156. blogg

Ómar Ragnarsson var eitthvað að fjasa um Örn Clausen á blogginu sínu um daginn.

Ég minntist svo á heimsmetið Arnar í kommenti við þá færslu. Það var að henda perlum fyrir svín að eyða slíkum konfektmola í komment. Miklu nær að blogga um það á sínu eigin bloggi. Ég held að Ómar lesi yfirleitt ekki kommentin sín og þó svo væri þá sé ég ekki hvers vegna í ósköpunum hann eða einhverjir aðrir ættu að svara þeim. Algjör tilætlunarsemi.

Nú, jæja. Örn Clausen setti á einhverju smámóti í Noregi fyrir löngu síðan heimsmet í 1000 metra boðhlaupi með þremur hlaupurum frá Bandaríkjunum. 1000 metra boðhlaup fer þannig fram að fyrst er hlaupinn 100 metra sprettur og næsti hlaupari hleypur síðan 200 metra vegalengd, sá þriðji 300 metra og sá síðasti 400 metra. Á árunum í kringum 1950 var ekki sjaldgæft að keppt væri í þessari grein á frjálsíþróttamótum. Þær íþróttir sem algengast er að keppa í nútildags á mótum eru ekkert sjálfsagðar í eðli sínu heldur eru þær bara vinsælastar vegna þess að stjórnendur Ólympíuleika hafa vinsað þær úr. Ekki man ég hvaða sprett Örn hljóp en heimsmet settu þeir drengirnir og það stóð áreiðanlega í þónokkur ár.

Í sveitarstjórn einhvers staðar var rætt um að setja þyrfti upp lýsingu við vegarspotta nokkurn. Sá sem fékk þetta samþykkt sagði yfirleitt nefnilega í öðru eða þriðja hverju orði. Um þetta sagði hann: að menn sem um götuna færu,

nefnilega í náttmyrkri

nefnilega mættu,

nefnilega nokkurri

nefnilega hættu.

Einar Kárason eða einhver rithöfundur af hans kynslóð var að fabúlera um fréttaflutning í fornöld sem oft var ansi mikið úr skúffunni um Lumumba og Kasavúbú. Ég tók eftir því að Einar sagði Kasabúbú sem ég held að sé alls ekki rétt. Hvað með það ég man eftir þessum tíma. Frásagnir frá Kongó þar sem þessir kallar voru í aðalhlutverki tröllriðu fjölmiðlum á Íslandi mánuðum eða misserum saman. Eftirminnilegasti brandarinn frá þessum tíma held ég að sé eftirfarandi:

Kasavúbú át Lumumba.

Já, og svo muna eflaust einhverjir eftir svöngu börnunum í Biafra sem ekkert hefur frést frá óralengi.

Við systkinin lærðum held ég öll að hjóla á hjólinu hennar Sigrúnar. Það var alveg upplagt að vera búinn að ljúka öllum helstu dettingum og þess háttar áður en maður fór á sitt eigið hjól, sem auðvitað var miklu fínna og flottara. Reyndar man ég ekki með vissu hvort Ingibjörg átti reiðhjól, en ég átti eitt og seinna meir bæði Vignir og Björgvin.

Hjólið hennar Sigrúnar hafði líka þann ótvíræða kost að það var kvenhjól. Ég man eftir því að þegar maður var lítill og lenti í því að hjóla á stóru karlmannsreiðhjóli þá hjólaði maður "undir stöng" sem kallað var. Það er að segja setti fótinn sem steig pedalann hinum megin einfaldlega undir stöngina. Það var svolítið asnalegt að hjóla þannig allur skakkur, en vel gerlegt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson


Gunnar Helgi Eysteinsson, 28.10.2007 kl. 21:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband