636. - Árný Filippusdóttir á Hverabökkum

Árný Filippusdóttir á Hverabökkum kallaði mig jafnan „litla frænda." Ekki veit ég hvernig ég átti að vera skyldur henni. Ég kunni þessu fremur illa og þótti enginn heiður að því að vera skyldur Árnýju. Svo var ég alls ekkert lítill. Frekar að ég þætti í stærra lagi og leiddist mér einnig þegar fjölyrt var um það.

Árný stofnsetti og stjórnaði frægum kvennaskóla í Hveragerði og ég man vel eftir henni þaðan. Hún var einn af þeim Hvergerðingum í gamla daga sem munaði um. Þegar hún hætti sem skólastjóri kvennaskólans einbeitti hún sér að uppeldi þeirra Harðar og Kúts. Einnig var Herbert sem stundum var kallaður borgarstjóri á hennar vegum og bjó með henni í stórhýsinu sem áður var kvennaskólinn.

Hörður var talsvert drykkfelldur og bjó jafnan í kjallara kvennaskólans en stundaði oft vinnu ágætlega. Við krakkarnir höfðum gaman af að stríða honum og kalla hann Hörð fyllibyttu og þá hljóp hann gjarnan á eftir okkur en hefði sjálfsagt ekki gert okkur neitt þó hann hefði náð okkur. Kútur var talsvert yngri en Hörður og ég kann lítið frá honum að segja.

Þegar Taflfélag Hveragerðis var stofnað tefldum við að minnsta kosti fyrsta veturinn í kvennaskólanum. Seinna vorum við svo í Laugaskarði eftir að Hjörtur flutti þaðan og í húsið sem hann byggði skammt frá.

Þegar við tefldum í kvennaskólanum fylgdist Árný stundum með og hafði gaman af. Hún var mikil hannyrðakona og ég man eftir einu veggteppi sem hún hafði saumað og náði veggjanna á milli í stóru stofunni.

Seinna þegar ég vann í kaupfélaginu kom hún stundum út í kaupfélag á inniskónum og með sokkana upprúllaða um öklana. Eitt sinn bauð hún okkur Bjarna Sigurðssyni að smakka á hrosshaus sem hún sagðist vera að sjóða en við vildum ekki þiggja það.

Árný var dálítið smámælt. Sagt var að hún hafi einhverju sinni hringt til Magdalenu handavinnukennara og sagt við hana: „Er þikkþakk á þinni? Það er nefnilega ekkert þikkþakk á minni." Þarna var hún að sjálfsögðu að spyrja hvort zikkzakk væri á hennar saumavél.

Árný byggði sér íbúðarhús austarlega í þorpinu. Var það mikið hús og vandað. Ekki man ég hvort hún flutti nokkurn tíma í það en Árnýjarhús var það jafnan kallað. Ingibjörg systir mín og Hörður Vignir Sigurðsson maðurinn hennar bjuggu þar eitt sinn um tíma. Þar fæddist Bjarni Harðarson systursonur minn og fyrrverandi Alþingismaður. Það var Hulda á Mel sem tók á móti honum.

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Rúnar Sæmundsson

Það er akkurat það. Þetta var gaman að lesa. Haf þökk fyrir.

Sigurður Rúnar Sæmundsson, 28.3.2009 kl. 19:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband