Bloggfærslur mánaðarins, maí 2008

342. - Vinsældablogg og kostir vinsældaleysis

Af hverju er maður að eyða tíma í þetta bloggstand? Jú, annað hvort vandar maður sig svolíðið við það sem maður lætur frá sér fara, eða maður lætur það ekki fara frá sér. Sem verður svo til þess að maður eyðir óhóflegum tíma í þetta stúss.

Ég blogga aldrei nema einu sinni á dag. Finnst það kappnóg. Á móti kemur að ég er ansi langorður og þarf yfirleitt að minnast á margt í hverju bloggi. Stundum er mér svo mikið niðri fyrir að ég er ekki fyrr búinn að senda eitt blogg frá mér, en ég er byrjaður á því næsta. En er það ekki tóm vitleysa að vera að skrifa um hitt og þetta? Væri ekki nær að einbeita sér að einhverju ákveðnu og reyna að gera það almennilega?

Friðrik Þór hamast nú við að skrifa sig til vinsælda. Mér finnst það hið besta mál. Pistlar hans eru stundum áhugaverðir. Upprifjun hans á atburðunum 1984 var fróðleg. Ég man að um þetta leyti átti ég heima í Borgarnesi og óneitanlega fann maður fyrir því hvað fjölmiðlarnir eru mikilvægir og áhrifamiklir. Ekkert var bloggið. Kjaftasögur og símafréttir var það eina sem maður hafði. Ekki heyrðist í Hannesi uppí Borgarnes. Og ekki voru útlendu stöðvarnar að mata mann á heimsfréttunum. Svo fór Bjarni Harðarson, sem þá var á Tímanum, að gefa út fréttablað með félögum sínum. Ég sá um dreifingu á því í Borgarnesi, eða réttara sagt Hafdís dóttir mín, ef ég man rétt.

Sigurður Þór Guðjónsson, sem einbeitir sér um þessar mundir að veðurbloggi kommentar á gamla færslu hjá mér og segir þar meðal annars: "Það er mín skoðun að vinsælustu bloggararnir, með fáum undantekningum, séu þeir allra leiðinlegustu á Moggablogginu."

Það er líklega nokkuð til í þessu hjá honum og samkvæmt því má ég þakka fyrir að hafa aldrei komist á bloggtoppinn sjálfan. Aðeins séð móta fyrir honum í fjarska.


341. - Um útlendingahatur og annan aumingjaskap

Umræðan er þannig núna, að það er varla hægt annað en blogga um flóttafólk og útlendinga-andúð. Stíga verður þó varlega til jarðar, því greinilega eru margir afar viðkvæmir hvað þetta snertir.

Ég er alveg hissa á Magnúsi Þór Hafsteinssyni að láta svona útaf flóttafólkinu sem væntanlegt er til Akraness. Með því að vera svona reiður, persónulegur og skömmóttur er hann búinn að stórskaða bæði Frjálslynda flokkinn og Akurnesinga yfirleitt. Það getur vel verið að þetta mál sé upphaflega einskonar pólitísk aðför að Magnúsi, en mér finnst að hann hefði ekki átt að loka svona rækilega á eftir sér þegar hann fór fyrst útá torg að góla. Það er hætt við að hann sé á útleið úr íslenskri pólitík.

Margir blanda af kappi flokkapólitík í þann kokkteil sem innflytjenda- og flóttamannamálin eru orðin. Verst held ég að þessi umræða sé fyrir flóttafólkið sjálft, sem hingað kemur og líklega til Akraness. Andstæðingar Frjálslyndra flokksins reyna eftir mætti að koma á hann rasista-stimpli. Oftast eiga talsmenn hans auðvelt með að hreinsa sig af þeim ásökunum. Samt er það svo, að þeir sem rasískar skoðanir hafa vita alveg hvert þeir eiga að leita. Það sést ef rannsakaður er hópur kjósenda með tilliti til rasískra skoðana.

Skrípamynd sem Sigmund gerði og sýnir frú Clinton bera í potti hjá mannætunni Obama er talsvert á milli tannanna á fólki. Íslendingar þekkja Sigmund og vita vel að svona mega skrípamyndir alveg vera. Eitthvað hefur myndin samt farið fyrir brjóstið á útlendingum, en þeir eru nú svo skrítnir. Ég þori eiginlega ekki að linka í þessa mynd eða birta hana hér, en treysti því að allir hafi séð hana. Er virkilega einhver ný Jótlandspósts-mynd á ferðinni hér?

Í einhverjum tilvikum er víst búið að loka fyrir að menn geti linkað á fréttir hér á Moggablogginu. Kannski er betra að vara sig með vísnabloggið. Þar linka ég ævinlega í fréttir, en aldrei hér. Hver er eiginlega galdurinn? Að enginn kvarti nokkurn tíma? Er um að gera að vera nógu meinlaus og þægur? Er ég það? Málfrelsið er vandmeðfarið. Andstæðingar mínir í höfundarréttarmálum gætu hæglega kvartað undan mér. Ég var ósammála ýmsu í málflutningi Vilhjálms Arnar og á hans bloggi var talað um að fá blogginu mínu lokað. Kannski ekki í mikilli alvöru, en hvað veit ég?

Nú sé ég að púkinn hefur svarað svari mínu við athugasemd hans frá því á sunnudagskvöldið. (það var þá sem ég skrifaði bloggið) Síðan er ég búinn að blogga tvisvar (að þessu bloggi meðtöldu). Það er einkum þetta sem ég sé að löngum svarhölum. Áhugaverð skoðanaskipti eiga sér oft stað þar, en þau verða oft marklausari en vera þyrfti, vegna þess að margir vita ekki af þeim. Mér er engin vorkunn að taka eftir þessu tilskrifi púkans, því það kemur tilkynning til mín um það á stjórnborðinu, en aðrir lesendur bloggsins (sem hugsanlega eru þónokkrir) eiga á hættu að missa af þessu.

Guðni frá Brúnastöðum hefur hátt um hvalveiðar í ríkisútvarpinu og talar um að bergmáli hlátur í öllum fjöllum heims. Ef allir væru sammála um að það væri langmikilvægasta málefnið í veröldinni hvort þessar hrefnur verða veiddar eða ekki, gæti verið að hann hefði eitthvað til síns máls. Það er auðvitað vandræðalegt fyrir Ingibjörgu Sólrúnu að hafa eina skoðun á þessu máli til heimabrúks, en aðra erlendis. Það hafa stjórnmálamenn þó oftlega neyðst til að gera.


340. - Um Moggabloggið, höfundarréttarmál, Bitruvirkjun, forseta lýðveldisins og fleira

Moggabloggið og höfundarréttarmál eru meðal þess sem ég hef mestan áhuga fyrir. Þess vegna bregður mér ekki vitund þó ég fái neikvæð komment við færslum mínum um þau mál. Að sjálfsögðu eru ekki allir sammála mér.

Þegar Villhjálmur Örn Vilhjálmsson sá að honum tókst ekki að æsa mig upp með löngum og ítarlegum kommentum brá hann á það ráð að gera sérstaka bloggfærslu með bölbænum um mig. Eftir að hann sá að það hafði heldur ekki áhrif, lét hann mig í friði. Ágreiningur okkar spratt upphaflega af málefnum tengdum skák, sem segja má að sé einnig sérstakt áhugamál mitt.

Varðandi höfundarréttarfærsluna frá í gær svaraði ég púkanum í kommenti við síðustu færslu og ætla að láta það duga að sinni, nema sérstakt tilefni gefist til annars.

Höfundarréttarmál eru málefni sem endalaust má þrasa um, án þess að komast að nokkurri niðurstöðu. Dómstólar eru á margan hátt illa færir að fjalla um þessi mál eins og margt sem snertir nýjustu tækni og Netið. Þó verður ekki hjá því komist að þeir skeri úr um ágreiningsefni. Það er nú einu sinni aðferð lýðræðisins og fyrir því þurfum við öll að beygja okkur.

Mér skilst að bloggfærsla mín frá því á laugardaginn hafi birst í næstum því heilu lagi í Mogganum í gær. Sú færsla var um Bitruvirkjun og þar lagði ég til að þeirri virkjun yrði slegið á frest. Nú er skipulagsstofnun búin að tilkynna um ákvörðum sína og að sjálfsögðu var hún í anda þess sem ég lagði til. Nei annars, ég er nú ekki svo innbildskur að ég haldi að ég hafi haft áhrif í þessu máli. Hins vegar held ég að Lára Hann Einarsdóttir hafi haft það.

Ég man vel eftir öllum forsetum lýðveldisins nema Sveini Björnssyni. Þegar ég var að verða tíu ára var Ásgeir Ásgeirsson tekinn fram yfir Séra Bjarna. Bróðir Ásgeirs, Ragnar að nafni, bjó að Helgafelli í Hveragerði. Það hús var við Hveramörkina rétt hjá Kvennskólanum. Þangað kom Ásgeir oft í heimsókn og ég man að okkur krökkunum þótti talsvert til þess koma.

Þegar Kristján Eldjárn var kjörinn forseti hafði ég í fyrsta sinn kosningarétt við forsetakosningar. Auðvitað kaus ég hann og hef aldrei kosið aðra í forsetakjöri en þá sem sigrað hafa. Næst var það Vigdís og þá bjó ég í Borgarnesi og flutti ræðu á kosningavöku til stuðnings henni þar. Síðan var það Ólafur kallinn sem enn situr og hugsanlega mun sitja lengi enn.

Ef sjónvarpið hættir ekki þessum sífelldu klósett-auglýsingum sínum endar það með því að ég verð að hætta að borða fyrir framan sjónvarpið. Ha? Er öllum sama um það? Það getur bara ekki verið.


339. - Um Moggabloggið enn og aftur. Einnig dálítið um Ístorrent og annað þess háttar

Síðasta blogg mitt virðist hafa vakið dálitla eftirtekt. Að minnsta kosti eru athugasemdirnar við það fleiri og lengri en oft áður. Friðrik Þór Guðmundsson virðist hafa skilið það sem einskonar árás á sig og eftirá séð, get ég vel skilið það. Sú var þó ekki meiningin. Hans skrif um Moggabloggið eru markverð og þó sumum finnist ef til vill heldur fáfengilegt að vera að blogga um blogg, þá er ég alls ekki í þeim hópi.

Ég taldi mig hinsvegar í þessu umrædda bloggi einkum vera að gagnrýna fréttalinkið, sem margir misnota herfilega. Það að skrifa hvað eftir annað sama daginn og oft ekki nema fáeinar línur í einu, reyna að hafa fyrirsögnina krassandi og linka í vinsælar og mikið lesnar fréttir, er að mínu mati misnotkun á þessum ágæta miðli.

En mega menn ekki misnota þetta form, ef það er hægt. Jú auðvitað, en ég er að biðja stjórnendur bloggsins um að íhuga fleira en bara aðsóknartölur. Það geta þeir gert með mörgu. Til dæmis eru tillögur þær sem Bjarni Rúnar Einarsson hefur sett fram á sínu bloggi (herrabre.blog.is) og að mig minnir einnig í kommentum við mitt blogg, allrar athygli verðar.

Enn og aftur er istorrentmálið komið á dagskrá. Nú hafa þau samtök sem Hæstiréttur gerði afturreka fyrir stuttu, höfðað nýtt mál á hendur félaginu sem rekur vefsíðuna og þarmeð er sagt að lögbannið taki aftur gildi, hvernig sem það má vera.

Ég hef áður lýst yfir samúð minni með þeim torrent mönnum og hlotið heldur bágt fyrir. Ég tel mig alls ekki vera að hvetja til lögbrota þó ég segi að ég sé almennt á móti þeim höfundarréttarreglum sem hér gilda og styðji þá ístorrentmenn í því sem þeir eru að gera. Framtíðin liggur í því að vinda ofan af þeirri vitleysu sem viðgengist hefur. Á því er enginn vafi að Internetið og þau aðveldu samskipti sem það býður upp á, beinlínis kalla á skynsamlegri reglur um höfundarrétt.

Höfundarréttarmál eiga bara eftir að verða umdeildari og umdeildari ef svo fer sem horfir. Samtök höfunda verða alltaf nokkrum skrefum á eftir þeim sem vilja sýna þeim í tvo heimana. Fyrir dómstólum koma þeir til með að vinna eitt og eitt mál, en höfundar mundu áreiðanlega hagnast mun meir á því að semja skynsamlega við þá sem torrentunum ráða og annarri framsækinni tækni.

Salvör Gissurardóttir (salvor.blog.is) fjallar um þessi mál á sinni bloggsíðu og ég hvet alla til að kynna sér það sem hún hefur að segja. Einnig er auðvitað hægt að fara beint á istorrent.is.


338. - Um aðferðir við að Moggabloggast og svolítið um skrif í lausu máli og föstu

Það kom fram í vinsældaumræðunni hér um daginn að þónokkur fjöldi fólks skrifar á Moggabloggið einkum til að fá sem hæstar innlitstölur og leggur mikið á sig til að ná árangri þar.

Menn geta kallað þetta tilraunir með hitt og þetta og afsakað hegðun sem er nánast óafsakanleg og alls ekki til eftirbreytni. Í rauninni eru þeir að sýna lesendum sínum fyrirlitningu og segja við þá: "Þið eruð nú bara tölur á blaði og ég er svo mikill og merkilegur að ég get möndlað með þessar tölur mér í hag".

Það er að vísu greinilegt að fólki er mismunandi sýnt um að koma hugsunum sínum í orð og margir virðast vera á því að mikilsvert sé að mynda sér sem allra fyrst skoðun á sem flestu. Ef frétt birtist um eitthvað mál sem lítur illa út í frásögn blaðamanns eru margir fljótir að linka í þá frétt og láta skoðanir sínar í ljós með sem allra sterkustum orðum. Ég held að þessi flýtir sé kominn frá sókninni í innlitstölur.

Sú aðferð þeirra Moggabloggsmanna að leyfa öllum að gera athugasemdir við fréttir og nota svo þær aðsóknartölur sem þannig fast, til að auka ímyndaðar vinsældir finnst mér ekki hafa gefist vel. Athugasemdir við fréttir finnst mér að ættu bara að vera þar og ekki fara neitt lengra. A.m.k. ekki sjálfkrafa á blogg viðkomandi.

Mér finnst líka að hugmyndin með bloggvini sé dálítið marklaus orðin þó hún sé á margan hátt ágæt.

Það er oft erfiðara að koma frá sér lausu máli en vísum. Það er að segja ef vísurnar mega vera um hvað sem er. Að gera vísu um eitthvað ákveðið efni getur samt verið snúið. Vísurnar eru þannig, að hugsunin mætir að mestu afgangi. Rímið, stuðlarnir og hrynjandin taka völdin. Ef hugsunin er í lagi, má segja að komin sé vísa, ef helstu bragfræðireglur eru líka í lagi. Ef hugsunin er góð, vísuorðin hnyttin og í góðu innbyrðis samræmi, þá er vísan góð. Slíkar vísur eru þó sjaldgæfar.

Í lausu máli þarf hinsvegar hvert orð að hafa nákvæma merkingu, ef ætlunin er að koma hugsun sinni til skila. Blær orðsins þarf líka að vera réttur. Orð sem tákna nákvæmlega það sama geta vel haft mismunandi blæ.

Mér dettur í hug dæmi. Á bloggi um daginn sá ég talað um sumarið og svanasöng. Ef þarna hefði verið talað um garg í álftum hefði það valdið annarskonar hugrenningum hjá lesendum.


337. - Um Bitruvirkjun, Hengilssvæðið og ýmislegt fleira

Ég er fæddur og uppalinn Hvergerðingur og stundaði talsvert útilegur á Hengilssvæðinu á unglingsárunum. Þekki vel Ölkelduháls og allt svæðið milli Þingvallavatns, Ingólfsfjalls, Hveragerðis og Nesjavalla, svo mér ætti að koma það eitthvað við, sem nú ber hvað hæst í fréttum. Þar að auki þekki ég  Láru Hönnu ágætlega síðan við unnum saman á  Stöð 2 fyrir talsvert löngu.

Ég hef ekkert lagt til þessara mála hingað til vegna þess einfaldlega að ég er beggja blands um það hvort rétt sé að virkja þá orku sem greinilega er til staðar á þessu svæði. Ég trúi því ekki að það séu einhverjir hryðjuverkamenn sem komið hafa að þessu máli fyrir hönd Orkuveitunnar. Mín vegna getur þetta þó allt tengst REI og borgarstjórninni í Reykjavík.

Ég efast ekkert um einlægni þeirra sem barist hafa gegn þessu. Það er langur vegur frá að ég gruni til dæmis Láru Hönnu um að hafa einhver persónuleg sjónarmið í huga við baráttuna gegn Bitruvirkjun.

Eins og séra Baldur í Þorlákshöfn hefur sagt á sínu bloggi þá er ákaflega slæmt að skipulagsmál verði til þess að nágrannasveitarfélög fari að þrátta um mengun og þess háttar. Þó ég sé fæddur í Hveragerði hef ég miklar taugar til Ölfusinga. Það sem nú heitir Hveragerði var einu sinni bara hluti af Ölfusinu.

Ég held að það mundi verða öllum til heilla ef framkvæmdum við Bitruvirkjun yrði slegið á frest. Mér finnst þurfa góðar ástæður til þess að koma þeirri virkjun fyrr í gagnið en öðrum virkjunum sem ráðgerðar eru á þessu svæði.

Hverasvæðið á Ölkelduhálsi er sérstakt og óvenjulegt. Sömuleiðis er heiti lækurinn í Klambragili einstakur. Fallegustu hverirnir finnst mér þó vera í Grensdal (sem nú er oft kallaður Grændalur). Skálarnir sem Orkuveitan hefur komið upp við Klambragil og í Engidal eru gott framtak og hafa lengi þjónað ferðamönnum á þessum slóðum. Sömuleiðis hefur Orkuveitan unnið gott starf við merkingu gönguleiða og ýmislegt annað.

Vinsældir eru vandmeðfarnar. Er það einhvers virði að margir lesi bloggið manns? Ég held varla. Auðvitað er þó slæmt, ef sárafáir lesa það. Þarna er vandrataður millivegurinn. Er Moggabloggið lakara en önnur bloggsetur? Ég held ekki. Þeir Moggabloggsmenn byggja á því að margir taki þátt. Þannig fá þeir fjöldaaðsókn og hún er bara af því góða.

Ég varð hissa á því um daginn að snillingarnir í Reykjavíkurliðinu skyldu ekki kannast við Sæmund í kexinu. Á eftir Sæmundi fróða hélt ég að hann væri þekktasti nafni minn. Margt og mikið mætti tala um kex. Enda til dæmis á fótboltaliðinu West Ham, en ég treysti því, að þeir sem mögulega hafa áhuga á slíku, séu duglegir að gúgla. Staðreyndaþvælan getur verið áhugaverð, en er oft leiðinleg.

Jón Valur Jensson er greinilega duglegur að gúgla. Svo hefur hann góðan talanda, þó röddin sé ekkert sérstök, er vel skrifandi og vel að sér um marga hluti. Skoðanir hans á ýmsu eru þó mjög andstæðar mínum.


336. - Friðrik Þór kemur ýmsu af stað. Úr hæðunum til Gísla Baldvinssonar

Bloggið hjá Friðriki Þór Guðmundssyni um Moggabloggið hefur greinilega vakið talsverða athygli. Margir kommenta á það og meðal annars er þetta komment hér frá Gísla Baldvinssyni:

 

Eitt finnst mér merkilegt. Það er valið á ykkur þarna "efra" með stöðuga birtingu og 200% stærri mynd. Stundum dingla ég milli 11 - 20. sæti en ég sé að "slappari" bloggarar eru í aðalsflokkinum...vottever. Ætli tölvan sem velur aðalinn sé með skoðanavírus? Ég veit um marga meistarabloggara sem detta ekki inn á efri hlutann þrátt fyrir fjölda heimsókna og efnismikils bloggslátt. Hvað veldur? Styrmir?

Gísli Baldvinsson, 15.5.2008 kl. 11:29

 

Ég efast ekki andartak um að ég er einn af þessum "slappari" bloggurum sem Gísli talar um. Þó Styrmir ráði kannski ekki miklu á Moggablogginu gæti Gísli beðið einhverja þar um að kippa sér upp í "efra" ef það er það sem hann þráir. Eftir því sem ég best veit er handvalið í þennan flokk og ég bloggaði nokkrum sinnum um þessi mál öll fyrir nokkru og vinkona mín Lára Hanna Einarsdóttir skrifaði einhverjum hjá Moggablogginu útaf þessu og þá var mér kippt þangað upp og henni auðvitað líka. Skaði að skilja Gísla eftir. Kannski linkar hann of mikið í mbl.is fréttir. Það minnir mig að megi helst ekki.

Þó handvalið sé í aðalsflokkinn þá skilst mér að það sé forrit sem ræður því hverjir birtast á forsíðunni hverju sinni. Þar eru skilgreiningar sem varða vinsældir og tímalengd frá síðasta bloggi og eitthvað fleira. Þetta gætu stjórnendur bloggsins eflaust skýrt útí hörgul fyrir þeim sem vilja fræðast um það.

Heimsóknum á síðuna mína fjölgaði mikið þegar mér var kipp upp í "efra" og þar eru sveiflurnar miklar. Aldrei hef ég samt komist uppað toppnum sjálfum enda langar mig ekki þangað með einhverjum brögðum og brellum. Ég hef tekið eftir því að fyrirsögnin skiptir mjög miklu máli á forsíðunni. Einu sinni fékk ég 8 eða 900 heimsóknir á nokkrum klukkutímum vegna vafasamrar fyrirsagnar og upphafi á bloggi sem misskildist auðveldlega. Vitanlega vorkenni ég þeim sem þurfa að baksa í "neðra" en þrá ekkert heitara en vinsældir.  

Loopman (sem mig minnir að hafi einhvern tíma kommentað hjá mér) skrifar líka komment við bloggið hans Friðriks og úthúðar þar ýmsum eins og honum einum er lagið. Þar á meðal Jónu Á. Gísladóttur sem geldur honum rauðan belg fyrir gráan með því að skrifa um hann. Já, það er gaman að þessu. Eflaust gæti ég fundið meira um þessi mál, ef ég leitaði vel. Moggabloggið rúlar.


335. - Stutt blogg

Ég er að æfa mig í að blogga fremur stutt. Líklega er ég oft full-langorður og jafnvel of hátíðlegur líka og yfirlætislegur. Í bloggi er maður aðallega eins og maður vill að aðrir sjái mann. Þetta blogg verður þvi afar stutt. Eiginlega ekki nema tveir frekar lélegir brandarar og smáhugleiðing um Frjálslynda flokkinn. Nei annars, ég sleppi þessu síðasta.

Prestur einn kom þar að sem maður nokkur var að reyna að koma bíl sínum í gang. Maðurinn krossbölvaði aftur og aftur og reyndi hvað eftir annað að koma bílnum í gang en árangurslaust. Prestinum blöskraði orðbragðið hjá manninum og stakk uppá því að hann prófaði að fara með bæn og biðja bílinn með góðu að fara nú í gang. Prestinum til furðu samþykkti maðurinn þetta og gerði eins og fyrir hann var lagt. Ekki er að orðlengja það að bíllinn rauk í gang við þetta og þá segir prestur stundarhátt:

"Ja, hver andskotinn."

Maður einn á gömlum og útslitnum bíl kom að brattri brekku. Hann stöðvaði bílinn, opnaði eina hurðina og skellti henni aftur og keyrði síðan af stað.

Maður sem með honum var fylgdist furðu lostinn með þessum aðförum og sagði síðan:

"Hvers vegna í ósköpunum gerðirðu þetta?"

"Jú, sjáðu til. Nú heldur hann að einhver hafi farið úr bílnum og tekur brekkuna léttar."


334. - Að vera forsíðubloggari

Það er ágætt að vera forsíðubloggari. Að sumu leyti leggur það manni þó vissar skyldur á herðar. Það finnst mér að minnsta kosti. Mér finnst mitt blogg koma undarlega sjaldan upp ef ég endurnýja forsíðuna hvað eftir annað og ef ég blogga ekki á hverjum degi þá dett ég fljótt út. Þetta gerir auðvitað ekkert til, ég er búinn að venja mig á að blogga flesta daga. Gæti vel bloggað bæði meira og oftar, en reyni að stilla mig um það.

Almennt tekur því ekki að leiðrétta ambögur í mbl.is fréttum. Þær eru þó alltof algengar. Ég linka ekki í fréttir á aðalblogginu mínu (vísnabloggið visur7 er sér á parti). Vitleysan gæti líka hafa verið leiðrétt og þá er aðfinnslan orðin marklaus. Reyni bara að skrifa mitt eigið blogg þannig að skiljist.

Einu sinni fyrir langalöngu keypti ég bók í fornbókabúðinni hjá Sigga í Hafnarstrætinu. Ég man eftir að ég skipti líka stundum við hann þegar hann var í Kolasundinu, sem ekki er lengur til. Þessi bók hét (og heitir) "Apókrýfar vísur". Það var Gunnar frá Selalæk sem hafði gefið bókina út sem handrit. Hún er safn af klámvísum og hafði verið gefin út alllöngu áður en ég eignaðist hana. Á þeim tíma varð auðvitað að gefa svona lagað út leynilega.

Löngu seinna eignaðist ég svo annað safn af klámvísum sem var gefið út opinberlega af Hauki Halldórssyni myndlistarmanni. Ég held að ég fari rétt með þetta nafn, en man ómögulega hvað bókin var kölluð. Því minnist ég á þetta að ég sá á Moggablogginu um daginn að einhverjir voru að rifja upp gamlar klámvísur. Klámvísur eru oft ljómandi vel gerðar og sagt hefur verið að vísnagerð Íslendinga rísi hvað hæst í klámvísum og hestavísum.

Vegir Moggabloggsins eru stundum illrannsakanlegir. Í dag uppgötvaði ég allt í einu að gestabókin við bloggið mitt var týnd og ég gat ekki með nokkru móti fundið hana. Þetta endaði með því að ég hringdi í Moggann og auðvitað brugðust öðlingarnir þar ekki. Ég þurfti bara að bæta við síðueiningu sem heitir "Leiðakerfi - box" eða eitthvað þessháttar. Hún hafði dottið út í einhverjum tilfæringum hjá mér, án þess að ég tæki eftir því.


333. - Um fótbolta og fleira

Um það leyti sem Íslendingar keyptu knattspyrnuliðið Stoke City ákvað ég að fara að fylgjast með ensku knattspyrnunni. Auðvitað valdi ég Stoke sem mitt uppáhaldslið, það lá beint við. Ekki var það vegna einhverrar aðdáunar á Guðjóni Þórðarsyni, sem mér hefur alltaf þótt vera óttalegur frekjuhundur, heldur bara af því að eitthvert uppáhaldslið varð maður að hafa.

Í eldgamla daga man ég eftir að hafa fylgst af talsverðum áhuga með Leeds United þegar menn á borð við Billy Bremner og fleiri voru þar. Þá var það liðið til að sigra, en nú eru þeir víst á hraðri leið til glötunar, en Stoke komið í úrvalsdeildina. Ég er reyndar hræddur um að vera þeirra þar verði ekki löng.

Ég man að Stoke áhuganum fylgdi það að ég fór að skrifa reglulega pistla undir dulnefni á spjallborðið þeirra. Þeir voru á ensku sem alls ekki er mér töm og voru alltaf kallaðir "Letter from Iceland." Ég var líka áskrifandi að einhverju aðdáendatímariti og fylgdist vel með árangri liðsins. Þekkti orðið nöfn allra sem þar voru á mála og las reglulega það sem skrifað var á Oatcake spjallborðið. Þar lærði ég að kalla Manchester United, Manure, hata Port Vale og hafa lítið álit á Crewe Alexandra.

Ég man að ég var líka fyrstur til að segja frá því á spjallborðinu að Guðjón hefði ekki verið endurráðinn eftir að honum tókst að koma liðinu upp í næstefstu deild. Sumir vildu ekki trúa þessu og mikið var bollalagt um hve trúverðugur ég væri. Þá var ég að vinna á Stöð 2 og einhverjir vissu það og ég var álitinn trúverðugri vegna þess.

Þetta var nú þá og á endanum læknaðist ég af þessari áráttu. Fótbolti er auðvitað í eðli sínu ekkert annað en lífsflótti. Menn reyna að telja sér trú um að hann skipti máli og setja sig vel inni í málin hjá sínu liði og rífast svo við aðdáendur annarra liða. Verða jafnvel æstir og óðamála.

Ef fjöldi athugasemda við bloggfærslur er mælikvarði á  hve vel hefur til tekist, hefur færsla mín frá í gær um Evrópusambandið tekist allvel (miðað við þann fjölda kommenta sem ég er vanur að fá). Mér finnst sumar athugasemdirnar að vísu dálítið furðulegar, en sé ekki ástæðu til að svara þeim sérstaklega. Minni þó á að orðið "kommúnisti" er bara orð og greinilega leggja menn misjafnan skilning í það. Kannski á ég eftir að koma síðar inn á þau málefni sem reifuð voru í áðurnefndri bloggfærslu, en ekki núna.

Svo virðist sem hin illræmdu eftirlaunalög verði afnumin. Vonandi er það rétt. Skömm þeirra sem að þessu stóðu er mismikil, en óþarfi að fjölyrða um það nú.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband