Bloggfærslur mánaðarins, júní 2011

1407 - Kvótinn og Efnahagsbandalagið

IMG 0005aGamla myndin.
Hér er Hveramörkin í Hveragerði. Þessu útsýni man ég vel eftir. Jú, jú pollarnir, mölin og gangstéttarleysið er fremur óhrjálegt, en svona var þetta bara.

Kvótinn og Efnahagsbandalagið eru mál málanna í stjórnmálarifrildi dagsins. A.m.k. meðan ekki kemur neitt ákveðið og áþreifanlegt frá stjórnlagaráði. Um þessi mál má rökræða fram og aftur. Sú umræða sem einkum fer fram núna er í upphrópanastíl og lítið á henni að græða. Andstæðingar ESB og vinir kvótans hafa hátt. Oft er þetta sama fólkið en alls ekki alltaf.

Ég hef ekki þekkingu til að tala um kvótamál. Hef aldrei verið sjómaður. Heldur ekki fengist neitt við útgerð eða fiskvinnslu af nokkru tagi. Hinsvegar hef ég fylgst með ESB lengi og tel mig þekkja sæmilega þau mál sem þar eru aðallega til umræðu. Einkum þó af fréttum og allskyns áróðri en lítið af eigin raun.

Ég get ekki að því gert að ég er þeirrar skoðunar að eðlilegt sé fyrir okkur Íslendinga að gerast aðilar að ESB. Undanfarið hefur mér fundist áróður andstæðinga bandalagsins mun háværari en hinna. Einnig hafa þeir haft meirihluta í hverri skoðanakönnuninni eftir aðra. Ég held að með öllum þeim hamagangi hafi þeir ofgert sjálfum sér á röngum tíma. Það er ekki líklegt að æsingur og gauragangur ráði úrslitum varðandi mögulega aðild.

Þjóðaratkvæðagreiðsla verður örugglega um þetta mál. Eitt af því sem andstæðingar ESB hafa haldið fram er að alls ekki sé víst að svo verði. Sú kenning þeirra á vafalaust eftir að springa illilega í andlitið á þeim eins og margar fleiri. Að hugsanlegt sé að landbúnaðurinn og útgerðin fari illa útúr aðildinni eða þar verði a.m.k. miklar breytingar er alls engin röksemd fyrir því að gerast ekki aðili. Eina marktæka röksemdin fyrir slíku er sú að framtíðarþróun ESB komi ekki til með að henta okkur Íslendingum.

Á sama hátt er það auðvitað eina gilda röksemdin fyrir ESB-aðild að framtíðarþróun bandalagsins sé hentug okkur Íslendingum. Slíkt getur einungis byggst á því að kynna sér málin eða taka mark á og trúa þeim sem það hafa gert. Engin leið er fyrir hvern einstakan að kynna sér nægilega öll þau mál sem aðild snerta. Alls ekki er hægt að reikna út peningalega hvort hagstæðari sé aðild eða ekki aðild. Samkomulag, um hvað telja beri með og hvernig skuli meta það, næst aldrei. Lagatæknileg rök eru nákvæmlega það sem þau virðast vera. Bölvuð þvæla.

Þetta er nú orðið langt mál um lítið (eða stórt) efni og tími til kominn að snúa sér að öðru.

Ég neita að gera bloggið mitt að sérstöku stjórnmála- trúmála- kynferðisafbrota- veðurfars- eða fræga fólksbloggi. Miklu fremur á þetta að vera allsherjarblogg. Þetta segi ég eftir að vera nýbúinn að predika ESB-pólitík linnulítið í þessu bloggi. Já, en ef allt er lagt saman þá minnist ég á margt fleira. Með daglegu bloggi er líka erfitt að komast hjá því að minnast á ESB.

Ég veit ekki til að ég hafi snúið nokkrum með þessu ESB-þvaðri mínu. Sé svo þá er það mestmegnis óvart. Mér er alveg sama hvort lesendur mínir eru mér sammála eða ekki.

Ég hef fylgst nokkuð með ritdeilu Hörpu Hreinsdóttur og Gunnlaugs Haraldssonar um verkið Sögu Akraness sem út komu nýlega tvö bindi af. Harpa hefur gagnrýnt tilurð þessa verks á ýmsan hátt, en Gunnlaugur, bæjarstjórn Akraness, ritnefnd verksins og fleiri hafa reynt að svara þeirri gagnrýni. Ég hef fengið að láni seinna bindi verksins á Bókasafni Kópavogs og flett því nokkuð og sýnt öðrum.

Það sem eftir situr hjá mér sem ósérfróðum aðila að öllu leyti er það að ritið er of stórt og alltof dýrt. Fagmennskuna má deila um auk annars en ekki er við því að búast að bæjarstjórn og ritnefnd snúi allt í einu við blaðinu og fordæmi verkið. Tvennt er það sem vantar. Dómar fagmanna og svo er eftir að vita hve útbreitt og vinsælt verkið verður. Bækur af þessu tagi eiga auðvitað fremur heima á Internetinu en að verið sé að prenta þær út. Á margan hátt er efnið orðið úrelt löngu áður en það kemur út.

Kannski skrifa ég á morgun um Exeter-dóminn. Mér veitir ekki af að melta þessi ósköp.

IMG 5887Fíflar að flaðra upp um sólina.


1406 - Hremmingadagurinn mikli

012Gamla myndin.
Veit ekki hvaða brýr þetta eru.

Í gær lenti ég í ýmsu. Þó ég bloggi yfirleitt ekki mikið um sjálfan mig er ég að hugsa um að tíunda það nokkuð.

Fyrst er til að taka gönguferð í Fossvogsdalnum. Þar kom köttur þjótandi á móti mér og stefndi beint á mig (kannski blindur) Ég vék úr vegi en hann hélt áfram að stefna beint á mig. Tókst að forðast hann og hann virtist verða fyrir vonbrigðum. Óvenjulegt um ketti. Þeir eru vanir að forðast fólk eða þá að hreyfa sig lítið.

Skömmu seinna urðu fyrir mér tveir hundar. Annar lítill og hinn stór. Sá stóri sneri sér geltandi og urrandi að mér. Ég vék úr vegi fyrir honum og fór framhjá. Hann kom þá urrandi og geltandi á eftir mér. Það er mér illa við. Mér tókst að komast í burtu og mætti skömmu seinna skokkara og heyrði fljótlega að hundarnir fóru að atast í honum. Svo mætti ég tveimur hjólreiðamönnum og um leið og þeir fara framhjá mér heyri ég að annar segir aðvarandi við  hinn: „Úps, hundar framundan.“ Ég hélt bara áfram og held að ekkert alvarlegt hafi gerst. Lausir hundar eru samt bölvuð plága. Veit ekki betur en hundahald sé bannað í Reykjavík. Undanþágur samt gefnar. (Hugsanlega þó umhugsunarlaust eða umhugsunarlítið.)

Svo var það áðan að mig bráðvantaði peninga. Fór af stað og ætlaði í hraðbanka. Ekki gekk það. Debetkortið var í gamla veskinu. Fór og náði í það. Rétt áður en ég stakk kortinu í hraðbankann sá ég að það var útrunnið og minntist þess að hafa fengið bréf frá bankanum um að nýtt debetkort væri tilbúið. Fór þangað en tilbúna kortið var í öðru bankaútibúi. Þar í grennd hafði ég eitt sinn átt heima. Vissi að ég þurfti pinnúmer til að geta tekið út af Visakorti í hraðbanka. Mundi það ekki. Fékk loks peninga hjá gjaldkernanum í bankanum útá Visa-kortið mitt.

Svo fór ég á bílaverkstæði og dekkjaverkstæði og það gekk skaplega nema hvað ég kom bílnum ekki að fyrr en í næstu viku og rétt dekk fengust ekki.

Samkvæmt þeim tillögum sem nú liggja fyrir stjórnlagaþingi er gert ráð fyrir að þriðjungur þingmanna eða 15% kjósenda geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta hvorttveggja finnst mér full-lágt hlutfall en á þó eftir að heyra rökstuðning fyrir því. Full ástæða er hins vegar til að hafa báðar aðferðirnar í gildi. Sérstaklega ef takmarka á völd forsetans sem hingað til hefur ekki verið talin vanþörf á. Hlutfall það sem nauðsynlegt er getur verið of hátt þannig að það missi með öllu marks. Ofnotkun er líka vel hugsanlegur möguleiki ef hlutfallið er of lágt. Þarna er meðalhófið vandratað. Einkum eru það 15 prósentin sem fara fyrir brjóstið á mér. Alls ekki er sama hvernig þetta er reiknað og sannreyna verður undirskriftir með sannfærandi hætti.

Margt bendir til að þjóðaratkvæðagreiðslur séu vel til þess fallnar að lægja öldur í samkiptum manna. Dæmi eru samt um að of langt sé hægt að ganga. Alþingi og ofurvald þess á öllum sköpuðum hlutum hefur ekki reynst vel. Ekki er sjáanlegt að forsetaræði henti okkur betur. Varasamt er að henda þingræðinu á haugana þó það hafi reynst illa. Vel er hægt að hugsa sér að skynsamlegar reglur um þjóðaratkvæðagreiðslur lappi nægilega upp á það.

 Katólska kirkjan ætlar að biðjast afsökunar og fara fram á það við Spanó sjálfan að rannsaka málið. Ætli þetta fari ekki í sama farið og venjulega? Er ekki farið að sneyðast eitthvað um pláss undir teppinu?

IMG 5881Lúpínan litinn gefur.


1405 - Icesave og Teitur

011Gamla myndin.
Þetta er líklega gamla brúin á Gljúfurá í Borgarfirði.

Gera má ráð fyrir að Kínverjar verði áður en langt um líður voldugri en Bandaríkjamenn eru nú. Búast má við að fiskveiðar leggist af með tímanum og eldisfiskur taki við. Hitastig á jörðinni mun hækka. Jarðefnaeldsneyti mun klárast. Samband mun nást við vitibornar verur utan Jarðarinnar. Geimferðir munu verða stundaðar af einkaaðilum. Hægt verður að búa til lifandi verur í vélum. O.s.frv, o.s.frv.

Þó líklegt sé að allt þetta muni gerast er mjög erfitt að segja til um eftir hve langan tíma þetta muni verða. Þannig er því varið með flesta sennilega spádóma. Þeir rætast kannski en ýmislegt kann að valda því að mál dragist. Slíkt er eðli mannkynsins. Þeir sem telja sig hafa höndlað sannleikann hugsa oft lítið um leiðina að honum. En er það ekki einmitt hún sem mestu máli skiptir? Kommúnisminn er kannski falleg kenning og allt það, en leiðin þangað reyndist afar grýtt og aðferðin við að koma honum á hefur eflaust verið röng.

Um hvað snerist Icesave-deilan í innsta eðli sínu? Ég var einn þeirra sem studdi samningaleiðina svokölluðu og tapaði eftirminnilega í þjóðaratkvæðagreiðslunni um það mál. Eftirá finnst mér merkilegt hve litlu púðri menn eyða í eftirhreytur þeirrar deilu. Ef til vill sannar það einmitt að þjóðaratkvæðagreiðslur eru af því góða. Þeir sem felldu þá samninga sem náðst höfðu voru einkum að segja „við borgum ekki“. Þeir sem samningana studdu og vildu semja um skuldina, töldu það eflaust hyggilegra því afleiðingarnar yrðu ekki góðar af því að fella hann. Að flestu leyti virðast þeir hafa haft rangt fyrir sér.

Auðvaldið er samt ekki af baki dottið. Það sem gerðist hér á Íslandi var bara eins og smáæfing fyrir það sem gerist núna í stærri löndum. Grikkland er á sömu leið og við Íslendingar vorum. Munu valdastofnanir peninganna bregðast harðar við þar en hér á landi? Veit ekki hvort þær þora að gera það. En sú bylting sem vel getur orðið ef almenningi og fjármálastofnunum lendir alvarlega saman og ríkisvaldið fer í felur kann að breyta þjóðskipulaginu varanlega.

Hvar kristallast þessi átök núna í íslensku stjórnmálalifi? Að mínum dómi í átökunum í Samfylkingunni og ríkisstjórninni. Hve sterk er vinstri sveiflan í raun sem varð í Hruninu? Hver verða andsvör auðvaldsins? Hver verða úrslitin í næstu þingkosningum? 

Líklega er Jónas Kristjánsson áhrifamikill. Hann er ofarlega á vinsældalista þeirra blogg-gáttarmanna og margir lesa það sem hann skrifar. Þó hann sé hættur sem ritstjóri hefur hann mjög gott vald á hinu skrifaða orði og leiðarar hans forðum daga þóttu afar vel skrifaðir og sannfærandi. Frama fékk hann ekki á stjórnmálasviðinu og sóttist kannski ekki eftir honum. Leiðarar DV nútildags eru stundum ágætir en stefna blaðsins að öðru leyti virðist afar tilviljanakennd. T.d. finnst mér ekki rétt af blaðinu að elta með þeim hætti sem þar er gert hverskyns hjátrú og hindurvitni. Oft er líka gert of mikið úr bágindum fólks en því er ekki að leyna að áhrif fjármálavaldsins á blaðið eru fjarskalega lítil.

Svo er það hann Teitur. ( http://www.dv.is/blogg/eimreidin ) Hann heldur áfram að berjast við Gunnlaug Sigmundsson og lætur hvergi deigan síga. Fyrir mér er Gunnlaugur að verða ímynd yfirgangsins og áhrifanna sem peningaöflin hafa haft (og hafa kannski enn) á stjórnmálaflokkana. Kannski sér hann eftir því að hafa reitt Teit til reiði en ég vorkenni honum ekki. Til hvers í fjandanum var hann að kæra Teit fyrir meiðyrði?

Fyrir skákunnendur. Því er oft haldið fram að ekki sé spennandi að horfa á skák. Þetta myndband á youtube afsannar þá kenningu með öllu. http://www.youtube.com/watch?v=7Ix69sCFahw&feature=youtu.be  Sleppið því alls ekki að hlusta á lýsinguna. Hún er frábær. Líka er hægt að fara á skákhornið hér til hliðar og þaðan á það sem skrifað er um „mát í einum“. Ef þið hafið aftur á móti engan áhuga á skák þá skuluð þið bara sleppa þessu.

IMG 5868Minnisvarði um Sveinbjörn Beinteinsson allsherjargoða með meiru.


1404 - Blóm í bæ

010Gamla myndin.
Hér eru í setustofunni í Samvinnuskólanum að Bifröst þeir Jón Alfreðsson, Tryggvi Eymundsson og Guðmundur Reynir Óskar Jóhannsson.

Barnaníð er ofarlega í hugum fólks þessa dagana. Viss fjöldi fólks leggur slíkt fyrir sig. Engin furða er að slíkt fólk reyni að koma sér í störf sem tengjast börnum. Sök kirkjunnar er ekki sú trú sem boðuð er, heldur hvernig staðið er að barnastarfi innan hennar. Ef upp koma mál af þessu tagi hjá kirkjunni þarf að taka á þeim með festu og ákveðni.

Mér finnst kirkjan og fólk sem innan hennar starfar einkum hafa brugðist að tvennu leyti á þessum vígstöðvum. Athugun og eftirlit með þeim sem þar vinna að barnastarfi hefur löngum verið stórlega ábótavant, bæði hér á Íslandi og annarsstaðar. Ekki hefur heldur verið tekið með nærri því nægri ákveði á málum sem upp hafa komið heldur reynt með öllum hætti að sópa þeim undir teppið og fela þau. Trúin sjálf og boðun hennar er svo algjört sérmál.

Almennt skólastarf virðist alls ekki hafa verið eins útsett fyrir svona lagað og kirkjulegt starf með börnum sem og upptökuheimili og munaðarleysingjahæli af öllum toga. Einkum hefur verið ráðist að þeim börnum sem lakastar varnir hafa og er slíkt fyrirlitlegra en orð fá lýst.

Um þessar mundir er ég að lesa bók sem nefnd er „Lindargötustrákurinn.“ Ekki er með neinu móti hægt að sjá hvenær þessi bók er gefin út eða samin. Aftarlega í henni sá ég reyndar ártalið 2008 svo líklega er hún gefin út eftir Hrun. Höfundur er Albert Jensen. Með afar innfjálgum hætti er fyrsti hluti bókarinnar helgaður lýsingum á ýmiss konar strákapörum hér í Reykavík sem höfundurinn var gjarnan höfuðpaurinn í. Bókin er sundurlaus og próförk illa lesin en samt er hún áhugaverð. Nýlegar sjálfsævisögur eru fáar á íslensku og oft ekki vel samdar. Ég er þó ekki nógu langt kominn með þessa til að úttala mig frekar um hana.

Fór í gær (laugardag) á einhverskonar garðyrkjusýningu í Hveragerði og þar var margt að sjá og margt um manninn. Á eftir var ég í veislu hjá Bjössa bróðir og smakkaði í fyrsta sinn kjöt sem steikt var jafnóðum á steini sem á borðinu var. Þetta er ágæt uppfinning því annars er oft hætta á því að kjöt af grilli sé farið að kólna um það bil er yfir lýkur.

Einhversstaðar á netinu sá ég nýlega þær veiðar dásamaðar þar sem sami laxinn er veiddur hvað eftir annað. Viðbrögð voru einhver við þeim skrifum, flest jákvæð. Mér finnst betra en slíkt háttalag að menn veiði sér til matar, jafnvel þó þeir þurfi alls ekki á þeim mat að halda. Að sleppa laxi til þess eins að hægt sé að kvelja hann aftur og aftur finnst mér ógáfulegt mjög. Veiðimenn sem það gera hljóta að ganga út frá því að laxinn hugsi eins og þeir og hafi gaman af því að vera veiddur. Hræddur er ég um að svo sé ekki.

Meðan fréttir birtast af grjótkasti álfa finnst mér lítil ástæða fyrir fjölmiðlamenn að kvarta undan fréttaleysi. Þó sprengingar „rmisfarist“ við Bolungarvík eins og mig minnir að sagt hafi verið í sjónvarpinu finnst mér óþarfi að kenna álfum um það, jafnvel þó „sjáandi“ sé á svæðinu. Ég ætla helst ekki að taka jafnmikla áhættu og DocterE en mér finnst hótanir um áframhaldandi grjótkast á Vestfjörðum verulega ógeðfelldar.

IMG 5859Sóley sólu fegri.


1403 - Sunnudagsblogg

9a 001Gamla myndin.
Þetta er greinilega Bifrastarmynd en þó skömm sé frá að segja þá er ég ekki viss um nöfnin á þessum konum. Hinrika minnir mig að sú til vinstri heiti og Hugrún Einarsdóttir er lengst til hægri á myndinni.

Venjulega byrja ég á mínu daglega bloggi fljótlega eftir að ég vakna. Stundum er ég alveg heltekin af þeirri hugmynd að ég muni ekki hafa neitt til að blogga um þann daginn. Auðvitað rætist svo venjulega úr þessu og mér tekst að skrifa eitthvað. Þó segi ég ekki svo mikið um mitt „dagligdags“ líf í þessu bloggi. Hef samt tekið eftir því að flesta daga gerist eitthvað sögulegt, þó manni finnist eftirá að ekkert hafi gerst. Æ, nú er ég byrjaður að rövla. Best að hætta í smástund.

Ég gæti svosem reynt að segja eitthvað gáfulegt um kvótann eða evruna. (Kvótinn er til að ergja almenning og evran er til að hafa í sérstöku veski) Af nógu er að taka. Ekki síst þegar maður þykist vera eins mikill besservisser og ég. Svo skrifa ég stundum hjá mér ýmislegt sem mér dettur í hug, en gleymi stundum hvers vegna ég gerði það.

T.d. hefur mér einhvern tíma um daginn dottið í hug að skrifa hjá mér: „Árni Páll Árnason trúir á bankastjóra og annan óþjóðalýð.“ Ekki veit ég af hverju ég hef skrifað þetta. Árni Páll er ekkert verri en aðrir. Að vísu vefst honum stundum dálítið tunga um höfuð í sjónvarpsviðtölum, en það er ekkert sérstaklega erfitt að finna út hvað hann vildi sagt hafa.

Margir sem um fjármál fjalla segja að hagkerfi heimsins byggist á því að þeir sem fá lánað fé greiði það aftur. Sú er hugsun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, ESB, helstu iðnríkja heimsins o.s.frv. Lengja megi lánstímann og breyta kjörum, ef hjá því verði ekki komist en umfram allt verði greiðslum haldið áfram. Allt verði áfram að vera á forsendum lánveitendanna. Þannig er þróunarríkjunum haldið niðri og almenningi í iðnvæddu löndunum.

Í rauninni er ekkert sem segir að þetta álit sé rétt. Jú, kapítalisminn reyndist betur til margra hluta fallinn en sá kommúnismi sem rekinn var í Rússlandi og víðar, en sósíalisminn eins og hann var (og er) rekinn t.d. á Norðurlöndunum og víða í Norður-Evrópu hefur ekki verið hrakinn á sama hátt og kommúnisminn í Rússlandi.

Vissulega er ég þarna farinn að tala um hluti sem snerta grunnskoðanir margra í stjórnmálum og sækja sér oft kraft einmitt í mikil eða lítil ríkisafskipti. Þess vegna finnst mér fyllilega réttmætt að tala um vinstri og hægri stjórnmálastefnur. Menn reyna svo að sjálfsögðu að útmála það sem þeim er illa við á sem verstan hátt og fella hin ýmsu mál að sínum grunnskoðunum eftir því sem mögulegt er.

Öfgastefnur hvers konar eiga oft greiða leið að hjörtum manna við erfiðar aðstæður. Erfiðleikar á Vesturlöndum hafa að sjálfsögðu aukist við fjármálahrun það sem orðið hefur á síðustu árum. Öfgastefnur, „populismi“ og almenn neikvæðni fer vaxandi.

Merkilegt er hve margir virðast álíta að afstaða til mála sé fyrst og fremst nokkurs konar vinsældakeppni. Nú er því haldið fram og hampað mjög að meirihluti þjóðarinnar vilji sýkna Geir Haarde. Í því máli finnst mér sekt eða sýkna skipta meira máli og treysti landsdómi betur til niðurstöðu í því máli en stjórnmálaflokkum og hávaða í fjölmiðlum. Auðvitað skiptir afstaða almennings máli en hún sveiflast til og er háð mörgum atriðum s.s. tíma, stjórnmálaástandi, orðun spurninga og fjölmiðlaumfjöllun.

Líka virðast margir halda að ein mynd segi alltaf meira en þúsund orð og þúsund myndir þar af leiðandi jafnan meira en milljón orð. Svo er þó alls ekki. En vissulega getur ein mynd ef hún er góð sagt margt og gefið annað í skyn. En texti getur líka haft sinn sjarma. Með orðum er hægt að segja frá sama hlutnum á þúsund mismunandi vegu.

Eins og mig grunaði er bloggið hjá mér að verða fulllangt. Bókaumfjöllun öll bíður því betri tíma

IMG 5810Litfögur blóm.


1402 - Óréttlæti

009Gamla myndin.
Þetta er Snorri Þorsteinsson frá Hvassafelli sem kenndi lengi á Bifröst bæði íslensku, ensku og fleira.

Kannski verður eitthvað minna um skrif hjá mér í dag en vanalega. Veðrið er líka svo gott að það er asnalegt að vera að blogga núna. Eitthvað var ég samt búinn að taka til af myndum sem ég þarf að koma að og ekki vil ég láta falla niður dag.

Ranglætið er mikið sem fólgið er í því að fólk sem fengið hefur veðleyfi hjá ættingjum eða öðrum til íbúðarkaupa fær þess vegna ekki niðurfellingu samkvæmt 110% reglunni. Með þessu er einfaldlega verið að hegna fólki fyrir ráðdeild og ábyrgð í fjármálum. Þessi niðurfelling getur hæglega numið þónokkrum milljónum króna á hverja einstaka íbúð eða einbýlishús og marga munar um það fé, þó þeim sem mestu hafa stolið finnist það ekki há upphæð. Ef um marga er að ræða, eins og mér finnst fyllsta ástæða til að ætla, munar fjármálastofnanirnar einnig um þessar niðurfellingar þó ríkar séu. Lögin eru samt svona og stuðla þannig beinlínis að óréttlæti.

Fór á bókasafnið í morgun og það fyrsta sem ég sá þar var litprentað eintak af Sögu Akraness (annað bindi) eftir Gunnlaug Haraldsson. Það er sagt fjalla um átjándu öld. Um nítjándu og tuttugustu öld hlýtur þá að þurfa a.m.k. þrjú bindi og jafnvel fleiri. Af því ég loftaði bókinni tók ég hana að láni. (En stór er hún og þung.) Kannski skrifa ég um þessa merku og frægu bók þegar ég er búinn að jafna mig. En ég þarf víst að fletta henni pínulítið fyrst. Er ekki byrjaður á því ennþá.

Svo bíða ellefu bindi af Árbók Nemendasambands Samvinnuskólans (miklu minni) eftir mér á borðshorninu. Nei, þetta blogg á ekki að breytast í safn af bókadómum. Enda er ég ekki fær um slíkt.

Bækur eru nú samt sú andlega fæða sem ég hef þrifist hvað best á í marga áratugi. Núorðið skilst mér að þær þyki gamaldags mjög. Þó er mikið gefið út af bókum og vel þess virði að skreppa á bókasafnið. Þar verða yfirleitt fyrst fyrir mér nýlegar bækur og oft kemst ég ekki lengra.

Nú eru það ljósmyndir og kvikmyndir sem blíva. (Helst fótóshoppaðar og lagfærðar.) Bækur eru úrelt þing. Texti allur á í besta falli heima í einhverjum skúmaskotum á netinu. Ég kann samt best við mig í þeim skúmaskotum.

IMG 5809Hér hefur ýmislegt gengið á.


1401 - Bloggfésið

008Gamla myndin.
Bifrastarmynd. Hér er Hróar Björnsson kennari eitthvað að leiðbeina þeim Margréti Sigvaldadóttur og Hugrúnu Einarsdóttur. Myndin gæti verið tekin í gönguferð á Baulu.

Það er allsekkert samband á milli þess að lifa fjölbreyttu og litríku lífi og að blogga mikið og oft. Best sannast það á mér. Erfitt er að hugsa sér litlausara og fábreyttara líf en það sem ég lifi. Samt tekst mér að blogga eins og enginn sé morgundagurinn á hverjum einasta degi. Leysi jafnvel helstu vandamál heimsins með annarri hendinni fyrir hádegi!!

Þrátt fyrir það er einsog fremur fáir (jæja, mjög margir mundu sumir segja) hafi uppgötvað þetta úrvalsblogg. Þeim fer þó fjölgandi fremur en hitt, svo það er best að vanda sig svolítið.

Tryggð mín við Moggabloggið er komin út yfir allan þjófabálk. Er ég svo mikill ræfill að ég geti ekki losað mig frá Davíð frænda? Eða er ég svo mikill íhaldsseggur að ég geti ekki rifið mig uppúr því forardíki pólitískra fordóma sem hér ræður ríkjum? (Hmm – ríður rækjum??)

Mér finnst ég ekkert vera að sökkva og það er kannski vísbending um að ég komist ekki burtu að ég sé fastur í ESB-óvild þeirri sem hér er í hávegum höfð. Er ég kannski eini Moggabloggarinn sem styð aðild að því hræðilega og kommúníska bandalagi? Já, það er allt útlit fyrir að ESB muni skipta þjóðinni í tvennt eins og Miðnesheiðarherinn gerði á sínum tíma.

Jafnvel Davíð Oddsson og Jón Valur Jensson hafa ekki getað fengið mig ofan af ESB-stuðningi og er þá langt gengið. Eins og þeir leggja sig fram. Mér finnst eins og ég sé unglingur á mótþróaskeiði og þeir séu foreldrar mínir að reyna að beina mér á rétta braut. Svo virðist stuðningur við LÍÚ vera partur af trúarjátningunni hér og því á ég erfitt með að kyngja.

En svona er þetta. Þar sem klárinn er kvaldastur þar líður honum best. Læt ég svo útrætt um Moggabloggið að sinni.

Merki eru um að fésbókaræðið renni af mörgum þegar frá líður. Ég þykist betri en aðrir með því að hafa barist gegn æðinu (vindmyllunum) frá upphafi. En hvað skyldi taka við? Fésbókin er einkum það sem hún er vegna þess að það eru svo margir sem eru aktívir þar. Mér finnst bara atívisminn þar vera miklu fáfengilegri en bloggið. Það (bloggið) á betur við mig og ég get ekki hætt að blogga.

Mér finnst að mörgu leyti eins og ég sé að semja væna blaðagrein í hvert skipti (einkum á morgnana) sem ég sest niður til að blogga. Ég er bara svo fljótur að því að til vandræða horfir. Það er helst að myndastússið tefji eitthvað fyrir mér. Ekki get ég lengt bloggin mín úr hófi. Mér finnst einmitt þessi hæfilega lengd - ein vélrituð blaðsíða eða svo - vera aðalsmerki mitt sem bloggara. Reyni samt að hafa svolítið pláss í lokin fyrir dægurmálin. (Ef ég skyldi hafa einhverja skoðun á þeim.)

Ég hef lesið talsvert af íslenskum krimmum og þeir eru flestir frekar leiðinlegir. Yrsa er þar engin undantekning í mínum huga. Plottin hjá Viktori Arnari eru oft listilega gerð og Arnaldur kann þetta allt og gerir oftast vel en er þó dálítið mistækur. Annars er þetta bara mitt álit og sölutölur sýna allt annað. Því er þó ekki að neita að krimmarnir eru í tísku núna alveg einsog þjóðlegur fróðleikur og ævisögur voru það einu sinni. Endurminningar útrásarvíkinga verða það kannski einhverntíma.

Ellefu bindi á ég af Árbók Nemendsambands Samvinnuskólans. Veit ekki til að fleiri hafi komið út. Sigurður Hreiðar var ritstjóri fyrstu þriggja bindanna en síðan tók Guðmundur Reynir Óskar Jóhannsson bekkjarbróðir minn við. Líklega er það þess vegna sem ég á þetta merka rit. Hef samt afar sjaldan litið í þessar bækur en sé núna að þar er ýmsar upplýsingar að finna. Vitna kannski í það frekar á næstunni.

IMG 5800Hér eiga hjólin víst að vera.


1400 - Já, ég er í vandræðum með fyrirsögnina

007Gamla myndin.
Þessi mynd er frá Bifröst. Þessir tveir, þeir Jón Illugason og Guðvarður Kjartansson eru úr skólahljómsveitinni.

Á Stokkseyri í gær (þriðjudag) var helst að sjá að eitthvað sérstakt stæði til. Veit þó ekki hvað, en danski fáninn og sá grænleski blöktu þar í góða veðrinu. Þetta leiddi mig til samanburðar á menningu okkar Íslendinga annarsvegar og Grænlendinga hinsvegar.

Segja má að okkur Íslendingum hafi tekist það sem Grænlendingum hefur ekki tekist að öllu leyti. Það er að byggja upp nútímaþjóðfélag að vestrænum hætti. En er það nútímasamfélag sem okkur hefur tekist að byggja upp eftirsóknarvert?

Já, mér finnst svo vera að flestu leyti. Einkum hvað snertir heilbrigði, menntun og lífskjör öll. Við Íslendingar viljum einnig gjarnan líta á okkur sem fyrirmyndir á sem flestum sviðum, en erum það því miður ekki. Þær tölur sem við hömpum mest og sýna eiga yfirburði okkar yfir aðra, eru næstum alltaf handvaldar af okkur sjálfum.

Um þetta langar mig ekki að deila og set því sem flesta fyrirvara um þessa skoðun. Hún hefur t.d. ekkert með ESB eða mögulega inngöngu okkar þangað að gera. Heldur ekki um stöðu okkar í hernaðabandalögum og almennar stjórnmálaskoðanir. Hún er bara þarna og getur ekki annað.

Var að enda við að lesa síðustu bloggfærslu Hörpu Hreinsdóttur (sjá link hér til vinstri) um Sögu Akraness og verð að viðurkenna að ég er impóneraður og bíð eftir yfirlitsfærslu hennar um þetta mál. Bókina sjálfa (eða einstök bindi hennar) kaupi ég hinsvegar áreiðanlega ekki, en rekist ég á hana á bókasafninu mun ég íhuga að taka hana að láni ef ég treysti mér til að bera hana.

Að Harpa skuli hafa lagt allt það á sig, varðandi þetta mál, sem hún hefur augljóslega gert, er til fyrirmyndar. Áhrif alls þessa á næstu bæjarstjórnarkosningar á Akranesi hljóta að verða einhver. Hvet alla til að fylgjast með þessu máli.

Svei mér ef ég er ekki kominn á topp 50 vinsældalista Moggabloggsins til að vera. (Eins og sagt er). Nú er ég nývaknaður og strax eru komnir yfir 50 lesendur á mína síðu. Auðvitað ber þetta líka vott um þverrandi vinsældir Moggabloggsins, en samt..... Jú, auðvitað fylgist ég með svonalöguðu. Kann þó ekki (eða nenni ekki) að athuga hvaðan allir þessir lesendur koma. Svona er þetta bara.

Svartagallsrausið er útum allt. Það má varla opna fyrir útvarp til að hlusta á fréttir eða neitt. Neikvæðnin er alla að drepa. Ef ekki er um þindarlaust músíkpopp og blaður um það að ræða þá á maður helst von á fréttum af atvinnulausum aumingjum eða fyrirtækjum á hausnum. Er ekkert annað að frétta? Ef maður vill hlusta á erlendar fréttir er ástandið lítið skárra. Gjaldþrot Grikkja eða loftárásir á Líbýu. Þetta er a.m.k. ekkert fyrir þunglyndissjúklinga.

Þegar hægri sinnuð ríkisstjórn hrærir vinstri hugmyndum saman við frjálshyggjuna, eins og hér gerðist og ef til vill hefur gerst í Grikklandi líka (og jafnvel á Írlandi), verður útkoman banvænn kokkteill. Okkur tókst með harðfylgi að forðast þjóðargjaldþrot og kannski tekst Grikkjum það líka. Staða þjóðanna er þó alls ekki sambærileg og hagfræðingar munu á næstunni reyna að útskýra þetta allt.

Mér er þó efst í huga að hagfræðin er ekki nein nákvæm vísindagrein heldur snýst alltof oft um vafasamar eftiráskýringar.

Les oft fréttaskýringarnar í bloggi Jónasar Kristjánssonar fyrrum ritstjóra. Margt er skynsamlegt þar en honum hættir til að flýta sér um of. Þessvegna verða fréttaskýringar hans oft hvatvísinni að bráð og minna að marka þær en æskilegt væri. Líka er auðvitað slæmt að bíða of lengi. Þeir sem fréttir lesa og fréttaskýringar eru óþolinmóðir. Meðalhófið er vandratað þarna sem annarsstaðar.

Einhver hefur platað Pál Magnússon illilega. Nema hann hafi trúað því sjálfur að Íslendingar mundu sigra á EM < 21. Að henda út fréttum til þess að koma þýðingarlausum knattspyrnuleikjum að í beinni útsendingu eru afglöp sem sannarlega mundu réttlæta brottvikningu.

IMG 5794Veggmyndir á skóla.


1399 - Runólfur Ólafsson (ekki minnst á hann hér)

006Gamla myndin.
Þetta er Hörður Haraldsson sem kenndi okkur þýsku og hagfræði á Bifröst. Þar að auki var hann landsfrægur spretthlaupari. Myndin er líklega tekin í gönguferð á Baulu.

Sko, það er fremur auðvelt að næla sér í fáein komment. Ekki þurfti annað en að skíra færsluna í gær dálítið kryptísku nafni. Auðvitað hefði ég getað sett það í færsluna sjálfa að það væri mynd af Jóni Sigurðssyni sem væri á fimmhundruðkallinum. Hitt er svo enn kryptískara með bílinn í lok færslunnar og litinn á honum. Hann lenti samt þarna fyrir eintóma tilviljun. Væri ég nægilega hjátrúarfullur héldi ég auðvitað að Jón Sigurðsson hefði sjálfur staðið fyrir þeirri tilviljun.

Því er stundum haldið fram að Ísland sé á mörkum hins byggilega heims. Þetta er alveg rétt og sjaldan sér maður það betur en þegar sólin er álíka hátt á lofti þegar maður vaknar eins og þegar maður fer að sofa. Skín bara úr svolítið annarri átt. Líka má auðvitað sjá þetta í svartasta skammdeginu þegar varla birtir um hádaginn. Annars er mér sléttsama um allt sólskin, eða það finnst mér. Mætti samt að skaðlausu vera svolítið hlýrra. Finn það vel þegar ég fer illa klæddur út að ganga á morgnana hvað það væri miklu betra. Annars er aðalmunurinn á göngustígunum hér og á Tenerife að þar eru allskonar aumingjar en hér aðallega hundaviðrunarfólk og skokkarar.

Að mörgu leyti er stjórnlagaráðið að taka hér völdin. Vinsældir þess aukast stöðugt. Ríkisstjórnin er trausti rúin. Varla að stjórnarandstaðan þori að anda á stjórnlagaráðið. Takist þeim að koma saman einhverju boðlegu eru mestar líkur á að það verði samþykkt. Hvort það breytir svo einhverju varðandi pólitíkina á eftir að koma í ljós. Pólitíkusarnir einbeita sér þessa dagana að kvótanum og í gegnum SA og ASÍ telur stjórnarandstaðan sig hafa náð einhverju taki á ríkisstjórninni útaf vegamálum. Svo er þó ekki. Ömmi og félagar eru afsleppari en svo.

Sagt er að dragi úr bensínsölu. Þessu get ég vel trúað. Sjálfur er ég farinn að keyra minna en ég gerði. Auðveldasti sparnaður í heimi er að minnka svolítið óþarfa akstur og keyra ögn sparlegar en áður. Þ.e. gefa heldur minna inn þegar farið er af stað eða hraðinn aukinn. Horfa jafnvel meira á snúningshraðamælinn en hraðamælinn sjálfan. Ef bensínverðið er nógu hátt verður sparnaðurinn þeim mun meiri. O.K., ég veit að þetta síðasta er vafasöm hagfræði en gat bara ekki stillt mig.

Mesta spennan þessa dagana er um það hvenær næsta þjóðaratkvæðagreiðsla eða almennu kosningar verða. Samkvæmt Guðs og manna lögum (eða réttara sagt gömlu stjórnarskránni) ættu næstu alþingiskosningar að verða árið 2013. Ætli það verði samt ekki næsta spenna í þessu sambandi að vita hvort Ólafur ætli að bjóða sig fram einu sinni enn til forseta eða ekki og hvort einhver þorir á móti honum ef hann býður sig fram. Svo má auðvitað búast við þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur stjórnlagaráðs og ESB er einhvers staðar út við sjóndeildarhringinn. Semsagt nóg að gera á næstunni en þó verður eitthvert hlé í sumar. Best að njóta þess og vera ekki að þessu eilífa sífri sem einkennir stjórnmálaumræðuna í dag.

IMG 5793Nú, mega þá ekki einu sinni fatlaðir leggja hér?


1398 - Fimmhundruðkallinn

004Gamla myndin. Hér eru pabbi og Bjössi fyrir utan húsið að Hveramörk 6. Þetta útsýni upp að bakaríi og verkstæðinu hans Aage kannast ég mjög vel við.

Finnst 17. júni tilstandið fráhrindandi mjög. Jóns Sigurðssonar tilbeiðslan er beinlínis orðin afkáraleg. Fór ekkert út til að horfa á hátíðarhöldin á þjóðhátíðardaginn. Það er samt auðvitað ekkert á móti því að lyfta sér þá aðeins upp frá brauðstritinu. Eðlilegt að fólk langi til þess.

Marktæk stjórnmálaumræða er öll meira og minna að færast yfir á netið og það er ekkert athugavert við það. Umræðan um annað er samt oft ansi léttvæg. Hin menntaða umræða er þó oft á svo hlægilegu plani að ekki er hægt að taka hana alvarlega. Baggalútsgrínið hefur þann galla að vera bara grín. Sjálfur reyni ég að þræða einhvern milliveg milli alvöru og gríns. Þá er oft stutt yfir í kaldhæðnina hefur mér fundist. Reyni þó að forðast hana líka.

Já, ég viðurkenni alveg að mig hefur dagað uppi hér á Moggablogginu. Spurning hversu vel ég á heima hér innanum alla ESB-andstæðingana og íhalds-seggina. Reyni þó að halda mínu striki. Veit bara ekki almennilega hvar það strik er.

Ég hef fylgst með bloggi áratugum saman. Eitt sinn var uppáhaldsbloggarinn minn Ágúst Borgþór Sverrisson. Hef fjarlægst hann svolítið með árunum. Hann virðist halda að fátt skipti máli annað en smásögur. Það getur vel verið að hann hafi réttara fyrir sér en ég í því efni. Mér leiðast þær. Þó hann bloggaði oft skemmtilega þá reyndi hann jafnan að gera lítið úr blogginu. Vildi frekar stunda það sem hann áleit vera alvöru-skrif. En hvað eru alvöru-skrif? Mér finnst það alveg eins geta verið blogg eins og hvað annað.

Smásögur og skáldsögur eru oft endemis bull. Það er þó alveg hægt að láta svoleiðis ná tökum á sér. Maður sér samt oftast eftir tímanum sem fór í að gefa sig þessu á vald, svona eftirá séð. Íslendingar virðast einkum lesa krimma nútildags. Það er skiljanlegt því auk predikunartilburðanna er þar oft um að ræða eitthvað fræðandi og skemmtilegt efni. Verst að ekki er nærri alltaf hægt að taka það alvarlega sem skrifað er. Staðreyndir og þessháttar smámunir fara stundum forgörðum við að þjóna því sem kallað er æðri tilgangur.

Einn af kostum skáldsögunnar (og krimmanna) er hve auðvelt er að koma ýmsu að sem erfitt er að skrifa um á annan hátt. Ef það er eitt sem ég hef lært á áralöngu bloggi þá er það að eftir því sem maður bloggar lengur og meira því auðveldara er að skrifa um það sem maður hélt alltaf að erfitt væri að skrifa um.

Stundum sérhæfa rithöfundar sig í tímabilum. Dettur þá strax í hug Vilborg Davíðsdóttir. Man að þegar hún vann uppá Stöð 2 prentaði ég út fyrir hana fyrsta uppkastið af því sem seinna kallaðist „Korka“ ef ég man rétt. Sennilega virkar það tímabil sem hún hefur valið sér ágætlega á mig. Ég er t.d. núna að lesa „Eldfórnina.“ Hana fékk ég á bókasafninu um daginn og er búinn að festast svo rækilega í henni að ég býst við að ég lesi hana alla. Fyrir nokkrum árum sá ég í Bókatíðindum eða einhverju þessháttar riti að bækur Vilborgar voru flokkaðar sem unglingabækur. Fyrir hennar hönd (og unglinganna) móðgaðist ég stórlega. Mér finnst bækurnar hennar bara einfaldlega ágætar.

Heyrðist Stefán Jón Hafstein vera í einhverju populistaviðtali á útvarpi Sögu áðan en það var víst ekki hann. Hann er í einskonar útlegð í Afríku en spá mín er sú að hann snúi til Íslands aftur í tæka tíð fyrir næstu kosningar til að reyna að koma höndum yfir stjórn Samfylkingarinnar. Eins og aðrir hlýtur hann að sjá forystuleysið blasa við á þeim bæ.

Áhyggjur manna af gríska harmleiknum fara vaxandi. Kannski er svarta hagkerfið að ríða Grikkjum að fullu.

IMG 5790Já, Jón á eflaust þennan bíl.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband