Bloggfærslur mánaðarins, maí 2008
Sérstakur vinnuhópur skoðar málið. Þetta er náttúrulega bara annað orðalag yfir það sem áður var kallað að svæfa mál og setja í nefnd. Þetta verður gert bæði við kvótamálið og lífeyrissjóðsmálið og menn virðast sætta sig bærilega við það. Enda ekki margt annað hægt að gera. Gott ef trukkamálin eru ekki öll komin í nefnd líka.
Frikki Gumm hefur gaman af að stríða trukkurunum. Ég er að mestu sammála honum, en nenni ekki að lesa bloggið Sturlu, læt endursögn Friðriks nægja. Kannski er rétti tíminn til að mótmæla einhverju hressilega núna. Gott er blessað veðrið. Bara spurning hverju á að mótmæla.
Nú er kominn tími á að reyna að gleyma þessum jarðskjálftamálum. Köttur systur minnar hefur ekki fundist eftir skjálftann. Eflaust tryllst af hræðslu og hugsanlega slasast. Kláus er að vísu enginn venjulegur köttur, eða það finnst okkur ekki, en katt-tjón er þó ekki sama og manntjón og vissulega er þakkarvert hve fólk hefur sloppið vel líkamlega frá þessu.
Ekki veit ég hvar ég væri staddur ef ég hefði ekki bókasöfnin hér í Reykjavík og í Kópavogi. Samt á ég talsvert af bókum og hef alltaf átt.
Verst hvað maður þarf að passa vel að komast hjá því að fá sektir. Það er þó hægt. Ég fer yfirleitt mánaðarlega á bæði söfnin, Bókasafn Kópavogs og Bókasafnið í Gerðubergi. Venjulega næ ég ekki að lesa allar bækurnar, þó ég hafi reynt að fækka þeim undanfarið. Það gerir ekkert til, ég tek þær bara aftur seinna, ef ég vil.
Ef ég færi aldrei á bókasafn, grunar mig að ég mundi annað hvort ekki lesa bækur eða eyða of miklu í þær. Tímarit les ég næstum aldrei og dagblöð afar sjaldan nú orðið. Bloggið og vefmiðlarnir hafa alveg tekið við af dagblöðunum og gera það ágætlega. Það er hvort sem er ekki nægur tími fyrir hvorttveggja.
Oft sé ég áhugaverð blogg hér á Moggablogginu og dettur jafnvel í hug að sumir ætti betur skilið en ég að vera forsíðubloggarar. Svona má maður þó ekki hugsa, heldur skal áfram haldið við að blogga fjandann ráðalausan. Minnstur vandinn er að láta sér detta eitthvað í hug. Vandamálið er frekar að setja það fram á þann hátt að einhverjir nenni að lesa. Ekki má það vera of langt og ekki of stutt heldur, því þá kemur maður ekki sínum frumlegu hugsunum að. Mér finnst blogglengdin vera aðalmálið. Ég gæti haft þau lengri, en þá er hætt við að þau yrðu lakari.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
30.5.2008 | 12:05
351. - Meira um Suðurlandsskjálftann
Ég gat ekki fengið af mér að blogga mikið í gærkvöldi. Fréttir af jarðskjálftanum voru svo heitar að undan sveið.
Í mínum huga er eitt viðtal sem situr eftir umfram önnur. Það er viðtalið við konu þingmannsins á Selfossi. Hún var bara svo eðlileg á allan hátt að lengra verður ekki komist. Gerði á flestan hátt lítið úr málum, samanborið við þær hörmungar, sem fólk annars staðar í veröldinni verður að þola, en lýsti því vel hvernig hún gat með engu móti staðið upp úr sófanum, meðan mest gekk á.
Viðtalið við Bjössa á Efstalandi, bróður Kidda á Hjarðarbóli var líka eftirminnilegt. Ég þekkti hann aldrei neitt að ráði, en Kristinn bróðir hans því betur. Tjón hans er gríðarlegt. Það kom þó ekki mjög vel fram í viðtalinu, en ég sá í blaðafrétt, að ofan á allt annað er húsið sjálft stórskemmt.
Auðvitað er efnalegt tjón fólks á hamfarasvæðinu mikið, en komi enginn alvarlegur eftirskjálfti gleymist það fljótt. Andlega örið sem eftir situr í hugum fólks er þó opið og verður það ef til vill lengi enn hjá sumum.
Svolítið undarlegt fréttamat hjá mbl.is þar sem sagt er frá því í sérstakri myndskreyttri frétt að vínbúðirnar í Hveragerði og á Selfossi verði lokaðar í dag en opið sé á Hellu og á Hvolsvelli.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
30.5.2008 | 02:50
350. - Baráttukveðjur
Bloggar | Breytt s.d. kl. 03:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.5.2008 | 02:33
349. - Lítið eitt um lífeyrismál og fleira
Lítið lagðist fyrir allar feitu yfirlýsingarnar varðandi lífeyrismálin. Ingibjörg Sólrún vakti vonir en virðist nú vera að slökkva þær. Kannski er henni vorkunn. Kannski gat hún bara ekki mjakað fólki úr sporunum. Össur átti sinn þátt í því að koma þessum fjanda á og hinir flokksformennirnir vilja ekki missa spón úr aski sínum og kjósa ekkert fremur en að þvæla málinu fram og aftur. Ég á alveg eins von á að þessi nefnd sem nú er verið tala um geti tafið málið þónokkuð ef hún vandar sig, jafnvel framá næsta vor. Birgir Ármannsson heldur frumvarpi Valgerðar Bjarnadóttur í gíslingu og útilokað er að það komi til umræðu.
Nú er svolítið farið að fyrnast yfir málið hennar Láru Ómars. Mín tilfinning var á sínum tíma sú að hún hefði verið látin fara. Helst væri líklega hægt að kenna Steingrími Sævarri um það. Það fyrsta sem heyrðist frá Láru eftir að ummæli hennar í atinu við Rauðavatn komust í hámæli var að hún bæðist afsökunar á þessum mistökum, en sæi enga ástæðu til að hætta störfum sem fréttamaður. Seinna ákvað hún að hætta og bar við trúverðugleika fréttastofu Stöðvar tvö. Á sínum tíma bloggaði Ómar Ragnarsson um þetta mál, en mér finnst að hann hefði átt að sleppa því. Málið var honum of persónulega skylt.
Menn hafa verið að bera þetta mál saman við mál Róberts Marshalls en mér finnst það ekki eðlilegt. Bæði hlupu að vísu á sig en mér finnst að mistök Róberts hafi verið stærri. Hann átti einfaldlega að athuga málið nánar. Þetta sem hann hélt fram var beinlínis of ótrúlegt til að taka það strax trúanlegt. Láru verður aftur á móti á í hita augnabliksins og mér finnst hún eyðileggja nákvæmlega jafnmikið traust á fjölmiðlinum hvort sem hún hættir eða ekki. Svona starfa fjölmiðlar einfaldlega. Setja fréttir á svið ef fréttamönnunum sjálfum finnst þeir ekki vera að falsa neitt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
28.5.2008 | 01:58
348. - George Best og gamlar bækur
Var að ljúka við að lesa sjálfsævisögu George Best sem í íslenskri þýðingu er kölluð Lánsamur". Þetta er um margt athyglisverð bók. Ekki aðeins segir hann frá uppvexti sínum og knattspyrnuiðkun heldur einnig frá baráttu sinni við áfengið og einkalífinu sem var á köflum æði skrautlegt. Margir muna eflaust eftir því að Best fékk grædda í sig nýja lifur snemma á þessari öld. Bókinni lýkur að mig minnir þar sem hann er að bíða eftir nýrri lifur árið 2002, en eins og margir muna lést Best árið 2005.
Þýðingin á bókinni er sæmileg. Á einum stað stakk það mig þó illilega að talað var um að fara með kol til Newcastle. Þetta er einfaldlega talsháttur á ensku og betur hefði farið á því að tala þarna um að bera í bakkafullan lækinn eða eitthvað þess háttar.
Eiginlega veit ég ekki af hverju ég pældi í gegnum alla bókina. Ég er ekki United aðdáandi, hættur að mestu að fylgjast með knattspyrnu, en frásögnin af því sem á daga hans dreif allt frá því að hann var lítill gutti í Belfast á Norður Írlandi og þar til hann var að drepast úr skorpulifur er bara svo heillandi.
Í gamla daga, þegar ég var unglingur, las ég mikið af bókum. Ég man eftir því að hafa oftlega fengið í jólagjöf nýjustu bláu bókina. Þetta voru þó ekki bækur um sjálfgræðisflokkinn heldur vinsælustu unglingabækur þess tíma. Einnig man ég eftir bókunum um Tom Swift sem var gríðarlega tæknilega sinnaður unglingur og lenti í mörgu.
Af bláu bókunum man ég vel eftir bók sem hét Gunnar og leynifélagið" og einnig eftir einni sem hét Sigmundur og kappar Karls konungs". Sú saga var aftan úr grárri forneskju því þessi Karl var Karlamagnús sjálfur. Sigmundur var frá Fuldu og komst til einhverra metorða við hirð Karlamagnúsar. Meðal annars þekkti hann nokkrar af hinum svokölluðu fullkomnu tölum (Talan er fullkomin ef hún er jöfn summunni af öllum þeim tölum sem ganga upp í hana) Mig minnir að fyrstu þrjár tölurnar séu 6 28 og 4096, en ég nenni ekki að ganga úr skugga um hvort það er rétt.
Ég man líka eftir að hafa lesið bókina Hetjur heimavistarskólans" og fundist mikið til hennar koma. Hún er frá Danmörku og meðal annars man ég eftir því að ljón slapp þar úr búri og gerðist mikil saga af því. Ein bók sem ég las var kölluð Blámenn og villidýr". (Eflaust full af kynþáttafordómum) Nonna og Manna bækurnar voru líka afburðaskemmtilegar. Frásögnin af bardaganum við ísbjörninn var alveg meiriháttar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
27.5.2008 | 02:49
347. - Listablogg, séra Baldur og Lára Hanna
Sá frétt um að tveir norskir bloggarar hafi sótt um listamannalaun. Hraustlega gert hjá þeim. Er ekki bara eðlilegast að þeir sem búa hlutina til segi hvort þeir eru list eða ekki? Ef ég segi að þetta blogg sé list, þá er það bara list. Hversu merkileg hún er, verða aðrir að dæma um. Ekki held ég samt að ég muni sækja um listamannalaun fyrir þetta.
Það er áhugavert að fylgjast með skrifum þeirra Baldurs Kristjánssonar í Þorlákshöfn og Láru Hönnu um Bitruvirkjun. Baldur vill náttúrulega fá iðnað í sveitarfélagið og nú lítur meira að segja út fyrir að hann fái ekki einu sinni vatnið hans Jóns Ólafssonar. Þessvegna er hann svolítið sár yfir að Bitruvirkjun skyldi vera slegin af. Lára Hanna er hins vegar sigri hrósandi og ég lái henni það ekki.
Baldur er talsvert beittur þegar kemur að flóttamannamálum, rasisma og þess háttar. Nú er hann farinn að skattyrðast við Moggann og tala um Jyllandspost-teikningarnar meðal annars.
Ég held að við þurfum að fara dálítið varlega þegar heilu þjóðirnar eru dæmdar eftir sögusögnum og blaðafréttum af einstökum atvikum. Ekki dreg ég samt í efa að viðbrögð margra við nefndum teikningum voru alltof harkaleg. Kannski eru voðaverkin sem sögð eru tengjast þessum málum einangruð dæmi um vandræðamenn sem æstir hafa verið til óhæfuverka. Engar æsingar urðu hér á landi þegar æran var dæmd af Úlfari Þormóðssyni um árið eða þegar Spaugstofumenn voru teknir á teppið. Var ekki málfrelsi þeirra mikilvægt?
Í mínum huga er spurningin í þessu máli sú hvort skuli setja ofar málfrelsi eða mannréttindi. Þar stendur hnífurinn í kúnni, ef svo má segja. Má ég segja allt, bara ef það er satt, eða á ég að taka tillit til annarra?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
26.5.2008 | 00:18
346. - Stjóraleikurinn Hattrick og sveitasíminn á Nesinu
Ég tók þátt í knattspyrnustjóraleiknum Hattrick (http://www.hattrick.org/) af miklum áhuga þangað til ekki alls fyrir löngu. Í þetta má vel eyða drjúgum tíma, en líka er hægt að gera það sem gera þarf á mjög stuttum tíma. Kaup á leikmönnum gátu verið ótrúlega spennandi. Líka jókst verðmæti eigin leikmanna við þjálfun.
Af einhverjum ástæðum datt áhugi minn á þessum leik allt í einu niður. Leikurinn er þó á margan hátt mjög góður. Alveg ókeypis, mikil samskipti við aðra ef maður vill það viðhafa o.s.frv. Kannski ég fari bara að taka þátt í honum aftur. Mig minnir að það hafi verið svona 4 - 5 hundruð Íslendingar sem tóku þátt í leiknum og líklega um milljón manns í öllum heiminum. Leikurinn er upphaflega sænskur og margir svíar sem taka þátt í honum.
Sveitasíminn, já. Margir hafa rætt um það þarfaþing. Þegar ég kom að Vegamótum var hann í fullu fjöri. Þar var svolítið stundað að liggja á línunni en yfirleitt nenntu menn ekki svoleiðis veseni. Allir sem töluðu vissu að verið gat að einhver væri að hlusta og gættu orða sinna.
Símstöðin var á Hjarðarfelli eða nánar tiltekið að Hvammi. Eitt símtæki var í veitingahúsinu og annað í versluninni. Enginn sími var í íbúðarhúsinu mínu sem var í 100 til 200 metra fjarlægð frá veitingahúsinu og búðinni. Það var samt millisamband þaðan og niður í veitingahús. Síðan var kallkerfi milli veitingahússins og verlsunarinnar. Rosaleg tækni hefur þetta verið.
Morguninn eftir að eldgosið hófst í Eyjum var ég úti í búð og kveikti á útvarpi þar. Þegar ég var búinn að átta mig á hvað var eiginlega verið að tala um, flýtti ég mér að fara í kalltækið og segja þeim sem voru í veitingahúsinu að hlusta á útvarpið.
Fundarhringingin í sveitasímanum var fimm langar og einhver sú mest spennandi þar. Hún var yfirleitt notuð í hádeginu eða um sjöleytið um kvöldið þegar koma þurfti einhverjum tilkynningum til allra. Yfirleitt var símstöðin beðin að framkvæma slíkar hringingar því það var rafmagnshringing og miklu flottari en handvirka snúningsaðferðin. Síðan las sá sem tilkynningunni vildi koma á framfæri gjarnan upp nöfnin á bæjunum og sá sem var að hlusta sagði hátt og skýrt: "Já" þegar rétti bærinn var nefndur. Síðan var tilkynningin lesin og gat hún svosem verið um hvað sem var.
Horfði á Silfur Egils í dag. Svei mér ef ríkisstjórnin ætlar ekki að heykjast á eftirlaunamálinu eftir allt saman. Hélt að Ingibjörg og Geir hefðu gert sér grein fyrir því að ætlast er til að þau þrífi upp þessa vitleysu og hætti að láta eins og fífl.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
25.5.2008 | 00:08
345. - Magnúsarmálið, skúrar, netbóla og ferðasögur
Magnúsarmálið heldur áfram að þvælast fyrir Frjálslynda flokknum. Ég get ekki að því gert að mér finnst Egill frændi (austurlandaegill.blog.is) hafa komist vel að orði á blogginu sínu þegar hann kallar þá sem berjast gegn komu flóttamannanna til Akraness "landslið fábjána". Ég hef áður bloggað um þetta mál og þeir sem mitt blogg lesa vita mínar skoðanir á því, svo ég ætla ekki að fjölyrða meira um það.
Áhugaverðar pælingar um skúra mynduðust í kommentakerfinu mínu með síðustu færslu. Mér datt ekki einu sinni í hug að Nanna Rögnvaldardóttir læsi bloggið mitt. Ég las bloggið hennar oft áður fyrr (alltof sjaldan nú orðið) og sögurnar hennar af Sauðargærunni, sem hún kallaði svo, eru einfaldlega með því allra besta sem ég hef lesið um börn. Þó hugleiðingar hennar um skúrir og skúra séu kannski í andstöðu við einhverjar orðabækur tek ég fullt mark á þeim. Mér finnst bera of mikið á því að menn séu afdráttarlausari í dómum um íslenskt mál en ástæða er til. Sjálfur er ég eflaust ekki betri en aðrir.
Ég og systir mín þóttumst vera voðalega gáfuð og ég man að við gerðum oft grín að mömmu fyrir að nota orðalagið "mig stansar á" þegar hún var hissa á einhverju. Nú kemur mér síður til hugar að sýna yfirlæti ef ég heyri orðalag sem mér finnst einkennilegt.
Á dögum netbólunnar voru oft í dagblöðunum fréttir af alls kyns fyrirætlunum. Morgunblaðið sem ég las gjarnan á þeim tíma, var oft uppfullt af því hvað hinir og þessir höfðu í hyggju að gera á Netinu. Blaðamannsgreyin skildu stundum greinilega ekki hvað var verið að tala um, en reyndu að skrifa gáfulega um efnið. Auðvitað runnu þessar ráðagerðir miklu oftar út í sandinn en að eitthvað vitrænt kæmi út úr þeim.
Mér er líka minnisstæð ein stórfrétt úr Mogganum frá því fyrir Netvæðinguna. Þar var skrifað um það hve dýrt væri að vera áskifandi að BBS-um hér á Íslandi. Blaðið hefði áreiðanlegar upplýsingar um að þessi kostnaður væri miklu minni í Bandaríkjunum og birti símanúmer eitt því til sönnunar. Þetta símanúmer væri tengt tölvu með svonefndu módemi og þangað væri hægt að sækja allskonar forrit og hvers kyns upplýsingar. Alveg gleymdist að geta þess að til að tengjast þessu símanúmeri þurfti að greiða fyrir símtal til Bandaríkjanna. Á þeim tíma var það fjarri stofnuninni "Póstur og Sími" að gefa slíkt.
Í fyrra fylgdist ég af áhuga með ferð tveggja mótorhjólamanna umhverfis hnöttinn. Ferðasagan birtist hér á Moggablogginu (sverrirt.blog.is) í mörgum hlutum og það var verulega áhugavert að fylgjast með þessu. Nokkru fyrr fylgdist ég með ferð útlendinga á kajökum í kringum Ísland. Það var líka mjög áhugavert. Mér finnst einfaldlega eins og ég sé orðinn þátttakandi í svona ferðum ef ferðasagan er vel og skemmtilega skrifuð. Ég fylgist þó ekki með neinu af þessu tagi um þessar mundir og er það skaði. (Það er þá helst austurlandaegill, en hann er ekki alveg úr þessari skúffu)
Get ekki neitað því að ég kíkti aðeins á söngvakeppnina, þó ég þyrfti að horfa á aksjónina í litlum glugga í tölvunni. Berthold (bert hold) stóð sig vel þarna eins og við var að búast. Mikið ef hann er ekki bara að taka þessa söngvakeppni yfir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
24.5.2008 | 01:19
344. - "Hvort viltu heldur vera ánægt svín eða óánægður Sókrates?"
Þegar ég las kommentið frá Benedikt Axelssyni við mitt næstsíðasta blogg datt mér í hug setningin: "Hvort viltu heldur vera ánægt svín eða óánægður Sókrates?" Þetta er setning sem ég heyrði fyrst fyrir margt löngu. Með árunum hef ég sífellt hallast meir og meir að svíninu.
Mér finnst samt ekkert varið í að vera "bara" vinsæll. Það er margt annað sem ég vildi fremur vera. En auðvitað ræður maður því ekki sjálfur. Mér finnst mjög gaman að fá slatta af kommentum í kerfið mitt, jafnvel þó þau séu frá Benedikt Axelssyni eða Gunnu á Þursstöðum. Það fær mig til að trúa því, að einhverjir lesi það sem ég skrifa.
Einu sinni átti ég í vandræðum með að vera meðal 400 vinsælustu Moggabloggaranna, en nú er það ekki vandamál lengur, svo er Árna Hattímasar fyrir að þakka. Það er mér heldur ekkert vandamál að fimbulfamba eitthvað hér daglega. Ég reyni samt að hafa það sæmilega læsilegt og skiljanlegt, sem er meira en sumir gera.
Það var Haraldur Á. Sigurðsson leikari og feitabolla sem sagði einhvern tíma: "Allt sem eitthvað er varið í er annað hvort fitandi eða ósiðlegt". Nú er eiginlega ekkert ósiðlegt lengur. Að minnsta kosti ekki í kynferðismálum, en ég held að Haraldur hafi átt við eitthvað slíkt. Aftur á móti er bókstaflega allt orðið fitandi. Sérstaklega það sem ódýrt er. Getirðu talið einhverjum trú um að eitthvað sé ekki mjög fitandi, er samstundis kominn grundvöllur til að selja það á uppsprengdu verði.
Ég er alltaf talsverður "stickler" fyrir málfari og á erfitt með að þola að aðrir noti verra mál en ég tel hæfilegt. Í veðurspá sjónvarpsins 20. maí s.l. var talað um að búast mætti við að einhverjir skúrir yrðu. Kynvilla af þessu tagi fer ákaflega í taugarnar á mér. Ég ólst upp við að regndropaskúrir væru kvenkyns en geymsluskúrar karlkyns. Frá þessu vil ég helst ekki hvika og þori ekki einu sinni að líta í orðabók þessu til staðfestingar, því auðvitað gæti þarna verið um einhvern mállýskufjanda að ræða, en ekki naglfast íslensku-lögmál.
Einn af þeim bloggurum sem ég les alltaf bloggið hjá er Arnþór Helgason. (arnthorhelgason.blog.is) Arnþór er skemmtilegur bloggari og kemur víða við. Í nýjasta bloggi sínu gagnrýnir hann Reykjavíkurborg fyrir lélegt aðgengi að upplýsingasíðum sínum. Fyrirsögnin hjá honum er svona: "Brýtur Reykjavíkurborg mannréttindi með heimasíðu sinni?" Ég segi bara frá þessu, því hugsanlega eru það allt aðrir sem lesa mitt blogg að jafnaði en hans og þessi ádrepa á erindi til margra.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
23.5.2008 | 00:06
343. - Snemmsumars árið 1970 fluttist ég að Vegamótum á Snæfellsnesi
Sumarið 1970 tók ég við starfi útibússtjóra við útibú Kaupfélags Borgfirðinga að Vegamótum á Snæfellsnesi. Þarna var þá rekin verslun og veitingahús og starfsfólk var svona um 10 - 12 yfir sumarið, en mun færri að vetrinum.
Það var Ólafur Sverrisson kaupfélagsstjóri í Borgarnesi sem réði mig til starfans, en áður hafði ég starfað sem verslunarstjóri í verslun Silla og Valda að Hringbraut 49 í Reykjavík. Ólaf hitti ég í Sambandshúsinu við Sölvhólsgötu eftir að hafa svarað auglýsingu í Morgunblaðinu. Ólafur var faðir Ólafs ríka í Samskipum og sonur Sverris sem á sínum tíma var formaður Stéttarsambands bænda. Þegar ég flutti vestur var Gunnar Guðbjartsson á Hjarðarfelli formaður þeirra samataka. Hjarðarfell er skammt frá Vegamótum.
Kynnisferð vestur á nes hafði ég farið nokkru áður en ég tók við rekstrinum, en ég man að mér þótti samt óravegur að fara þangað. Búslóðin hafði farið með bíl frá Kaupfélagi Borgfirðinga nokkrum dögum áður, en þegar að því kom að flytja hana frá Hávallagötu 44 var ég einn við að bera dótið út í bíl ofan af annarri hæð. Ég hamaðist svo mikið við það að bílstjóranum, Aðalsteini Björnssyni þótti nóg um og sagði við mig að starfsfólk kaupfélagsins vildi eflaust frekar fá mig lifandi en dauðan uppeftir.
Þegar við hjónin mættum á okkar ljósgræna Moskovíts með strákana okkar litlu tvo að Vegamótum man ég að starfsfólkið allt hafði raðað sér upp við borðið í eldhúsinu og ég mátti gjöra svo vel að ganga á röðina og taka í hendina á hverjum og einum. Ég man þetta svo greinilega vegna þess að mér þótti þetta óþægilegt og bera vott um virðingu, sem ég ætti tæplega skilið.
Allt gekk þetta þó vel og þó mikið væri að gera í fyrstunni var ágætt að vera þarna í sveitinni. Ég var við afgreiðslu í búðinni og mér til aðstoðar þar var Bragi Ingólfsson frá Straumfjarðartungu. Honum þótti gott að sofa svolítið frameftir á morgnana og eitt kvöldið var frá því sagt í fréttum að forsætisráðherra landsins Bjarni Benediktsson mundi fara vestur á Snæfellsnes daginn eftir. Bragi hafði orð á því að gaman yrði að sjá ráðherrann.
Þegar ég vakti Braga síðan morguninn eftir, sagði ég honum glóðvolgar fréttir úr útvarpinu og að ekki yrði honum að ósk sinni um að sjá forsætisráðherrann, því hann hefði brunnið inni á Þingvöllum um nóttina. Ég man að Braga var talsvert brugðið við þetta.
Bragi hætti í versluninni um haustið og Valgeir bróðir hans tók við. Bragi fór á sjóinn en tók út af bátnum sem hann var á og drukknaði. Hann var elstur ellefu systkina frá Straumfjarðartungu og kynntist ég þeim öllum og foreldrum þeirra einnig.
Að sjálfsögðu kynntist ég líka öðrum í sveitinni og voru þau kynni öll hin ánægjulegustu. Lífið þarna var skemmtilegt og ólíkt öllu sem ég hafði áður kynnst. Starfsfólkið var flest úr sveitinni en þó voru einhverjir úr Borgarnesi.
Rétt við Vegamót var Holt þar sem Einar Halldórsson frá Dal bjó ásamt fjölskyldu sinni. Íbúð hans var áföst bílaverkstæði sem hann rak og einnig spilaði hann á böllum í héraðinu ásamt Sigvalda í Skjálg. Hinum megin við Vegamót var Lynghagi. Þar bjó Sigurþór Hjörleifsson frá Hrísdal ásamt konu sinni og ungum syni. Sigurþór var veghefilsstjóri ásamt því að vera mikill íþróttamaður og áhaldahús frá vegagerðinni var skammt frá Vegamótum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)