Bloggfærslur mánaðarins, mars 2007

26. blogg

Já, það er best að hætta þessari vitleysu og fara bara að nota tölustafi. Mér leiðast hinsvegar fyrirsagnir og það má alltaf deila um hvernig þær eiga að vera. Þegar við gáfum út Borgarblaðið sællar minningar þá man ég að Helgi Bjarnason (sem var svo forframaður að hann skrifaði reglulega í sjálft Morgunblaðið!!) sagði við okkur að fyrirsagnirnar væru veikasti hluti blaðsins. Kannski hefur hann haft rétt  fyrir sér. Ég skrifa líka yfirleitt um hitt og þetta svo fyrirsögnin yrði hvort eð er heldur marklaus.

Nú dregur að því að Hafnfirðingar kjósi um framtíð álversins. Ef ég ætti að kjósa akkúrat núna þá býst ég við að ég mundi kjósa með því. Einkum vegna þess að mér finnst margt í málflutningi náttúruverndarsinna bera vott um hálfgerðan yfirgang. T.d. að stilla alþingismönnum upp við vegg og kalla þá annaðhvort gráa eða græna eftir því hvort þeir undirrita eitthvað eða ekki. Það er bara ofbeldi í mínum huga. Ég er samt fremur óákveðinn í þessu og í raun feginn að þurfa ekki að kjósa. Þessar kosningar eru án efa þýðingarmiklar, jafnvel á sinn hátt þýðingarmeiri en Alþingiskosningarnar sem fram munu fara í vor. Stjórnmálaleiðtogar margir hverjir hafa komið fram fyrir alþjóð og lýst því yfir að komandi Alþingiskosningar séu einhverjar þær þýðingarmestu sem farið hafi fram. Þetta er nú alltaf sagt og mér finnst margt einmitt benda til að þessar kosningar verði þær minnst sögulegu sem lengi hafi farið fram. Líklegast er að framhald verði á svipaðri stefnu og hér hefur ríkt að undanförnu, þó eflaust með breyttum áherslum og e.t.v. nýjum flokkum.

Var að enda við að horfa á úrslitin í spurningakeppni framhaldsskólanna og því er ekki að neita að þetta var spennandi. Liðin stóðu sig bæði mjög vel, helst kom mér á óvart hve lítið þau vissu um æfi Aðalsteins Kristmundssonar og var hann þó enginn meðaljón.

Bjarni var að ganga frá uppgjöri vegna árekstursins á Bústaðaveginum. Úrskurðarnefndin úrskurðaði sök 50:50 og hann fær víst 95 þúsund í bætur. Sjálfur var ég að fá frí 13. og 14. apríl vegna þess að Bjarni ætlar að gifta sig laugardaginn 14. Eftir helgi fer hann  víst til London og hittir Charmaine þar. Jói mun líklega hætta að vinna fyrir Opin Kerfi hjá Íslandsbanka á næstunni því samningnum milli þeirra aðila verður sagt upp skilst mér. Benni er að ég held ekki búinn að ganga endanlega frá sölu á íbúðinni sinni en það verður víst fljótlega.


Tuttugastaogfimmta blogg

"Fugl dagsins var hundur".  Með þessari setningu gerðu þeir Matthildingar (Davíð, Þórarinn og Hrafn) á sínum tíma nánast útaf við menntunarviðleitni útvarpsráðs (eða útvarpsstjóra, hvað veit ég) Á þessum tíma var það fastur liður á einu útvarpsrás landsmanna að rétt fyrir kvöldfréttir voru kynnt þau hljóð sem ýmsir fuglar gefa frá sér.

Því minnist ég á þetta að um þessar mundir er greinilega mikið um að vera hjá fuglum landsins. Ég þekki fáa fugla á hljóðum þeirra en um sexleytið á morgnana þegar ekki er byrjað að birta kveða við alls kyns fuglahljóð úr ýmsum áttum og enginn vafi er á því að vorið er að koma.

Daginn lengir með risaskrefum um þessar mundir. Nú er orðið bjart framyfir klukkan átta á kvöldin og er það mikil breyting frá því sem var þegar dagurinn var sem stystur.

Til viðbótar við setninguna um fugl dagsins er mér í fersku minni setning úr bókinni "Tómas Jónsson - metsölubók" eftir Guðberg Bergsson. Þar segir á einum stað: "Kartöflugrösin féllu um nóttina." Þessi setning lætur lítið yfir sér en lykillinn að áhrifamætti hennar er það samhengi sem hún var í. Í stuttu máli sagt man ég ekki betur en að þessi setning hafi komið í stað álnarlangra náttúrulýsinga sem tíðkaðist um þessar mundir að nota þegar þar kom frásögn að siðgæðislega séð var nauðsynlegt að hætta nákvæmum lýsingum. Mér er nær að halda að íslensk bókmenntasaga hafi ekki orðið söm á eftir.

Ég held að lesendum mínum sé eitthvað að fjölga svo líklega er best að vanda sig svolítið. Mér finnst líka nauðsynlegt að hafa hvert blogg ekki óhæfilega langt svo að sem flestir endist til að lesa þetta allt.

Ég er alltaf að bíða eftir því að einhver þeirra lesenda sem teljarinn heldur fram að flækist hingað inn láti svo lítið að kommenta á  þessi skrif mín. Hingað til hafa sárafáir gert það, en þeim mun eftirminnilegri eru mér skrif þeirra. Sjálfur á ég það til að kommenta stöku sinnum á þau blogg sem ég les.


Tuttugastaogfjórða blogg

Ég vorkenni svolítið vinsælu ofurbloggurunum. Greyin þurfa að blogga daglega ef vel  á að vera. Við hin getum látið okkur nægja að blogga bara svona öðru hvoru. Mikill lúxus.

Kláraði skattframtalið áðan. Áður fyrr var þetta árlega uppgjör hangandi yfir manni eins og Damoklesarsverð vikum saman en nú er þetta eiginlega orðið písofkeik ef svo má segja.

Eftir að ég fór að blogga sjálfur svona öðru hvoru þá hefur áhugi minn á að lesa annarra manna blogg  eiginlega minnkað. Líka er ég að miklu leyti hættur að lesa dagblöðin enda ekki lengur áskrifandi að Morgunblaðinu þrátt fyrir allt Moggabloggsstand og Fréttablaðið berst hingað bara með höppum og glöppum og Blaðið aldrei.

Mbl.is skoða ég oft og svo horfi ég á  auðvitað á sjónvarpið. Blogg af ýmsu tagi les ég talsvert en smekkur minn á slíkt breytist ört. Bloggurum fjölgar líka svo hratt um þessar mundir að maður hefur alls ekki við að lesa þá alla.

Langflesta nýja bloggara uppgötva ég þannig að þeir hafa linkað á einhverja frétt á mbl.is. Sjálfur linka ég aldrei á fréttir og blogga lítið um málefni dagsins.

Nú er vor í lofti og birtutíminn lengist stöðugt. Um helgina næstu er þó spáð  roki og rigningu að ég held.

Ég held að ég hafi þetta bara  stutt  núna. Reyni að gera betur næst. Hvenær sem það verður.


Tuttugastaogþriðja blogg

Sunnudagsmorgunn og best að blogga smá eftir all-langt blogghlé. Ekkert þó um að blogga svosem. Nenni samt ekki að skrifa um fréttir dagsins, það eru svo margir sem gera það og sumir af heilmiklu viti. Finnst samt flokksnafnið hjá Ómari og Co. fullyfirlætislegt. Minnir mig á Árna Johnsen og sérnúmerið á bílnum hans.

Kom í fyrsta sinn í gærkvöldi á veitingastaðinn Rauðará. Þar var Benni með smáafmælisfagnað og við fengum okkur að borða og svoleiðis sex saman.

Bjarni er lagt kominn með að flísaleggja baðið og setja upp gerekti með aðstoð Benna. Við Áslaug höfum komið til hans í fáein skipti að aðstoða smávegis undanfarna daga.

Ætlaði að blogga áðan um blogg-grein um landsleik Ísraela og Englendinga og bölsótast yfir villum o.þ.h. en hætti við og skrifaði  í þess stað smáathugasemd á bloggið sjálft. Minnir að ég hafi lent á þessari grein af link á mbl.is.

Vaknaði snemma í morgun. Ágætt að nota tímann núna til að röfla í Word-skjali, það er afslappandi finnst mér og svo líka að líta yfir bréfskákirnar á Netinu, sem eru eiginlega alltof margar.

Fór í einhvers konar svefnrannsókn um daginn. Þurfti að festa á mig tæki og tól áður en ég fór að sofa og setja tækið í gang. Þó tafsamt væri og svolítið flókið að koma öllu á sinn stað var ekkert vandamál að sofa með allt draslið utan á sér. Svaf  þó alltof stutt og fæ væntanlega að vita um niðurstöður rannsóknarinnar í næstu viku.

Á morgun byrjar vaktavika hjá mér og kannski blogga ég meira þá fyrir þessa tvo eða þrjá föstu lesendur mína.


Tuttugastaogannað blogg

Best að blogga smá. Það er orðið ansi langt síðan ég bloggaði síðast. Þó lesendurnir séu ekki margir þá sé ég á teljaranum að ég er að valda einhverjum vonbrigðum, því a.m.k. fáeinir líta hingað inn stöku sinnum þó lítið sé að gerast.

Af mér er fátt og lítið að frétta. Löppin er svolítið bólgin en það veldur mér litlum vandræðum. Helst að ég þurfi aðeins að beita lagni við að fara niður stiga. Innan fyrirtækisins er verið að auglýsa eftir umsóknum um störf í álverinu á Reyðarfirði. Ég er að hugsa um að kynna mér það nánar og jafnvel að sækja um.

Merkilegt hvað rifist er um stjórnarskrána þessa dagana. Mér finnst þetta vera örvæntingarfullt  útspil framsóknarmanna til þess  að minna á sig. Mig minnir að ég hafi haldið því fram hérna á blogginu fyrir nokkrum vikum síðan að alþingismönnum komi stjórnarskráin lítið við og best væri ef þeir létu hana alveg í friði. Ekki eru samt auðfundnir aðrir aðilar til að skipa þeim málum gáfulega og því þeim mun meiri ástæða til að flana ekki að neinu og viðgerðir alþingismanna eru meira en vafasamar ef ekki er um fullt samkomulag stjórnar og stjórnarandstöðu að ræða.

Þrýstingur á gufukötlum féll nokkuð í fyrrinótt hér í MS. Olli það nokkru havaríi, en mér sýnast þau mál vera í góðum farvegi núna. Í nótt sem leið snarlækkaði síðan frostið í herðinum í ísgerðinni, en lítið mál var að laga það. Af þessu má sjá að hér eru rólegheitin ekki alltaf drepandi, þó oft sé lítið um að vera.

Bréfskákir tefli ég  um þessar  mundir á þremur stöðum. Á playchess.de tefli ég 10 skákir sem ekki eru reiknaðar til stiga. Á Gameknot tefli ég síðan 13 stigaskákir og m.a. í móti sem Bjarni startaði. Hann er búinn með allar sínar skákir í mótinu og er með 8 vinninga af 12 mögulegum ef ég man rétt. Sjálfur er ég með 4,5 vinninga og á 4 skákir eftir. Síðan er það Chesshere.com þar sem komst um daginn mest í 51 skák en nú eru þær 40 að mig minnir. Ég tefli nú fremur hratt þar og alltaf koma skemmtilegar skákir upp þar öðru hvoru.

Benni fékk um daginn tilboð í íbúðina sína. Hann gerði gagntilboð og ég veit ekki hvernig það mál hefur farið. Hugsanlega ekki útkljáð enn. Mér heyrist á honum að hann sé nokkuð ákveðinn í að selja og kaupa sér nýtt.

Áslaug er að skúra í Aðföngum þessa dagana og Bjarni með henni. Í síðustu viku hjálpaði ég til í stað Bjarna og oftast með Hafdísi því Áslaug var með flensu.

Sjálfur fékk ég hita og beinverki seinni partinn á sunnudaginn og var svolítið slæmur nóttina á eftir, en síðan varð ekki meira úr því.


Tuttugastaogfyrsta blogg

Vinsamligst / sem alra fist / oss öskubakki útvegist.

Þetta man ég eftir að við nokkrir verðandi nemendur við Samvinnuskólann að Bifröst settum saman haustið 1959. Ástæðan var sú að enginn öskubakki var í herbergi því sem við Kiddi á Hjarðarbóli höfðum helgað okkur eða verið úthlutað (man ekki hvort) Ég man að okkur þótti þetta vel sagt,  einkum man ég eftir að hafa verið hrifinn af þeim stafsetningarbláþráðum sem eru í þessum víslíngi. (Víslíngur er nýyrði um eitthvað sem sumir kalla vísu en aðrir vilja bara kalla samsetning. - merkilegan eða ómerkilegan eftir atvikum)

Ég hugsa að á þessum tíma hafi það verið svolítið meira kool en unkool að reykja, en er þó ekki viss. Áreiðanlega hefur mörgum verið ljós á þessum tíma óhollusta reykinga. Ef ég man rétt var bannað að reykja í tímum og í matsal á Bifröst á þessum tíma, en leyfilegt að öðru leyti.

Annars er mér ofar í huga varðandi ofanritað, að það er oft einkennilegt hvað maður man og hvað maður man ekki, frá löngu liðnum tíma. Einhversstaðar man ég eftir að hafa séð því haldið fram að ástæðan fyrir þessu sé sú að í huga okkar séum við ósjálfrátt, sífellt að endurraða minningum. Þessvegna lendi sumar minningar í því að vera sí og æ í huga okkar, en öðrum þurfi að henda. Kannski verður þetta meira áberandi með aldrinum þegar plássið í heilabúinu fer þverrandi.

Ég get ómögulega skilið hvers vegna ég man svona greinilega eftir víslíngi þeim sem hér er minnst á í upphafi færslunnar. Ekki er hægt að segja að hann sé merkilegur og ekki er tilefnið heldur merkilegt. Mér dettur helst í hug að þetta tengist stafsetningaráhuga mínum. Ég held að ég hafi alltaf haft nokkurn áhuga á málfari og stafsetningu.

Annars er ekki margt  til  að blogga um núna. Ég tek eftir því að tuttugasta bloggið lenti á 2. mars og líklegt er að þetta geri það líka. Samt er eiginlega sólarhringur á milli þessara blogga.


Tuttugasta blogg

Blogg, blogg, blogg, blogg og blogg. Nei, svona einfalt er það ekki. Einhverri lágmarkshugsun verður að beita við bloggskriftir. Þó skiptir eflaust mestu ef hugmyndin er að fá einhvern fjölda lesenda að blogga reglulega, um mál sem fólk hefur áhuga á og að bloggið sé hæfilega langt.

Bjarni var með Volvoinn á verkstæði hjá Ingvari á Krókhálsinum í dag, hann og Áslaug þurftu líka að skúra í Aðföngum, Áslaug og Hafdís að fara til Benna að gera íbúðina hæfa til myndatöku fyrir sölumeðferð, Bjarni að fara á körfuboltaæfingu og ég í vinnuna fyrir kl. sex, svo það veitti ekki af að hafa tvo bíla í takinu, þegar leið að kvöldi.

Fjölskyldublogg er eiginlega ný blogghugsun sem ég er að hugsa um að einbeita mér að. Þá meina ég það að bloggið er bara fyrir mig og mína fjölskyldu og ef einhverjir aðrir rekast hingað inn þá er það bara þeirra mál hvort þeir skilja mikið eða lítið í því sem hér er sagt frá. Ég er að hugsa um að gefa öðrum blogghugsunum frí í bili að minnsta kosti. Auðvitað getur það verið að ég finni hvöt hjá mér einhverntíma í framtíðinni að blogga um eitthvað annað og þá geri ég það náttúrlega. Aðrir í fjölskyldunni geta að sjálfsögðu fengið að blogga hér ef þá langar til og svo er kommentakerfið náttúrlega alltaf opið.

Semsagt, hér er ekki um neina samkeppni við opinbera eða hálfopinbera fjölmiðla að ræða. Það sem hér er sagt er að mestu leyti útúr kú og á að vera það. Heimurinn hefur sinn gang hvort sem ég æsi mig eitthvað yfir því eða ekki.

Í kvöld sá ég í fyrsta skipti eintak af blaðinu "Sagan öll" og það er greinilegt bæði á kápumynd og allri uppsetningu á blaðinu að því er alfarið beint gegn Lifandi Vísindum. Mér finnst Illugi Jökulsson leggjast frekar lágt með því að taka að sér að vera ritstjóri þessa blaðs.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband