Tuttugastaogfyrsta blogg

Vinsamligst / sem alra fist / oss öskubakki útvegist.

Þetta man ég eftir að við nokkrir verðandi nemendur við Samvinnuskólann að Bifröst settum saman haustið 1959. Ástæðan var sú að enginn öskubakki var í herbergi því sem við Kiddi á Hjarðarbóli höfðum helgað okkur eða verið úthlutað (man ekki hvort) Ég man að okkur þótti þetta vel sagt,  einkum man ég eftir að hafa verið hrifinn af þeim stafsetningarbláþráðum sem eru í þessum víslíngi. (Víslíngur er nýyrði um eitthvað sem sumir kalla vísu en aðrir vilja bara kalla samsetning. - merkilegan eða ómerkilegan eftir atvikum)

Ég hugsa að á þessum tíma hafi það verið svolítið meira kool en unkool að reykja, en er þó ekki viss. Áreiðanlega hefur mörgum verið ljós á þessum tíma óhollusta reykinga. Ef ég man rétt var bannað að reykja í tímum og í matsal á Bifröst á þessum tíma, en leyfilegt að öðru leyti.

Annars er mér ofar í huga varðandi ofanritað, að það er oft einkennilegt hvað maður man og hvað maður man ekki, frá löngu liðnum tíma. Einhversstaðar man ég eftir að hafa séð því haldið fram að ástæðan fyrir þessu sé sú að í huga okkar séum við ósjálfrátt, sífellt að endurraða minningum. Þessvegna lendi sumar minningar í því að vera sí og æ í huga okkar, en öðrum þurfi að henda. Kannski verður þetta meira áberandi með aldrinum þegar plássið í heilabúinu fer þverrandi.

Ég get ómögulega skilið hvers vegna ég man svona greinilega eftir víslíngi þeim sem hér er minnst á í upphafi færslunnar. Ekki er hægt að segja að hann sé merkilegur og ekki er tilefnið heldur merkilegt. Mér dettur helst í hug að þetta tengist stafsetningaráhuga mínum. Ég held að ég hafi alltaf haft nokkurn áhuga á málfari og stafsetningu.

Annars er ekki margt  til  að blogga um núna. Ég tek eftir því að tuttugasta bloggið lenti á 2. mars og líklegt er að þetta geri það líka. Samt er eiginlega sólarhringur á milli þessara blogga.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband