351. - Meira um Suðurlandsskjálftann

Ég gat ekki fengið af mér að blogga mikið í gærkvöldi. Fréttir af jarðskjálftanum voru svo heitar að undan sveið.

Í mínum huga er eitt viðtal sem situr eftir umfram önnur. Það er viðtalið við konu þingmannsins á Selfossi. Hún var bara svo eðlileg á allan hátt að lengra verður ekki komist. Gerði á flestan hátt lítið úr málum, samanborið við þær hörmungar, sem fólk annars staðar í veröldinni verður að þola, en lýsti því vel hvernig hún gat með engu móti staðið upp úr sófanum, meðan mest gekk á.

Viðtalið við Bjössa á Efstalandi, bróður Kidda á Hjarðarbóli var líka eftirminnilegt. Ég þekkti hann aldrei neitt að ráði, en Kristinn bróðir hans því betur. Tjón hans er gríðarlegt. Það kom þó ekki mjög vel fram í viðtalinu, en ég sá í blaðafrétt, að ofan á allt annað er húsið sjálft stórskemmt.

Auðvitað er efnalegt tjón fólks á hamfarasvæðinu mikið, en komi enginn alvarlegur eftirskjálfti gleymist það fljótt. Andlega örið sem eftir situr í hugum fólks er þó opið og verður það ef til vill lengi enn hjá sumum.

Svolítið undarlegt fréttamat hjá mbl.is þar sem sagt er frá því í sérstakri myndskreyttri frétt að vínbúðirnar í Hveragerði og á Selfossi verði lokaðar í dag en opið sé á Hellu og á Hvolsvelli.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

já, ég sá viðtalið við þessa konu, tók eftir æðruleysinu hjá henni. Hrikalegt ástandið þarna, allt ónýtt í mömmu íbúð í Hveragerði, eins og hjá mörgum öðrum. Já, ætli vínbúðarfréttin sé ekki komin frá ÁTVR eða hvað??

alva 30.5.2008 kl. 23:17

2 Smámynd: Birgitta Jónsdóttir

Það var lán í óláni að amma er nýflutt frá Hveragerði. Hefði ekki viljað vita af henni einni í dúkkuhúsinu sínu í þessum látum. Það er mikil gæfa að enginn slasaðist alvarlega. Halda mætti að yfir þessu svæði séu verndarenglar af einhverju tagi:)

Þetta sérÍslenska æðruleysi á svona stundum er eitt af því sem lætur mann finna til meiri væntumþykju en ella gagnvart þessari sérkennilegu þjóð sem ég tilheyri.

Birgitta Jónsdóttir, 31.5.2008 kl. 09:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband