Tuttugastaogannað blogg

Best að blogga smá. Það er orðið ansi langt síðan ég bloggaði síðast. Þó lesendurnir séu ekki margir þá sé ég á teljaranum að ég er að valda einhverjum vonbrigðum, því a.m.k. fáeinir líta hingað inn stöku sinnum þó lítið sé að gerast.

Af mér er fátt og lítið að frétta. Löppin er svolítið bólgin en það veldur mér litlum vandræðum. Helst að ég þurfi aðeins að beita lagni við að fara niður stiga. Innan fyrirtækisins er verið að auglýsa eftir umsóknum um störf í álverinu á Reyðarfirði. Ég er að hugsa um að kynna mér það nánar og jafnvel að sækja um.

Merkilegt hvað rifist er um stjórnarskrána þessa dagana. Mér finnst þetta vera örvæntingarfullt  útspil framsóknarmanna til þess  að minna á sig. Mig minnir að ég hafi haldið því fram hérna á blogginu fyrir nokkrum vikum síðan að alþingismönnum komi stjórnarskráin lítið við og best væri ef þeir létu hana alveg í friði. Ekki eru samt auðfundnir aðrir aðilar til að skipa þeim málum gáfulega og því þeim mun meiri ástæða til að flana ekki að neinu og viðgerðir alþingismanna eru meira en vafasamar ef ekki er um fullt samkomulag stjórnar og stjórnarandstöðu að ræða.

Þrýstingur á gufukötlum féll nokkuð í fyrrinótt hér í MS. Olli það nokkru havaríi, en mér sýnast þau mál vera í góðum farvegi núna. Í nótt sem leið snarlækkaði síðan frostið í herðinum í ísgerðinni, en lítið mál var að laga það. Af þessu má sjá að hér eru rólegheitin ekki alltaf drepandi, þó oft sé lítið um að vera.

Bréfskákir tefli ég  um þessar  mundir á þremur stöðum. Á playchess.de tefli ég 10 skákir sem ekki eru reiknaðar til stiga. Á Gameknot tefli ég síðan 13 stigaskákir og m.a. í móti sem Bjarni startaði. Hann er búinn með allar sínar skákir í mótinu og er með 8 vinninga af 12 mögulegum ef ég man rétt. Sjálfur er ég með 4,5 vinninga og á 4 skákir eftir. Síðan er það Chesshere.com þar sem komst um daginn mest í 51 skák en nú eru þær 40 að mig minnir. Ég tefli nú fremur hratt þar og alltaf koma skemmtilegar skákir upp þar öðru hvoru.

Benni fékk um daginn tilboð í íbúðina sína. Hann gerði gagntilboð og ég veit ekki hvernig það mál hefur farið. Hugsanlega ekki útkljáð enn. Mér heyrist á honum að hann sé nokkuð ákveðinn í að selja og kaupa sér nýtt.

Áslaug er að skúra í Aðföngum þessa dagana og Bjarni með henni. Í síðustu viku hjálpaði ég til í stað Bjarna og oftast með Hafdísi því Áslaug var með flensu.

Sjálfur fékk ég hita og beinverki seinni partinn á sunnudaginn og var svolítið slæmur nóttina á eftir, en síðan varð ekki meira úr því.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband