Bloggfærslur mánaðarins, maí 2011

1377 - Kvótinn veldur titringi

bebba2Gamla myndin.
Önnur sólbaðsmynd ofan af Reykjum og enn eru það Bebba og Golli sem eru mótívið.

Er ekki hægt að líta svo á að Landsbankinn hafi grætt of mikið fyrst hann býður eins mikla leiðréttingu og hann gerir? Hefur ríkið þá gert of vel við hann? Ekki veit ég það. Eru það aðallega glæpamenn sem eiga hina bankana? Er það ekki það sem Hannes Hólmsteinn og fleiri eru að reyna að telja okkur trú um? Er þá allt í einu orðið glæpsamlegt að vilja græða sem mest? Spurningunum varðandi Hrunið fer fjölgandi frekar en hitt.

Það er lítill vafi á því í mínum huga að innflytjendamál eiga eftir að verða aðalmálið í pólitík næstu ára. Við Íslendingar erum gjarnan dálítið á eftir öðrum og það er búið að deila um þessi mál í nágrannaríkjunum í mörg ár.

Til að fylgjast svolítið með í pólitíkinni er ágæt regla að lesa bæði blogg Páls Vilhjálmssonar og Jónasar Kristjánssonar. Skoðanir þeirra fara ekki beinlínis saman. Vinstrisinnar geta sótt sér rök í reiðilestra Jónasar og þeir sem hægrisinnaðir eru geta fengið línuna hjá Páli. Annar er hlynntur ESB og hinn ekki. Báðir blogga heilmikið og oft.

Svo virðist sem átök séu að harðna á alþingi. Kvótamálið veldur titringi sem fyrr. Áhrif LÍÚ eru umtalsverð. Ríkisstjórnin er í talsverðri varnarstöðu því hart er sótt að henni vegna Icesave-málsins og kvótans.

IMG 5552Margt er skrýtið í Kópavoginum.


1376 - Ný tölva

bebba1Gamla myndin.
Þarna er verið í sólbaði uppi á Reykjum. Til vinstri á myndinni eru Bebba og Golli.

Nú er ég kominn á nýja tölvu og Wordið og stjórnborðið á Moggablogginu hegða sér ekki nákvæmlega eins og ég er vanastur. Það veldur mér svolitlum vandræðum og tefur mig ögn, en ég ætti að geta ráðið fram úr því.

Skil vel þá sem eru síblaðrandi á fésbók. Það er bara ekki minn stíll. Skil þá líka sem sökkva sér í leiki þar. Það geri ég. Leikurinn heitir reyndar skák og sumum þykir hann eitthvað fínni en aðrir. Auðvitað er hann það samt ekki. Það er líka hægt að detta í að lesa bara einhverjrar voðalega dramatískar frásagnir sem sumir sérhæfa sig í. DV gerir það t.d. og svo finna sumir hvöt hjá sér til að kommenta þar fram og aftur. Nei, ógæfu heimsins er best að leiða sem mest hjá sér, eins og flestir gera. Það eyðileggur bara að vera að velta sér uppúr því.

Lenti í undarlegri netreynslu um daginn. Gat ekki með neinu móti komist inná ebay.com hvernig sem ég reyni. Önnur sæt bæði hérlendis og erlendis voru alveg í lagi. Svona var þetta frá því seinni partinn á miðvikudaginn og til fimmtudagsmorguns og lagaðist ekki fyrr en ég kvartaði við aðgangssalann minn. Veit ekki ennþá af hverju þetta stafaði en svona lagað á ekki að geta komið fyrir.

Þó Jónas Kristjánsson fyrrverandi ritstjóri sé yfirleitt æði stórorður á sínu bloggi ratast honum oft satt á munn. Sumt af því sem hann segir um opinbera þjófnaði og spillingu hér á landi er alveg rétt. Stjórnmál og fréttir dagsins eru hans ær og kýr og svo matarbloggar hann stundum ansi skemmtilega. Er reyndar ekkert síður gagnrýninn þar en annarsstaðar.

Nú stendur yfir einhver fundur hjá Samfylkingunni og eðlilega er það sem þar er sagt fréttaefni. Breytir þar engu þó Sjálfstæðismenn sumir hverjir a.m.k. kyrji kjökrandi sinn gamla söng um að Samfylkingin sé ekkert betri en þeir og beri ekki minni ábyrgð á Hruninu. Svo segir Styrmir að enginn vilji tala við sig útaf ESB. Æ,æ.

IMG 5546Listsýning.


1375 - Vísindi

smalliGamla myndin.
Þetta er Smalli eða Reynir Helgason. Myndin er greinilega tekin uppá Reykjum.

Í mér togast á vísindi og skáldskapur. Hvort er mikilvægara að telja stráin á litlum bletti eða líta yfir túnið allt? Hvort er þessi spurning heimspekileg eða sagnfræðileg? Hvort ber að leggja meiri áherslu á staðreyndir eða stíl? Það er hægt að segja frá öllu á margvíslegan hátt.

Vísindin segja mér að staðreyndir skipti öllu. Staðreyndir og upplýsingar eru orðnar svo yfirfljótandi og auðvelt og einfalt að nálgast þær flestar að framsetning þeirra, val og uppsetning skiptir a.m.k. eins miklu máli.

Eftir Hrun skrifa mun fleiri á netið en áður. Þeir orðljótustu fara að dragast aftur úr. Heiftin og hatrið verður leiðigjarnt til lengdar. Kaldhæðnin jafnvel líka.

Mikið er gert af því að draga ofurboggara, stjórnmálamenn og vefrit í dilka eftir því hvað er ekki sagt.
Semsagt þagað um. Þannig er búinn til strámaður sem svo er ráðist á.

Ég fréttablogga ekki mikið. Núorðið finnst mér allsekki að ég sé að missa af einhverju þó ég sjái ekki sjónvarpsfréttir. Þannig var það samt einu sinni. Nenni yfirleitt ekki heldur að lesa nein dagblöð og lít bara lauslega á netblöðin. Sennilega ber þetta vott um að ég sé að gamlast, en mér er bara alveg sama. Þetta er hvort eð er mestmegnis sami söngurinn. Það er að æra óstöðugan að reyna að fylgjast með þessu öllu saman.

Sigurjón tannlæknir á Húsavík æsir fólk upp. Það er ekkert sjálfsagt mál að tannlæknar starfi á allt annan hátt en aðrir læknar. Þetta mál þarf að leysa og hvorki bloggarar, blaðamenn né fésbókarskrifarar eru réttu aðilarnir til þess. Ef sjálfsagt er í nafni réttlætis og samhjálpar að þjóðfélagið taki þátt í lækniskostnaði á það ekkert síður að ná til munnholsins en annarra líkamshluta.

IMG 5545Undirgöng.


1374 - Júlli prjón

husGamla myndin.
Þessi mynd er eflaust tekin í skólaferðalagi en ég veit samt ekki hvaða hús þetta er.

Var byrjaður á sögukorni um daginn og af því að búið er að vera að vesenast í tölvumálum hér í dag og í kvöld er ég ekki með neitt annað tilbúið til að setja hér.

JÚLLI  PRJÓN

Þannig er með Júlla prjón að hann kann ekkert að prjóna. Þessvegna er hann kallaður Júlli prjón. Auðvitað er ekki hægt að gefa öllum sem ekki kunna að prjóna slíkt viðurnefni. Ég skil samt ekki hversvegna hann er kallaður Júlli prjón. Því ráða einhverskonar æðri vísindi sem erfitt er að skilja. 

Einu sinni var Júlli á leiðinni til Hveragerðis. Hann var fótgangandi eins og venjulega því hann á engan bíl. Þá keyrir skyndilega uppað honum svartskeggjaður náungi á rauðum Bronco og segir:

„Ert þú ekki Júlli prjónn?"

„Nei, og ég held að ég þekki hann ekkert."

„Nú, ég hélt endilega að það værir þú."

„Af hverju?"

„Það veit ég ekki. Bara."

„Ég er nú oft kallaður Júlli prjón."

„Nú, er það?"

„Já, en ekki Júlli prjónn."

„Já, svoleiðis. En viltu ekki fá að sitja í? Ég er á leiðinni til Hveragerðis."

„Jú, takk."

Og Júlli klöngraðist upp í jeppann og settist í framsætið við hliðina á þessum velgjörðamanni sínum.

Þeir héldu nú áfram þegjandi en Júlli var alltaf að hugsa um prjónið og sagði að lokum:

„Ég kann nú eiginlega ekkert að próna."

„Af hverju ertu þá kallaður Júlli prjón?"

„Af því að ég kann ekki að próna."

„Varla er það ástæðan."

„Jú, það held ég.

„Nú, það er einkennilegt. Ég hélt að þú værir kallaður það af því þú prjónaðir svo mikið."

Svo halda þeir áfram góða stund. Júlli er greinilega mjög hugsi og allt í einu segir hann upp úr eins manns hljóði.

„Ég væri alveg til með að læra að prjóna, en ég kann bara ekki neitt. Gætir þú kennt mér það?"

„Ha, ég?"

„Mér datt það bara svona í hug. Þú gætir kannski kennt mér eitthvað."

„Nei, það held ég ekki."

„Jæja, það er allt í lagi."

Þegar þeir komu til Hveragerðis stöðvaði sá svartskeggjaði bílinn við hringtorgið og hleypti Júlla út. Júlli labbaði niður á Hótel Ljósbrá en þar var enginn heima svo hann hélt áfram upp Gossabrekku upp að Álfafelli og síðan alla leið til Knúts Bruun. Þar var heldur enginn heima, svo hann fór niður á veg aftur.

Þá var sá svartskeggaði einmitt að koma frá Selfossi og stoppaði hjá Júlla og spurði hann hvert hann væri að fara.

„Til Reykjavíkur" svaraði Júlli að bragði.

„En ertu ekki nýkominn hingað til Hveragerðis?"

„Jú, en það var enginn heima svo ég verð að fara til Reykjavíkur aftur."

„Ha?"

„Já, ég bankaði á báðar dyrnar, en það kom enginn."

„Já, einmitt." Sagði sá svartskeggjaði og sagði ekki meir. Þeir óku svo alla leið til Reykjavíkur án þess að segja fleira. Sá skeggjaði var nefnilega hálfhræddur um að Júlli væri eitthvað skrýtinn. Sem var alveg rétt hjá honum.

IMG 5543Blóðsuga á almannafæri.


1373 - Fólk er ekki fífl

hellirGamla myndin.
Ekki veit ég hvar þessi hellir er. Líklega er það Þórður á Grund sem er á myndinni.

 Á fyrri hluta tuttugustu aldar höfðu Bandaríkjamenn ekki mikil afskipti af löndunum fyrir botni Miðjarðarhafs eða Austurlöndum nær eins og þau eru líka gjarnan kölluð. Bretar og Frakkar skiptu sér þeim mun meira af málum þar um það leyti. Síðast að verulegu marki í Súez-stríðinu 1956. (Gunnar Benediktsson lét ekki hjá líða að minnast á það þegar Ungverjalandsuppreisnarinnar var minnst með skipulagðri þögn).

Um miðja öldina breyttist þetta. Kannski einkum vegna stofnunar Ísraelsríkis. Bandaríkamenn hafa smám saman orðið afskiptasamir mjög og óvinsælir í þessum heimshluta. Drápin á Saddam Hussein og Osama bin Laden kunna að skipta sköpum fyrir þá þróun sem virðist vera að byrja í Norður Afríku og víðar.

Stjórnmáladeilur á netinu verða oft ærið trúmálakenndar. Hver étur úr sínum poka og hlustar lítið á aðra og tekur ekkert mark á þeim. Mér finnst mega skilgreina stjórnmálaskoðanir á ýmsan hátt.

Hægri - vinstri. Þarna finnst mér oftast vera átt við mikil eða lítil ríkisafskipti.

Einangrunarsinni - Opingáttarmaður. Þarna er venjulega átt við hvort menn aðhyllast náin tengsl við önnur lönd eða ekki. 

Fólk er fífl - eða ekki. Þarna er um það að ræða að aðrir séu svo vitlausir af því þeir viti ekki eitthvað sem ræðumaður (skrifari) veit eða þykist vita. Þetta álit er mjög útbreitt þó margir vilji leyna því.

Innflytjendur eru hættulegir - eða ekki. Þarna skiptir mjög í tvö horn og tengist oft ekki öðrum skoðunum.

Eigum við að ganga í ESB - eða ekki. Þarna skiptir í mínum huga mestu hvernig fólk ímyndar sér að þróunin í ESB verði á komandi áratugum. Einnig hvort til lengri tíma litið sé hagstæðara að vera lítill og áhrifalaus eða eiga samstarf við sér stærri og öflugri aðila.

Heiftin gegn ríkisstjórninni fer vaxandi. Óvinsældir hennar einnig. Stjórnin er greinilega innbyrðis sundurþykk og svo virðist komið að helsta ástæðan fyrir því að halda áfram sé sú að annað stjórnarmynstur sé ekki sjáanlegt eins og er.

Kannski er stjórnarandstaðan hatrammari en oft áður og fjölmiðlunin óvandaðri. Núverandi ríkisstjórn er ekkert verri en aðrar sem hér hafa starfað. Erfiðleikarnir eru miklir og engin von til þess að hægt sé að gera öllum til hæfis. Fjölmiðlar eins og „Útvarp Saga" hika ekki við að skora á fólk að gera byltingu. Þykir að vísu betra að einhverjir innhringjendur í símaþáttum geri það en hafa greinilega velþóknum á þeim sem geta komist sem kröftuglegast að orði.

Það hefur komið fram hér áður að ég er stuðningsmaður þess að við Íslendingar göngum í ESB. Þarna er vissulega um mikið álitamál að ræða og hægt að líta á málin frá mörgum sjónarhornum. Ekki liggur fyrir hver niðurstaða samningaviðræðna verður. Andstæðingar aðildar eru öflugir og eins og sakir standa virðist líklegast að aðildin verði felld ef þjóðaratkvæðagreiðsla um hana fer fram innan skamms. Ekkert bendir til að sú atkvæðagreiðsla verði ekki bindandi og fullyrðingar aðildarandstæðinga um annað eru eingöngu til marks um óheilindi þeirra.

IMG 5537Arnarnes.


1372 - Jónasast í flaginu

hlaupGamla myndin.
Gömul íþróttamynd. Líklega er það Ólafur Unnsteinsson sem er lengst til hægri á myndinni. Aðra þekki ég ekki. Ætli myndin sé ekki tekin á Þjórsártúni.

Jónas Kristjánsson fyrrverandi ritstjóri lætur drýgindalega yfir því að hann hafi aldrei lært á tölvu. Mér finnst mun líklegra en ekki að Jónas hafi einhverntíma þurft að spyrja um tölvumál eða lesa sér til um þau. Hvort hann hefur lært eitthvað á því veit ég auðvitað ekki. Ég hef aldrei lært neitt um tölvur þ.e.a.s. í skóla eða á opinberu námskeiði. En komist að ýmsu samt.

Jú, ég minnist þess reyndar að hafa einu sinni farið á Excel-námskeið fyrir löngu. Það stóð í nokkra klukkutíma. Síðan hafa margar nýjar útgáfur af Excel komið fram og ég er búinn að gleyma flestu sem ég lærði þar en hef þó einhverja hugmynd um hvað hægt er að gera.

Makka vs. PC stríðinu er lokið. Það vildi svo til að ég varð PC-maður en ekki Makka á sínum tíma. Ég minnist þess að á upphafsárum Stöðvar 2 bað Jón Óttar mig eitt sinn að ná í skjal sem hann hafði verið að skrifa á Makkann sinn. Ég hafði þá aldrei séð Makka fyrr en tókst samt að ná skjalinu. Af þessu dró ég þá ályktun að Makkinn væri á þeim tíma vinsamlegri byrjendum en PC-tölvur. (Reyndar voru Wang-tölvur með sérstöku stýrikerfi notaðar upphaflega á Stöð 2)

Það er ekki nóg með að Einar Kárason hvetji til eiturlyfjaneyslu (mín túlkun - sjá bloggið í gær) heldur hefur hann legið marflatur (eins og fleiri) fyrir frekjunni í Davíð Oddssyni ef marka má það sem hann segir frá í bókinni „Mér er skemmt" þar sem hann ræðir um félagsmálastörf sín. Ég tek a.m.k. þannig það sem hann segir um styrk Kvikmyndasjóðs til Hrafns Gunnlaugssonar.

„Mér er .. Mér er skemmt. Í djammið nú ég hef mér dembt". Nafnið á bókinni minnir mig á vísur sem Ómar Ragnarsson söng eitt sinn fyrir ævalöngu. Kannski á það að vera þannig. Þó ég sé dálítið gagnrýninn á Einar Kárason (bæði í dag og í gær) get ég auðvitað ekki neitað því að hann skrifar skemmtilega og er ágætur sálfræðingur.

Stjórnmáladeilur í bloggathugasemdum eru oft hvorki fugl né fiskur og enda oft ansi fésbókarlega. Við því er lítið að gera. Sigurður Hreiðar er líklega talsvert hægri sinnaðri í stjórnmálaskoðunum en ég. Eftir athugasemdum að dæma sem frá honum komu í gær virðist hann telja töluverða hættu á því að hið beina lýðræði sem oft er talað um geti hæglega þróast í skrílræði sem gæti orðið mun verra en þingræði það sem við teljum okkur hingað til hafa búið við.

Orðaleppar geta verið æði misvísandi. Þannig er því varið með hið svokallaða beina lýðræði þar sem allir eiga að ráða jafnmiklu. Það hugtak er ofnotað og alls ekki víst að það bæti nokkuð þegar á hólminn er komið að kjósa sem oftast og um sem flesta hluti.

Einhverskonar bremsur verður þó að setja á ráðandi öfl. Málskotsréttur forseta landsins hefur alls ekki reynst neitt sérstaklega illa. Hlutverk hans er þó illa skilgreint í núverandi stjórnarskrá og alls ekki nógu ljóst hvert það á að vera. Núverandi forseti hefur tekið sér vald sem þeir forsetar sem við völd voru á undan honum töldu sig ekki hafa.

Þörfin fyrir nýja stjórnarskrá er ekki óumdeild. Það hvort tillögur þess stjórnarskrárráðs sem nú situr (komi það sér saman um eitthvað slíkt) fari beint í þjóðaratkvæðagreiðslu eða Alþingi fjalli fyrst um þær er grundvallaratriði. Líka hvernig þeirri þjóðaratkvæðagreiðslu verður hagað ef af verður.

Það er of ódýrt að segja bara að það sé lýðskrum að halda því fram að lýðræðið þurfi að auka. Mikið lýðskrum var stundað þegar sambandsslitin við Danmörku voru samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu á sínum tíma. Þó er það óumdeilt að sú var skoðun þjóðarinnar. Það er líka óumdeilt að það var vilji þjóðarinnar að hafna Icesave-frumvarpinu fyrir skemmstu. Mér finnst ekki lýðskrum að halda því fram að Hrunið stafi af kerfisvillu öðrum þræði. Að kerfið lagist með því að hafa nógu auðvelt að krefast þjóðaratkvæðagreiðslu er þó alls ekki víst. Það getur beinlínis verið hættulegt að hafa það of auðvelt.

Baráttan um aðildina að ESB er að harðna. Stofnuð hafa verið samtök vinstri manna gegn henni og nefnast þau Vinstrivaktin og er að finna á Moggablogginu undir vinstrivaktin.blog.is.

Þar er að finna greinar um þessi mál eftir ýmsa í samtökunum. Ég hef ekki lesið allt sem þar er skrifað en hygg að ég sé ekki sammála öllu sem þar er sagt. Nánar seinna.

Eitt er það slagorð sem mér finnst leiðinlegra en öll önnur. Það er slagorðið „segðu bless við blettina" Ekki veit ég fyllilega af hverju það er og mig langar ekkert að vita það. Ég reyni að hugga mig við að svo oft megi spila auglýsingar að þær fari að vinna gegn upphaflegum tilgangi sínum. Það er samt ekkert víst að svo sé.

IMG 5536Listaverk.


1371 - Stefán Pálssson og fésbókin

unglingaliðGamla myndin.
Þessi mynd er tekin á Barnaskólatúninu (held ég). Netið í markinu er ekki mjög heillegt en fleira verður að nota en gott þykir. Líklega er þetta einhvers konar unglingalið, eða jafnvel ógiftir og ólofaðir, en siður var um langt skeið að slíkt lið var myndað á 17. júní til að kljást við þá giftu og lofuðu. Ýmsa þekki ég þarna en ekki alla. Þarna sýnast mér vera í aftari röð talið frá vinstri: Örn Jóhannsson, Mummi Bjarna, Maggi Rokk, Kiddi Antons, Maggi Karls, Elli Sigurþórs. Fremri röð frá vinstri: Már Michelsen (vafasamt), veit ekki, ég sjálfur, Reynir Pálsson, veit ekki. (Finnst þó endilega að þessi heiti líka Reynir en veit engin nánari skil á honum.)

 

Þegar ég tefldi svolítið á vegum Taflfélags Reykjavíkur forðum daga lentu hæfileikamenn þar stundum í því að verða briddsinum að bráð. Man t.d. vel eftir Jóni Baldurssyni, hann þótti hæfileikaríkur skákmaður en lenti í spilunum og hætti að mestu að tefla.

Stefán Pálsson sem forðum daga bloggaði sem mest og þóttist vera besti bloggari landsins og var það að sumu leyti, er eiginlega hættur að blogga og varð fésbókinni að bráð. Svipað má segja um Sigurð Þór Guðjónsson. Hann hefur meira að segja haldið því fram að sér leiðist að blogga en fésbókin sé afburðaskemmtileg. Sem er auðvitað tómt rugl.

Stefán Pálsson er eins og flestir vita Vinstri-grænn og starfar mikið fyrir þann flokk en hefur samt ekki náð frama þar frekar en Ómar Ragnarsson innan Samfylkingarinnar.

Stefán skrifar oft í Smuguna og greinar hans eru yfirleitt ágætar. Nýjasta greinin sem ég hef séð eftir hann heitir „Ógnir fésbókarinnar" og þar gerir hann á sinn hátt upp við bloggið en er samt engan veginn sáttur við fésbókina. Það sem hann finnur henni helst til foráttu er símskeytastíllinn. Fólk er sífellt að svamla í yfirborðinu og í samræmi við hinn engilsaxneska tíðaranda sem hér ríður húsum er mest áherslan á rammandi „one-liners".

Þetta er alveg rétt hjá Stefáni. Þó fésbókin sé til margra hluta nytsamleg er hún tímaþjófur hinn mesti. Þar virðist allt þurfa að ganga sem hraðast fyrir sig og langar setningar eða málsgreinar eru illa séðar. Ábendingar eru þar oft ágætar samt en líka stundum ákaflega lítils virði. Samtölin oft hreint kaffibollaspjall og engan vegin fyrir óinnvígða. Mikið er einnig þar um húrrahróp og sleikjuhátt allskonar.

SMS-áhrifin leyna sér ekki. Ég hef engar sérstakar áhyggjur af SMS-málfarinu. Það er ósköp eðlilegt að þeir sem ekki geta án farsímanna sinna lifað reyni að spara þumalputtana svolítið. Það er þeirra mál að gera sig sem skiljanlegasta ef þeir vilja ná út fyrir eigin hóp.

Auðvitað er það mjög rangt að stilla blogginu og fésbókinni upp sem einhverjum óvinum. Fésbókarsótt fólks finnst mér þó vera ansi mikil. Nýjungagirnin er þar ráðandi afl og flestir vilja skipta bloggurum að sem mestu leyti í flokkspólitíska hópa. Margir eru búnir að fá leið á hruntengda svartagallsrausinu og kenna bloggurum um það. Lára Hanna er meira að segja að mestu hætt að blogga eftir að Eyjan tók að hampa henni og sama er segja um fleiri.

Nú er ég búinn að nefna þónokkur nöfn í þessu bloggi og það ætti að tryggja því talsverðan lestur. Að sem flestir lesi það sem maður skrifar er sennilega takmark flestra bloggara. Hægt er að beita ýmsum brögðum til að fá fólk til að lesa bloggin sín. Ég er nú tekinn að gamlast nokkuð en hef þó tekið sæmilega eftir um ævina. Pólitíkin fer í hringi. Sumt þar, eins og t.d. álitsleysið á stjórnmálamönnum, eykur þó hraðann í hringferðunum en annað síður.

Fleiri nöfn get ég nefnt. Er um þessar mundir að lesa bókina „Mér er skemmt" eftir Einar Kárason. Las áðan kaflann „Jólin á Hrauninu" en að mínu viti er Einar þar að glórífísera eða gylla á allan hátt eiturlyfjaneyslu hverskonar og lýsa sinni upplifun af þvílíku háttalagi. Skrifa kannski meira um þetta seinna en ég er hálfhneykslaður á honum þó ég viðurkenni hann sem einn af mínum uppáhaldshöfundum.

Í pólitíkinni virðist það nýjast að Mogginn (Doddson og Agnes) sé búinn að setja Steingrím af sem formann VG og reyni að fá menn til að rífast um hvort betra sé að Kata eða Svandís taki við af honum. Mitt álit er að endurnýjun á forystufólki sé að verða meira aðkallandi hjá Samfylkingunni. Er ekki Sigríður Ingibjörg Ingadóttir að verða áhrifakona þar?

IMG 5529Bær í borg.


1370 - Hafragrautarblogg

sigrunGamla myndin.
Þessi mynd er af Sigrúnu systir.

Jóhannes Laxdal Baldvinsson bloggar um hafragrautargerð og hefur litla trú á mínum hæfileikum á því sviði. Ég viðurkenni að ég hef bloggað um hafragraut en er samt ekki eins flinkur við að grípa skeiðar og Óli Stef. Hef forðast allar tölur í sambandi við uppskriftir enda er sirka hafragrautur bestur. Um daginn sá ég t.d. uppskrift af einhverju þar sem átti að nota 254 grömm af hveiti og missti undireins áhugann á þeirri uppskrift.

Jóhannes birtir nákvæma uppskrift og ég geri helst þá athugasemd við hana að saltið er of mikið hjá honum. Það á eiginlega ekki að vera nema svona eitt til eitt og hálft dass. Að öðru leyti finnst mér uppskriftin hjá honum vera góð og ég öfunda hann af súra slátrinu. Hef ekki efni á slíkum lúxus og tími heldur ekki að kaupa Sólgrjón. Læt mér nægja Euroshopper haframjöl og sleppi stundum hunangi og döðlum.

Örbylgjuofna forðaðist ég lengi vel en er loksins núna búinn að taka þá í sátt. Skil ekki af hverju óhætt er að hita upp mat í þeim en stórhættulegt að elda hafragraut þar.

Ég var um daginn að kvarta undan ómerktum kjötvörum í Krónunni í Lindum og var sagt að allt væri þetta ríkisstjórninni að kenna. Starfsfólkið vildi gjarnan hafa allt verðmerkt en mætti það allsekki. Var eiginlega alveg orðlaus. Vorkenndi bara Jóhönnu greyinu. Margt má hún þola.

Á sunnudagsmorguninn einmitt um það leyti sem öskufallið var að stríða mönnum sem mest í nágrenni Vatnajökuls fór ég í gönguferð útá Kársnes. Þar var veðrið sérlega gott. Um það orti ég tvær vísur:

Í vaxandi mæli ef veðrið er gott
þá vel ég að sitja á bekkjum.
Gráðið á voginum Fossvogs er flott
og fegurðin losnar úr hlekkjum.

Blærinn er svalur og birtan er góð,
brunandi hjólin þau syngja.
Veturinn farinn og vorið í móð,
en veraldaráhyggjur þyngja.

Eina vísu enn tókst mér að gera. Þegar ég var beint á móti Nauthólsvíkinni tók ég mynd af Háskólanum í Reykjavík. En þegar röðin kemur að því að birta þá mynd á blogginu (ef hún er nógu góð til þess) verð ég líklega búinn að gleyma vísunni svo sennilega er bara best að birta hana strax:

Nefnilega í Nauthólsvík
nú er kominn skóli.
Er sú bygging engu lík
við Öskjuhlíð á róli.

Eitt það versta við bloggskrif (og líklega önnur skrif líka) er að maður getur aldrei verið viss um að lesendur manns skilji mann rétt. Þess vegna þarf það sem maður skrifar að vera skýrt. Áður fyrr var besservisseraháttur líka nokkuð nauðsynlegur til að geta skrifað eitthvað að ráði. Nú á þeim Gúgldögum sem við lifum á er það orðið mun minna áríðandi. Maður má heldur ekki telja eftir sér að svara athugasemdum. Þar má oft útskýra nánar það sem misskilist hefur.

Ég þykist skrifa nokkuð skýrt a.m.k. skil ég ágætlega það sem ég skrifa. Krúsidúllustíll getur verið ágætur til að skapa viss áhrif en hann getur líka spillt fyrir. Sjálfur reyni ég eftir mætti að hafa mín skrif eins og ég held að lesendur mínir vilji.

Margt má um dýradráp segja. Það er alveg sjónarmið útaf fyrir sig að spendýr (höfrungar og hvalir eru þar meðtaldir) skuli ekki drepa. Sumir segja að engin dýr með heitt blóð eigi að drepa. En mér finnst að þá eigi menn að vera samkvæmir sjálfum sér og ekki borða kjöt af þessum dýrum heldur. Grænmetisætum dáist ég talsvert að. Þær geta án þess að eiga á hættu að vera sakaðar um ósamkvæmni tekið hvali og kjúklinga í fóstur. Auk þess er grænmeti áreiðanlega mun hollara en kjöt og alls ekki víst að maðurinn sé sú alæta að upplagi sem hann er sagður vera.

En eru jurtir eitthvað óæðra lífsform en spendýr? Er sjálfsagt að gæða sér á þeim og éta af hjartans lyst? Efast má um það og reyndar hvað sem er. Jafnvel tilveruna sjálfa. Einhvern vegin verður þó að draga fram lífið. Í sinni einföldustu mynd snýst það aðeins um það að éta eða vera étinn. 

Já, ég er pólitískur og get ekki neitað því. Styrmir Gunnarsson fyrrum ritstjóri Morgunblaðsins segir í grein sem birtist á netinu og er þar að tala um hræringar í þjóðardjúpinu og búsáhaldabyltinguna:

„Það er mín sannfæring, að þeir straumar nú séu krafan um beint lýðræði og að sá flokkur eða þeir flokkar, sem verða fyrstir til að gera það grundvallarmál að sínu muni nái trausti fólksins í landinu. Þessi krafa snýst í raun um að færa völdin frá flokkunum til fólksins."

Þarna er ég alveg sammála Styrmi, en að það sé best að kjósa Sjálfstæðisflokkinn til að ná því fram að völdin fari frá flokkunum til fólksins er ég alls ekki sammála honum um. Skil reyndar ekki hvernig honum dettur það í hug. Held að hann meini að völdin eigi ekki að fara frá sérhagsmununum og meðal sérhagsmunafólksins vill Sjálfstæðisflokkurinn vera áfram áhrifamestur eins og hann hefur lengst af verið. Galdurinn hjá flokknum hefur hingað til verið að telja sem flestum trú um að þeir hafi sérhagsmuni.

IMG 5527Er Syrusson fastur?


1369 - Skáksaga

bjossi 8Gamla myndin.
Hér er Bjössi að leika sér að kubbum á gólfinu í ganginum.

Ég hef eiginlega alla tíð gengið með rithöfundargrillur í kollinum. Líklega er það meðfram þessvegna sem ég er svona endingargóður við að blogga. Nokkrum sinnum hef ég gert tilhlaup til að skrifa eitthvað markvert en lítið hefur orðið úr því. Nýlega fann ég á USB-lykli hjá mér eitthvað sem eflaust hefur á sínum tíma átt að verða smásaga. Þetta er algjör uppspuni og þónokkurra ára gamalt. Ég hef séð að þetta þyrfti töluverðrar lagfæringar við ef það ætti að verða eitthvað markvert. Er samt að hugsa um að henda því á bloggið svo ég sé laus við það.

Þetta er óralangt og ekkert fyrir aftan það þannig að þeir sem hingað þvælast geta farið strax ef þeim líst ekki á að pæla í gegnum þetta:

 

Jósteinn flýtti sér í skáksalinn. Allt virtist vera tilbúið fyrir þetta tímamótaeinvígi. Þónokkrir áhorfendur voru mættir og þeim mundi fjölga þegar skákin hæfist. Undanfari einvígisins hafði verið eins og ljúfur draumur.

Eiginlega hafði þetta allt saman hafist fyrir um það bil þremur árum, fannst honum. Hann hafði að vísu alltaf haft gaman af að tefla og satt að segja náð nokkuð langt. En hann fann það með sjálfum sér að hann var staðnaður. Orðinn 28 ára gamall og hafði eiginlega ekki bætt neinu við sig síðustu árin. Hann var þó með bestu skákmönnum landsins og tefldi oft á mótum erlendis. Hafði fengið titil alþjóðlegs meistara rúmlega 22 ára, en ekki unnið neitt markvert síðan. Ekki vildi stórmeistaraáfanginn koma, sama hvað hann lagði sig fram. Sama hvað hann stúderaði mikið og reyndi að bæta sig.

Það var síðan fyrir um það bil þremur árum sem hann dreymdi drauminn undarlega. Honum þótti sem hann vaknaði í rúmi sínu og færi út í bíl og æki á fyrirfram ákveðinn stað. Þessi staður var skammt frá Þrengslaveginum á leiðinni til Þorlákshafnar. Farið var útaf veginum til hægri og ekinn smáspölur í átt að Geitafelli. Þar í gömlum og aflögðum malargryfjum bak við Sandfellið stóð silfurskínandi geimfar.

Hann var eiginlega alveg viss um þetta þó þessar slóðir væru honum ókunnar. Honum fannst að hann færi bara út í bílinn og æki af stað. Einhver innri rödd sagði honum ávallt hvert hann skyldi halda. Ekki hefði honum dottið í hug að aka af sjálfsdáðum útaf Þrengslaveginum á þeim stað sem innri röddin sagði honum að gera það.

Þó hann væri viss um hvað gerðist í draumnum allar götur þangað til hann sá geimfarið var framhaldið hulið móðu og óljósum minningum. Fyrst fannst honum hann greina einhverjar verur skammt frá geimfarinu en síðan var eins og allt yrði svart.

Það næsta sem hann vissi var að hann vaknaði í rúmi sínu dauðþreyttur og með höfuðverk. Hann vissi að hann þurfti ekki að gera neitt sérstakt þennan dag svo hann lét það eftir sér að lúra svolítið frameftir. Þegar hann svo fór á fætur þegar næstum var komið hádegi leið honum miklu betur. Hann afréð því að aðhafast ekki neitt.

 

Það var uppúr þessu sem Jósteinn varð var við miklar framfarir í skákkunnáttu sinni. Skömmu eftir drauminn undarlega hófst Haustmót Taflfélagsins og Jósteinn var þar meðal þátttakenda. Fyrir sín fyrri afrek og stigafjölda átti hann rétt á að tefla í efsta flokki. Þar átti hann að vísu ekki mikla möguleika á að verða meðal þeirra efstu. Hann þekkti alla skákmennina sem þátt tóku í mótinu og vissi vel að nokkrir þeirra voru mun betri en hann sjálfur.

Jósteinn hugsaði oft um drauminn undarlega og ferðalagið sem hann fór í honum. Hvað ef þetta væri nú ekki draumur eftir allt saman? Einhverjar utanaðkomandi verur hefðu lokkað hann til sín og gert á honum einhvers konar aðgerð?

Honum kom helst til hugar að einhverskonar skákvél hefði  verið plantað í hausinn á sér. Hvernig svo sem það hefði átt að gerast. Hann hafði ekki fundið neina missmíði á höfðinu á sér eftir drauminn undarlega. Hann hafði  heldur ekki neina sérstaka ástæðu til að efast um að þetta hefði verið draumur. Líklega hefði hann samt getað komist að raun um hvort hann hefði í raun og veru farið upp að Sandfelli með því að athuga hve mikið bensín var á bílnum. En það hafði hann ekki gert svo hann vissi svosem ekki með neinni vissu hvort þetta var draumur eða ekki.

Úrslit skáka á haustmótinu höfðu verið einkennileg. Jósteinn hafði unnið hverja einustu skák og eiginlega  aldrei komist  í taphættu.  Það var undarlegt hve  andstæðingar  hanns höfðu teflt veikt. Það fannst Jósteini að minnsta kosti.

Mánuðirnir sem í hönd fóru voru mistri huldir í huga  Jósteins. Hvert mótið rak annað og alltaf hafði hann unnið hverja einustu skák. Jósteini fannst hann ekkert tefla neitt  sérstaklega  vel. Eða að minnsta kosti ekkert  betur en vanalega. Það voru bara  andstæðingarnir sem tefldu eins og bavíanar.

Forystumenn skáklífsins í landinu tóku að sjálfsögðu eftir þeim gríðarlegu framförum sem  Jósteinn sýndi og gerðu það sem þeir gátu til að útvega honum boð á lokuð mót erlendis. Það  gekk ekki vel til  að byrja með, en þegar hann fór að tefla á allsterkum opnum mótum og vinna hverja einustu skák fóru mótshaldarar að taka  eftir honum.

Skákstig Jósteins hækkuðu auðvitað jafnt og þétt á þessum tíma og eftir árið var hann kominn vel yfir 2650 stig.  Enginn Íslendingur hafði komist hærra á  stigum og boð á vel skipuð lokuð mót erlendis streymdu nú að.

Einn var sá maður sem fylgdist  öðrum betur með framförum Jósteins. Það var 16 ára  strákur í Denver í Bandaríkjunum, Josh Sikorsky að nafni. Hann var undrabarn í skák og hafði lært mannganginn þegar hann var þriggja  ára og stöðugt teflt síðan og með æ betri árangri.  Undanfarin ár hafði hann haft sérstakan þjálfara sem sagði honum til um hvernig  hagstæðast væri að nota tímann. Á hvaða hliðar skákarinnar hann þyrfti einkum að leggja áherslu og svo  framvegis.

Josh stefndi að sjálfsögðu á  heimsmeistaratililinn og í Jósteini sá hann mögulegan andstæðing sinn.

Öfugt við Josh hafði Jósteinn ekki hlotið markvissa skákþjálfun en samt náð nokkuð langt. Með markvissri og hnitmiðaðri þjálfun hefði hann eflaust náð lengra  á yngri árum.

Allt hafði þetta breyst að undanförnu. Skáksigrar Jósteins  höfðu vakið mikla athygli. Alþjóðaskáksambandið sá sér leik á borði og fékk Jóstein til að lofa því að tefla ekki einvígi um heimsmeistaratitilinn nema með samþykki sambandsins. Það var ekki erfitt fyrir Jóstein að taka ákvörðum í því máli. Hann átti að fá talsverða fjárupphæð fyrir það  eitt að lofa þessu. Hann gerði sér svosem engar vonir um að verða besti skákmaður heimsins. Peningaupphæðin var miklu betri en sú veika von að einhvern tíma myndi hann tefla um heimsmeistaratitilinn.

Alþjóðasambandinu tókst að gera svipaðan samning við Josh Sikorsky  og eftir dálítinn tíma kom í ljós að þetta var mjög hagstætt fyrir sambandið því þetta reyndust þegar til koma vera sterkustu skákmenn heimsins. Þeir sigruðu á hverju mótinu á fætur öðru og eftir einvígi við sterkustu  skákmenn heimsins stóðu þeir tveir eftir uppi taplausir og nú var komið að einvígi þeirra. Einvígi aldarinnar sögðu sumir og víst var það að eitt vesælt skákeinvígi hafði aldrei vakið aðra eins athygli fjölmiðla. Einvígi þeirra Fischers og Spasskys í Reykjavík 1972 bliknaði við hliðina á þessu.

Blöðin höfðu skrifað mikið um þetta væntanlega einvígi og fréttaþættir voru gerðir um málið í sjónvarpsstöðum um allan heim. Enginn vissi þó með vissu  hvar eða hvenær þetta einvígi átti að fara fram.

Það  er að segja áður en Alþjóðaskáksambandið tilkynnti að einvígið ætti að fara fram fyrir lok ársins 2012 og halda  átti  það í Reykjavík til minningar um hið fræga einvígi sem hér  fór fram árið 1972.

Undanfarið ár hafði Jósteinn að mestu látið af taflmennsku. Yfirburðir hans yfir aðra íslenska skákmenn voru svo miklir að varla tók því fyrir hann að taka þátt í innlendum mótum. Boð á skákmót erlendis höfðu þó borist reglulega en hann hafði ekki sinnt þeim. Vinnuveitandi hans hafði haldið áfram að greiða honum laun þó hann væri stöðugt að flækjast á skámótum.

Jósteini fannst sem honum bæri skylda til að stunda sína vinnu og fór því að nýju að mæta  reglulega í vinnuna og neita að taka þátt í skákmótum jafnvel þó gull og grænir skógar væru í boði.

Heimsmeistarakeppnin var í ólestri eins og oft áður og Alþjóðaskáksambandið sá í Jósteini möguleika á því að ná aftur völdum á þessum virðingarmikla titli og fulltrúum sambandsins tókst að telja Josh Carpenter á að taka þátt í móti til að finna andstæðing fyrir Jóstein sem ekki hafði enn tapað skák á alþjóðlegum vettvangi síðustu árin. Jósteinn lét sér fátt um finnast en samþykkti þó að  tefla einvígi við sigurvegara mótsins.

Þetta einvígi var nú var að hefjast. Vel mætti rekja aðdraganda þess miklu nánar og það verður án efa gert á öðrum vettvangi.

Þeir Jósteinn og Josh tókust í hendur, yfirdómari einvígisins kom að borðinu til þeirra og sagði þeim að nú gæti einvigið hafist. Forseti landsins kom einnig  að borðinu og lék fyrsta leikinn með hvítu mönnum Jósteins. Hann lék kóngspeðinu fram um tvo reiti. Josh lék sínu kóngspeði einnig fram um tvo reiti og skákin sem svo lengi hafði verið beðið eftir var nú loksins hafin.

Jósteinn ákvað að sækja og tefldi því byrjun sem leyfði það. Fljótlega tókst honum að snúa á Josh og eftirleikurinn var fremur auðveldur. Jósteinn þurfti ekki að vanda sig ýkja mikið til að koma vinningnum í hús.

Í næstu skák hafði Jósteinn svart. Ekki háði það honum mikið og honum tókst að jafna taflið án teljandi erfiðleika. Þegar Josh sá frammá að ekki voru líkur á að honum tækist að snúa á Jóstein tók hann það til bragðs að þráleika. Jósteinn var ekkert óhress með það og fljótlega var jafntefli samið.

Í þriðju skákinni hafði Jósteinn aftur hvítt og í þetta sinn gekk honum erfiðlega að komast nokkuð áleiðis í skákinni. Josh gætti sín vandlega og fyrr en varði var hann sjálfur kominn í sókn. Jósteini tókst þó að verjast án erfiðleika og eftir fjörutíu leiki blasti það við að hvorugur gat komist neitt áleiðis án þess að leggja sig í mikla hættu. Jafntefli var því samið.

 

Amli Kuk stóð upp frá skrifborðinu og sagði við Mislu Do ritara sinn.

„Hvernig var það eiginlega með strákinn frá Jörðinni sem við settum skákvélina í? Höfum við ekkert heyrt frá honum?"

Misla blaðaði í einhverjum skjölum á borðshorninu hjá sér og sagði:

„Jú, mér skilst að honum gangi bara vel. Hann er að byrja á heimsmeistaraeinvígi núna og virðist ekki gera sér mikla grein fyrir málinu sjálfur. Þó er ekki útilokað að einhverjar minningar séu á flökti um upphafið sjálft og ferðina að geimfarinu okkar. Hann hefur samt ekkert ákveðið við að styðjast því það hefur verið athugað að hann gerði engar tilraunir til að kanna málið."

„Æ, mér leiðist þessi sífelldi feluleikur. En það hefur víst verið ákveðið að svona eigi þetta að vera."

„Já, því er haldið fram að margir Jarðarbúar væru alveg nógu þroskaðir til að skilja um hvað málið snýst. En þeir eiga víst skilið að fá að rekast á takmarkanirnar sjálfir." Sagði Misla hugsandi.

„Til hvers erum við eiginlega að rannsaka þetta? Við vitum ósköp vel að smíði skákvéla er ekkert sérlega erfið og þó vesalings Jarðarbúarnir eigi í mestu erfiðleikum með þetta og skákiðkun sé talsvert algeng þá er það lítil áskorun fyrir okkur að vera miklu betri en þeir." Bætti hún við.

„Já, mér skilst að verið sé að rannsaka fyrst og fremst hvernig hægt sé að örva fólk þarna til að vinna að þeim markmiðum sem okkur eru hugleikin. Það var ákveðið að skákin væri ágæt til slíks og gæti vel hentað til að sjá hvort hægt er að láta verur þarna vinna fyrir okkur án þess að gera sér grein fyrir því og án þess að vekja mikla tortryggni annarra. Þetta er samt dálítið áhættusamt, því við viljum ekki að þeir verði varir við okkur."

Já, strákurinn verður eflaust heimsmeistari en hvernig skyldi hann höndla það? Verst ef hann segir eitthvað sem kemur okkur illa.

 

Jósteinn fékk glýju í augun af öllum ljósblossunum. Honum leið vel með þá hugmynd að vera orðinn heimsmeistari í skák. Honum fannst hann eiginlega ekki vera verðugur. Hann hafði ekki lagt eins hart að sér og hann hafði oft heyrt að gera þyrfti til að ná langt á einhverju sviði.

„Hvað viltu segja við þjóðina nú þegar þú ert búinn að vinna þann æðsta titil sem hægt er að vinna á þínu sviði?"

Fréttamaðurinn þrýsti mikrafóni að vitum Jósteins þegar hann hafði sagt þetta.

„Hmm. Ég get eiginlega ekki sagt neitt. Ég er varla búinn að átta mig á þessu."

„En hvernig er þér innanbrjósts?"

„Það er einhver tómleikatilfinning sem gagntekur mig. Og þreyta. Mikil þreyta."

„Það er nú varla erfitt að sitja bara og færa einhverja trékalla!"

„Jú, það er alveg skelfilegt erfiði að einbeita sér svona lengi í einu. Ef þú hefur aldrei gert neitt þessu líka er ekki von að þú skiljir það."

„En hvernig stendur á því að þú ert allt í einu orðinn svona góður í skák? Þú ert búinn að fást við þetta nokkuð lengi án þess að komast í hóp þeirra allra bestu."

„Já, ég skil það ekki almennilega sjálfur. Fyrir nokkrum árum varð það bara skyndilega mun auðveldara fyrir mig að sjá fyrir mér hvað þetta snýst allt um. Ég sé yfirleitt sterkasta leikinn furðufljótt, en þarf samt að ganga úr skugga um að allt sé rétt."

Jósteinn gafst upp á því að tala við fréttamennina og ruddi sér leið í gegnum hópinn. Þeir leyfðu honum að fara. Létu sér nægja að taka nokkrar myndir af honum og sneru sér að öðru. Skák var ekki fjölmiðlavænsta íþróttin og þó Íslendingar hefðu núna fyrst eignast alvöru heimsmeistara var fótboltinn eiginlega miklu meira spennandi.

 

Jósteinn fleygði sér upp í rúm þegar hann kom heim. Hann var úrvinda. Það voru engar ýkjur þegar hann sagðist vera þreyttur. Hann fór að hugsa um skákina og hinn skyndilega frama sinn á því sviði. Var hugsanlegt að hann væri einfaldlega að tefla fyrir einhverja aðra. Það var alveg undarlegt hve fljótur hann var að sjá afleiðingar hvers einasta leiks í huganum og sjá í hendi sér mótleikinn. Hann gat varla hafa orðið svona snjall allt í einu.

Honum fannst eins og vendipunkturinn væri draumurinn um Sandfellið og gryfjurnar þar. Gat það verið að geimverurnar hefðu verið raunverulegar og plantað í hann einhverri skákvél? Ekki gat gengið að fara að tala um slíkt núna. Hann var orðinn heimsmeistari og svo sannarlega ætlaði hann að njóta þess.

 

Á blaðamannafundinum töluðu allir mjög fjálglega um vesalings Jóstein. Honum fannst þetta  óskaplega leiðinleg samkoma og reyndi að segja sem minnst sjálfur. Það var samt nauðsynlegt að sækja svona samkomur því ekki varð hjá því komist að auglýsa sig.

Þegar félagar hans við háborðið höfðu lokið sér af og hann sagt fáein orð var komið að spurningunum. Jósteini fannst flestar þeirra frekar óspennandi en almennt var reynt að leysa sem best úr þeim spurningum sem fréttamannsgreyin fundu upp á að spyrja. Mest fjölluðu þær um hvernig honum liði með að vera orðinn heimsmeistari. Hvort hann ætlaði að tefla mikið í framtíðinni og þar fram eftir götunum.

Jósteini flaug í hug að hann gæti leikið sér að því að ná athygli þeirra óskiptri með því að segja þeim frá geimfarinu og grunsemdum sínum, en honum datt það auðvitað ekki í hug í alvörunni.

Þegar Jósteinn lýsti því yfir að hann mundi alveg örugglega tefla svona eitt einvígi á ári um heimsmeistaratitilinn varð einn blaðamaðurinn til þess að minna hann á að Bobby Fischer hefði einmitt sagt þetta sama þegar hann varð heimsmeistari án þess að það yrði mikið úr því.

„Já, ég þekki það allt. Ekki er víst að ég sé eins og hann að þessu leyti en auðvitað veit ég ekkert með vissu hvað framtíðin muni bera í skauti sér."

IMG 5524Kvörtun frá MS.


1368 - Heimsenda frestað

bjossi 2Gamla myndin.
Enn er það Bjössi. Nú er hann að smíða.

Nú er heimsendirinn víst byrjaður án þess að ég verði nokkuð var við hann. Bjóst heldur ekki við því. Hér í Kópavoginum virðist veðrið bara vera nokkuð gott. Þó kann að vera fremur kalt. Óttinn um að allt sé að fara til fjandans og nú séu síðustu forvöð til að gera eitthvað af viti til bjargar heiminum er alveg samstofna nútímalegum heimsendaspám. Nýjustu fréttir herma að þessum tiltekna heimsendi hafi verið frestað þangað til í haust. En heimurinn spjarar sig áreiðanlega.

Það er jafnvel hægt að fara að æfa sig í að gleyma Hruninu og kvótanum. Þegar næstu Alþingiskosningar verða haldnar mun sú gleymska koma vel í ljós og kristallast í fylgi Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins. Sjálfur mun ég að líkindum kjósa Samfylkinguna ef aðstæður verða líkar og nú. Það er þó undir því komið að þeim takist að finna forystumann sem ég get sætt mig við og ekki komi fram ný og álitleg framboð. Tími Jóhönnu verður áreiðanlega liðinn þá og Imba á ekki afturkvæmt.

Í sjónvarpsfréttum í gærkvöldi var minnst á að við uppgröft á Landsspítalalóðinni hefði fundist patróna. Til nánari skýringar var svo sagt að „patróna" væri hluti af byssuskoti. Í orðabók menningarsjóðs er sagt að patróna sé það sama og skothylki. Báðar þessar skýringar finnst mér heldur klénar.

Ég skal því útskýra nánar hvað orðið þýðir fyrir mér. Í mínum huga þýðir orðið „patróna" skothylki sem búið er að nota. Þ.e.a.s. bæði skotið og púðrið er farið og hylkið sem eftir er nefnist patróna. Líklegt finnst mér að orðið sé einnig notað áður en púðrið og skotið eru sett í hylkið, en auðvitað fundum við krakkarnir aldrei slíkar „patrónur". Hylkin utanaf haglaskotum finnst mér einnig heita patrónur.

Það er erfitt að sjá í hendi sér hvaða atburðir eru heimssögulegir þegar þeir eiga sér stað. Ég held t.d. að mál Strauss-Khan eða hvað hann heitir hafi ekki heimssögulega þýðingu. Hefur samt hugsanlega þýðingu fyrir mögulegt endurkjör Sarkozy í Frakklandi.

Stríðið í Líbýu kann hinsvegar vel að hafa heimssögulega þýðingu ekki síður en atburðirnir í Túnis, Egyptalandi og víðar. Hafa má samt í huga að það var ekki bara Sarkozy sem endilega vildi ráðast á Gaddafi með látum heldur Cameroun hinn breski líka. Obama var tregur en lét þó undan að lokum. Rússar og Kínverjar létu plata sig en geta illa snúið málum sér í vil.

Mínar fyrstu fréttatengdu minningar eru frá Geysisslysinu á Vatnajökli. Ég man einkum eftir því vegna þess að við krakkarnir máttum ekki hafa hátt meðan fréttalestur stóð yfir því fullorðna fólkið vildi fylgjast með fréttum af slysinu og björguninni.

Erlendis frá virtust allar helstu fréttir snúast um Eisenhower Bandaríkjaforseta og Mossadek forsætisráðherra Írans. Mossadek var síðan hrakinn frá völdum og við tók Persakeisari. Fólkið í fréttunum þá var einkum Soraya keisaraynja í Persíu (Íran) sem ekki gat eignast barn og þar með erfingja og svo auðvitað kvikmyndastjörnur þess tíma.

Annars finnst mér mjög gaman að lesa sagnfræðilegar frásagnir frá miðbiki tuttugustu aldar. Núna er ég t.d. að lesa bókina „Píslarvottar nútímans" eftir Magnús Þorkel Bernharðsson. Sú bók fjallar um samspil trúar og stjórnmála í Írak og Íran og var gefin út árið 2005.

IMG 5510Þyrill í Hvalfirði.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband