635. - Ingólfur Arnarson veginn og léttvægur fundinn

Lengi hefur verið haft fyrir satt að landnám Íslands hafi átt sér stað árið 874 eða um það bil. Þetta er auðvitað hin mesta fjarstæða og hefur oft verið sýnt fram á það. Bækur hafa verið ritaðar um landnámið fyrir landnám, bent hefur verið á ýmislegt sem stangast á við þessa söguskoðun, geislakolsmælingar hafa sannað að landnámið er að minnsta kosti nokkur hundruð árum eldra o.s.frv. Samt er það allvaldamikill hópur sem enn heldur sig við 874 og ber fyrir sig texta sem eignaður er Ara fróða á Staðastað. 

Gamall texti er ekki heilagur og vel getur verið að Ara hafi skjöplast eða jafnvel gefið ártöl í skyn gegn betri vitund. Vísindalegar athuganir eru mun líklegri til að leiða sannleikann í ljós. Þó afleiðingin verði sú að ekki sé eins auðvelt að ársetja landnámið skiptir það engu. Líka getur verið að nauðsynlegt verði að endurskoða vísindalegar niðurstöður í þessum efnum síðar en við því er ekkert að gera.

Nú eru að fara af stað athuganir á kolagröfum sem ættu að sýna í eitt skipti fyrir öll að Íslendingar kunnu að búa til viðarkol 600 til 700 árum eftir Krists burð hvað sem landnáminu og Ingólfi Arnarsyni líður.

Hvað sem mönnum er mikill akkur í því að geta haldið fram að landnámið hafi átt sér stað árið 874 er enginn vafi á því að sannleikurinn mun sigra að lokum. Reynt hefur verið að þagga þessa vitneskju niður eins og reynt hefur verið að viðhalda þeirri fáránlegu söguskýringu að aumingjaskapur Íslendinga á fyrri tíð hafi einkum verið Dönum að kenna.

Mér er enn í minni hve miklum þrætum sú sjónvarpsmynd olli sem Baldur Hermannsson gerði og nefndi „Þjóð í hlekkjum hugarfarsins". Fjaðrafokinu sem þá geysaði verður helst líkt við Grindavíkurfárið þar sem fiskur lá undir steini.

Hér er auðvitað vísað til sjónvarpsmyndar þeirrar sem Þorsteinn Jónsson gerði árið 1974 og fjallaði um mannlífið í Grindavík. Hún var nefnd „Fiskur undir steini."

Ég er alveg að verða ruglaður á þessari listaþvælu. Mér sýnist dæmið líta svona út núna:

A - Sturla Jónsson
B - Framsóknarflokkur
D - Sjálfstæðisflokkur
F - Frjálslyndi flokkurinn
I - Ómar Ragnarsson
L - Bjarni Harðarson
N - Sævar Ciesielski
O - Þráinn Bertelsson
P - Ástþór Magnússon
S - Samfylkingin
V - Vinstri grænir

Hvar í ósköpunum á ég að setja exið?

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Er ekki Ómar Ragnarsson búinn ad hreidra um sig í Samfylkingunni?

S.H. 27.3.2009 kl. 09:21

2 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Hvaða athuganir á kolagröfum eru að fara í gang sem eiga að sýna að Íslendingar kunnu að gera viðarkol árin 600 -700?

Sigurður Þór Guðjónsson, 27.3.2009 kl. 09:25

3 identicon

Mig grunar að Sæmundur skólabróðir sé að vísa til rannsókna dr. Páls Theodórssonar ofl. og nýrrar tækni sem hann og félagar hans eru að þróa.

Ellismellur 27.3.2009 kl. 10:26

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Laukrétt. Ég heyrði einmitt útvarpsþátt um þetta mál fyrir stuttu.

Sæmundur Bjarnason, 27.3.2009 kl. 14:36

5 Smámynd: Historiker

Það hefur ekkert komið fram sem bendir til þess að landnám hafi hafist fyrir níundu öld. Ekkert. Hitt er annað mál að Ingólfur Arnarson er að öllum líkindum uppskálduð persóna og ekki veit ég um neinn sagnfræðing sem heldur því fram að ártalið 874 sé sannleikanum samkvæmt.

Historiker, 27.3.2009 kl. 14:48

6 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Rangt. Það er einfaldlega mjög margt sem bendir til þess að hér hafi verið blómlegt mannlíf áður en norrænir menn hófu hér landnám í stórum stíl á níundu öld.

Sæmundur Bjarnason, 27.3.2009 kl. 15:40

7 Smámynd: Heimir Tómasson

Samanber Írsku munkana.

Heimir Tómasson, 27.3.2009 kl. 16:31

8 Smámynd: Historiker

Nei. Það eru engar óvéfengjanlegar heimildir til um það. Það eru vissulega til órökstuddar fabúleringar þess efnis, en ekkert sem fræðasamfélagið tekur alvarlega. 

Historiker, 27.3.2009 kl. 17:17

9 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Ég var ekkert að tala um óvéfengjanlegar heimildir. Þær eru heldur ekki til fyrir því gagnstæða. Hið svonefnda "fræðasamfélag" er ekki hlutlaust í þessu máli.

Sæmundur Bjarnason, 27.3.2009 kl. 17:46

10 Smámynd: Gísli Ingvarsson

Kolefnis 14 tímamæling er ekki fullkomin og nákvæm. Páll Thodorsson reidir sig á hana. Í vísindum á madur ad vera "íhaldssamur" og seinn til ad hrapa ad ályktunum. Blómlegt mannlíf hefur varla verid á Íslandi fyrir 870 en vel getur verid ad menn hafi komist hingad og alls ekki fjarstædukennt.

En ad byggja nýja sýn á landnám Íslands á fáeinum trjábútum er ekki nóg fyrir mig. T.d hefur tré sem er flutt frá meginlandinu líklega verid notad til byggingar eda í áhöld. 200 ára tré var nóg af á theim tíma. Best var ad nota kjarnavidinn til smída enda hardastur og best varinn roti, Thad er elsti hluti trésins. Svo hér getur hæglega skeikad 200 árum. Enda held ég ad thannig skýri fornleifafrædingar möguleg frávik. Persónulega hef ég ekkert á móti Páli bara alls ekki sannfærdur.

Gísli Ingvarsson, 27.3.2009 kl. 19:44

11 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Ég er hlynntur vísindalegri íhaldssemi en hún getur gengið of langt. Það er of mikil íhaldssemi að treysta einvörðungu á textaskýringar en hleypa öðrum fræðigreinum ekki að.

Sæmundur Bjarnason, 27.3.2009 kl. 20:35

12 identicon

Þökk fyrir bráðskemmtilegt blogg. Slæddist hér inn í fyrsta sinn og hafði gaman af.

Fyrst þú ert kominn í fornleifafræðina langaði mig að benda á svolítið alls óskylt þessu. Í grein nr. 623 segirðu: 

"Það er samt mikilvægt að láta ekki undan enskunni og rembast frekar við að finna nýyrði. Stundum tekst slík smíði afar vel en stundum miður eins og gengur. Einu sinni hétu þotur þrýstiloftsflugvélar og þyrlur helikopterar."

Og þá er loks komið að erindinu. Ef ég man rétt voru þyrlur í barnabókunum um Tom Swift kallaðar snúðkoptar. Ekki veit ég hvað þér finnst um það en mér finnst það nokkuð skondið. Mér er sagt að þýðandinn hafi heitið Skúli Jensson en sel það ekki dýrara en ég keypti það.

Jón H. Brynjólfsson 27.3.2009 kl. 22:50

13 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Sæll Jón!
Ég man vel eftir bókunum um Tom Swift og gott ef ekki snúðkoptunum líka. Ég gæti vel trúað að Skúli Jensson hafi þýtt bækurnar. Hann var afkastamikill þýðandi.

Sæmundur Bjarnason, 27.3.2009 kl. 23:12

14 Smámynd: Eygló

Er ekki einhver með bókstafinn "X" - þá væri ég ekki í vafa.  Ég er samt ekki að meina Alþingishundinn.

Eygló, 27.3.2009 kl. 23:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband