Bloggfærslur mánaðarins, mars 2012
15.3.2012 | 11:24
1635 - Aðgengi
Tvennt er það sem ég hef mest gaman af að gera. Það er að lesa það sem aðrir skrifa og að skrifa sjálfur. Skrifin verða oftast að bloggi. Ekki veit ég hvort mér líkar betur að skrifa að kvöldi til eða morgni. Eiginlega hef ég enga skoðun á því hvort sé betra. Allra best er samt að skrifa (og byrja þar með á bloggi næsta dags) eftir að vera nýbúinn að senda frá sér blogg. Það að senda frá sér blogg út í eterinn er gífurlega hreinsandi. Þar með losnar maður við það sem maður hefur verið að skrifa og þarf ekki að hafa áhyggjur af því meir. Ef maður ætlaði sér að skrifa eitthvað annað og varanlegra þyrfti maður sennilega að burðast með áhyggjur af því í lengri tíma. Með því að gera það jafnóðum að bloggi sem maður skrifar losnar maður við slíkar hugsanir.
Langt má komast í frumlegum réttritunarvillum en þetta er með því besta sem ég hef séð. hryggninjastofninn var skrifað eins og ekkert væri eðlilegra á Moggabloggi einu sem ég sá áðan. Það var samhengið eitt sem sýndi mér framá að þarna átti að standa hrygningarstofninn.
Er hugsanlega betra að vera örvhentur, en rétthentur? Ganga menn svo langt að venja sig á að skrifa með vinstri hendinni til þess eins að vera taldir örvhentir? Ég trúi því ekki, en hef samt heyrt því fleygt að svo sé. Hvað með alla snilligana sem eiga að hafa verið örvhentir? Da Vinci t.d.? Úr nútímanum má t.d. nefna Clinton fyrrum bandaríkjaforseta. Eru allir einhver blanda af því að vera örvhentur og rétthentur? Hvaða atriði sker úr? Er það bara mannfólkið sem er ýmist örvhent eða rétthent? Hvernig erfist örvhendi, ef hún gerir það? Spurningarnar eru greinilega miklu fleiri en svörin. Verðugt rannsóknarefni.
Þegar ég sá um videófélagið í Borgarnesi á sínum tíma gerðum við árlega einskonar áramótaskaup. Eftirminnilegasta atvikið í því sambandi var þegar við fórum út í Hafnarskóg með Moskovits bifreið sem ákveðið var að henda þó gangfær væri. Hún átti að leika í bílslysa-atriði sem ég man ekki nákvæmlega hvernig var. Bíllinn átti þó að lenda í árekstri og ekki þótti vogandi að neinn væri í honum. Bifreiðin var því sett í gang, steinn á bensíngjöfina og þannig átti hún að keyra í áreksturinn. Ekki vildi samt betur til en svo að bíllinn sveigði frá því sem hann átti að keyra á og hvarf á bak við næstu hæð. Miklar umræður spunnust um þessi mistök hjá tökuliðinu og þeim lauk ekki fyrr en Moskovitsbifreiðin kom mannlaus úr ferð sinni og stefndi beint á myndatökuhópinn. Þar varð auðvitað uppi fótur og fit og reyndi hver að bjarga sér og sínum tækjum og endirinn varð sá að bifreiðin valt og stöðvaðist án þess að valda umtalsverðu tjóni nema á lögreglubílnum sem af einhverjum furðulegum ástæðum var staddur þarna.
Aðgengi fólks að bókum og allskyns lesefni hefur aukist mikið við tilkomu internetsins. Nú virðist það vera að aukast stórlega enn og aftur með tilkomu og algengi lesvélanna. Þó þær hafi verið til lengi er það fyrst nú sem þær eru að verða algengar hér á landi. Ég hef nú svo mikið aðgengi að allskyns lesefni, ýmist ókeypis eða mjög ódýru að ég sé alls ekki framá að komast yfir að lesa allt það sem ég hef áhuga fyrir. Mest af þessu efni er auðvitað á ensku. Það eru hinsvegar allsekki allir sem geta lesið sér til gagns á því máli. Skrif um rafræna útgáfu á íslensku ættu því að vera velkomin. Í framtíðinni er ég að hugsa um að einbeita mér að slíku því það er að verða mér talsvert áhugamál að fylgjast með því sem er að gerast varðandi þessi mál.
Ekkert megum við gamla fólkið hafa í friði. Nú er farið að tala um að selja inn á hálftíma hálfvitanna sem lengi er búin að vera okkar helsta skemmtun. Búast má því við að hætt verði að sjónvarpa þessu skemmtiatriði ókeypis og áhorfendum fækki. Mér er eiginlega sama hvort þessi hálftími er kallaður óundirbúnar fyrirspurnir, störf þingsins, fundarstjórn forseta eða eitthvað annað. Það má alltaf búast við einhverju óvæntu. Í því að koma manni á óvart eru þingmennirnir bestir. Verst er hvað flokkapólitíkin flækist oft fyrir. Venjulega segja þingmenn ekkert um það sem þeir hugsa heldur það sem þeir halda að komi flokki sínum best. Á þessu getur stundum orðið misbrestur og þá er gaman að greyjunum.
Nú getum við Kópavogsbúar hlakkað til að Jón gull komi til okkar!!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
14.3.2012 | 23:23
1634 - Reglur um blogg
Gamla myndin.
Bjarni Harðarson og ég veit ekki hver.
Það er þrjár reglur sem þarf að hafa í huga til að geta bloggað með árangri. Því miður veit enginn hvernig þessar reglur eru. Ég fer venjulega eftir þeirri reglu einni, að það séu engar reglur til um það, enda kann ég ekkert að blogga. Yfirleitt eru allar reglur til þess eins að brjóta þær. Þetta vita allir. Samt er alltaf verið að hamast við að búa til reglur um allan fjárann. Best væri auðvitað að hætta því.
Sú breyting hefur orðið á Moggablogginu að innleggin þangað koma ekki í ljós alveg strax. (Sama hversu góð þau eru.) Þetta hefur orðið til þess að ég hef ekki fundið strax á Moggablogginu það sem ég þóttist þó hafa sent þangað. Þannig hefur mér með naumindum tekist að komast hjá því að tvítaka sum bloggin. Þau eru samt það góð (finnst mér) að þau hefðu alveg þolað það. Samt er þetta ekki sérlega góð hugmynd. Kannski er þetta bara vegna þess að ég blogga stundum á öðrum tímum en vanalega. Hvað sem því líður er þetta ekki alvarlegt. Hætti svo að hugsa um þetta. 1 2 og þrír.
Breiðfylkingin með aðstoð útvarps Sögu og Frjálslynda flokksins sáluga ætlar um næstu helgi að ljúka við að stofna sjálfa sig. Baráttan um atkvæði þeirra sem ekki vilja að fjórflokkurinn ráði áfram öllu hér á landi er hafin. Veit samt ekki hver er í forsetaframboði fyrir Breiðfylkinguna. Kannski á eftir að ákveða það.
Það er nú svoleiðis með mig, var Jón Eðvarð vanur að segja í gamla daga þegar kvennamál bar á góma (sem var nokkuð oft). Með þessu áttu tilheyrendur að álíta Jón Eðvarð öfugan. Þannig held ég að flestir hafi tekið þessu. Nú á ekki lengur að útrýma villtu fólki segir Snorri í Betel heldur reyna að leiða því villu síns vegar fyrir sjónir. Ef það er rétt að allt að því 10 prósent fólks sé í eðli sínu samkynhneigt er þetta varla vinnandi vegur.
Er ég að reyna samkeppni við Baggalút með því að gera grín að öllu? Ekki er það vitandi vits. Hugsun mín er bara svona takmörkuð. Á erfitt með að greina á milli alvöru og skops og er þess vegna yfirleitt fremur þungur á brúnina og álitinn fúllyndur mjög. Svo er bara að reyna að gera gott úr öllu saman, en það gengur misjafnlega.
Einhverntíma ætla ég að yrkja kvæði
fái ég bara bæði
brennivín og næði.
Þetta held ég að ég hafi einhverntíma sett saman sjálfur og man ekki eftir að hafa fyrr bloggað um það. Ekki er þetta merkilegur kveðskapur, en í lagi þó.
Ekki held ég að umræðan um Evrópusambandsaðild verði stuðningsmönnum slíkrar inngöngu erfið ef andstæðingunum er alvara með að láta Vigdísi Hauksdóttur og Ásmund Einar Daðasons vera áfram helstu talsmenn andstöðunnar við aðild. Sú held ég raunar ekki að verði niðurstaðan og munu þau eflaust kalla það einelti.
Samkvæmt skoðanakönnunum er þó augljóst að andstaðan við aðild er talsvert mikil. Á þann hraðferðarvagn vil ég þó ekki stökkva. Aðild Íslands að ESB mun einhverntíma verða staðreynd. Hagstæðasti tíminn fyrir upptöku slíkrar aðildar er löngu liðinn og ef við Íslendingar bíðum enn með það mun hlutur okkar halda áfram að versna, nema ESB breytist að öllu leyti í samræmi við vonir andstæðinga þess.
Svo enn sé höggvið í sama pólitíska knérunninn og fyrr, þá sé ég endalok núverandi ríkisstjórnarsamstarfs verða með þeim hætti að þingflokkur VG ákveði að slíta því. Sennilega verður það með tilvísun til ESB og Jóhanna mun líklega svara því með að boða til alþingiskosninga. Þetta gæti orðið í vetur eða vor. Frekar þó næsta haust. Punktur og Pasta.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
14.3.2012 | 09:11
1633 - Svona á að blogga
Gamla myndin.
Kristín Þóra Harðardóttir og Bjarni Sæmundsson.
Nei, ég er ekki hættur að blogga. Bara að minnka það svolítið, enda ekki vanþörf á. Þó ekki væri annað þarf ég endilega að koma myndunum mínum einhvervegin að. Mér finnst þetta góð aðferð til þess. Hef líka lúmskt gaman af að skrifa. Það er jafnvel enn betra og skemmtilegra eftir að ég hætti að láta dagatalið ráða svona miklu um skrifin.
Með þindarlausu bloggi í mörg ár er ég búinn að koma mér upp blogg-ég-i sem á ekkert (eða a.m.k. mjög lítið) sameiginlegt með mér sjálfum. Þetta er frekar leiðinlegur gaur sem allt þykist vita. (Viðurkennir jafnvel ekki að hann þurfi oft að gúgla einföldustu staðreyndir.) Hann er í stuttu máli sagt fremur óþolandi. Samt er þetta pár lesið og ekki þýðir fyrir mig (Sæmund sjálfan) að segja mikið við því. Tek lesendum bara vara fyrir því að þetta er alls ekki ég. Það var með naumindum að mér tókst að skjóta þessari málsgrein inn. Sennilega verður henni hent út ef Skrif-ég sér þetta.
Þessari mynd stal ég af fésbókinni. Það er ekki ýkja erfitt að lesa þetta ef maður skilur ensku sæmilega. Tölustafirnir tákna yfirleitt þá bókstafi sem þeir líkjast mest. Best er sennilega að fara hratt yfir þetta í fyrstu því við endurtekinn lestur verður sífellt auðveldara að skilja þetta.
Mér var að detta svolítið frábært í hug áðan. Ég er að hugsa um að skrifa bók sem á að heita Hvernig á að blogga? Þetta á að vera kyndilbók, þ.e.a.s. það á að vera hægt að lesa hana í kyndiltölvu og reyndar allskonar lesvélum líka. Þar á að vera hægt að velja sér font og stærð á honum eins og venjulega og allt þessháttar. Kannski ég leyfi textanum að vera pdf líka. Er bara ekki búinn að finna út hvenig ég geri það. Ég er að hugsa um að hafa bókina ókeypis. Þá vilja ábyggilega flestir kíkja í hana. Hinn möguleikinn er að hafa hana rándýra en ókeypis kynningu og sýnishorn.
Ég er búinn að hugsa heilmikið um þetta en á bara eftir að skrifa bókina. Það getur varla verið mikið mál. Best að vinda sér í það. Kannski get ég notað gömul blogg til að koma mér af stað. Athuga það.
Á meðan ætla ég bara að blogga smá. Eitt atriðið í bókinni gæti verið að benda á að það er alveg óhætt að blogga um hvað sem er. Hér er t.d. pínulítið leikrit sem ég var að enda við að semja. (Í huganum reyndar og kannski tekur það sig ekki eins vel út á prenti.)
A: Þegar ég baða mig nota ég alltaf 1313 bakteríudrepandi handsápu.
B: Þorirðu það alveg?
A: Hvað áttu við? Heldurðu að ég sé einhver baktería?
B: Nei, en þið eruð soldið lík. Heldurðu að sápan finni alltaf mismuninn?
A: Huh.
B: Þetta er nú samt ágætur brandari hjá mér.
A: Já, kannski.
Svona getur nú verið einfalt að blogga. Um að gera að láta ekki fréttir dagsins flækjast of mikið fyrir sér. Auðvitað má alltaf reyna að sýnast voða gáfaður með því að kommenta á þann hátt um þær.
Nei, annars. Sennilega er þetta ekki sýningaríbúð.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.3.2012 | 06:41
1632 - Indriði G
Gamla myndin.
Bjarni Sæmundsson.
Sýnist vera byrjað að framleiða Sinalco aftur. Man eftir að við kölluðum það oft svín-alkohól (eða svínakók) hérna um árið. Annars fannst mér það ekkert betra en annað litað sykurvatn. Appelsínið jafnvel betra. Tala nú ekki um Valash. Sem minnir mig á að það var næstum eins og að fara til útlanda að fara til Akureyrar. Sælgæti og gosdrykkir höfðu allt önnur nöfn en hér á Suðurlandinu eina og sanna.
Er ég hættur að blogga eða hvað? Finnst ansi langt síðan ég bloggaði síðast. Ekki var það þó meiningin. Ég hef víst bara svona lítið að segja. Nema svona lítið sé að frétta. Ekki er það nú líklegt. Nú veit ég. Ætli það sé ekki Reykjavíkurskákmótið sem er að tefja mig. Bjarni teflir þar og ég reyni að fylgjast svolítið með. Ekki stendur hann sig þó eins vel og í fyrr en þá vann hann bæði Róbert Lagerman (Harðarson) og Dag Argrímsson sama daginn. Ógleymanlegt.
Í gærkvöldi var verið að hamast við að framlengja og herða gjaldeyrislögin. Fór að sofa áður en klukkuhljóðið kom í þingmennina.Þeir kunna víst meira og minna á klukku. Gjaldeyrishöftin fara varla aftur fyrr en evran kemur. Svo er víst verið af yfirheyra baki brotnu í þjóðmenningarhúsinu eða þjóðarbókhlöðunni gömlu. Við Íslendingar þykjumst víst hafa verið þjóð heillengi þó það sé nú umdeilanlegt.
Ekki er ég minna fyrir neimdrpping en aðrir. Hef bara svo lítið af þeim. Þegar ég bjó í Hveragerði sem mun hafa verið svona 1987 til 1992 var Indriði G Þorsteinsson næsti nágranni minn með ameríksu glæsikerrurnar sínar. Eitt sinn kom hann til mín og sagðist hafa frétt að ég ynni á Stöð 2 og gæti líklega komið á sáttum milli sjónvarpsins síns og myndlykilslins. Lykillinn var af elstu gerðinni og í tveimur hlutum og ég hafði aldrei fengist við svonalagað þó ég byggi í Hveragerði og ynni á Stöð 2. Ég gat nú að vísu möndlað þetta og svo fórum við Indriði að rabba saman. M.a. um það man ég að nú orðið yðru krakkar aldrei bílveikir eins og algegt var í okkar umdæmi. Komum með fjölda skýringartilgátna en ekki held ég að við höfum leyst málið fyllilega. Hólmfríður Högnadóttir (köttur) þótti eiga húsið Indriða og fór þangað þegar henni sýndist. Hún átti líka fallegan garð hinum megin við götuna hjá Sigrúnu Helgadóttur og Guðmundi Ingvarssyni.
Nú er þetta að verða þokkalegasta blogg svo ég er að hugsa um að láta það bara flakka þó yfirlesturinn sé slakur.
Það hlýtur einhverntíma að koma snjór.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.3.2012 | 14:16
1631 - Skrípaleikurinn í þjóðmenningarhúsinu
Mér finnst að sjónvarpa ætti beint skrípaleiknum í þjóðmenningarhúsinu. Það er alls engin ástæða fyrir dóminn að standa á móti því. Dæmin eru mörg sem stutt gætu slíka beiðni. Hún hefur líka komið fram en verið neitað. Landsdómurinn er þessvegna ómark að mínu áliti og margra annarra.
Það er lítill vafi í mínum huga að Geir verður sýknaður, eða svotil. Kannski verður einhver málamyndasekt eða skilorðsbundinn fárra daga dómur, en yfirbragðið allt er til þess fallið að verja Geir. Fjölmiðlafólk, dómarar, embættismenn, vitni og allir virðast sameinast í því. Ef hægt er að vera hlutdrægur, keppist fjölmiðlafólk um það. Ríkissjónvarpið sennilega verst. Samkvæmt því er næstum allt sem Geir segir eða stuðningsmenn hans nokkuð sem hreint guðlast er að draga í efa. Jú, það er vel hægt að fallast á að réttarhöldin séu pólitísk. Það var þó ekki hægt að búast við að vinstri menn létu kveða sig eins gjörsamlega í kútinn og nú virðist raunin á. Geir á bókstaflega saksóknarana, öll vitnin og sennilega dóminn líka.
Veit ekki vel hvað ég á að blogga um. En bloggað get ég á því er enginn vafi. Er annars nokkur vandi að blogga? Ekki finnst mér það. Það er því til lítils að fullyrða að bloggað geti ég. Sumir treysta sér kannski ekki til þess en gætu það alveg. Ég er allavega betri að blogga en þeir.
Sú aðferð að krefjast þess að þeir sem blogga eða athugasemdast gefi upp nafnið sitt og engar refjar er mikil afturför. Líka er það afturför að fjölmiðlar flestir virðast núorðið nota einhverskonar fésbókarathugasemdir. Aðallega vegna leti held ég. Nafnleynd á bloggi er bráðnauðsynleg þó hún sé stundum misnotuð. Það er allt misnotað ef mögulegt er. Seinast í gær sá ég frétt um misnotaða hraðbanka. (Á kannski að leggja þá niður þessvegna?) Ég kann vel að svindla á hraðbönkum en hef aldrei notað mér þá vitneskju, því komast mundi upp um mig á endanum. Nei, ég ætla ekki að upplýsa hér hvernig á að fara að því.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.3.2012 | 11:14
1630 - Eitt lítið blogg
Undarlegt og úr takti við tímann að leyfa ekki beinar útsendingar frá Landsdómi. Ef þetta kemur almenningi ekki við, þá veit ég ekki hvað kemur honum við. Þetta á einfaldlega að vera á valdi dómsforseta að úrskurða um. (Og er það líklega). Dóminum er kannski ekki hægt að treysta til að úrskurða í svona stórmáli en í smámáli eins og hvort Geir er sekur eða ekki má hann úrskurða enda skiptir niðurstaðan þar litlu máli.
Eftir því sem meira er um að fjalla í fréttum hef ég yfirleitt minna að segja. Sem er mjög gott. Hnífstungumálið í Lágmúlanum er dæmigert fyrir það að allir vilja gera það pólitískt. Mér finnst ekki vera svo. Árásir eiga sér bara stað öðru hvoru og ástæðurnar eru jafnan afar mismunandi.
Væntanlegar forsetakosningar í júní í sumar eru mörgum ofarlega í huga. Ekki er það nein furða. Það er óvenjulegt að forsetar hagi sér eins og Ólafur Ragnar hefur gert að undanförnu. Vel getur samt verið að það sé einmitt heppilegt til vinsælda. Bíð spenntur eftir næstu skoðanakönnun um þetta mál. Varðandi mögulega mótframbjóðendur er ég eins hlutlaus og mér er framast unnt. Vona bara að kosningarnar verði spennandi en eftirleikurinn ekki illvígur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.3.2012 | 09:52
1629 - Fésbókarframboð
Gamla myndin.
Benni og Hafdís Rósa.
Talsverð umræða fer nú fram á fésbókinni um frambjóðanda til forsetakjörs á móti Ólafi Ragnari Grímssyni. Ekki ætla ég að fara að telja upp þá sem þar eru nefndir en umræðan þar er talsvert mikil. Þeir sem hæst hafa á Facebook kunna að sameinast um einn eða fáa frambjóðendur eftir nokkra daga. Áreiðanlega tekst að finna einhvern/einhverja frambærilega þannig. Einnig er vel hugsanlegt að frambjóðendur komi úr öðrum röðum. A.m.k. er víst að næstu dagar verða fjörugir að þessu leyti.
Fyrir utan að koma sjálfum sér að er ÓRG farinn mjög að skipta sér af stjórnmálum. Honum finnst mikilvægast núna að gera tvennt: Koma í veg fyrir ESB-aðild og koma í veg fyrir að ný stjórnarskrá verði samþykkt. Með því síðarnefnda koma þjóðaratkvæðagreiðslur varla til álita nema fyrir hans tilstilli og það finnst honum best. Hann álítur líka, sennilega með réttu, að hann sé a.m.k. vinsælli en ríkisstjórnin.
Er að lesa ævisögu Hitlers eftir Ian Kershaw um þessar mundir. Margt er athyglisvert varðandi ævi hans. Það sem þó er furðulegast er að gróin menningarþjóð eins og Þjóðverjar skuli hafa látið mann sem hann komast upp með að vera nánast einræðisherra í ein 12 ár og hrinda þjóðinni í vonlaust heimsstríð. Hitler hafði ekkert sérstakt til brunns að bera. Hann var þó séður stjórnmálamaður sem kunni að notfæra sér hagstæðar aðstæður og sennilega ágætur herstjórnandi, en ekkert fram yfir það. Bara uppstökkur besserwisser, sem þóttist hafa mikið vit á listum.
Annars hleyp ég úr einu í annað við lestur eins og fleira og ég á varla von á því að ég klári þessa ævisögu. Samkvæmt Kyndlinum er ég búinn með eitthvað um 5%. Það er þægilegt að hafa Kyndilinn og geta náð sér í það sem mann langar til að lesa. Mér finnst ég hafa mun minna að gera á bókasafnið eftir að ég fékk hann. Öppin eru samt fremur fá sem ég hef náð mér í. Ég er líka orðinn svo vanur að flækjast um netið á stóru Windows-tölvunni að mér finnst stýrikerfið á Kyndlinum fremur stirt og óþægilegt.
Er svolítið hræddur um að Facebook-áhrifin á fréttir og stjórnmál séu kannski ekki eins mikil og sumir halda. Leiðinlegt eflaust að vera fésbókarforseti. Þó kannski betra en ekkert. Áhrif fésbókarinnar eru samt áreiðanlega mikil. Veit ekki hvað það er sem fésbókin stjórnar ekki.
ÓRG finnst þrjátíu þúsund áskoranir heilmikið. Það finnst mér líka. Sumir reyna þó að draga úr því vegna þess að svo margir séu á kjörskrá.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.3.2012 | 17:27
1628 - Forsetakosningar
Skelfing er það ófullkomið líf hjá manni að þurfa á öllum þessum svefni að halda. Sennilega hefur ekki verið búið að finna upp nægilega góð battery þegar maðurinn var skapaður eða skapaðist því það ætti alveg að vera nóg að stinga manni í samband í svona klukkutíma á hverjum sólarhring.
Kosningabaráttan fyrir forsetakosningarnar er að hefjast. Í fljótu bragði sé ég bara tvo hugsanlega frambjóðendur sem líklegir eru til að veita ÓRG samkeppni. Þar er um að ræða Rögnu Árnadóttur og Njörð P. Njarðvík. Svo er Ástþór þarna á hliðarlínunni af gömlum vana. Hann er raunar sá eini sem búinn er að lýsa því yfir að hann ætli að bjóða sig fram. Taktíkin hjá Ólafi er því aðeins að bila. Með því að slá úr og í vonaði hann auðvitað að geta kannski sloppið við kosningar. Ef ekki verður annar í framboði gegn honum en Ástþór Magnússon er líklegt að ÓRG vinni samt sigur. Vel getur þó farið þannig að margir skili auðu.
Einu sinni fann ég fimm krónu seðil. Hann var grænn. Fyrir hann var hægt að kaupa ýmislegt. Nú tekur því ekki að beygja sig eftir fimm krónu peningi. Þó hefur verðmæti krónunnar hundraðfaldast.
Ég skil ekki þessa umræðu um upptöku kanadiska dollarans. Er reyndar alveg sammála því að krónan sé ónýt og ekki hægt að nota hana til annars en að lækka kaupið ef með þarf á fljótan og markvissan hátt. Þannig hefur það verið og mun halda áfram að verða. Líka er líklegt að mjög erfitt verði að afnema gjaldeyrishöftin. Það gekk illa eftir stríðið og mun ganga illa núna. Algjör nauðsyn er það samt. Verði það ekki gert munum við lokast inni og gleymast í þótta okkar og þrjósku. Að taka bara upp einhvern annan gjaldeyri er ekkert annað en fáviska. Það kemur varla nokkuð annað til greina en Bandaríski dollarinn eða Evran. Evrópa eða Ameríka. Hvoru viljum við heldur tilheyra? Það er spurningin. Ein og stök getum við ekki staðið án hjálpar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
4.3.2012 | 08:34
1627 - Pétur fígúra
Gamla myndin.
Að Velli í Hvolhreppi.
Eflaust má þræta um það fram og aftur hvort rétt sé að lögsækja Geir Haarde, einan eða sameinaðan. Það sem gerir málið pólitískt öðru fremur er að það skuli fyrst núna renna upp fyrir mönnum að hægt hefði verið að gera þetta öðruvísi. Mér finnst það ansi seint í rassinn gripið.
Að hugsa fast og lengi er einskonar Ögmundarhugsun.
Áróðurinn hefur áhrif. Ég er í engum vafa um að það sem sagt og skrifað hefur verið um Haarde-málið hefur haft áhrif. Einhverjir þingmenn hafa verið búnir að lofa Bjarna Ben. eða öðrum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins að hjálpa þeim við að frelsa Geir (og sjálfa sig) en gripið fegins hendi það tækifæri að geta verið á móti því sem þeir voru búnir að lofa, með því að samþykkja að vísa málinu frá.
Þannig er það bara. Ég hef enga trú á því að alþingismenn séu upp til hópa einhverjar hetjur. Þeir eru bara venjulegt fólk og greiða atkvæði eins og þeir halda að komi sér og sínum best. Nú er hægt að bíða spenntur eftir því að eitthvað komi í ljós við yfirheyrslurnar hjá Landsdómi. Líklega verður það samt ekki mikið. Geir verður heldur ekki dæmdur nema í mesta lagi til að sýnast eins og Jón Ásgeir á sínum tíma. Mesta spennan er hvernig fara næstu kosningar og hvenær verða þær. Menn eru önnum kafnir um þessar mundir við að skapa sér og sínum flokki sem bestar aðstæður við þær.
Margt er gott í málvöndunarskrifum Eiðs Guðnasonar. Málfar í fjölmiðlum er oft óvandað. Fréttamennskan og þýðingarnar líka. Eiður er samt dálítið einhæfur í skrifum sínum en mikið lesinn geri ég ráð fyrir. Hin pólitíska skúffa Eiðs er hins vegar á fésbókinni. Þar lætur hann flest flakka sem undir stjórnmál heyrir, en ávallt í stuttu máli eins og fésbókin krefst.
Pétur fígúra. Það kemur fyrir að í DV sé að finna athyglisverða hluti. Var að lesa núna áðan frétt um viðtal við Pétur Blöndal. Þar segist hann reyna eftir mætti að halda sínu einkalífi utan við fjölmiðlana, því við að segja frá því minnki stöðugt hans eigið sjálf. Þetta er rétt hjá Pétri en á ekki bara við um fræga fólkið. Mér finnst stundum að ófræga fólkið gangi ansi langt í því bæði á fésbók og annars staðar að upplýsa og jafnvel ýta í andlitið á fólki allskonar upplýsingum sem því kemur ekki við. En svona er þetta. Fólki kemur alls ekki saman um hvernig umgangast skuli eigið ego, hvað þá eitthvað sem utan við það stendur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)