1406 - Hremmingadagurinn mikli

012Gamla myndin.
Veit ekki hvaða brýr þetta eru.

Í gær lenti ég í ýmsu. Þó ég bloggi yfirleitt ekki mikið um sjálfan mig er ég að hugsa um að tíunda það nokkuð.

Fyrst er til að taka gönguferð í Fossvogsdalnum. Þar kom köttur þjótandi á móti mér og stefndi beint á mig (kannski blindur) Ég vék úr vegi en hann hélt áfram að stefna beint á mig. Tókst að forðast hann og hann virtist verða fyrir vonbrigðum. Óvenjulegt um ketti. Þeir eru vanir að forðast fólk eða þá að hreyfa sig lítið.

Skömmu seinna urðu fyrir mér tveir hundar. Annar lítill og hinn stór. Sá stóri sneri sér geltandi og urrandi að mér. Ég vék úr vegi fyrir honum og fór framhjá. Hann kom þá urrandi og geltandi á eftir mér. Það er mér illa við. Mér tókst að komast í burtu og mætti skömmu seinna skokkara og heyrði fljótlega að hundarnir fóru að atast í honum. Svo mætti ég tveimur hjólreiðamönnum og um leið og þeir fara framhjá mér heyri ég að annar segir aðvarandi við  hinn: „Úps, hundar framundan.“ Ég hélt bara áfram og held að ekkert alvarlegt hafi gerst. Lausir hundar eru samt bölvuð plága. Veit ekki betur en hundahald sé bannað í Reykjavík. Undanþágur samt gefnar. (Hugsanlega þó umhugsunarlaust eða umhugsunarlítið.)

Svo var það áðan að mig bráðvantaði peninga. Fór af stað og ætlaði í hraðbanka. Ekki gekk það. Debetkortið var í gamla veskinu. Fór og náði í það. Rétt áður en ég stakk kortinu í hraðbankann sá ég að það var útrunnið og minntist þess að hafa fengið bréf frá bankanum um að nýtt debetkort væri tilbúið. Fór þangað en tilbúna kortið var í öðru bankaútibúi. Þar í grennd hafði ég eitt sinn átt heima. Vissi að ég þurfti pinnúmer til að geta tekið út af Visakorti í hraðbanka. Mundi það ekki. Fékk loks peninga hjá gjaldkernanum í bankanum útá Visa-kortið mitt.

Svo fór ég á bílaverkstæði og dekkjaverkstæði og það gekk skaplega nema hvað ég kom bílnum ekki að fyrr en í næstu viku og rétt dekk fengust ekki.

Samkvæmt þeim tillögum sem nú liggja fyrir stjórnlagaþingi er gert ráð fyrir að þriðjungur þingmanna eða 15% kjósenda geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta hvorttveggja finnst mér full-lágt hlutfall en á þó eftir að heyra rökstuðning fyrir því. Full ástæða er hins vegar til að hafa báðar aðferðirnar í gildi. Sérstaklega ef takmarka á völd forsetans sem hingað til hefur ekki verið talin vanþörf á. Hlutfall það sem nauðsynlegt er getur verið of hátt þannig að það missi með öllu marks. Ofnotkun er líka vel hugsanlegur möguleiki ef hlutfallið er of lágt. Þarna er meðalhófið vandratað. Einkum eru það 15 prósentin sem fara fyrir brjóstið á mér. Alls ekki er sama hvernig þetta er reiknað og sannreyna verður undirskriftir með sannfærandi hætti.

Margt bendir til að þjóðaratkvæðagreiðslur séu vel til þess fallnar að lægja öldur í samkiptum manna. Dæmi eru samt um að of langt sé hægt að ganga. Alþingi og ofurvald þess á öllum sköpuðum hlutum hefur ekki reynst vel. Ekki er sjáanlegt að forsetaræði henti okkur betur. Varasamt er að henda þingræðinu á haugana þó það hafi reynst illa. Vel er hægt að hugsa sér að skynsamlegar reglur um þjóðaratkvæðagreiðslur lappi nægilega upp á það.

 Katólska kirkjan ætlar að biðjast afsökunar og fara fram á það við Spanó sjálfan að rannsaka málið. Ætli þetta fari ekki í sama farið og venjulega? Er ekki farið að sneyðast eitthvað um pláss undir teppinu?

IMG 5881Lúpínan litinn gefur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Sammála þér um hlutfallið. Hugsaðu þér bara -- þriðjungur þingmanna! Stjórnar„andstaðan“ -- þ.e. þeir sem ekki eiga fulltrúa sjálfir í stjórninni hverju sinni -- myndu misnota þetta hægri vinstri. Þetta er eins og að afhenda stjórnar„andstöðunni“ sjálfkrafa rétt til að setja hvaðeina í þjóðaratvkæði.

Hins vegar mætti reglan um kjósendurna miðast við þriðjung, jafnvel niður í 30%. Annars myndi þjóðlífið verða meira og minna lamað og þingmál ekki komast áfram fyrr en seint og um síðir vegna sífelldra þjóðaratkvæðagreiðslna.

Sigurður Hreiðar, 29.6.2011 kl. 13:58

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Ég er ekki viss um að stjórnarandstaðan hverju sinni mundi misnota þennan málskotsrétt ef það tæki ákveðinn tíma að koma atkvæðagreiðslunni á. Það færi a.m.k. eftir því hvað yrði á meðan. þetta með hlutfall kjósenda er mikið spursmál. Miðað við það sem nú er virðist fólk skrifa undir hvað sem er án umhugsunar. Reynslan ein getur skorið úr um þetta. Ekkert breytist nema ákveðin áhætta sé tekin.

Sæmundur Bjarnason, 29.6.2011 kl. 15:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband