Bloggfærslur mánaðarins, september 2012

1765 - Þá hló marbendill

Það að Guðbjartur Hannesson hafi ekki reynt að svara á neinn hátt eða lægja öldurnar sem risið hafa vegna ríflegar kauphækkunar forstjóra Landsspítalans bendir ótvírætt til að samviska hans sé alls ekki hrein. Kannski hefur hann haldið að þetta læki ekki út. Laun eiga yfirleitt að vera leyndarmál. Hugsanlega hefur annar ráðherra lekið þessu ofur varlega og fellur grunurinn þá einkum á innanríkisráðherrann sem framundir þetta hefur mátt óttast mjög um sinn eigin hag. Annars bendir flest til að þessi launahækkun verði Gutta dýr. Hann virðist vegna hennar ætla a.m.k. að missa af formannssætinu í Samfylkingunni. Segist vafalaust ekki hafa verið að sækjast neitt eftir því, en hver trúir svoleiðis vitleysu?

Á allmörgum blaðsíðum kemst Seðlabanki Íslands að þeirri niðurstöðu að Evran henti Íslendingum best ef þeir vilji endilega skipta um gjaldmiðil.Við því mátti búast. Annars held ég, í ljósi spakmælisins um að þangað leiti klárinn sem hann er kvaldastur, þá muni Íslendingar enn um sinn halda stíft í krónuna sína og færa stjónvöldum á hverjum tíma þar með tæki til að hækka og lækka laun fólks eftir þörfum. Sá frekasti fær, eins og sannast í hverri einustu gengisfellingu. Svo er tiltölulega auðvelt fyrir spákaupmenn (smákaupmenn) að láta gengið sveiflast fram og aftur og taka með því gróðann sem stjórnvöld ættu með réttu að fá í sinn vasa fyrir að plata sveitamanninn.

Lífeyrissjóðakerfið er líka óttalegt plat. Fólk hefur lengi talað um að skattheimta hér á Íslandi sé hófleg (enginn her o.þ.h.) Skattheimtan á vinnandi fólk hefur bara verið kölluð lífeyrissjóðsgreiðslur. Gróðinn fer svo mestmegnis í að hafa sjóðina nógu litla og að starfsfólkið þar fái utanferðir og aðra bitlinga. Stjórnvöld eru síblönk vegna þessa og biðja um peninga með grátstafinn í kverkunum.

Hrunið er að hverfa út í buska stjórnmálanna og lítil von er um að það breyti skoðunum fólks að nokkru ráði. Enn er þó von og hún mun koma í ljós í næstu þingkosningum og framboðum sem þar kunna að koma fram. ESB getur vel orðið mál málanna í framtíðinni á sama hátt og hermálið var það áratugum saman. Óþarfi er þó að láta það stjórna öllum sínum athöfnum. Gerð nýrrar stjórnarskrár hefur afar lítið með ESB að gera og ef breytingar á henni ná fram að ganga er meiri von til þess að Hrunið hafi stjórnmálalegar breytingar í för með sér. Ekki veitir af.

IMG 1597Afrit af bíl.


1764 - Hofsstaðir

„Hvers vegna er ekki hægt að ganga frá grátandi hvítvoðung sem skilinn hefur verið eftir á árbakka?“ Spyr Teitur Atlason í blogg-grein sem margir tala vel um. Mér finnst greinin full af rangfærslum og minna á predikun frekar en blogg. Miðhugmynd hennar finnst mér samt felast í spurningunni sem vitnað er til hér í upphafinu.

Spurning spurninganna er og hefur lengi verið hvort maðurinn sé góður eða illur í sjálfu sér. Það er þaðan sem sögnin um baráttuna milli góðs og ills er tilkomin og það er sú spurning sem trúarbrögðin snúast að meira eða minna leyti um. Richard Dawkins heldur því fram að hið illa sé frá genunum komið. Afneitar samt sem áður hefðbundnum trúarbrögðum. Af mörgum er Darwinismi talinn vera á þann veg að öll lifandi fyrirbrigði (og maðurinn þar með) hugsi fyrst og fremst um eigin hag. Dawkins gerir manninn að viljalausu verkfæri genanna.

Teitur messar mjög í bloggi sínu og verður tíðrætt um Djöfulinn. Auðvitað finnst honum hann hafa verið allsstaðar á kreiki í undanfara Hrunsins. Orðræða af þessu tagi hjálpar ekki til við endurreisn Íslands, sem þó hlýtur að vera takmark okkar allra.

Á sínum tíma fylgdist ég vel með blogginu hennar Nönnu Rögnvaldardóttur sem hún kallaði: „Konan sem kyndir ofninn sinn“. Þar varð henni tíðrætt um Sauðargæruna sem hún kallaði svo. Þar var að ég held um lítinn ömmustrák að ræða sem Úlfur hét og heitir vafalaust enn. Margt gullkornið féll í frásögnum hennar af gærunni en af einhverjum ástæðum er mér minnisstæðast þegar strákur sagði við hana: „Amma, af hverju veist þú allt?“ Þetta hélt hann án efa í raun og veru og hún sagði ekki frá neinni leiðréttingu á því.

Anna Einarsdóttir frá Holti skrifar um flækjustigin í lífinu og af hverju hlutirnir geti ekki verið eins og í gamla daga þegar allir hjálpuðu öllum. Sjálfum er mér mjög minnisstætt hvernig málum var fyrirkomið í Miklaholtshreppi á þeim tíma sem hún hlýtur að vera að tala um. Kjartan á Hofsstöðum var að byggja sér nýtt íbúðarhús. Þegar steypa skyldi upp húsið mættu allir verkfærir menn úr sveitinni á staðinn og hjálpuðu til allan liðlangan daginn. Ef Kjartan hefði boðið einhverjum greiðslu fyrir ómakið hefði það verið stórkostleg móðgun.

Á ég þá að blogga án þess að minnast á stjórnmál? Það er erfitt. Hvort var það Framsókn eða Sjálfstæðisflokkurinn sem var að tala um 100% húsnæðislán, fíkniefnalaust Ísland og flatan 20% niðurskurð á allar skuldir? Nei, við skulum vara okkur á loforðum sem hugsanlega er engin innistæða fyrir. Framkvæmum frekar það sem mögulegt er. 

IMG 1594Pollur.


1763 - Zamperini

Meðal margra annarra bóka sem ég hef byrjað á að undanförnu eru þrjár mér minnisstæðastar. Líklega er ég verri með það en flestir aðrir að byrja á bókum en klára þær ekki. Fjölyrðum ekki um það núna, en þessar þrjár bækur ætla ég að bera svolítið saman.

Bækurnar eru: „Unbroken“ eftir Lauru Hillenbrand, „Konan við 1000 gráður“ eftir Hallgrím Helgason og „Mensalder“ eftir Bjarna Harðarson. Enga þessara bóka hef ég klárað og þessvegna er þessi dómur minn um þær afar ófullkominn.

„Unbroken“ fjallar um Bandaríkjamanninn Louis Zamperini og samkvæmt formálanum er hún samansafn staðreynda og ekki á nokkurn hátt skáldskapur. Ljóst er þó að langir kaflar í bókinni eru byggðir á frásögn eins eða mjög fárra manna og þessvegna fyrst og fremst túlkun höfundarins. Louis Zamperini var allfrægur hlaupari fyrir síðari heimsstyrjöldina. A.m.k. var hann það í Bandaríkjunum. Tók meðal annars þátt í Ólympíuleikunum í Berlín 1936 og stóð sig allvel þar. Hann tók síðan þátt í Kyrrahafsstyrjöldinni sem flugmaður, var skotinn niður og lenti í fangabúðum Japana eftir mikla hrakninga. Heimkominn varð hann fljótlega alkóhólisti en frelsaðist síðar eftir að hafa farið á samkomu hjá Billy Graham.

„Konan við 1000 gráður“ er skáldsaga, en byggir á æfi sonardóttur Sveins Björnssonar fyrsta forseta Íslands eins og flestir vita.

„Mensalder“ er skáldsaga, en byggir á æfi Mensalders Mensalderssonar að Húsum í Holtahreppi (skammt frá Hellu). Mensalder þessi lést á seinni hluta síðustu aldar og hafði átt fremur illa æfi og búið við mikið basl og erfiðleika.

Fyrstnefnda bókin af þessum þremur finnst mér langbest. Aðallega er það vegna þess að hún er sönn en ekki ímyndun einhvers sem vill láta kalla sig rithöfund. Segja má að hún sé dæmigerð ævisaga. Báðar hinar bækurnar líða fyrir það að höfundarnir þurfa að koma fjölmörgum smáatriðum að og haga frásögn sinni í samræmi við það. Hallgrímur gerir það þó af meiri íþrótt og orðkyngi en Bjarni, sem mér finnst fyrna málfar sitt að óþörfu. Samt eru þessar tvær bækur um margt keimlíkar. Engin leið er að sjá hvað er raunveruleiki og hvað er hugarburður höfundanna. Endurtekningar eru margar og hlaupið er fram og aftur í tímanum eftir því sem höfundum þykir henta. Þeir eru greinilega ekki ánægðir með þær heimildir sem þeir hafa og finnst þeir þurfa frelsi til að gera það sem þeim sýnist.  

Í fyrstu bókinni er sagan rakin í réttri tímaröð. Höfundur hefur greinilega haft úr afar miklu efni að moða en gerir því góð skil. Statistik um stríðið og margt annað er dreift um bókina en lesandanum leiðast þær tölulegu staðreyndir ekki vitund, þó slík fræði séu oftast nær afar þurr og leiðinleg.

Fyrir allnokkru var fjallað mjög í fréttum um erfðamál Roberts James Fischers og meðal annars sagt frá stúlku einni frá Filippseyjum sem sagt var að væri dóttir hans. Móðir hennar hélt þessu fram og lögfræðingur fyrir hennar hönd var svo aðgangsharður að lík Fischers var grafið upp, samkvæmt úrskurði hæstaréttar, til að ganga úr skugga um réttmæti kröfunnar. DNA-rannsókn leiddi í ljós að hún var það ekki. Lögfræðingur þessi var samt ekki af baki dottinn og hélt því fram að áreiðanlega hefði verið skipt um lík í gröfinni. Þá misstu dómstólar trú á manninum og fjölmiðlar hættu einnig að fjalla um málið. Sömuleiðis var efast um að Japanir kynnu að gefa fólk saman í hjónaband á þann hátt að íslenskir dómstólar gætu sætt sig við það. Svona starfa íslenksir dómstólar og fjölmiðlar.

Rekstraraðilar hóta að loka Kattholti. Samkvæmt frétt á mbl.is er bæjarstjórnum Kópavogs, Garðabæjar og Hafnarfjarðar kennt um þessa þróun mála. Þær styrki þá starfsemi sem þarna fer fram ekki nægilega mikið. Mér þykir sorglegt ef svo fer að ekki verði lengur hægt að snúa sér til neins ákveðins aðila með yfirgefna eða týnda heimilisketti og ketti sem af einhverjum ástæðum er nauðsynlegt að lóga. Lögreglan skilst mér að sé stikkfrí eins og flestir aðrir. Stofað hefur verið til söfnunar af minna tilefni.

IMG 1589Ber.


1762 - Kindle

Margir sem skrifa um ESB-mál skrifa um þau eins og ekkert annað skipti máli. Vinstri grænum er álasað fyrir að leggja meiri áherslu á að mynda ríkisstjórn með Samfylkingunni en að standa fast gegn ESB-umsókn. Málin eru bara ekki svona einföld. Auðvitað skiptir aðild að ESB máli. Mér finnst hún reyndar skipta meira máli en flest annað.

Úr því sem komið er sýnist mér samt best fyrir Vinstri græna að halda áfram í ríkisstjórninni. Allmargir framsóknarmenn og sjálfstæðismenn eru fylgjandi aðild. Hingað til hafa alþingiskosningar ekki snúist um ESB. Hætt er samt við að þær næstu geri það. Fleira skiptir þó máli í þeim. T.d. stjórnarskrármálið. Ef ekki verður hægt að krefjast bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu fljótlega eftir næstu kosningar er ekki nema eðlilegt að fólk vantreysti stjórnmálamönnum. Forsetinn gæti týnst í þeim átökum sem hugsanlega eru framundan.

Möguleikarnir sem fésbókin skapar eru margvíslegir. T.d. er hægt að skoða gamlar myndir frá hinum og þessum ef áhugi er fyrir hendi. Unnur Kristjánsdóttir frá Hrísdal hafði greinilega verið að skoða gamlar myndir frá Vegamótum á blogginu mínu og deildi einni þeirra á fésbókina og þar sá ég hana og deildi til minna fésbókarvina. Þannig held ég a.m.k. að þetta virki. Reyndar eru myndirnar frá fésbókarvinum (a.m.k. ef þeir eru nægilega margir) þar orðnar svo margar að það er að æra óstöðugan að ætla sér að skoða þær allar. Mikið er allt sem snertir ljósmyndir orðið frábrugðið því sem áður var.

Rafbækur frá Forlaginu eru ekki fáanlegar fyrir Kindle. Svo segir í auglýsingu frá Forlaginu. Kannski ímynda innanbúðarmenn þar sér sjálfir að þeir séu að kynna rafbækur og auka sölu á þeim, en mér finnst þeir flækjast fyrir á þessu sviði eftir megni og hafa gert það lengi. Ég stóð fyrir Netútgáfunni á sínum tíma og veit alveg hvað ég er að tala um. Þó þeim hafi tekist að koma sjálfum sér að í fréttum sjónvarpsins og auglýsi rafbækur grimmt um þessar mundir ber það bara vott um að andstaða þeirra er að linast.

Á Hornströndum er mikið um ref. Kindur eru þar aftur á móti engar. Vafalaust hefur refurinn áhrif á fuglalíf á þeim slóðum. Náttúran leitar þó jafnvægis að lokum. Maðurinn hefur einhver áhrif á fjölgun refsins á þessum slóðum eins og annars staðar. Þegar ég fór um Hornstrandir fyrir meira en áratug fannst mér athyglisverðast að sjá að bjargfuglarnir gerðu sér ekki hreiður alveg uppað efri brún bjargsins og tófuyrðlingar hlupu, að því er virtist, fram af bjargbrúninni og voru með öllu lausir við lofthræðslu.

IMG 1588Ber.


1761 - Ammæli

Ég fékk svo margar hamingjuóskir á fésbókinni í tilefni af afmælinu að ég treysti mér ekki til að þakka hverjum og einum sérstaklega, eins vert væri að sjálfsögðu. Kærar þakkir öll sömul. Margir minntust líka á afastelpuna sem litlu munaði að ég fengi í afmælisgjöf og ég þakka að sjálfsögðu líka fyrir það.

Benedikt Axelsson sendi mér eftirfarandi vísu sem mér finnst ljómandi góð.

Að eldast gjarnan verðum vér,
oss varla tekst að yngjast.
Á kvennafari færðin er
farin mjög að þyngjast.
Tíminn engin gefur grið.
Gratúlera með afmælið.

Ekki er búið að bíta úr nálinni með óveðrið fyrir norðan. Samkvæmt fréttum er ástandið ýmist betra eða verra en búist var við og það segir manni ákaflega lítið. Einhverjir hafa álasað bændum fyrir að hafa ekki verið búnir að smala, en ég held að enginn hafi búist við svona miklum snjó. Ég hef ekkert vit á þessu og held að ég heimski mig bara á því að vera að fjölyrða um ástandið. Man eftir rafmagnsleysi í rúma viku þegar ég bjó á Snæfellsnesi, en það voru allt aðrir tímar þá.

Eiríkur Örn Norðdahl segir að það sé bölvaður aumingjaskapur að blogga ekki á hverjum degir og þeir sem ekki geti það eigi ekki að fá að blogga. Ég er svolítið sammála þessu en er samt ekkert hræddur um að missa bloggleyfið. Hugleiðingar um hitt og þetta eins og ég ástunda er auðveld leið til að blogga fjandann ráðalausan. Svo er líka hægt að blogga um það hvorn fótinn maður setur fyrr framúr rúminu á morgnana o.s.frv. en slík blogg ganga vafalaust ekki fyrir hvern sem er og jafnvel ekki endalaust fyrir útvalda.

IMG 1580Blóm.


1760 - Óskírð Benediktsdóttir

Jæja, þá er barnabarn númer 2 komið í heiminn. Benni og Angela eignuðust dóttur í dag miðvikudag. Svona til viðmiðunar er þetta 12. september (Freymóður Jóhannesson), Alþingi sett í gær, stefnuræða og tunnumótmæli boðuð í kvöld. Fjölyrði ekki meira um fæðinguna enda er ég ekki vanur að blogga mikið um persónuleg málefni. Meira svona hugleiðingar um hitt og þetta. Mynd kannski á morgun eða svo.

Pólitíkin höfðar ekki mikið til mín. Pólitísku bloggin eru samt þau vinsælustu, sýnist mér. Einnig þurfa þau helst að tengjast fréttum dagsins svo margir hafi áhuga á að lesa þau. Hvorugt hentar mér. Finnst best að blogga bara um það sem mér dettur í hug í það og það skiptið. Skoðanaskiptum tók ég þátt í áðan á fésbókinni þar sem umræður snerust um verð á rafbókum og þess háttar. Það var í framhaldi af innleggi frá Jónasi Kristjánssyni.

Einkennilegt er það með þjóðaratkvæðagreiðsluna sem ráðgerð er 20. október að sumir vilja líta svo á að hún snúist um ESB. Það gerir hún allsekki en ég er samt þeirrar skoðunar að með henni hafi jafnaðar- og vinstrimönnum tekist að snúa dálítið á hægrisinna. Á margan hátt er hún auðvitað fremur tilgangslítil en stuðningsmenn hennar vilja endilega fá nýja stjórnarskrá sem ekki er algerlega verk hins traustlausa Alþingis. Framvinda stjórnarskrármálsins er langmerkasta málið sem Alþingi hefur til meðferðar í vetur. Miklu mikilvægara en hvort ríkisstjórnin lafir til loka kjörtímabilsins. Kannski er eina von framsóknarflokksins að sveigja svolítið til vinstri og einangra sjálfstæðismenn þannig.

Hætt er nefnilega við að í Alþingiskosningunum næsta vor verði úrslitin lík því sem vant er. Þar með gæti framsóknarflokkurinn orðið í oddaaðstöðu hvort sem mönnum líkar það betur eða verr.

Í dag á ég víst stórafmæli og kannski verður haldið eitthvað uppá það seinna meir. Þakka öllum þeim innilega sem hafa látið svo lítið að óska mér til hamingju á fésbókinni.

IMG 1520Sveppur. (Sennilega eitraður).


1759 - Áhrifamiklir bloggarar (framhald)

Um daginn var ég að telja upp bloggara sem hafa haft talsvert mikil áhrif á mig á bloggferlinum. Tveir eru þeir sem ég hef alveg gleymt að telja upp þar, en þeir eru báðir mjög góðir bloggarar og hafa haft mikil áhrif á mig. Það eru Jens Guð og Hrannar Baldursson.

Jens Guð nennir þessu varla en fer oft á einhver myndasöfn og semur fyndinn texta við myndirnar sem hann finnur þar. Hann er alltof sleipur til að láta hanka sig á vafasömum skoðunum þó ekki fari neitt á milli mála hverjar þær eru.

Hrannar Baldursson er oft mjög heimspekilegur og forðast ekki umræður um trúmál eins og margir (þar á meðal ég) gera. Sérfróður mjög er hann um kvikmyndir, en hefur áhuga á mörgu öðru.

Auðvitað er líka oft afskaplega fróðlegt að lesa bloggið hans Ómars Ragnarssonar, en það er aðeins á fárra færi að fylgjast með öllu sem hann tekur sér fyrir hendur.

Myndadeilingar og þessháttar á fésbókinni koma á margan hátt í staðinn fyrir dagblöðin sem ég er alveg hættur að lesa. Hægt er að skruna þar eða skrolla, eins margir segja, svotil endalaust án þess að sjái högg á vatni, þ.e.a.s. ef maður á nógu marga fésbókarvini. Held ég. Annars skil ég fésbókina ekkert sérlega vel og þannig á það víst að vera.

Svo má kíkja á blogg-gáttina og kannski eitthvað annað á netinu, en aðalgallinn er sá að tíminn flýgur frá manni. Kannski er bara betra að gera eitthvað að gagni.

Þegar maður er orðinn (eða alveg að verða) sjötugur og engin not fyrir mann lengur á vinnumarkaðnum og maður svosem ekki fær um nærri allt sem maður gat auðveldlega áður fyrr, þá er ágætt að stússast í kringum tölvuna. Jafnvel að blogga. Bara ekki of mikið. Þá verður maður leiðinlegur.

Því skyldi ég ekki Moggabloggast eins og enginn sé morgundagurinn. Er það eitthvert statement hvar maður bloggar. Ég hef ekkert undan þjónustunni hér að kvarta. Hef einmitt undanfarið verið að finna ýmsa sem hófu sinn bloggferil hér en eru komnir eitthvert annað. Mér er alveg sama. Ef fólk heldur mig íhaldsmann bara af því ég blogga hér gerir það ekkert til.

IMG 1513Ævintýraveröld. 


1758 - Ta meiga rollana best vita

Lykillinn að andlegu heilbrigði er að geta verið einn með sjálfum sér. Gera sér að einhverju leyti grein fyrir heimsku sinni, takmörkunum og fordómum, en sætta sig við það allt saman og líða vel í eigin hugarheimi. Samskipti við aðra eru auðvitað mikilvæg en æði oft afar yfirborðskennd og grunn. Enginn hugsar á sama hátt og maður sjálfur. Hávaði, hvort sem um er að ræða umhverfishljóð, háværa tónlist eða eitthvað annað, er því aðeins þolandi fyrir fullkomna einbeitingu, að hann drekki öðrum hljóðum sem hugsanlega gætu truflað.

Styrmir Gunnarsson fyrrum ritstjóri Morgunblaðsins spáir því að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson verði næsti forsætisráðherra landsins. Það finnst mér dálítið glannalegur spádómur en hann getur hugsanlega ræst. Sjálfstæðismenn langar svo mikið að ná völdum aftur að forysta flokksins gæti vel gengið svo langt að bjóða Sigmundi það embætti, kannski með einhverjum skilyrðum. Hætt er þó við að pabbi hans hafi eyðilagt þann möguleika fyrir honum með því að hamra áfram á Kögunarmálinu. Veit lítið um stjórnarkosningar og þess háttar í fjórflokknum en ef Framsóknarflokkurinn á ekki að halda áfram að minnka er nauðsynlegt fyrir fólk þar að losna við Sigmund Davíð.

Í bloggi einu sem ég las áðan var sagt frá smalamennsku í Strákagöngum við Siglufjörð. Það minnti mig á baráttu mína við Strympurollurnar þegar ég var á Vegamótum. Frá því væri hægt að segja margar sögur en ég sleppi því núna. Besta sagan um þær finnst mér vera frá Þorgrími mjólkurbílstjóra á Eiðhúsum. Hann var oft á ferðinni við Vegamót snemma morguns og sagði mér frá því að þær væru slæmar með að liggja á miðjum veginum og róta sér ekki þó keyrt væri alveg að þeim og flautað sem mest. Stundum þyrfti hann að fara út úr bílnum og gera sig líklegan til að sparka í þær til að þær kæmu sér í burtu.

Ég gæti fyllt bloggið mitt með rollusögum en það athyglisverðasta sem ég hef séð til kinda átti sér stað uppá Reykjum við Hveragerði. Þar var líklega um einskonar námskeið að ræða og sú sem greinilega var kennarinn var að sýna hinum hvernig ætti að stökkva yfir rörahlið. Jú, jú hliðið var ekki ýkja stórt og með því að taka tilhlaup tókst kindinni að stökkva yfir það. Lítil lömb áttu þó í vandræðum með að leika það eftir.  

Danskur kaupmaður sem Lambi var kallaður (minnir að fullt nafn hafi verið Lambertsen) varð fyrir aðkasti sem fólst í einhverjum lambabrandara frá manni sem stundum var kallaður Jón rolla. Þá sagði hann og var það oft haft að orðtaki: „Ta meiga rollana best vita.“

IMG 1507Kringlumýrarbraut á sunnudagsmorgni.


1757 - Harpa, Gísli og Jónas

Tvö eru þau blogg sem ég oft les um þessar mundir. Annað er eftir Jónas Kristjánsson og hitt er eftir Gísla Ásgeirsson. Gísli skrifar ekki nærri eins oft og mikið og Jónas en rétt er að fylgjast með því sem hann segir.

Auðvitað les ég líka oft bloggið hennar Hörpu Hreins en mér finnst hún oft vera of orðmörg og sérhæfð. Það sem hún skrifar um kynnir hún sér vel. Á Vantrú og Guðfræðideild Háskólans hef ég takmarkaðan áhuga en úttekt hennar á málum þar er mjög vönduð eftir því sem ég best fæ séð. Frásögn hennar af því sem gengið hefur á í sambandi við Sögu Akraness er líka mjög góð. Handavinnu-umfjöllun hennar höfðar ekki sérstaklega til mín.Nú er hún byrjuð að fjalla um rafbækur og ekki skortir mig áhugann þar.

Þeir sem mér finnst að hafi kennt mér mest í sambandi við bloggskrif eru eftirfarandi: (Kannski er ég lélegur bloggari og þá er það þessum að kenna umfram aðra.)

Salvör Kristjana
Harpa Hreinsdóttir
Gísli Ásgeirsson
Páll Ásgeirsson
Ágúst Borgþór
Jónas Kristjánsson
Nanna Rögnvaldardóttir

Athugið að röðin hefur enga sérstaka þýðingu.

Las áðan frásögn í DV um mann sem hafði gerst liðhlaupi úr Bandaríkjaher fyrir 28 árum og fannst hún með því athyglisverðasta sem ég hef séð í því blaði. Hann hafði flúið til Svíþjóðar og hafið þar nýtt líf. Eignaðist börn og buru, en sagði ekki einu sinni eiginkonu sinni frá því hver hann var í raun og veru. Greinin var reyndar herfilega illa þýdd en áhugaverð samt. Maðurinn hafði svo haft samband við bróður sinn og foreldra nýlega.

Einu sinni þegar Siggi Hlö var ekkert frægur að ráði og farsímarnir að hefja innreið sína á þessu útskeri var hann að borða í mötuneyti Stöðvar 2 með farsíma standandi fyrir framan sig á borðinu. Allt í einu hringir síminn og Siggi stendur upp og hneigir sig undir dynjandi lófataki. Síðan svaraði hann í símann. Ógleymanlegt.

IMG 1500Ef ekkert annað er til að mála þá má mála gangstéttarhellurnar.





1756 - Klámið

Bækur með klámfengnu efni fóru mjög dult í mínu ungdæmi. (Roðasteinninn og ýmislegt annað – menn lásu Agnar Mykle með mikilli athygli þá. Mér hefur samt orðið minnsstæðari  smásagan hans um manninn sem keyrði yfir heypokann en klámið) Nú kippa menn sér lítið upp við klám í bókum. Mér finnst samt flestir fjölmiðlar vera uppfullir af klámumræðu um þessar mundir. Sú umræða sem átti sér stað (einkum utan Íslands, kannski) um klámið uppúr 1970 fannst mér mjög áhugaverð, en sú umræða sem fer fram núna, finnst mér ekki vera það. Auðvitað eru samt margir sem þurfa að velta sér uppúr þessu og ekkert við því að segja.

Í dag er föstudagur og ég er að hugsa um að reyna að skrifa eitthvað og setja það upp seinni partinn. Nú er klukkan að verða tíu fyrir hádegi og ég er búinn að vera vakandi talsvert lengi. Þegar maður eldist og þarf ekki að fara til vinnu vaknar maður ennþá fyrr en áður. Það er ekkert varið í að liggja sem lengst í bælinu. Auðvitað fer maður fyrr að sofa en áður. Jafnvel fyrir miðnætti.

Hef tekið eftir því að bloggið mitt er meira lesið um helgar en annars. Kannski fara þá fleiri út fyrir rammann og skoða eitthvað sem þeir skoða yfirleitt ekki á rúmhelgum dögum. Sjálfur geri ég engan greinarmun á því hvort ég skrifa um helgi eða ekki. Það er mikil guðsblessun að stórmarkaðirnir, sem eru þær verslanir sem ég fer helst í, eru opnir um helgar. Skelfing hefur oft verið leiðinlegt að vera gamall áður fyrr. Engar tölvur, ekkert hægt að fara og ekkert hægt að gera. Það er svosem alltaf nóg um að vera samt. Maður nennir bara ekki að vera að þeytast um allt. Svo er bensínið orðið rándýrt.

Var að lesa eitthvað um námskrár og leikskóla og einhver komst þannig að orði að munur hefði verið ef skilgreiningar af þessu tagi hefðu verið til staðar þegar hann var ungur og þá hefði hann kannski gert annað en éta sand. Ég fór aldrei á leikskóla en vel getur verið að ég hafi lært að éta sand samt.

Baráttan gegn ESB er nú óðum að færast yfir á ljósaperur. Skil reyndar ekki af hverju það er. Hef næstum allt þetta kjörtímabil búist við því að Vinstri grænir slitu stjórnarsamstarfinu fyrir kosningar útaf ESB. Samningaviðræðurnar við bandalagið hafa dregist á langinn og nú er ég semsamt að bila í þeirri trú og verið getur að stjórnin lafi út kjörtímabilið. Hvað þá tekur við hef ég enga hugmynd um. Vona samt að það verði ekki Sjálfstæðisflokkurinn með stuðningi hægri hluta Framsóknar.

IMG 1488Vá, það er hægt að opna hurðina!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband