154. blogg

Tuðað um tvinnbíla.

Þetta er nú bara ágætis fyrirsögn hjá mér þó ég sé á móti fyrirsögnum.

Ég vildi bara láta þess getið að tveir bloggvinir mínir sem báðir eru sérfræðingar um bílamál hafa gefið það út að hinir svonefndu tvinnbílar séu bölvað húmbúkk. Þessir sérfræðingar eru Ómar Ragnarsson og Sigurður Hreiðar. Ég vísa bara á bloggin þeirra ef menn vilja fræðast meira. Ekki veit ég neitt um þetta. Ég er ekki einu sinni spaldhryggsjafnaður hvað þá kolefnisjafnaður.

Það er meira hvað ég man af þessum læknasögum. Þessi er nú samt heldur ómerkileg. Einhverju sinni var ég hjá Magnúsi lækni. Ég hef eflaust verið orðinn meira en sautján ára þá því Magnús spurði mig hvort ég gæti ekki farið með bílinn sinn niður á verkstæði til Aage Michelsen. Auðvitað gat ég það og gerði. Þótti það meira að segja talsverð upphefð. Því miður man ég ekki lengur hverskonar bíll þetta var nema hvað það var áreiðanlega drossía og ég komst klakklaust til Aage.

Magnús læknir var alltaf að þvo sér um hendurnar þegar maður var hjá honum og notaði jafnan 1313 handsápu. Aldrei þorði ég samt að segja við hann hinn vinsæla brandara sem oft var hafður um þá sem notuðu 1313 sápu.

"Hvernig sápu notarðu?"

"1313."

"Hvenig þorirðu að nota hana?"

"Hvað áttu við?"

"Nú, það er sagt að hún sé bakteríudrepandi....."

Og síðan átti að hlæja hrossahlátri svo fórnarlambinu dyldist ekki að verið var að líkja honum við bakteríu.

Sigurður Þór Guðjónsson útskýrir fyrir mönnum hvað orðið Apókrýfur þýðir. Mig minnir reyndar að það sé einkum í kommentunum við færsluna hans sem skýringar á þessu orði er að finna. Ég er þeirrar skoðunar að maður eigi ekki að vera að spandera góðum hugmyndum í komment. Þessvegna kommenta ég svona sjaldan, en ef mér dettur eitthvað snjallt í hug þegar ég les önnur blogg þá reyni ég frekar að nota það þegar kemur að því að ég þarf sjálfur að blogga.

Þannig var það með Apókrýfu ritin. Einu sinni fyrir margt löngu keypti ég í fornbókaversluninni sem þá var í Kolasundinu bók sem heitir Apókrýfar vísur. Það var sá þekkti maður Gunnar frá Selalæk sem hafði safnað þessum vísum saman og gefið út. Bókin er safn af klámvísum og var ekki gefin út opinberlega af neinu forlagi. Til þess þóttu vísurnar alltof bersöglar. Útgáfan var semsagt leynileg og eintökin tölusett. Kannski er þetta orðið sjaldgæft rit núna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson


Gunnar Helgi Eysteinsson, 26.10.2007 kl. 21:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband