Bloggfærslur mánaðarins, október 2007
31.10.2007 | 01:53
159. blog
Þessi saga er merkileg fyrir það að hægt er að læra hana á skemmri tíma en það tekur að lesa hana.
Einnig virðast krakkar af einhverjum ástæðum hafa gaman af að heyra hana. Að öðru leyti er hún afspyrnu léleg og jafnvel ástæða til að hlaupa yfir hana.
Einu sinni voru karl og kerling í koti sínu. Þau áttu sér þrjá syni. Þeir hétu: Skrat, Skrat Skrata Rat og Skrat Skrata Rat Skrat Skúrum Skrat. Kóngur og Drottning bjuggu í höllu sinni. Þau áttu sér þrjár dætur. Þær hétu: Sipp, Sipp Sippa Nipp og Sipp Sippa Nipp Sipp Súrum Sipp. Síðan giftust þau Skrat og Sipp og Skrat Skrata Rat og Sipp Sippa Nipp og Skrat Skrata Rat Skrat Skúrum Skrat og Sipp Sippa Nipp Sipp Súrum Sipp.
Líklega hafa krakkar gaman af að hlusta á þessa vitleysu vegna þess að þegar hún er sögð freistast flestir til að flýta sér og þá er auðvelt að mismæla sig.
Lára Hanna Einarsdóttir sendir mér og þeim sem hér eru upptaldir eftirfarandi bréf. Matthías Kristiansen, Kjartan Pétur Sigurðsson, anno@unak.is, heidikr@simnet.is, Ragnheiður Davíðsdóttir, Berglind Steinsdóttir:
Eruð þið til í að blogga um þessa frétt til að hún veki meiri athygli?
Kannski setja líka inn tengil á heimasíðuna: www.hengill.nu.
Bloggið hefur mikil áhrif og keðjuverkandi.
Mikið væri það þarft framtak og vel þegið - ef það er í samræmi við skoðanir ykkar.
Mbl fréttin er svona:
Andstæðingar fyrirhugaðrar jarðgufuvirkjunar á Hengilssvæðinu í landi sveitarfélagsins Ölfuss hafa sett á laggirnar heimasíðu þar sem almenningur er hvattur til að gera athugasemdir við virkjunaráætlanirnar. Um er að ræða 135 MWe virkjun Orkuveitu Reykjavíkur við Bitru, rétt vestan við Ölkelduháls. Frummatsskýrsla vegna framkvæmdanna er nú til athugunar hjá Skipulagsstofnun og rennur frestur til að gera athugasemdir við framkvæmdirnar út 9. nóvember. Petra Mazetti, leiðsögumaður og forsprakki síðunnar, segir að tilgangurinn með opnun hennar sé fyrst og fremst sá að vekja athygli almennings á því að til standi að spilla ómetanlegri náttúruperlu í næsta nágrenni við höfuðborgarsvæðið með jarðgufuvirkjun. "Við vildum ekki vera of sein með athugasemdirnar í þetta skiptið," segir Petra og bendir á að margir séu nú að mótmæla virkjunaráætlunum við Þjórsá, en umhverfismat fyrir svæðið hafi legið fyrir í talsvert langan tíma.
Svo mörg voru þau orð á mbl.is Ég er ekki vanur að linka í fréttir þar og bregð ekki vana mínum í þetta sinn heldur birti fréttina í heild.
Einhvern tíma bloggaði ég svolítið um hverasvæðið á Ölkelduhálsi en þangað hef ég oft komið. Það er einstakt í sinni röð. Eitt sinn þegar Ómar Ragnarsson vann á Stöð 2 og var að gera einhverja þætti um náttúrufar á Íslandi benti ég honum á að skoða þetta hverasvæði, en hann fann það ekki.
Þegar til stóð á sínum tíma að byggja álver á Keilisnesi var búið að mæla fyrir nýrri Búrfellslínu sem liggja átti yfir þetta óviðjafnanlega hverasvæði. Úr því varð ekki þá, en núna getur verið að það sé alvara að eyðileggja svæðið.
Hverjar sem staðreyndir málsins eru ráðlegg ég öllum að kíkja á þetta vefsetur (http://www.hengill.nu/) það verður enginn svikinn af því, jafnvel þó menn nenni ekki að gera neitt annað en að skoða myndirnar, þær eru frábærar sumar hverjar.
Ég er nú svo tregur og skoða póstinn minn svo sjaldan, en núna rétt áður en ég setti þetta á bloggið mitt sá ég að Lára Hanna hafði víst líka skrifað mér í gær um þetta sama málefni. Hér kemur það bréf:
Kynnið ykkur endilega þetta mál og látið póstinn ganga áfram til allra!
Látum ekki stela frá okkur landinu!
--------------------------------------------------------------------------------
Subject: Áríðandi skilaboð til unnenda íslenskrar náttúru
Ágætu viðtakendur,
Hin einstaka náttúra Íslands hefur átt í vök að verjast undanfarin ár, ráðist hefur verið að henni úr ýmsum áttum og enn á að höggva.
Nú stendur til að valda spjöllum á einni fegurstu og fjölbreyttustu náttúrperlu í nágrenni höfuðborgarsvæðisins, Hengilssvæðinu, með því að grafa upp ósnortna náttúru, byggja virkjun og reisa rafmagnsmöstur, að því er virðist til þess eins að selja orku á gjafverði til erlendra stóriðjufyrirtækja. Þetta gerir okkur öll og afkomendur okkar fátækari að þeim lífsgæðum sem felast í óspilltri náttúru okkar undurfagra lands.
Á vefslóðinni www.hengill.nu, sem er einkaframtak áhugasamra einstaklinga, eru meðal annars upplýsingar, myndir og margvíslegur fróðleikur um fyrirhugaða virkjunarframkvæmd og afleiðingar hennar, auk tillögu að bréfi til að senda inn athugasemdir.
Kynnið ykkur málið sem hér er á ferðinni, verið með í þessu átaki og sendið inn mótmæli - ef þið styðjið málstaðinn. Allir geta verið með, hvar sem þeir búa á landinu.
Sendið þennan póst áfram til annarra, bloggið um málið og setjið slóðina inn, skrifið greinar í fjölmiðla en umfram allt - látið ykkur umhverfið varða og takið afstöðu. Okkur kemur þetta öllum við.
Þar með þetta blogg mitt orðið í lengra lagi en við því er ekkert að gera. Síðast þegar Lára Hanna skrifaði mér kostaði það ennþá lengra blogg.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.10.2007 | 02:10
158. blogg
Nú er því takmarki að verða náð að blogga eitthvað á hverjum degi í heilan mánuð.
Heimskulegt takmark svosem, ekki neita ég því. Ég get samt vel skilið að þeir sem eru búnir að bæta mér á bloggrúntinn hjá sér á annað borð, vilji gjarnan að ég skrifi sem oftast. Það mundi ég vilja í þeirra sporum.
Mér finnst Gulli Þórðar löggu hafa dúmmað sig svolítið með því að lýsa yfir stuðningi við rauðvínsfrumvarpið. Hann hefði átt að gera sér grein fyrir því að eftir að hann var gerður að heilbrigðisráðherra þyrfti hann að passa sig mjög vel. Það getur varla verið að það verði honum til framdráttar pólitískt að gera þetta. Sé hann í hjarta sínu svo vel frjálshyggju-prógrammeraður að honum finnist rétt að þetta frumvarp nái fram að ganga hefði hann a.m.k. átt að hafa vit á að þegja.
Einu sinni tíðkaðist í Kína að skrifa fréttir og annað á veggspjöld sem síðan voru hengd upp á Torgi hins Himneska Friðar. Bloggið er dálítið líkt þessu. Þannig ímynda ég mér að minnsta kosti hlutina. Ég læt mig jafnvel dreyma um að þeir sem lesa mitt veggspjald staldri svolítið við og hugsi kannski eitthvað á þá leið að þetta sé nú bara nokkuð vel sagt, en strunsi ekki bara framhjá og gjói hornauga á spjaldið svona í forbifarten.
Einhvers konar orðaþulur eða vísur rata mjög oft í bloggið hjá mér um þessar mundir. Þetta datt mér í hug þegar ég skrifaði byrjunina á þessu bloggi:
Ég fer um borð
og borða um borð
fyrst borðað er um borð
á annað borð.
Ekki veit ég hvaðan þetta er komið en þetta líkist dálitið annarri þulu sem mamma kenndi mér á sínum tíma:
Ef sumir væru við suma
eins og sumir eru við suma
þegar sumir eru frá.
Væru sumir betri við suma
en sumir eru við suma
þegar sumir eru hjá.
Auk þess vil ég gjarnan vekja athygli á bloggi Hallmundar Kristinssonar hann er frábær hagyrðingur. Slóðin er: hallkri.blog.is
Líka má auðvitað minna á Má Högnason þó ég efist mikið um að hann sé til. Ég held að Gísli Ásgeirsson þýðandi yrki fyrir hann þessar íðilfögru limrur sem Már birtir reglulega á bloggi sínu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
29.10.2007 | 01:15
157. blogg
Mér finnst bókmenntaþáttur Egils Helgasonar, sem mig minnir að sé alltaf á miðvikudögum, betri en Silfrið á sunnudögum.
Silfrið er orðið ósköp þreytt og leikmyndin breytist aldrei neitt. Á tímabili var Egill með einskonar leiðara í upphafi hvers þáttar en sem betur fer hætti hann því. Þeir voru beinlínis skeflilega lélegir og illa teknir.
Mér finnst áhugavert hvernið hægt er að gera umfjöllun um bækur skemmtilegri en stjórnmál. Í Kiljunni finnst mér skipta mestu máli hvernig hver þáttur er saman settur. Það er næstum öruggt að viðmælendurnir hafa eitthvað merkilegt að segja. Þannig er það alls ekki í Silfrinu. Sumir sem þangað koma hafa alls ekki neitt að segja og langar greinilega að koma í veg fyrir að aðrir segi eitthvað.
Valið á viðmælendum skiptir sennilega mestu máli í Silfrinu. Þar tókst Agli oft ágætlega upp í byrjun en núna finnst mér eins og þetta séu alltaf sömu andlitin. Með því að gæta þess að hafa föstu viðmælendurna ekki lengi á skjánum í einu má ef til vill koma í veg fyrir þessi leiðindi í Kiljunni. Veikasti hluti þess þáttar finnst mér umsögnin um uppáhaldsbókina. Þar er það greinilega meðvitað að spyrja engra spurninga og í staðinn er fólk gjarnan látið tala of lengi.
Kristmann Guðmundsson segir frá þessu atviki í einni Ísoldarbókinni sinni.
Á pósthúsinu í Hveragerði voru nokkrir menn samankomnir og biðu eftir afgreiðslu. Af einhverjum ástæðum barst í tal vísa um Bertel nokkurn sem stundaði einhverju sinni nám í Kaupmannahöfn og þótti stertimenni mikið. Einkum var það bragarhátturinn sem mönnum þótti merkilegur. Vísan er svona:
Getur ekkert gert vel
gengur þó með sperrt stél
Bertél.
Skyndilega víkur Jóhannes úr Kötlum sér að Kristmanni Guðmundssyni og segir:
Lít ég einn er list kann.
Löngum hafa þær kysst hann.
Kristmann.
Kristmann svaraði að bragði og ég man vel að Kristmann sagði í ævisögu sinni að sennilega hafi hann aldrei verið jafnfljótur að svara fyrir sig í bundnu máli:
Fleiri þó við ötlum
að farið hafi úr pjötlum
í Kötlum.
Ég man vel eftir mörgum listamönnum sem áttu heima í Hveragerði þegar ég var að alast þar upp. Jóhannes úr Kötlum bjó þar og sat stundum yfir í prófum við skólann. Kristmann Guðmundsson átti nafntogaðan garð við Frumskógagötu og hafði verið giftur sjö sinnum að því er sagnir hermdu. Kristján frá Djúpalæk vann oft við húsamálun og Kristinn Péturssona málari var þarna líka. Höskuld Björnsson teiknara þekkti ég, en man þó betur eftir syni hans.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.10.2007 | 00:50
156. blogg
Ómar Ragnarsson var eitthvað að fjasa um Örn Clausen á blogginu sínu um daginn.
Ég minntist svo á heimsmetið Arnar í kommenti við þá færslu. Það var að henda perlum fyrir svín að eyða slíkum konfektmola í komment. Miklu nær að blogga um það á sínu eigin bloggi. Ég held að Ómar lesi yfirleitt ekki kommentin sín og þó svo væri þá sé ég ekki hvers vegna í ósköpunum hann eða einhverjir aðrir ættu að svara þeim. Algjör tilætlunarsemi.
Nú, jæja. Örn Clausen setti á einhverju smámóti í Noregi fyrir löngu síðan heimsmet í 1000 metra boðhlaupi með þremur hlaupurum frá Bandaríkjunum. 1000 metra boðhlaup fer þannig fram að fyrst er hlaupinn 100 metra sprettur og næsti hlaupari hleypur síðan 200 metra vegalengd, sá þriðji 300 metra og sá síðasti 400 metra. Á árunum í kringum 1950 var ekki sjaldgæft að keppt væri í þessari grein á frjálsíþróttamótum. Þær íþróttir sem algengast er að keppa í nútildags á mótum eru ekkert sjálfsagðar í eðli sínu heldur eru þær bara vinsælastar vegna þess að stjórnendur Ólympíuleika hafa vinsað þær úr. Ekki man ég hvaða sprett Örn hljóp en heimsmet settu þeir drengirnir og það stóð áreiðanlega í þónokkur ár.
Í sveitarstjórn einhvers staðar var rætt um að setja þyrfti upp lýsingu við vegarspotta nokkurn. Sá sem fékk þetta samþykkt sagði yfirleitt nefnilega í öðru eða þriðja hverju orði. Um þetta sagði hann: að menn sem um götuna færu,
nefnilega í náttmyrkri
nefnilega mættu,
nefnilega nokkurri
nefnilega hættu.
Einar Kárason eða einhver rithöfundur af hans kynslóð var að fabúlera um fréttaflutning í fornöld sem oft var ansi mikið úr skúffunni um Lumumba og Kasavúbú. Ég tók eftir því að Einar sagði Kasabúbú sem ég held að sé alls ekki rétt. Hvað með það ég man eftir þessum tíma. Frásagnir frá Kongó þar sem þessir kallar voru í aðalhlutverki tröllriðu fjölmiðlum á Íslandi mánuðum eða misserum saman. Eftirminnilegasti brandarinn frá þessum tíma held ég að sé eftirfarandi:
Kasavúbú át Lumumba.
Já, og svo muna eflaust einhverjir eftir svöngu börnunum í Biafra sem ekkert hefur frést frá óralengi.
Við systkinin lærðum held ég öll að hjóla á hjólinu hennar Sigrúnar. Það var alveg upplagt að vera búinn að ljúka öllum helstu dettingum og þess háttar áður en maður fór á sitt eigið hjól, sem auðvitað var miklu fínna og flottara. Reyndar man ég ekki með vissu hvort Ingibjörg átti reiðhjól, en ég átti eitt og seinna meir bæði Vignir og Björgvin.
Hjólið hennar Sigrúnar hafði líka þann ótvíræða kost að það var kvenhjól. Ég man eftir því að þegar maður var lítill og lenti í því að hjóla á stóru karlmannsreiðhjóli þá hjólaði maður "undir stöng" sem kallað var. Það er að segja setti fótinn sem steig pedalann hinum megin einfaldlega undir stöngina. Það var svolítið asnalegt að hjóla þannig allur skakkur, en vel gerlegt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
27.10.2007 | 01:21
155. blogg
Einu sinni þótti góð latína að setja minnisatriði í bundið mál.
Allskyns upptalningar sem gott var að kunna til að fá háar einkunnir á prófum voru settar í rím og stuðla. Ég man ekki eftir mörgum slíkum vísum en þó einni a.m.k. Hún er um þverár Dónár.
Í Dóná falla Ísar, Inn.
Einnig Drava og Sava.
Lech og Teiss ég líka finn
og legg svo Pruth í endirinn.
Það voru nemendur við Barna- og Miðskólann í Hveragerði sem settu Pythagorasar-regluna margfrægu í bundið mál. Ef til vill hafa þeir notið einhverrar hjálpar snillingsins Séra Helga Sveinssonar og sagt er að orðatiltækin sem fyrir koma í vísunni hafi verið töm einhverjum kennurum við skólann:
Ef spurningin skyldi skella á mér.
Skeð gæti verið ég teldi.
Langhlið í öðru jafnt skammhliða skver
og skammhlið í öðru veldi.
Sigurður Nordal tók upp á því á skólaárum sínum að skrifa nafnið sitt ætíð S. Nordal. Þá tóku félagar hans upp á því að kalla hann Snordal. Það líkaði honum ekki og tók að skrifa nafnið sitt Sig. Nordal. Þá kölluðu þeir hann Signor Dal og svo kann ég þessa sögu ekki lengri.
Það var hinsvegar annar Sigurður, sænskmenntaður og Þórarinsson sem var eitt sinn að kenna og hafði skrifað á töfluna eftirfarandi:
Atmosfer
Stratosfer
Ionosfer
Svo þurfti hann að bregða sér frá og þegar hann kom aftur var búið að bæta við á töfluna:
Lúsífer
Engifer
Sigurður fer
sem betur fer.
Sá í auglýsingu frá bókasafni í dag eftirfarandi setningu: Sænsk könnun hefur sannað að þeir sem lesa mikið verði langlífir. Mig stansar á (eins og mamma hefði eflaust sagt) hvað fjölmiðlamenn eru alltaf ginkeyptir fyrir allskyns könnunum og athugunum. Sjálfur hef ég sett saman þessa kenningu: Það er hægt að sanna hvaða staðhæfingu sem er með könnunum. Vandinn er eingöngu að finna réttu könnunina.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
26.10.2007 | 01:33
154. blogg
Þetta er nú bara ágætis fyrirsögn hjá mér þó ég sé á móti fyrirsögnum.
Ég vildi bara láta þess getið að tveir bloggvinir mínir sem báðir eru sérfræðingar um bílamál hafa gefið það út að hinir svonefndu tvinnbílar séu bölvað húmbúkk. Þessir sérfræðingar eru Ómar Ragnarsson og Sigurður Hreiðar. Ég vísa bara á bloggin þeirra ef menn vilja fræðast meira. Ekki veit ég neitt um þetta. Ég er ekki einu sinni spaldhryggsjafnaður hvað þá kolefnisjafnaður.
Það er meira hvað ég man af þessum læknasögum. Þessi er nú samt heldur ómerkileg. Einhverju sinni var ég hjá Magnúsi lækni. Ég hef eflaust verið orðinn meira en sautján ára þá því Magnús spurði mig hvort ég gæti ekki farið með bílinn sinn niður á verkstæði til Aage Michelsen. Auðvitað gat ég það og gerði. Þótti það meira að segja talsverð upphefð. Því miður man ég ekki lengur hverskonar bíll þetta var nema hvað það var áreiðanlega drossía og ég komst klakklaust til Aage.
Magnús læknir var alltaf að þvo sér um hendurnar þegar maður var hjá honum og notaði jafnan 1313 handsápu. Aldrei þorði ég samt að segja við hann hinn vinsæla brandara sem oft var hafður um þá sem notuðu 1313 sápu.
"Hvernig sápu notarðu?"
"1313."
"Hvenig þorirðu að nota hana?"
"Hvað áttu við?"
"Nú, það er sagt að hún sé bakteríudrepandi....."
Og síðan átti að hlæja hrossahlátri svo fórnarlambinu dyldist ekki að verið var að líkja honum við bakteríu.
Sigurður Þór Guðjónsson útskýrir fyrir mönnum hvað orðið Apókrýfur þýðir. Mig minnir reyndar að það sé einkum í kommentunum við færsluna hans sem skýringar á þessu orði er að finna. Ég er þeirrar skoðunar að maður eigi ekki að vera að spandera góðum hugmyndum í komment. Þessvegna kommenta ég svona sjaldan, en ef mér dettur eitthvað snjallt í hug þegar ég les önnur blogg þá reyni ég frekar að nota það þegar kemur að því að ég þarf sjálfur að blogga.
Þannig var það með Apókrýfu ritin. Einu sinni fyrir margt löngu keypti ég í fornbókaversluninni sem þá var í Kolasundinu bók sem heitir Apókrýfar vísur. Það var sá þekkti maður Gunnar frá Selalæk sem hafði safnað þessum vísum saman og gefið út. Bókin er safn af klámvísum og var ekki gefin út opinberlega af neinu forlagi. Til þess þóttu vísurnar alltof bersöglar. Útgáfan var semsagt leynileg og eintökin tölusett. Kannski er þetta orðið sjaldgæft rit núna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
25.10.2007 | 00:54
153. blogg
Bjarni er með tvo vinninga úr fyrstu tveimur umferðunum á 36. meistaramóti Bahamas í skák.
Ég á von á að hann verði ofarlega á þessu móti og taki hugsanlega þátt í næsta Ólympíumóti í skák fyrir Bahamas. Um næstu helgi verða tefldar tvær umferðir í mótinu.
Eitt sinn á unglingsárum mínum í Hveragerði var ég að drepast úr tannpínu og fór til Magnúsar Ágústssonar héraðslæknis og bað hann að taka tönnina sem var að kvelja mig. Á þessum árum voru tannlæknar ekki á hverju strái, þó held ég að einn hafi verið á Selfossi. Púlli var hann kallaður og gott ef hann var ekki pabbi Þorsteins Pálssonar.
En þetta var útúrdúr. Ég fór semsagt til Magnúsar og bað hann að draga úr mér eitt stykki tönn. Það var auðvitað guðvelkomið en Magnús sagði að ef ég vildi láta deyfa mig áður en tönnin væri tekin þá kostaði það fimm krónur, en ef ég léti hann taka tönnina án þess að deyfa nokkuð þá kostaði það ekki neitt. Fimm krónur voru talsverður peningur í þá daga svo ég ákvað að spara mér þær og láta taka tönnina án deyfingar.
Svo föst var tönnin að Magnús þurfti að taka á öllum kröftum við að ná henni og var hann þó heljarmenni að burðum. Ég sá svitadropana koma út á enninu á honum en gat ekki gert neitt nema starað framan í hann og haldið mér sem fastast í stólinn. Loksins lét tönnin undan og sleppti sínu dauðahaldi í kjálkann. En vont var það og ég ákvað að næst skyldi ég ekki reyna að spara mér fimm krónur á einfaldan hátt.
Löngu seinna var það hjá tannlækni einum í Reykjavík sem ég þurfti aftur að láta taka úr mér tönn. Tannlæknirinn tók vel í það og deyfði mig í bak
og fyrir og byrjaði síðan að glíma við tönnina. Hún vildi alls ekki fara og læknirinn prófaði ýmsar tegundir af töngum, misstórar og miskröftugar. Að lokum var hann kominn með sína allra sterkustu töng og hamaðist af öllum kröftum við að reyna að ná tönninni í burtu en ekkert dugði, ekki gaf tönnin sig. Að lokum var tannlæknirinn orðinn svitastokkinn og eldrauður í framan og þá mölbrotnaði tönnin skyndilega.
Nú gafst honum færi á að pústa svolítið því greinilegt var að breyta þurfti um bardagaaðferðir við þessa einþykku tönn. Hann sagði mér að hann yrði að skera í tannholdið og freista þess að ná taki á tönninni aftur því ekki kæmi til greina að láta hana eiga sig. Ég gat nú lítið annað en jánkað þessu svo hann hófst handa. Þegar skurðurinn var orðinn nógu djúpur kom hann aftur með sína stærstu töng og glíman hófst að nýju. Hann reyndi að toga hana á allar hliðar og snúa upp á hana og svitinn bogaði af honum. Eftir langa mæðu og mikið basl gaf tönnin sig að lokum og tannlæknirinn fleygði henni í ruslið sigri hrósandi.
Þegar ég losnaði úr stólnum var það fyrsta sem ég gerði að fá mér sígarettu. En þá bar nokkuð nýrra við. Þegar ég reyndi að soga ofan í mig reykinn úr sígarettunni skeði ekki neitt. Enginn reykur ofan í lungun og ekkert eitur sem streymdi um líkamann eins og tilætlunin var. Þetta kom alveg flatt uppá mig og ég áttaði mig ekkert á því hvernig á þessu stóð. Þetta hlaut samt að standa í einhverju sambandi við það sem tannlæknirinn var að enda við að gera við mig svo ég flýtti mér að kvarta yfir þessu við hann.
Einhvern vegin var eins og þetta kæmi honum ekki mikið á óvart og hann útskýrði fyrir mér hvað hefði gerst. Rótin á tönninni var snúin og við átökin við að ná henni hefði brotnað stykki úr kjálkanum og opnast gat upp í nefgöngin og þaðan út um nefið.
Ég komst nú reyndar fljótlega upp á lag með að setja tungubroddinn fyrir gatið þegar ég var að reykja en þetta kostaði vikudvöl á sjúkrahúsi þar sem gatinu var lokað og brotið úr kjálkanum fjarlægt. Svo merkilegt þótti þetta atvik að röntgenmyndir af kjálkanum voru settar á kennslumyndasafn Háskólans og þar eru þær sjálfsagt enn. Kjálkabrotið sem fjarlægt var fékk ég að eiga. Það var á stærð við fremstu kjúku af baugfingri eða svo og ég setti það í brúnt pilluglas og áreiðanlega er það einhvers staðar til ennþá.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
24.10.2007 | 01:47
152. blogg
Benni tók nokkrar filmur með sér þegar hann kom til okkar um helgina.
Á sunnudagskvöldið sendi hann okkur svo fáeinar myndir sem hann hafði skannað. Ég sendi þær í pósti til Hafdísar og í gegnum Yahoo messengerinn til Bjarna. Þetta voru eldgamlar myndir, en ágætar samt. Nokkrar voru frá því þegar við sendum bingó út beint í Borgarnesi fyrir langalöngu (um það mætti skrifa langt mál) og nokkrar teknar af mér, Áslaugu og Ingibjörgu með kettling. Auk þess ein mynd af Áslaugu uppi í tré.
Þegar ég sendi myndirnar til Bjarna tók það svolítinn tíma og Áslaug notaði tækifærið og spjallaði við hann á messengernum á meðan. Hann gat síðan skoðað myndirnar jafnóðum og messengerinn lauk við að senda þær. Alls voru þetta 11 myndir.
BS: "Ert þetta þú sem hangir þarna í trénu?"
ÁB: "Ég hangi ekki neitt í því, ég er að klifra."
BS: "Nú, jæja. Klifra þá.
Mér fannst athyglisvert að Bjarni skyldi nota orðið að hanga. Það minnti mig á eldgamlan brandara (eflaust frá því áður en prinsessan af Wales fórst í bílslysinu í París.) Brandarinn var svona:
Lafði Diana eða hékk hún?
Ætli ég hafi ekki verið svona á fjórtánda ári þegar Bjössi bróðir fæddist. Ég man að mamma var komin vel yfir fertugt þegar hún átti hann og sumum fannst hún jafnvel vera orðin fullgömul til að eignast barn. Við krakkarnir veltum því ekki mikið fyrir okkur en fannst þetta afar spennandi.
Það var síðan nokkru eftir hádegi dag einn sem Bjössi boðaði komu sína. Mamma bað mig að fara uppeftir til Magnúsar læknis og segja honum að barnið væri að koma. Ég fór til Magnúsar til að segja honum þetta og hann spurði mig hvort vatnið væri komið. Ég vissi ekki til þess að það hefði neitt verið vatnslaust og gat ekki svarað því.
Þegar pabbi kom síðan heim í kaffi var barnið fætt. Vigni þótti þetta allt stórmerkilegt og sagði við pabba þegar hann var búinn að fá sér að drekka:
"Pabbi, pabbi, hefurðu séð það?"
Ég man að við gerðum á sínum tíma mikið grín að Vigni fyrir að hafa þurft að taka svona til orða. Hann vissi nefnilega ekki hvort þetta var strákur eða stelpa, en við Ingibjörg höfðum verið svo ótrúlega gáfuð að átta okkur á að spyrja um það.
Bloggvinkona mín Salvör Gissurardóttir getur ekki stillt sig um að gera svolítið grín að Stebba gegnherílandi á blogginu sínu. Þessi sami Stefán tilkynnti á sínu bloggi fyrir nokkru að Moggabloggið væri dautt. Mér sýnist Moggabloggið vera enn að bæta við sig, en er ekki frá því að Stefán Pálsson sé á niðurleið vinsældalega séð og þessvegna svona fúll.
Það rann upp fyrir mér um daginn að einhvern tíma hafa Tungnamenn talað um pabba og mömmu sem ungu hjónin á Drumboddsstöðum. Skrítið. Tíminn skríður áfram miskunnarlaust og mylur allt undir sig.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.10.2007 | 00:58
151. blogg
Nú er mánudagseftirmiðdagur og ég er að fara að vinna í kvöld og ætti eftir kerfinu ekki að vera í vandræðum með að finna tíma til skrifta. Sjáum til.
Ekki er það mjög margt sem mér dettur í hug akkúrat núna en kannski leggst mér eitthvað til.
Sigurður Hreiðar vill einangra umræðuna um samkynhneigða, sem grasserar um allt núna, við íslenskuna og hvort talað er um hjón eða ekki hjón. Ég er hræddur um að miklu meira hangi á spýtunni. Mér er minnisstætt hve hatrömm baráttan gegn því að tala um kynvillu var á sínum tíma. Hugmyndaheimur fólks stjórnast mikið af tungumálinu. Áhrif tungumálsins á lagasetningu eru vanmetin.
Ég er hræddur um að samkynhneigðir verði ekki ánægðir með að það megi gefa þá saman í kirkjum og allt en bara ekki kalla þá hjón. Kirkjan skiptir líka máli í þessu öllu saman. Hvað starfsmenn hennar og þeir sem reglulega sækja messu vilja, skiptir miklu máli. Eðlilegast er að kirkjuþing ráði þessu. Nú hótar biskupinn því að kirkjunnar menn hætti bara að gefa fólk saman í hjónaband ef ætlast verður til slíks af þeim varðandi samkynhneigð pör.
Allt er þetta mál með talsverðum ólíkindum. Mannréttindi blandast í þetta ásamt trúarskoðunum og umræðan virðist ætla að verða enn illvígari en þegar ráðist var á kynvilluna. Þetta snertir mun meira trúarskoðanir fólks en önnur lífsgildi og ætti að vera vatn á myllu þeirra sem vilja aðskilnað ríkis og kirkju.
Hér fer á eftir brandari sem mér þótti einu sinni meinfyndinn. Þetta gerist í Danmörku. Kona ein er allsnakin í sólbaði og hefur hundinn sinn hjá sér. Hundurinn heitir Saadan noget og stingur allt í einu af og hverfur. Konan flýtir sér að fara að leita hans og grípur það sem hún heldur vera spegil og bregður fyrir versta stað. Hún hittir fljótlega nágranna sinn og segir:
Har De set saadan noget?"
Ja, men ikke í ramme för," segir nágranninn og getur ekki stillt sig um að stara á konuna.
Afar einkennilegt mál er komið upp varðandi knattspyrnumann ársins meðal kvenna. Þjálfari Vals virðist hafa komið þessu af stað með því að ljá máls á því að ræða þetta við íþróttafréttamenn. Hefði hún ekki gert það væri þetta sennilega ennþá bara kjaftasaga. Þjálfarinn á því að víkja og hefði verið nær að þegja. Ef fólk sem á kosningarétt í svona kosningu má ekki ræða saman verður að gera því það ljóst og framfylgja því. Ég er ansi hræddur um að eitthvað sem hugsanlega mætti kalla samantekin ráð hafi komið fyrir áður við svipaðar kringumstæður.
Sagt er að milljarður króna eða svo sparist við það að skipta um kúakyn. Ég er samt ekki viss um að það borgi sig þegar á allt er litið. Milljarður er ekki mikið. Menn eru miklu vanari hærri tölum. Hvað yrði um hið íslenska kúakyn ef skipt væri. Hér vil ég að íhaldssemin ráði. Auk þess sem íslenska kýrin er bara talsvert myndarleg, a.m.k. beljuleg.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
22.10.2007 | 01:21
150. blogg
Það eru bara frægir pistlaskrifarar eins og Egill Helgason og fleiri sem þurfa alltaf að passa sig á því að vera gáfulegir í sínum bloggum.
Við í pöplinum getum látið flest flakka enda fáum við ekki borgað fyrir skrifin. Við getum vel látið það eftir okkur að vera ógáfulegir stundum. Svo mikil getur bloggsóttin samt orðið að manni fer að finnast að maður verði að blogga eitthvað á hverjum degi. Sama hve vitlaust það er. Maður má ekki láta þá hugsun trufla sig að vesalings lesendunum er auðvitað vorkunn að þurfa að lesa þetta þrugl. En þeir geta auðvita látið það vera. Kíkt bara inn og farið út strax aftur og reynt að finna eitthvað bitastæðara.
Bloggið mitt skiptist nokkuð í hugleiðingar eins og hér á undan, minningar frá gömlum tímum (Hveragerði, Bifröst, Snæfellsnes, Reykjavík) og ýmsar frásagnir. Lítið fer fyrir eiginlegu dagbókarefni og ekki er mikið sagt frá fjölskyldumálefnum. Þó er ég ekki frá því að sumir sem líta hingað inn séu einkum að leita að slíku efni. Minningarnar frá hinum ýmsu stöðum kunna líka að freista einhverra. Sjálfum finnst mér hugleiðingarnar yfirleitt merkilegastar, a.m.k. finnst mér það oft þegar ég skrifa þær. Ég geri mér samt engar gyllivonir um að öðrum finnist það líka.
Nú er ég búinn að vera svo duglegur við bloggið að undanförnu að ég er að hugsa um að hafa þennan otóbermánuð fyrsta mánuðinn sem ég blogga eitthvað á hverjum einasta degi. Ekki dónalegt það. En til öryggis og til að hlífa lesendum mínum er ég að hugsa um að blogga stundum stutt.
Nú stefnir í að allt verði upp í loft í formúluheiminum útaf hita á bensíni ef marka má mbl.is. Það yrði nú til að kóróna ruglið ef Hamilton fengi heimsmeistaratitilinn á silfurfati eftir allt saman.
Annars er ég að mestu hættur að fylgjast með formúlunni. Sá þó áðan að Stefán Friðrik Stefánsson var að hrósa Gunnlaugi Rögnvaldssyni í blogginu sínu. Ég man vel eftir þegar Gunnlaugur var að byrja í þessu, þá vissi hann eiginlega ekki neitt í sinn haus um formúluna. Þekkti ekki einu sinni bílana í sundur, hvað þá hjálmana. En honum hefur farið heilmikið fram síðan.
Þegar ég fylgdist sem mest með formúlunni var hún á Eurosport og aðalþulurinn var fyrrverandi formúlu eitt ökumaður. Þá voru þulirnir á staðnum og vissu alltaf nákvæmlega hvað var að gerast. Fyrst eftir að byrjað var að sýna frá formúlunni á RUV fór það einna mest í taugarnar á mér hvað þulirnir fylgdust illa með því sem var að gerast í brautinni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)