Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2008

311. - Skúlamál hin nýju

Ég er nú svo takmarkaður, að ég vissi ekki einu sinni af þessum málum sem sagt er að skeki bloggheima um þessar mundir. Þegar mest er að gera hjá mér við annað eru það einkum bloggvinir mínir sem ég les á Moggablogginu. Þar er lítið minnst á þessi mál og það var Vilhjálmur Örn sem ég tók eftir að fór að tala um vin sinn Skúla Skúlason sem útilokaður hefði verið af Moggablogginu.

Þá fór ég að leita að frásögnum af því sem gerst hefði. Ég hef aldrei lesið bloggið hans Skúla, en rakst fljótlega á grein á dv.is (sem ég les eiginlega aldrei) um þetta mál. Ég las ekki mikið um þessi mál, því þau eru ekki beinlínis á mínu áhugasviði.

Ég vil þó segja að mér hefur aldrei blandast hugur um að á endanum er það ritstjórn Morgunblaðsins sem ræður því hverjir skrifa á Moggabloggið. Aðrir ráða á öðrum bloggsvæðum og ef enginn réði neinu yrði þetta fljótlega óskapnaður sem allir yfirgæfu. Mér finnst þeir Moggabloggsmenn alls ekki vera hægrisinnaðri en gera mátti ráð fyrir. Vinstrisinnaðir eru þeir varla. Hallir undir menningarelítuna? - kannski.

Mér finnst Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson vera múslimahatari og gyðingaelskari og lenti í hálfgerðum deilum við hann fyrir nokkru þegar mér fannst hann ráðast að Bobby Fischer að ósekju. Vissulega var Fischer óttalegur gyðingahatari, en hann var svo margt annað líka.

Fór um daginn á Borgarspítalann og meðan ég beið fletti ég Mannlífsblaði. Í því var grein eftir Ólaf Ragnarsson fyrrum skipstjóra og bloggvin minn. Ekki las ég þá grein gaumgæfilega enda minnir mig að Ólafur hafi sagt undan og ofan af  þeim ævintýrum á blogginu sínu sem fjallað er um í blaðinu.

Líka var í blaðinu grein um blogg og ýmislegt þar fróðlegt. En um blogg og blöð má eflaust segja líkt og mig minnir að Árni Magnússon hafi sagt forðum um errobus. Sumir ýta honum á flot en aðrir reyna að kveða hann niður og „hafa svo hvorir tveggju nokkuð að iðja". Misskilningur sumra blaðamanna á eðli bloggs er illskiljanlegur.


310. - Nei, nei. Ekki er það svo gott að ég sé hættur að blogga

Mér finnst bara ástæðulaust að strekkjast við að blogga á hverjum degi. Ég hef ekki svo mikið að segja. Svo er ég ekki í neinni vinsældakeppni, þó það sé ágætt að vera í þeim exkljúsíva klúbbi sem valið er úr á forsíðu Moggabloggsins. Þar að auki vorum við hjónin að kaupa stóran flatskjá um daginn og það þýðir að ég þarf að horfa meira á sjónvarp en venjulega.

Að auki les ég alltaf dálítið af bókum, einkum eftir að ég er kominn uppí rúm. Ég get bara ekki farið að sofa nema ég sé búinn að lesa svolítið. Bókin sem ég er að lesa núna er um Skáktyrkjann svonefnda. Fékk hana á bókasafninu. Ágætis bók, en auðvitað engin spennusaga. Ekki velti maður neitt fyrir sér sálarlífi persónanna sem við sögu komu, þegar maður heyrði fyrst af þessu fyrirbrigði. Man ekki betur en að við höfum gefið Bjarna þessa bók í jólagjöf.

Já, ég fer alltaf á tvö bókasöfn í hverjum mánuði. Bókasafn Kópavogs og Borgarbókasafnið í Gerðubergi. Þetta er orðinn fastur vani hjá mér og sjaldnast kemst ég yfir að lesa þær bækur á mánuði sem ég ráðgeri að lesa. Enda er ég með afbrigðum seinlesinn. Líggur við að ég þurfi að hugsa hvert orð fyrir sig. En það gerir ekkert til þó ég nái ekki að lesa allar þær bækur sem ég fæ að láni. Engin sekt er fyrir það. Ég fæ þær bara aftur seinna, ef ég nenni.

Núorðið les ég blogg miklu meira en dagblöð og sveiflast mjög á milli náttúrverndar og virkjana. Það fer mest eftir því hvaða blogg ég las síðast um loftslagsmálin. Lára Hanna Einarsdóttir og Ómar Ragnarsson eru best í fyrri flokknum en Ágúst H. Bjarnason með sín vísindi er mjög oft sannfærandi fyrir þá efagjörnu. Nokkurskonar Björn Lomborg okkar Íslendinga. Eins og margir vita skrifaði Lomborg þá frægu bók „The Sceptical Environmentalist" og mér er ekki grunlaust um að skoðanir hans eigi nokkurn hljómgrunn meðal Íslendinga jafnt og annarra þjóða. Náttúruverndarmál eru svo margslungin að erfitt er að ræða þau af nokkru viti nema takmarka umræðuna sem mest við tiltekna hluti.

Það er ekki eðlilegt hvernig látið er við greyið hann Davíð seðlabankastjóra. Eflaust er hann enginn snillingur í efnahagsmálum en hann getur varla verið eins vitlaus og sumir halda fram. Vissulega er margt skrítið í íslenskum þjóðarbúskap, en samt eru sumir gagnrýnenda Davíðs jafnvel vitlausari en hann. Þeir geta spáð fyrir um allan fjandann, en þeir þurfa ekki að standa við neitt þó þeir reynist í fyllingu tímast hafa haft ragnt fyrir sér. Ef nógu mikið er spáð hlýtur einhver spáin að fara nærri því rétta. Sá sem hana á getur þá sagt. "I told you so", en hvað annað gerist?


309. - Um viskítegundir - að því er sagt er. Og sitthvað fleira

An
Old Smuggler  told
Sir William  that he saw
Paul Jones  take
Lord Calverts  daughter
Queen Anne  out riding on his
White horse  down to
Royal Castle  near
House of Lords  and for a
Silver dollar  he laid her on the
Green Carpet  with her
Bottom up  and tickled her
Old drum  with
Three feathers  and took out his
Johnny Walker  which was hard as a
Canadian Club  and put it in her
Red Hackle  and gave her a slut of
Cream of Kentucky  which started
Wilkins family.

Þetta er mér sagt að fjalli um viskítegundir, en ég sel það ekki dýrara en ég keypti það.

Fyrir nokkrum árum kostuðu íslensk hjálparsamtök mongólsk börn í skóla. Þetta var vel boðið og því kom á óvart hve börn frá sumum heimilum sóttu skólann slælega. Þegar farið var að grennslast fyrir um hvers vegna þetta væri kom í ljós að vesalings börnin áttu enga skó og gátu þess vegna ekki farið í skólann, hversu fegin sem þau vildu. Þetta sýnir okkur að stundum blasa þarfir þeirra, sem við viljum vel, ekki beinlínis við.

Í sumar verður haldið ættarmót Gvendarkotsættarinnar að Ketilstöðum í Mýrdal. Atli Harðarson hefur gert vefsetur af því tilefni sem hægt er að nálgast á gvendarkot.tk eða fva.is/atli. Þetta vefsvæði á eflaust eftir að vaxa eitthvað á næstunni og ég ráðlegg ættmennum mínum, sem hugsanlega lesa þetta blogg, að fylgjast með því.

Á þessum vef er meðal annars sagt frá móðurbróður mínum Sigurjóni í Skinnum í Þykkvabæ. Bæjarnafnið er svolítið sérstakt, einkum þó beyging þess. Í nefnifalli heitir bærinn eftir mínum skilningi Skinnar. Þegar fólk segist vera frá Hæli í Gnúpverjahreppi er ekki öllum ljóst að bærinn heitir Hæll.

Mannanöfn beygjast líka oft undarlega og ekki er alltaf ljóst hvað er rétt í því efni. Til Sylvíu Nóttar var t.d. frægt dæmi fyrir nokkru. Segja má að „nefnifallsáráttan" sé hvergi meira áberandi en í nöfnum. Föllin eru eitt af einkennum íslenskunnar og ég er íhaldssamur varðandi það að halda í þau. Auðvitað er það meðfram vegna þess að ég þykist hafa þau betur á valdi mínu en margt yngra fólk og þannig get ég þóst vera mjög gáfaður. Líka er þetta bara heilbrigð íhaldssemi.


308. - Nokkur spakmæli, eða þannig

A feature is a bug with seniority!

Sælir eru unglingarnir því þeir munu skuldirnar erfa.

Það er lífshættulegt að verða gamall.

Munnlegur samningur er ekki virði pappírsins sem hann er skrifaður á.

Kemur stálull af stálkindum?

Ef ég bjarga hvölunum, hvar á ég þá að láta þá?

Farðu að mínum ráðum, ég þarf ekki á þeim að halda.

Hreint skrifborð er merki um troðfullar skrifborðsskúffur.

A clean desk is a sign of a sick mind.

Sá sem brosir í erfiðleikum hefur fundið einhvern til að kenna um. 

Ef þér mistekst allt í fyrsta skipti er fallhlífarstökk ekki fyrir þig.

Stöðugar breytingar eru komnar til að vera.

SYSTEM ERROR: Ýttu á F13 til að halda áfram. 

Mánudagar eru rót alls ills.

Ekkert er svo einfalt að ekki sé hægt að klúðra því.

Nú, þegar ég hef gefið upp alla von, líður mér miklu betur.

Þegar þú ert farinn að skilja hvernig tölvan þín vinnur, þá er hún orðin úrelt.

Frestaðu því aldrei til morguns sem þú getur alveg eins gert hinndaginn

Samkvæmt lögmáli Arkímedesar léttist hlutur sem settur er í vatn um þriðjung þeirrar vegalengdar sem er auð og hindrunarlaus framundan.

Bannið ruslpóst og bjargið trjánum.

Láttu mig vita ef þú hefur ekki fengið þetta bréf.

Framtíðin er eins og nútíðin, nema lengri.

Enginn sleppur lifandi frá lífinu.

Númerið sem þú hringir úr hefur verið aftengt.

Gættu þín á forriturum með skrúfjárn í vasanum

Ef þú getur ekki lært að gera það vel, lærðu þá að njóta þess að gera það illa.

Völvufundinum frestað vegna ófyrirsjáanlegra atvika

Þegar ég gerði það vissi ég ekki að það var ómögulegt.

Ég vildi gjarnan vera fátækur en eiga nóg af peningum.

Ég hef átt við minnisleysi að stríða eins lengi og ég man.

Ég er ekki villtur. Ég á bara við staðsetningarvanda að stríða.

Af skattatæknilegum ástæðum ætla ég að vera dauður í eitt ár.

Ég er að skrifa bók. Ég er búinn með blaðsíðutölin.

Ég verð að fara að hætta því ég er orðinn rámur í fingrunum.


307. - Karlinn undir klöppunum og höfundarréttarmál

IMG 0484Þessar gæsir voru hundóánægðar með snjóinn sem lagðist yfir allt í borginni einn morguninn um daginn. Þegar ég nálgaðist með myndavélina létu þær sem þær væru að flýta sér í vinnuna (hjá Opnum Kerfum)

 

 

 

 

 

Einni vísu gleymdi ég þegar ég var að gera athugasemd við vísurnar sem Ingibjörg systir hafði eftir ömmu og það er að sumu leyti merkilegasta vísan. Hún er svona:

Karlinn undir klöppunum,

klórar sér með löppunum,

baular undir bökkunum

og bíður eftir krökkunum,

á kvöldin.

Þessi húsgangur er alveg magnaður. Ég man að ég var skíthræddur við karlfjandann og þóttist vita hvar hann héldi sig. Hann var undir trébrúnni yfir hitaveituskurðinn þar sem við Ingibjörg földum okkur stundum þegar bílar fóru yfir. Eitt sinn sýndi Ingibjörg alveg ótrúlegt hugrekki þegar hún stakk hendinni upp á milli plankanna í brúnni þegar bíll nálgaðist (eða ætlaði a.m.k. að gera það). Þegar skyggja tók fannst mér sjálfsagt að karlinn undir klöppunum væri þarna.

Salvör Gissurardóttir skrifar ágætan pistil um höfundarréttarmál um daginn. Höfundarréttur er mikill málaflokkur sem margt má um segja. Sumt af því sem Salvör segir getur vel stuðað fólk sem vant er þeirri eignarréttarhugsun sem gegnsýrir þá löggjöf um höfundarrétt sem við búum við. Hún er þó nógu einörð til að segja það sem hún meinar um höfundarréttarmál.

Meira að segja Kristján B. Jónasson viðurkennir að höfundarréttarlöggjöf hér á landi sé úr takti við tímann. Mér finnst skaði að ekki megi dreifa efni um netið nema á einhvern vissan hátt sem eigendur flutningsréttar ákveða. Þessi mál eiga að vera samningsatriði milli eigenda flutningsréttar og notenda. Notendaþátturinn hefur orðið útundan hingað til og þeir eru mjög óskipulagðir. Aðferðin sem Salvör mælir með er vissulega harkaleg, en ekki er víst að mark verði á notendum tekið nema þeir beiti einhverju slíku.


306. - Ýmislegt um ekki fátt

Þetta blogg verður samtíningur og sitthvað, ég ætla að hvíla mig á minningunum.

"Það er margt í mörgu, í maga á Ingibjörgu", var einhverntíma sagt og þýðir náttúrulega "Margt er skrýtið í kýrhausnum". Eins mætti segja að margt væri undarlegt á Moggablogginu. Eitt af því sem mig hefur lengi langað til að vita er hvers vegna "Snorri Bergz" varð allt í einu "Sneott Bergz". Mér finnst líklegt að þeir Moggabloggsmenn hafi boðið honum að fá sitt gamla nafn aftur, en það er eitt sem ég skil ekki. Af hverju gerðist þetta?

Ef fylgst er með fréttum fjölmiðla kemur fljótt í ljós að allt er að fara til andskotans, bæði hér á Íslandi og út um heim. Þannig hefur það alltaf verið. Samt tosast þetta áfram og í rauninni er allt á framfaraleið a.m.k. hér á landi og hefur verið lengi.

Í fréttum er ýmist talað um að sniðganga Ólympíuleikana eða að sniðganga opnunarathöfnina. Reynt er að láta líta svo út sem þetta sé eitt og hið sama. Mér finnst þarna vera munur á og Íslendingunum sem voru á Ólympíuleikunum í Stokkhólmi árið 1912 fannst það líka, hef ég lesið. Líka er álitamál hvort verið er að tala um að fyrirfólk fari ekki á leikana eða íþróttamenn sitji heima. Málið er margflókið.

Flestir vilja eflaust engum dyrum loka og hafa alla möguleika á borðinu áfram. Mótmælin við mannréttindabrotum Kínverja í Tíbet eru þó sífellt að verða háværari.

Guðrún Helga Konráðsdóttir segist hafa eytt blogginu sínu óvart, en fengið það endurreist. Ég hef einmitt ekki þorað að fikta eins mikið í mínu stjórnborði eins og mig hefur langað að gera, vegna ótta við að allt færi í glatkistuna gaflalausu, en nú veit ég semsagt að aftrit eru til af öllu sem hér er sett á blogg.

Aðgerðir vörubifreiðarstjóra eru mál málanna þessa dagana og ég ætla að leyfa mér þann munað að hafa enga skoðun á því máli. Sjálfur hef ég alveg sloppið við óþægindi af þeirra völdum framað þessu.

Stebbi (stebbifr.blog.is) er stundum kallaður í háði konungur linkaranna og víst er að mikið skrifar hann. Ef mig grunar að ég hafi misst af einhverju í fréttum finnst mér ágætt að kíkja á bloggið hans, því hann endursegir jafnan merkilegustu fréttirnar og gerir það bara ágætlega.


305. - Áframhaldandi minningar frá Bláfelli, ég get ekki stoppað

Nú er þetta þó ekki fyrst og fremst um ömmu heldur bara almennt um æsku mína, sem ég hef þó oft bloggað um áður.

Líklega vorum við á Bláfelli fremur fátæk á þeirra tíma mælikvarða. Ekki minnist ég þess þó að það hafi haft nein áhrif á samband mitt við aðra krakka. Mamma saumaði ævinlega öll föt á okkur og það gerðu ekki allir. Mér er minnisstætt að ég fór einu sinni í skólann í skyrtu sem var keypt í verslun og var ákaflega stoltur af henni, man ennþá greinilega hvernig hún var á litin, hvernig hún var saumuð og hvernig efnið í henni var.

Ekki man ég eftir að hafa fundið til neinnar minnimáttarkenndar yfir að vera í heimasaumuðum fötum utan einu sinni. Þá var ég orðinn skáti og allir þurftu að vera í skátabúningum. Ekki var hægt að kaupa skátabúning á mig svo mamma saumaði hann og ég man að liturinn var ekki alveg sá sami og á öllum hinum búningunum. Það þótti mér leiðinlegt.

Mér þótti samt alltaf svolítið slæmt hve ermarnar voru langar á skyrtunum sem mamma saumaði á mig. Það var það helsta sem ég sá að var öðruvísi við minn klæðnað en annarra.

Amma borðaði gjarnan afganga ef þeir voru til og pabbi og mamma auðvitað líka. Mér er minnisstætt að mamma sagði stundum við ömmu:  "Viltu soðningu?" Þá átti hún við hvort hún vildi fisk frá þvi fyrr um daginn eða daginn áður. Mat var aldrei hent á okkar heimili. Áður en brann man ég eftir að kartöflur voru gjarnan soðnar í gufukassa sem var spölkorn frá húsinu, við það sparaðist rafmagn. Flatkökur gerði mamma líka gjarnan á gamalli kolaeldavél sem til var úti í skúr og þar var líka oft bakað.

Ísskáp fengum við ekki fyrr en seint og um síðir, en í nýja húsinu sem byggt var eftir að brann var þó einn skápur með op útúr húsinu þannig að þar hélst þokkalega kalt oftast nær. Símalaus vorum við líka lengi vel. Bjuggum rétt hjá símstöðinni þannig að ef nauðsyn bar til var ekki langt að fara til að komast í síma. Alltaf var siður að hafa heitan mat bæði í hádeginu og á kvöldin og alltaf tvíréttað, þ.e. aðalmat og graut eða súpa á eftir.

Mér fannst amma alltaf vera eldgömul og hrum, en í rauninni hélt hún sér alveg ágætlega þó hún væri komin yfir áttrætt. Ég man aldrei eftir henni veikri. Alltaf var hún á fótum og féll sjaldan verk úr hendi.

Guðlaugur maður hennar var dáinn löngu fyrir mitt minni. Hann var talsvert eldri en amma, fæddur árið 1855 eða hundrað árum fyrr en Sigurbjörn yngsti bróðir minn.


304. - Um Jórunni Jónsdóttur, sem fæddist þann 26. júlí árið 1872

Ég er sennilega skástur við endurminningarnar. Auðvitað er samt gaman að þykjast gáfaður og setja fram skynsamlegar skoðanir um allt mögulegt, en besservisserarnir meðal bloggara eru bara svo fjári margir. Ég man eftir nokkrum sögum af ömmu og vel getur verið að ég reyni að aðlaga þær Gvendarkotsvefnum, ef Atli kærir sig um það.

Já, Jórunn var amma mín og ég hef verið á fimmtánda ári þegar hún dó. Auðvitað man ég greinilega eftir henni. Hún hafði þann sið þegar gott var veður að fara út og rölta um lóðina. Ekki tók hún samt skupluna af sér og ekki lagði hún frá sér prjónana. Ég man vel að hún gat auðveldlega farið allra sinna ferða og talað við fólk sem hún hitti, án þess að það hefði nokkur áhrif á prjónaskapinn. Ef hún var ekki að prjóna var hún yfirleitt að spinna á rokkinn sinn.

Að breyta lopa eða ull í band með rokknum og tvinna saman ólíkar bandtegundir var henni leikur einn. Til að snúa böndin saman notaði hún að sjálfsögðu snældu. Með sérstöku og snöggu átaki þar sem snælduleggurinn var hafður milli læris og hægri lófa var snældan síðan látin snúast eftir þörfum og bandið sem snúðurinn kom á síðan vafið um snælduhalann.

Stundum fengum við krakkarnir að prófa að snúa snældunni og gekk það oft bærilega, ef vel var fylgst með okkur. Stundum lét hún okkur líka halda á hespum, meðan hún vatt bandið í hnykla. Og þvílíkir hnyklar. Þeir voru svo mátulega þéttir og svo hæfilega oft skipt um legu bandsins að engin hætta var á að þeir röknuðu upp. Ég man ekki eftir að hafa séð betur undna hnykla. Í miðjan hnykilinn setti hún jafnan samanbrotið dagblaðssnifsi eða eitthvað þess háttar. Stundum reyndi hún að kenna okkur að vinda band í hnykla, en það gekk brösuglega

Amma dvaldi jafnan til skiptis hjá dætrum sínum þeim Ingu í Nóatúni og mömmu. Á ættarmótinu á Laugum í Sælingsdal vorum við Eysteinn sonur Ingu af einhverjum ástæðum að tala um ömmu. Honum fannst að hún hefði oftast verið hjá þeim, en mér fannst hún oftast hafa verið hjá okkur.

Þegar amma var að búa sig undir að fara eitthvað (sennilega til Ingu í Nóatúninu - sem þá átti ef til vill heima á Víðimelnum) var hún tilbúin að fara, komin í kápuna og allt, löngu áður en rútan (kannski Gardínu-Palli) átti að fara. Þá settist hún á rúmið sitt og beið eftir að tíminn liði. Stundvísi held ég að sé flestum afkomendum hennar í blóð borin.

Amma hafði gaman af að gefa. Hún gaf til dæmis systrum mínum öllum kommóðu og eitt sinn þegar komið var með kommóðu heim á Hveramörk 6 var ég eiginlega búinn að reikna það út að ég ætti að fá hana. En reyndin var sú, að það var komið að henni sjálfri.

Af því að mamma var úr Þykkvabænum og þekkti alla þar, fórum við stundum þangað. Ég man eftir að hafa verið með mömmu í þar um það leyti sem Geysir fórst á Bárðarbungu. Þá var okkur krökkunum stranglega bannað að hafa hátt meðan fréttir voru lesnar. Líklega höfum við verið í Búð, en þó er ég ekki viss.

Sennilega hefur það verið í þessari ferð (1950) sem við Vignir vorum eitt sinn eitthvað að bardúsa úti á túni. Þar þurftum við af einhverjum ástæðum að fara yfir skurð, þar sem var smálækur í botninum. Ég fór léttilega yfir og beið eftir Vigni, sem ekki treysti sér til að hoppa yfir lækinn.

Þá var það sem kúahópur sem var á túninu veitti því athygli að eitthvað var um að vera hjá okkur. Forystukýrin í hópnum rak halann upp í loftið og baulaði eitthvað óskiljanlegt og síðan komu allar beljurnar steðjandi í áttina til okkar. Mér fannst þær hlaupa og vera til alls líklegar og Vigni hefur eflaust fundist það líka, því nú brá svo við að hann stökk yfir lækinn eins og ekkert væri. Ég man að mamma og líklega einhverjir fleiri hlógu mikið, þegar við sögðum frá þessu.


303. - Ættarmótasóttin skæð - Gvendarkotsættin mæti að Ketilstöðum í sumar

Guðlaugur var lítill, varla meðalmaður, skolhærður, alltaf með húfu. Snemma varð hann sköllóttur, hafði gaman af að þrasa.

Svona er móðurafa mínum lýst. Ég get ekki að því gert að mér finnst þetta snilldarleg mannlýsing. Hún er komin frá frænku minni Báru Sigurjónsdóttur, en Guðlaugur var einnig afi hennar.

Annars er þetta af vef sem systursonur minn Atli Vilhelm Harðarson hefur komið upp í tilefni af því að til stendur að halda ættarmót í sumar. Ættingjum mínum sem hingað kunna að rekast vil ég benda á að veffangið er "http://www.gvendarkot.tk/" eða www.fva.is/atli/

Margt er merkilegt á þessari vefsíðu. Meðal annars fjöldi mynda. Einnig eru þar nokkrar vísur sem hafðar eru eftir Ingibjörgu systur minni. Sumar þessara vísna kannast ég líka við, svona þegar ég sé þær uppskrifaðar. Vonandi tekur Ingibjörg það ekki illa upp, þó ég birti þessar vísur hér:

Súlurýju rak á vog,
rétt upp í hann Sigurð.
Hún var tíu álnir og
eftir því á digurð.

Hafið þið heyrt um hann Hóla-Jón?
Hann ætlaði að fara í verið.
Dallurinn allur datt í spón
og drengjunum gaf hann smérið.

Á ég að segja þér sögu
af kerlingunni rögu?
Hún fór á milli fjóss og hlöðu
og flengdi sig með snarpri grautarþvögu.

Einu sinni átti ég gott
á allri æfi minni.
Þá var soðinn rjúpurass,
reittur upp úr skinni
hjá henni stjúpu minni.

Þar sem Ingibjörg talar um "grautarþvögu" minnir mig endilega að vani hafi verið að segja "rjómaþvögu". Ég hef samt enga hugmynd um hvernig slíkt verkfæri er. Í sömu vísu fannst mér líka alltaf að verið væri að tala um kerlingu sem héti Raga, en ekki um kerlingu sem væri rög.

Tvær aðrar vísur kann ég, en man ekki hvort ég lærði þær af ömmu Jórunni eða mömmu minni. Þær eru svona:

Andrés minn í eyjunum,

er að róa núna.

Fiskinn ber á fleyjunum

og færir krakkagreyjunum.

Þarna kann síðan að hafa verið ein ljóðlína til viðbótar, en ég man hana ekki.

Hin er svona. Og þegar farið var með hana áttu tveir að sitja flötum beinum á gólfinu, takast í hendur, spyrna saman iljum og togast á:

Við skulum róa á selabát,

fyrst við erum fjórir.

Það eru bæði þú og ég,

stýrimaður og stjóri.

Af því ég hef ástæðu til að ætla að fleiri en ættingjar mínir lesi þetta blogg var ég að hugsa um að bæta hér við fáeinum orðum um ættarmót almennt, en dettur bara ekkert gáfulegt í hug.


302. - "Global warming", heimsókn Al Gore og loftslagsmálin almennt

Náttúruverndarsinnar hafa farið nokkuð halloka í umræðunni að undanförnu, þrátt fyrir að Al Gore hafi komið hingað í heimsókn. Hver stjórnar umræðunni í raun og veru? Er það Egill Helgason? Kannski.

Margir bloggarar eru mjög fyrir að gagnrýna það sem náttúruverndarsinnar halda fram. Einn af þeim bestu í þeim hópi er Ágúst H. Bjarnason. Mér finnst samt leggjast heldur lítið fyrir kappann þegar hann gerir hið svokallaða "Al Gore effect" að aðalatriði í umfjöllun sinni um heimsókn hans.

Sú hugmynd að sífellt fylgi kuldi í kjölfar Als Gore þegar hann flytur sitt evangelíum varðandi "global warming" er auðvitað bara sett fram í gríni. Tilviljanir ráða ekki úrslitum í þessu mikilsverða máli.

Jafnvel þó fallist sé á að heimurinn sé að hlýna og koltvísýringur að aukast í andrúmsloftinu, er ekki sannað að þessi aukning sé af mannavöldum og að nauðsynlegt sé að grípa til allra þeirra ráðstafana sem í undirbúningi eru.

Alarmistar í loftslagsmálum fara stundum offari í áróðri sínum gegn stóriðju og hvers konar mengun. Mér finnst líka ótækt að gera ráð fyrir að allir sem andæfa einhverju í þeirra málflutningui séu fylgjandi óheftri og stjórnlausri mengun. Eins og í mörgu öðru er sannleikurinn ugglaust einhvernsstaðar þarna á milli.

Það er með öllu óþarft að reiðast þó ekki fari allt eftir eigin höfði. Virkjunarsinnar hafa löngum beitt fyrir sig hliðhollu ríkisvaldi og hreinu ofbeldi, en andstæðingar þeirra hafa verið að færa sig uppá skaftið og styrkjast að undanförnu og almenningsálitið er þeim fylgjandi. Á endanum næst samkomulag um þessi mál hér á Íslandi og allsengin ástæða er til að draga úr þörfinni fyrir umræðu um málin og að menn tali tæpitungulaust.

Það er slæmt að blanda flokkspólitík of mikið í þetta. Þórunn Sveinbjarnardóttir gerir eins vel og hún getur í þessum málum öllum. Það er ég sannfærður um, hvað sem Vinstri grænir segja. Ég er líka sannfærður um að núverandi ríkisstjórn er ekki lakari í þessu en sú síðasta, hvað sem Bjarni frændi minn Harðarson segir um yfirburði framsóknarflokksins.

Um daginn var mikið gert úr því í Kastljósinu hve fólk hefði verið heimskt hér áður og fyrr, þegar það lét telja sér trú um að töfralæknar á Filippseyjum gætu læknað það af ýmsum kvillum með því að þykjast skera það upp. Baldur Brjánsson var fenginn til að koma og rifja upp þegar hann gerði það sama í sjónvarpssal og töfralæknarnir á Filippseyjum höfðu gert fyrir væna þóknum.

Nú orðið fer fólk til Póllands til að kúka. Að öðru leyti hefur ekkert breyst.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband