Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2011
4.1.2011 | 21:25
1253 - Málfrelsið hefur margar hliðar
Það er lítill vandi að verja tjáningarfrelsi þeirra sem maður er alveg sammála en erfitt að verja leyndarmálafrelsi allra þeirra sem til einhverra metorða komast.
Þetta er á margan hátt kjarninn í skoðunum mínum á málfrelsismálum. Þó mikið mál- og tjáningarfrelsi geti stundum valdið vandræðum er þöggunin oftast verri. Þessi mál eru þó öll æði margslungin og margt getur blandast inn í umræður um þau.
Ég er hættur sem miðnæturbloggari. Hafði samt ekki gert mér grein fyrir að það hefði áhrif á veru mína á Blogg-gáttinni. En svo virðist vera og er kannski ekki nema eðlilegt. Ég bloggaði semsagt klukkan rúmlega 10 í gærkvöldi og svo aftur allsnemma í morgun. Sé ekki að færslan frá í gærkvöldi sé nokkursstaðar. Kannski er það vegna seinni færslunnar.
Sá áðan að Sverrir Stormsker hafði spunnið upp einhverja langloku um Ástþórsmálið og ýkt það stórlega. Hann skákar augljóslega í því skjólinu að enginn taki bullið í honum alvarlega og að Moggabloggsguðirnir þori ekki að loka síðunni hans. Mér fannst hann ekkert sérlega fyndinn en hann linkaði í mbl.is fréttina um þetta mál í lokin og þar er ekki um neinar augljósar ýkjur að ræða sýnist mér.
Maður nokkur fór í feðralag með son sinn að nafni Hveragerði og dótturina Ólafsvík. Nei annars, ég er steinhættur við þessa sögu. Þetta átti víst að vera eitthvað fyndið hjá mér. Hef orðið var við áráttu frægs fólks í útlöndum að skíra börn sín staðarnöfnum. Vesalings börnin.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
4.1.2011 | 07:39
1252 - Tjáningarfrelsi
Blöskrar hve auðvelt er að þagga niður í fólki. Moggabloggsguðirnir hafa komist upp með að þagga niður í hverjum sem er hér á blogginu og þó einhverjir kvaki hefur það ekki haft mikil áhrif. Ástæðan er líka alltaf einhver og þó sumir séu fegnir eru aðrir það ekki. Menn geta svosem fært sig annað og gera það en ég er ekki viss um að þeir séu eins beittir þar og fái sama lestur og áður.
Líka er hægt að halda sig nokkurnvegin á mottunni eins og ég og fleiri gerum. Ég reyni að passa mig að vera ekki of persónulegur eða orðljótur og held að mínu bloggi verði seint lokað vegna þess.
Í gær var Ástþór Magnússon fyrrum forsetaframbjóðandi handtekinn og færður til yfirheyrslu og sleppt síðan. Þetta stafar að ég held af kæru frá DV vegna gruns um að Ástþór standi fyrir skrifum á síðunni sorprit.com" . Mér þótti þetta nokkuð merkileg frétt og hún rataði í vefmiðlana en virðist ekki ætla lengra.
WikiLeaks hafa verið í fréttum á heimsvísu en ekki er annað að sjá en alþjóðlegu stórfyrirtækin eigi að komast upp með að leggja stein í götu þeirra og á endanum að gera útaf við þá sem þar ráða.
Svona er þetta oftast nær. Það er nóg til af fréttum" og auðvelt að kæfa það sem manni líkar ekki við. En fjölmiðlar með fjölda fólks í fastri vinnu eiga að þjóna lesendum sínum en ekki mata þá.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 07:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
3.1.2011 | 22:13
1251 - Ástþór, ESB, Icesave o.fl.
Veit ekki af hverju það er en mér finnst ESB-andstæðingar vera orðljótari en þeir sem fylgjandi eru aðild. Það er vont að toppa löngu áður en þörf er á. Það finna greyin núna og hafa hátt. Kannski finnst mér þetta vegna þess að ég les meira af Moggabloggum en öðrum bloggum. Vissulega hafa ESB-andstæðingar haft vinninginn undanfarið í skoðanakönnunum en það er að breytast. Finn samt að þetta ESB-mál er miklu líklegra sem framtíðardeilumál en flest önnur. Líklega á ríkisstjórnin eftir að springa á ESB. Sjálfstæðisflokkurinn og jafnvel fleiri aðilar fjórflokksins eiga eftir að lenda í miklum vandræðum útaf þessu máli.
Icesave verður alveg barn alþingis. Ríkisstjórnin þarf engar áhyggjur að hafa af því máli. Verði samþykkt á þinginu að borga Bretum og Hollendingum kemur til kasta ÓRG. Hann er búinn að blanda sér svo mikið í málið að hann getur ekki bara hætt því allt í einu. Ábyrgðin liggur hjá honum.
Hef nú lokið við að lesa það sem mér hugnast úr bókinni eftir Sigurð A. Magnússon og þarf að fara að skila henni ásamt öðrum bókum. Sigurður er orðmargur en ágætur penni samt. Farinn að gamlast nokkuð og sjálfhælinn með afbrigðum. Áhugaverður samt sem löngum fyrr. Man vel eftir hvað mér fannst Samvinnan taka miklum stakkaskiptum þegar hann tók við henni.
Nú er búið að handataka Ástþór Magnússon og sleppa reyndar aftur. Allt það leikrit er meðal annars til þess að auglýsa vefinn sorprit.com" Vanmetum samt ekki Ástþór. Hann veit hvað hann vill og kann að koma orðum að hlutunum. Sumir segja hann bilaðan en hann á samt rétt á að láta í sér heyra.
Tjáningarfrelsi er ekki hátt skrifað hjá flestum fjölmiðlum. T.d. virðist flestum sama þó alþjóðleg stórfyrirtæki drepi WikiLeaks.
Viðsjár kunna að fara vaxandi hér á landi á næstunni. Þó á ég ekki von á stórtíðindum. Til þess eru Íslendingar of friðsamir. Byltingar og æsingur leysa engan vanda. Þó kann sú tíð að koma að þolinmæði einhverra bresti.
Ég er að æfa mig í að skrifa lítið en á erfitt með það.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
3.1.2011 | 00:10
1250 - Alþingismenn og bloggarar
Ég legg nokkuð að jöfnu hávaða þann sem er í þingmönnum flestum eða öllum í ræðustól alþingis og bloggurum langflestum. Þetta eru einfaldlega málfundatilburðir og alls ekki fólki til sóma að láta svona. Líklega vinna þingmenn miklu betur þar sem fjölmiðlaljósið skín ekki eins skært á þá og í venjulegum umræðum. Þessu hefur oft verið haldið fram í blaðagreinum og er sennilega rétt.
Bloggarar langflestir eru líka ágætisfólk þó það missi sig svolítið í predikunarstól bloggsins. Ómar Ragnarsson er einn af þeim fáu sem ég hef orðið var við að stilli sig um stóru orðin. Flestir aðrir virðast halda að því orðljótari sem þeir eru þeim mun meira sé að marka þá.
Virðing alþingis gæti tekið framförum ef hætt væri útsendingum frá þingfundum eða teknar upp útsendingar frá nefndarfundum einnig. Mæli frekar með því síðarnefnda því allt laumuspil er af hinu illa.
Var eitthvað að kvarta yfir því um daginn að fésbókin væri ekki eins og bloggið. Hún er nauðsynleg samt því auðvitað nenna ekki allir að blogga. Margt er hægt að gera á fésbókinni sem ekki er hægt að gera annars staðar. Samt þarf að byrja á því að taka tölvur í sátt og ekki gera allir það. Það kjósa ekki einu sinni allir.
Tók dálítinn þátt í skáklífi forðum daga. Þá vildi þaðhenda að menn urðu bridsinum að bráð. Við því var ekkert að gera. Svipað finnst mér vera með fésbókina. Sumir sem voru góðir í blogginu urðu henni að bráð. Annars er ég að mestu hættur að lesa blogg annarra og er það skaði því þar er mörg gullkornin að finna. Jafnvel fleiri en í svokölluðum fjölmiðlum sem gætu verið miklu betri en þeir eru.
Dreymdi í nótt sem leið að djöflast var á dyrabjöllunni og ég einn heima. Berfættur. Gekk illa að komast í sokkana. Komst ekki nema með góðu móti nema í annan og fór þannig til dyra. Þar voru þá tveir menn frá Orkuveitunni til að rukka mig og sögðust gefa mér einhvern ákveðinn frest til að gera upp mín mál. Ekki voru þetta neinir handrukkarar. Þegar þeir voru farnir skoðaði ég bréfið sem þeir skildu eftir en gat ómögulega komist að því hve mikið ég skuldaði þessu góða fyrirtæki og þótti það slæmt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.1.2011 | 00:06
1249 - Nýtt ár
Því skyldi ég vera að skrifa áramótapistil? Ég þrífst á því að skrifa um allt og ekkert. Aðallega ekkert. Þó mikið sé af því um áramót er óþarfi að skrifa um það.
Merkilegt hvað flestir sem um stjórnmál blogga persónugera hlutina. Það er eins og í huga þeirra séu engin stefnumál til, bara persónur. Stjórnmálamenn eru sumir svona líka, svo ég tali nú ekki um fjölmiðlamenn. Þeir virðast beinlínis þrífast á því að persónugera alla hluti.
Þetta er ein aðalástæðan fyrir því að mér leiðast stjórnmál yfirleitt. Menn geta fjasað endalaust um sum mál án þess að minnast á aðaltriði þess.
Margt er mannanna bölið
og misjafnt drukkið ölið.
Segir í fornu heimsósómakvæði. Fór snemma að sofa í gærkvöldi og er að hugsa um að fara út að labba núna. Kannski sé ég einhver ummerki um alla þá drykkju sem væntanlega hefur farið fram í nótt.
Mikið er rætt um áramótaskaupið núna eins og vant er í byrjun árs. Mér fannst það hvorki betra né verra en vanalega og þó mér hefði þótt annaðhvort er það eiginlega ekkert fréttnæmt. Tók auðvitað mest eftir gríninu um frænda minn Bjarna Harðarson.
Einu sinni var ég að safna fésbókarvinum. Nú held ég að þeir séu 354. Það eru of margir. Ein af afleiðingum þess er að það er ansi miklum tilviljunum háð hvað ég les og hvaða myndir ég skoða þar. Setja mætti fésbók í stað ferskeytlu í vísunni alkunnu:
Fésbókin er Frónbúans
fyrsta barnaglingur.
En verður seinna í höndum hans
hvöss sem byssustingur.
Ég er ekkert að kveinka mér. Held bara ótrauður áfram að blogga. Blogga semsagt eins og brjálaður Færeyingur.
Hér fyrir neðan er eldgömul mynd sem ég held að ég hafi samt fullt leyfi til að birta. Ef svo er ekki þá kemur það bara í ljós.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
1.1.2011 | 00:22
1248 - Áramót
Jónas Kristjánsson kallar Hermann Guðmundsson forstjóra N1 rugludall ársins fyrir að hafa ætlað að breyta sölufyrirkomulagi bóka. Einnig er talsvert rætt um þetta skrýtna mál á fésbókinni. Það er að vonum því segja má að tilraun þessi hafi misheppnast með öllu.
Breytingar og byltingar hafa samt orðið í bóksölu á Íslandi. Langmesta breytingin varð þegar stórmarkaðirnir hófu að selja bækur fyrir jólin. Þar með var rekstrargrundvelli lítilla bókabúða nánast kippt í burtu og hjá öðrum breyttist hann verulega.
Bókaútgáfan sjálf breyttist hinsvegar ekki mikið við þetta en tölvutækni hefur gert bókaútgáfu mun ódýrari og einfaldari en áður var. Bækur í tölvutæku formi og lesvélar hafa þó ekki náð mjög mikilli útbreiðslu en eru stöðugt að sækja í sig veðrið.
Á margan hátt má telja það hæfilega ráðningu fyrir hægri öflin í landinu að hrein vinstri stjórn sitji því sem næst heilt kjörtímabil. Að því loknu ættu eftirköst hrunsins að vera ljós orðin og kosningar vel að marka.
Til siðs er bæði hjá bloggurum og öðrum að gerast afar hátíðlegir um áramót. Ég nenni því bara ekki. Finnst líka að ég sé yfirleitt svo alvarlegur og hátíðlegur að ekki sé á bætandi.
Gleðilegt ár.
Háskólinn í Reykjavík. Inngangur að norðanverðu.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)