317. - Það er heilnæmt og gott að vera í fýlu öðru hvoru

Krafan um að allir séu alltaf í góðu skapi er þrúgandi og óholl. Varðandi fýluna er það verst að stundum hefur hún slæm áhrif á þá sem næst manni standa. Þeim getur fundist eins og hún sé þeim að kenna. En svo er auðvitað alls ekki. Að mestu er það eigin ákvörðun hvort maður er í góðu skapi eða slæmu. Að þykjast vera í góðu skapi án þess að vera það, er afleitt fyrir sálartetrið. Þá er betra að þykjast vera í fýlu, þó maður sé það í rauninni ekki.

Annars er það eitt allsherjar vandamál hvernig maður á að vera. Hluti af bloggi sérhvers manns er að sýnast. Sumir þykjast alltaf vera í góðu skapi, aðrir eru næstum alltaf sárir og leiðir, sumir fúlir og afundnir aðrir reiðir og orðljótir. Sumir eru líka eins og ég, alltaf hátíðlegir og þykjast vera rosalega gáfaðir. Sumir reyna að æsa fólk upp, aðrir koma með heimspekilegar pælingar, segja frá öllu sem á dagana drífur, yrkja vísur eða linka á allt sem link tekur o.s.frv.

Þegar ég ákveð að lesa Moggablogg, sem er nokkuð oft, þá lít ég yfirleitt fyrst á bloggvinalistann, aðrir mæta afgangi og svo er fólk sem ekki er Moggabloggarar og til þrautavara er eyjan.is. Dagblöðin hafa að mestu frið fyrir mér. Það er helst að ég kíki á mbl.is. Aðallega til að hneykslast á íslenskukunnáttunni eða kunnáttuleysinu þar.

Einhverjir á bloggvinalistanum mínum eru þar fyrir hálfgerðan misskilning og ég er oft fljótur að afgreiða bloggin þeirra þó nauðsynlegt sé að kíkja á þau til að losna við gula nýtt-ið.

Lengi má halda áfram að tína til, hvað mér finnst að lesa megi útúr bloggi fólks. Auðvitað er það samt ekki hinn sanni maður sem þar birtist. Þó manni finnist að maður þekki bloggvini sína allvel, er það að mestu ímyndun. Sumt finnst mér heldur ekki nema stundum. Það er að segja þegar ég er í fýlu.

En að allt öðru. Hvað þýðir að brenna af? Þetta er að sjálfsögðu fótboltamál og ég held að það sé þýðing á döskunni "at brænde av". Í mínu ungdæmi þýddi "að brenna af" alltaf, að boltinn færi framhjá markinu. Nú til dags brenna menn af í vítaspyrnum ef markmanninum tekst að verja. Þegar ég vann uppi á Stöð tvö spurði ég eitt sinn Hilmar Björnsson íþróttapródúsent og knattspyrnumann að því hver væri hans skilningur á þessu. Hann fullyrti að minn skilningur væri sá rétti. Af hverju í ósköpunum halda þá íþróttafréttamenn áfram að rugla með merkingu þessarar ágætu dönskuslettu?

Mér finnst líka alltaf skrýtið að heyra í knattspyrnulýsingum að markmenn spyrni frá marki sínu. Það væri sögulegt ef þeir spyrntu frá marki andstæðinganna. Eflaust gera menn þetta aðallega til að lengja mál sitt og sennilega er það komið frá Bjarna Felixsyni eins og mörg gullkornin í knattspyrnulýsingum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Djúpar pælingar. Sennilega fást menn eins og Bjarni Fel. ekki lengur í þetta starf, það þarf að borga fyrir gæði.

KátaLína 26.4.2008 kl. 10:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband