Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2008
31.7.2008 | 00:09
405. - Jón Helgason og Sigurður Þór
Á blogginu mínu um daginn var ég að fjasa um hvernig ég læt tímann líða. Ég þykist náttúrlega vera enn að vinna þó ég sé að nálgast ellilífeyrisaldurinn. Verst ef þessir fjárglæframenn sem svo umtalaðir eru í bloggheimum og víðar verða búnir að eyða þessu öllu áður en maður nær að njóta þess. Þessi vinna er nú bara næturvarsla og ekki merkilegt beskæftigelsi. Vaktirnar eru að vísu fjandi langar en frí aðra hverja viku. Þessutan hjálpa ég konunni minni við skúringar í frívikunni minni. Það fer ekki hjá því að líf mitt snúist ansi mikið um Vefinn (með stóru vaffi). Þegar ég er ekki að stúdera blogg eða annað þungmeti þá er ég gjarnan að tefla á Netinu. Ætli ég sé ekki með þónokkra tugi bréfskáka í gangi á þremur vefsetrum á hverjum tíma. Ég er alveg hættur að nenna að vanda mig og hef þess vegna skákirnar margar og fylgist lítið með stigunum mínum. Svo tefli ég stundum læf og það getur verið ansi gaman. Mest gaman er auðvitað að vinna og eftir erfiðar hraðskákir (sem ég kalla 15 mínútna skákir núorðið) er ég gjarnan dauðþreyttur. Það fer ekki hjá því að ég veiti því athygli að Sigurður Þór er að atyrða ýmsa sem ekki kunna að meta veðurblogg. Ég veit að honum þykir vænt um ketti. Kannski er hann líka af þeirri kynslóð sem kann að meta skáldskap Jóns Helgasonar. Jón orti eitt sinn um ketti: Viðsjárverð þykir mér glyrnan gul, geymir á bak við sig marga dul, óargadýranna eðli grimmt á sér í heilanum fylgsni dimmt.
Ólundin margsinnis úr mér rauk er ég um kverk þér og vanga strauk, ekki er mér kunnugt um annað tal álíka sefandi og kattarmal.
Bugðast af listfengi loðið skott, lyftist með tign er þú gengur brott; aldrei fær mannkindin aftanverð á við þig jafnast að sundurgerð.
Þetta eru bara þrjár vísur af tíu og kvæðið er ort 1939. Varðandi MEST málið sem eflaust á eftir að verða talsvert milli tannann á fólki á næstunni vil ég segja það eitt að ef samningur Glitnis sem gerður var nokkrum dögum fyrir gjaldþrotið er gildur og eðlilegur þá eru allir samningar sem gerðir eru örstuttu fyrir gjaldþrot jafngildir. Ég hélt að svo væri ekki. Og í lokin eru svo nokkrar myndir því það er svo langt síðan síðast. Á fyrstu myndinni er tunglið eitthvað að glenna sig yfir Móskarðshnjúkum og á þeirri næstfyrstu má sjá sumarhús á Vatnsleysuströnd. |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 05:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
30.7.2008 | 00:08
404. - Samvinnuskólinn, Bismark og Ólafur Blör
Á Bifröst var á sínum tíma kennd bæði Samvinnusaga og menningarsaga. Samvinnusagan fjallaði fyrst og fremst um sjálfmenntaða bændahöfðingja á Íslandi í upphafi tuttugustu aldar. Menningarsagan var síðan nokkurn vegin það sama og annars staðar var kallað mannkynssaga. Ég man eftir að einhverntíma vorum við að lesa fyrir menningarsögupróf af miklum krafti og við Kiddi á Hjarðarbóli og einhverjir fleiri sömdum afkáralegar spurningar til leiðbeiningar við lesturinn. Ég man nú bara eftir einni af þessum spurningum. Í bókinni sem við vorum að lesa stóð að Bismarck hefði haft mörg járn í eldinum. Spurningin sem við gerðum um þetta var einfaldlega svona: "Hvað hafði Bismark í eldinum?" Eina rétta svarið við þessu var að sjálfsögðu "mörg járn." Flestum þóttu þessar spurningar ekki merkilegar en þær styttu okkur stundirnar sem sömdum þær. Hvort þær urðu til þess að við tileinkuðum okkur námsefnið eitthvað betur veit ég ekki. "Ólafur Blör er líklega að missa það." "Missa hvað?" "Nú kúlið maður. Hann rekur menn hægri vinstri og er hugsanlega að missa takið á svonefndum borgarstjórnarflokki Sjálfgræðisflokksins. Svo ætlar hann víst ekki á Ólympíuleikana sem er alveg glatað nú á þessum Kínatímum." "Segir hver?" "Segi ég." |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
29.7.2008 | 18:23
403. - Bilun og skringilega útlítandi moggablogg
Nú er bloggið að mestu komið í lag en lítur samt einkennilega út. Ekki eru allar fúnksjónir að fullu komnar í lag aftur en vonandi verður það bráðlega. Það að geta haft beint samband við valda bloggvini eða alla í einu sýnist mér vera góð viðbót. Bilunin í gær var í lengsta lagi. En hvað getum við sagt með okkar ókeypis aðgang? Í staðinn fyrir að senda það sem ég var þó búinn að punkta hjá mér fyrir bloggið í gærkvöldi fæ ég nú tíma til að gera það betra. Þó skömm sé frá að segja er ég er orðinn latur við að lesa blogg. Les reyndar ekki mikið þessa dagana. Það er erfitt að vera inni í svona veðri eins og verið hefur undanfarið. Og ekki get ég lesið úti. Mestur tíminn fer í að hamast við að gera ekki neitt. (sem er frekar erfitt). En til að einhverjir nenni að lesa bloggið mitt verð ég eiginlega að fylgjast eitthvað með í bloggheimum og láta sjást að ég sé lifandi. Upplagt væri að skammast svolítið út í moggabloggið fyrir að bila á versta tíma og hafa hlutina svolítið á hornum sér. Ég nenni því bara ekki. Oft hafa verið gerðir merkilegir vefir um hin og þessi mikilmenni sögunnar. Þá getur oft verið gaman að skoða. Nýlega rakst ég á merkilegan vef um Jóhannes úr Kötlum. Ég er alinn upp í Hveragerði á þeim tíma sem hann bjó þar og hann var ásamt fleiri listamönnum sem þar bjuggu eftirminnilegur mjög. Þessi vefur hefur urlið: johannes.is Jóhannes úr Kötlum var eitt helsta skáld sinnar samtíðar og mjög afkastamikill rithöfundur. Eftir hann liggja 20 ljóðabækur, 5 skáldsögur, hann þýddi fjölda bóka, ritaði greinar í blöð og tímarit og flutti erindi um stjórnmál og menningarmál. Þeir sem vilja vita meira um Jóhannes ættu að sjálfsögðu að kíkja á þennan vef. Pizzugerðarmenn hafa gert tilraunir með að láta pizzur sínar líta sem herfilegast út. Eftir því sem þær eru ljótari virðist fólk vera æstara í að borða þær. Eftir því sem liturinn á þeim er fáránlegri því betra og eftir því sem áleggið á þeim er ókræsilegra því betur seljast þær. Um þetta hafa verið smíðaðar heimspekikenningar og reynt hefur verið að yfirfæra þetta á annan mat. Það hefur gengið misjafnlega. Til dæmis hefur ekki tekist að fá fólk til að éta spæld fúlegg og útmiginn og úldinn fiskur er ekki vinsæll nema á örfáum stöðum. Ég hélt að ísbjarnarmálum væri lokið á Íslandi þetta árið. En Vestfirðingar voru eftir. Ekki dugir að láta eins og þeir séu ekki til. Það var gaman að Ólína Þorvarðar skyldi lenda í þessu nýjasta ísbjarnarmáli. Mér finnst þetta allt með dálitlum þjóðsagnablæ. Mest er ég hissa á þeim sem umfram allt vilja hjálpa ísbjarnar-ræflunum. Auðvitað er maður skíthræddur við þessi óargadýr. Gef lítið fyrir sófakommana sem óskapast yfir að þeir hafi verið skotnir. Ég var í Fljótavík í fyrra. Þangað kom ísbjörn vorið 1974 og var hann snimmendis skotinn til bana. Sögur um þann atburð lifa enn og eru talsvert magnaðar. |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
28.7.2008 | 00:30
402. - Þjónar, stöðumælar og fleira fólk
Einu sinni hélt ég að sagan um þjóninn með þumalputtann á kafi í súpunni væri bara ómerkilegur brandari á borð við allar flugnasögurnar. Svo upplifði ég þetta í raunveruleikanum. Þjónn á matsölustað hér í Reykjavík kom með súpuna til mín og var með þumalputtann á kafi í súpunni. Og auminginn ég sagði ekki múkk. En ég hef ekki borðað þarna aftur.
Nú ættu skrif að vera farin að safnast svolítið upp hjá mér. Slapp vel frá blogginu um daginn (400. blogg). Hef samt heldur lítið skrifað. Að vísu á ég einhverjar fyrningar aftarlega í Word-skjalinu sem ég nota yfirleitt fyrir bloggið. Þær eru þó flestar svo eldgamlar að þær eru ekki boðlegar.
Ég hef verið spurður að því hvers vegna í ósköpunum ég setji ekki myndir með blogginu mínu nema stundum. Nei annars. Ég hef ekkert verið spurður að því en langar bara að segja ykkur það og það hefði alveg mátt spyrja mig.
Ég blogga heldur ekki alla daga. Stundum fellur bloggið niður hjá mér þó ég hafi svosem alltaf nóg að segja. Segi ég og skrifa. Stundum hef ég einfaldlega ekki nóg af frambærilegum myndum. Mér þykir samt gaman að taka myndir og tek töluvert af þeim á nýju myndavélina mína.
Ég birti myndirnar alltaf eins og þær koma af kúnni. Það er að segja myndavélinni. Þær eru alltaf nákvæmlega eins og þær koma í vélina mína. Ég minnka þær reyndar því ég er með svo stóran kubb í vélinni að ég þarf ekki að spara pláss þar. En ég spara pláss á Moggablogginu með því að minnka þær. Það getur vel verið að einhvern tíma verði ég svo flinkur og fær að ég fari að fikta í myndunum mínum. Býst samt við að ég láti þess getið.
Ég hef nokkrum sinnum fengið hrós fyrir myndirnar. Það finnst mér skrítið. Mér finnst lítill vandi að taka þær. Mun meiri vandi að skrifa þetta hér. Myndirnar eru ósköp venjulegar finnst mér. Bara af því sem mætir flestum alla daga. Mismunandi góðar samt. Ég hendi auðvitað þeim myndum sem mistakast alveg og tek yfirleitt mun fleiri myndir en birtast á blogginu.
Einu sinni fyrir langalöngu var ég á gangi á Laugaveginum. Eitthvað varð mér starsýnt á tvær fallegar stelpur sem voru þar einnig á gangi nánast á eftir mér. Veit ég þá ekki til fyrri til en ég geng á stöðumæli svo harkalega að hann rekst af afli á mig og ég gríp andann á lofti og heykist saman. Ef ég hefði verið að skrifa í ýkjustíl hefði ég sagt að stöðumælirinn hefði ráðist á mig. Stúlkugreyin sem ég var að horfa á reyndu af alefli að halda niðri í sér hlátrinum. Sem betur fer þekkti ég þær ekkert og flýtti mér í burtu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
27.7.2008 | 01:52
401. - Ferðin mikla í Tintron
Einhvern tíma fyrir þónokkrum árum þegar Bjössi bróðir var í svæðisstjórninni (Svæðisstjórn björgunarsveita á Suðurlandi eða eitthvað þessháttar) bauð hann okkur Bjarna Harðarsyni (núverandi þingmanni) í ferð í hellinn Tintron.
Hellaferðir eru næstum því eins skemmtilegar og fjallgöngur og í eina tíð hafði ég heilmikinn áhuga á þeim. Tintron er eins og flestir vita hellir skammt frá Laugarvatni sem myndast hefur á svipaðan hátt og stóri hellirinn við Þríhjúka skammt frá Bláfjöllum. Semsagt eiginlega ekki annað en gjóta ein mikil ofan í jörðina sem víkkar eftir því sem neðar dregur. Tintron er bara miklu minni en hellirinn hjá Bláfjöllum. Innan við 10 metrar eru niður á botn í honum. Hæstur er botninn þó í miðjunni.
Farið var á svæðisstjórnarbílnum og nokkrir björgunarsveitarmenn úr Hveragerði voru með í ferðinni. Skammt frá Selfossi tók farsíminn hjá Bjössa að pípa. Á þessum árum voru farsímar sjaldgæfir. Tilkynnt var að veiðimaður hefði fallið í Sogið og væri hans saknað. Hætt væri við að hann hefði drukknað í ánni. Bjössi var beðinn að útvega menn til leitar. Einhverjir frá Björgunarsveitinni á Selfossi væru að leggja af stað í gúmmíbát.
Auðvitað var snarlega ákveðið að breyta þessari skemmtiferð í leitarferð og ekki var hægt að láta okkur Bjarna út á guð og gaddinn og fengum við því að fljóta með.
Þegar komið var yfrir brúna hjá Þrastarlundi sáum við litla flugvél á sveimi yfir Soginu. Skömmu eftir að við beygðum inn á Þingvallaveginn sáum við lögreglubíl niður við ána. Eftir svolítið maus komumst við þangað líka og þá bentu lögreglumennirnir okkur á þúst eina sem væri á leirum nokkuð langt undan landi. Hugsanlega væri það veiðimaðurinn.
Nokkrir hraustir björgunarsveitarmenn fóru strax út í ána og höfðu lítið fyrir því að athuga þessa þúst. Þetta reyndist vera lík veiðimannsins og var hann settur í líkpoka og afhentur lögreglunni. Við ákváðum hinsvegar að halda skemmtiferðinni í Tintron áfram eins og ekkert hefði í skorist. Þegar verið var að draga líkið til lands sást til ferða gúmbátsins frá Selfossi og gladdi það Hvergerðingana að hafa orðið á undan þeim.
Frá Þingvallavatni fórum við svokallaðan Lyngdalsheiðarveg í áttina að Laugarvatni og skömmu áður en við komum að Tintron fórum við í nokkuð langan helli sem ég man ekki lengur hvað heitir. Hann var svo haganlega gerður að hægt var að fara niður í hann öðru megin við þjóðveginn og koma uppúr honum hinum megin við hann. Hellirinn var semsagt opinn í báða enda.
Þegar að Tintron koma fórum við allir þar niður en ekki var ýkja mikið þar að sjá. Þó niðurferðin hafi verið auðveld var ekki hægt að segja það sama um ferðina upp úr hellinum.
Við sigum niður í hellinn á kaðli og notuðum sérstakt belti og útbúnað sem kallaður er jummarar til að komast upp aftur. Fóturinn er þá settur í kaðallykkju og með jummurunum sem haldið er á í höndunum er hægt að vega sig smátt og smátt upp kaðalinn því þeir eru þannig útbúnir að þeir renna ekki niður aftur.
Þeir yngstu og hraustustu áttu í litlum vandræðum með að komast upp og allir komumst við upp að lokum en ég man að ég átti í talsverðum vandræðum þegar ég fór að nálgast hellisopið og það var ekki fyrr en sterkur og stæltur björgunarsveitarmaður gat náð í hendurnar á mér sem ég var hólpinn. Auðvitað hefði verið hægt að draga mig uppúr hellinum eins og hvern annan kartölflupoka en til þess kom sem betur fór ekki.
Að lokum eru svo nokkrar myndir sem ég tók í dag.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
26.7.2008 | 03:26
400. - Myndir og aftur myndir
Well well well. Þetta er mitt fjögurhundraðasta blogg og rétt að hafa það svolítið öðruvísi en hin. Þessvegna eru bara ljósmyndir í því. Allar teknar í dag í ofanverðum Elliðaárdalnum. Skoði þeir sem skoða vilja.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
25.7.2008 | 11:38
399. - Af hverju er fólk eiginlega að blogga?
Sumir blogga um andstreymi lífsins í nöldurtón. Aðrir um allan fjandann. Einhverjir eru með einskonar dagbók á sínu bloggi. Nokkrir á valdi heimspekinnar. Fáeinir eins og ég. Samt ekki alveg eins. Sem betur fer. Ágætt að vera einstakur í einhverju.
Gríðarlega margir blogga um fréttir og fréttatengda atburði. Slíkt er ágætt. Það er gott að fá mismunandi sjónarhorn á ýmsa atburði. Mér finnst fréttabloggin samt vera of mörg en þau gera mér ekkert. Einn fréttabloggari hefur á undanförnum dögum komist nokkuð hátt á vinsældalistanum. Ég taldi 15 fréttablogg hjá honum sama daginn. Það finnst mér fullmikið en auðvitað geta menn notað tíma sinn eins og þeim sýnist.
Stjórnmálablogg eru oftast heldur leiðinleg. Sama er að segja um flest náttúruvænu bloggin. Þau eru ekkert skemmtileg aflestrar en þessi mál eru mikilvæg og þungi þeirra í allri umræðu á bara eftir að aukast.
Sagnfræðiblogg eru skemmtileg. Verst er ef maður kannast við þá sögu sem rakin er og hefði helst viljað hafa umfjöllunina allt öðruvísi. Þau mega heldur ekki vera of löng.
Líklega er bloggið að gera okkur ofurnæm á tímann. Ef ég vil lesa um eitthvað markvert og hef tíma til að lesa það sem ýtarlegt er þá verður bókin oftast fyrir valinu. Kröfurnar sem ég geri til sagnfræðibloggs eru þær að hnitmiðað og stuttaralega sé frá sagt. Vel má segja frá frekari heimildum og þá hefur maður val um að halda áfram ef tími er til. Í blogglestur ræðst maður oft þó tími sé naumur.
Mannlífið er svo fjölbreytt að ekki er tími til að velta sér uppúr öllu sem á fjörurnar rekur. Velja verður og hafna. Aðallega hafna.
Vandi bloggarans er sá að mögulegir lesendur hafa oftast allt aðrar hugmyndir en hann um hvað er mikilvægt. Erfitt er að skrifa svo vel að lesendur haldi áfram þó áhuginn hverfi. Maður veit samt aldrei og þessvegna er sjálfsagt að halda áfram.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
24.7.2008 | 00:28
398. - Orðskýringar: Blogg, bloggari. Forsíðubloggari
Í athugasemdum hefur verið beðið um orðskýringar. Sjálfsagt er að reyna að verða við því. Auðvitað er það bara minn skilningur sem þar kemur fram og kannski er hann rangur.
Í fyrsta lagi er spurt um orðið blogg og ýmsar samsetningar af því leiddar. Mér er sagt að orðið sé dregið af enska orðinu Weblog og dreg það ekkert í efa. Rithátturinn ætti að vera blog en með því yrði samkvæmt íslenskum framburðarvenjum o hljóðið að vera langt. Svo er ekki í enskunni og orðið blogg er líkara framburði á því máli.
Merking orðsins er flestum nokkuð ljós og mér finnst orðið tvímælalaust hafa unnið sér þegnrétt í málinu. Það er fremur deilt um uppruna og rithátt þess en merkinguna sem slíka. Mér finnst að ekki þurfi að amast við tökuorðum í íslensku ef þau falla vel að beygingarkerfinu og eru auðveld í allskyns samsetningum. Hvorttvegga finnst mér eiga við um orðið blogg. Mér finnst líka að skrifa eigi orðið með tveimur g-um.
Hitt orðið er orðið forsíðubloggari. Líklega nota ég það meira en margir aðrir. Oft skýringarlaust. Sennilega er þörf á skýringum. Einkum er merkingin nokkuð sértæk og illskiljanleg.
Mér finnst einfaldast að láta orðið einkum eiga við moggabloggara þó það gæti auðvitað að breyttu breytanda átt við aðra. Eins og flestir vita er stéttaskipting meðal moggabloggara. (Slagorð Sjálfstæðismanna um Stétt með stétt" viðurkennir auðvitað stéttaskiptingu meðan aðrir flokkar reyna að forðast að viðurkenna slíkt)
Þegar farið er á moggabloggið á Vefnum en ekki beint á síðu einhvers tiltekins bloggara birtast efst átta blogg og fyrstu orðin í þeim bloggum ásamt nokkuð stórum myndum af þessum bloggurum. Þar fyrir neðan koma síðan nýjustu bloggin og litlar myndir. Sérstakt forrit velur þessi átta blogg úr hópi sem vel mætti kalla aðal-bloggara moggabloggsins. Ég kalla þá forsíðubloggara.
Þarna er það sem stéttaskiptingin birtist. Þeir einir komast í hóp forsíðubloggaranna sem njóta til þess velvildar stjórnenda bloggsins. Þeir sem skrá sig á moggabloggið og njóta ekki velvildar guðanna eru bara réttur og sléttur pöpull. Njóta engra forréttinda en geta samt bloggað eins og þeir vilja.
Hvernig valið er í þennan hóp forsíðubloggara hefur oft verið deilt um. Ég er alls ekki að saka þá moggabloggsmenn um rangar eða óheiðarlegar aðferðir við það. Enda gæti þá verið að ég hrykki úr þessum hópi. Samt held ég að sjaldgæft sé að menn sem einu sinni komast í hópinn séu settir útaf sakramentinu fyrir það eitt að gagnrýna fyrirkomulagið.
Þetta er orðið langt mál um lítið efni. Vonandi hefur mér þó tekist að skýra eitthvað með þessum vaðli.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
23.7.2008 | 00:25
397. - Samhangandi blogg
Í beinu framhaldi af lofbloggi mínu um Sigurð Þór frá því í gær vaknar auðvitað sú spurning hvort ég sé ekki alltaf að reyna að vera eins og ég segi að hann sé. Auðvitað er svo. Ekki ætla ég að neita því. Að auki má líta svo á að ég sé að reyna að skrifa samhangandi texta yfir mörg blogg. Vel má álíta að blogg mitt um Hörpu Hreinsdóttur, Sigurð Þór og svo þessi byrjun séu með vissum hætti samhangandi. Nöldurfærslurnar tvær þar á undan eru jafnvel að sumu leyti einnig í þeirri lest. Annars er eðli bloggs mér alltaf ofarlega í huga og ég á erfitt með að blogga um annað. Samkvæmt stöplariti Moggabloggsins var IP-tölufjöldi sá sem ég fékk í gær sá þriðji hæsti á mínum bloggferli svo eitthvað er ég að gera rétt samkvæmt því. Kannski eru það bara myndirnar sem fólk vill sjá. Hvað veit ég. Læt samt eins og ég kunni að skrifa. Það er vandlifað í henni verslu. Væri ég ekki að blogga núna þá væri ég sennilega á fjöllum. Fjallgöngur eru ótrúlega skemmtilegar. Einu sinni var ég með mikla dellu fyrir þeim. Eitthvað verður maður að gera í frístundunum. Bloggið hentar vel fyrir letingja eins og mig. Hvernig getur letingi haft áhuga á fjallgöngum? Ekki spyrja mig. Raunverulegt áhugamál yfirstígur auðveldlega leti og margt fleira líka. Mundi ég skrifa svona mikið ef ég væri ekki forsíðubloggari? Veit það ekki. Ég hef alltaf verið gefinn fyrir skriftir. Einu sinni skrifaði ég dagbækur af miklum móð og þegar ég gafst upp á því var stílabókastaflinn orðinn margir tugir sentimetra á hæð. Og forsíðubloggari varð ég eflaust vegna þess hve mikið ég skrifa. Svona sundurlaus skrif eins og bloggið mitt er venjulega eiga vel við mig. Ekki veit ég hvort hægt er að kalla þetta stíl en ég er hræddur um að ef ég ætti að skrifa langt mál og ýtarlegt um eitthvert ákveðið efni þá mundi það ekki henta mér eins vel. Það er langbest að geta vaðið úr einu í annað. Stíl má líklega kalla þetta því þó svo líti út sem þessir sundurlausu molar sitt úr hverri áttinni raðist upp af sjálfu sér þá er ekki svo. Þegar ég er búinn að fimbulfamba fram og aftur þá kemur að því sem raunverulega skiptir máli. Það er að lesa yfir, lagfæra og breyta, fella niður og bæta inní og raða svo öllu saman. Ég er líka orðinn hálfóður í myndbirtingum. Ekki veit ég hvernig á því stendur en ljósmyndum var einu sinni eitt af mínum aðaláhugamálum og það er eins og áhuginn sé eitthvað að taka sig upp. Og þá er komið að myndunum. Heilar sex í þetta skipti. |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
22.7.2008 | 00:47
396. - Sigurður Þór Guðjónsson
Enginn getur lesið öll blogg. Ekki einu sinni skilið aðalatriði þeirra bestu. Ég læt mér þessvegna nægja að lesa tiltölulega fá. Eftir að Harpa Hreinsdóttir hætti að blogga hef ég verið að leita mér að uppáhaldsbloggara. Nú segir hún í athugasemd að verið geti að hún byrji að blogga aftur í haust en ég þarf að hafa einhvern á meðan.
Stefán Pálsson var lengi vel heitur og í gegnum tíðina hef ég lesið mikið eftir hann. Ég lagði honum það alls ekki til lasts að hann sagðist sjálfur vera besti bloggari landsins. Þegar hann tók svo uppá því að fara með skýringarlausar bölbænir í garð Moggabloggsins í lok hverrar einustu bloggfærslu í langan tíma missti ég trúna á honum og nú les ég bloggið hans ekki nema öðru hvoru.
Nanna Rögnvaldar er líka afar góður bloggari og fjölfróð með afbrigðum. Það er líka svo einkennilegt að matreiðslublogg geta verið ljómandi skemmtileg aflestrar þó maður kunni ekkert að elda sjálfur. Skrif hennar um Sauðargæruna voru líka afspyrnu góð. Nú verður varla framhald á því. Strákurinn hlýtur að fara að verða of gamall.
Það er nauðsynlegt að lesa öll blogg uppáhaldsbloggarans síns og nú er búinn að finna hann. Hann heitir Sigurður Þór Guðjónsson og einn aðalkostur hans er að hann virðist lesa bloggið mitt stundum og jafnvel oft. Nei annars, ég er nú ekki svo sjálfhverfur að ég meini þetta í alvöru. Ekki dregur það þó úr að hann geri það.
Sigurður bloggar stundum stutt og stundum langt. Stundum um tónskáld og hljóðfæraleikara sem ég hef engan áhuga fyrir. Stundum veðurbloggar hann miklu meira en ég kæri mig um að lesa. Stundum bloggar hann einkum um köttinn sinn og það er í lagi. Sjálfum líkar mér yfirleitt vel við ketti. En um hvað sem hann bloggar þá bregst honum aldrei orðsins list. Stíllinn er líka svo ljúfur og fljótandi að það er engin leið að misskilja hann.
Hann á það til að vera með ólíkindalæti og segist þá líta niður á bloggið. Hann kemur samt alltaf aftur og lesendurna skortir hann ekki. Oft verða skrif hans sem stundum eru með paradoxisku ívafi til þess að mjög margir vilja leggja orð í belg. Svarhalarnir verð þá svo langir að til vandræða horfir. (Hirðin??)
Þetta er ekki lengur blogglof sé ég núna heldur lofblogg. Það er ekki viðeigandi að halda áfram með þessum hætti. Svo ég hætti.
Það að minn uppáhaldsbloggari skuli vera Moggabloggari er bara viðeigandi. Mogginn hefur komið inn í bloggheima landsins með trukki og um áhrifin efast enginn. Bloggarar þar eru reyndar svo margir að trauðla verður tölu á komið og þar er vissulega margt bullið en svo er þar líka margt áhugavert.
Og svo er það hinn leyndi tilgangur minn með öllu streðinu. Semsagt að lauma nokkrum ljósmyndum fyrir augu lesenda minna.
Það er lítið gaman að skrifa um ljósmyndir. Þær þurfa að tala sjálfar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)