Bloggfærslur mánaðarins, júní 2009

729 - Trúarjátning Skugga-Sveins

Biblían er sem bögglað roð
fyrir brjósti mínu.
Át ég hana alla í einu.
Ekki kom að gagni neinu.

Lætur Matthías Jochumsson Skugga-Svein segja í samnefndu leikriti.

Af einhverjum ástæðum er mér þetta afar minnisstætt. Þetta er á margan hátt mín trúarjátning einnig. Ég var svolítið ódæll í æsku (málgefinn og uppástöndugur besservisser) og man að við generalprufu fyrir ferminguna í Kotstrandarkirkju hótaði ljúfmennið séra Helgi Sveinsson að henda mér út úr kirkjunni og sagði að það hefði aldrei komið fyrir sig áður. Auðvitað hafa kennarar aldrei komist í annað eins og þeir lýsa hverju sinni. Man líka að ég var um þetta leyti búinn að gera mér grein fyrir trúarbragðaleikritinu en ákvað að vera ekkert að ergja fólk að óþörfu.

Að miklu leyti er ég þannig ennþá. Trúlaus með öllu sjálfur en vil gjarnan leyfa öðrum að hafa sína trú ef þeir vilja. Trúi bara að hið góða í manninum sé því illa yfirsterkara (oftast nær að minnsta kosti - jafnvel hjá útrásarvíkingum) og heimurinn fari batnandi í það heila tekið þó oft sé erfitt að sjá það.

Nítján kílómetra vestan við Blönduós er trjálundur einn sem Ólafslundur heitir. Besti staðurinn á leiðinni norður. Þar skar ég mig í lófann á norðurleiðinni um daginn og sá mús eina þar á suðurleiðinni. Þetta með músina var eftirminnilegt. Kom að henni á gangstígnum inni í skóginum og var að furða mig á hve augun væru vel gerð á þessu leikfangi. Ætlaði að ýta við því með fætinum en þegar hann var næstum kominn alla leið tók músin viðbragð og hentist í burtu.

Það er ekki eins og ég sé í samkeppni við Eið Guðnason en ég komst ekki hjá því að heyra eitt gullkorn hjá íþróttafréttamanni RUV nú í hádeginu (mánudag)

Þar var hann að tala um að Manchester City hefði boðið háa upphæð í Samuel Eto og laun hans yrðu slík að hann yrði hæstlaunaðasti knattspyrnumaður heims. Hæstlaunaðasti!! - dæmigerð heimska.

 

728- Kominn heim

Er búinn að vera á ættar- eða fjölskyldumóti á Akureyri síðan á föstudaginn. Þessvegna fremur lítið um blogg undanfarið. Tók eitthvað af myndum þar. Var líka á Akranesi fyrri part vikunnar. Myndirnar sem hér fylgja voru teknar þar. 

Það er erfitt að blogga um annað en Icesave þessa dagana. Ég er enginn sérfræðingur í efnahagsmálum en get ekki horft framhjá því að samningurinn er líkur nauðasamningum. Það er verið er að neyða okkur Íslendinga til að samþykkja þessi ósköp vegna þess að við getum ekki annað. Ég er sammála því að ef við eigum að halda áfram að vera þjóð meðal þjóða verðum við að gera það. Kjörin eru samt ekki nógu góð. Við þurfum að hafa þau betri. Besta leiðin til þess er að fella andskotans frumvarpið sem Steingrímur segist ætla að leggja fram. Kannski leggur hann það aldrei fram. Eða breytir því eitthvað. Hann verður að fá Breta og Hollendinga til að gefa eftir.

IMG 3036IMG 3042IMG 3051IMG 3057IMG 3076IMG 3106IMG 3115IMG 3120


727- Um bókasöfn og fleira

Í mínum augum eru þeir sem efni hafa á að kaupa sér þær bækur sem þá langar að lesa útrásarvíkingar og ekkert annað. 

Illa væri ég staddur ef bókasöfn tíðkuðust ekki. Núorðið má finna margt á Netinu en ekki allt. Bækur hafa vissa sérstöðu. Að geta fengið eins margar bækur að láni og hugurinn girnist án þess að borga nokkuð að ráði fyrir það er mér á við mörg gullklósett.

Höfundarrétthafar hafa jafnan horn í síðu bókasafna. Auðvitað er verið að ræna þá greiðslum ef horft er á málið á sama hátt og vaninn er í fréttum. Nýjir miðlar eru síður aðgengilegir á bókasöfnum en samt eru þeir í boði að ég held. Hefð er komin á bækurnar og þó oft sé erfitt að fá þær allra nýjustu er alltaf eitthvað að finna ef áhuginn er nægur.

Fór í dag á bókasöfnin (Kópavogs- og Borgar-) og spurði meðal annars hvort skírteinin mín væru að renna út. Ég er nefnilega að verða 67 ára og þá skilst mér að bókasafnsþjónusta (og eitthvað fleira) verði ókeypis. Auðvitað eru þau að renna út en mér tókst þó að fá nokkrar bækur á öðrum staðnum. Verð síðan að bíða fram undir miðjan september til að fá þessa þjónustu ókeypis. Það er að segja ef miðað er við fæðingardag frekar en fæðingarár.

Gaman er að fylgjast með bréfaskiptum Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar við Guðmund Andra Thorsson og þar áður við Karl Th. Birgisson ritstjóra Herðubreiðar. Þetta má finna á kaffstofunni á pressunni.is. Hannes er þrasari af Guðs náð og ágætlega að sér um margt. Ekki eins sérvitur og sumir aðrir þrasarar (Hmm - er ég að tala um sjálfan mig) og þess vegna oft áheyrilegur.

Hann er marktækur þó hólmsteinn sé.

Voðalega eru allir alvarlegir hérna. Má ekki gera grín að einhverju? Það er einn af mínum mestu bloggaraókostum hvað ég er alltaf alvarlegur. Samt er það augljóst þegar að er gáð að lífið er bara til að skemmta sér yfir því. Annar getur tilgangurinn ekki verið. Eftir að helvíti hætti að vera til er þýðingarlaust að bíða eftir því að allt fari til fjandans. Það er næstum eins vitlaust og verið getur að taka hlutina alvarlega.

Nú er ég búinn að blogga svo lengi að ég er orðinn vanur lyklaborðinu og get farið að láta allt flakka. Ég gæti reynt að semja smásögur eins og Jens Guð. Samt vil ég ekki hafa þær eins. Meira svona eins og eitthvað allt annað.


726- Icesave - Er hægt að blogga um eitthvað annað?

Það er veist að mér fyrir að vera ekki á móti Icesave-samningnum á sama hátt og flestir aðrir bloggarar. Loopman kallar mig hálfvita og Lára Hanna svarar gagnrýni minni á skoðun hennar á þeim sem ekki mæta á Austurvallarfundi bara óbeint. Flestir aðrir reyna að leiða vitleysuna í mér hjá sér. 

Ég get ekki að því gert að ég finn flokkspólitískan fnyk af sumri gagnrýni á samninginn og væntanlegt frumvarp um ríkisábyrgð á ósómanum. Ég viðurkenni fúslega að auk þess að vera mikil svívirðing við okkur Íslendinga alla er samningurinn að auki til þess fallinn að auka andúð margra á aðildarumsókn að ESB. Gera ætti þó greinarmun þar á.

Ég hef líka unnið mér það til óhelgi meðal margra að vera meðmæltur aðild að ESB þrátt fyrir þvingunaraðgerðir þær sem augljóslega felast í Icesave-samningnum. Af þessu leiðir að ég er álitinn hægri sinnaður og nánast óalandi í bloggsamfélaginu, jafnvel hallur undir Samfylkinguna og ástæða fyrir fólk til að spýta þrisvar eftir að hafa lesið bullið úr mér.

Einfaldast væri auðvitað að minnast ekki á Icesave. Það er hins vegar aumingjaskapur hinn mesti í mínum augum. Einnig hitt, að þó Icesave-samningurinn verði að öllum líkindum felldur á Alþingi ef fer sem horfir, grunar mig að margir sem andmæla honum sem hæst séu einkum að nota kærkomið tækifæri til að klekkja á ríkisstjórninni.

Ég hef séð því haldið fram að verði Icesave-samningurinn felldur falli stjórnin líka. Þessu er ég ekki sammála. Ég held að Steingrímur og jafnvel Jóhanna líka verði því fegnust ef Icesave-vitleysan verður einfaldlega felld. Auðvitað geta þau ekki sagt það en sjálfsagt er að reyna að draga þetta mál svolítið á langinn.

Guðbjörn Guðbjörnsson er sjálfstæðismaður og ESB-sinni sem ég fylgist oft með á blogginu enda skrif hans vönduð. Hann segir meðal annars á sínu bloggi:

Ef þessi afskriftaleið samsæriskenningar minnar er ekki rétt og við eigum að borga þessar skuldir - 400-500 milljarða - finnst mér ESB aðildin og dýru verði keypt. Ef það er framkvæmanlegt að segja NEI - án þess að við förum 40-50 ár aftur í tímann - þá er það skárri leið en að kaupa ESB aðild á 400-500 milljarða króna. Ef við verðum að borga þetta, vil ég alla vega fá ESB aðild í staðinn, því þeir hjálpa okkur þá kannski aðeins ef við lendum í vandræðum með þetta.

Þarna finnst ýmsum Sjálfstæðismönnum vera rétt lýst. Þeir eru til í að selja skrattanum ömmu sína ef nógu miklir peningar fást fyrir hana. Mér er nokk sama um Icesave-málið en alls ekki um ESB. Þarna tengir Guðbjörn þessi tvö mál saman á þann hátt sem útrásarkálfunum mundi vel líka.


725 - Ekki meira Icesave

Skiljanlega eru flestir að verða leiðir á þessu Icesave-máli. Sjálfur er ég það líka. En erfitt er það. Eru ekki flest mál tengd Icesave?

Vinstri grænir eru að bila í ESB-málinu og þeir ESB-andstæðingar sem treystu þeim best sjá nú eftir öllu saman. Samt fer aðildarumsókn eflaust ekki á flot fyrr en seint og um síðir. Icesave-málið tefur fyrir henni. Æ, þetta var óvart.

Er fésbókin opinber? spyr Friðrik Þór. Þetta er merkileg spurning. Oft finnst fólki að það sem sagt er í trúnaði við tölvuna ætti ekki að fara lengra. Einkum í hinni alltumlykjandi og óskeikulu baksjón. Menn sjá oft eftir því sem þeir láta flakka í prívatsamtölum við Internetið.

Hlutirnir fara ekki að batna fyrr en botninum er náð. Mbl.is segir að Eva Joly hafi sagt að hún álíti ekki að botninum sé náð í efnahagskreppu heimsins. Ég man að Geir Haarde sagði ítrekað að nú væri sko botninum náð. Hlutirnir gætu bara ekki haldið áfram að versna. Aldrei trúði ég honum. Hið góða sakar ekki. Best að búast alltaf við því versta.


724- Icesave - Fæ aldrei nóg af þessu leiðindamáli

Það er auðvelt að segja að við eigum ekki að borga Icesafe. Erfiðara að benda á hvað annað við eigum að gera. Fara dómstólaleiðina segja sumir. Hvaða dómstólaleið? Ég veit ekki til þess að neinn dómstóll dæmi í milliríkjadeilum ef aðilar vilja það ekki. Það notfærðum við Íslendingar okkur í eina tíð. 

Einfaldlega borga bara ekki og sjá til. Það er leið sem er miklu eðlilegri. Andstæðingar okkar gætu auðvitað gert okkur ýmsa grikki en það væri óneitanlega meira í samræmi við víkingseðli okkar og mundi varla eyðileggja álit annarra þjóða á okkur meir en orðið er.

Borgar sig að prófa þetta? Veit það ekki. Sumum liði betur. Mér finnst alveg koma til greina að standa við sitt og borga þó við eigum erfitt með það. Í gamla daga hurfu skuldir alltaf á endanum. Það voru verðbólguskuldir. Skuldir nú eru varanlegri.

Af hverju taka ekki Bretar og Hollendingar bara eigur Landsbankans í Bretlandi og láta sig hverfa? Þeir eru fjölmennari en við og eiga auðveldara með að fela skuldirnar með deilingu. En þeir eru hræddir um að efnahagslægðin í heiminum verði mjög langvarandi. Í uppgangi mundu skuldirnar alltaf sýnast minni og minni en ekki í niðursveiflu. Áhættan er okkar.


723 - Icesave, Joly, Valtýr og 120

Hart er nú deilt um Icesave samninginn og er það engin furða. Sagt er að  ríkisstjórnarsamstarfinu sé ekki hætt þó ríkisábyrgðarfrumvarpið, sem reyndar á eftir að koma fram, verði fellt eins og líklega verður gert. Þó vitum við lítið um hvað í því muni standa. Hugsanlega verður í því tekið tillit til þeirrar harkalegu gagnrýni á samninginn sem fram hefur komið síðustu daga.

Forðumst að gera meira úr ágreiningi en efni standa til. Samningurinn stendur og fellur með því sem Alþingi gerir og þar sitja fulltrúar okkar og við væntum þess að þeir skoði hug sinn vel.

Skoða þarf allar hliðar málsins. Líka hvað líklegt er að gerist ef samningur um Icesafe verður ekki gerður. Mál sem tengjast bankahruninu síðastliðið haust munu halda áfram að fylgja okkur næstu árin. Flokkaskipun í landinu mun riðlast og er þegar búin að því að nokkru. Trúi ekki að bylting verði. Trúi líka að Joly sigri Valtý þó fáir virðist hafa áhuga á því máli lengur.

Fjórir, átta, fimm og sjö.
Fjórtán, tólf og níu.
Ellefu, þrettán, eitt og tvö.
Átján, sex og tíu.

Svonalagað skemmtu menn sér við að setja saman í gamla daga. Veit ekkert eftir hvern þetta er og hugsanlega er vísan mjög gömul. Auðvitað er líka hægt að skrifa þetta með tölustöfum og útkoman ef lagt er saman er nákvæmlega eitt stórt hundrað.

 

722 - Er byltingin á leiðinni?

Sumt bendir til að byltingin sé raunverulega á leiðinni til Íslands. Vonandi verður hún ekki blóðug. Vinstrisinnaður almenningur gæti tekið völdin og hvar standa hvítliðar og hægrisinnar þá? Hrökklist núverandi stjórn frá völdum  má búast við hverju sem er.

Auðvitað er ekki grín gerandi að þessu. En lætin á Austurvelli í dag laugardag, tónninn í ýmsum sem um þessi mál fjalla (sjá t.d. blogg bloggvina minna Láru Hönnu Einarsdóttur og Guðbjörns Guðbjörnssonar) og margt fleira bendir til að kveikiþráðurinn sé að styttast hjá mörgum.

Það mál sem mun raunverulega skipta þjóðinni í tvær fylkingar er þó að mestu órætt. Þar á ég auðvitað við ESB-málið. Á margan hátt er sú flokkaskipting sem hér hefur viðgengist lengi gengin sér til húðar. Menn verða aldrei samir eftir það sem á hefur gengið hér á landi síðustu mánuði.

 

721 - Sparkað í aldraða

Nú á víst að lækka frítekjumarkið aftur sem, ef ég man rétt, var hækkað svolítið fyrir nokkru. Aldraðir hljóta að túlka það sem árás á sig en eru ekki líklegir til stórræða. Hægri og vinstri hefur pólitíska merkingu ennþá og vinstri sveiflan í þjóðfélaginu er augljós. Vonandi komast Sjallar og Frammarar ekki fljótlega til áhrifa á ný. 

Framsóknarþingmönnum er uppsigað við forseta Alþingis. Nú eða honum (henni) við þá. Ég er ekki bara að tala um atvikið sem varð síðastliðinn þriðjudag (bjölluslögin sögð vera komin yfir 50) heldur mörg önnur því ég hef fylgst með þingfundum undanfarnar vikur í sjónvarpinu. Hverju sem um er að kenna er þetta að verða svolítið vandræðalegt og eykur örugglega ekki virðingu Alþingis.

Það er margbúið að bera uppá mig að ég sé skráður á Facebook. Þessu hef ég alltaf neitað harðlega og veit ekki til að ég hafi gert það. Auðvitað geta verið þar alnafnar mínir, aðrir hafi skráð nafnið mitt eða ég gert það í einhverju meðvitundarleysi. Veit ekki hve lengi ég get staðið á móti þessu fésbókaræði. Bloggið hentar mér ágætlega. Langorðari þar samt en ég vildi vera.

Sigurjón og Sigurjón taka kannski við af Skafta og Skafta sem mig minnir að hafi komið við sögu í einhverri myndasögubók sem ég las fyrir löngu. Tinnabók sennilega. Sigurður G. minnir mig hinsvegar á Tinna sjálfan hvernig sem á því stendur. Þetta með Skafta og Skafta var ég að hugsa um að nota í athugasemd einhvers staðar. Til dæmis hjá Stefáni Pálssyni. Mig minnir að hann sér forfallið myndasögufrík. Svo tímdi ég því ekki. Það er nefnilega óþarfi að vera að spandera góðum hugmyndum í blogg-athugasemdir hist og her. Nær að nota þær í alvöru blogg.

Hvað gerist svo ef ég hætti nú að blogga einn góðan veðurdag. Verður ekki algjör héraðsbrestur og allt í voða? Nei, ég verð víst að halda áfram hvað sem það kostar.

 

720- Samningurinn verður felldur

Núverandi ríkisstjórn á við mikla erfiðleika að etja. Samt styð ég hana. Ég er sannfærður um að ef andstæðingum hennar tekst að koma henni frá, eins og hugur þeirra stendur til, þá mun lakara ástand taka við. Ástand þar sem annaðhvort Framsóknarflokkurinn eða Sjálfstæðisflokkurinn (eða jafnvel báðir) fá tækifæri til að halda áfram stuðningi sínum við spillingaröflin í landinu. 

Vissulega ber Samfylkingin talsverða ábyrgð á því ófremdarástandi sem skapaðist hér við bankahrunið síðastliðið haust. Skárri kostur er þó að hún sé við stjórnvölinn en að fá Framsóknarflokkinn og Sjálfstæðisflokkinn aftur að kjötkötlunum.

Umræðan um ESB-aðild blossar alltaf öðru hvoru upp með ýmsu móti. Þó ég sé stuðningsmaður aðildar, miðað við það sem fram hefur komið og ég hef kynnt mér, vil ég ráða því sjálfur hvort ég tek þátt í karpinu. Auðvitað er ég ekki ómissandi í þeirri umræðu. Margt af því sem þar er sagt og skrifað er fjarskalega lítilvægt.

Mín skoðun á Icesave-málinu er sú að við verðum að semja. Ef Alþingi fellir frumvarpið um ríkisábyrgðina sé ég ekki að það verði okkur Íslendingum til góðs nema því aðeins að líkur séu á að með því verði samningurinn okkur hagstæðari.

Öll rök standa til þess að hann verði það og margt í sambandi við hann er mjög vafasamt. Hinn möguleikinn sem er að neita með öllu samningum leiðir bara til einangrunar og útskúfunar. Það getur ekki á neinn hátt orðið okkur til góðs. Umheimurinn getur sem hægast leitt okkur að mestu hjá sér eins og hann gerði um aldir.

 

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband