879 - Traust og vantraust

Hvað er það sem mest skortir í íslensku þjóðfélagi í dag? Mér finnst það ekki vera peningar þó umræður á Alþingi snúist ekki um annað þessa dagana. Fólk treystir ekki ríkisstjórninni, treystir ekki stjórnmálamönnum eða stjórnvöldum, ekki eftirlitsstofnunum, og allra síst bönkum og fjármálastofnunum. Kannski treystir fólk hvert öðru og sínum nánustu en það er ekki nóg. Kemur þó í veg fyrir að borgarastríð skelli á eða blóðug bylting verði en lagar ekki þær meinsemdir sem grassera í þjóðfélaginu. Helsta meinsemdin er vantraustið á öllum sviðum. Andleg heilsa fólks er miklu meira virði en peningar.

Einu sinni vann ég hjá KÁ. Einnig hjá KB. Þá voru kaupfélögin aflið mikla sem allir litu upp til. Svo kom Kaupþing og eyðilagði skammstöfunina KB. Kaupfélögin hurfu (flest). Samvinnusagan er fag sem bara var kennt í Samvinnuskólanum. Mest var þar sagt frá sjálfmenntuðum bændahöfðingjum. Kaupþing hrundi og skipti um nafn. Allt er breytingum undirorpið.

Á bókamarkaði ekki alls fyrir löngu keypti ég bók sem heitir „Baráttan við fjallið." Hún fjallar um sögu Kaupfélags Árnesinga. Ágætt að lesa þá bók því ég kannaðist við flesta sem þar var minnst á. Bókin var samt ekkert sérstaklega vel skrifuð.

Man eftir að eiga einhversstaðar bókarkorn um KB eða Kaupfélag Borgfirðinga. Þar voru meðal annars myndir af glæsilegum bílaflota félagsins. Skúli Ingvarsson tók þær myndir. Man eftir að ég tók líka myndir á videóvélina okkar í ÚSVB af bílunum. Þá var brúin komin og þeir óku útá Seleyri og til baka í einni halarófu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það getur aldrei orðið traust á meðan sömu stjórnmálamenn og flokkar eru við lýði, það getur aldrei orðið traust á meðan elítan heldur eigum sínum, fær þær faktískt upp í hendurnar aftur með milljarða afskriftum.
Það verður aldrei traust á meðan sömu ruglukollarnir eru í fjármálakerfinu.

Við horfum á sömu gömlu spillingaröflin og glæpamennina í sjónvarpi og fjölmiðlum.. þar sem þeir hylla sjálfa sig... að þeir hafi séð þetta fyrir, að þeir hafi verið partur af klíkum en vilji það ekki lengur... menn toga upp úr holræsinu afdankaðar stjórnmálabullur sem þykjast vita allt, vilji fullkomið réttlæti.. þetta er allt saman eitt stórt Deja Vu aftur og aftur og aftur.
Þetta lið vinnur allt eftir gamlu Gobbels aðferðafræðinni.. að segja lygar nógu oft.. þá endar með að fólk trúir lygunum.

Bylting er það sem þarf.. ekkert mun breytast án byltingar

DoctorE 29.11.2009 kl. 16:37

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

DoctorE ég er nú svo gamall og íhaldssamur að ég tel byltingar hættulegar. Auk þess sem þær snúast stundum í andhverfu sína og éta börnin sín. Siðbót er þó nauðsynleg og hún kemur ekki af sjálfu sér.

Sæmundur Bjarnason, 29.11.2009 kl. 22:42

3 identicon

Maður er ekkert hrifin af svona.. en hér er klárlega: No pain no gain

DoctorE 30.11.2009 kl. 13:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband