Bloggfærslur mánaðarins, júní 2011

1397 - Sæmundur Sigfússon

003Þetta er Bakkasel á Öxnadalsheiði. Á þessum tíma var þrefað um þann bæ fram og aftur á alþingi og hann öðlaðist talsverða frægð fyrir vikið.

Í þjóðsögum er nafni minn Sigfússon oft nefndur. Engin furða er það því hann hefur áreiðanlega verið fyrirferðarmikill í íslensku þjóðlífi á sínum tíma. Um slíka menn myndast gjarnan þjóðsögur.

Tveimur sögum um hann ætla ég að tæpa á hér.

Sæmundur var eins og flestum er kunnugt sagður vera galdramaður mikill. Í vinnu hjá honum var líka sagt að væru galdarkindur ýmiss konar. Einhverntíma á heyskapartíð var mikið hey flatt í Odda og leit út fyrir rigningu. Vinnumenn hömuðust við að setja heyið í sátur og kerling ein gekk um og snerti sáturnar með stafpriki sínu og sagði um leið: „Upp í garð til Sæmundar.“ Og ekki er að orðlengja það að sáturnar tókust á loft og svifu heim í hlöðu (sem kannski hefur ekki verið merkileg hlaða) til Sæmundar þar sem hann hamaðist við að koma þeim fyrir. Hann sá fljótlega að hann mundi alls ekki hafa við og kallaði því á Kölska og lét hann ásamt árum sínum hjálpa sér. Þannig bjargaðist heyið.

Hin sagan er þannig að einhvern tíma er sagt að Sæmundur hafi komið heim frá gegninum og í baðstofu hafi verið vinnukonur margar við tóvinnu. Sæmundur sagði um leið og hann snaraðist inn að nú væri óskastund og þær gætu óskað sér einhvers ef þær væru nógu fljótar. Þá gall við í einni:

„Eina vildi ég eiga mér
óskina svo góða.
Að ég ætti synina sjö
með Sæmundi hinum fróða.“

„Og dæir þegar þú eignaðist þann sjöunda.“ Bætti Sæmundur við. Allt er þetta sagt hafa ræst eins og venjulegast er í munnmælum að þessu tagi. Meira að segja er til saga um að allir þessir synir hafi orðið prestar en hana kann ég ekki.

Mér finnst ekkert óeðlilegt við að skipta fólki í flokka eða hópa sér til hægðarauka. Mér finnst flokkaskiptingin Íslendingar vs. útlendingar eða hvítt fólk vs. litað þó vera óeðlileg skipting. Sjálfur skipti ég fólki oft með sjálfum mér þannig í hópa:

Karlar vs. konur.
hægri vs. vinstri.
opingáttarfólk vs. einangrunarsinnar.
frakkamenn vs. úlpumenn.
hundafólk vs. kattafólk.
o.s.frv. Þannig væri hægt að halda lengi áfram.

Þessi skipting finnst mér alveg eðlileg en ef ég ætti að útskýra út hörgul hvað þessi skipting þýðir og hvernig hún hefur komist á þá mundi það taka langan tíma og alls ekki er víst að allir yrðu sammála mér. Dilkadráttur af þessu tagi er alltaf vafasamur því auk alls annars þá er sífelldur þeytingur á fólki milli flokka.

IMG 5789Gluggar þvegnir.


1396 - Óskiljanlegt

002Gamla myndin.
Hér eru Guðjón Guðjónsson frá Gufudal, Ragnar Christiansen og Siggi í Fagrahvammi. Ekki veit ég á hvaða ferðalagi við höfum verið þarna en myndin er áreiðanlega ekki tekin í Hveragerði.

Því skyldi ég vera að rembast við að blogga eitthvað á hverjum degi. Veðrið er svo gott þessa dagana að það er óttalegur spandans að vera að svonalöguðu. En ég er með tilbúnar myndir sem ég þarf endilega að koma frá mér.

Talsverðar umræður spunnust í athugasemdakerfinu við bloggið mitt í gær um sundlaugar og lengd þeirra. Þetta byrjaði allt saman með því að....... Æ, ég nenni þessu ekki. Brennið þið vitar, brennið. Ef þið nennið.

Ögmundur sonur Einars
ef að ég til þín fer.
Alfræðiorðbókin
opin er fyrir mér.

Þetta er úr Ecce homo. Kannski á ég þá bók einhvers staðar. Gæti verið þess virði að skanna 50 ára gamlar teikningar eftir Hörð Haraldsson og fleiri. Þar var mynd af hverjum og einum útskriftarnemanda. Af einhverjum ástæðum er þetta eina vísan sem ég man. Man að Hörður var svolítið að hasast upp á að teikna myndir af öllum nemendunum. Jafnvel var rætt um að hætta útgáfu ritsins. Samkomulag varð þó um að Hörður teiknaði andlit fólks en aðrir sæu svo um afganginn. Einhverjir úr hópi nemenda sáu um það. Einnig gerð vísnanna. 

Margt er mannanna bölið
og misjafnt drukkið ölið.

Svona minnir mig að eitthvert heimsósómakvæði frá sautjándu öld eða svo byrji.

Meðan Eiríkur Jónsson og Jakob Bjarnar rembast við að vera fyndnir á sínum Eyjubloggum og Harpa Hreins rembist við að salla Sögu Akraness niður þá rembist ég við að skrifa sem mest á hverjum degi. Nei annars, kannski er best að hætta núna strax. Ég er ekki í stuði. Bæ, bæ, eins og Tinna segir jafnan þegar hún fer, þó hún segi fátt annað sem skiljanlegt er venjulegu fólki.

IMG 5787Hreinsidagur.


1395 - Gamlar myndir

001Gamla myndin.
Þessi mynd er líklega tekin á sjómannadaginn hér í Laugardalnum. Þetta var á sínum tíma kallað „stakkasund“ og var nokkuð vinsælt.

Já, það er talsverð fyrirhöfn að skanna myndir. Hef samt skannað nokkrar gamlar myndir og ætti ekki að verða uppiskroppa á næstunni. Sumar af myndunum hef ég áreiðanlega tekið sjálfur en ekki allar. Eitthvað hef ég líka birt áður á blogginu mínu af gömlum myndum. Þær ættu að vera aðgengilegar í albúmunum hér á Moggablogginu. Nýlegu myndirnar er auðvitað líka nokkur fyrirhöfn að undirbúa fyrir birtingu hér á blogginu en ég er orðinn svo vanur því að mig munar lítið um það. Að birta eina gamla mynd og eina nýja á hverjum degi er samt talsverður handleggur.

Þau tvö dómsmál sem hæst ber um þessar mundir eru tvímælalaust málaferlin gegn Geir Hilmari Haarde fyrir landsdómi og kæra Gunnlaugs M. Sigmundssonar gegn Teiti Atlasyni útaf umfjöllun hans um Kögunarmálið svokallaða. Ég ætla að fjalla svolítið um bæði þessi mál. Þ.e. hvernig þau horfa við mér.

Mér finnst Geir Haarde vera sekur um það sem hann er sakaður um. Vel má halda því fram að óheppilegt sé að hann skuli einn vera fyrir landsdómi. Það á þó ekki að hafa áhrif á niðurstöðu dómsins. Hvað málalok snertir skiptir í raun engu hvort aðrir eru ákærðir jafnframt. Sekt eða sakleysi hans er nákvæmlega jafnmikil hvort heldur sem er. Málshöfðunin er að því leyti pólitísk að alþingi ákærir í málinu. Ekki er hægt að halda því fram að niðurstaða landsdómsins verði pólitísk af því einu. Engin ástæða er til að ætla að dómarar þeir sem skipa landsdóminn láti annað en lögin ákveða sekt eða sýknu.

Kem ég þá að Kögunarmálinu. Mér er með öllu óskiljanlegt hvers vegna Gunnlaugur kærir í því máli. Upprifjunin á málsatvikum er öll Gunnlaugi í óhag. Þetta er ljótt mál og mér er í fersku minni þegar það var sem mest í umfjöllun fjölmiðla. Hlutur Gunnlaugs hefur fremur versnað en hitt með árunum. Þó hann hafi sloppið við refsingu á sínum tíma er nær öruggt að mál þetta mundi fá aðra meðferð ef það kæmi til meðferðar dómstóla nú. Reyndar er óljóst hvað það er nákvæmlega sem Gunnlaugur kærir Teit fyrir og málsaðilar virðast hafa lítinn áhuga á að ræða það. Eftir stendur að ómögulegt er að Gunnlaugur græði annað á þessu máli en mögulega að valda Teiti umtalsverðum útgjöldum og fyrirhöfn.

Rætt er um hundabann í sambandi við hátíðahöld. Ég er frekar á móti hundum en með köttum. Þetta er bara eitthvað sem fólki er meðfætt held ég. Auðvitað fara engir með köttinn sinn niður í bæ á 17. júní enda vilja kettir ekki vera í bandi. Hundaeigendur flestir halda að sinn hundur geri aldrei flugu mein. En hver á að dæma um hvort hundur er hættulegur eða ekki? Ég vil láta þá sem hræddir eru við hunda gera það.

IMG 5785Allt er vænt sem vel er grænt.


1394 - Plankablogg

img 0028Gamla myndin.
Á sínum tíma var sundlaugin í Laugaskarði eina 50 metra sundlaug landsins. Þangað komu því stundum bestu sundmenn á landinu til æfinga. Ég var þá unglingur að prófa mig áfram með ljósmyndun og tók meðal annars þessa mynd af Pétri Kristjánssyni sem lengi hafði verið einn besti sundmaður landsins og Guðmundi Gíslasyni sem þá var ungur og upprennandi sundmaður.

bifrost 001Ég hef líka verið beðinn um að pósta hér gamlar myndir frá Bifröst. Þær eru alveg orðnar nógu gamlar til að kallast „gamlar“. Eitthvað á ég af slíku. Fann t.d. eina fótboltamynd frá Bifrastarárunum. Hér má sjá ef talið er frá vinstri: Ögmund Einarsson, Gunnlaug Sigvaldason, Sigurjón Guðbjörnsson, Gunnar Hallgrímsson og Sæmund Bjarnason.

Þetta er ekkert þjóðhátíðarblogg. Frekar mætti kalla það plankablogg. Mér finnst þetta allt hafa byrjað með því að einhver ástrali plankaði sig til dauða. Svo plankaði Sigmar sig í Kastljósinu og Guðni Ágústsson á stól, (ekki mjög frumlegt) þá var það sem Björn S. Lárusson plankaði sig á kústskafti (sneri myndinni). Nú er röðin komin að mér og ég plankaði í einrúmi (enginn til frásagnar). Síðasttalda aðferðin er langbest. Ég hef að vísu ekki prófað hinar en þær eru áreiðanlega ekki auðveldari.

Í gær var ég skammaður í athugasemdakerfinu fyrir að ráðast á biskupinn. Ég hef alla tíð verið lítið hallur undir kirkjuleg yfirvöld. Talið presta í mesta lagi vera ósköp venjulegt fólk. Að ríkið sé að skipta sér af því hvernig fólk iðkar sína trú finnst mér óhæfa hin mesta. Auðvitað veit ég að trúin hefur hjálpað mörgum til að sætta sig við hlutskipti sitt í lífinu og átt sinn þátt í menningu þjóðarinnar. En í æðstu stöður þjóðkirkjunnar hafa stundum safnast þeir sem lítið vilja fyrir lífinu hafa, annað en að níðast á náunganum.

Mér finnst ég ekki hafa komið neitt illa fram við Karl biskup og þeir sem svo hugsa gera líklega allt of mikið úr mínu bloggi. Í því eru mínar hugsanir eingöngu og ekki annarra. Aðrir geta síðan ef þeir vilja komið sínum skoðunum á framfæri í athugasemdunum ef þær stangast á við mínar. Nú eða sleppt því bara eins og einfaldast er og flestir gera.

Athugasemd Sigurbjörns Gíslasonar fagna ég þó mjög. Það er alltof sjaldan sem ég fæ gagnrýni af þessu tagi á mín skrif. Í þessu tiltekna máli er ég samt þeirrar skoðunar að rétt sé að láta ekki við það sitja að biðjast fyrirgefningar (sem þó er engin fyrirgefningarbón) heldur þurfi kirkjan á því að halda að hreinsa til í sínum ranni.

Nú er ég að verða búinn með bókina um Steinólf í Ytra-Fagranesi. Ekki er víst að ég klári hana. Satt að segja verður hún lakari eftir því sem lengra dregur. Seinni hluti hennar allur er nokkurskonar safn af anekdótum sem sögumaður hefur sagt höfundi. Engin tilraun er gerð til að tengja þær saman. Satt að segja fær maður á tilfinninguna að báðir færi nokkuð í stílinn eins og sagt er eða ýki frásögnina. Slíku er maður þó svo vanur að ástæðulaust er að kippa sér upp við það. Lakara er að höfundur fyrnir mál sitt sem mest hann má og velur anekdóturnar stundum fremur illa að mínu áliti og jafnvel með það eitt að markmiði að koma einstökum vel fyrndum málblómum að.

Stjórnlagaráð það sem nú er að fást við að koma saman drögum að stjórnarskrá er einhver merkasta tilraun til slíks sem gerð hefur verið á Íslandi. Ekki er ég viss um að margir fylgist með störfum þess á netinu en þegar þar að kemur og endanlegur texti nýrrar stjórnarskrár verður gerður opinber fara fjölmiðlar og stjórnmálamenn ugglaust að rífa hann í sig lið fyrir lið. Kjósendur á landinu fá þó vonandi að segja álit sitt á honum áður en alþingismenn fara að krukka í hann. Satt að segja hef ég þá trú á núverandi stjórnvöldum að þau muni reyna að stuðla að því að kjósendur geti það sem fyrst.

IMG 5780Með hjólið við höndina.


1393 - Crowd control

img 0006Gamla myndin.
Þetta er mynd af Trésmiðju Hveragerðis. Þarna hafa margir unnið og margt átt sér stað. Trésmiðja Hveragerðis var lengi eitt helsta fyrirtæki þorpsins.

Las um daginn frétt sem fór því miður inn um annað eyrað á mér og út um hitt. Get ekki fundið hana aftur. Þessi frétt fjallaði um það að Bandarísk yfirvöld hefðu fundið upp (eða styrkt gerð á) nýjan tæknibúnað sem gerði fólki kleift að notast við farsímana sína þó stjórnvöld reyndu að gera þá óvirka. Kannski var eitthvað meira í fréttinni en núna allt í einu dettur mér í hug að þetta sé merkilegt mál.

Er ekki með þessu verið að tryggja yfirráð Bandaríkjanna og fylgiríkja þeirra í atburðum á borð við þá sem urðu í Egyptalandi í byrjun þessa árs. Senditækin sem falin voru uppi á hlöðulofti í heimsstyrjöldinni síðustu eru algjörlega úrelt. Nútíma njósnarar notast við fullkomnari útbúnað.

„Crowd control“ er það sem mestu máli skiptir þegar ástand er ótryggt. Þurfa bandamenn ekki að nota allt sitt þegar um er að ræða að halda sínum yfirráðunum?

Ég er í aðra röndina róttækur en íhaldssamur í hina. Mér finnst þetta ekkert einkennilegt og gengur vel að flokka þau áhrif sem ég verð fyrir daglega og setja í réttar skúffur í heilanum. Með þessu verður smám saman til einstaklingseðli sem er ólíkt flestum eða öllum öðrum slíkum.

Til að vega upp á móti tilgangsleysi lífsins ímynda ég mér að ég hafi stíl. Bæði ritstíl og ljósmyndastíl. Fer ekki fram á meira. Reyni ekki einusinni að breyta heiminum.

Nú er ég búinn að vera úti að flækjast í mestallan dag og bloggið er þessvegna með stysta móti. Ekkert er við því að gera, því ekki er víst að sumardagarnir verði margir. Hlýindin í dag og sólskinið er vel þegið eftir kuldann að undanförnu.

Það er enginn ávinningur að bulla sem mest á blogginu eins og sumir gera. Nær að blogga minna og helst ekki neitt. Margir hafa líka gefist upp á þessari tilgangslitlu iðju. Ég þumbast þó við. Enda er ég þumbari mikill.

IMG 5777Ris á hjólum og með sólarpanel (sýnist mér).


1392 - Karl-tuskan ætlar að reyna að sitja áfram

hv30Gamla myndin.
Þetta er skálinn merkilegi í Reykjadal. Á sínum tíma var vinsælt að gista þar í útilegum.

Nú er ég búinn að inntaka mitt eiturlyf, sem er einn bolli af kaffi, og óðum að vakna til lífsins. Áður fyrr var það kaffi og sígaretta sem kom manni í gang að morgni, en nú læt ég kaffið duga. Sé að ég er kominn nokkuð hátt á vinsældalista Moggabloggsins eða í 29. sæti. Þar hef ég verið áður. Svo vill til að ég komst þangað fyrir tæpu ári og skrifað það hjá mér. Stóri munurinn er sá, að nú þarf ég bara 1566 heimsóknir til þess en hef fengið 2610 þá. Moggablogginu er semsagt að hraka. Kannski mér líka, þó ég voni að svo sé ekki.

Þó Kalli Matt. (sem ég man aðallega eftir sem syni Matthíasar í Gíslabæ) segi „við“ (án gæsalappa að vísu) þá kannast ég ekki við að hafa étið gull. Sumir gangast upp við að éta þann málm. Finnst það bæði merkilegt og sniðugt. Engan hef ég þó heyrt halda því fram að það sé næringarríkt. Við konan mín og ég keyptum okkur að vísu bæði flatskjá og bíl en finnst samt einsog Hrunið sé ekki okkur að kenna.

Á útvarpi Sögu var stuðningsmaður Gaddafis að tala áðan. Undanlegur er sá kokteill af vinstri og hægri sjónarmiðum sem þar er framreiddur. Arnþrúður og Pétur eru fremur hægrisinnuð en þó fyrst og fremst tækifærissinnuð. Þau gagnrýna flest sem hreyfist en stjórnmálalega líkar þeim best við frjálslynda flokkinn og framsókn.

Svo virðist sem við sitjum uppi með biskup og ríkisstjórn sem hafa það helst til síns ágætis að skárra sé erfitt að finna. Ekki er það gæfulegt. En við það verður að una. Eigum við ekki bara að reyna að gera gott úr þessu. Kannski kemur sumarið bráðum og við getum gleymt öllu nema grillinu.

Svo illa sem ég tala ævinlega um fésbókina þá get ég ekki án hennar verið. Þar er gott að fylgjast með öllu mögulegu, blaða í myndaalbúmum og þ.h. Samkvæmt nýjustu fréttum er Facebook-notendum að fækka sumsstaðar. Annarsstaðar heldur þeim vafalaust áfram að fjölga. Tölvulæsi er sífellt að verða almennara. Að vera án slíks er talsverð fötlun, alveg eins og það er veruleg fötlun að þurfa endilega að fylgjast með boltaleikjum í sjónvarpinu. Það er eins gott að sá tími er liðinn sem manni fannst að maður þyrfti að fylgjast með öllu sem fram fór þar. Nú hangir fólk lon og don á netinu í staðinn.

Skeleggur varðhundur Samfylkingarinnar er Friðrik Þór Guðmundsson. Nú finnst honum við hæfi að verja Árna Pál Árnason. Ráðlegg mönnum að lesa Eyjubloggið hans. Ingibjörg Sólrún virðist vera að undirbúa og vinna að endurkomu sinni. Megi slíkt aldrei verða. Einhverjir virðast álíta það afar fréttnæmt ef hún er eitthvað að fésbókast.

Get ekki leynt því að hefðbundin fréttamennska eins og hún er stunduð af þingmönnum og blaðamönnum nýtur lítils trausts hjá mér. Hálftími hálfvitanna á Alþingi er auðvitað ekkert annað en blaðamennska af lélegustu tegund. Áhorfendur held ég að meti það líka þannig og kannski einnig þeir þingmenn sem yfirleitt þegja. Erlend fréttastarfsemi er sömuleiðis oft vafasöm. T.d. er CNN núna að reyna að grafa undan WikiLeaks. Veit ekki hvar það endar en lítið hefur heyrst frá WikiLeaks að undanförnu.

Gagnrýnin á ríkisstjórnina er nokkuð óvægin um þessar mundir. Flestir eru þó hættir að tala um að hún geri ekki neitt. Nú er henni aðallega legið á hálsi fyrir að hafa helst viljað semja í Icesave-málinu og að hafa sótt um aðild að ESB. Sumir gagnrýna hana einkum fyrir að hafa staðið fyrir stjórnlagaþingskosningunum, en þó held ég að fylgi við stjórnlagaráðið sé talsvert og fari vaxandi.

Ég ætlaði víst að fjölyrða eitthvað um Geir Haarde. Landsdómurinn sem slíkur er vafasamur. Það er alltof billegt að vísa bara á að Bjarni Benediktsson hafi á sínum tíma (1963) lagt hann til. Það er bara sagnfræði því tímarnir voru allt aðrir þá. Að ákæra Geir einan er líka vafasamt. Þó er það svo að oft hefur verið hamrað á því að ríkisstjórnin sé ekki fjölskipað stjórnvald. Samkvæmt því hlýtur forsætisráðherra að bera ábyrgð á stjórnarstefnunni sem slíkri, en ekki einstakir ráðherrar, sem bera bara ábyrgð á sínum málaflokkum. Þess utan er engin hefð fyrir því að sök minnki við það að aðrir séu einnig undir hana seldir.

Kannski er það bara til marks um þá tíma sem við lifum á en ég kann heldur illa við að Norðmenn séu að senda hingað menn til að fá Íslendinga til að ganga í norska herinn. Ég er á móti öllum hernaðarumsvifum. Andstæðingar ESB hér á Íslandi eru t.d. búnir að stofna Evrópuher og telja hættu á að Íslendingar fari sé að voða þar. Mér finnst norski herinn engu betri, en auðvitað bjóða þeir þeim gull og græna skóga sem vilja koma þangað.

IMG 5770Steinn og steinar. (Eða bara Steinn Steinarr.)


1391 - Teitsmálið og ýmislegt annað

bs gvGamla myndin.
Nú er svo komið að ég er orðinn uppiskroppa með gamlar myndir. Mest stafar það auðvitað af skönnunarleti. Ég er því að hugsa um að endurnýta einhverjar gamlar myndir. Sú fyrsta er af pabba og Gunnari Vigfússyni. Ekki veit ég hvaða hús þetta er sem þeir standa uppvið og augljóst er að ekki hef ég tekið þessa mynd.

Skrifaði svolítið um Teitsmálið um daginn. Skil eiginlega ekkert í Gunnlaugi að vera að stuðla að því að Kögunarmálið allt verði rifjað upp. Ekki svo að skilja að ég haldi að spilling á Íslandi hafi hafist með því. Sennilega er orðið of seint fyrir hann að draga kæruna til baka. Teitur Atlason lætur ekki labba yfir sig á þann hátt sem Gunnlaugur virðist hafa haldið. Lesið bloggið hans Teits. Það borgar sig. http://www.dv.is/blogg/eimreidin/

Sagði í gær, að mig minnir, að ríkidæmið og hefðirnar hefðu mestu völdin. Þetta á ekki sérlega við um Ísland heldur er þetta alþjóðlegt fyrirbæri. Það er ekki nóg með að peningar séu afl þeirra hluta sem gera skal. Heldur virðast þeir sem peningunum ráða jafnan hafa lag á að koma öllu þannig fyrir að völdin fylgi peningunum. Þegar allt fer svo til andskotans eins og núna þá hanga völdin samt við peningana og þeir sem gráðugastir eru hafa vinninginn.

Tilraunir til að láta önnur gildi ráða en peningana hafa yfirleitt mistekist. Völd vestrænna þjóða voru í upphafi einkum grundvölluð á því að tækni þeirra við að drepa fólk var betri og meiri en annarra. Þeim er nú viðhaldið með peningum og ekki drepið fleira fólk en nauðsynlegt er. Ekki er samt víst að þetta sé rétta uppskriftin að þúsundáraríkinu. Það getur verið að ný uppskrift komi fram og sú Bandaríska reynist röng.

Predikun af þessu tagi getur því aðeins haft áhrif að hún sé öllum auðskiljanleg. Vandi þeirra sem um fjármál skrifa er venjulega sá að þeir eru illskiljanlegir. Populismi er þetta að sjálfsögðu og réttast er að viðurkenna það. Veit ekki hvaðan mér kemur sú vissa að eitthvað sé að marka það sem ég skrifa, en hún er fyrir hendi.

Það þýðir ekki annað en að gera ráð fyrir að maður sjálfur sé gáfaðri og betur gerður en flestir aðrir. Mikilmennskubrjálæði er betra en minnimáttarkennd. Reiðin étur menn hinsvegar upp að innan. Kannski er réttláta reiðin verst. Það er ekki hægt að losna við hana. Ég skil ekki af  hverju fólk talar um annað en hinstu rök tilverunnar. Það tekur varla að eyða orðum að öðru.

Í Guantanamo á Kúbu hafa Bandaríkjamenn getað hagað sér eins og þeim sýnist. Ótruflaðir af öllum. Vissulega finnast þeir sem verri eru. Það réttlætir samt ekki það sem þeir eru að gera. Þegar Obama var kosinn forseti árið 2008 lofaði hann að sjá til þess að fangabúðunum í Guantanamo yrði lokað innan árs. Það hefur ekki gengið eftir. Eflaust er hægt að afsaka það á ýmsan hátt.

Við ætlumst samt til þess að Bandaríkjamenn standi við það sem þeir segja. Gangi á undan með góðu fordæmi. Þeir vilja það. Langflestir. Það er ekki nóg að vera aðeins betri en einhver annar. Það þarf að vera langbestur.

Um þessar mundir er ég að lesa bókina um Steinólf í Ytri-Fagradal. Sú bók var gefin út árið 2003 og er eftir Finnboga Hermannsson. Er nýbyrjaður á bókinni og finnst athyglisverðast það sem sagt er um Stein Steinarr og Stefán frá Hvítadal í bókinni. Einnig frásögnin um Þjófinn úr Paradís sem flutti út í Akureyjar eftir að Heinabergsmenn ráðlögðu honum það á Letigarðinum. Ég þarf einhverntíma að lesa bókina um þjófinn í Paradís sem Indriða G. var meinað að lesa í útvarpið eins og frægt varð. Indriði var sérstakur mjög. Setti afruglarann að Stöð 2 upp fyrir hann þegar hann bjó í næsta húsi við mig í Hveragerði. Það var nú þá.

Ekki veit ég hvernig á því stendur að lesendum mínum virðist vera að fjölga. Mér finnst ekki að ég skrifi neitt öðruvísi en ég er vanur. Moggabloggarar sem skrifa uppá hvern einasta dag eru kannski ekki mjög margir. Ég upplifi mig samt ekki sem síðasta geirfuglinn. Apropos Geir..... Nei, nú fer ég að hætta.

IMG 5769Það er vel hægt að geyma peningana í óþarfa steinsteypu, malbiki og þess háttar.


1390 - Biskupsfórn

sundGamla myndin.
Þetta er greinilega sundlaugin í Laugaskarði.

Já, ég hef trú á að hann segi af sér núna. Biskupinn meina ég. Það er ekki margt annað hægt að gera. Hann er ónýtur sem kennimaður. Þar með er ekki sagt að þeir sem öllu ráða á landinu séu hættir að stjórna. Ríkisstjórnin ræður litlu. Ríkidæmið og hefðirnar ráða mestu eins og allir vita.

Enn einn frídagurinn er framundan. Ég verð einhvernvegin að hafa ofan af fyrir mínum lesendum. Þetta er víst hámark gorgeirsins og sjálfhverfunnar! Jæja, sama er mér. Eitthvað verð ég að skrifa. Hvort sem það verður mikið eða lítið. Ég er búinn að venja mig á þetta.

Það má ekki minna vera en ég bloggi svolítið um stjórnlagaráðið. Sé ekki betur en endirinn verði sá að þau komi sér saman um ágætan texta. Kannski verða svona tvær aukaspurningar sem ekki verður ráðið fram úr. T.d. um trúmál og framsal fullveldis.

Það þýðir væntanlega að þjóðaratkvæðagreiðslan yrði þreföld. Í fyrsta lagi um stjórnarskrána sjálfa. Þvínæst um hvort kristni yrði áfram ríkistrú og að lokum um inngönguna í ESB. 

En koma þarf tillögum stjórnlagaráðs í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þar kemur pólitíkin í spilið. Ekki er samt útilokað að það takist. Sú atkvæðagreiðsla gæti hugsanlega orðið í lok þessa árs eða svo.

Á margan hátt má segja að lífeyrissjóðirnir stjórni ríkisstjórninni og séu þar með valdamestu aðilarnir á landinu. Eiga einhverjir peninga aðrir en lífeyrissjóðirnir? Settu ekki útrásarvíkingarnir landið á hausinn með peningum? Nú, eða peningaleysi? Eiga bankarnir sig sjálfir? Hvar er séstakur og hvað er hann að gera?

En hverjir stjórna lífeyrissjóðunum? Eru það atvinnurekendur eða verkalýðsrekendur? Er það kannski leyndarmál einsog flest annað hér á landi? Er það leyndarmáladeild tölvunefndar sem ákveður hvað skuli vera leyndarmál? Hver er leyndarmálaráðherra þar? Svona mætti halda endalaust áfram.

Bíð eftir frekari fréttum að gagnaflutningsmálum. Ef málið er að lækka verðið á gagnaflutningum ber að gera það ekki seinna en strax. Einhverja hagsmuni er verið að vernda með þessu Farice-máli. Við viljum fá allt uppá borðið nú þegar. Jóhannes er að gera góða hluti í Kastljósinu. Ég treysti honum betur en mörgum öðrum.

Þegar ég kom heim áðan sá ég að athugasemdir voru óvenju margar við bloggið mitt. Út af þeim má leggja og verður kannski gert seinna. Ég er samt alveg hættur við að fara til Kína. Hef svosem ekki ráðgert það, en langaði. Þakka ykkur fyrir athugasemdirnar. Þó ég geti ekki allra sérstaklega þá eru þær þegnar með þökkum. Fer ekki ofan af því að kommentin eru sál bloggsins en það sem sagt er á fésbókinni fer í glatkistuna gaflalausu. Gat ekki stillt mig um að hnýta í hana.

IMG 5764Niðurfall.


1389 - Dósóþeus Tímóteusson

hopurGamla myndin.
Þekki enga á þessari mynd og veit ekki hvar hún er tekin.

Hver er besti vinur aðal?

Í þessu tilviki er aðal sá sem allt veit. Ekki Davíð frændi eða einhver valdamikill andskoti sem einskis svífst.

Jú, það er einmitt tölvukassinn stóri eða litli og fésbókin og bloggið og allt það vesen. Þetta nýmóðins dót er besti vinur aðalkarlsins sem öllu ræður.

Með því að kunna svolítið á þetta drasl er hægt að halda sambandi við umheiminn. Telja sjálfum sér trú um að  maður geti eitthvað. Líka er hægt að vorkenna hinum sem ekki kunna á draslið.

Sagt er að biskupsnefnan liggi undir feldi og verði þar þangað til á þriðjudaginn. Hverjir þurfa biskup af þessu tagi? Ekki ég? Ímyndar hann sér að hann sé einhver Ljósvetningagoði, eða hvað? Á kannski að afnema trúna? Ætli hann sé ekki bara búinn að því?

Einu sinni dreymdi mig óhugnanlegan draum. Mér þótti sem ég væri staddur á Hótel Ljósbrá í Hveragerði. Af einhverjum ástæðum voru myrkvunargluggatjöldin ekki rétt dregin fyrir þannig að ekki var hægt að hefja kvikmyndasýninguna vegna birtu eða réttara sagt myrkurleysis. Þá var það sem skotglaður Kínverji kom þjótandi og skaut til bana þann sem ábyrgð bar á þessu. Man að ég var skíthræddur við Kínverjann á eftir. Held jafnvel að ég hafi átt að taka við myrkurstjórnun á eftir þeim skotna. Sem betur fór lauk draumnum fljótlega svo ég þurfti ekki lengi að óttast um líf mitt. Af einhverjum ástæðum sat þessi draumur í mér lengi og gerir jafnvel enn.

Nálægt síðustu áramótum sat ég í mesta sakleysi og skrifaði á ferðatölvuna í hitanum á Tenerife. Þetta var um miðja nótt og ég hafði orðið andvaka. Varð litið af tölvuskjánum og sá á veggnum rétt hjá mér risastóran kakkalakka. Mér brá svo að ég hentist til í stólnum og heyrði vel hvernig brakaði í honum. Sem betur fór hafði ég ráð á skordýraeitri í spraybrúsa og réðist á kakkalakkann með hann að vopni. Eftir tvísýna baráttu tókst mér að koma honum út og morguninn eftir lá hann andaður á svalagólfinu.

Eftir þetta eru brjálaðir Kínverjar og svartir kakkalakkar hættulegustu fyrirbrigðin í mínu lífi. Sem betur fer dreymir mig slíkan óhugnað mjög sjaldan núorðið. Hér á landi er óhætt að skrifa á tölvur um miðjar nætur án þess að eiga á hættu að verða fyrir barðinu á svo hrikalegum fyrirbærum sem stórhættulegum kakkalökkum og brjálaðir Kínverjar eiga bara heima í martröðum sem betur fer.

Kakkalakkar og svörtu pöddurnar á Kanaríeyjum hræða mig en íslensku maðkaflugurnar og býfluguhlussurnar sem villast inn um gluggana á vorin gera það ekki. Hvernig skyldi standa á þessu? Meira að segja geitungarnir eru ekki sérstaklega hættulegir ef þeir eru íslenskir og maður varar sig á þeim. Skil þetta bara alls ekki. Enda enginn skordýrafræðingur.

Af einhverjum ástæðum er Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness aðalstjörnuskoðunarfélagið hér á landi. Man vel eftir því að á unglingsárum mínum hafði ég gríðarlegan áhuga á stjörnufræði og öllu sem henni tengdist. Minnisstætt er þegar mér tókst í fyrsta skipti að sjá með venjulegum kíki tunglin í kringum Júpíter. Sá þess getið í bók að þetta væri hægt en lagði lítinn trúnað á það. Auðvitað var einfalt að fylgjast með stærstu plánetunum með því einu að sjá afstöðu þeirra til annarra stjarna breytast frá degi til dags. Fyrst þegar ég horfði á Júpíter í gegnum kíki sjá ég einhverja litla ljósbletti í kringum hann og þegar ég kíkti aftur nokkrum tímum seinna hafði afstaða blettanna gjörbreyst. Þarna gat því ekki verið um neitt annað að ræða en tungl Júpíters. Þetta var gríðarleg uppgötvun og ég var lengi að jafna mig á henni.

Blaðamönnum hættir til að skrifa fréttir frá sjónarmiði þess sem síðast talaði við þá. Stundum eru þeir líka illskiljanlegir. Var áðan að lesa frásögn á dv.is um kartöflustríð í Þykkvabænum. Þegar kom að setningunni: „Markús segir Karl hafa nýtt sér vinnu Birkis á landspildunni,“ þá var ég hættur að fylgjast með hver gerði hverjum hvað því nöfnin voru miklu fleiri en þetta og hingsnerust bara fyrir augunum á mér. Ég hætti því að lesa. Kannski eiga fleiri en ég erfitt með að skilja um hvað þetta kartöflustríð snýst.

IMG 5758Hættuleg brú.


1388 - Eiríkur Bergmann

sitjaGamla myndin.
Veit því miður afskaplega lítið um þessa mynd. Þekki ekki einu sinni húsin á myndinni.

Enn einu sinni er kominn föstudagur. Skilst að næsta vika verði stutt hjá þeim sem vinna í samræmi við dagatalið. Sumarið er vonandi loksins að koma.

Það hefur reynst mér vel undanfarið uppá bloggvinsældir til að gera að hafa nöfn á fólki í fyrirsögnum. Kannski ég haldi því bara áfram. En hvaða nafn ætti ég að nota núna? Sjáum til. Mér leggst áreiðanlega eitthvað til.

Í fréttatímanum í dag skrifar Jón Baldvin Hannibalsson einskonar ritdóm um bók Eiríks Bergmann sem nefnd er: „Sjálfstæð þjóð – Trylltur skríll og landráðalýður“ Ekki liggur JBH gott orð til Ólafs Ragnars Grímssonar foseta Íslands sem hann kallar „forsöngvara útrásarinnar“, eða var það Eiríkur sem gerði það?

ÓRG hefur verið kallaður verri ónefnum en þetta. Sjálfur minnist ég Pocahontas-ræðu hans í hvert sinn sem ég sé hann bendlaðan við útrásina. Hann lagði það semsagt til að Íslendingar gerðu teiknimynd um Snorra Þorfinnsson sem væri miklu merkilegri fyrir sögu Bandaríkjanna en stelpuræksnið sem kölluð var Pocahontas. Myndin um hana var einmitt afar vinsæl á þessum tíma. ÓRG hefur nú skipt um áherslur og stefnir eflaust að einu endurkjöri enn.

Jæja, þá eru Jóhanna og þau búin að setja tappann í flöskuna og hægt að snúa sér af fullum krafti að Geir greyinu. Víst er það nokkuð sögulegt að nú skuli maður úr forréttindastétt landsins dreginn fyrir landsdóm og ákærður um óljósar sakir. Viðhöfnin er mikil og menn finna til ábyrgðar sinnar gagnvart sögunni. Sama er um stjórnlagaráðið að segja. Þar er verið að feta sig eftir slóð sem er alveg ný.

Það er engin furða þó menn hafi sterkar skoðanir á því sem er að gerast á Íslandi þessa dagana. Það er eins og allt sé nýtt. Endurfæðing alls eftir Hrunið mikla haustið 2008 er engu lík. Íslendingar finna meira til smæðar sinnar og óöryggis en oftast áður. Þegar lýðveldið var stofnað á Þingvöllum árið 1944 trúðu menn því í einlægni að við stæðum flestum þjóðum framar um næstum allt. Sú er ekki raunin núna. Við berumst með straumum alþjóðahyggjunnar. Erum jafnvel flækt í alþjóðasamtök sem líta á það sem sitt helsta hlutverk að drepa þá sem dreymir um annað skipulag.

Eiginlega vil ég ekki að hátíðleikinn drjúpi svona af því sem ég skrifa en get bara ekki að því gert. Kaldhæðnin er miklu skemmtilegri svo ég tali nú ekki um fýluna. En hverjum gagnast fúllyndið? Ekki þeim sem skrifar og ekki þeim sem les. Brandarar eru flestir afgamlir og úr sér gengnir þó alltaf finnist einhverjir sem kunna að meta þá. Svo er ég enginn baggalútur.

Mér er sama hvað hver segir en uppfrá þessu mun ég alltaf lesa bloggið hans Teits Atlasonar. Urlið er svona ef einhverjir vilja vita það: http://www.dv.is/blogg/eimreidin/ Ég skrifaði eitthvað um málssókn Gunnlaugs Sigmundssonar um daginn og minnir að ég hafi verið heldur stuttaralegur út í Teit. Gunnlaugur og Framsóknarflokkurinn koma samt áreiðanlega til með að tapa mest á þessu máli PR-lega séð. Ekki fer hjá því að Kögunarmálið allt verði rifjað upp víða. Það mál er einfaldlega þannig vaxið að Gunnlaugur hlýtur að tapa á því. Man vel að ég hneykslaðist mikið á því á sínum tíma.

Samkvæmt því sem sagt var í kvöld í Kastljósi geta gagnaflutningar til landsins verið mun ódýrari en nú er. Þetta mál allt er nokkuð flókið og líklega er rétt að bíða nákvæmra frétta af því. Erlendis tíðkast það ekki að takmörk séu á því gagnamagni sem flytja má fyrir ákveðin verð.

IMG 5747Fíflar í túni


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband