Bloggfærslur mánaðarins, júní 2010

1065 - ESB og svefn

Las einhversstaðar að því lengri sem svefn væri því meiri líkur væru á að hann innihéldi svonefndan gæðasvefn. Fór ekki að sofa fyrr en um eittleytið í fyrrakvöld. Glaðvaknaði svo og fann að svefninn hafði verið ágætur. Nú mundi ég vera endurnærður og tilbúinn til að takast á við eril dagsins. Sólin var komin upp og veður bjart og fagurt. Vonbrigði mín voru mikil þegar ég leit á vekjaraklukkuskömmina. Hún var þrjú. 

Öðru hvoru vakna ég um miðja nótt og get ekki sofnað strax aftur. Þá finnst mér gott að fá mér kaffibolla og leika í nokkrum bréfskákum. Það er allsekki víst að þetta mundi hjálpa öðrum til að sofna aftur en þetta hefur virkað ágætlega á mig.

Undarlegheit Evrópu-umræðunnar eru mikil. Ég er þeirrar skoðunar að það mundi henta okkur Íslendingum ágætlega að ganga í ESB. Auðvitað skiptir miklu máli hver verður niðurstaðan í þeim umræðum sem nú eru að fara af stað. En miðað við það sem ég hef lært um Evrópusambandið á undanförnum áratugum er líklegt að sú niðurstaða verði okkur hagstæð. Slíkt er samt alls ekki víst og ekkert athugavert við að bíða þeirrar niðurstöðu.

Einkennilegt er hjá nýkjörnum formanni Sjálfstæðisflokksins að rjúka upp núna og berjast fyrir því að viðræðum verði hætt. Varla er hægt að álíta annað en þetta sé tilraun til að auka sundrungina í ríkisstjórninni. Samt er alls ekki líklegt að tilraunin takist eitthvað betur nú en síðast.

Andstæðingar ESB-aðildar hafa ansi hátt um þessar mundir. Þeim finnst líka eflaust að Evrópusinnar séu háværir. Ekki er rætt um málið á málefnalegan hátt heldur er eins og umræðan sé keppni í því að forðast slíkt. Þó augljóst sé að andstæðingar aðildar séu fleiri en stuðningsmenn um þessar mndir er lítið að marka það. Ekkert er komið í ljós um líklegar niðurstöður samningaviðræðna og allsekki er búið að ákveða hvenær sú þjóðaratkvæðagreiðsla verði sem skera mun úr um aðild.


1064 - Um reikningshausa

Reikningshausar og ekki reikningshausar. Áhugaverð pæling hjá Láru Hönnu. Kannski er skilningur þeirra sem þó þykjast skilja verðbætur, gengistryggingu og fleira þessháttar alls ekki sá sami þó hann virðist vera það. 

Rak mig á það sjálfur að jafnvel einfaldasta flatarmálsfræði er ekki alltaf eins og hún sýnist vera. Að reikna út í huganum hve margir fermetrar það herbergi er, sem er 2,5 metrar á kant, finnst mörgum auðvelt. Þar á meðal mér. En ef ég á að reikna á sama hátt hve margir fermetrar herbergi er sem er 5,5 metrar á kant, þá klikkar mín aðferð, þó ég geti nálgast rétt svar ef ég vanda mig. Á blaði er þetta enginn vandi og enn minni á vasareikni. Samt er þarna um að ræða einhverja tegund af skilningi.

Lára Hanna segir að næst sé að ráðast á verðtrygginguna því hún sé jafnóréttlát og gengistryggingin. Því miður eru hlutirnir ekki svona einfaldir. Sveiflan frá engum rétti lánveitandans (eins og var) og til algjörra yfirburða hans er meiri en svo að hún verði leiðrétt í einu hendingskasti. Ég hef samúð með sjónarmiðum Marðar Árnasonar og Kidda sleggju þó illa sé um þá talað í bloggheimum núna. Líklegt er að sjónarmið í líkingu við þeirra verði ofaná að lokum.

Svik og prettir - það er síminn. Segir Jón Daníelsson. Hann er úrvalsbloggari og með sitt eigið lén. Kannski höfum við ekki réttar viðmiðanir sem búum hér á höfuðborgarsvæðinu þegar kemur að þjónustu einokunarfyrirtækja. Ekki öfunda ég þá sem ekkert val hafa þegar kemur að fjarskiptaþjónustu. Hér um slóðir níðir hver skóinn niður af öðrum og þó þessi mál séu öll orðin svo margflókin að erfitt sé að skilja þau, er þó betra að geta valið.


1063 - Að loknum landsfundi

Pólitísk umræða á Íslandi er alltof illskeytt. Skil ekki hvernig fólk hefur geð í sér til að bera á borð allan þann óhroða sem það lætur útúr sér í umræðu sem kölluð er pólitísk. Bloggarar eru margir ofurseldir þessu og greinilega nýtur umræða þessi einhverra vinsælda.

Tvær samþykktir nýliðins landsfundar Sjálfstæðismanna vekja eftirtekt. Önnur fjallar um spillingu og er almennt orðuð þannig að auðvelt verður að fara í kringum hana. Framsögumaðurinn nefndi þó tvö nöfn í ræðu sinni og erfitt er að sjá hvernig þeim Guðlaugi Þór Þórðarsyni og Gísla Marteini Baldurssyni verður vært í flokknum að loknu þessu landsþingi.

Hin fjallar um ESB og er um það að Sjálfstæðisflokknum beri að stuðla að því að umsóknin um aðild þar verði dregin til baka. ESB-sinnar í flokknum eru mjög ósáttir við þessa tillögu og telja hana óþarfa. Kannski þjappar hún sjálfstæðismönnum saman en óneitanlega er tekin talsverð áhætta varðandi mögulegan klofning.

Klofningstal sjálfstæðismanna hefur aukist undanfarið. Bendi bara á blogg Guðbjörns Guðbjörnssonar á eyjunnni.is og Friðriks Hansen Guðmundssonar hér á Moggablogginu. Samstarf Sjálfstæðisflokksins við aðra flokka gæti versnað verulega í kjölfar landsfundarsamþykktarinnar.

Auðvitað neitar Bjarni Benediksson því harðlega að klofningur sé í flokknum. Man vel eftir Geir Hallgrímssyni rauðnefjuðum og ræfilslegum harðneita öllum klofningi þó Gunnar Thoroddsen væri búinn að mynda ríkisstjórn með öðrum.

Í Vinstri græna flokknum er andstaðan við ESB-umsóknina vaxandi og einnig við ýmis önnur mál sem ríkisstjórnin ber fyrir brjósti. Vel getur verið að óánægjuöflin þar nái að lokum meirihluta. Sú staða yrði núverandi forystu flokksins hættuleg en andúðin á stjórnarandstöðunni er sterkari en svo að líklegt sé að flokkurinn sé á leið úr ríkisstjórninni.

Viðbrögðin við dómi hæstaréttar um gengistryggð lán valda nokkurri furðu. Það sem ráðherrar ríkisstjórnarinar segja og gera er þó ekkert einkennilegt. Þar vilja menn umfram allt fresta málum endalaust og sjá til hvort Eyjólfur fari ekki að hressast. Lánastofnanir reyna líka að verja sig og sína peninga eftir mætti. Þeir sem telja sig hafa orðið fyrir barðinu á lánastofnunum virðast hinsvegar ekki ætla að skipuleggja sig á neinn hátt og sækja það sem ekki er annað að sjá en þeir eigi með réttu.

Og nokkrar myndir:

IMG 2167Sóleyjar í túni.

IMG 2170Þetta er erfið þjónusta.

IMG 2176Í Fossvoginum.

IMG 2185Sjöunda innsiglið.

IMG 2200Innrásin mikla.

IMG 2221Steinn frá Mars?


1062 - Pétur Blöndal

Áhugavert er að velta fyrir sér áhrifum dóms hæstaréttar á hrunfréttir. Hverjir koma til með að tapa mestu á þessum nýjasta snúningi? Eru það hinir óþekktu vogunarsjóðseigendur sem eignuðust íslensku bankana á spottprís og sáu fram á verulegan gróða? Er það Pétur Blöndal sem kannski verður nýr formaður Sjálfstæðisflokksins? Vendingar á landsfundi Sjálfstæðisflokksins gætu orðið til þess að Sjálfstæðisflokkurinn klofnaði og Framsóknarflokkurinn hyrfi. Svör við einhverjum af þessum spurningum fást um helgina.

Hlustaði í morgun á dæmigerðan æsingaþátt á Útvarpi Sögu. Það var ekki fyrr en líða tók á þáttin að ég gerði mér grein fyrir því að um endurtekið efni var að ræða. Stjórnendur Sögu ættu að athuga að alls ekki er sama hvaða þættir eru endurfluttir eða hvenær og hvernig. Þessu hafa margir brennt sig illa á.

Fjarskipti hverskonar eru sífellt að verða mikilvægari og mikilvægari fyrir alla. Sími, sjónvarp, útvarp, tölvur og þessháttar dót er að verða jafnmikilvægt og rafmagnið sjálft. Í gær var hringt í mig frá Bahama og sá sem hringdi borgar að mér skilst fyrir það smáaura per mínútu. Gat þó ekki notað Skype heldur þurfti að nota einhverja aðra þjónustu.

Ætli það hafi ekki verið árið 2002 (eða 1998) sem ég fór í gönguferð um Hornstandir og losnaði við þetta allt saman. Þá stóð fyrir dyrum úrslitaleikur í heimsmeistarakeppni í fótbolta og ég frétti ekki af úrslitum hans fyrr en við komum til byggða viku seinna. Hugsa sér. Ekki hef ég neina trú á að ég komist hjá því í heila viku að vita hverjir verða heimsmeistarar að þessu sinni.

Og nokkrar myndir:

IMG 2130Keppt um sólskinið.

IMG 2131Fallegt á litinn.

IMG 2132Haha ég er á undan.

IMG 2134Endalaust úthaf.

IMG 2135Hús og haf.

IMG 2137Við hafið.


1061 - Lára Hanna

Í góða veðrinu í dag fórum við Áslaug lengst útá Seltjarnarnes og tókum þar meðal annars nokkrar ljósmyndir. Stóra Láru-Hönnu málið fór því alveg framhjá okkur. Lesum samt blogg vel og vandlega flesta daga. Mér eru mál Láru Hönnu skyld því hún var vinnufélagi minn í eina tíð. 

Efast ekki um að hún skrifar sín blogg án þess að aðrir hafi þar hönd í bagga. Síst af öllu held ég að ESB hafi keypt hana. Hún hefur samt gert sig seka um ótrúlegan barnaskap með því að vera ekki á undan AMX að skýra frá Brusselferð sinni. Og ekki orð um það meir.

Las um daginn bók sem heitir „Orð og tunga 12". Hef ekki hugmynd um af hverju 12 eru í nafninu. Dettur helst í hug að þetta sé einskonar tímarit og hér sé um það tólfta í röðinni að ræða. Hvað um það, í þessu riti sem gefið er út á yfirstandandi ári af Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum er margt fróðlegt og athyglisvert. Flestar greinarnar í riti þessu fjalla um örnefni og nafngiftir allskonar.

Merkileg er til dæmis grein eftir Hallgrím J. Ámundason sem höfundur nefnir „Óformleg örnefni í Reykjavík.". Þar er meðal annars rætt um nöfn eins og Hallærisplanið, Markúsartorg, Klambratún, Fjalaköttinn og margt fleira. Næpuna, Múrinn, Pontukot, Heilagsandastræti og Kjaftaklöpp einnig svo eitthvað sé nefnt.

Grein þessi fjallar einkum um Reykjavík eins og nafnið bendir til. Vert væri þó að taka þetta efni til athugunar víðar um land. Oft komast slík nöfn aldrei á prent og glatast með öllu. Sjálfur gæti ég eflaust nefnt einhver svona nöfn eða viðurnefni sem tíðkuðust áður fyrr í Hveragerði. Fyrir seinni tíma fólk er ekki ónýtt að hafa um þetta upplýsingar.


1060 - Atkvæðagreiðsla um afbrigði

Einhverju sinni þegar við vorum úti að ganga í hádeginu á Stöð 2 kom aldur og hollusta gönguferða til tals. Svo var einnig í síðasta bloggi hjá mér ef ég man rétt (eða var það í athugasemdum?) Þá sagði María Maríusdóttir eitthvað á þessa leið: „Þið sjáið nú bara hve gönguferðir geta verið hættulegar. Halldór Laxness gekk og gekk þegar hann var yngri og nú getur hann ekki dáið."

Þetta er mér mjög svo í fersku minni. Mér leiðist þegar umræða um höfundarrétt fer að snúast um dauða manna en hjá því verður ekki með öllu komist. Ástæða þess að ég minntist í síðasta bloggi á herra Grím var meðal annars sú að á þeim tíma flæktust höfundarréttarmál ekki fyrir mönnum. Slík mál eru mér nokkuð hugleikin og afskipti mín af þeim voru talsverð á þeim tíma sem við gáfum út bækur á vegum Netútgáfunnar.

Alþingi keppir við HM í sjónvarpinu. Hvort er skemmtilegra? Best er að fá sitt lítið af hvoru. Alþingi setur sífellt ofan þessa dagana. Kannski ríkisstjórnin líka. Annað er bara ekki í boði. Stjórnarandstaðan er máttlausari en allt sem máttlaust er. Það eina sem hún sér er að reyna að trufla störf Alþingis. Sá síðustu mínúturnar í leik Ítala og Slóvaka. Það var spennandi. Pirringurinn í Ragnheiði Ríkharðsdóttur á forsetastóli á Alþingi var líka spennandi, en á annan hátt. Afbrigði á Alþingi eru að verða venjan. Nú þykjast þingmenn vera búir að finna upp samvinnu og samstarf. Ja, svei.

Og nokkrar myndir:

IMG 2084Biðukolla.

IMG 2075Á strætóskýli.

IMG 2085Fossvogur.

IMG 2089Hér var í eina tíð sá frægi staður heiti lækurinn í Nauthólsvík.

IMG 2105Andamamma með hnoðrana sína.

IMG 2107Í Fossvoginum.


1059 - Herra Grímur á hana

Ómar Ragnarsson skrifar ágætan pistil um verðtryggingarmál á sitt Moggablogg. Pistilinn nefnir hann „Margþætt mál" og ég er sammála honum að mestu leyti. Man vel eftir þessum tíma um 1983. Þá steinhættum við við að byggja í Borgarnesi þó við værum búin að fá ágæta lóð á góðum stað. Seinna keyptum við svo íbúð í Kópavoginum og tókum lítinn þátt í gróðærispartíinu.

Um daginn var hringt í mig frá Borgarbókasafni Reykjavíkur í Gerðubergi vegna þess að ég hafði nýlega tekið þar að láni bókina „Bessi gamli" eftir Jón Trausta. Inni í henni var bréf sem sá sem hafði haft bókina síðast í láni saknaði. Þessu bréfi er ég búinn að skila en ástæðan fyrir því að ég tók þessa bók að láni var sú að ég hef lesið næstum allt sem út hefur komið eftir Jón Trausta (nema Bessa gamla) og hef talsvert dálæti á honum.

Það dálæti stafar meðal annars af því að við hjá Netútgáfunni vorum svo stálheppin að hann dó í spænsku veikinni árið 1918 og þessvegna gátum við sett upp allt efni eftir hann sem við komum höndum yfir án þess að brjóta höfundarréttarlög. Þeim til upprifjunar sem muna lítið eftir Jóni Trausta (Guðmundi Magnússyni) þá fæddist hann árið 1873 og dó semsagt árið 1918. Var prentari að atvinnu og er einna frægastur fyrir sögur sínar um Höllu og Heiðarbýlið.

Minnir að það hafi verið í síðustu sögunni um heiðarbýlið sem Jón var að fabúlera um járnbrautarlestir á Austurlandi. Þar er komin tenging við bloggið hans Egils Helga og athugasemdir þær sem ég er nýbúinn að fá.

Ein frægasta Íslendingasagan sem enginn núlifandi maður hefur lesið er líklega Gauks saga Trandilssonar. Margar sögur eru í svonefndri Möðruvallabók og á einum stað er ritað þar neðanmáls eitthvað á þessa leið: „Láttu rita hér við Gauks sögu Trandilssonar mér er sagt að herra Grímur eigi hana." Grímur þessi er líklega Grímur Þorsteinsson sem eitt sinn var hirðstjóri yfir Íslandi og dó um 1350. Fátt fleira er um Íslendingasögu þessa vitað.


1058 - Alltaf í blogginu (eða boltanum)

Það sem boðið er uppá á Netinu er alltaf að verða meira og meira. Í rauninni er það nokkuð gott hjá mér að talsverður fjöldi fólks skuli leggja það á sig að lesa (eða kíkja að minnsta kosti á) bloggið mitt. En bloggið er svosem bæði notað og misnotað. Sá hjá Jens Guð að einhver kona hafði skrifað leiðindasamsetning á Moggabloggið. Blogginu hennar hafði verið lokað, en auðvitað var hægt að nálgast afrit af því. Af hverju var Jens að segja frá þessu og af hverju er ég að minnast á þetta? Skil það ekki. Nóg eru nú tilefnin til að hneykslast. Viljum við Jens hjálpa öðrum að fylgjast með sem flestu markverðu á Netinu eða erum við bara að reyna að seiða til okkar lesendur?

Það er óneitanlega dálítið hlægilegt hve Evrópuandstæðingar geta gengið langt í áróðri sínum. Því er haldið fram að Íslendingar verði í stórhættu með að þurfa að gegna herþjónustu og verði áreiðanlega látnir leggja niður þjóðfána sinn og hætta að drepa hvali. Almennt eru þó hætt að halda því fram að Evrópusambandið muni hirða af okkur allar auðlindir.

Úr því búið er að samþykkja að sækja um aðild er rétta ráðið að bíða með allar yfirlýsingar af þessu tagi. Sannleikurinn kemur í ljós þó síðar verði. Samt er ekki víst að allir nenni að kynna sér hann og áróðurinn sem verður í gangi síðustu vikurnar fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna um aðild mun ráða miklu. Hræðsluáróður Evrópuandstæðinga nú miðar að því að reyna að spilla þeim umræðum sem hefjast munu innan skamms.

Er hægt að halda úti fréttatengdri bloggsíðu án þess að tala að ráði um HM í fótbolta eða hrunið mikla? Ég er að reyna það. Einhverjir eru búnir að fá leið á þessu rugli í sjónvarpinu og víðar. Þá er að virkja það.

Egill Helgason segir að það sé nútíminn að sitja í lest á milli Moskvu og Leningrad og blogga. Það er heilmikið til í því. Það er að segja ef menn hafa einkum áhuga á að blogga. Ferðalög eiga að vera til þess að losna við allt það hversdagslega. Er ekki bloggið orðið æði hversdagslegt hjá mörgum? Sumir sitja bara heima og blogga meðan afkomendur og skyldmenni þeytast um allar jarðir. Án þess að blogga.


1057 - Hrunið mikla og afleiðingar þess

Hæstaréttardómurinn um gengistryggðu lánin verður væntanalega til þess að eitthvað af því sem fjárglæfrafyrirtækin rændu af almenningi næst til baka. Alls ekki allt. Einhvers konar sátt mun nást sem vonandi nálgast sanngirni. Svipað er að segja um verðtrygginguna. Þar eru mál þó öllu flóknari en dómstólar munu ná utan um þau að lokum. Hefnigirni og reiði stjórnar um of gerðum fólks og hugarfari. Til langs tíma litið munu þær tilfinningar breyta þjóðinni varanlega.

Hef ekki lengur aðgang að boðskapnum sjálfum (þ.e. því vonda grjóti Staksteinum - eða eru það forystugreinarnar sem eru bloggvinur minn?) Er þó Moggabloggari af lífi og sál og hef ekki látið undan miklum þrýstingi um að fara annað. Svona línulaus get ég auðvitað ekki tjáð mig af fullri einurð um pólitísk mál og verð að byggja á hyggjuvitinu einu. Frá sjónarmiði Alvaldsins sem öllu vill ráða er það ekki gott.

Moggann kaupi ég ekki eða gerist áskrifandi að honum á vefnum og mundi seint borga fúlgur fjár fyrir þau forréttindi að fá að sitja landsfund Flokksins Eina eins og mér skilst að einhverjir muni gera.

Minntist á góða bloggara í síðustu færslu minni. Auðvitað eru fleiri góðir en Gunni og Jónas. Til dæmis Lára Hanna, Jens Guð og margir fleiri. Jens Guð er bestur í athugasemdunum. Þar glansar hann. Er farinn að halda að ekki sé hægt að koma honum á óvart í þeim. Sigurður Þór bregst líka sjaldan og sömu sögu er að segja umn Egil Helgason, Mörð Árnason, Nönnu Rögnvaldardóttur, Svan Gísla Þorkelsson, Björn Birgisson, Ágúst Borgþór, Ómar Ragnarsson, Stefán Benediktsson, þá bræður Gísla og Pál Ásgeir Ásgeirssyni og marga fleiri.

Þessi upptalning er ófullkomin og það eru auðvitað margir sem ættu að vera þarna en ég hef gleymt. Fésbókin hefur þó leitt í ljós að allskyns listar eru vinsælir mjög. Það eitt að þetta blogg inniheldur þónokkur nöfn tryggir strax að lesendur þess verða með fleira móti.

Og nokkrar myndir.

IMG 2071Eflaust kemur blóm úr þessu þó ég viti ekki hverskonar blóm.

IMG 2079Því skyldi ekki mega taka myndir af ljótum og tætingslegum fíflum?

IMG 2094Viðbúnar hverju sem er.

IMG 2098Hér hefur orðið lúpínuslys.

IMG 2099Ekki veit ég hverskonar blóm verður hér til í fyllingu tímans.


1056 - Um Dr. Gunna og fleiri

Hef lesið mikið á undanförnum misserum um bankahrunið og afleiðingar þess. Varðandi þau skrif hef ég hrifist af einum manni umfram aðra. Hann leggur ekki áherslu á að tala með sem mestum æsingi og reynir ekki að hafa sem mest áhrif á aðra með hnitmiðuðum orðavaðli. Nei, hann heldur sig við tölur og staðreyndir og talar mál sem auðvelt er að skilja. 

Þarna á ég við Marínó G. Njálsson. Heppnir erum við bloggarar að hafa slíkan mann í okkar röðum. Hægt er að treysta því sem hann segir. Hann kynnir sér þau mál sem hann skrifar um og gerir það vel.

Finnst ekki ástæða til að fjölyrða meira um þetta en blogg-greinar hans eru í mörgum tilvikum mun meira upplýsandi en umfjöllum fjölmiðla um sömu mál.

Brjánn Guðjónsson (Brian Curly) minnist á það á fésbók sinni að Dr. Gunni sé snilldarpenni og birtir þar eftir hann gamla Fréttablaðsbakþanka. Ekki vil ég draga úr því að Gunni sé góður. Hljómsveitarpælingar hans finnst mér þó ekkert skemmtilegar því ég hef engan áhuga á þeim. Mér hefur alltaf mistekist þegar ég hef ætlað að setja bloggið hans í Google-readerinn minn. En það er hægt að fylgjast með honum á blogg-gáttinni. Hef mikið álit á blogginu hans þó hann hafi vissulega fleiri hliðar.

Dr. Gunni er á pari við Jónas Kristjánsson en þeir eru bestu bloggarar landsins hvað sem Stefán Pálsson segir. Báðir skrifa þeir líka veitingahúsagagnrýni en kannski er það tilviljun.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband