Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2008
30.4.2008 | 12:41
321. - Um Trukka-Sturlu, Michael Schumacher og fleiri
Svakalega er gaman að fá athugasemdir í kommentakerfið sitt frá þekktu fólki sem maður les alltaf bloggin hjá. Ég nefni engin nöfn. Það er eiginlega eins skemmtilegt að fá fáein comment eins og ég held að það sé leiðinlegt að fá óralanga svarhala. Þá fæ ég reyndar aldrei.
Sturlurugl var nokkuð á bloggum um daginn. Trukka-Sturlu virðist af sumum bloggurum hafa verið ruglað saman við aðra Sturlu með sama föðurnafn og lagt útaf því á ýmsa vegu. Sem betur fer leiðréttist þetta fljótlega og ekki veit ég til að þessi misskilningur hafi komist á prent.
Annars skilst mér að verið sé að fjalla um Rauðavatnsmálið á nefndarfundi á Alþingi núna og ég á von á þvi að í ljós komi á endanum að báðir aðalleikendur í dramanu við vatnið hafi ætlað sér að láta sverfa til stáls einmitt í þetta skipti.
Það var að mig minnir árið 1996 sem ég byrjaði að fylgjast með formúlunni. Fyrsta keppnin sem ég sá var í Ástralíu og mér er minnisstætt að í upphafi keppninnar valt Jordan bíllinn hjá Martin Brundle og fór bókstaflega í tvennt. Samt sem áður vildi hann fyrir hvern mun halda áfram og gott ef hann fékk það ekki.
Næsta keppni sem ég man eftir fór fram sama ár á Spáni. Schumacher var nýr hjá Ferrari þegar þetta var, en hafði tvívegis orðið heimsmeistari með Benetton. Damon Hill varð meistari 1996 en mér fannst Schumacher samt miklu flottari. Þarna á Spáni sannaði hann sig fyrst eftirminnilega í rigningarakstri og ég man ennþá hve rosalega flottur aksturinn var hjá honum og hve mikla yfirburði hann hafði.
Á þessum tíma voru útsendingar á formúlunni á Eurosport og þeir sem lýstu voru á staðnum og höfðu mjög gott vit á því sem var að gerast. Þegar byrjað var að sýna frá keppninni á RUV nokkrum árum seinna var beinlínis vandræðalegt að heyra hvað þeir sem lýstu vissu lítið um formúluna.
En þetta var þá og nú orðið hef ég svo lítinn áhuga á formúlunni ég nenni yfirleitt ekki að fylgjast með henni í beinni útsendingu.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
29.4.2008 | 09:02
320. - Herrabre, Gurrí, Guðmundur Sigurfreyr, Sævar Ciesielski o.s.frv.
Bjarni Rúnar Einarsson skrifar athugasemd á næstsíðasta blog hjá mér og skrifar síðan um Moggabloggið á sitt eigið blog (herrabre.blog.is). Þar leggur hann til nokkrar breytingar og ég hvet þá sem áhuga hafa á þessum málum að kynna sér þær tillögur. Ég mun væntanlega skrifa um þetta alltsaman þó síðar verði, því mér finnst allt sem snertir blogg sem slíkt mjög athyglisvert, þó ég sé sjálfur ákaflega gamaldags í þessum málum.
Gurrí linkar í sínu bloggi í Nostradamusarbókina sem Netútgáfan gaf út á sínum tíma. Gott hjá henni.
Það var mikið verk að koma þessu á Netið á sínum tíma. Ég man að ég vonaðist til að fleiri en Guðmundur Sigurfreyr kæmu með bækur til okkar í tölvuskrám og bæðu okkur um að gefa þær út. Svo fór þó ekki enda höfðu menn ekki krónu uppúr því að skipta við okkur. Guðmundur var langt á undan sinni samtíð og er líklega enn.
Sævar Ciesielski ætlaði að leyfa okkur að gefa út bók sem hann stóð að útgáfu á og fjallaði að mig minnir um beiðni hans um endurupptöku Geirfinnsmálsins. Hann átti í viðræðum við mig um útgáfuna en svo var þetta birt annars staðar, held ég.
Ég er nú svo mikill vantrúarhundur að ég trúi ekki nokkurn skapaðan hlut á Nostradamus frekar en aðra spámenn. Líklega hefur það verið þegar ég las í æsku ævisögu Harrys Houdinis, hins heimsfræga töframanns, sem ég var bólusettur fyrir lífstíð gegn miðlum og allskyns öðrum hindurvitnum.
Fékk tilkynningu áðan í e-mail um að ég hefði unnið 891.934 pund í breska lottónu. Auðvitað hef ég áður fengið Nígeríubréf og annan ófögnuð, en ég á samt erfitt með að ímynda mér að fólk taki svona bull alvarlega.
Jafnvel þó fólk trúi svona löguðu og svari bréfinu, þá get ég ekki séð að annað sé á þessu að græða fyrir sendandann en eitt vesælt póstfang sem hann þarf síðan að koma í verð hjá einhverjum spam-meistara.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
28.4.2008 | 00:12
319. - Um vísnablogg, fréttir, miðaldir og ýmislegt þessháttar rugl
Með vísnablogginu mínu hef ég sannfærst um að það er auðvelt að fá margar IP tölur ef linkað er í fréttir. Á mínu aðalbloggi linka ég aldrei í fréttir og blogga yfirleitt ekki um fréttatengt efni, fyrr en umræðan hefur hægt svolítið á sér. Þá er líka auðveldara að mynda sér skoðun, en þegar allt er í háalofti. Ég sé engan tilgang í að linka sem allra mest og segja álit mitt í örfáum orðum.
Oftast eru fréttir ónákvæmar og óljósar í fyrstu, svo það getur verið hagstætt að bíða með umfjöllun. Ég er heldur ekki í kapphlaupi við neinn. Sumir bloggarar eru hins vegar haldnir einskonar skúbbnáttúru og telja sig auk annars vera einhvers konar fjölmiðla. Þetta hentar sumum eflaust ágætlega, en getur líka orðið bloggurum að falli.
Hvenær voru miðaldir? Söguöld, landnámsöld, Sturlungaöld, þjóðveldisöld, gamli tíminn, nútíminn, siðbótin, enska öldin, norska öldin, upplýsingin, rómantíkin, o.s.frv? Voru hinar myrku miðaldir allt annað en hinar svokölluðu síðmiðaldir?
Mér finnst þessar tímaviðmiðanir alltaf dálítið ruglandi. Sérstaklega miðaldirnar. Mér finnst að miðaldir í Evrópu séu allt annað en miðaldir á Íslandi hvernig sem á því stendur. Vorum við svona uppteknir af að sturlungast að við máttum ekki vera að því að hleypa miðöldunum að fyrr en það var búið?
Í mínum huga hófust miðaldir í Evrópu um það leyti sem Rómverska ríkið leið undir lok. Ætli það hafi ekki verið svona á fjórðu eða fimmtu öld. Þær tel ég síðan að hafi staðið allt til endurreisnarinnar á Ítalíu og nútíminn hafi svo hafist með iðnbyltingunni á Englandi. Var tímabilið á milli endurreisnarinnar og iðnbyltingarinnar kannski síðmiðaldir?
Miðaldir á Íslandi finnst mér ekki hefjast fyrr en að lokinni Sturlungaöld og standa allt til siðbótar á sextándu öld eða jafnvel allt til síðari hluta nítjándu aldar. Á undan Sturlungaöld voru náttúrulega landnámsöld og söguöld og allt það, en þó ekki miðaldir, eða hvað?
Annars eru þessar tímaviðmiðanir ekki merkilegar og vel hægt að vera án þeirra. Það er hinsvegar engin leið að vera með öllu án sögunnar. Í rauninni erum við ekkert annað en landið og sagan. Efnaleg velferð er afstæð. Áður fyrr þótti bara ágætt að geta dregið fram lífið. Nú þarf fólk bæði bíla, heilsugæslu og húsnæði fyrir utan allt annað til að lifa mannsæmandi lífi. Gæludýr og jafnvel húsdýr þurfa helst að lifa mannsæmandi lífi líka, þó viss þversögn sé í orðalaginu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.4.2008 | 00:05
318. - BRE, frisk, Salvör, höfundarréttarmál og fleira. Já, ég þarf alltaf að skrifa um svo margt
Ég sé að Bjarni Rúnar Einarsson er búinn að skrá sig á Moggabloggið. Ástæðan er eftirfarandi svo notuð séu hans eigin orð: Þá er ég kominn með blog.is síðu og get tekið þátt í lokuðum bloggheimi MBL.
Aðallega býst ég við að þetta sé gagnlegt til að gera athugasemdir við tilteknar fréttir og taka þátt í umræðu hér; það er ekki séns að ég fari að skrifa lengri pistla á vef sem er ekki undir mínu eigin léni...
Bjarni er einn af þeim bloggurum sem ég hef lengi fylgst með. Þó hef ég ekki skoðað bloggið hans nýlega, enda haft mikið að gera hér á Moggablogginu bæði við lestur og annað.
Síðast þegar ég vissi vann Bjarni hjá Friðriki Skúlasyni (frisk.blog.is) og hann er einhver besti forritari fyrir utan Friðrik sem ég veit um. Þar að auki er hann prýðilega ritfær eins og Friðrik er raunar líka.
Bjarni hefur valið að hafa síðu sína á Moggablogginu með hvítum stöfum á svörtum grunni, sem er afleit hugmynd. Ef Moggabloggið er lokaður bloggheimur eins og Bjarni heldur fram þá eru einkalén það ekki síður. En hvað um það. Bjarni hefur áhuga á höfundarréttarmálum og það hef ég líka.
Friðrik Skúlason hefur nokkrum sinnum látið til sín heyra þegar málefni torrent.is og svipaðra samtaka hefur borið á góma. Einhvern tíma var ég á öðru máli en hann um höfundarréttarmál og Lára Hanna vinkona mín tók það óstinnt upp.
Sannleikurinn er sá að ég er talsvert hallur undir sjónarmið Salvarar Gissurardóttur í þessum málum. Þegar ég vann að því fyrir fleiri árum, en mig langar til að muna, að koma Netútgáfunni á fót þá kynntist ég höfundarréttarmálum dálítið, að því leyti sem þau snerta ritað mál.
Ég geri mér þó fulla grein fyrir því að framtíðin liggur ekki í rituðu máli, heldur hljóði og mynd og höfundarréttarmál eru á margan hátt flóknari þar.
Ástæða þess að Bjarni Rúnar lætur ljós sitt skína á Moggablogginu er nýleg grein á mbl.is um forritið Videntifier og möguleika þess.
Salvör Gissurardóttir ræðir líka um þetta forrit á bloggi sínu. Mér blandast ekki hugur um að þessi mál skipta miklu máli, þó þau veki ekki eins mikla athygli í ati dagsins eins og Árni eyjajarl og óðir trukkabílstjórar.
Ég mun sannarlega reyna að fylgjast með umræðum sem kunna að skapast um þessi mál.
Já, og svo er Sigurður Þór víst hættur að blogga einu sinni enn. Svei mér þá.
Ég á farsíma eins og fleiri. Samkvæmt ráðleggingum frá mér vitrara fólki í símamálum er ég með svokallað "frelsi" frá Og Vodafon. Ég fæ sjaldan hringingar frá óviðkomandi og sjaldan hringingar yfirleitt, en þykir nauðsynlegt að vera með farsíma. Upp á síðkastið hafa mér öðru hvoru borist SMS frá einhverjum sem kallar sig siminn.is með auglýsingum um tónleika á NASA. Þó ekki væri nema vegna þessa átroðnings er öruggt að ég mun aldrei fara á tónleika á NASA. Hvernig ætli standi eiginlega á þessu? Mér finnst að maður eigi að geta verið í friði fyrir auglýsingum ef maður hefur ekki beðið um þær og er ekki að nýta sér neina ókeypis þjónustu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
26.4.2008 | 00:23
317. - Það er heilnæmt og gott að vera í fýlu öðru hvoru
Krafan um að allir séu alltaf í góðu skapi er þrúgandi og óholl. Varðandi fýluna er það verst að stundum hefur hún slæm áhrif á þá sem næst manni standa. Þeim getur fundist eins og hún sé þeim að kenna. En svo er auðvitað alls ekki. Að mestu er það eigin ákvörðun hvort maður er í góðu skapi eða slæmu. Að þykjast vera í góðu skapi án þess að vera það, er afleitt fyrir sálartetrið. Þá er betra að þykjast vera í fýlu, þó maður sé það í rauninni ekki.
Annars er það eitt allsherjar vandamál hvernig maður á að vera. Hluti af bloggi sérhvers manns er að sýnast. Sumir þykjast alltaf vera í góðu skapi, aðrir eru næstum alltaf sárir og leiðir, sumir fúlir og afundnir aðrir reiðir og orðljótir. Sumir eru líka eins og ég, alltaf hátíðlegir og þykjast vera rosalega gáfaðir. Sumir reyna að æsa fólk upp, aðrir koma með heimspekilegar pælingar, segja frá öllu sem á dagana drífur, yrkja vísur eða linka á allt sem link tekur o.s.frv.
Þegar ég ákveð að lesa Moggablogg, sem er nokkuð oft, þá lít ég yfirleitt fyrst á bloggvinalistann, aðrir mæta afgangi og svo er fólk sem ekki er Moggabloggarar og til þrautavara er eyjan.is. Dagblöðin hafa að mestu frið fyrir mér. Það er helst að ég kíki á mbl.is. Aðallega til að hneykslast á íslenskukunnáttunni eða kunnáttuleysinu þar.
Einhverjir á bloggvinalistanum mínum eru þar fyrir hálfgerðan misskilning og ég er oft fljótur að afgreiða bloggin þeirra þó nauðsynlegt sé að kíkja á þau til að losna við gula nýtt-ið.
Lengi má halda áfram að tína til, hvað mér finnst að lesa megi útúr bloggi fólks. Auðvitað er það samt ekki hinn sanni maður sem þar birtist. Þó manni finnist að maður þekki bloggvini sína allvel, er það að mestu ímyndun. Sumt finnst mér heldur ekki nema stundum. Það er að segja þegar ég er í fýlu.
En að allt öðru. Hvað þýðir að brenna af? Þetta er að sjálfsögðu fótboltamál og ég held að það sé þýðing á döskunni "at brænde av". Í mínu ungdæmi þýddi "að brenna af" alltaf, að boltinn færi framhjá markinu. Nú til dags brenna menn af í vítaspyrnum ef markmanninum tekst að verja. Þegar ég vann uppi á Stöð tvö spurði ég eitt sinn Hilmar Björnsson íþróttapródúsent og knattspyrnumann að því hver væri hans skilningur á þessu. Hann fullyrti að minn skilningur væri sá rétti. Af hverju í ósköpunum halda þá íþróttafréttamenn áfram að rugla með merkingu þessarar ágætu dönskuslettu?
Mér finnst líka alltaf skrýtið að heyra í knattspyrnulýsingum að markmenn spyrni frá marki sínu. Það væri sögulegt ef þeir spyrntu frá marki andstæðinganna. Eflaust gera menn þetta aðallega til að lengja mál sitt og sennilega er það komið frá Bjarna Felixsyni eins og mörg gullkornin í knattspyrnulýsingum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
25.4.2008 | 00:06
316. - Garðyrkjuskólinn að Reykjum í Ölfusi
Gleðilegt sumar. Segja má að sumarið komi með óvenjumiklum látum að þessu sinni. Bílstjóramálin ætla ég ekki að fjalla um í þessu bloggi, enda er ég ófróðari um þau, en margir aðrir.
Ég minntist á Reyki í Ölfusi um daginn þegar ég skrifaði eitthvað um Sturlu Sighvatsson og Gissur Þorvaldsson. Gissur bjó um tíma á Reykjum í Ölfusi og er eflaust frægastur þeirra sem þar hafa búið. Hann var eitt sinn jarl yfir öllu Íslandi í umboði Noregskonungs og faldi sig í sýrukeri eins og frægt er í sögunni þegar bærinn að Flugumýri í Blönduhlíð var brenndur árið 1253.
Ég vann um tíma þegar ég var unglingur í garðyrkjustöðinni við garðyrkjuskólann að Reykjum í Ölfusi. Þar var margt brallað og þaðan er margs að minnast.
Oft villtust smáfuglar inn í gróðurhúsin og komust ekki út aftur. Þá var fangaráðið að elta þá fram og aftur um húsið þangað til þeir voru orðnir svo þreyttir að þeir gátu ekki flogið, þá var að taka þá upp og setja útfyrir. Þeir urðu jafnan frelsinu fegnir. Þetta gerðum við oft.
Ég sá um daginn í sjónvarpinu fréttaumfjöllun um bananarækt á Reykjum. Mest kom mér á óvart að húsið sem þeir eru ræktaðir í er ennþá nákvæmlega eins og ég man eftir því. Fyrr má nú vera íhaldssemin.
Við stálum oft bönunum þegar ég var að vinna þarna. Gallinn var bara sá að þeir bananar sem náðu að þroskast voru oftast svo litlir að þeir voru varla nema örfáir munnbitar, þegar búið var að taka hýðið utan af þeim. En góðir voru þeir.
Sjaldan náðist að selja þroskaða banana og ég man vel hvað Unnsteinn Ólafsson skólastjóri var stoltur í þau fáu skipti sem það tókst. Oftast var starfsfólkið búið að éta þá, áður en þeir þroskuðust. Það hefur verið skömmu fyrir 1960, sem ég og aðrir stálum bönunum þarna. Líklega er sökin fyrnd.
Ætli gróðurhúsin hafi ekki verið svona rúmlega tuttugu í stöðinni þegar þetta var. Stundum var ég í viðgerðum á húsunum. Þá fór ég um og skipti um rúður sem brotnað höfðu í þeim. Allt var þetta tveggja millimetra gler sem í húsunum var. Það þótti góð íþrótt að slá með krepptum hnefa í gegnum sæmilega stórt glerbrot. Vissara var að hafa vettling á hendinni þegar það var gert.
Mig minnir að ég hafi bloggað áður um veru mína á Reykjum og þá minnst á hesta, kýr, kóngulær, ranabjöllur og margt annað. Líklega þó ekki á villiketti. Talsvert var um þá á svæðinu en þeir forðuðust öll samskipti við fólk og við forðuðumst þá. Öðru máli gengndi um kettlingana þeirra. Ég man sérstaklega eftir einu skipti þar sem læðan þurfti af einhverjum ástæðum að yfirgefa kettlingana sína og þeir voru orðnir það stálpaðir að þeir gátu skjögrað um.
Það var í stóra húsinu sem við fundum kettlingana og fórum með þá í vínberjahúsið sem var þar rétt hjá, því þar var engin ræktun önnur en vínberjatrén sem stóðu í röðum við útveggina. Þó kettlingarnir hafi verið litlir og veimiltítulegir var grimmdin í þeim slík að ef við reyndum að taka þá upp þá læstu þeir klóm og tönnum í hendina á manni og héngu þar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
24.4.2008 | 00:17
315. - Lítið um bílstjóramálið, en þeim mun meira um Moggabloggið
Enn og aftur verð ég að segja pass í bílstjóramálinu. Ég hef samúð með báðum þeim aðalsjónarmiðum sem uppi eru. Mér sýnist að verið sé að reyna að gera þessi mál flokkspólitísk og finnst það slæmt. Við það geta þau versnað enn. Nóg er nú samt.
Margir beturvitrungar í hópi bloggara utan Moggabloggsins láta sér detta ýmislegt í hug í viðleitni sinni til að koma höggi á það. Til dæmis má minnast á Stebba greyið Páls sem lengi vel hélt þeim sið sínum að enda hvert blogg með Cato-iskum hætti og þylja bölbænir um Moggabloggið. Að lokum varð hann leiður á þessu og hætti því og svona eins og til að hugga sjálfan sig um leið, lýsti hann því yfir að Moggabloggið væri dautt!!
Sumir útmála með mörgum fögrum orðum að ekki þurfi að vera á Moggablogginu til að geta bloggað ókeypis eða svotil að vild. Þeir gleyma bara að geta þess að það að stofna blogg og reka það á eigin léni getur kostað einhverja fyrirhöfn.
Mér finnst vel borgandi smávegis, í því formi að horfa á misleiðinlegar auglýsingar um leið og eitthvað annað er gert, til að sleppa við þá fyrirhöfn. Sumir nenna bara ekki að efna til ónauðsynlegrar fyrirhafnar og kunna jafnvel ekki óskaplega vel á tölvur og þessháttar tól. Ýmislegt getur síðan þurft að gera til þess að koma boðskap sínum á framfæri ef það er það sem bloggarinn vill.
Fyrir marga er Moggabloggið því hrein himnasending. Bloggið er í rauninni alveg nýr samskiptamáti og það er ekki von að allir geri sér grein fyrir því. Sumir, eins og til dæmis Egill Helgason hafa skrifað blogg-greinar árum saman, en vita samt ekki hvað blogg er.
Ég er búinn að vera notandi Internetsins síðan uppúr 1990 og ætti að vita eitthvað um tölvur, en finnst upplagt að láta aðra, sem jafnvel hafa gaman af þessu stússi, sjá um þetta fyrir mig.
Blogg er ekki eins manns fjölmiðill. Nema auðvitað ef það er það sem bloggarinn vill. Bloggið getur alveg eins verið aðferð til að halda sambandi við fjölskyldumeðlimi, sem dreifðir eru útum allt, eða bara eitthvað allt annað.
E-meilið er nánast búið að eyðileggja með allskyns spammi og óumbeðnum auglýsingum. Þegar spammarar verða farnir að ausa sínum afurðum yfir saklausa bloggara verður auðvelt að flytja sig til eftir þörfum og jafnvel koma sér upp sínu eigin "WordPress-i" ef starfsmenn Moggabloggsins standa sig ekki í stykkinu við að halda spamóværunni í skefjum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Undanfarin ár hafa tjaldhjón verið vorboðar hér í MS. Þar eiga þau sér væntanlega hreiður uppá þaki og þykjast eiga allt svæðið. Eru stundum hálfþumbaraleg á stóra bílaplaninu útaf sífelldum umgangi fólks í nágrenninu, en sætta sig þó við truflunina.
Í fyrra varð ég fyst var við þau þegar farið var að banka í sífellu á glugga einn á óguðlegum tímum og núna er tjaldurinn semsagt mættur aftur og farinn að banka á þennan sama glugga með nefinu og lætur ekkert trufla sig, sem gerist hinum megin við glerið.
Bjarni Harðarson skrifar áhugaverða grein á vefinn gvendarkot.tk um afa minn Guðlaug Jónsson. Guðlaugur var afar lítill vexti og leiðir Bjarni rök að því að það stafi af harðræði í æsku. Annars bjuggu afi minn og amma í Þykkvabæ, first í Gvendarkoti og síðan í Vallarhúsum. Í Þykkvabæ fæddist mamma og systkini hennar og þar ólust þau upp. Fjölskyldan þótti fátæk á mælikvarða Þykkbæinga, sem þó voru ekki hátt skrifaðir sjálfir af öllum og gjarnan kallaðir hrossakjötsætur og afturkreistingar.
Haukur Nikulásson bloggvinur minn skrifar um það sem hann kallar Umræðuna. Þetta er víst það sem ég hef kallað áttuklúbbinn. Pistil sinn kallar Haukur "Mogginn ritstýrir VÍST efni á blogginu - til hvers er UMRÆÐAN?" Haukur segist hafa sóst eftir að komast á þennan lista en ekki fengið.
Það er laukrétt hjá Hauki að Morgunblaðsmenn vilja ráða ýmsu um skrifin á Moggablogginu þó þeir viðurkenni það helst ekki. Þeir eru stundum að segja mönnum hvernig þeir eigi að skrifa og jafnvel loka bloggunum þeirra. (Skúlablogg)
Bloggurum finnst þeir eiga rétt á sanngjarnri meðferð á Moggablogginu, en deila má um hvort þeir eigi yfirleitt nokkurn rétt þar, ef þeir borga ekkert fyrir leyfið til að blogga. Morgunblaðsmenn vilja þó að sjálfsögðu ekki hrekja fólk í burtu því bloggafjöldinn þarna er Morgunblaðinu mikilvægur í auglýsingaskyni.
Ritstýringin í gegnum áttuklúbbinn er nokkuð snjöll. Það er listi í gangi hjá þeim Moggabloggsmönnum og á þessum lista eru talin upp eitt til tvö hundruð blogg. (Kannski eru ekki nema nokkrir tugir bloggara virkir á þessum lista á hverjum tíma.) Úr þessu velur sérstakt forrit átta blogg sem birtast hverju sinni á bloggforsíðu blaðsins. Þar fyrir neðan koma blogg með minni myndum og sem greinilega er ekki lögð sama áhersla á að kynna og hin bloggin.
Ég er á þessum eðallista og veit svosem ekki alveg hvernig ég lenti á honum, allt í einu var ég bara kominn þarna á forsíðuna og við það jukust vinsældir mínar til mikilla muna. Hversu oft bloggin birtast þarna á forsíðunni fer eftir stillingum á forritinu. Þar ræður einkum hvort viðkomandi er ofarlega á vinsældalistanum og hvort hann hefur bloggað nýlega.
Mér hefur virst að bloggi maður ekki daglega sé maður fljótur að dettta útaf forsíðunni. Allir (ja, minnsta kosti flestallir) vilja vera vinsælir og með því að hampa einhverjum sérvöldum dyggðum bloggara á kostnað annarra má hafa áhrif bæði á verandi úrvalslistamenn (ekki vilja þeir detta útaf listanum og í ónáð) og líka þá sem þangað vilja komast.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
22.4.2008 | 01:00
313. - Nýr vinkill á Skúlamálin
Marta B. Helgadóttir bloggvinur minn kemur með svolítið nýja sýn á Skúlamálin, hvort sem það er nú viljandi eður ei. Hún segir frá nýju Moggabloggi sem heitir "við lesbíur", og samkvæmt því sem hjá henni stendur og eftir svarhalanum við það blogg að dæma, eru einhverjir sem vilja láta loka þessu bloggi og banna það.
Loka og banna eru engin töfraorð. Eigendur Moggabloggsins gera væntanlega þær ráðstafanir sem þeim finnst við þurfa. Mér finnst það vera alltof drastísk aðgerð að loka bloggum og þessvegna er ég á móti því að loka þessu bloggi á sama hátt og ég var á móti því að loka Skúlabloggi. Nauðsynlegt er þó að hafa ófrávíkjanlegar og auðskildar reglur um þessi mál. Bloggarar eiga rétt á því að fá að vita að hverju þeir ganga. En ég dreg ekki í efa rétt Morgunblaðsmanna til að loka bloggum hjá sér.
Þetta segi ég ekki vegna þess að ég sé hræddur um að mínu bloggi verði lokað, þó Vilhjálmur Örn hafi eitthvað verið að fjasa um það. Ég er alltof siðsamur og leiðitamur til þess, að til greina komi að loka hjá mér. Finnst mér.
Um helgina fann ég upp á alveg nýrri dægrastyttingu. Ég stofnaði nýtt Moggablogg sem heitir "visur7.blog.is" (visur.blog.is var upptekið) og þar linka ég í fréttir á mbl.is og yrki smávísur um eitt og annað sem þar birtist. Auðvitað er þetta í nokkurri samkeppni við þá Má Högnason og Hallmund Kristinsson og hugsanlega fleiri, sem ég hef þá ekki uppgötvað ennþá. Það kemur mér á óvart hve margir kíkja á þetta.
Mér brá nokkuð í brún í morgun þegar ég uppgötvaði að Már Högnason var horfinn úr bloggvinalista mínum. Sennilega er þetta einhver handvömm hjá öðrum hvorum okkar, en ég flýtti mér að bjóða honum í staðinn bloggvináttu fyrir hönd "visur7" og þar er hann nú (tvítekinn á stjórnborðinu að vísu).
Sigurður Þór Guðjónsson birtir mjög athyglisverðan pistil um geðheilbrigðismál á sínu bloggi. Pistilinn kallar hann "Fordómar fagfólks í garð geðsjúklinga" og er hann afrit af fyrirlestri sem Sigurður flutti nýlega. Ég tek undir flest af því sem Sigurður segir í þessum pistli og vil gjarnan hnykkja á því að þessi mál eru mikilvæg og snerta næstum alla með einum eða öðrum hætti. Vitundarvakningar er þörf.
Þó síðustu áratugina hafi eitthvað miðað í áttina þá lifa fordómar í garð geðsjúkra enn góðu lífi. Það er ekki nóg að segja að fordómar séu slæmir og reyna að uppræta þá með fræðslu eða einhverju þess háttar. Það þarf að vita hvað kemur þeim af stað og hvað viðheldur þeim.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.4.2008 | 00:42
312. - Um Örlygsstaðabardaga og drekkingu Jóns Gerrekssonar
Pistill minn um Skúlamál hin nýju frá því í gær, virðist hafa farið eitthvað fyrir brjóstið á Vilhjálmi Erni Vilhjálmssyni því hann kommentar ótæpilega á hann og helgar mér heila bloggfærslu. Kannski hefur það ekki komið skýrt fram í pistli mínum í gær að ég er á móti því að bloggi Skúla Skúlasonar hafi verið lokað. Hinsvegar veit ég ekki hvað í því hefur staðið, því ég las það aldrei.
Blogg Vilhjálms Arnar les ég hinsvegar alltaf og hef oft gaman af því sem hann skrifar, en ekki alltaf. Í þeim ummælum mínum sem Vilhjálmur virðist hafa hvað mest við að athuga sagði ég bara mér finnst". En nóg um þetta í bili.
Ég hef dálítinn áhuga á sagnfræði. Það er þó misjafnt hvernig atriði í henni festast í huga mér. Allskyns ruglingur er eflaust þar á ferðinni líka. Oft festast einstök atvik svo rækilega í huga mér að ég losna ekki við þau. Núna eru það til dæmis einkum tvö atriði sem ég velti fyrir mér.
Samkvæmt Íslendingasögu Sturlu Þórðarsonar var háttsemi frænda hans og nafna Sighvatssonar í aðdraganda Örlygsstaðabardaga undarleg í meira lagi. Það er einkum eitt atriði sem á sér stað eftir Apavatnsför sem mér er minnisstætt. Þeir ríða saman frá Apavatni að Reykjum í Ölfusi Sturla Sighvatsson og Gissur Þorvaldsson og fara yfir Sogið hjá Álftavatni. Höfundur Íslendingasögu gefur í skyn að Sturla hafi velt fyrir sér að drepa eða láta drepa Gissur, en það gerði hann ekki. Af hverju í ósköpunum gerði hann það ekki? Með hliðsjón af illvirkjum hans fyrr hefði það verið mjög skynsamlegt.
Sálfræðileg úttekt á Sturlu Sighvatssyni í aðdraganda Örlygsstaðabardaga væri forvitnileg og lýsingin á því þegar Gissur Þorvaldsson vinnur á honum í þeim bardaga er ógleymanleg.
Hitt atriðið snýst um Jón Gerreksson biskup og hæstráðanda á Íslandi og drápið á honum á fimmmtándu öld. Honum var einfaldlega stungið í poka og síðan hent útí Brúará. Fyrst þegar ég las um þetta velti ég fyrir mér hvers vegna þeir hefðu ekki hent honum í Hvítá, en það var bara vegna ókunnugleika míns á staðháttum. Hvernig í ósköpunum þorðu menn að gera þetta við hann, einkavin konungsins, Eiríks af Pommern og æðsta mann landsins. Og svo hafði þetta eiginlega enga eftirmála, eða hvað? Réði danakonungur eiginlega engu á Íslandi á þessum tíma?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)