Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2011
20.8.2011 | 02:27
1454 - Sturtuhengi
Gamla myndin.
Bifrastarmynd. Ég er ekki alveg viss um alla þarna. Áreiðanlega eru þarna samt sitjandi Guðmar Magnússon, Geir Magnússon og Theodor Jónsson. Sá sem er með sígarettuna er Jón Alfreðsson. Veit ekki með vissu hverjir hinir tveir eru sem standa upp á endann.
Bifhjólasamtök lýðveldisins eða Sniglarnir eins og þeir eru nefndir í daglegu tali standa nú fyrir undirskriftasöfnun og segja að það sé þeirra síðasta hálmstrá. Þeir eru á móti þeirri breytingu á umferðarlögunum sem boðuð er með frumvarpi sem nú er fyrir alþingi. Ég veit svosem ekki gjörla hverju þeir eru að mótmæla en hef alltaf verið svolítið hallur undir sniglagreyin þó ég sé ekki mótorhjólamaður sjálfur og hafi aldrei verið.
Held að þeir séu óánægðir með auknar kröfur sem til þeirra eru gerðar samkvæmt frumvarpingu að nýju lögunum. Finnst að vel megi styðja þá í þeirri baráttu. Það er ekki lítil ánægja sem í því er fólgin að geta með talsverðum rétti haldið því fram að mótorhjólamaður sé alls ekki skammaryrði í munni flestra Íslendinga heldur þvert á móti jákvætt mjög.
Ekki var það ætlun mín að skrifa svo fljótt aftur um Sögu-Akraness málið, en bæjarstjórinn og pótintátar hans virðast ekkert hafa lært. Samkvæmt Fréttatímanum (sem er nota bene um það bil eina pappírsgagnið sem ég les að staðaldri) hafa þeir nú í hótunum við Pál Baldvin Baldvinsson. Ekki held ég að þeir ríði feitum hesti frá þeirri viðureign. En gaman verður að fylgjast með henni. Kannski þeir virði Hörpu Hreinsdóttur viðlits á endanum ef nógu lengi er hamast í þeim. Annars virðast mér lesendur mínir vera farnir að gera grín að þessum eilífu Sögu Akraness málum hjá mér.
Saga Akraness er dýr bók og óspennandi, auk þess sem hún er þung og illa samin.
Saga Akraness er dýr bók og óspennandi, auk þess sem hún er þung og illa samin.
Saga Akraness er dýr bók og óspennandi, auk þess sem hún er þung og illa samin.
Saga Akraness er dýr bók og óspennandi, auk þess sem hún er þung og illa samin.
Saga Akraness er dýr bók og óspennandi, auk þess sem hún er þung og illa samin.
Saga Akraness er dýr bók og óspennandi, auk þess sem hún er þung og illa samin.
Saga Akraness er dýr bók og óspennandi, auk þess sem hún er þung og illa samin.
Saga Akraness er dýr bók og óspennandi, auk þess sem hún er þung og illa samin.
Auðvitað gæti ég prófað að endurtaka þetta nógu oft. En það er hætt við að lesendur þessa bloggs yrðu ekki hrifnir. Þeim finnst ég skrifa nógu mikið um þetta endemis rugl sem þeir hafa flestir engan áhuga á.
Mér finnst galli á nýju stjórnarskrártillögunum hve flóknar þær kosningareglur eru sem þar er að finna. Man ekki betur en það hafi verið skoðun flestra Íslendinga samkvæmt skoðanakönnunum, þjóðfundum og þ.h. að kosningafyrirkomulagið sem nú er notað sé einmitt of flókið. Kannski er slæmt að vera með mjög nákvæm fyrirmæli um kosningar í stjórnarskrá og málamiðlunarkeimurinn af tillögum stjórnarskrárráðs er mikill.
Aðstandendur tónlistarhússins nýja ætla víst að vera með allra síðustu vígslu þess á menningarnóttinni um næstu helgi. Sjaldan hef ég verið jafnsammála endurteknum vígslum eins og fyrirhugaðar eru varðandi Hörpuna. Samt er það nú svolítið skondið að vígja húsið hvað eftir annað.
Menningarnóttin (sem er reyndar alls engin nótt) er farin að setja sinn svip árlega á borgina. Nú er sú hátíð að hefjast einu sinni enn. Margt finnst mér benda til að þessi hátíð eigi eftir að slá þær fyrri út. Bílastæði eru að verða helsta vandamálið. Kannski ég keyri bara upp að Kringlu og labbi svo.
Hlustaði áðan á langt og merkilegt útvarpserindi um það hve sturtuhengi eru hættuleg. Útskýrt var skilmerkilega af hverju þau eru svona hættuleg og af hverju ber að varast þau. Tileinkaði mér þó ekki nógu vel það sem sagt var um þau til að endurtaka það hér. Mest af því var efnafræðilegt og ég er bara ekki nógu vel að mér í efnafræði til að lifa heilsusamlega. En, það er greinilega margt að varast í nútímanum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
19.8.2011 | 00:10
1453 - 100 í höggi
Bifrastarmynd. Hermann Hansson.
Hverjir voru Malenkov, Molotov og Makarios? Viljirðu í alvöru vita þetta og t.d. hverjir voru Adenauer, Allende, Amin og Andropov, þá ættirðu að lesa bókina Sá er maðurinn, eftir Jón Þ. Þór. Hún er nýkomin út og ég er með hana í láni frá bókasafninu. Þar eru örstutt æviágrip 380 kvenna og karla, sem hafa átt mikinn þátt í að móta mannkynssöguna síðastliðin 250 ár. Það er ekki nóg að vera klár á Gúgla frænda og kunna að flækjast um á Wikipediunni, heldur er ágætt að hafa upplýsingarnar um þetta heiðursfólk í minninu og þá er maður svolítið brot af sagnfræðingi ímynda ég mér.
Líka fékk ég á bókasafninu seinni bókina um meistara Þórberg eftir Pétur Gunnarsson. Hún heitir ÞÞ í forheimskunar landi eða eitthvað þessháttar og ég er að hugsa um að lesa hana spjaldanna á milli. Sobbeggi afi er nefnilega í svolitlu uppáhaldi hjá mér. Ekki síst eftir að hann og Mammagagga arfleiddu háskólann að húseign eða húseignum þó meistarinn hefði ekki fengið inngöngu í skólann á sínum tíma.
Einu sinni var strákur sem hafði feikilegt dálæti á ofurhetjum af öllu tagi og reyndi mikið að líkjast þeim. Honum þótti ekki mikið koma til máltækisins um að slá tvær flugur í einu höggi. Hann reyndi stundum að slæma fjósaskóflunni á flugurnar sem voru á fjóshaugnum eins og mý á mykjuskán. Oftast náði hann miklu fleiri flugum en tveimur og þess vegna þótti honum lítið til orðtaksins koma
Eitt sinn voru óvenjumargar flugur á fjóshaugnum og hann reyndi að ná eins mörgum og hann gat með því að slæma skóflunni á réttan stað. Þegar hann taldi svo flugurnar reyndust þær vera hundrað.
Okkar maður fór þá beina leið í Kaupfélagið og pantaði sér bol með áletruninni Hundrað í höggi. Þegar bolurinn kom klæddi hann sig í hann og hélt út í heim. Allir urðu auðvitað skíthræddir við hann því þeir héldu að hann væri fær um að rota hundrað manns í einu höggi enda var stráksi illilegur mjög.
Á endanum var það samt svo að væskill nokkur réðist á hann og hafði hann undir. Reif af honum bolinn og fór í hann sjálfur. Þá brá svo við að kunningjar hans vildu ekki þekkja hann og hlupu æpandi í burtu. Svona er nú prentað mál áhrifamikið og lýkur hér þessari örsögu, sem er þegar orðin fjórum málsgreinum of löng.
Nígeríubréf geta verið með ýmsu móti. Oftast eru þau á ensku, stundum illa skrifuð, stundum sæmilega og þá les ég þau af og til. Þetta bréf sem ég læt fylgja með hér er óvenjuvel skrifað:
Hello, I write to confess what you are presently going through with my boss. I was a member of the Federal Bureau of Investigation (FBI) on local and foreign debt attached to the World Bank office in Washington, DC, USA. I resigned my official duty when I discovered the activities of my colleagues during a private investigation I carried out. I suspected some kind of foul play in their act which they would never inform me because they know I would never be a party to such as a Christian.
I discovered that my boss was conniving with some top officials of the World Bank to divert funds approved to settle lottery winners,international contractors and withheld inheritance. The World Bank has already given approval for the payment ofyour fund while they are deliberately delaying your payment. They continue to issueone fee or the other from different quarters. I wonder why you havent noticed all this while.
Well I just hope you believe me, because if you dont, your fund is gone. Your fund is currently authorized to be paid to you from a financial consultant in the UK or US, approved by the World Bank with a Key Tested Reference/CLAIMS CODE Number, which was supposed to have been issued to you, but they have decided to divert your attention by telling you that they have something to do with one committee or the other especially in Holland (Amsterdam) or Africa and making you believe that the fund will be transferred into your account FALSE!
The reason why I am giving you this information is because of the fact that I was aware of it and my doctrine does not permit me to withhold such information. The only help you can get from me now, is the actual link to your payment, please do not give this information to my boss as it may lead to them influencing a total blockage to your payment, so you have to be very careful with this information.
Upon your response to this message, I shall give you all you need to contact the office of their payment centers in UK or US.
Yours truly, Ms.Rosalia Ramos FBI/WB. WDC, USA.
Please contact on my Private email: rosaliagods@yahoo.com
Enn og aftur er jagast fram og aftur um verðtrygginguna. Sumir virðast álíta að hún sé eitthvað sem hægt er að hrista af sér eins og hverja aðra óværu. Svo er ekki. Verðtryggingin sjálf er hlutlaus en máli skiptir hvað er haft í vísitölugrundvellinum sem hafður er til viðmiðunar og einnig hvernig reiknað er.
Að sjálfsögðu skiptir miklu máli hvernig verðbæturnar eru reiknaðar og hvort þær eru reiknaðar af allri upphæðinni eða bara hluta hennar. Það er samt augljóst að því aðeins að núverandi aðferð íbúðalánasjóðs sé notuð næst núvirðing fjármálaskuldbindinga að mestu leyti ef verðbólga er eitthvað sem um munar.
Auðvitað er samt ekki sjálfsagt að lántakandi beri alla áhættuna af því að verðbólgan verði það mikil að verulegu máli skipti hvernig verðbæturnar eru reiknaðar. En ef lánveitendur eiga að bera a.m.k. helming þeirrar áhættu eins og hagsmunasamtök heimilanna virðast ætlast til þá er hætt við að framboð af lánsfé minnki verulega eða vextir hækki.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
18.8.2011 | 00:06
1452 - Skák og mát
Bifrastarmynd. Þetta er Védís Elsa Kristjánsdóttir.
Hvað er það sem er mest eyðileggjandi í skákinni? Það eru þessi sífelldu jafntefli. Nauðsynlegt er að halda mót þar sem jafntefli eru útilokuð. Það er auðvelt. Hægt er um flest að taka tennis sér til fyrirmyndar. Jafnvel að hafa útsláttarfyrirkomulag eins og þar er oftast gert. Komi keppendur sér saman um jafntefli (eða verði það óumflýjanlegt) eftir svo og svo marga klukkutíma verði haldið áfram og tekin önnur skák með skiptum litum og stórlega styttum unhugsunartíma og haldið þannig áfram unz úrslit fást. Þetta er ekki erfitt, en mundi eflaust auka áhuga á skák mikið. Mundu góðir og gegnir meistarar taka þátt í svona löguðu? Ég held að þeir mundu gera það ef nógu mikir peningar væru í boði. En enda skákirnar ekki alltaf í hraðskákum og er það ekki allt annar hlutur en alvarlegar kappskákir? Er ekki nauðsynlegt að hafa á valdi sínu netspil og allskyns afbrigðilegheit til að ná langt í tennis? Það finnst mér og menn geta forðast hraðskákirnar með því að semja ekki jafntefli á skákir þar sem alls ekki er ljóst hvor stendur betur.
Hver er tilgangur lífsins? Hefur hann verið fundinn? Nei, ég hélt ekki. Og samt eru svona margir að leita. Mig grunar ekki hver hann er og þessvegna held ég bara áfram þessu bloggdundi. Það sakar fáa. Helst að sérstökum andstæðingum ESB bregði svolítið stundum þegar ég tek mig til og mæli með inngöngu.
Allt bendir til að kapphlaup vaxta og verðbólgu sé hafið aftur. Seðlabankinn hefur skellt sér á vaxtahækkunarvagninn og ekki er líklegt að hann fari þaðan fyrr en 20 prósent markið hefur nálgast verulega. Gefist Íslendingar á endanum upp á krónunni kann þetta þó að breytast.
Fór á bókasafnið í morgun og sá þar fyrsta bindið af Sögu Akraness. Tók hana ekki að láni því mér blöskraði þyngdin. Þó hefði ég nokkurn áhuga á að kynnast betur grúski og kenningum Gunnlaugs Haraldssonar um upphaf byggðar á Íslandi. Að hann skuli hafa komist upp með að kalla þetta grúsk sitt undirbúning að sögu Akraness og verið á launum í 14 ár við það er auðvitað tómt rugl. Væru þessar kenningar hans settar í handhæga og litla bók kæmi vel til greina að ég liti á hana.
Ég skrifa gjarnan á mitt blogg pólitískar hugleiðingar. Þó bloggið sé talsvert lesið (eða skoðað a.m.k.) eru ekki margir sem gera athugasemdir við þessar hugleiðingar mínar. Þessvegna held ég að þær séu e.t.v. nokkuð áhrifamiklar og eftirtektarverðar. Engir treysta sér semsagt til að mótmæla þeim. Þessvegna hljóta þær að vera marktækar. Svona reyni ég að hugsa því annars væri til lítils að vera að þessu. Kannski umbera lesendur mínir þetta bara af góðseminni einni.
Varð vitni að undarlegu atviki á blómstrandi dögum í Hveragerði um daginn. Köttur nokkur ætlaði sér greinilega að komast yfir Breiðumörkina. Þar var bara bíll við bíl og þar að auki gangandi vegfarendur í hrönnum. Kötturinn beið góða stund eftir hentugu tækifæri til að komast yfir, en gafst svo á endanum upp og lallaði til baka. Kettir eru vanir að láta sér fátt fyrir brjósti brenna og skjótast yfirleitt yfir götur án vandkvæða. Þarna var umferðin meira að segja fremur hægfara, en kötturinn kannski gamall og lúinn þó ekki sæist það á honum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.8.2011 | 00:04
1451 - Árni Múli Jónasson
Björgvin Árnason. Hótel Hveragerði í baksýn.
Það eru nokkur atriði sem ég er sífellt að hamra á í mínu bloggi. Eitt er það að ég er sífellt að skora á bæjarstjórann á Akranesi að láta nú svo lítið að svara Hörpu Hreinsdóttur sem er af eðlilegum ástæðum dálítið sár yfir því hvað hann gerði lítið úr blogghæfileikum hennar í Skessuhorni um daginn.
Reyndar er þetta úrdráttur hjá mér (hver er annars munurinn á útdrætti og úrdrætti?) því ég hef m.a. farið fram á að nefndur bæjarstjóri verði hrakinn úr embætti. Harpa sjálf segir að Sveinn Kristinsson sé verri en ég veit litlar sönnur á því. Veit bara að Árni Múli var áður fiskistofustjóri og að hann var tekinn fram yfir meira en 40 umsækjendur sem sóttu einnig um stöðu bæjarstjóra á Akranesi í fyrra. Meðal umsækjenda var Steinunn Valdís Óskarsdóttir fyrrverandi borgarstjóri í Reykjavík.
Hitt er að ég er í þeim góða félagsskap sem finnur Jóni Bjarnasyni landbúnaðarráðherra flest til foráttu. Já, ég er á móti karlanganum þó hann hafi verið svo montinn fyrst eftir að hann var gerður að ráðherra að hann lengdist um hálfan metra.
Hann gengur lengra í að verja ímyndaða hagsmuni íslenskra bænda á kostnað neytenda en fyrirrennarar hans. Þar að auki kemur hann fram við fréttamenn af dæmafáu yfirlæti og hroka og ætti að skammast sín.
Að mörgu leyti er eðli mitt tvíþætt. Ég þykist alltaf vita best en skynja þó vel vanmátt minn í ýmsum málum (jafnvel flestum). Eftirfarandi húsgangur lýsir sálarástandi mínu allvel:
Oft er mínum innri strák
ofraun þar af sprottin.
Í mér tefla einatt skák
andskotinn og Drottinn.
Þetta með Drottinn er kannski ekki bókstaflega meint, því mér finnst á engan hátt meira til um kristna trú en aðra. Ekki trúi ég heldur á andskotann. Er sennilega trúleysingi inn við beinið. Þykir þó að menn eigi að geta haft sína trú í friði ef þeir vilja.
Fór áðan út að ganga og var að hugsa um hve skemmtilegt orðalag væri að segja að einhver væri á stangli. Þetta var skammt frá Sæbólsbrautinni og fljólega varð til vísa:
Við Sæbólsbraut var brjálað naut
berskjaldað á stangli.
Einhver skaut. Það byssu braut
og brosti að því dangli.
Sumir kynnu að velta fyrir sér nautsbrosi en aðrir mundu sjá strax hverslags vitleysa þetta er. Stundum velti ég því fyrir mér hvort margir atburðir sem ort hefur verið um, hafi e.t.v. aldrei átt sér stað.
ESB-andstæðingar eins og Pétur Gunnlaugsson á útvarpi Sögu ræða oft um fæðuöryggi. Allt sem ekki kemur frá Íslandi á að vera baneitrað er nýjasta kenningin. Ef við opnuðum markaðinn hér þá mundi allt fyllast af ódýrum matvörum frá þriðja heiminum. Svona áróður finnst mér skelfing barnalegur. Rétt væri að spyrja hvernig standi á því að allir íbúar í ESB-löndum séu ekki löngu dauðir því ódýrar (og eitraðar) matvörur hafi flætt þar yfir áratugum saman.
Baðvogin sem ég fjárfesti í fyrir einu eða tveimur árum bilaði sem betur fór fljótlega. Þessvegna var sjálfhætt við megrunarkúrinn sem ég ætlaði í. Nú hef ég frestað því alllengi að kaupa nýja baðvog en get það varla mikið lengur. Því miður gæti það þýtt að ég þyrfti að sjá af ístrunni sjálfri, eins og ég er búinn að hafa mikið fyrir því að koma henni upp. Nei, annars það er létt verk og löðurmannlegt. Jafnvel skemmtilegt stundum.
Hringleikahúsið mikla á Akureyri.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
16.8.2011 | 00:06
1450 - ESB meðal annars
Þarna er Björgvin að stökkva ofan af skúrþakinu heima. Kannski eru húsin í baksýn það merkilegasta við myndina. Fremst eru skúrar hjá Svavari Marteinssyni en síðan koma hús Stefáns hreppstjóra og Nýja Reykjafoss. Svona hattlaga efri hæðir voru mjög í tísku um þetta leyti.
Ef keppikeflið hjá manni er að ná sem mestum vinsældum á blogginu þá er ekki nóg að eignast marga bloggvini. Maður þarf að koma sér upp óvinum líka. Sennilega er það vegna þess hve ónýtur ég er við það, sem ég er ekki stórum vinsælli bloggari en ég þó er.
Á fésbókinni er þetta öðruvísi. Þar geturðu fengið upplýsingar um hvaðeina sem fésbókarvinir þínir taka sér fyrir hendur (og vei þeim ef þeir nenna ekki að sinna þér) Nýjasta viðbótin þar er að útvarpa því til allra sem vilja vita hver hefur verið í hvaða leik undanfarna klukkutíma. Sumum finnst þetta sjálfsagt. Mér finnst það ekki, enda fullur fésbókarandúðar.
Einhverntíma sá ég því haldið fram (af bókmenntafræðingi líklega) að allar bækur Vilborgar Davíðsdóttur væru unglingabækur. Nú er ég að lesa Oddaflug Guðrúnar Helgadóttur og þar er því haldið fram óhikað (í formála eða einhversstaðar) að þetta sé fullorðinsbók. Ég sé bara ekki muninn og líkar ekki svona dilkadráttur. Það getur haft einhvern tilgang að flokka bækur í barnabækur og aðrar bækur. En að halda því fram að bækur séu skrifaðar fyrir ákveðna aldursflokka eftir það er í besta falli óttalegur kjánaskapur.
Birti mynd af Vali Valssyni fyrir stuttu. Einu sinni vann ég með pabba hans og Herði mági við að slátra hesti uppá Reykjum. Þetta var í byggingunni. Niðri. Man að fyrir ofan þann stað sem við athöfnuðum okkur á var gat í gólfið á efri hæðinni. Þar komun við fyrir planka og hífðum skrokkinn síðan upp að aftan. Þegar eitthvað var liðið á athöfnina þurfti Valur að laga tilfæringarnar á efri hæðinni. Þá brotnaði plankinn og slóst í Val. Við höfðum orð á því að hesturinn, þó dauður væri, væri með þessu að hefna sín á Val, því hann hafði nefnilega skotið hann. Það gerði hann með riffli og mér er minnisstætt hvernig hestgreyið hrundi niður um leið og skotið hljóp af. Nokkrum dögum eftir slátrunarathöfnina kom svo mikil þráalykt af úlpuræflinum, sem ég var í við það, að ég varð að henda honum.
Stóra bróður er sífellt að fara fram. Fésbókin fylgist með flestu sem fram fer á netinu. Vísa-kortið segir frá því hvar þú verslar. Eftirlitsmyndavélarnar upplýsa um hvað þú aðhefst utandyra. Veggir heimilisins eru samt í friði þangað til lögreglan kemur í heimsókn.
Einhver minnir mig að hafi verið að kvarta undan því í athugasemdum að ég skrifaði lítið orðið um ESB. Nú skal bætt úr því.
Það er sannarlega hlálegt að sjálfstæðismenn sem hingað til hafa mælt með aukinni samvinnu við þær þjóðir sem við okkur vilja tala skuli nú hafa tekið sér bólfestu meðal mestu einangrunarsinna landsins. Já, svo er að sjá sem Bjarni Benediktsson sé algjörlega á valdi mestu harðlínupésa flokksins. Nú berst hann fyrir því að viðræðum við ESB verði hætt. Þó ég trúi ekki að hann hefði erindi sem erfiði ef hann flytti slíka tillögu á alþingi er líklegt að hann horfi bara til landsfundar flokksins. Allt er til sölu þegar um það er að ræða að halda völdum í stjórn flokksins.
Vopnin virðast vera að byrja að snúast í höndum andstæðinga aðildar að ESB. Líklega hafa þeir toppað of snemma svo notað sé íþróttamál, sem eins og allir vita er sú fegursta og stórasta íslenska sem fyrirfinnst. Því er þó alls ekki að neita að einhverjar líkur eru á því að aðildarsamningur sem sennilega næst verði felldur. Auðvitað fer það allt eftir því hvenær þessi margboðaða þjóðaratkvæðagreiðsla verður. Ég held að ríkisstjórnin stefni að því að hafa hana ekki fyrr en eftir næstu alþingiskosningar. Alþingiskosningarnar verða þá einskonar upphitun fyrir sjálfa ESB atkvæðagreiðsluna sem án efa verður mun afdrifaríkari en nokkrar alþingiskosningar.
Fyrir þremur vikum komst umboðsmaður alþingis að þeirri niðurstöðu að Jón Bjarnason landbúnaðarráðherra hafi gengið í berhögg við stjórnarskrá ríkisins þegar hann ákvað tolla á landbúnaðarvörur, sem Íslendingum er skylt að leyfa innflutning á. Enginn stjórnmálamaður hefur samt þorað að anda á Jón og er ekki annað að sjá en hann eigi að fara með alræðisvald í þessum málum. Ekki þarf að orðlengja það að hann gengur með þessu freklega á rétt neytenda í landinu. Neytendasamtökin í landinu eru það máttlaus að þau láta þetta yfir sig ganga. Það er helst að kaupmenn séu að malda í móinn og eru það slæm örlög fyrir þá sem áhuga hafa á neytendamálum að þurfa að vera alveg sammála kaupmönnum um þetta.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.8.2011 | 00:15
1449 - Eden
Þó óskýr sé, man ég að ég tók þessa mynd á Héraðsmóti Skarphéðins á Þjórsártúni. Það er Ingólfur Bárðarson kjötmeistari frá Selfossi sem þarna er í hástökki.
Þegar við sem búum í Kópavogi og nágrannasveitum bregðum okkur bæjarleið er alltaf eitthvað að frétta. Til þess er Landsbyggðin líka. Þó ekki sé sérlega langt að fara til Hveragerðis brá ég mér einmitt þangað um daginn. Eitt af því allra merkilegasta sem ég sá þar s.l. laugardag voru brunarústirnar þar sem Eden var einu sinni. Tók nokkrar myndir þar og þær má sjá hér:
1
Athyglisverðar myndir ekki vantar það. Þetta minnir mig auðvitað svolítið á þegar brann heima.
Hitti Sigga í Fagrahvammi og hann er að mestu hættur öllu garðyrkjuveseni. Stöðin hjá honum fór illa í jarðskjálftanum 2008. Skúrarnir hrundu allir, svo og Skrattabæli og flest gróðurhúsin. Hann sagði mér að verið væri að undirbúa bók um Hveragerði með viðtölum við þá elstu infæddu og hafði eftir Guðjóni Stefánssyni að Muggur bróðir hans væri talinn elsti núlifandi innfæddi Hvergerðingurinn. Kannski verð ég það einhverntíma. Ingibjörg og Sigrún eru nefnilega alls ekki fæddar í Hveragerði
Fór á skáldasýninguna í Þorlákssetri (Af hverju heitir það Þorlákssetur?) og þótti hún ekki sérlega merkileg nema þá helst fyrir þá sök að ég man ósköp vel eftir öllu þessu fólki og hlýt þess vegna að vera orðinn nokkuð gamall sjálfur.
Flest þeirra kenndu mér á sínum tíma og eru mér minnisstæðust fyrir það. Kristmanni man ég vel eftir í ljósbrúna rykfrakkanum sínum og með dökkgráa hattinn þar sem hann bíður í krakkaskaranum miðjum eftir að komast inn á 3 sýningu í Nýja Ferðabíóinu hennar Siggu og hans Eiríks. Já, auðvitað var Kristmann langstærstur í hópnum. Svona helmingi hærri en allir hinir. Fullorðið fólk fór auðvitað líka á þrjú sýningar og við krakkarnir (úllingarnir) jafnvel einnig. En okkur datt ekki í hug að vera ásamt smákrökkunum að troðast við hurðina inn í salinn. Kristmann var þó ekkert að velta þessu fyrir sér. Líklega þaulvanur misjöfnu umtali.
Spurningin sem oft gerir vart við sig í huga mér er hvort muni lifa lengur fésbókin eða bloggið. Byrjar hann nú einu sinni enn að bera þetta saman, andvarpar sennilega einhver. En mér finnst þetta alveg svolítið áhugaverð spurning. Einhvern tíma verður bloggið mitt kannski í tísku. Þá verður gaman að hafa haldið svona lengi tryggð við úreltan hlut. Jæja, ég skal þá hætta þessu.
Ekki veit ég hvers vegna það er en bloggið mitt í gær litu fleiri á en vanalega. Hugsanlega er það vegna andstöðu minnar við bæjarstjórann á Akranesi. Sé svo þá vil ég endurtaka það sem ég hef áður sagt í svörum við athugasemdum þar að ég legg til að reynt verði eftir föngum að koma honum úr embætti.
Svei mér þá. Tóti Badabing er nú farinn að stæla hafragrautaruppskriftirnar mínar. Segi ekki meira þó mér væri borgað fyrir. Tek ekki sénsinn á að reita hann til reiði. Satt að segja fer ég alltaf eftir ráðleggingunum sem komu uppúr hafragrautarbloggunum mínum og hef núna alltaf bæði hunang og kanel í mínum hafragraut og borða mikið af honum. Væri alvarlega strand ef örbylgjuofninn bilaði.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
14.8.2011 | 01:12
1448 - Saga Akraness (einu sinni enn)
Gamla myndin.
Þetta er Björgvin bróðir á hlaðinu heima. Skúrinn okkar í baksýn.
Samkvæmt skoðanakönnunum er David Cameron forsætisráðherra Breta ekki álitinn hafa höndlað rósturnar í Bretlandi nógu vel. Þetta kemur ekki á óvart. Mér fannst hann ósköp Pútín-legur í sjónvarpinu og gera lítið annað en að hóta og hóta. Mér finnst furðulegt ef bresk stjórnvöld halda í alvöru að svarið sé að loka farsímanetum og trufla sem mest allskyns samskiptasíður á netinu. Þetta er alveg úreltur hugsunarháttur. Vitanlega er það rétt að glæpahyski notfærir sér nýjustu tækni en það er ekkert nýtt. Þannig hefur það alltaf verið. Lýðræðislegir stjórnarhættir ættu þó að geta sannfært menn um að endalaus bönn virka engan vegin á svona lagað í löndum sem Bretlandi.
Sögu Akraness-málið virðist ætla að halda eitthvað áfram. Harpa heldur áfram að blogga svolítið um málið: http://harpa.blogg.is/ og ég hvet alla sem áhuga hafa á þessu að kynna sér það. Hinsvegar fékk ég bara villu þegar ég ætlaði að skoða Skessuhornsvefinn svo ég læt það bíða. Hornið hefur það sér til afsökunar að kannski er ekki hægt að ætlast til að þeir birti allt sem þeim berst. Bæjarstjórinn hefur enga slíka afsökun fyrir að svara Hörpu ekki og er hann í mínum augum (og eflaust margra annarra) bara minni maður á eftir. Sú þöggun, sem virðist eiga að beita Hörpu í þessu máli, má ekki takast.
Undarleg vitleysa er það sem móðurmálarar Mjólkursamsölunnar bjóða stundum uppá. Sagan af Jóni Straumbreyti er í miklu uppáhaldi hjá pökkunarmeisturunum þar um þessar mundir. Eflaust er átt við Jón Árnason þegar talað er um Jón sem straumbreyti í söfnun þjóðsagna. En Jón var einmitt enginn straumbreytir. Það voru aðrir sem beindu honum í þessa átt. Hann var að vísu mjög mikilvirkur og stóð sig vel í útgáfu þjóðsagna en varla réttlætir það að kalla hann straumbreyti. Sá móðurmálari sem fann upp á þessu segir eflaust að ekki sé verið að vekja athygli á þjóðsagnasöfnun sem slíkri heldur nýyrðinu sem notað er í staðinn fyrir brautryðjandi. Það kann að vera rétt, en upplagt væri þó að hugsa aðeins um nöfnin sem notuð eru.
Skrapp til Hveragerðis í dag enda er nokkurskonar þjóðhátíð þar núna. Hef aldrei séð svona margt fólk í Hveragerði. Löbbuðum svolítið um en vonlaust var að komast í ókeypis ísinn svo við slepptum því alveg. Skoðuðum Eden-rústirnar og fengum okkur alvöru kjötsúpu í Litlu Kaffistofunni á bakaleiðinni. Sluppum að mestu leyti við umferðarteppu, því við fórum það snemma heimleiðis.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
13.8.2011 | 00:08
1447 - Skordýr á Kanarí og Íslandi
Þetta er Hvergerðingurinn Valur Valsson. Sonur Vals Einarssonar.
Fyrir u.þ.b. einu og hálfu ári síðan fór ég í fyrsta sinn á ævinni til Kanaríeyja. Fyrirfram var ég svolítið með böggum hildar vegna þess að ég óttaðist að skordýralíf í hitabeltinu væri með þeim hætti að ég ætti erfitt með að sætta mig við það. Skemmst er frá því að segja að skordýrplágur og annar ófögnuður er að mínu mati miklu sjaldgæfari á Kanaríeyjum en á sumrin hér heima á Íslandi. Sú skýring sem mér dettur einna helst í hug er sú að íslensk skordýr þurfi að flýta sér mun meira en þau sem á Kanaríeyjum lifa. Aðallega auðvitað vegna þess hve sumarið er stutt hér á Fróni.
Líka kann að valda einhverju að við vorum á dálítið vernduðu og túristavænu svæði á Kanaríeyjum. Ég held þó að ástandið sé ekkert mikið verra annars staðar í hitabeltinu. Vel getur samt verið að flugur séu aðgangsharðari sumsstaðar.
Það er með öðrum orðum engin ástæða til að láta skordýraótta hræða sig frá hitabeltinu. Þar er lífið þó mjög ólíkt því sem er hér heima að því leyti að á hverju kvöldi dimmir og birtir ekki aftur fyrr en næsta morgun. Hér á Norðurslóðum eigum við því að venjast að þegar sólin er hæst á lofti þá er dagur allan sólarhringinn. Það er ekki fyrr en í ágúst sem fer að dimma á kvöldin.
Maður þarf samt alltaf að vera á varðbergi fyrir skordýrum ef manni er illa við þau. Maurar gera sig heimakomna næstum allsstaðar. Það þarf bara að ganga frá matvælum strax og búið er að borða. Ekki þýðir að bíða með það. Þá eru helvítin komin.
Mest var ég hissa á að flugur voru hvergi til vandræða. Maður sá varla slík óféti. Kakkalakkar og aðrar pöddur finnast að sjálfsögðu þarna en það virðist vera nokkuð auðvelt að halda þeim í skefjum.
Heldur vil ég vera dauður en rauður, sögðu hægri menn gjarnan áður fyrr. Líklega nota þeir þetta slagorð minna núorðið, enda gæti það misskilist. Upphaflega held ég að þetta hafi verið sagt í einhverju gríni. Rímið hefur síðan líklega haldið í því lífinu.
Þessi svokallaði frjálsi vilji er afskaplega lítils virði. Ef við finnum einhverja hvöt hjá okkur til að ganga gegn honum kennum við genunum um. Það er í tísku núna. Satt að segja er það oft mikið vafamál hvort við erum að meira leyti á valdi tilfinninganna eða skynseminnar. Við teljum sjálfum okkur samt trú um að við séum skynsemisverur. Vitum samt ekkert um það. Ætli við yrðum ekki síðust til að uppgötva eitthvað annað.
Í frétt á DV segir að bresk stjórnvöld íhugi hvort þau eigi að loka samskiptasíðum líkt og Twitter og Facebook. Hugsanlega er þetta meint í alvöru, en mér dettur ekki í hug að halda að bresk yfirvöld komist upp með neitt svonalagað. Það getur verið að Egypsk yfirvöld hafi komist upp með að loka fyrir Facebook og farsíma í vetur en aðgerðir af þessu tagi verða aldrei liðnar í þjóðfélagi á borð við Bretland. Það væri í mesta lagi hægt að trúa þessu uppá íslensk stjórnvöld en alls ekki bresk. Að ætla sér að hindra með þessum hætti samskipti fólks er beinlínis hlægilegt. Auðvitað eru yfirvöld skíthrædd við samskipti af þessu tagi en þegar þau eru einu sinni komin á í lýðræðisríkjum er ekki hægt að snúa til baka.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.8.2011 | 00:23
1446 - Niðurgreiðslur á landbúnaðarafurðum
Veit ekki hver þetta er. Líklega er hún þarna við vinnu sína annaðhvort á Hótel Hveragerði eða Hreðavatnsskála.
Marínó G. Njálsson skrifar í gær heillanga grein um niðurgreiðslur á landbúnaðarvörum. Margir verða síðan til þess að svara þessari grein hans og koma með sínar hugleiðingar. Ég var fyrst að hugsa um að gera það líka en segja má að tvennt hafi fælt mig frá því. Í fyrsta lagi eru athugasemdirnar svo margar að mín hefði bara týnst í flóðinu. Einnig hef ég nokkuð margt um þetta að segja og hefði jafnvel verið í vandræðum með að koma því í eina stutta athugasemd.
Margt er alveg rétt athugað hjá Marínó og gagnrýni á þessar niðurgreiðslur er oft ansi hjáróma og skrýtin. Oft er jafnvel ljóst að viðkomandi hefur ekki mikið vit á málunum. Marínó segir m.a. í greininni:
Viljum við hins vegar leggja af beingreiðslur til íslenskra bænda, þá verðum við jafnframt að hafna öllum slíkum niðurgreiðslum á innfluttum matvælum. Annars er samkeppnisstaðan ójöfn. Ég er ekki viss um að íslenskir neytendur yrðu sáttir við það að greiða allt í einu þrefalt verð fyrir maísdós og fimmfalt verð fyrir danska kjúklinga (eða hver hækkunin yrði). Innflutt viðbit myndi skyndilega hækka margfalt og sama gerði sófasettið sem gert er úr niðurgreiddum skinnum. Ég held að betra sé að átta sig á afleiðingunum, áður en tekin er sú ákvörðun að leggja niðurgreiðslur til landbúnaðar af.
Þetta sem þarna er sagt er einmitt mergurinn málsins finnst mér. Þegar verið er að tala um að leggja niður eða minnka niðurgreiðslur til bænda er ekki verið að tala um að allar aðrar þjóðir geri það líka og samtímis. Það er verið að tala um innlenda aðgerð. Og það munar talsverðu. Breytingin mundi hafa áhrif á allar verðviðmiðanir, það er alveg rétt. Og breytingar erlendis á niðurgreiðslum þar geta hæglega haft mikil áhrif hérlendis.
Það má auðvitað kalla niðurgreiðslur hagstjórnartæki en það nýtist ekki sem slíkt ef bændur einir eiga alltaf að ráða hvernig því er beitt.
Hægt er að líta á niðurgreiðslur til bænda sem tæki til að halda verðlagi niðri á ákveðnum vörum. Þetta tæki virkar þó aðeins á þann hátt ef allir aðrir haga sér nákvæmlega eins. Það er einfaldlega verið að snúa hlutunum alveg á haus þegar því er haldið fram að verðlag hér á Íslandi mundi ekkert lækka ef niðurgreiðslur til Íslenskra bænda yrðu lækkaðar eða afnumdar. Þetta er þó það sem Marínó er að reyna að gera.
Verðlag þeirra vara sem erfitt er að flytja inn mundi að sjálfsögðu hækka ef bændur almennt hættu að framleiða þær. Það er alveg möguleiki að þeir mundu gera það eða heimta a.m.k. sannvirði fyrir þær. Þannig að það er alls ekki einfalt mál að reikna út hver áhrif minnkaðra niðurgreiðsna yrðu. Það er þó bara venjuleg þræta á milli íhaldssemi og breytinga sem þar er á ferðinni. Ekkert lagast ef engu er breytt, það vita allir.
Nú er svo komið að ýmsir telja helstu hættu sem steðjar að íslenskum ungbörnum vera þá að þau séu ofvernduð fyrir hverskyns sýkingum. Á misjöfnu þrífast börnin best er gjarnan sagt. Það sem ekki drepur okkur, herðir okkur, segja þeir sem vilja hljóma nógu karlmannlega. Þetta er samt ansi harkalegt gagnvart smábörnum og í rauninni tóm vitleysa. Fólk getur óskapast yfir því að vottar Jehóva séu svo vitlausir að vilja ekki leyfa blóðgjafir en um leið haft mörg orð um það hve íslenskir læknar séu illa að sér þegar komi að meðferð smábarna. Hlutirnir eru bara ekki svona. Ungbarnadauði á Íslendi hefur farið verulega minnkandi á undanförnum öldum og áratugum. Það hefur ekki gerst með því að hunsa læknaráð og einblína á orðtök og málshætti sem oft eru ákaflega lítils virði.
Árið 1993 var gefin út bók sem heitir Skáldatal með ljóðsprotum, ljóðsporum, ljóðspeglum. Þessi bók er tekin saman af Sigurborgu Hilmarsdóttur og er með örstuttum ævágripum um 200 ljóðskálda. Hugsanlega ljóðskálda sem ljóð eru eftir í öðrum námsbókum. Bók þessi er ágætis uppflettirit en þó tók ég eftir einum galla á henni. Næst á eftir umfjöllun um Matthías Jochumsson er minnst á Megas. Þarna á milli hefði ég haldið að Matthías Johannessen hefði átt að vera. Sá Matthías semur að vísu ljóð sem ekki falla í kramið hjá mér og hafa kannski ekki gert það heldur hjá höfundi bókarinnar eða námsbókanna sem hún er kennd við. Vel getur verið að um fleiri vantanir af þessu tagi sé um að ræða í bókinni og þess vegna treysti ég upplýsingum í henni ekki eins vel og ég mundi annars gera.
Axel Jóhann Axelsson skrifar um skrýtinn ársreikning hjá N1. Því er ekki að neita að 12 milljarða tap hjá einu fyrirtæki er nokkuð mikið. Rekstrartekjur eru þó svolítið meiri en það. N1 gein yfir öllu sem snerti bíla fyrir fáum misserum síðan. Ætli þetta tap stafi ekki af því. Forstjórinn þar fær mjög góð laun en ætti auðvitað ekki að fá svo mikið sem eina krónu. Það er ekki verðlaunavert að tapa 12 milljörðum króna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
11.8.2011 | 00:04
1445 - Kosovo
Gamla myndin.
Sennilega er þessi mynd tekin 1. desember. Það er Theodór Jónsson sem er fremst á myndinni, en aðra þekki ég ekki. Þar er líklega um að ræða fólk úr Norðurárdalnum.
Lati Geir á Lækjarbakka,
lá þar til hann dó.
Vatnið vild´ann ekki smakka
var hann þyrstur þó.
Þessi vísa er sífellt að rifjast upp fyrir mér. Hagaði Geir Haarde sér eins og hann gerði einkum vegna leti. Hann hafði fram að því að hann varð forsætis ekki gefið tilefni til þess að ætla að hann væri latur. Sem fjármálaráðherra hafði hann alls ekki verið minna áberandi en forverar hans. Þegar hann verður forsætis er eins og hann ákveði að hann megi helst engan meiriháttar mann styggja.
Þetta er hinn mesti missskilningur því eftir því sem völdin aukast vex þörfin á því að styggja aðra. Þessu virðist Geir alls ekki hafa gert sér grein fyrir. Hann heldur áfram að reyna að líta út fyrir að vera góði gæinn. Það er útaf fyrir sig eðlilegt að hann geri sem minnst úr öllu. Hann þarf samt ekki að láta eins og ekkert sé og hann sé bara á hvíldarheimili og láti Sollu um að flengjast út um allt.
Mér leiðist svolítið að þó gestum hjá mér fjölgi töluvert, þá fjölgar kommentum lítið sem ekkert. Það tel ég mér trú um að sé m.a. vegna þess að menn eru uppteknir við sína fésbók. Það er ekkert skrýtið. Það eru ekki allir með jafnmikla fésbókarfóbíu og ég.
Gleymda stríðið í dag er Líbýustríðið. Það er ekkert í fréttum lengur. Þar held ég samt að enn sé verið að drepa fólk þó fjölmiðlasirkusinn hafi að mestu misst áhugann. Stjórnmálalega eru Bandaríkjamenn að reyna að koma sem mestu af ábyrgðinni á því stríði og stríðinu í Afghanistan yfir á Evrópu í gegnum NATO. Heimafólk í Bandaríkjunum er nefnilega í vaxandi mæli að snúast til einangrunarhyggju. Aftur á móti virðist útþenslustefnan þrífast betur um þessar mundir í Evrópu.
Einu sinni sá ég mynd af fjölmiðlasirkusnum í sjónvarpinu. Það var eftirminnilegt. Þetta var að ég held á Kosovo tímanum. Þar var verið að sýna myndir af hergangaflutningum eða einhverju þ.h. minnir mig og tökumaðurinn tók sig útúr hópnum og sneri sér við. Það sem þá blasti við var mun áhugaverðara. Svona 40 til 50 manna hópur með myndavélar, skrifblokkir og þ.h. samanþjappaður eins og síld í tunnu og í haldi hermanna sem voru allt um kring.
Apropos Kosovo. Fjögurra ára frænka okkar, sem átti heima í Breiðholtinu horfði stundum á fréttirnar. Ruglaði gjarnan saman Kosovo og Kópavogi og vildi sífellt vera að gefa okkur mat og fatnað fyrst við áttum heima í þessu stríðshrjáða landi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)