700 - Þjóðaratkvæðagreiðsla eða -greiðslur um Evrópusambandsaðild

Best að blogga aðeins um mál málanna. Evrópusambandsaðild kemur til með að skipta þjóðinni í tvær andstæðar fylkingar á svipaðan hátt og NATO-aðildin og hersetan gerði á sínum tíma. Stjórnmálamenn munu reyna að forðast slíkt en svo mikill hiti er í mönnum að líklega er það ekki hægt. 

Þjóðaratkvæðagreiðsla fékkst aldrei um NATO-aðildina og hersetuna en hugsanlegt er að andstæðingar hersetunnar og NATO-aðildarinnar með kommúnista í broddi fylkingar hefðu sigrað í þeirri atkvæðagreiðslu.

Sá munur er einkum á því sem nú er um rætt og kalda stríðinu að nú verður næstum örugglega þjóðaratkvæðagreiðsla. Það er samt ekkert víst að hún lægi öldurnar. Að minnsta kosti ekki ef úrslitin verða ekki mjög sannfærandi. Alls ekki er víst að þeir sem tapa viðurkenni ósigur sinn.

Ýmislegt bendir til að til úrslita dragi í þessu mikla deilumáli strax á þessu ári eða næsta. Viðsjár milli manna munu aukast gríðarlega og engin leið er að spá fyrir hvernig ástandið verður.

Ég er svosem ennþá fylgjandi Evrópusambandsaðild en get ekki með nokkru móti fallist á þann fyrirgang sem í mönnum er. Að mínu mati er það mjög hæpin fullyrðing að allt verði okkur Íslendingum hliðhollara eftir að sótt hefur verið um aðild. Seðlabankar og ríkisstjórnir um allan heim hafa verið að reyna að spila á markaðinn og hugi fólks með svipuðum hætti mánuðum saman með mjög litlum árangri. Manipulering af þessu tagi gengur einfaldlega ekki upp. Ást Svía á okkur Íslendingum er heldur ekki sannfærandi.

Við Íslendingar höfum beðið lengi eftir að sækja um aðild. Vandalaust er með öllu að bíða nokkra mánuði í viðbót. Ég hef áður haldið því fram að tvöföld atkvæðagreiðsla gagnist bara fylgjendum aðildar. Ég er enn sömu skoðunar og tel að atkvæðagreiðsla um að sækja um vinnist auðveldlega af þeim sem það vilja. Þar með verður mun auðveldara að fá fólk til að samþykkja aðild ef sæmilegir samningar nást.

Á sama hátt og vinstri menn vildu umfram allt þjóðaratkvæðagreiðslu um NATO-aðildina og hersetuna munu andstæðingar aðildar að Evrópusambandinu berjast á móti þjóðaratkvæðagreiðslu af öllum kröftum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óskar Þorkelsson

Ég held því miður Sæmi að íslendingar munu segja nei, jafnvel þótt kostirnir væru góðir.. ástæðan er einföld.. íslenska þjóðarsálin er eigingjörn, síngjörn og sjálfselsk.. íslendingar eru aldri upp í þeirri trú að þeir séu fallegri, gáfaðari og duglegri en allir aðrir og því er samvinna við alla aðra fyrir neðan virðingu íslendinga.. því allir aðrir eru ljótari, heimskari og latari en VIÐ !!

Óskar Þorkelsson, 30.5.2009 kl. 01:15

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Nei Óskar, þarna er ég ekki sammála þér. Ég held að já-menn sigri með yfirburðum. Þetta er allt að breytast. Kannski vorum við (og Norðmenn líka) einhverntíma svona eins og þú lýsir, en ekki lengur.

Sæmundur Bjarnason, 30.5.2009 kl. 01:41

3 identicon

Sæll Sæmundur.

Það er alveg rétt hjá þér að hafa áhyggjur af því að það er verið að sundra þjóðinni og kljúfa hana í illvígar fylkingar vegna gassagangsins í ESB sinnum að sækja um aðild "sama hvað" og alltaf talað niður til okkar andstæðinga aðildar ef við erum þá svo mikið sem virtir viðlits.

Tek það fram að það á alls ekki við þig, þú skrifar alltaf mjög málefnalega.

Ég hélt nú að þjóðin þyrfti á öllu öðru að halda nú en sundrungu og deilum.

Ég er ekki í nokkrum vafa um að loksins þegar þjóðin fær að kjósa um þetta mál þá munum við kolfella ESB aðild.

En það er algerlega rangt hjá þér að við ESB andstæðingar berjumst á móti þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta mál.

Við hefðum meira að segja viljað þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort að það eigi yfirleitt að leyfa stjórnvöldum að sækja um ESB aðild og fara í þessar aðildarviðræður.

Við hefðum nefnilega viljað fella það STRAX svo að þjóð og þing hefðu nægan tíma og gætu einbeitt sér að því að vinna að þeim málum sem þarf að vinna í að fullum krafti til að byggja upp hið Nýja Ísland. 

Með góðri kveðju.

                           ÁFRAM ÍSLAND - EKKERT ESB- RUGL !

Gunnlaugur Ingvarsson 30.5.2009 kl. 08:26

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Gunnlaugur ég held að andstæðingar Evrópusambandsaðildar hafi gert mikil taktisk mistök í því að biðja um tvöfalda atkvæðagreiðslu.

Varðandi baráttu gegn þjóðaratkvæðagreiðslu á ég ekki endilega við hvernig ástandið er núna heldur hvernig það verður þegar við blasir að atkvæðagreiðslan verður bara ein en það virðist mér stefna í núna.

Sæmundur Bjarnason, 30.5.2009 kl. 10:41

5 identicon

Ég óttast mest að hinn íslenski þingheimur muni núna hella sér út í sína uppáhalds iðju og eyða dýrmætum tíma til einskis í málþóf - týna sér í MORFÍS-kappræðum um Evrópumálin svo vikum skiptir með engum árangri og málið verði svo á endanum saltað og svæft í nefnd til margra ára.

Semsagt engin niðurstaða í Evrópumálin á meðan þjóðinni blæðir út vegna þess að áríðandi mál komast ekki á dagskrá þingsins.

Jú, gleymdi einu - eitt áríðandi málefni mun líklega komast á dagskrá þingsins í sumar:  Herbergjablætismál Framsóknarflokksins.

Malína 30.5.2009 kl. 15:27

6 Smámynd: Jón Aðalsteinn Jónsson

Hvernig lýst ykkur á hinar nýjustu fréttir um að Þjóðverjar hafi hótað Íslendingum í Kaupþing edge málinu. Eigum við að leggja höfuðið sjálfvilug i gin ljónsins og hvaða gegnsæi er það af stjórnvöldum ef satt er að hafa ekki kynnt okkur bréfið

Jón Aðalsteinn Jónsson, 30.5.2009 kl. 20:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband