auðvitað er þetta allt svolítil einföldun hjá mér og ekki byggt á neinni könnun.

IMG 3319Marbakki.


1986 - Engum er Ómar líkur

Þetta með Austurvöllinn og mætingu þar er einskonar atkvæðagreiðsla. Man að ég sótti þónokkra laugardagsfundi hjá Herði Torfasyni þar í miklum kuldum undir lok ársins 2008. Alltaf fjölgaði á fundunum þeim og undir lokin komust ekki næstum því allir fyrir á Austurvellinum sjálfum. Þannig er búsáhaldabyltingin í mínum huga. Fór þó aldrei á Austurvöll til þess eins að skapa hávaða og óttaðist aldrei að uppúr myndi sjóða.

Ýmislegt má að þjóðhátíðarræðu forsætisráðherrans finna. T.d. var Ísland allsekki stéttlaust á þjóðveldisöld. Mér fannst hann þó gefa það í skyn og einnig það að yfirgang og ósanngirni hefðum við aldrei getað sætt okkur við. Lágum við Íslendingar ekki hundflatir fyrir Dönum í margar aldir? Eru þá allar frásagnirnar um maðkaða mjölið og einokunarverslunina tómur hugarburður?

„Orðabók andskotans“, sá ég einhverntíma og finnst flestar orðabækur vera það að mörgu leyti. Þær nota ég samt, bæði stafrænar og prentaðar. Ég kann næstum ekkert í öðrum tungumálum, er slakur í orðmyndunarfræði, en sæmilegur í íslensku. Oft er hægt að nota orðabækur til að skera úr um atriði og hjálpa til við að finna réttu orðin. Þekki greinamerkjareglur alltof lítið, en er allgóður í stafsetningu. Oftrú á reglur, fræðinga og bækur fælir fólk mjög frá rituðu máli, sem er skaði. Tónlist og allskonar hljóð ásamt myndum bæði kyrrum og ókyrrum eru að koma í staðinn fyrir það á ótal mörgum sviðum. Enn er þó kunnátta í því lykill að ótalmörgu. Einangrun í uppeldinu þekkist ekki lengur og hið ritaða mál er á undanhaldi eftir að hafa verið yfirgnæfandi hér á Íslendi alla síðustu öld. Erlendis víða miklu lengur.

„Ég er ekki tilbúinn að leggja mikilvægastu atvinnugrein landsins í rúst af því að einhverjir spekingar geti reiknað út auknar tekjur fyrir ríkissjóð til skamms tíma.

Segir Brynjar Níelsson nýútskrifaður þingmaður á Eyjubloggi sínu. Mér finnst þetta nú ekki mikil speki. Hann er samt tilbúinn til að leggja ýmislegt annað í rúst þar sem aðrir spekingar reikna á mun hæpnari forsendum. Jæja, ég ætla helst ekki að tala um pólitík, langskólanám bætir greinilega ekki hugsun fólks.

Ómar Ragnarsson lenti í flugóhappi í gær. (17. júní) Hann bloggar sjálfur um það og ég hef svosem engu við það að bæta. Segi bara: Engum er Ómar líkur. Eftirfarandi úrklippa er úr DV.

„Ómar hefur áratuga reynslu af flugi og hefur marga fjöruna sopið í þeim efnum. En hefur hann lent í samskonar hremmingum áður? „Já, já. En þetta hefur ekki komið fyrir mig í 26 ár.“

IMG 3315Kaffitár.


mbl.is Lenti í íslenskum hálendisrudda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

1985 - 17. júní

Stundum er sagt að yndi bloggara sé að vera stórorðir og að vera „virkur í athugasemdum“ sé skammaryrði. Ekki vil ég fallast á að slíkt sé undantekningalaust. Ég er enginn sérstakur andstæðingur (andskoti) Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra. Er samt nokkuð viss um að ein ástæðan fyrir því að hann er með lögheimili einhversstaðar fyrir norðan er sú að þannig getur hann fengið styrk til að halda heimili hér á höfuðborgarsvæðinu. Var ekki umtalað á sínum tíma að lögheimili Árna Matthíassonar væri einhversstaðar fyrir austan fjall? Sjálfsagt hefur það verið af álíka ástæðu. Aðrir gera svipaða hluti, ef þeir hafa aðstöðu til. Ég mundi líka gera það.

Moggabloggsvinsældir eru greinilega nokkrum tilviljunum háðar. Mikilvægt er samt greinilega að linka í mbl.is frétt og hafa fyrirsögnina krassandi. En hvort fréttin verður síðan lesin af mörgum, lifir lengi eða er um mál sem fólk hefur áhuga á, er síðan mörgum breytum háð. Ég sé þetta vel á mínu eigin bloggi. Ef ég linka ekkert eða skrifa jafnvel ekkert þann daginn eru gestir oft vel undir hundraðinu. Ef mér tekst hins vegar vel upp og linka í heita frétt get ég búist við að gestir verði á annað þúsund. Svona er lífið. Ég blogga aðallega fyrir sjálfan mig og fáeina trygga lesendur.

Aðalfréttin í dag verður áreiðanlega um einhver þjóðhátíðar-hátíðahöld. Svo ég get óhræddur linkað í eitthvað þess háttar. Gallinn (raddað) er bara sá að áhuginn á slíkum lestri er kannski ekki mikill. Er samt að hugsa um að prófa.

Það er erfitt (finnst mér) að lesa miklar langlokur. Sumum finnst þó að þeir þurfi að skrifa sem allra mest (t.d. mér) Þessvegna hef ég reynt að venja mig á að skrifa ekki alltof mikið. Það geri ég nú samt en reyni að skrifa ekki alltof mikið um hvert efni fyrir sig. Þetta er mín aðalregla auk yfirlesturs. Svo getur vel verið að ég hafi einhvern ákveðinn rabbstíl sem þessir fáeinu tryggu lesendur mínir kunna vel við.

Ef forsetakosningar væru á morgun er ég ekkert viss um að ÓRG mundi sigra. Svona getur gæfan verið fallvölt. Eftir því sem ráða mátti af sjónvarpsfréttum um daginn er líklegast að þau hjónin skilji. Óli segir þó áreiðanlega ekki af sér, enda ástæðulaust með öllu, þó hann reyni greinilega að kúga Dorrit eins og hann getur. 

Nú er ég farinn að nota eina skeið af sykri í kaffið mitt í stað tveggja áður. Mér er sagt að það sé mjög áhrifaríkt megrunarráð. Næst á dagskrá er að hreyfa sig meira og borða minna, en það getur dregist eitthvað. Um að gera að fara ekki of geyst í hlutina, segja næringarráðgjafar mínir. Og svo getur það verið dálítið erfitt.

IMG 3311Ógnvekjandi krabbi. Sem betur fer dauður.


mbl.is Hátíðardagskrá á Austurvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

1984 - Þjóðremba og Dorrit

Ég er eiginlega búinn að skrifa yfir mig um stjórnmál. Ætla að reyna að hætta því. Það er einskonar megrunarkúr. Heitustu málin þar snúast um flugvöllinn í Vatnsmýrinni og fangelsið á Hólmsheiðinni. Annað er til og hitt ekki. Einfaldast væri náttúrlega að skipta, en það er víst ekki hægt. Verst er að ég hef næstum engan áhuga. Þá skrifa ég bara um eitthvað annað. Aðalmunurinn á mér og öðrum bloggurum er að ég get aldrei þagnað. Aðrir skrifa einkum ef þeir hafa eitthvað að segja, ég er hinsvegar sískrifandi. Get ekki hætt.

Úr því ég er hættur að tala um stjórnmál er hægt að tala t.d. um vísindalega aðferð. Mér finnst Persónuvernd seilast of langt ef Íslensk Erfðagreining má ekki nota tilreiknuð gögn. Minn skilningur er sá að „tilreiknuð gögn“ sé aðeins hægt að nota á hópa en ekki einstaklinga og séu í grundvallaratriðum frábrugðin raunverulegum gögnum. Upplýst samþykki sé hinsvegar aðeins hægt að fá hjá einstaklingum, en ekki hópum. Kannski er þetta skelfing óskýrt hjá mér, en ég held semsagt meira með Kára Stefánssyni en Persónuvernd í deilu sem ég kann ekki mikil skil á.

Mér finnst þjóðremban vera það hættulegasta hjá Sigmundi Davíð og held allsekki að framsóknarflokkurinn sé einhuga á bakvið hann í öllu þar. Hinsvegar er hin blinda kapítalíska sýn á markaðinn á margan hátt akkillesarhæll Bjarna Benediktssonar og sjálfstæðisflokksins. Nú er ég kominn útí pólitískar hugleiðingar sem ég ætlaði að forðast. Það er bara svo merkilegt að hugsa um þetta alltsaman að ég get ekki stillt mig.

Í yfirlýsingu frá Facebook segir að fyrirtækið verji persónuupplýsingar notenda sinna „af hörku“. „Reglulega höfnum við slíkum beiðnum, krefjum stjórnvöld um að draga úr kröfum sínum eða veitum þeim einfaldlega mun minni upplýsingar en farið var fram á. Og við svörum þessum kröfum aðeins eins og okkur ber skylda til lögum samkvæmt,“ segir í yfirlýsingu Facebook.

Svo segir í frétt á mbl.is. Já, en hver skilgreinir þá skyldu. Ætli það séu ekki starfsmenn fyrirtækisins, eða eru það kannski stjórnvöld?

Mamma var aldrei feitlagin. Þetta get ég sagt af því að ég er sjálfur orðinn gamall og feitlaginn og hún löngu dáin. Einhverju sinni var hún spurð hvernig hún héldi sér svona grannri. Hún svaraði: „Með því að borða alltaf heldur minna en mig langar í.“ Þetta svar er mér mjög minnisstætt. Gott ef það gæti ekki komið í staðinn fyrir margan megrunarkúrinn. Segi bara svona. Margir borða alltaf heldur meira en þá langar í.

Fiskurinn í sjónum er víst ýmist uppsjávarfiskur eða bolfiskur. Þeir landkrabbar sem ekki hafa þetta á hreinu geta ekki fylgst með umræðum um auðlindamál. Stjórnvöld og LÍÚ reyna sífellt að gera þessi mál sem allra flóknust og hefur eiginlega tekist það. Jafnvel fulltrúar Alþjóða Gjaldeyrissjóðsins láta snúa útúr fyrir sér.

Sagt er að Dorrit forsetafrú sé ekki lengur með lögheimili á Íslandi. Mér finnst hún hafa sett talsvert niður við það. Sagt er að hún hafi flutt lögheimili sitt 27. desember s.l. þegar búist var við að Ólafur yrði ekki forseti lengur. Léleg afsökun. Og var Ólafur ekki endurkjörinn sumarið 2012. Mér finnst þurfa að athuga þessar dagsetningar betur. Er hún kannski búin að vera útlendingur í eitt og hálft ár?

IMG 3305Fallegur köttur.


1983 - Woodoo hagfræði

Eða var það annars woodoo haffræði? Þá er tilgangur sumarþingsins orðinn augljós. Það var til þess að LÍÚ gæti stungið prjónum í Jón Steinsson. Af hverju er maðurinn svona óþekkur?  Heldur hann að alþjóða gjaldeyrissjóðurinn bjargi sér? Veit hann ekki að þetta er bara partur af sjónhverfingunum? Gróði = Tap. Skattalækkun = Auknar skatttekjur. Lækkun veiðigjalds = auknar ríkissjóðstekjur. Aukin þjóðremba = bláhvítur fáni. Fleiri krónur = færri evrur. O.s.frv. 

Ég er að mestu leyti hættur að horfa á beinar útsendingar frá alþingi. (Ættu þeir ekki að vera í sumarfríi núna?) Ekki er það útaf málblómum einstakra þingmann og mig langar vissulega til að heyra hvernig nýju þingmennirnir eru máli farnir. Aðallega er það útaf viðvarandi tímaskorti. Kannski er tímaskorturinn árstíðabundinn og hverfur með haustinu. Hvað veit ég?

Mörgum líður vel í neikvæða aðfinnslugírnum en engin þörf er á að vera alltaf í honum. Svo er heldur ekki gott að dæma hundinn eftir hárunum og þeir sem eru súrir á svipinn eru ekkert endilega í slæmu skapi. Nú er sólskinið að skella á svo kannski er best að vera í sólskinsskapi a.m.k. í smástund.

Ég vil endilega gera Snowden uppljóstrara að lávarði en það er líklega einhver misskilningur hjá mér og tengist hugsanlega bresku konungsfjölskyldunni. (Nenni ekki að Gúgla.) Kannski er Snowden á leiðinni hingað, þó ég efist um að sá verði endir málsins. Í Bandaríkjunum er þetta víst stórmál og ekki víst að við fengjum að halda honum þó okkur hafi verið leyft að halda Bobby Fischer á sínum tíma, enda var hann kominn á gamalsaldur og svolítið ruglaður.

Bandaríkjamenn sóttu það áreiðanlega ekki mjög fast að fá hann framseldan og voru bara fegnir að losna við hann. Hugsanlega er allt öðru máli að gegna með Snowden og Birgitta stendur sig vel í að styðja hann. Þetta segi ég ekki bara vegna þess að ég kaus Píratana í síðustu kosningum, heldur finnst mér í alvöru að svo óvenjulegur þingmaður sem Birgitta er sé mikil nauðsyn. Minnir mig á Löngumýrar-Björn.

Þegar ég stjórnaði ÚSVB (vídeófélaginu í Borgarnesi) man ég eftir að hafa farið á fund í Ölfusborgum til að lýsa vídeókerfinu fyrir alþýðubandalagsmönnum. Þar var ÓRG og hann hafði engan áhuga á svona vitleysu. Þorbjörn Broddason kallaði mig misgerðamann ríkisútvarpsins. Það var nokkuð gott hjá honum. Vilborg Harðardóttir minnir mig að hafi verið fundarstjóri. Nú er ég greinilega kominn á raupsaldurinn og dreifi nöfnum til hægri og vinstri.

Ýmislegt bendir til að forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar (eftir því sem andstæðingarnir segja) hafi ruglast á debet og kredit. Man vel eftir sögunni um gjaldkerann sem var svo ofsaklár í bókhaldi en þurfti samt stöku sinnum að kíkja í efstu skúffuna í skrifborðinu. Þegar hann hrökk uppaf voru menn eðlilega forvitnir að vita hvað væri í þessari skúffu. Þar var miði sem á stóð: „Debet er nær glugganum“.

Yfir og út.

IMG 3288Skýjamyndanir.


1982 - RUV

Það getur vel verið að Vigdísi Hauksdóttur finnist að allir séu að einelta sig. Mér finnst ég samt ekki vera neitt að einelta hana. Hlutlaus rannsókn mundi samt sýna að hún lyfti aðsóknartölum á blogginu mínu upp í hæstu hæðir og þar setti ég met (eða hún). Þetta gerðist bara vegna þess að ég notaði nafnið hennar sem hluta af fyrirsögn og blekkti vafalaust marga til að kíkja á bloggið mitt með því, enda vildi svo til að hún var mikið í fréttum um það leyti. Ekki þekki ég Vigdísi nokkurn skapaðan hlut. Ætti ég þá ekki meira skilið en hún að vera eineltur. (Jafnvel tvíeltur). Nei, þetta er of erfið heimspekileg pæling hjá mér eftir að ég er búinn að taka hálfa svefntöflu. Best að fara að demba sér í dúninn.

Nú er ég endurnærður og uppfullur af speki. Verst að engir skilja hana nema ég.

Strax er farið að kalla eftir undirskriftasöfnun til höfuðs Sigmundi Davíð. Mér finnst það of snemmt. Mér finnst útvarpsmálið og þjóðmenning hans eða þjóðremba vera hættulegri en fáeinir fiskar í sjó. Útlendingahatur fer vaxandi á Íslandi. (Jú jú, fiskunum fækkar líka.) Mörgum finnst að kleinurnar sem gerðar eru í Póllandi og Óttarr Proppé minntist á séu allsekki íslenskar og þessvegna ekki nærri eins góðar. Um þetta mætti fjölyrða miklu meira og nefna dæmi, en ég man bara ekki eftir neinum í svipinn.

Simmi og Bjarni tala mikið og feitt um hagvöxt og þessháttar. Magnaðar skattalækkanir líka. Ég er nú svo svartsýnn að ég trúi Gunnari Tómassyni betur þegar hann spáir móðuharðinum af mannavöldum hér á Íslandi eftir nokkur ár. Er öruggt að það sé innistæða fyrir þessum margumtalaða hagvexti? Það er alltaf verið að tala um svo og svo marga milljarða hér og milljarða þar og ég held að þetta séu miklu oftar skuldir en innistæður.

Sé að ég hef eingöngu skrifað um pólitík hér fyrir ofan. Samt hundleiðist mér hún. Skrítið. Ekki þýðir fyrir mig að ætla að herma eftir Baggalúti eða Gys.is því ég er ekkert fyndinn. Tinna segir það samt stundum en hún er bara þriggja ára og leggur líklega allt annan skilning í fyndni en aðrir.

Nú datt mér eitt í hug. Ég hef ekkert linkað undanfarið. Bæði er föstudagur núna (stundum eru það bestu bloggdagarnir) og svo gæti verið að eitthvað væri á mbl.is sem upplagt væri að linka í.

IMG 3259Englar.


mbl.is Hollvinir ósáttir við fyrirhugaðar breytingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

1981 - Af hverju sumarþing?

Búast má við að ekkert verði samþykkt á þessu nýbyrjaða sumarþingi, sem ekki hefði alveg eins getað beðið til haustsins.

Varðandi samningaviðræðurnar við ESB er komin upp dálítið einkennileg staða. Ef Nei-sinnar drífa ekki í því að slíta viðræðunum formlega, þ.e.a.s. klára þær (eða klára þær ekki) og efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um niðurstöðuna, er hætt við því að Nei-ið þeirra verði í lausu lofti allt þetta kjörtímabil og kannski gæti aðstaðan og afstaða þjóðarinnar verið orðin önnur þegar því lýkur án þess að ríkisstjórnin eða þeir sem að henni standa ætli sér það.

Hugsanlegt er að það sé hálfgert ómark að segjast bara vera á móti inngöngu. Annars var svo lítið á þetta mál minnst í kosningabaráttunni, að ekki er hægt að segja að kosið hafi verið um það. Já, það er að mörgu að hyggja.

Mér leiðist svo margt, en reyni samt eins og ég get að vera jákvæður. Heldur marklaust er að kommenta bara á fréttir dagsins. Komment á blogginu eru aðeins meira virði finnst mér en fésbókarleg veggjaskrif. Samt er ágætt að eiga þar samskipti við þá sem það vilja og í raun ómetanlegt.

Get því miður ekki fallist á annað en að Illugi Gunnarsson tali gegn eigin sannfæringu þegar hann segist vilja að sú breyting verði gerð að alþingi kjósi stjórn Ríkisútvarpsins. Það er nýbúið að breyta þessu og ástæðulaust að vera með læti til að breyta því aftur til fyrra horfs. Stjórnarandstöðunni er trúandi til að grípa til málþófs strax útaf þessu máli. Það er hefð fyrir því að rífast hatrammlega um svona mál þó þau skipti ekki neinu meginmáli.

Það er alveg svaðalegt þetta með Svaðastaðakynið. Verst að ég man bara ekkert hvað það var.

Nú er ég að hugsa um að fara í alvarlega lífsstílsbreytingu og hætta að sitja svona mikið við tölvuræksnið. Búinn að breyta ýmsu öðru en tími samt ekki að minnka matarskammtinn mikið, því ég er svo góður við sjálfan mig.

Öfunda þá sem aldrei efast um að næstum allt sem þeir gera sé það allra réttasta og besta. Reyndar þurfa ráðherrar á því að halda að halda (sér saman) að þeir hafi alltaf rétt fyrir sér. Yfirráðherrar ekki síst.

Þó ég sé analfabeti í öllu sem snertir söng og tónlist, hefði ég örugglega gaman af að fylgjast með einvígi milli Indversku prinsessunnar og geltandi frosksins. (Sjáið bara bloggið hjá Jens Guð ef þið efist eitthvað um að svona megi taka til orða.) Já, ég er að tala um Leoncine og Bubba Morthens.

IMG 3241Hér var hús.


1980 - Lúxustangi

Margt má gott um fésbókina segja þó ég sé sífellt að hallmæla henni. Ætli ég endi ekki með því að fara að kalla hana fasbók, einsog bæði Sigurður Þór og Páll Berþórsson vilja. Þar er til dæmis orðhengillinn. Líklega er það sú málfræðileiðbeiningarstöð sem ég nota einna mest. Um daginn var verið að ræða þar um greini og eignarfornöfn ásamt ýmsu fleiru. Bíllinn minn, mitt nef o.s.frv.

Ætli það sé ekki það sem útlendingar flaska oftast á að nota ýmislegt í því sambandi öðruvísi en vant er á því svæði sem verið er á. Mér finnst það eitt af einkennum íslenskunnar hve orðaröðin er frjálsleg. Man að þegar ég tók landspróf var verkefnið í bragfræðinni að segja til um í hvaða röð eftirfarandi orð ættu að vera í byrjun vísu svo bragfræðireglum væri fylgt: „Skipta sínum skerfi mátti.“

Annars var það ekki þetta sem ég ætlaði að segja. Ég er alltaf dálítið snokinn fyrir íþróttamáli. Þegar sagt er í lýsingum (til að vinna tíma) „markvörðurinn spyrnir nú frá marki sínu,“ fer ég ætíð að hugsa um að eignarfornafninu sé algerlega ofaukið. Ef hann spyrnti frá marki andstæðinganna væri það óneitanlega sögulegt.

Vísur eru mér hugleiknar. Í einhverri rímu er eftirfarandi vísa:

Greiddi upp trýnið gluggasvín
greitt að hnefabragði.
Sverðarunn tók sér í munn
og saman aftur lagði.

Ég get aldrei munað hvað rímnahættirnir heita, en þetta er töluvert dýrt kveðið. Eins get ég aldrei munað eftir hvern vísurnar eru, sem ég kann. Þetta gæti þó verið eftir Sigurð Breiðfjörð. Það segi ég bara vegna þess að ég veit að hann orti rímur (Númarímur) og Jónas Hallgrímsson hallmælti honum. Þetta gæti sem best verið gátuvísa og ráðningin væri þá að maður bankaði á dyr og opnað væri fyrir honum og lokað aftur.

Mikið er rifist um það hver hafi rekið hvern og af hverju einhvern tíma í fyrndinni. Einkum virðist nú vera horft til Stöðvar 2 af því tilefni. Þetta var áður fyrr og er kannski enn fjölmennur vinnustaður og upplýsingar af þessu tagi eru núna hrein sagnfræði. Kannski ætti ég að reyna að rifja upp ýmislegt þaðan. Sumir sjá allt með pólitískum gleraugum. Ég fullyrði að ekki var litið sömu augum á uppsagnir í gamla daga og margir gera nú. Uppsögn getur verið til bóta fyrir báða aðila og er það oft.

Á heimleiðinni frá Akureyri um daginn datt mér í hug efst í Norðurárdalnum eða jafnvel á Holtavörðuheiðinni sjáfri að rifja upp nokkur myndræn heiti yfir fáeina bæi í Borgarfirðinum sem ég hafði einhverntíma búið til. Þau gerðu nokkra lukku og styttu okkur svolítið stundirnar. Þessum man ég eftir:

Strákatalfæri = Sveinatunga; Bognibrestur = Svignaskarð; Efri stofur = Uppsalir: Luxustangi = Munaðarnes o.s.frv.

Að frátöldum skuldamálunum er flugvallarmálið kannski það heitasta um þessar mundir. Svo vill til að ég er því hlynntur að leggja Reykjavíkurflugvöll niður. Borgaryfirvöldum og ríkisstjórn kemur alls ekki saman um það mál. Báðir aðilar virðast ætla að þumbast sem mest við í von um að tíminn vinni með þeim. Eflaust verður tekist á um það mál af talsverðri tilfinningu í borgarstjórnarkosningunum næsta sumar.

IMG 3240Steypt af tilfinningu.


1979 - The invisible gorilla

Svo mikill hefur hamagangurinn verið í maílok að 40 manna gestakoma sést varla á súluritinu hjá Moggablogginu núna. (Já, ég minntist víst á Vigdísi Hauksdóttur þá) O, jæja, ætli það verði ekki að vera í lagi. Var að enda við að lesa Dalsmynnisbloggið og það var  eins og venjulega hressilegt og gott. Enginn barlómur og aumingjaskapur þar. Veðrið er sæmilega þurrt núna og e.t.v. er sumarið sjálft loksins að koma. Einhverjum finnst það víst vera á seinni skipunum, en mér er alveg sama bara ef nokkrir hlýjir sólardagar koma.

Í stórum dráttum er eiginlega allt ómark sem ekki er á netinu. Vorkenni næstum því aumingja dagblöðunum sem streitast við að selja afurðir sínar, sem ekki eru sérlega merkilegar samanborið við allt það sem fá má á netinu fyrir ekki neitt. Hef sagt það áður og segi það enn að það er eiginlega hrein guðsblessun að fá ekki fréttablaðið á hverjum degi því þá mundi blaðakassinn vera fljótur að fyllast. Eins og nú er tekur hann furðu lengi við, því fátt annað fer í hann en bæklingarusl sem kemur með póstinum.

Líklega hef ég lengi ort vísur. Þó lét ég það ekki mikið í ljós á Bifröst, en eftir að ég kom þaðan sendum við hvorir öðrum ljóðabréf Þórir E. Gunnarsson og ég. Eflaust hefur þar verið mikill og vandaður leirburður. Eftirfarandi vísa kom „óforvarendis“ (líklega dönskusletta) upp í hugann rétt áðan og hefur sennilega verið ort til konunnar minnar þegar ég hef verið á leiðinni að heimsækja hana á fæðingardeildina. Líklega hefur Benni verið nýfæddur þá.

Í strætó um bæinn ég bruna
bölvandi sjálfum mér.
Fyrir að muna ekki að muna
maltextrakt handa þér.

Það sem sendi mig á þá braut að muna eftir þessu snilldarljóði (ehemm) var að Árni Bergmann minntist á malt í fésbókarfærslu sem ég var að enda við að lesa.

Einhverjir (margir) hafa haldið því fram að vani sé að afgreiða stjórnarskrárbreytingar í mikilli sátt. Svo er ekki. Þó ég sé ekki nema rúmlega sjötugur man ég vel eftir stjórnarskrárbreytingunni 1959. Hún var aldeilis ekki afgreidd í neinni sátt, heldur beinlínis gerð til höfuðs framsóknarflokknum enda hafði hann hann hagnast allra flokka mest á misjöfnu vægi atkvæða. Auðvitað man ég ekki eftir eldri stjórnarskárbreytingum.

Eftir 1959 hafa allar stjórnarskrárbreytingar verið minniháttar hvað vægi atkvæða, stjórnskipan lýðveldisins o.þ.h. snertir og þingflokkum gengið nokkuð vel að komast að samkomulagi um orðalag. Ef misvægi atkvæða væri endanlega afnumið mundi framsóknarflokkurinn að sjálfsögðu tapa verulega.

Vægi atkvæða er alls ekki það eina sem máli skiptir varðandi stjórnarskrá, en vissulega það sem þingflokkarnir hafa átt erfiðast með að koma sér saman um. Nú eru það kannski auðlindamálin sem erfiðust yrðu. Að sjálfsögðu á þjóðin ein að ráða þessu. Alþingi kemur stjórnarskráin lítið við.

Ef alþingi á annað borð sættir sig við að deila valdi sínu til breytinga á stjórnarskránni með þjóðinni (í þjóðaratkvæðagreiðslum), þá er hentugast að drífa í því. Fulltrúar sjálfstæðisflokksins hafa þó rétt fyrir sér í því að ekki liggur nein lifandis skelfing á því að koma splunkunýrri stjórnarskrá um alla mögulega hluti í gagnið. Betra er að vanda sig við það verk. Margt í því uppkasti sem stjórnlagaþingið lagði fram er anski tilraunakennt og alls ekki víst að það þróist á þann hátt sem vonast er til.   

Að stórum hluta er stjórnarskráin umgerð um störf alþingis og skilgreining á þeim. Svipað má segja um forseta lýðveldisins. Stjórnarskráin hlýtur óhjákvæmilega að fjalla um hlutverk hans. Óheppilegt er til framtíðar að hann ráði því einn hvert hlutverk hans er.

Minntist á „the invisible gorilla“ í blogginu mínu um daginn. Mér er frekar illa við youtube eins og flest vinsælustu fyrirbrigðin hjá öðrum. Þessvegna linka ég ekki beint í ósýnilegu górilluna en vil samt hvetja alla til að leita að henni á youtube. Þar er manni sagt að telja vandlega sendingar körfuboltaliðs og þá sér maður ekki górillu sem kemur samt fram á skjánum. Þetta sýnir glögglega að maður getur ekki treyst sínum eigin skynfærum.

Hversvegna ætti maður þá að treysta öðrum? Ég er ekkert sérstaklega að tala um Sigmund Davíð Gunnlaugsson með þessu heldur frekar það hvort í raun sé nokkru að treysta. Þónokkuð margir vilja bendla SDG við sjónhverfingar og blekkingar, en mér finnst það óviðeigandi. Auðvitað blekkja stjórnmálamenn ef þeir mögulega telja sig geta. Þessvegna kaus ég pírata. Þeir vilja að allt sé uppi á borðum og ónauðsynlegum hlutum sé ekki haldið leyndum. Fólk er heldur alls ekki fífl og það er bara hroki að halda slíku fram.

Líklega hefur núverandi stjórnarandstaða ekki gert sér grein fyrir að sumarþing yrði haldið. Það er engin sérstök ástæða til þess. Líkurnar til þess að þetta sumarþing hafi eitthvað að segja fyrir stöðu stjórnarskrármála eru hverfandi.

IMG 3239Verndum gatið.


1978 - Stjórnmál á mánudegi og fleira

Eins og ég hef áður sagt gengur mér oft best að skrifa eftir að vera nýbúinn að setja eitthvert skrifelsi á vefinn. Af hverju þetta er skil ég alls ekki. Reyni það ekki einu sinni.

Margt í pólitíkinni er fremur hlægilegt þessa dagana. Held ég gefi henni frí. Vísa bara í það sem ég hef áður skrifað um þá vitlausu tík. Það er einhver hundur í henni. Engar atkvæðagreiðslur eða neitt yfirvofandi. Borgarstjórnarkosningarnar næsta sumar eru svo langt inni í framtíðinni að menn er ekki komnir í stellingar fyrir þær. Ef ekki verður af þeim, þá er ég farinn.

Sýnist að í ráði sé að leggja niður umhverfisráðuneytið og taka í staðinn upp fullveldisráðuneytið. Þar verður ráðherra framsóknarmaðurinn gamli og Möðruvellingurinn ÓRG. Nei annars, þetta er ekkert fyndið. Allir eiga kröfu á því að fá að vera í friði fyrstu daga sína í embætti. Sigmundur Davíð sem aðrir.

Það var séra Árni Pálsson í Söðulsholti sem plataði mig til að gerast prófdómari við Laugargerðisskóla. Þess vegna er ég alltaf svona súr á svipinn. Það lífgar lítið uppá mig þó mér sé sagt að Árni Páll, formaður samfylkingarinnar sé sonur hans eða að Katrín Jakobsdóttir stundi það að saga sundur fólk, eins og konan mín gerði einu sinni á Alþýðubandalagsskemmtun.

Já, þetta er kallað „name-dropping“ á ensku og er nokkuð sem flestir stunda ef þeir geta með nokkru móti og eru ekki „household name“ af eigin frægð.

Í gamla daga (þ.e.a.s. í fornöld) vorum við Áslaug ákaflega tæknilega sinnuð og áttum einhvern forláta síma þar sem hægt var að forrita símanúmer o.s.frv. Þetta var samt fyrir daga farsímanna, en tortryggi mín í þeirra garð stafar kannski af þessu. Við stóðum nefnilega eitt sinn uppi í útlandinu án þess að hafa nothæft símanúmer í kollinum. Fyrir einhverja slembilukku tókst okkur þó að rifja upp eitt símanúmer og veiddum svo hin uppúr fólki án þess að láta mikið á því bera.

Fór í smágöngutúr í morgun (sunnudag). Á ljósastaur við Kringlumýrarbrautina sátu tveir svartir rigningarfuglar (sbr. hverafuglar) Þeir hreyfðu sig ekki vitund en virtust vera að bíða eftir uppstyttunni. Hún kom ekkert svo ég fór heim. Kannski voru þetta bara hrafnar. Skógarkerfillinn hefur hækkað um svona hálfan metra síðan í gær. Ánamaðkarnir teygðu vel úr sér í vætunni og mikið andskoti voru þeir langir að sjá á gangstígunum. Hugsanlega voru þeir samt glorhungraðir og leið ekkert vel. Sá heldur ekkert sérstaklega vel sjálfur því ég tók af mér gleraugun. Þar var allt í dropum en vinnukonurnar fyrir innan þau (augnalokin) voru miklu betri.

IMG 3226Til hægri, snú.


mbl.is Óvenjulegt tómstundagaman formanns VG
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband