Bloggfærslur mánaðarins, september 2012
6.9.2012 | 09:55
1755 - Ýkjur fjölmiðla
Mér finnst óþægilega algengt að fjölmiðlar ýki stórlega slysafréttir og hugsanlega líka aðrar. Nýjasta dæmið er um árásina á litla drenginn í Breiðholti. Ég þekki ekkert til málsins en fékk strax á tilfinninguna að meira væri gert úr málinu en eðlilegt væri og ekki meira um það.
Persónuníð allskonar er mjög fyrirferðarmikið á fésbókinni. Samt er margt mjög gott þar og ómetanlegt að geta fylgst með málum næstum jafnóðum og þau gerast. Öllu sem skrifað er þar ber þó að taka með vissri varúð. Ekki trúi ég að fólk sé viljandi að ljúga þar eða gera alltof mikið úr hlutunum. Hver og einn horfir bara á málin frá sínum sjónarhóli og sá hóll kann að vera mjög ólíkur öðrum.
Nú eru Kögunarmál Gunnlaugs fyrrverandi þingmanns komin í fréttirnar enn einu sinni. Enn heldur hann því fram að hann sé saklaus þó allir viti að svo er alls ekki. Framsókn undir forystu Halldórs Ásgrímssonar lagði mikla áherslu á það á sínum tíma að svæfa þetta mál eins og flestir hljóta að muna því þetta var mjög til umfjöllunar í fjölmiðlum á sínum tíma. Þetta er örugglega eitt af þeim málum sem tryggt hafa slæmt gengi Framsóknarflokksins undanfarna áratugi.
Lög segja beinlínis að hygla skuli konum í tilfelli einsog með sýslumanninn á Húsavík. Mér finnst að Ögmundur hefði átt að ráða hana ef karlmaðurinn og konan voru jafnsett. Hef ekki heyrt því haldið fram af öðrum en Ögmundi að karlmaðurinn hafi verið hæfari. Lagasetning á Alþingi á ekki að vera af því bara og ráðherrum að líðast að virða lögin einskis ef þeim sýnist svo.
Orðskviðir og allskyns spakmæli (einkum í myndformi) virðast eiga sérlega greiða leið inná fésbókina (a.m.k. hjá mínum fésbókarvinum sem reyndar eru alltof margir). Mér leiðist það svolítið því það tekur svo mikið pláss. Linkar á svona spakmælasöfn væru mun heppilegri. Tilvísanir í athyglisverðar fréttir og greinar finnst mér hinsvegar fengur að fá. Auðvitað veit ég vel að ekki hugsa allir eins. Fésbókin getur ekki fremur en aðrir vefir verið öllum sínum áskrifendum allt. Þeir sem deila þessari mynd fara tvisvar í pottinn. Gallinn er bara sá að ég fer aldrei í pottinn.
Þegar ég er að skammast út í fésbókina dettur mér oft í hug spakmælið: Það er tungunni tamast sem er hjartanu kærast.
Verst hvað ég skil fésbókina illa. Mér finnst stefnan vera sú að gera fólki fært að gera sem flest á fésbókinni fremur en að skilja af hverju það gerist. Ég hugsa bara þveröfugt við flesta aðra, held ég. Mér finnst ekkert gaman að gera hluti á netinu án þess að skilja nokkuð vel af hverju tölvurnar haga sér eins og þær gera.
Fornleifarannsókn á vegum alþingis.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.9.2012 | 09:55
1754 - Þjóðaratkvæðagreiðslan í október o.fl.
Skottsala (úr bílskottum) skilst mér að hafi farið fram í Hamraborginni um helgina. Stóri gallinn við skottsöluna eru líkindi orðsins við skortsölu og þar með fær fólk illan bifur á þessari íþróttagrein. Algerlega að ófyrirsynju.
Það er vandlifað í henni verslu. Einhver hvíslaði því að mér um daginn að hveiti væri afskaplega óhollt. (Vissi af þessu með sykurinn) Þá má ekki nota hveiti í bakstur og ekki heilhveiti heldur býst ég við. Spelt má víst nota ennþá a.m.k. Svo er hægt að reyna að ná gluteninu úr hveitinu, hvernig sem það er gert. Hef annars ekki hugmynd um hvað þetta gluten er. Ætli nokkur viti það? Sagt er að Haraldur Á. Sigurðsson leikari hafi einhverntíma sagt: Það er bara ekkert gaman að lifa lengur, allt sem eitthvað er varið í, er annaðhvort ósiðlegt eða fitandi.
Þegar ég verð andvaka á nóttunum sé ég hlutina í afar skýru ljósi og get leyst næstum öll vandamál. Svo fer svefntaflan að virka og þá verð ég að fara að sofa. Af hverju er ég eiginlega að þessu? Skil það bara ekki. Eiginlega er skemmtilegra að flakka fram og aftur um vefinn en að standa í þessu skriferíi. Samt er ég að eyða tímanum í þessa vitleysu.
Það virðist vera orðin einhver mission hjá Jónasi Kristjánssyni og Jens Guði að tala illa um Travel-inn. Fleiri gera það líka svo líklega er eitthvað til í þessu. Get samt ekki að því gert að ég er farinn að vorkenna fyrirtækinu.
Að einu leyti er þjóðaratkvæðagreiðslan sem fara á fram í október næstkomandi ólík þeim sem verið hafa um icesave að undanförnu. Þær síðarnefndu hafa verið í nokkurri andstöðu við meirihluta Alþingis og að frumkvæði forsetans. Sú sem nú er fyrirhuguð er það ekki. Segja má að með henni (að því leyti sem hún snýst um stjórnmál dagsins) sé Alþingi, eða sá meirihluti þess sem myndar ríkisstjórn og stjórnlagaráðið (sem komst að samhljóða niðurstöðu), að leita samþykkis þjóðarinnar á gerðum sínum. Þeir sem á móti kunna að vera eru að sumu leyti settir í slæma aðstöðu. Mæti þeir ekki eru þeir í raun að fela umboð sitt þeim sem það gera. Auðvitað er eðlilegra að mæta og greiða þá atkvæði gegn tillögu stjórnlagaráðs ef hugurinn stendur til þess.
Stóri gallinn við boðaða þjóðaratkvæðagreiðslu er að Alþingi getur samþykkt hvað sem því sýnist varðandi stjórnarskrá (óháð úrslitum þjóðaratkvæðagreiðslunnar) og síðan verður að samþykkja það óbreytt á næsta þingi á eftir ef það á að taka gildi sem stjórnarskrárbreyting. Þannig er hægt að halda því fram að þýðing þessarar atkvæðagreiðsla sé umdeilanleg og skipti e.t.v. litlu máli, en næstu þingkosningar öllu.
Hvað sem því líður er sú gjörð að greiða ekki atkvæði í október n.k. samsvarandi því að færa þeim sem það gera vald sitt. Hvort það vald er mikið eða lítið er svo hægt að deila um og undir hverjum og einum komið að skilgreina það og þar að auki getur þetta vald verið breytingum háð.
Geturðu hoppað hærra en húsið? Já, en húsið getur ekkert hoppað.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.9.2012 | 17:30
1753 - Ný stjórnarskrá
Öpp og allskyns vefir ríða nú húsum sem aldrei fyrr. Fésbókin er bara að verða vinaleg og gamaldags í samanburði við sumt. Illskiljanleg samt oftast nær. Veit ekki einu sinni hvað þetta heitir allt saman. Pinterest, Tumblr, twitter, instagram o.fl. hef ég heyrt minnst á, en veit svosem ekkert um.
Tölvur eru líka á allan hátt að verða fyrirferðarmeiri í daglega lífinu. Jafnaldrar mínir komast samt margir vel af án þess að hafa af þeim nokkrar áhyggjur. Aftur á móti er svo að sjá að þeir sem ungir eru geti ekki án þeirra verið. Þannig er bara gangur lífsins. Svipað var með bílana á árum áður. Margir þeirra sem tilheyrðu gengnum kynslóðum forðuðust slík tæki. Fóru í mesta lagi inní slíkt ef ekki varð hjá því kominst.
Sumir þeirra sem ala aldur sinn hér á fésbókinni virðast vera talsvert tarotsinnaðir. Það er miður því þá telja þeir að líkindum að spilin stjórni mannlífinu. Nógu vitlaus er nú fésbókin samt, þó ekki bætist þetta við. Hef ekki séð mikið fjallað um drauga þar eða hér á blogginu né aðrar handanheimsfígúrur nema þá helst Guð Almáttugan. En förum ekki nánar út í það, nóg er nú samt.
Verulegar líkur eru á að þjóðaratkvæðagreiðslan sem fara á fram í október næstkomandi snúist einkum um það hvort taka eigi þátt í henni eða ekki. Þeir sem berjast fyrir því að fólk taki ekki þátt í henni (tala nú ekki um stjórnmálaflokka) taka talsverða áhættu.
Kosningin verður eflaust kærð til hæstaréttar en það er ekki öruggt að hann dæmi hana ógilda. Og þó svo verði getur hún haft mikil áhrif. Með henni má sennilega segja að mikill átakavetur hefjist í íslenskum stjórnmálum. Hvort þau átök verða aðallega á Alþingi eða umhverfis það er alls ekki gott að segja á þessu stigi. Lok þeirra átaka verða örugglega ekki fyrr en í næstu þingkosningum, en þá ætti þeim að ljúka að mestu leyti.
Skoðanakannanir, sem margir taka heilmikið mark á, fara einkum fram í gegnum síma núorðið sýnist mér. Vel getur verið að sú mynd sem síminn gefur af þeim sem þátt taka í þeim sé ekki alveg rétt. Einkum ef tekið er tillit til þess hve margir hafa afþakkað allskyns truflanir í síma sínum. Svipað er að segja um allskonar undirskriftasafnanir sem fram fara á netinu. Ekki er öruggt hve mikið er að marka þær. Hugsanlega er því líkt farið með þjóðaratkvæðagreiðslur einkum ef sumir skora á fólk að kjósa ekki en aðrir á það að kjósa. Einhvers staðar verður samt að nema staðar. Gallar hljóta alltaf að vera á öllu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)