493. - Syndin er lævís og lipur og lætur ei standa á sér

Bjöggarnir eru í algjörri afneitun og Lautenant Valgerður (Bubbi) vitnar. Þeir gerðu ekkert rangt og eru bara óvenju góðir gæjar og vita af því sjálfir.

Allur þessi gróði sem alls staðar kom í ljós og var mest áberandi á öllu nýju og fersku var gerður úr gervipeningum sem bankamenn bjuggu til úr alls kyns undarlegu pappírsrusli. Seldu hver öðrum sama hlutinn aftur og aftur og alltaf dýrari og dýrari. Eftirá er ekkert erfitt að sjá hvers kyns vitleysa þetta allt saman var. Ef menn hefðu kunnað sér hóf hefði þetta getað gengið miklu lengur en það gerði.

Nú er það okkar helsta huggun að aðrir séu hugsanlega í skítnum líka.

Uppúr 1968 var nokkurs konar mini-kreppa hér á Íslandi. Þá var það sem síldin hætti með öllu að veiðast, verðfall varð á þorski og atvinnuleysi jókst. Margir tóku sig upp og fluttu til útlanda. Til dæmis Svíþjóðar og Ástralíu.

Og allir (flestir) komu þeir aftur
og enginn þeirra dó.

Þá voru það semsagt alvöruhlutir sem brugðust. Nú eru það þykjustuhlutir sem fjúka út um gluggann. Ekki var auðvelt að kenna stjórnmálamönnum um aflabrest en þeir ásamt útrásarvíkingunum bera fulla ábyrgð á núverandi ástandi.

Árið 1970 fluttist ég vestur á Snæfellsnes og gerðist útibússtjóri hjá Kaupfélagi Borgfirðinga á Vegamótum. Ég hafði þó ágæta vinnu á þessum árum, var verslunarstjóri hjá Silla og Valda en leist samt vel á að flytjast út á land.

Mér er minnisstætt að á þessum árum fór það að tíðkast að senda fólki sníkjugíróseðla til að plata peninga af því fyrir öllum andskotanum. Gömul kona úr sveitinni kom oft í verslunina hjá mér og ég heyrði það á tali hennar að henni fannst að hún þyrfti helst að borga þetta allt. Nútímafólk á þeim árum lærði fljótlega að henda þessu drasli.

Oft heyri ég betur niðurlag auglýsinga en byrjun. Niðurlag einnar auglýsingar sem ég hef heyrt nokkuð oft að undanförnu fjallar um að eitthvert tiltekið fæðubótarefni sé gott fyrir liðverki í Noregi og Svíþjóð. Hmm. Eiginlega hef ég meiri áhyggjur af íslenskum liðverkjum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband